1960: Tel mig ekki þjóðnýttan

Tel mig ekki þjóðnýttan

 

Morgunblaðið 2. nóvember 1960.

„Baráttan um heimsmeistaratitilinn er vitanlega efst í huga allra skákmanna — og úr því að ég á kost á að taka þátt í þeim leik finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að mæta þar,“ sagði Friðrik Ólafsson, skákmeistari, í gær, er fréttamaður Mbl. átti tal við hann vegna harkalegrar árásar, sem hann varð fyrir í Þjóðviljanum.

Ummæli Þjóðviljans

Þar var m.a. haft eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, forseta Skáksambands Íslands, að Friðrik teldi sér ekki samboðið að tefla á Ólympíumótinu í A-Þýzkalandi vegna þess hve lið Íslands á mótinu væri veikt. Þetta var í fréttabréfi frá Ingimar nokkrum Jónssyni í Leipzig.

Undir fyrirsögninni „Hvers vegna tefla beztu skákmennirnir ekki á Ólympíuskákmótinu í Leipzig?“ spyr fyrrnefndur Ingimar Ásgeir Þór: — Hvað veldur því að Friðrik skoraðist undan þátttöku? — Það mætti ætla að Friðrik teldi sér skylt að vera fulltrúi Íslands á Ólympíuskákmótinu eftir allt það, sem búið er að gera fyrir hann, en því miður er ekki svo. Skáksambandið reyndi allt til þess að fá hann með, við buðum honum m.a. að tefla aðallega í undanrásum til þess að tryggja sveitina í B-úrslitariðil. Eftir það hefði hann getað haft það ósköp rólegt og undirbúið sig fyrir svæðamótið í Hollandi, sem hefst 19. nóvember n.k., en ekkert dugði.

Mitt álit er það, að hann telji sig of góðan tiþess að tefla með svona liði eins og keppir hér. veiku Mér skilst, að hann telji það engan persónulegan ávinning að taka þátt í Ólympíuskákmótum,“ sagði forseti Skáksambandsins.

„Skákmaskína“

Mbl. leitaði í gær álits Friðriks á þessum ummælum Ásgeirs, en hann var tregur til. Fannst miður, að menn „færu svona aftan að sér“, en sagði þó:

Ég verð að segja eins og er, að forráðamenn Skáksambandsins hafa litið á mig sem einhverja skákmaskínu. Svo hefur mér fundizt a.m. k., sagði Friðrik, og ég hef átt bágt með að sætta mig við það. — Það, sem einkum veldur, er sá styrkur, sem ríki og bær veitir mér nú til þess að ég geti helgað mig skákinni óskiptur. Ég er ekki að vanþakka þann styrk þó ég segi, að ég geti ekki fallizt á að forráðamenn Skáksambandsins hafi rétt til að beita mér eins og skurðgröfu í mýrlendi.

Efst í huga skákmanna

— Þar eð ég nýt hins umrædda styrks lít ég á það sem hlutverk mitt að vinna að eflingu skákíþróttarinar hér hjá okkur og standa mig eins vel á erlendum vettvangi og ég framast get, ef það mætti verða til þess að nafns Íslands yrði getið meira í skákheiminum.

Þess vegna legg ég mest upp úr því að búa mig vel undir stærstu mótin. Baráttan um heimsmeistaratitilinn er vitanlega efst í huga allra skákmanna — og úr því að ég á kost á að taka þátt í þeim leik finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að mæta þar. Fyrir mig persónulega er heimsmeistarakeppnin líka mun eftirsóknarverðari en Ólympiumótið.

Erfitt sumar

— Undanfarnar vikur hef ég tekið þátt í þremur mótum hér í Reykjavík á vegum Skáksambandsins — og skömmu áður á tveimur mjög erfiðum mótum í Argentínu. Annað þeirra vart. d. eitt það sterkasta, sem haldið hefur verið fram til þessa. Lagt var mjög hart að mér að taka þátt í mótunum hér heima eftir að ég kom að utan og hef ég því ekki fengið þá hvíld frá skákinni sem ég þarfnaðist fyrir svæðamótið.

Afleiðingin er sú—og ég geri mér það fullkomlega ljóst — að ég er haldinn skákleiða, þessa stundina. Þetta er það, sem komið getur fyrir alla skákmenn, ef þeir „keyra of hratt“. Og þetta er aðeins hægt að yfirstíga með því að „veita sér þann munað“ að gleyma henni um stund.

Andleg endurnæring

Ég fann það á síðasta mótinu hér í Reykjavík, að ég var ekki í essinu mínu. Ég þarf að hvíla mig algerlega frá skákinni áður en ég fer á svæðamótið í Hollandi. Leggja skákina frá mér, snúa mér að einhverju öðru meðan ég væri að gleyma skákinni og jafna mig.

Ásgeir lætur hafa eftir sér að ég hefði getað haft það „ósköp rólegt“ í Leipzig með því að tefla aðeins fyrst í stað. Það er ekki sú hvíld, sem ég er að leita eftir. Þar hefði ég hvort sem er verið í hringiðunni allan tímann. Annað hvort hefði ég farið og teflt, eða farið hvergi.

Það, sem mér finnst mig vanti, er ekki að liggja upp í dívan. Ég er kominn með skákina á heilann og þarf að dreifa huganum og endurnæra mig andlega áður en ég legg í stórátök á ný. Að öðrum kosti get ég ekki vænzt árangurs.

Ekki þjóðnýttur

Að lokum vil ég aðeins segja það, að ég lít ekki á sjálfan mig sem þjóðnýttan, enda þótt ég njóti styrks stjórnarvaldanna. Hins vegar hafa sumir framámenn Skáksambandsins talið mig eitthvert verkfæri, sem keypt hafi verið og lagt í hendur þeirra — og það sé hin mesta óhæfa, að ég skuli ekki láta algerlega að stjórn.

En ég er staðráðinn í því að gera mitt bezta eins og hingað til. Ef ég veiti mér ekki nægilega hvíld get ég ekki vænzt þess að ná mér á strik — og hefði ég farið á Ólympíumótið kæmi ég þreyttur á svæðamótið, því á milli mótanna er aðeins liðlega víka.

Að ég líti of stórt á mig til að fara með íslenzku sveitinni til Ólympíumótsins, það tel ég ekki svaravert. Þau ummæli lýsa aðeins hugarfari viðkomandi aðila og skaða mig á engan hátt.

Merki: