1953: Friðrik Ólafsson Norðurlandameistari skrifar í Skólablað MR

Friðrik Ólafsson skrifaði þessa grein í Skólablað Menntaskólans í Reykjavík, 29. árgang 1953.

Skákíþróttin er, sem kunnugt er, ævagömul. Hún er talin vera upprunnin á Indlandi löngu fyrir Krists burð, og þaðan mun hún hafa breiðzt, hægt og sígandi, um heim allan, t. d. munu Persar og fornþjóðir við Miðjarðarhaf snemma hafa haft kynni af skákinni og ýtt undir frekari útbreiðslu hennar, er á leið.

Eins og vænta má, hefur skákin tekið miklum stakkaskiptum í meðförum ýmissa þjóða, en allar hafa þær endurbætur og breytingar, sem á henni hafa verið gerðar, miðað í þá átt að fullkomna og gera hana djúptækari. Reynslan hefur í þessum efnum sem öðrum lagt til stærstan skerf.

Skákin, eins og hún er nú, er byggð á reynslu hinna síðustu áratuga, reynslu, sem hefur verið varðveitt í bókum, enda er nú svo komið, að skákin er mestmegnis bókalærdómur, eða með öðrum orðum, bókþekkingin er undirstaðan, en æfingin er að sjálfsögðu hinn skapandi máttur.

Nú á dögum getur enginn talizt góður skákmaður, nema hann, sé sæmilega vel að sér í skákfræðum, og þeir, sem hafa gert skákina að atvinnu sinni, verða að vera vel á verði gagnvart öllum nýjungum, sem fram kunna að koma. Ekkert má fara fram hjá þeim, gengi þeirra og lífsafkoma er undir því komið, eins og liggur í augum uppi. Þrátt fyrir allan þennan bóklega lærdóm myndar hver einstakur skákmaður sér sérstakan stíl, sem mótast af skapgerð hans og hugsanagangi.

Unnt er að þekkja teflendur skákar á stíl þeirra án þess að vita fyrirfram, hverjir hafa teflt skákina. Til er sönn saga um Dr. E. Lasker sem var heimsmeistari á árunum 1894-1921, og virðist hún sanna þetta. Eins og fleiri frægir skákmeistarar hafði Lasker stundum gaman af að skjóta upp kollinum sem óþekktur maður í einhverjum skákklúbb og veita ,,meistara“ þess félagsskapar harða ráðningu. Ekki tókst Lasker þó alltaf að dyljast, eins og eftirfarandi saga sýnir:

Í einum þessara leiðangra sinna tefldi Lasker við allsterkan skákmann, sem var blindur. Þegar Lasker hafði eitt sinn leikið nokkra sérstaklega sterka leiki, rétti blindi maðurinn sig upp í sætinu og sagði brosandi: ,,Ó, dr. Lasker, ekki  satt?“

Enda þótt skákin virðist í eðli sínu leiðinleg, hefur hún margt það til að bera, sem getur rifið skákmanninn, eins og tónlistin heillar tónlistarunnandann og málverkin heilla listvininn. Hún hlítir að sjálfsögðu sínum lögmálum eins og allt annað, en hún er ótæmandi af möguleikum og verður ekki krufin til mergjar án mikillar íhugunar. Oftast má líkja henni við sérstæða rökfræði.

Rökfræði í skák liggur beint fyrir en umráðasvæði hennar er geysimikið. Við skulum hugsa okkur að tveir menn, A og B sætu að tafli og A ætti leik. Hann hefur í huga. ákveðinn leik, sem færir honum sigur, ef hann heppnast, en annars tap. Hann vill því kryfja málið til mergjar, og eftir nokkra athugun sér hann, að B getur svarað leiknum á t. d. 10 mismunandi vegu, eða með öðrum orðum leikurinn leiðir af sér 10 möguleika. En þar með eru ekki öll kurl kominn til grafar.

Eftir 1. leik í hverjum möguleika gætu komið fram tvær eða fleiri nýjar leiðir og þessar nýju leiðir geta falið í sér nýja möguleika. Í slíkum tilfellum kemur skákmanninum til hjálpar meðþjálfaður eiginleiki, sem nefnist stöðuskynjun. Fyrri reynsla hans í slíkum efnum gerir honum kleift að skynja, hvernig fara muni, þótt hann sjái það ekki beint fyrir.

Ekki ber þó að skilja þetta á þann veg, að skákin sé alltaf svo erfið, heldur er þetta dæmi til þess að sýna, hve umfangsmikil hún getur verið.

Að endingu vil ég svo vona að framangreind atriði hafi veitt mönnum nokkra nasasjón af, hvað skákin er í raun og veru og læt hér staðar numið.

 

Merki: