1952: Einvígi við Lárus Johnsen um Íslandsmeistaratilinn

FRIÐRIK ÓLAFSSON

SKÁKMEISTARI ÍSLANDS

Sigraði Lárus Johnsen í einvígi 3 ½ : 2 ½.

SKÁKRITIÐ 5.-6. tbl. 1952.

Einvígi þeirra Friðriks og Lárusar var skemmtileg og tvísýn viðureign og vakti mikla athygli. Að sönnu voru skákirnar fjarri því að vera lýtalausar, og verður oft sú raunin, þegar barizt er sem ákafast. En þær voru aldrei leiðinlegar, viðleitni og athafnasemi var mikil á báða bóga, og oft mynduðust skemmtilega leikfléttur, er hinum hvassa stíl beggja keppenda sló saman.

Stíll Friðriks virðist hvassari, en hvað nýstárlegar hugmyndir áhrærir, sýnist Lárus tánum fremri. Að öllu samanlögðu er Friðrik líklega heldur sterkari. Bæði Friðrik og Lárus eru í ríkum mæli það, sem Englendingar nefna „tactican“

Í þessu felst, að þeir eru leikhagari en skyggni þeirra á baksvið átakanna og skilningur á innsta eðli þeirra gefur fullt tilefni til. En enginn má þó skilja þetta svo, að þeir séu ekki fjölhliða skákmenn, þótt þeir við gaumgæfilega athugun reynist ekki jafnir á alla kanta.

Og tæplega getur það móðgað nokkurn mann, þótt staðhæft sé, að enginn skákmaður okkar standi þeim Friðrik og Lárusi framar þessa stundina.

Svo að vikið sé að einstökum skákum, þá er lesendum það kunnugt, að fyrsta skákin varð jafntefli. Aðra skákina vann Friðrik, að því er virtist með nokkrum yfirburðum, og birtist sú skák í þessu hefti með skýringum eftir hinn unga sigurvegara.

Þriðja skákin varð jafntefli, en þá fjórðu vann Lárus. Sú skák var sennilega eftirminnilegasta skák einvígisins. Lárus fórnaði snemma tafls manni, en Friðrik hafnaði fórninni og sást yfir, að hefði hann tekið henni var Lárus neyddur til að taka jafntefli með þráskák.

Friðrik voru einnig mislagðar hendur í framhaldi skákarinnar. Lék hann nokkra veika leiki, sem gáfu Lárusi færi á giftusamlegri kóngssókn, er leiddi að lokum til sigurs. Vinningar stóðu því 2:2 eftir fyrstu fjórar skákirnar, og varð því að tefla tvær til viðbótar.

Þegar hér var komið, var liðið fast að apríllokum. Var nú gert hlé á einvíginu um mánaðartíma eða þar til í júní byrjun. Var þá teflt áfram. Fimmta skákin (tefld 5. júní) varð jafntefli eftir snörp átök í 40 leiki.

Sjötta og síðasta skákin var síðan tefld strax daginn eftir. Með henni fengust úrslit í þessu harða og skemmtilega einvígi.

Friðrik lék kóngspeði, og kom fram fjögurra riddara tafl. Ekki höfðu þeir lengi teflt, er Lárus skyndilega lék af sér skiptamun, og rétti hann ekki við eftir það. Gafst hann upp eftir tæpa 30 leiki.

Einvíginu lyktaði því svo, að Friðrik fór með sigur af hólmi með 3,5 vinning gegn 2,5 og varð þar með Skákmeistari Íslands að þessu sinni.

Friðrik Ólafsson er einungis 17 ára að aldri og hefur með tilliti til þess unnið þarna einstætt afrek. Enginn Íslendingur hefur fyrr unnið æðstu gráðu skákreglunnar hér á landi svo ungur að árum.

En þessi sigur Friðriks mun þó hafa komið fáum á óvart. Af öllum þeim, sem þátt tóku í Landsliðskeppninni í vetur mun Friðrik síður en svo hafa verið talinn ólíklegri til að sigra en nokkur hinna keppendanna. Önnur ályktun hefði líka brotið í bága við gefnar forsendur, því að reynslan hafði sýnt, að hann var fyllilega hlutgengur á hverjum innlendum vettvangi, sem var og er þá vægilega að orði kveðið.

En eftir þennan sérstæða sigur verða þær kröfur gerðar til Friðriks, sem ofurmenni ein fá undir staðið. Um leið og SKÁKRITIÐ óskar hinum unga Íslandsmeistara til hamingju með sigurinn, er það von þess og trú, að hann verði íslenzkum æskumönnum aflvaki og hvöt til nýrra glæsilegra afreksverka.

EINVÍGIÐ
FRIÐRIK-LÁRUS

Skák nr. 133.
Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: Lárus Johnsen.

Sikileyjar vörn.

1952: Einvígi við Lárus Johnsen um Íslandsmeistaratiilinn

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
1 23.4.1952 Lárus Johnsen 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson
2 25.4.1952 Friðrik Ólafsson 1-0 Lárus Johnsen
3 27.4.1952 Lárus Johnsen 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson
4 28.4.1952 Friðrik Ólafsson 0-1 Lárus Johnsen
5 5.6.1952 Lárus Johnsen 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson
6 6.6.1952 Friðrik Ólafsson 1-0 Lárus Johnsen
Vinningshlutall 58%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu