1960: Túlipaninn Friðrik Ólafsson

Túlipaninn Friðrik Ólafsson

 

Birtist í Morgunblaðinu 11. desember 1960.

Friðrik var í jólaskapi þegar við hittum hann í gær. Nýkominn heim, mamma hans að byrja jólabaksturinn og jafnvel farin að hugsa fyrir hangikjötinu. Sjálfur ætlaði hann að gera sitt — og var einmitt á leið til rakarans. Hafði ekki látið klippa sig síðan hann var heima síðast.

„Annars er ég enginn sérstakur matmaður, eins og e. t. v. má sjá á mér“, sagði hann og brosti. „Samt þykir mér jólahangikjötið alltaf gott — og auðvitað steikin líka, ef rauðkálið er gott. Verst er, að hér er sjaldan hægt að fá góða kjúklinga. Yfirleitt eru þeir seigir og erfiðir viðureignar, enda þótt dauðir séu.“

En hvað um fiskinn?

„Ég er ósköp lítið fyrir fisk, nema þá helzt harðfisk. Ekki neita ég því samt, að smálúða og koli geta bragðazt mjög vel — a. m. k. hjá mömmu. — En úr því að þú minnist á matinn. Ég vildi gjarnan fá sterkan bjór með jólahangikjötinu. Deilurnar um bjórinn virðast enn orðnar heitar. Væri ekki hægt að selja hann í áfengisverzluninni, eins og önnur vínföng. Þá ættu unglingarnir ekki að ná í hann, ef menn óttast það helzt. Því skyldi fullorðnum Íslendingum vera bjórinn hættulegri en nágrannaþjóðum okkar?“

„Annars getur svo sem vel verið, að ég missi af hangikjötinu að þessu sinni. Það er í ráði, að ég fari til Hollands fyrir jólin og verði þar tvær til þrjár vikur, tefli fjöltefli á vegum hollenzka skáksambandsins — víðsvegar um landið. Þetta er ekki endanlega ákveðið, en ekki ólíklegt.“

Þú kannt vel við þig í Hollandi?

„Já, ég felli mig vel við Hollendinga — og mér hefur líka alltaf gengið vel þar. Ég á þar marga góða kunningja, sem gaman er að heimsækja.“

Einhver sagði okkur að mikill túlipanaframleiðandi, hefði skýrt eina túlipanategund í höfuðið á þér!

„Já, það er víst alveg rétt“, svaraði Friðrik og hló. „Það var í fyrra — og hann hefur einu sinni sent mér „Friðrik Ólafsson“, eins og hann kallar þessa tegund túlipana“ — og Friðrik hló enn.

„Þeir eru dimmrauðir, ákaflega fallegir, eins og þú getur ímyndað þér. Annars er ég enginn sérstakur blómakarl, svo að ég held að þetta stigi mér ekkert til höfuðs.“

En þetta auðveldar þér valið, þegar þú þarft að gefa ungmeyjunum blóm.

„Ha?“

Merki: