2005: Stórmeistari á tímamótum

Stórmeistari á tímamótum

 

Viðtal Þórdísar Lilju Gunnarsdóttur við Friðrik birtist í Fréttatímanum í tilefni af sjötugsafmæli hans, 26. janúar 2005.

Það er sérstaklega bjart yfir alþjóðlega stórmeistaranum og lögfræðingnum Friðriki Ólafssyni. Hann er yfirvegaður hugsuður; eldklár og glæsilegur; fágætur heimsmaður og herramaður í senn. Seinna í janúar ætlar hann í afmælissiglingu um heimshöfin í tilefni sjötugsafmælisins. Hann stendur á tímamótum í mörgum skilningi; er hættur sem skrifstofustjóri Alþingis og stefnir allt eins á endurkomu í skákheiminum. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir naut samvista við Friðrik á síðasta degi jóla.

Hann situr við veglegt taflborð – sem hann fékk í kveðjugjöf eftir stórmót á Kúbu – á kóngsvængnum, eins og hann kallar húsbóndaherbergið með stórfenglegu útsýni yfir Esjuna og flóann. Á öðrum stað heimilisins er drottningarvængurinn þar sem eiginkonan nýtur fagurs samspils borgar og náttúru.

Í loftinu dansa klassískir tónar og alls staðar má sjá forvitnilega gripi úr veröldinni og skákverðlaun í formi útskorinna kistla, risatré- hróka og alls hins óhefðbundna. Óskabarn þjóðarinnar Friðrik Ólafsson stórmeistari sýndi barnungur undraverða takta við taflborðið.

Hann varð Norðurlandameistari aðeins sautján ára gamall og sigraði á hverju stórmótinu á fætur öðru í kjölfarið. „Þá fór eiginlega allt á hvolf og áhugi á skák reis upp úr öllu valdi,“ segir hann og hlær við. „Ég efast um að meiri skákáhugi hafi vaknað síðar; jafnvel ekki eftir heimsmeistaraeinvígi Spasskís og Fischers 1972.“

Hann viðurkennir að hafa orðið stjarna á þeirra ára mælikvarða. „Það var svosem ekki mikið að gerast og þótti merkilegt að strákur frá lítilli eyju skytist upp á stjörnuhimininn með þessum árangri. Ég fékk heillaóskaskeyti frá Íslendingum alls staðar að og fannst það mikill styrkur; mér þótti gott að finna stuðninginn og fékk byr undir báða vængi. Sem dæmi voru þetta skeyti frá áhöfnum togara, saumaklúbbum, húsmæðraskólum og kvennaskólum,“ minnist Friðrik eilítið feimnislega og játar að trúlega hefði ekki verið vandkvæðum bundið að finna kvonfang á þeim tíma, þótt hann hafi síst mælt velgengni í kvenhylli og rómantískri athygli.

Sókndjarfur og aggressívur

Árið 1958 hlaut Friðrik fyrstur Íslendinga nafnbótina stórmeistari, en næsti íslenski stórmeistarinn varð Guðmundur Sigurjónsson 1975. Síðan hefur þeim fjölgað um átta. Af ótal viðurkenningum og verðlaunum; sem og riddarakrossi og stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, segir Friðrik stórmeistaratitilinn hafa snortið sig mest.

„Ég var hreykinn af því að verða stórmeistari enda gífurlegt stökk upp á við. Þetta var svo mikil viðurkenning á þeim tíma og stór áfangi í skákheiminum. Ég hef sjaldan lifað ánægjulegri dag en þegar ég vissi að ég var kominn í hóp stórmeistara svo tilfinningalega stendur sú viðurkenning upp úr.“

Þegar Friðrik er spurður hverjum var skemmtilegast að mæta á taflborðinu nefnir hann heimsmeistarann Mikail Tal.

„Hann var geysilega skemmtilegur skákmaður sem sjaldan gat setið á sér og setti allt upp í loft. Djarfur og ótrúlega hugkvæmur. Það var alltaf eins og maður sæti á eldjalli en maður gat ekki annað en tekið þátt í leiknum. Ég bæði tapaði fyrir honum og vann. Var sjálfur sókndjarfur og aggressívur skákmaður því lognmolla er ekki minn stíll. Maður hefur þannig gengið of langt í sókndirfskunni á stundum og tapað, en þá er bara að vinna næstu skák í staðinn.“

Sönn vinátta sjaldgæf í skákheimi

Friðrik kynntist vel fyrrverandi heimsmeistara Bobby Fisher gegnum skákina, en þeir urðu jafnir að vinningum þegar þeir tefldu á millisvæðamótinu í Portoroz 1958 og fengu réttinn til að taka þátt í áskorendamótinu í skák, sem haldið var í Júgóslavíu ári síðar.

Sigurvegarinn í því móti öðlaðist rétt til að tefla við heimsmeistarann um heimsmeistaratitilinn, en Tal varð efstur í Portoroz og einnig á áskorendamótinu 1959. Varð svo heimsmeistari 1960.

„Sami hópurinn keppti á þessum stórmótum og yfirleitt gott samband okkar á milli. Fischer opnaði sig ef hann fann að maður var ekki með neinn derring. Vitaskuld vorum við allir keppinautar og fágætt að maður hleypti öðrum inn á sig, nema treysta þeim fullkomnlega. Slík vinátta er sjaldgæf innan skákheimsins.“

Hann segir nokkra einhæfni einkenna líf skákmanna.

„Þannig er með alla afreksmenn sem ná langt. Maður er vakinn og sofinn að hugsa um skákina, og dreymir stundum lausnirnar ef maður er ekki búinn að finna þær áður en maður sofnar. Utanaðkomandi finnast þeir kannski vera fagídjótar en menn verða nánast að vera það ef þeir ætla að ná árangri. Mönnum tekst svo misvel að leyna því. Þá er alltaf hætta á að menn einangrist inni í sjálfum sér því þeir eru svo agaðir og gera lítið í því að útvíkka sjóndeildarhringinn að öðru leyti.

Maður verður að treysta á sig sjálfan og engan annan. Berja í sjálfan sig stálinu og sannfæra sig um að maður geti komist alla leið og borið sigur úr býtum. Það hlýtur að skína í gegn að miklir skákmenn hafa mikið sjálfstraust en fyrir bragðið verða þeir kannski eitthvað hrjúfari og þola síður að þeim sé mótmælt.“

Hamingjan valin

Friðrik hætti að tefla þegar hann tók við starfi forseta Alþjóðaskáksambandsins FIDE, sem hann gegndi frá árinu 1978 til 1982. Áður hafði hann lagt skákina á hilluna þegar hann gerðist fjölskyldumaður og nam lögfræði við Háskóla Íslands.

„Ég vildi ekki gera skákina að lifibrauði. Það kostar óhemju sjálfsaga og maður verður að gefa sig allan í það – af lífi og sál. Ég velti fyrir mér hamingjunni; hvort ég fyndi hana í skákinni. Ég er ekki viss um að afreksmenn í íþróttum, seldir og keyptir milli félaga séu endilega hamingjusamir í því rótleysi sem því fylgir og oft án fjölskyldu.

Þeir sem ná langt verða oft einrænir og skortir fyllingu, og því jákvætt að hafa eitthvað annað með. Að kvænast hafði sínar breytingar í för með sér. Ég gerði upp við mig að kjósa fjölskyldulífið, sem þýddi að skákin hafði engan sérstakan forgang lengur.“

Þegar Friðrik hugsar um kostnaðinn í persónulegum fórnum segist hann ekki sjá eftir því að taka þessa ákvörðun.

„Hefði ég brotið allar brýr að baki mér hefði ég trúlega komist langleiðina á toppinn. Það var líka veruleg forsenda fyrir þessari ákvörðun að litlir peningar voru í skákinni á þessum tíma. Hefðu þeir verið í líkingu við þær upphæðir sem sjást í skákheiminum í dag hefði maður kannski hugsað sig svolítið um og verið sæmilega öruggur um að hafa ofan í sig og sína.

Sovétmenn höfðu mikla yfirburði á skáksviðinu á þessu tímabili en héldu í rauninni atvinnumennsku í skákinni niðri. Skákin var þjóðaríþrótt hjá þeim – og er reyndar enn – og allir sovéskir skákmeistarar sem eitthvað kvað að þáðu laun hjá ríkinu – voru í rauninni opinberir starfsmenn. Það mætti því kalla þetta dulbúna atvinnumennsku.

Sovétmenn lögðust gegn því leynt og ljóst að miklir peningar kæmu í skákina og há verðlaun – og þóknun til skákmeistara fyrir þátttöku í skákmótum var þeim lítið áhugamál. Skákin var víst of göfug fyrir slíkt. Þegar sovémeistarar tefldu utan landssteinanna var engin áhersla lögð á það af þeirra hálfu að há verðlaun væru í boði. Þetta hét að þeir væru að útbreiða gospelið um yfirburði kommúnismans. Þeir voru góðir í skák vegna þess að það var kommúnisminn sem ól upp þessa snillinga.“

Fischer breytti skákinni

Atvinnumennska og peningaflæði í skákheiminum gerbreyttist eftir að Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer rauf einokun Sov- étríkjanna og vann Rússann Boris Spasskí í heimsmeistaraeinvíginu á Íslandi 1972.

„Fischer gerði kröfur um stórar fjárupphæðir í verðlaun og þátttökuþóknun og fékk. Við þetta dofnuðu áhrif Sovétríkjanna, en því miður fékkst Fischer ekki til að tefla meira þó miklar fjárfúlgur væru í boði. Í einvíginu við Karpov 1975 um heimsmeistaratitilinn gerði hann kröfu um að áskorandinn yrði að sanna yfirburði sína með tveggja vinninga mun í stað eins.

Auðvitað er réttlátt að heimsmeistari njóti vissra forréttinda þegar hann ver titil sinn en Alþjóðaskáksambandið féllst ekki á þessar kröfur. Karpov varð því heimsmeistari án þess að tefla við Fischer og við það dró heldur úr peningaflæðinu í skákheiminum.

Margar tilraunir voru gerðar til að fá Fischer til að tefla á nýjan leik en allt kom fyrir ekki þótt milljónir dala væru í boði og smám saman festist hann í þessu fari. Þegar maður er kominn á toppinn kemst maður ekki lengra, nema reyna að ná sambandi við Guð. Fischer gekk í sértrúarsöfnuð sem mér skilst að hafi tekið drjúga prósentu af tekjum hans.“

Þeim Fischer og Friðrik varð vel til vina en Friðrik er átta árum eldri.

„Ég hitti hann fyrst þegar hann var fimmtán ára í Portoroz og fannst hann nokkuð ungæðislegur. Hjá honum eru hlutirnir annað hvort hvítir eða svartir. Annað hvort ertu góður eða slæmur, eins og hann talar nú um gyðinga og síonista, en sjálfur er hann gyðingur.

Þetta er einhver sjálfseyðingarhvöt. Ég varð þess var að Fischer var haldinn djúpum ótta við að tapa og það virtist oft valda honum miklum kvíða. Ég man að ég sagði einhvern tímann við hann: „Bobby, það getur nú varla verið svona slæmt þótt þér yrði á að tapa einni skák!“ En þá sagði Fischer: „Ja, þú getur talað svona, en ég get ekki leyft mér það!“

Fischer í nauðum staddur

Í aðdraganda þess að íslensk stjórnvöld hafa boðið Bobby Fischer landvistarleyfi á Íslandi, segist Friðrik ekki hafa beitt sér sérstaklega í því máli.

„Það varð einhver að brjóta ísinn og mér fannst það mjög gott hjá Davíð Oddssyni að bjóða honum dvalarleyfi hér, enda Fischer hluti af okkar sögu. Hann varð heimsmeistari hérna á Íslandi og segja má að hann hafi komið Íslandi á heimskortið. Maðurinn er í nauðum staddur og honum virðast allar bjargir bannaðar. Af mannúðarástæðum er þetta fyllilega réttlætanlegt og vonandi tekst að koma honum úr þessum vanda.“

Aðspurður segir Friðrik vel koma til greina að taka skák við Fischer ef Japanar sleppa honum einhvern tímann úr prísundinni.

„Fischer er reyndar orðinn leiður á venjulegri skák og talar mest handahófsskák eða random chess. Þá er taflmönnum í aftari röð raðað upp af handahófi og skákin teflist þá með nokkuð öðrum hætti en venjuleg skák þótt manngangurinn sé sá sami. Hins vegar kemur þetta í veg fyrir að menn geti fært sér í nyt alla teóríuþekkinguna sem er að verða nánast yfirþyrmandi, og það er helsti kosturinn við þessa nýju tegund skákar.

Ég er lítt spenntur fyrir þessari skák, enda skákin mjög gamalt fyrirbæri sem hefur verið að þróast í um 1500 ár. Mönnum hefur líka stundum þótt skákin vera orðin of einföld fyrir sig og frægt dæmi um það er þegar Capablanca, sem var heimsmeistari á árunum 1921 til 1927, stakk upp á að mönnunum yrði fjölgað upp í 40 í stað 32 og reitunum upp í hundrað í stað 64. Árið eftir tapaði hann heimsmeistaratitli sínum í hinni hefðbundnu skák, og eftir það heyrðist ekkert meira af tillögum hans um að breyta taflinu.“

FIDE míní-útgáfa Sameinuðu þjóðanna

Eftir lögfræðipróf hóf Friðrik störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en síðan gerðist hann forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE), sem var gott meira en fullt starf.

„Það var vissulega tvíbent að takast þetta starf á hendur. Það þýddi að ég varð að hætta að tefla en þá var ég kominn á talsvert flug í skákinni og átti ágætis tímabil sem ég kalla annan kapítula, frá 1975 til 1978. Sá fyrri var milli tvítugs og þrítugs. En ég sé ekki eftir neinu og starf forsetans víkkaði sjóndeildarhringinn.

Hins vegar var erfitt að hætta og auðvitað alltaf spurning hvort ég átti að fallast á að gegna þessu embætti, sem ég þó gerði. Það var gaman en líka erfitt. Þetta var eins og míní-útgáfa af Sameinuðu þjóðunum; alveg sömu blokkirnar og mikil pólitík.“

Haustið 1984 tók Friðrik við starfi skrifstofustjóra Alþingis, en um þessar mundir lýkur starfsdögum hans þar. Sjálfur segist hann ekki hafa íhugað þann möguleika að setjast á þing.

„Ég tel ekki að það sé starf sem ég sé beinlínis lagaður fyrir. Ég hef auðvitað verið í góðri aðstöðu til að fylgjast með störfum þingmanna og geri mér ljósa grein fyrir hvað það útheimtir. Þetta er mjög krefjandi starf og ég held að almennt geri menn sér ekki fulla grein fyrir því hve gífurleg vinna felst í því að vera þingmaður. Þeir eru undir smásjánni og geta sjaldnast ráðið sínum tíma á þann hátt sem þeir helst kysu sjálfir.“

Þegar hann er spurður hvar hann er staddur í pólitík, segist hann lítt hafa flíkað því enda Alþingi ekki heppilegur starfsvettvangur til að flíka slíku af augljósum ástæðum.

EES og fjölmiðlalögin eftirminnilegust

Eftirminnilegast frá Alþingisárunum segir Friðrik vera ýmsar snarpar innanhússorrustur eins og til dæmis EES-málið og fjölmiðlafrumvarpið.

„EES-málið var mikill bardagi á sínum tíma og gekk svo langt að forseti Íslands stóð frammi fyrir áskorunum um það að skrifa ekki undir lögin. Og núna síðastliðið sumar gerðist það, sem er líka mjög eftirminnilegt, að forsetinn hafnaði því að staðfesta fjölmiðlalögin, sem auðvitað skapa alveg nýjar aðstæður á vettvangi stjórnmálanna. Það er yfirleitt alltaf eitthvað að gerast á Alþingi og þar finnast virkilega mælskir og skemmtilegir menn sem gaman er að hlusta á,“ segir Friðrik og bætir við að margir séu glettilega góðir skákmenn líka.

Gæfumaður á tímamótum

Stórmeistarinn stendur á tímamótum. Hann verður sjötugur 26. janúar og ætlar í tilefni afmælisins í skemmtisiglingu um heimshöfin.

„Ég hef yndi af ferðalögum, sem og af lestri góðra bóka, klassískri tónlist og mýmörgu öðru. Ég verð ekki í neinum vandræðum að finna eitthvað að dútla við. Þar verður af nógu að taka. Ég er mikið hvattur til að koma aftur í skákina og tefla á mótum. Það væri nokkurt átak en gæti vel farið svo að ég tefldi opinberlega á ný.

Nú svo er það náttúrlega fjölskyldan; barnabörnin eru orðin fimm. Og lögfræðin mun halda áfram að verða mér uppspretta fróðleiks og ánægju. Friðrik telur sig hafa verið gæfusaman í lífinu.

„Þegar á heildina er litið get ég vel við unað, en maður má ekki vera heimtufrekur. Maður getur alltaf sagt að maður hefði átt að haga sér öðruvísi eða taka á málum á annan hátt, því auðvitað er maður alltaf að þroskast. Ég hef lifað tiltölulega viðburðaríku lífi; á yndislega fjölskyldu og marga góða vini. Meira verður ekki farið fram á.“

Merki: