2015: Friðrik heiðursborgari í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæmdi Friðrik Ólafsson stórmeistara í skák, heiðursborgaranafnbót við hátíðlega athöfn í Höfða, 28. janúar, tveimur dögum eftir að meistarinn fagnaði áttræðisafmæli sínu. Friðrik Ólafsson er aðeins sjötti einstaklingurinn sem gerður er að heiðursborgara Reykjavíkurborgar. Þeir sem hlotið hafa þessa nafnbót áður eru; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010, Erró árið 2012 og Yoko Ono árið 2013.

Í frétt frá Reykjavíkurborg um hinn nýja heiðursborgara sagði meðal annars:

2

Með því að sæma Friðrik Ólafsson heiðursborgaratitli vill Reykjavikurborg þakka Friðriki fyrir árangur hans og afrek á sviði skáklistarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði það vel við hæfi að heiðra Friðrik á áttræðisafmælinu, en hann átti afmæli þann 26. janúar sl. Dagur sagði að áhugi á skák væri óvíða meiri en á Íslandi og líklega hefði enginn Íslendingur haft jafn mikil áhrif á skákíþróttina hérlendis og Friðrik Ólafsson. Hans dýrmæta framlag til íslenskrar menningar væri þakkarvert.

Í ræðu borgarstjóra kom fram að Friðrik hafi ungur að árum sýnt óvenjulega dirfsku og hugkvæmni og í skákum hans hafi hann sýnt meiri tilþrif en menn áttu að venjast. Hann var ungur að árum eða aðeins 17 ára gamall þegar hann varð Íslandsmeistari, 18 ára Norðurlandameistari og stórmeistari í skák árið 1958 fyrstur íslenskra skákmanna.

Friðrik lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands og starfaði hjá dómsmálaráðuneytinu áður en hann varð atvinnumaður í skákíþróttinni árið 1974. Friðrik var forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE á árunum 1978-1982 og að því loknu starfaði hann sem skrifstofustjóri Alþingis. Á sínum skákferli vann Friðrik allmörg alþjóðleg skákmót, varð skákmeistari Norðurlanda og sex sinnum varð hann Íslandsmeistari.

3

Friðrik þakkaði fyrir heiðursnafnbótina og sagði að sér þætti vænt um titilinn því honum þætti vænt um Reykjavík. Hann sagðist oft hafa gengið fram hjá Höfða þegar hann var ungur að árum á leið í og úr skóla og aldrei hefði honum dottið í hug að 70 árum seinna stæði hann einmitt í Höfða og tæki við heiðursnafnbót.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, tilkynnti að Skáksambandið hefði stofnað sjóð, Friðrikssjóð, sem yrði varið til að styrkja unga skákmenn. Þá færði hann Friðriki einnig heiðursskjal frá alþjóðaskáksambandinu FIDE þar sem hann er gerður að heiðursfélaga sambandsins.

Það er Reykjavíkurborg mikill heiður að Friðrik Ólafsson sé heiðursborgari Reykjavíkur.

Merki: