1955: Viðtal – Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni

Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni

 

Viðtal Guðrúnar Helgadóttur við Friðrik Ólafsson. Birtist í Æskunni 1955, þegar Friðrik var tvítugur.

img284Við ætlum að segja ykkur að ofurlítið frá þeim Íslendingi, sem mestan orðstír hefur getið sér á alþjóðavettvangi skákíþróttarinnar — Friðriki Ólafssyni, skákmeistara. Friðrik er kornungur maður, aðeins 20 ára að aldri.

Við, sem höfum verið með honum í skóla í fjögur ár, höfum oft verið spurð, hvers konar maður Friðrik sé — menn hafa vafalaust hugsað sér hann undarlegan og viðutan eða voðalega gáfulegan á svipinn og vart við mælandi — og þá höfum við ekkert annað að segja um hann en að hann sé „ágætis strákur“.

Auðvitað höfum við oft verið — svona undir niðri — talsvert stolt af honum, enda sýndum við honum það í verki, er við sæmdum hann nafnbótinni „heiðursskólabróðir“ með tilheyrandi skjali, þegar hann kom heim frá Hastings 1954.

Annars er Friðrik ósköp venjulegur ungur maður, geðþekkur í framkomu, hæglátur og góður félagi, sem var fús til þess að taka eina skák með stráknum á næsta borði í „löngu frímínútunum“. En óttalega hlýtur honum að hafa þótt það lítið spennandi skákir, og sigrinum tók hann með hæversku brosi!

Skólaleikrit í Laugarnesskóla 2
Skólaleikrit í Laugarnesskóla

Friðrik er nú nýkominn heim frá Ósló, þar sem hann tók þátt i Norðurlandameistaramótinu i skák, eins og þið hafið eflaust heyrt um. Ég var svo heppin að rekast á hann á götu um daginn og sagðist þurfa að hafa við hann viðtal og láta hann segja mér eitthvað um sjálfan sig.

Friðrik glotti við, en tók því með sömu þolinmæðinni og öllu öðru, og svo ákváðum við stað og stund til þess að rabba saman yfir kaffibolla. Móð og másandi kom ég klukkutíma of seint og hélt, að nú hefði ég tapað af samtalinu. Ég skammaðist mín heil ósköp fyrir að láta svona frægan mann bíða og hóf upp afsakanir miklar, en „hinn frægi maður“ vildi ekkert á mig hlusta og fór að segja mér sitthvað um sjálfan sig.

Skólaleikrit í Laugarnesskóla
Skólaleikrit í Laugarnesskóla

„Fæddur?“ spurði ég. „Hinn 26. janúar 1935 í Reykjavík, sonur hjónanna Ólafs Friðrikssonar, bókhaldara, og Sigríðar Símonardóttur.“ Annars sagðist hann vera Akurnesingur í aðra ætt, og þegar ég fann að því, að þessir Akurnesingar þyrftu allar íþróttir að leggja undir sig, afsakaði hann sig með því, að hann væri nú reyndar fæddur og alinn upp í Reykjavík.

„Ég fór fyrst að tefla, þegar ég var 8 ára, og þá aðallega til þess að geta tekið skák með pabba, sem er ágætur skákmaður. Í fyrstu hafði ég ekkert sérstaklega gaman af þessu, en smám saman óx áhuginn. Þegar ég var 11 ára, tefldi ég fyrst opinberlega á skákmóti í Reykjavík og varð einhvers staðar í miðju hvað röð snerti. Síðan keppti ég oft á ýmsum mótum, meðal annars varð ég sigurvegari i 2. flokki árið eftir, þá 12 ára. 13 ára gamall vann ég i 1. flokki og komst þannig i meistaraflokk. Auk þess keppti ég oft á ýmsum smærri mótum. Þegar ég var 15 ára, tók ég þátt i Norðurhandamóti í meistaraflokki og stóð mig það vel, að ég hlaut réttindi til þess að keppa í landsliði. Árið 1951 keppti ég svo í landsliði og varð nr. 2-3.“

1953 Verðlaunaafhending á Norðurlandamóti
1953 Verðlaunaafhending á Norðurlandamóti

Stjarna Friðriks hækkar nú óðfluga, og árið 1952 verður hann Íslandsmeistari í skák — þá aðeins 17 ára að aldri. Árið eftir — 1953 — ver hann Íslandsmeistaratitilinn og hlýtur auk þess annan ekki lakari — Norðurlandameistari í skák.

Veturinn 1953-54 keppir Friðrik minna. Þá er hann í 5. bekk Menntaskólans, og námið verður nú að ganga fyrir. Þó tók hann þátt í skákmóti í Hastings í Englandi í jólaleyfinu og stóð sig af sömu prýði og áður.

Um sumarið keppti hann svo í Tékkóslóvakíu og á Ólympíuleikunum i Hollandi. Og allir vita, hversu glæsilega hann stóð sig á hinu nýafstaðna Norðurlandamóti.

„Þú hefur ferðazt heilmikið um í heiminum vegna þessara skákmóta.“

Friðrik á Gullfossi
Friðrik á Gullfossi

„Jæja, ekki er nú mikill timi til þess. Hann fer allur i að tefla. Að aflokinni skák er maður þreyttur og fer að sofa, svo að ekkert verður úr ferðalögum. Það er mjög þreytandi að leika hverja skákina eftir aðra án þess að hafa dag á milli. Taugarnar segka líka oftast til sín, a. m. k. rétt fyrir Ieik. Ég finn aldrei til taugaóstyrks, þegar ég er setztur að borðinu.“

Friðrik segir, að verst sé, þegar mótleikarinn hefji leik með byrjun, sem hann hefur ekki séð áður.

„Þá eyðir maður allt of miklum tíma til umhugsunar og lendir svo í timahraki, og þá er voðinn vís. Til dæmis kom þetta fyrir þegar ég tapaði síðustu skákinni á Norðurlandamótinu fyrir Bent Larsen. Við verðum að tefla 40 leiki á 2 klukkustundum, annars er skákin töpuð, og hann byriaði skákina með byrjun, sem ég hafði aldrei séð. Þess vegna eyddi ég 70 mínútum í að huasa um einn leik. svo lítill tími vannst fyrir hina 39. Að vísu hafði ég það af að tefla 40 leiki en flýtirinn var svo mikill að þá var skákin töpuð. Svo er lika erfitt,“ bætir Friðrik við, „þegar allir eru búnir að segja, að maður vinni, þá verður maður taugaóstyrkari.“

„Hefur ekki verið erfitt að stunda nám jafnframt skákinni?“

Flakkararnir í MR„Jú, enda hafa einkunnirnar farið síversnandi með hverju ári.“ Þetta eru reyndar ýkjur, þvi að Friðrik lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans siðastliðið vor með ágætri einkunn.

Fjármálin hafa vafalaust verið Friðriki erfiðust. Utanferðirnar hafa kostað hann mikið fé, sumarvinnan orðið lítil sem engin. Að vísu hafa skáksamböndin kostað hann að einhverju leyti, en slíkar ferðir kosta alltaf mikið fé úr eigin vasa.

Nú verður úr þessu bætt. Friðrik mun nú halda utan eftir áramótin til náms i Bonn i Þýzkalandi og fær vissa fjárupphæð til þess. Hann hefur í hyggju að leggja stund á þýzku við háskólann þar. Hann segist ekki geta hafið langt háskólanám að svo stöddu, nema að hætta að tefla, en það vilja nú fæstir samþykkja.

„Ég ætla að sjá, hvað ég get. Ef mér fer að hraka, hætti ég að tefla og fer að læra einhverja grein háskólanáms, en um það er allt óvíst. Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni,“ segir hann.

„Að lokum Friðrik, hvað þarf maður fyrst og fremst að gera til að geta orðið góður skákmaður?“

1956 Friðrik og Bent Larsen
1956 Friðrik og Bent Larsen

„Byrja nógu snemma og tefla nógu mikið. Einnig þarf hann að lesa mikið um skák. Maður getur aldrei lesið nógu mikið af bókum um skák, hún býr yfir óendanlega mörgum möguleikum.“

Og svo ætla ég ekki að tefja Friðrik lengur. Eftir áramót fer Friðrik utan og leggur til nýrra sigra — eða ósigra. Við óskum honum öll góðs gengis oa margra sigra. En þeir eru þó ekkert aðalatriði. Aðalafriðið er, að Friðrik haldi áfram að vera sá maður, sem hann hefur verið hingað til, maður, sem veldur hvort sem er sigri eða ósigri í drengilegum leik og lærir af reynslunni.

Og einmitt að þessu leyti er hann íslenzku æskufólki til eftirbreytni, miklu fremur en vegna frægðar sinnar og afreka.

Merki: