Viðtal Morgunblaðsins við Friðrik Ólafsson 6. mars 1988.
Skákáhugi Íslendinga hefur lengi verið skákmönnum annara þjóða undrunar- og jafnvel öfundarefni. Eftir einvígið við Viktor Kortsjnoj í St. John í Kanada á dögunum er Jóhann Hjartarson orðinn óskabarn íslensku þjóðarinnar og skákáhuginn tók enn eitt stökk upp á við og var hann þó ærinn fyrir.
Afrek Jóhanns er óumdeilt en um leið aðeins einn áfanginn á sigurgöngu íslenskra skákmanna. Og sá skákmaður sem helst hefur rutt brautina er Friðrik Ólafsson, skrifstofustíóri Alþingis, og á sínum tíma áttu Islendingar í honum hvert bein, ekki síður en Jóhanni nú.
Morgunblaðinu þótti vel við hæfi að ræða við Friðrik á þessum tímamótum í skáksögu Íslendinga og rifja upp viðburðaríkan feril hans. Ekki hvað síst vegna þess að margt er líkt með skákferli Friðriks og Jóhanns. Þeir voru á svipuðum aldri þegar þeir unnu sín fyrstu alþjóðamót, urðu stórmeistarar og komust loks áfram í áskorendakeppni eftir millisvæðamót auk þess hefur Viktor Kortsjnoj komið mjög við sögu beggja. Báðir völdu síðan lögfræði sem námsgrein í háskóla.
Friðrik er fæddur í Reykjavík 27. janúar 1935, sonur Ólafs Friðrikssonar verslunarmanns og Sigríðar Símonardóttur húsmóður. Hann segist hafa fengið skákbakteríuna ungur, og hafa smitast af föður sínum sem var prýðilegur skákmaður.
„Ég er sjálfmenntaður skákmaður þótt mér hafi verið kenndur manngangurinn,“ sagði Friðrik, „og þegar ég var að alast upp sem skákmaður gat það tekið marga mánuði að fá upplýsingar og efni frá skákmótum erlendis. Bækur um skák fyrirfundust varla. Það komu stundum enskar skákbækur í Bókabúð Sigurðar Kristjánssonar og ég var þar eins og grár köttur og vaktaði bókstaflega búðina.
Ég var svo heppinn, að frændi minn einn var á millilandaskipi sem var á stöðugum ferðum til Bandaríkjanna. Hann keypti fyrir mig allt um skák sem hann kom höndum yfír. Þetta var samt engan veginn tæmandi og það henti iðulega að ég var búinn að undirbúa mig lengi fyrir eitthvert mótið erlendis en svo komu andstæðingarnir með allskonar nýja leiki sem ég vissi ekkert um. Eftir skákirnar spurðu þeir hvort ég þekkti ekki þessa skák eða hitt afbrigðið? Svona var nú einangrunin.“
Þótti of ungur
Friðrik var ekki hár í loftinu þegar hann fór að reyna sig við aðra skákmenn og 11 ára gamall skráði hann sig í mót hjá Taflfélagi Reykjavíkur.
„Það varð. heilmikil reikistefna um hvort ég ætti að fá að vera með, vegna þess að ég var svo mikið yngri en allir aðrir og sumir töldu að ég hefði alls ekki gott af því. Þeir yngstu semþá tefldu í mótum voru á menntaskólaaldri. Það var til dæmis nokkuð sterkur árgangur sem útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1949.
Steingrímur Hermannsson núverandi utanríkisráðherra var einn þeirra. Hann var formaður taflfélagsins í skólanum og sagði mér reyndar frá því nú á dögunum að hann hefði orðið efstur í 2. flokki hjá Taflfélagi Reykjavíkur 1947 og sagðist oft státa sig af því að hafa orðið fyrir ofan mig í móti.
Í sama bekk voru Guðmundur Pálmason og fleiri ágætir skákmenn. Hér var talsverð gróska í skáklífi þegar ég var að byrja. Ég fann fyrir stuttu blaðaúrklippur sem faðir minn safnaði á þessum tíma og þar er til dæmis ein sem segir frá því að Baldur Möller hafi teflt fjöltefli og síðasta skákin hafi verið við 11 ára dreng, Friðrik Ólafsson. Þeir hafi verið orðnir einir eftir og skákin stóð í 66 leiki áður en Baldur vann loks.
Baldur var virkur lengi og sterkur skákmaður eins og Ásmundur Ásgeirsson, Guðmundur S. Guðmundsson og fleiri. Hinsvegar var ekki mikið um að menn tækju þátt í mótum erlendis, það komu engin boð um slíkt. Þó voru frá þessu vissar undantekningar. Guðmundur S. Guðmundsson hafði náð góðum árangri í Hastings 1947 og Baldur Möller varð Norðurlandameistari 1948.
Úr því að ég minnist á Baldur get ég sagt frá hans skoðun í þessum efnum. Hann telur að seinni heimsstyrjöldin marki tímamót í íslenskri skáksögu og með lýðveldisstofnuninni vakni Íslendingar til athafna og dáða, þar með einnig í skákinni. Þetta er athyglisverð kenning og við nánari athugun held ég að Baldur hafi mikið til síns máls.
Ólympíuskákmótin voru þó í rauninni einu mótin sem Íslendingar gátu teflt í erlendis og þar stóðu þeir sig stundum vel, eins og í Buenos Aires 1939. En það má segja að íslenskir skákmenn hafi haft vissa minnimáttarkennd, sem var kannski eðlileg. Þeir trúðu því ekki að Íslendingur gæti látið að sér kveða og ég heyrði ýmsa skákmenn segja sem svo: þeir eru svo góðir þessir útlendingar að það þýðir ekki að tefla við þá! Þvi kom það svolítið á óvart þegar ég fór að sýna fram á annað.“
Með togara á skákmót
Fyrsta mótið sem ég tók þátt í erlendis var í Englandi árið 1950. Þetta var alþjóðlegt unglingamót, það fyrsta sinnar tegundar, og það voru engir peningar til fararinnar svo ég var sendur út með togaranum Agli Skallagrímssyni Ég var nær dauða en lífi vegna sjóveiki á leiðinni þótt ég hresstist fljótt þegar ég kom í land.
Við tókum land í Grimsby og þaðan þurfti ég að fara með lest til Birmingham þar sem mótið var. Ég hafði aldrei farið utan áður, enskukunnáttan var ekki upp á márga fiska á þessum tíma og ég kunni auðvitað ekkert á lestarkerfið. Ég fékk því bréf með mér til vonar og vara, þar sem beðið var um að veita mér aðstoð til að komast til Birmingham.
Ég var, minnir mig, lang yngstur keppendanna en miðað var við 20 ár. Ég varð í 4. sæti á mótinu en sá sem sigraði var 19 ára. Ég veit ekki til að aðrir skákmenn, sem tóku þátt í þessu móti, hafi orðið þekktir en fyrir mér var þetta opinberun. Þetta sýnir nokkuð hvernig aðstæður voru á þessum árum. Það þótti nýnæmi að senda menn út til keppni, sérstaklega svona unga.“
Ekki mátti orða peninga við skák
Friðrik sjóaðist fljótlega í skákferðum og árið 1955 sló hann fyrst í gegn, efsvo má segja, þegar hann vann öflugt skákmót í Hastings á Englandi ásamt öðrum ungum manni, Viktor Kortsjnoj, en þá lágu leiðir þeirra fyrst saman. Friðrik varð síðan atvinnumaður í skák rúmlega tvítugur en hann viðurkennir að það hafi ekki verið dans á rósum, þegar hann var að vinna sér frama og frægð, þótt hann hafi fengið mörg boð á skákmót, ekki síst eftir að hann fékk stórmeistaratitilinn 1958.
„Þá voru viðhorfm þannig að skákin væri fyrst og fremst tómstundaíþrótt, að vísu göfug íþrótt og nánast hugsjón sem ekki ætti að orða við peninga og menn ættu ekki að gera að atvinnu sinni. Ég man að stundum þegar ég óskaði eftir greiðslu fyrir að tefla fjöltefli urðu menn undrandi. Skákmenn áttu aðeins að lifa á hugsjóninni og loftinu.
Annað sem gerði manni erfitt fyrir var ónæðið í kringum skákina í þá daga. Menn gerðu sér ekki næga grein fyrir að á sterkum mótum var nauðsynlegt að fá að hafa næði og vera laus við ágang. Ég get tekið sem dæmi einvígi mitt í Reykjavík við Bent Larsen um Norðurlandameistaratitilinn árið 1956.
Þar var ég fulltrúi íslensku þjóðarinnar sem var að gera upp sakir við Dani fyrir allt misréttið sem hún þurfti að þola gegnum aldirnar og þá var enginn friður fyrir velviljuðum mönnum sem hringdu og hvöttu mig til dáða. Ég man að ég flúði einu sinni upp í skíðaskála til að losna undan ásókninni; ég átti afmæli þann dag og stakk af.
Einvígið fór fram í Sjómannaskólanum og þangað komust ekki nándar nærri allir inn sem vildu, heldur stóð múgur og margmenni fyrir utan húsið og reyndi að kíkja á gluggana. Larsen vann mig naumlega en ég hygg að öðru vísi hefði getað farið ef ég hefði búið við sömu aðstöðu og skákmeistarar í dag.“
Í nánd við heimsmeistaratitilinn
Ári síðar, eða 1957, tók Friðrik þátt í svæðamóti í Hollandi, fyrsta áfanganum í keppninni um heimsmeistaratitilinn. Kerfið var ekki ósvipað og nú er, nema hvað svæðamótin voru mun færri en nú og svæðin stærri og síðan var aðeins eitt millisvæðamót í stað þriggja nú.
Sex efstu keppendur á millisvæðamótinu, tefldu loks sérstakt áskorendamót ásamt þeim sem tapað hafði síðasta heimsmeistaraeinvígi og þeim sem varð í 2. sæti á síðasta áskorendamóti. Sigurvegarinn í áskorendamótinu fékk svo rétt til að skora á ríkjandi heimsmeistara í einvígi.
Skákmenn frá allri Evrópu nema Sovétríkjunum kepptu í svæðamótinu í Hollandi sem var geysilega sterkt, að minnsta kosti 10 stórmeistarar voru meðal keppenda. Þrír efstu komust á millisvæðamótið og úrslitin urðu þau að Ungverjinn Szabo varð í fyrsta sæti, Friðrik varð í öðru sæti og Bent Larsen í því þriðja.
Á millisvæðamótinu árið eftir voru 20 keppendur og 6 efstu komust áfram í áskorendakeppnina ásamt Smyslov og Keres sem unnu sér rétt í síðustu áskorendakeppni. Millisvæðamótið var haldið í Portoroz í Júgóslavíu og úrslitin urðu þau að Míkhaíl Tal varð efstur, síðan Tigran Petrojsan, Benkö, Svetozar Gligoric, og Friðrik og Bobby Fischer, sem þá var að koma fram á sjónarsviðið, urðu jafnir í 5.-6. sæti.
Sterkir skákmenn eins og David Bronstein, sem sennilega var einn besti skákmaður heims á þessum tíma, Averbak, Szabo, Larsen og fleiri urðu að láta sér lynda lægri sæti. Í áskorendakeppninni, sem þá tók við, tefldu þessir átta skákmenn fjórar umferðir, eða fjórar skákir við hvern andstæðing.
Mótið var haldið árið 1959 í þremur borgum í Júgóslavíu og tók tæpa þrjá mánuði. Tvær fyrstu umferðirnar voru í Bled, þriðja umferðin var í Zagreb og lokaumferðin í Belgrad.
Viðbrögð Ólafs Thors
„Skáksambandið átti enga peninga til að standa straum af þátttöku minni í mótinu, og hvað þá að kosta aðstoðarmann,“ sagði Friðrik. „En þá tók einhver sig til og hringdi í Ólaf Thors og sagði að það væri engin hemja að íslenskur skákmaður væri kominn í námunda við heimsmeistaratitilinn en engir peningar væru til að senda hann utan til keppni.
Ólafur var sjálfur skákáhugamaður, var m.a. eitt sinn formaður Taflfélags Reykjavíkur. Honum brá svolítið við þessar fréttir og hringdi í mig og spurði hvernig best væri að haga þessu. Ég sagðist vera orðinn þreyttur á snöpum hjá almenningi og því kæmi mér mun betur að fá fjárveitingu eða styrk frá ríkinu.
Ólafur sló þessu upp í grín og mér er alltaf minnisstætt, hvað hann sagði: Ef það er hægt að senda mann og kosta undir hann alla leið til Ástralíu, til þess eins að hoppa þar eins og kengúra þá hlýtur að vera hægt að bjarga þessu máli. Þarna var Ólafur vitanlega með sínum græskulausa hætti að vitna til Vilhjálms Einarssonar, sem vann sitt mesta afrek á Ólympíuleikunum í Melbourne.
Þessir peningar komu svo og ég fékk Inga R. Jóhannsson með mér. Hann var góður aðstoðarmaður en tíminn var orðinn of skammur og ég hafði enga aðstöðu haft til að ráða mér mann til að vinna með mér fyrir mótið. Ég gerði mér einnig grein fyrir því, þegar ég mætti þarna til leiks, að ég var alls ekki nægilega vel undirbúinn.
Ég hafði ekki haft aðstöðu til að fylgjast með því sem var að gerast í skákheiminum og afla mér nýlegra gagna. Það háði mér mikið að geta ekki fengið tímarit eða mótsblöð og aflað mér þannig nýjustu upplýsinga um þróun skákbyrjana og rannsókna. Í einni skákinni við Tal, hélt ég að ég væri að tefla viðurkennda teoríu, en í skákmóti fáum vikum fyrr hafði komið í ljós veikleiki.
Því var búið að endurbæta byrjunina og þetta vissi Tal auðvitað. Ég var alltaf dálítið slæmur með að lenda í tímahraki og það batnaði ekki við að vera óöruggur í byrjununum. Á mótinu reyndi ég frekar að sveigja frá þekktum leið-um en það beit lítið á andstæðingana, sem voru sterkustu skákmenn heims.
Ég náði mér raunar aldrei á strik fyrr en í síðustu lotunni og endaði loks í 7. sæti en Tal vann keppnina og vann síðan Botvinnik árið eftir í einvígi um heimsmeistaratitilinn. Tímahrakið var gamall fylgifiskur sem kom held ég upp vegna þess að í byrjun hafði ég fáar bækur til að lesa mér til í.
Ég þurfti alltaf að vinna byrjanirnar upp sjálfur og síðan komst það upp í vana að hugsa mikið í byrjunininni.“
Vonlaus undirbúningur
„Ég varð auðvitað fyrir nokkrum vonbrigðum með frammistöðuna á áskorendamótinu en ég lærði gríðarlega mikið sem kom mér að haldi síðar,“ sagði Friðrik. „Ég gerði mér fyllilega ljóst að minn undirbúningur var alveg vonlaus; ég hefði í raun þurft að undirbúa mig með þjálfara í hálft ár fyrir mótið. En aðalókosturinn var þó þetta sambandsleysi og þar var greinilegastur aðstöðumunurinn á milli mín og til dæmis Rússanna.
Ég held að að menn nú á dögum skilji varla hvílíka yfirburði Sovétmenn höfðu með allt sem til þurfti, aðstöðu, æfingar, bækur og gögn og hersveitir aðstoðarmanna. Nú er þetta orðið svo almennt að Sovétmenn hafa misst mikið af þessum yfirburðum.“
Vann sama mótið tvisvar!
Friðrik tók aftur þátt í svæðamóti í árið 1960 og vann það, raunar tvisvar því fyrra mótið, sem var í Hollandi, var dæmt ógilt. Þá var kalda stríðið í algleymingi. Austur-þýski skákmeistarinn Uhlmann átti að keppa á svæðamótinu en þegar til kom var honum ekki hleypt inn í landið vegna þess að hann hafði ekki tilskylda áritun.
Keppendur frá Austur-Evrópu hættu þá þátttöku í mótmælaskyni en mótið var samt haldið og Friðrik vann örugglega. Eftir þrýsting frá austurblokkinni var mótið dæmt ógilt og það haldið aftur í Tékkóslóvakíu og þá vann Friðrik aftur.
Honum gekk ekki eins vel á millisvæðamótinu árið eftir og sagði þá skýringu ekki óhugsandi að mótið hafi verið haldið rétt áður en hann gifti sig, og því hafi hugurinn sennilega verið annars staðar.
Friðrik hóf nám í lögfræði 1962 og þá fór þátttaka í skákmótum að verða stopulli. Hann keppti þó t.d. á mjög sterku stórmeistaramóti í Los Angeles 1963 þar sem hann varð í 3. sæti á eftir Keres og Petrojsan. Einnig tók hann þátt í Reykjavíkurskákmótunum og gekk vel, varð í 3. sæti 1964 eftir Tal og Gligoric og vann 1966.
Og daginn eftir að Friðrik lauk lögfræðináminu var hann sestur við skákborðið í Reykjavíkurskákmótinu 1968 þar sem hann varð i 3. sæti eftir sovésku stórmeisturunum Vasjukov og Tæmanov.
Egnt fyrir Spasskíj
Á þessum árum voru Íslendingar óðum að festa sig í sessi sem mikil skákþjóð og voru orðnir svo stöndugir að þeir töldu sig geta haldið heimsmeistaraeinvígi hér á landi. Friðrik minntist þess að árið 1971 var hann sendur út af örkinni og látinn tefla í skákmóti í Moskvu, aðallega til að „egna“ fyrir heimsmeistarann Boris Spasskíj.
„Ég var búinn að þekkjast boð um að tefla á sterku móti á Mallorka þegar þetta kom upp, og Mallorkabúar urðu mjög reiðir yfir að ég skyldi hætta svona við. Mig langaði í rauninni ekki til Moskvu, sérstaklega ekki á þessum tíma rétt fyrir jólin. En ég átti þarna gagnlegar viðræður við Spasskíj sem ég held að hafi ekki skaðað, að minnsta kosti var Spasskíj mjög stífur á að einvígið við Fischser yrði í Reykjavík þegar þar að kom.“
Friðrik fór smátt og smátt að auka taflmennskuna og nokkrum árum seinna gerði hann skákina aftur að aðalatvinnu sinni þar til hann var kjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, árið 1978. Þegar hann var spurður um ástæður þess að hann bauð sig fram í embættið sagði hann að sterkari skákmennirnir hefðu verið að bræða það með sér að breyta og betrumbæta aðstöðu skákmanna, bæði varðandi kjör og aðbúnað á mótum.
„Dr. Max Euwe þáverandi forseti nefndi þetta við mig og spurði hvort ég vildi gefa kost á mér í embættið. Hann spurði reyndar Svetozar Gligoric sömu spurningar en ég vissi það ekki fyrr en seinna. Mér fannst að ég gæti komið einhverju góðu til leiðar í forsetaembættinu og það hefur sennilega gert útslagið.“
Friðrik tók við forsetaembættinu mánuði eftir að „einvígi hatursins“, heimsmeistaraeinvígi Anatolíjs Karpovs og Viktors Kortsjnojs fór fram í Baguio á Filippseyjum. Kortsjnoj flúði land tveimur árum áður, eftir að hafa teflt á móti í Amsterdam þar sem Friðrik var einnig meðal þátttakenda.
Fjölskylda Kortsjnojs varð eftir í Sov- étríkjunum og heimsmeistaraeinvígið í Baguio snérist öðrum þræði upp í baráttu hans fyrir að fá Bellu konu sína og Igor son sinn til Vesturlanda. Friðrik blandaðist fljótt inn í þessa baráttu sem forseti FIDE.
Óvæntur arfur
„Ég fékk í arf í embættinu ýmsa hluti sem mig óraði ekki fyrir og þurfti að vinna að öllum tímum, í stað þess að vinna að verðugri málum. Kortsjnoj hafði fengið nánast allan hinn vestræna heim á sveif með sér og málið var þannig fram sett að það hlaut að falla á herðar FIDE að fínna lausn.
Ég reyndi mikið að fá fararleyfi fyrir fólkið fyrir næsta heimsmeistaraeinvígi milli Kortsjnojs og Karpovs, sem átti að fara fram í Merano á ítalíu 1981. Ég fór þannig til Moskvu snemma á því ári til að láta Sovétmenn vita að afstaða þeirra væri mjög óskynsamleg og ég gaf í skyn að ef ekki fengist frá þeim einhver viðbrög yrði ég að grípa til ráðstafana.
Sovéska skáksambandið bar því við að það gæti ekkert gert, það hefði enga lögsögu í þessu máli. Yfirmaður þessara mála í Sovétríkjunum sagði mér að Kortsjnoj væri landráðamaður og slíkir menn fengju ekki fjölskyldu sína út úr Sovétríkjunum. Sovétmenn sögðust að vísu ekkert gagn hafa af þessu fólki en með því að hleypa því út úr landinu væru þeir að gefa ákveðið fordæmi.
Menn þarna höfðu það iíka í flimtingum að það versta sem þeir gætu gert Kortsjnoj væri að sleppa konu hans og syni. Ég spurði á móti hvers vegna í ósköpunum þeir gerðu það þá ekki. Ég benti einnig á að það væri mjög óþægilegt fyrir Karpov að tefla við þessar aðstæður.
Það væri vísvitandi verið að leggja á hann mjög óþægilegan klafa og honum væri legið það á hálsi að reyna ekki að leysa þessi mál. Til að gera málið enn erfiðara voru Sovétmenn ekki sáttir við Merano sem einvígisstað og það gekk því á ýmsu. En þegar ljóst var að ekkert myndi gerast greip ég til þess ráðs að fresta einvíginu um óákveðinn tíma, á þeim forsendum að keppendur sætu ekki við sama borð.
Fjölskyldu annars þeirra væri haldið og stjórnvöld í Sovétríkjunum hefðu í hendi sér að leysa málið. Þetta var mikil ögrun við Sovétmenn og þeir sýndu harkaleg viðbrögð. Florencio Campomanes, sem var þá varaforseti FIDE, gaf einnig út yfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir undrun sinni vegna frestunarinnar.
Ég gerði mér ljóst að þetta gat orðið mér að falli en ég var búinn að bíta það í mig að leysa málið. Sovétmenn gáfu sig reyndar við þetta og sendu mér hátíðlega yfirlýsingu þess efnis að Bella og Igor fengu að fara úr landi. Einvígið var því haldið í Merano á tilsettum tíma og Kortsjnoj tapaði með talsverðum mun.
Mæðginunum var þó ekki sleppt fyrr en einvíginu var lokið en Kortsjnoj tók svo ekki einu sinni á móti þeim þegar þau komu vestur; hann var að tefla fjöltefli í Frakklandi og sagðist bundinn samningi þar um. Stuttu síðar voru þau skilin, en það kom mér ekki á óvart. Bella Kortsjnoj hafði sjálf sagt mér í Moskvu að hún vissi að hverju hún gengi, sem sagt ekki að manni sínum. Hún vildi samt komast úr landi með son sinn, því fjölskyldur þeirra sem flýja land eiga ekki sjö dagana sæla.“
Þegar Friðrik var spurður hvort eitthvað væri til í þeirri staðhæfingu að það versta sem hægt hefði verið að gera Kortjsnoj var að sleppa fólki hans, sagðist hann ekkert vilja um það fullyrða.
„Ég fékk þó oft á tilfinninguna á meðan ég var að vasast í þessu, að honum væri ekkert um það gefið þrátt fyrir allt og oft gaf hann út yfirlýsingar um að ég væri ekkert að vinna í málinu, nennti ekkert að gera og gæti ekkert. Yfirleitt valdi hann viðkvæm augnablik til að skella svona á mig. Einu sinni kom hann t. d. til Íslands og lét gamminn geysa um hvað ég væri lítils nýtur. Á sama tíma var ég í Moskvu að reyna til þrautar.
Mér fannst þetta lúalegt, en skil samt að hann notaði ástandið sér til framdráttar, þreifst á því að vera hinn píndi. En þetta mál var Sovétmönnum einnig mjög erfitt því að þeir þurftu að fara eftir lögum, sem eru ómannúðleg og ósveigjanleg.“
Ferðin til St. John með ráðum gerð
Friðrik og Kortsjnoj háðu aðra viðureign, ef svo má segja, meðan á einvígi Jóhanns Hjartarsonar og Kortsjnojs stóð. Friðrik var formaður íslensku sendinefndarinnar í St. John og hann viðurkenndi að vera hans í St. John hafi verip með ráðum gerð, vegna þess að Íslendingar vissu að þeir gætu átt von á ýmsu og Friðrik var talinn hafa besta reynslu til að eiga við Kortsjnoj utan borðsins ef til þess kæmi.
„Ég býst við að Kortsjnoj hafi orðið frekar undrandi þegar hann sá mig í St. John þar sem lítið hefur farið fyrir mér í skákheiminum síðustu árin. En framan af var í alla staði fyllstu kurteisi gætt, hann bauð góðan daginn og ræddi jafnvel lítillega við okkur. En um leið og fór að halla undan hjá honum varð andrúmsloftið nístingskalt.
Yfirlýsingar hans eftir einvígið, að ég hefði unnið það, að Jóhann ætti margt eftir ólært og sigur hans hefði nánast verið heppni, einnig að sér hefði verið bannað að reykja, eiga ekkert skylt við raunveruleikann og sýna bara að úrslitin urðu mikið áfall fyrir Kortsjnoj.
Vissulega á Jóhann ýmislegt ólært enda ungur og á uppleið, en hann sigraði að verðleikum. Svo var Kortsjnoj alls ekki bannað að reykja, hann var einfaldlega beðinn um að gera það annars staðar en uppi í vitum mótherja síns.
Skákeinvígi bjóða upþ á taugastríð og einstakir skákmenn hafa oft verið mótherjum sínir erfiðir af því að þeir hafa ekki sýnt tillitssemi. Það hefur alltaf verið tilhneiging til að láta svona lagað átölulaust því að það hefur ekki þótt verjandi að gera athugasemdir við eðli viðkomandi keppanda á þeim forsendum að þeir ráði sennilega ekkert við þetta.
En það er ekki sanngjarnt gagnvart hinum, og þeir eru miklu fleiri, sem haga sér af tillitsemi og kurteisi gagnvart mótherjum sínum. Kröfur okkar Íslendinganna í St. John voru raunhæfar og sanngjarnar og ástæðan fyrir því að Gligoric, sem var yfirdómari, var tvístígandi er það viðhorf að það sé ekki heppilegt að ávíta menn fyrir eitthvað sem er þeim eðlislægt.
Aftur á móti var það Campomanes örugglega sársaukalaust að standa með okkur í þessu máli, því hann var mótshaldarinn i Baguio um árið og þar af leiðandi sá maður sem mátti þola stóran hluta árása og ásakana Kortsnois í því fræga einvígi. Það að við skyldum gerast svona samhentir á sér því sínar skýringar og það má segja að hvorugur okkar hafi haft neitt samviskubit út af því.“
Campomanes á atkvæðaveiðum
Friðrik og Campomanes elduðu lengi saman grátt silfur á meðan þeir voru saman í stjórn FIDE og einnig þegar Campomanes bauð sig fram gegn Friðrik til forseta árið 1982. Friðrik sagði að mikið hafi gengið á þegar Campomanes var að afla sér stuðnings í forsetaembættið.
„Þau atkvæði sem hann gat keypt, keypti hann og þau atkvæði sem hann gat nælt í með öðrum leiðum, nældi hann í með öðrum leiðum. Hann þurfti ekki endilega að vera með svo mikið peningaveldi á bak við sig. Hann gat náð fjölda atkvæða með því t. d. að lofa einhverju fögru, eins og t. d. að einangra Ísrael, sem ég var alltaf á móti. En þannig voru atkvæði líklegra flestra þjóða Araba og Afríku tryggð. Og þegar hann var að sverma fyrir fulltrúum þriðja heimsins gerði hann Evrópumenn óspart að grýlum.
Það kom síðan í ljós að einvígisfrestunin árið áður var of stór biti fyrir Sovétríkin að kyngja. Þeir gátu ekki fyrirgefið mér þetta og austurblokkin snérist á móti mér við forsetakjörið í Luzern 1982 sem varð svo endanlega til þess að Campomanes var kjörinn.“
Á þessum tíma var talið að Marcos forseti Filipseyja stæði á bakvið Campomanes og Friðrik sagði að samband þeirra hefði að minnsta kosti verið meira heldur en Campomanes vildi vera láta.
„Campomanes var forseti Skáksambands Filipseyja og svæðisforseti FIDE í Asíu og Marcos hlúði vel að honum. Ég held að það hafí ekki endilega verið með þeim hætti að Marcos hafi sent honum óslitinn straum ávísana, heldur miklu fremur hafi stuðningur hans verið með þeim hætti að ef Campomanes skorti eitthvað, þá lét hann þess getið við Marcos, eða lét það berast til hans. Síðan hafi Marcos látið þess getið við eitthvert risafyrirtækið að sér væri það ekki á móti skapi að það veitti Campomanes stuðning.“
Þegar Friðrik var spurður hvort þetta hefði stapp hefði ekki verið spennandi og skemmtilegt á köflum, þrátt fyrir allt, sagðist hann stundum hugsa til þess að hann hefði getað varið tímanum betur. Hinu væri ekki að leyna að þetta hefði auðvitað verið ómetanleg lífsreynsla og margs skemmtilegs væri að minnast.
Vænn skerfur til skákgyðjunnar
Þótt Friðrik tefli varla opinberlega lengur, nema á Útvegsbankamótunum um jólin þar sem hann er ávallt í verðlaunasæti, fylgist hann vel með skáknýjungum og þeir sem til þekkja segja að hann hafi litlu gleymt. Vaknar ekki oft löngunin til að tefla aftur,
sérstaklega nú eftir veruna í Kanada þar sem hann andaði að sér skákandrúmsloftinu í tæpan mánuð?
„Auðvitað klæjar mig stundum í lófana eftir að tefla en ég verð að vera raunsær; það þýðir ekkert að blekkja sjálfan sig. Ég tel mig búinn að leggja fram vænan skerf til skákgyðjunnar og þótt ég gæti sjálfsagt náð sæmilegum styrkleika með markvissri þjálfun í einhverja mánuði er spurningin: að hvaða markmiði væri ég að sækja.
En það er aftur á móti ánægjulegt að geta veitt ungu mönnunum liðveislu eins og ég hef þekkingu og reynslu til. Það er allt annað mál,“ sagði Friðrik Ólafsson.