Friðrik Ólafsson forseti FIDE

Eftir Guðmund G. Þórarinsson.

Guðmundur G. Þórararinsson, verkfræðingur og kenningasmiður. 13.4.2013 16-37-54. 13.4.2013 16-37-54. alþingismaður
Guðmundur G. Þórararinsson

Það er líklega á árinu 1976 sem dr Max Euwe fyrrverandi heimsmeistari í skák og þáverandi forseti FIDE  gefur til kynna að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti. Euwe var fæddur 1901 og hafði verið forseti FIDE frá  1970.  Kjósa skyldi nýjan forseta í Buenos Aires 1978  en  þá  hafði Euwe náð 77 ára aldri.

 

Þegar Euwe fór að svipast um eftir eftirmanni á forsetastól staðnæmdist hann við nafn Friðriks Ólafssonar. Friðrik var heimskunnur sem skákmaður og hafði getið sér gott orð sem drenglyndur heiðursmaður. Friðrik lét til leiðast að vera í framboði enda hugmyndin mikill heiður fyrir hann og land hans.  Skáksamband Íslands undir forystu Einars S. Einarssonar hóf þegar undirbúning að framboði Friðriks.

Á aukaþingi FIDE í Luzern 1977 kynntu þeir Einar og Högni Torfason varaforseti SÍ hugmyndina um framboð Friðriks og á þingi FIDE í Caracas í Venezuela 1977  kynntu þeir Einar og Gísli Árnason, gjaldkeri SÍ bækling SÍ  um framboð Friðriks og hófu að afla framboðinu stuðnings. Stjórnvöld á Íslandi studdu við framboðið með fjárframlögum.

Í framboði til forseta voru auk Friðriks Rabell Mendez frá Puerto Rico og stórmeistarinn Svetozar Gligoric.  Mendes var ekki kunnur skákmaður en hafði setið í stjórn FIDE og var kunnur félagsmálamaður innan skákhreyfingarinnar og m.a. svæðisforseti fyrir Suður-Ameríku.  Gligoric var vinsæll meðal skákmanna, hann hafði starfað sem blaðamaður og rithöfundur og mun hafa verið virkur í andspyrnuhreyfingu Titos á sínum tíma.

Fljótlaga varð ljóst að Mendes naut stuðnings að mestu meðal Suður-Ameríkuríkja og auk þess í Afríku og fleiri löndum þriðja heimsins, Gligoric naut stuðnings hjá austurblokkinni, Sovétríkjunum og fylgilöndum þeirra, en Friðrik naut stuðnings í Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.

Mörg öflugustu skáklöndin töldu æskilegt að sterkur skákmaður væri forseti FIDE. Á einvígi þeirra Kortsnojs og Polugajevskys í Evien í Frakklandi 1976 hittu þeir Einar og Högni Baturinsky sem var í forystusveit skákhreyfingar í Sovétríkjunum og viðruðu þá hugmynd  að Sovétríkin styddu Friðrik ef Gligoric félli út í fyrstu umferð kosninganna en Ísland styddi Gligoric ef Friðrik félli út.  Baturinsky hlustaði án þess að taka af skarið.

Kosningarnar voru með því sniði að frambjóðandi varð að fá 50% atkvæða til þess að ná kjöri, næði enginn því marki skyldi kjósa aftur milli þeirra tveggja sem mest fylgi höfðu.

Kosningin  fór síðan fram á þingi FIDE í Buenos Aires 1978 en þar var jafnframt teflt Ólympíumót.  Frambjóðendur fluttu framboðsræður og mikil spenna var í lofti. Með Friðriki var kona hans Auður Júlíusdóttir og var honum mikill stuðningur. Þarna voru mættir þeir Einar S. og Högni til þess að vinna að framboðinu og síðar bættust í hópinn Gísli Árnason og undirritaður. Ljóst var þegar í upphafi að kosningarnar yrðu tvísýnar.

Fyrstu umferð kosninganna lauk þannig að Mendez hlaut 31 atkvæði, Friðrik 30 og Gligoric hlaut 29 atkvæði og einn seðill var ógildur. Það kom mörgum á óvart að Gligoric féll út í fyrstu umferð.  Júgóslavar ræddu það á göngum hótelsins að einn stuðningsmaður Gligorics hefði verið að tefla biðskák og ekki gefið neinum umboð til þess að fara með atkvæði sitt. Ekki skal lagður dómur á þessa sögusögn hér. Engum var ljóst hvað gera skyldi ef tveir hefðu orðið jafnir í 2.-3. sæti en til þess kom ekki.

Í seinni umferð hlaut Friðrik 57 atkvæði en Mendez 34 og kom í ljós að austurblokkin studdi Friðrik.  Sovétmenn vildu ekki að höfuðstöðvar FIDE færu úr Evrópu.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar úrslit voru gerð kunn og langvinnt lófatak fyllti salinn.  Hamingjuóskir bárust Friðriki úr öllum áttum m.a. frá Karpov þáverandi heimsmeistara.

Friðrik tilnefndi síðan Svein Jónsson endurskoðanda sem gjaldkeraefni sitt en hefð er fyrir því að forseti og gjaldkeri komi frá sama landi.  Dálítinn skugga bar á vegna frétta af deilum innan íslensku sveitarinnar um gjaldkeramálið en það mál er löngu gleymt og grafið.

Íslendingurinn Friðrik Ólafsson var nú orðinn forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE og Ísland  orðið áhrifaland í skáklífi heimsins.  Friðrik hafði verið kjörinn 4. forseti FIDE en áður höfðu verið forsetar  Hollendingurinn dr Alexandre Rueb 1924-1949, Svíinn Folke Rogard 1949-1970 og Hollendingurinn Max Euwe 1970-1978.

Viðbrögð skákheimsins við kjöri Friðriks voru almenn ánægja. Fyrst og fremst var kjörið viðurkenning á einstaklingnum Friðriki Ólafssyni og lýsti trausti á honum og sýndi vinsældir hans. Í annan stað var kjörið viðurkenninga á skákhefð Íslendinga. Ísland var orðið þungamiðja í skáklífi heimsins.

Með kjöri Friðriks má segja að nýr kafli hefjist í sögu FIDE. Að ýmsu leyti varð nú meiri festa í starfsemi FIDE sem ekki síst sýndi sig í stjórn og skipulagi þinga FIDE. Friðrik var farsæll í starfi sem forseti, lét setja reglur um alþjóðlegt mótahald, gaf út bækling um FIDE og þinghald færðist allt til hins betra.

Deilur risu hins vegar vegna máls Korchnois og fjölskyldu hans og að mig minnir um mótshald vegna einvígis Korchnois og Karpovs sem að endingu fór fram í Merano. Friðrik beitti sér mjög í máli Kortsnojs og fyrir því að hann fengi fjölskyldu sína út úr Sovétríkjunum. Sovétmenn snerust gegn honum vegna þessa máls.

Á þingi FIDE í Luzern í Sviss 1982 náði Friðrik ekki endurkjöri.  Einkum varð honum að fótakefli í þeim kosningum andstaða Sovétmanna vegna baráttu hans í mannréttindamáli Kochnois og hins vegar baráttu aðferði mótframbjóðandans Campomanesar.

Á vegum FIDE var sjóður sem Campomanes beitti til kaupa á töflum og gjöfum einkum til landa þriðja heimsins. Mér er minnisstætt að við töldum eftir samtöl við ýmis Afríkuríki að þau styddu Friðrik í kosningunni. Eftir á kom annað í ljós. Þegar ég gekk eftir því hvað hefði gerst svöruðu sumir afrísku fulltrúanna: “Friðrik vildi ekki vera kjörinn. Í okkar löndum er lýðræði og við þekkjum vel leikreglurnar. Þeir sem vilja ná kjöri gefa gjafir. Friðrik gaf ekki gjafir svo við töldum að hann vildi ekki ná kjöri.”

Ísraelsmennirnir sem voru nærstaddir og höfðu stutt okkur,  heyrðu þetta og sögðu hlæjandi:“ Íslendingar kunna ekki að vinna að svona kosningum.”

Í raun hefur FIDE sett talsvert niður frá því Friðrik hætti.  Campomanes var knúinn til þess að segja af sér og deilur spunnust út af fjárreiðum FIDE einkum vegna greiðslna á eftirlaunum til hans sjálfs árið 1995.  Bæði hann og eftirmaður hans, Kirsan Illymzhinov hafa fært stjórn FIDE meir í átt einveldis.

Þegar regluleg kosning forseta fór fram árið 1996 kom upp undarleg staða. Tilkynna varð framboðslista með tveggja mánaða fyrirvara. Þegar að þingi kom var aðeins einn listi í framboði og Illymzhinov var ekki á honum.  Ég taldi því augljóst að dagar hans á forsetastóli væru taldir.

En þá kom fram ,,snilli“ austurlandabúans. Hann samdi við nokkra þá sem voru í framboði á þessum eina lista að draga  sig til baka. Skæðar tungur sögðu að fjármunir hafi verið í boði. Þar með var eini listinn orðinn ólöglegur og Illymzinov bauðst til að leysa málið með því að leggja fram á þinginu nýjan lista þar sem hann var forsetaefni. Það gekk eftir. Þannig leysti hann þraut sem allir lýðræðissinnar hefðu talið óleysanlega.

Segja má að FIDE hafi verið vængbrotið hin síðustu ár. Deilur hafa einkennt starfsemina og margir minnast þess er Kasparov klauf FIDE og stofnaði sinn heimsmeistaratitil. Einar S. Einarsson sem um árabil hefur verið fulltrúi Íslands hjá FIDE hefur orðað það svo að síðan Friðrik hætti hafi FIDE verið í tröllahöndum.  Óreiðutal og einræðistilburðir hafa um of einkennt umræðuna um FIDE síðustu ár.

Í forsetatíð Friðriks Ólafssonar var FIDE virt alþjóðasamband. Forsetastarf hans var bæði honum og íslensku þjóðinni til sóma.

 

 

Merki: