2003: Friðrik leggur Larsen í einvígi

Árið 2003 skipulagði Hrókurinn átta skák einvígi milli fornvinanna og keppinautanna Friðriks Ólafssonar og Bents Larsens. Þeir tefldu 8 atskákir á Hótel Loftleiðum og lauk einvíginu með öruggum sigri Friðriks, 5-3. Af því tilefni tók Freysteinn Jóhannsson, blaðamaður Morgunblaðsins, viðtal við kempurnar þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar. Viðtalið birtist í Mbl. 11. nóvember 2003:

Einvígið sem öll þjóðin fylgist með, sagði Morgunblaðið um skákeinvígi Bents Larsens og Friðriks Ólafssonar í Sjómannaskólanum 1956. Í kvöld setjast kapparnir enn að skákborðinu. Freysteinn Jóhannsson rifjar upp eldri tíma og talar við skákmeistarana.

Sömandsskolen i Reykjavik revisited
Sömandsskolen i Reykjavik revisited

„Þetta er svona smánostalgía. Við ætlum að rifja upp gamla atburði. Má vera að við séum ekki alveg eins klárir og við vorum 1956, en við höfum alla vega öðlast talsverða reynslu síðan,“ segir Friðrik, en atskákeinvígi þeirra Larsens hefst á Hótel Loftleiðum í kvöld; einvígi sem haldið er til að minnast einvígis þeirra 1956 um Norðurlandameistaratitilinn í skák.

Skákirnar verða átta, eins og 1956. Það einvígið stóð í 16 daga. Nú verða tefldar tvær skákir á kvöldi; hvor keppandi hefur 25 mínútur, hver skák verður tefld til þrautar og einvíginu lokið á fjórum dögum. Setningarathöfn hefst á Hótel Loftleiðum klukkan 19.30 og klukkan 20 hefst fyrsta skákin og sú síðari klukkan 21.

Einvígið um Norðurlandameistaratitilinn í skák 1956 hófst í Sjómannaskólanum þriðjudaginn 17. janúar og því lauk með hreinni úrslitaskák að kvöldi fyrsta febrúar. Larsen vann skákina og þar með titilinn.

Þjóðernisleg undiralda

Larsen kom til Íslands nýkominn frá skákkeppni í Svíþjóð þar sem hann varð „aðeins annar, en fyrir ofan allt sænska landsliðið“. Þar áður hafði hann deilt sigursæti á móti í Júgóslavíu með svissneskum skákmanni; Bhend. Íslandsferð Larsens gekk ekki snurðulaust.

„Ég man að við lentum í bullandi snjókomu á Fornebu-flugvelli við Osló, en komumst ekki strax áfram vegna rafmagnsbilunar,“ segir hann. „Hún olli því að við lentum í Keflavík klukkan fjögur um nóttu í stað kvöldsins áður.“

En Larsen komst til Íslands, þar sem hann sá og sigraði.

Friðrik kom til einvígisins 1956 í sigurvímu eftir stóran einvígissigur á Pilnik og frækinn mótssigur með Viktor Korchnoj í Hastings. Fyrir þessa frammistöðu vildu margir bóka á Friðrik sigur í einvíginu fyrirfram.

„Það var ef til vill galli á þessu hversu skammt var liðið frá Hastings, þegar við Larsen tefldum einvígið,“ segir Friðrik. „Það kann að hafa setið í mér einhver þreyta þótt ég sé ekki þar með að afsaka útkomuna.“

Friðrik hefur áður bent á að sigurvíma og þjóðernismetingur séu afleit blanda í íþróttum, sem við Íslendingar höfum oft fengið að súpa seyðið af.

„Það var náttúrlega mikið að gerast í skákinni og mikill uppgangur hér heima,“ segir hann. „En útslagið gerði að andstæðingur minn var Dani. Sambandið við þá sat enn í Íslendingum. Danir voru því ekkert sérstaklega vel liðnir og ég fékk að heyra það daglega fyrir einvígið að ég ætti að lúskra á Baunanum! Það hefði ekki verið sama undiraldan í þessu einvígi ef Larsen hefði verið annarrar þjóðar maður.“

„Ég reyndi að leiða þetta hjá mér,“ heldur Friðrik áfram. „En það var mikið hringt á meðan á einvíginu stóð og margir vildu gefa mér góð ráð. Það bjó rík þjóðernistilfinning á bak við þetta allt saman.“

Larsen segist hafa tekið öllu með stóískri ró. „Ég fann aldrei fyrir neinni andúð. Auðvitað skynjaði ég að menn héldu með Friðriki en þeir voru samt ekki á móti mér. Eftir einvígið komu þrír ungir menn til mín og sögðu að ég ætti að söðla um og tefla fyrir Ísland. Það væri nóg pláss fyrir okkur Friðrik báða. Satt að segja held ég að það hafi verið mistök hjá mér að taka þá ekki á orðinu. Og ég meina það!“

Seldu mér miðann!

Þriðjudaginn 17. janúar 1956 segir Morgunblaðið að búast megi við skemmtilegri keppni og tvísýnni milli Friðriks og Larsens. Aðstæðum á keppnisstað er svo lýst:

„Í matstofu Sjómannaskólans er upphækkaður pallur, þar sem keppendur sitja. Á þili rétt hjá er sýningarborð, sem smíðað hefir verið sérstaklega fyrir þessa keppni og sést ágætlega á það allstaðar úr salnum. Hjá borðinu er klukka er sýnir hve miklum umhugsunartíma hvor keppandi fyrir sig hefir eytt. Á klukkunni er einnig ör, sem sýnir hvor keppandi á leik. Á þilinu er einnig tafla, á hana verða skákirnar skrifaðar. Aðstaða til að fylgjast með skákunum er því ágæt.“

Og í baksíðufrétt Morgunblaðsins 19. janúar segir:

„Stjórnendur mótsins tóku upp þá nýbreytni að hafa færa skákmenn til þess að skýra skákina jafnóðum og skákmeistararnir léku. Fluttu þeir skýringarnar Guðmundur Arnlaugsson, Ingi R. Jóhannsson og Guðmundur Pálmason. Fór þetta fram uppi á loft en sjálf keppnin er háð í sal á neðri hæðinni. Voru skýringar þessar hinar ánægjulegustu og var mikill fjöldi fólks að hlusta á þær. Var skemmtilegt að hlusta á hve margir höfðu áhuga á gangi leikanna.“

Og áhugann vantaði ekki. Sjö hundruð manns voru í  sal Sjómannaskólans, þegar fyrsta skákin var tefld, en margir urðu frá að hverfa. Konráð Árnason, sem fjallaði um einvígið fyrir Morgunblaðið, segir:

„Salurinn fylltist af fólki á svipstundu og sömuleiðis gangar hússins en þar var skákin einnig sýnd og á tímabili varð að loka húsinu, en hópur manna var fyrir utan. Á níunda tímanum   kom kunningi minn inn í salinn sigri hrósandi. Maður einn hafði komið út úr húsinu. „Seldu mér miðann,“ hrópaði fólkið fyrir utan. „10 kr.“, „20 kr.“, „30 kr.“, en maðurinn gekk að mér og gaf mér miðann. Veitingamaður hússins var ekki heldur við því búinn að taka á móti þessum fjölda. Um kl. 10 voru birgðir hans þrotnar af öli og gosdrykkjum og varð hann að hringja í veitingahús bæjarins og vita hvort þau gætu ekki hjálpað honum þó ekki væri nema um nokkra kassa. Ekki vissi ég hvern árangur þetta bar, en kaffibirgðir þraut ekki.“

300 manns a glugganum

Hvað sem veitingunum leið þá hefur andrúmsloftið á skákstaðnum verið hreint rafmagnað. Velvakandi Morgunblaðsins getur þess 22. janúar að þegar Friðrik vann aðra skákina hafi áhorfendur brugðizt við sigri hans „eins og hér hefði verið um hnefaleikakeppni að ræða – æpt, klappað og stappað í gólfið. Ekki er nema eðlilegt, að áhorfendur fylgi landa sínum að málum og fagni sigri hans – en slíkur ofstopi er engan veginn sæmandi og verður að teljast lítil kurteisi í garð erlenda gestsins – og í garð Friðriks.“

Það var ekki einasta að menn flykktust á einvígisstaðinn: Strætisvagnar Reykjavíkur breyttu áætlunarferðum svo að strætisvagn ók fram hjá Sjómannaskólanum á hálftíma fresti þegar teflt var.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 21. janúar segir, að mest umtöluðu menn á Íslandi þessa viku hafi áreiðanlega verið þeir Friðrik Ólafsson og Bent Larsen.

„Svo mikill hefur áhuginn verið bæði hér í Reykjavík og úti um land fyrir þessari keppni, að hvað eftir annað hefur verið hringt heim til Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra að næturlagi og hann beðinn um það að láta útvarpið ekki ljúka dagskrá sinni fyrr en úrslit væru kunn í skákinni. Á vinnustöðvum hafa menn komið með tafl með sér til þess að geta velt biðskákunum fyrir sér.“

Larsen segir að aðsóknin og áhuginn hafi verið með ólíkindum. „Ég man eitt kvöldið; það var snjókoma og hvassviðri. Sjö hundruð manns komust inn í húsið, en fyrir utan stóðu þrjú hundruð manns og horfðu inn um gluggann og fylgdust með skákinni á sýningarborðinu. Þetta var alveg ótrúlegt!“

 

Hrein úrslitaskák í  lokin

Fyrsta einvígisskákin 1956 fór tvisvar í bið. Aðra skákina vann Friðrik í 30 leikjum. Sú þriðja fór í bið og á sunnudagskvöld vann Larsen báðar biðskákirnar; í 95 leikjum og 59. Fjórðu einvígisskákinni lauk með jafntefli eftir 32 leiki, þannig að þegar einvígið var hálfnað hafði Larsen 2½ vinning gegn 1½ vinningi Friðriks.

Fimmta einvígisskákin var tefld á afmælisdegi Friðriks og gaf hann taflið í 45. leik. „Greinilegt er að Friðrik teflir undir sínum styrkleika, hvernig sem á því stendur,“ sagði Morgunblaðið.

En Friðrik tók sig á og sjöttu skákina, sem fór í bið, vann hann eftir 51 leik. Morgunblaðið segir, að Larsen hafi virzt gera sig ánægðan með jafntefli, en Friðrik vann mann fyrir peð og þar með skákina. Og sjöundu skákina vann Friðrik í 24 leikjum.

Skákmeistararnir voru þar með jafnir að vinningum, þannig að síðasta skákin varð hrein úrslitaskák. Þegar 16 leikir voru búnir í síðustu skákinni, sagði fréttaritari Morgunblaðsins:

„Mér finnst þetta of mikill „hasar“ og of lítið öryggi. Langa hrókunin hjá Friðrik skapar einhverja hættu. En ég sé ekki hvor staðan er betri nú.“ Þegar leiknir höfðu verið 26 leikir taldi fréttaritarinn stöðu Friðriks lakari; hann var kominn í talsvert tímahrak, átti eftir 15 mínútur, en Larsen 45. Og rétt fyrir miðnætti kom fréttin um tap Friðriks:

„Þetta skeði allt í svo skjótri svipan, að það var ekki hægt að gera sér grein fyrir því. Friðrik varð að leika svona hratt klukkunnar vegna – og fékk svo aðeins tíma til að líta á stöðuna eftir mannfallið – og þá var ekki um annað að gera en gefa.“

Og á baksíðu Morgunblaðsin segir ennfremur:

„En þó leikslok yrðu þessi, þá samglöddust áhorfendur Larsen með löngu og innilegu lófataki. Þetta einvígi hafði verið um margt mjög skemmtilegt. Hinir ungu skákmenn höfðu háð harða keppni.“

„Hann tefldi betur en ég í þessu einvígi, eins og úrslitin féllu,“ segir Friðrik.

„Þegar ég hef farið yfir skákirnar á eftir, sé ég í þeim ýmsar bommertur. Það var eitthvað sem var ekki alveg í lagi hjá mér. Eiginlega slapp ég ótrúlega vel miðað við taflmennskuna! Það voru miklar sviptingar í þeim skákum, sem ég vann. Hann kom mér svo á óvart í síðustu skákinni, lumaði á leik í byrjuninni, sem sló mig út af laginu.“

„Ég var með tveggja vinninga forskot eftir fimm skákir og átti þá forystu alveg skilið,“ segir Larsen. „En kannski varð ég kærulaus, því ég lét Friðrik plata mig illa í sjöttu skákinni. Hann tefldi svo af miklum krafti í sjöundu skákinni og við vorum allt í einu orðnir jafnir að vinningum. Það hristi verulega upp í mér! Og í úrslitaskákinni tókst mér að snúa taflinu mér í hag og það gerði gæfumuninn.“

Hvergi nema a Íslandi

Síðustu dagana hefur Larsen stjórnað Mjólkurskákmótinu á Selfossi.

„Þetta er ekki mitt fyrsta skipti á Selfossi,“ segir hann. „Ég tefldi hér fjöltefli eftir einvígið 1956. Þá fór ég með Guðmundi S. Guðmundssyni hingað austur í íslenzku vetrarveðri. Hann lét það ekkert á sig fá og fór með mig til Þingvalla í leiðinni, þar sem við ókum í gegnum Almannagjá. Þegar fjölteflið var búið var ófært í bæinn svo við urðum að gista. Við fengum okkur svolítið í staupinu og þá var sagt í útvarpinu, að þetta kvöld væri Larsen veðurtepptur á Selfossi. En vonandi kæmust þeir Guðmundur S. í bæinn aftur, þegar búið væri að ryðja fyrir mjólkurbílana morguninn eftir, því Larsen ætti að mæta í skákþátt hjá Baldri Möller klukkan fimm. Þetta tókst og ég komst í þáttinn hjá Baldri. Hann var mjög góður dönskumaður og talaði tvö tungumál allan þáttinn. En tíminn hljóp frá okkur og þegar þættinum átti að ljúka, áttum við alveg eftir að fara í gegnum síðustu skák einvígisins, sem átti nú að vera meginefni þáttarins! Þá kom tæknimaðurinn með miða sem hann setti hjá Baldri. Þar stóð: Það er allt í lagi með tímann.“

– Þessa setningu segir Larsen á íslenzku. „Við héldum þá bara áfram, en þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í sjö kom tæknimaðurinn með annan miða. Þar stóð: Fimm mínútur! Og okkur tókst að klára skákina og þáttinn fyrir sjö! Ég er viss um að svona nokkuð hefði hvergi getað gerzt nema á Íslandi. Alla vega ekki í danska útvarpinu, svo mikið er víst!“

Metin jöfnuð í afmælismóti

Fyrir einvígið 1956 höfðu Friðrik og Larsen teflt fjórar skákir og vann Friðrik þrjár þeirra.

„Mér skilst, þegar allt er talið að við stöndum nú jafnt að vígi,“ segir Friðrik. „Hann jafnaði metin í afmælismótinu mínu 1995. Við höfum unnið fimmtán skákir hvor, en lítið verið fyrir það að gera jafntefli; gerðum eitt í einvíginu 56 og ég held tvö síðan.“

Það hefur ekki færzt nein friðsemd yfir skákmeistarana með aldrinum.

„Alla vega ekki, þegar við leiðum saman hesta okkar á skákborðinu,“ segir Friðrik. „En það fer vel á með okkur þess utan.“

Og hvernig fer þetta svo?

„Ætli við séum ekki báðir sigurvissir,“ segir Friðrik.

„Ég vinn,“ segir Larsen ákveðinn. „Þó ekki væri nema bara fyrir hefðina frá 56!“

Skákir
Merki: