1967: Hugmyndaflugið skiptir mestu máli

Hugmyndaflugið skiptir mestu máli

 

Viðtal í Vísi 14. desemer 1967.

Menn eru tilneyddir að leita einhverra andlegra afdrepa þessa snjóþungu vetrardaga til þess að verjast þunglyndi. Þá taka sumir upp á því að tefla skák, til þess að stöðva eirðarleysið. Þessa dagana verður skáklíf hér á landi hvað blómlegast. Menn gera þetta sér til dundurs hvarvetna á landinu. En ævintýri íslenzkrar skáklistar, Friðrik Ólafsson, situr heima og les lög undir lokapróf í vor.

Mörgum leikur forvitni á að vita hvað Friðrik hyggst fyrir að loknu námi, ætlar hann að fara að „praktísera“ í lögfræðinni? Eða ætlar hann að snúa sér meira að skákinni? Það var meðal annars með þessar spurningar í huga að blaðamaður Vísis öslaði snjóinn vestur í bæ til þess að ræða við stórmeistarann.

Annars ber Friðrik ekki stórmeistarann utan á sér, þegar hann vísar mér til stofu og býður upp á kaffisopa. Þvert á móti brosir hann af hinni mestu hógværð. Þannig þekkja hann víst flestir. Hann hefur lagt undir sig stofuborðið við júristanámið. Þar hefur verið raöaö bunkum af vélrituðum blöðum, sem ég gizka á að eigi eitthvað skylt við lögfræði.

Hins vegar dylst engum að þarna býr skákmaður. Þar stendur meðal annars vegleg „mubla“ skákborð frá Kúbu, sérstök heiðursgjöf frá einræðisherranum Kastro og á því standa tafl menn af sama þjóðerni — einnig gjöf frá Kastro eftir Ólympíumótið fræga í fyrra. Þrjár hillur á bakvegg fylla sjaldséðir skrautskákmenn — amerískir. Talið berst fyrst að alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu að vori.

— Þeir hafa komið þessu móti þannig fyrir að ég geti tekið þátt í því, segir Friðrik, ég verð þá búinn í prófum — það þýða engin undanbrögð. En ég býst ekki við neinu sérstöku. Ég kem til mótsins eins og vofa úr prófunum.

Hefurðu eitthvað sinnt skákinni að undanförnu?

— Lítið síðan á Ólympíumótinu — svo tók ég jú þátt í skákmóti í Dundee í júlí í sumar, en ég reyni að fylgjast með eftir því sem kostur er. Fletti skáktímaritum og því um líkt, þegar tími vinnst til.

Ætlarðu að snúa þér að lögfræðinni, þegar þú ert búinn með prófið í vor eða taka til við skákina af krafti?

— Ég býst við að ég starfi eitthvað við lögfræði, ef ég næ þessu prófi, segir hann og hlær við. Þetta próf er unnið fyrir gýg ef maður aflar sér ekki reynslu að því loknu. Hitt er svo nokkuð sem maður hefur alltaf á bak við eyrað. Alla vega býst ég við að tefla á Ólympíumótum og öðrum slíkum fyrir landsins hönd og á einhverjum mótum hér heima.

Það er að sjálfsögðu freistandi að reyna sig aftur í heimsmeistarakeppni. En ég myndi taka það allt öðrum tökum ef út í það færi heldur en áður. Ég er orðinn reynslunni ríkari og veit betur hvernig ég myndi haga mér gagnvart slíku móti. Ég mundi ekki leggja út í það nema með tveggja ára undirbúning að minnsta kosti.

Hvernig fara skákmenn að því að halda sér í þjálfun utan keppni?

— Fyrst og fremst meö því að athuga sinn eigin skákstíl og reyna að endurbæta hann, athuga skákstíl annarra, sjá hvernig aðrir tefla.

Hefur ekki orðið gífurleg þróun í skáklistinni seinustu árin — nýjar leiðir, byltingar?

— Ekki kannski byltingar, en það eru sífellt að koma fram endurbætur til dæmis í byrjunum. Menn fara að tefla byrjanir, sem ekki voru í náðinni áður og með góðum árangri, endurbæta þær, það þarf ekki alltaf mikið til.

Hvaða skákmann myndirðu telja nýstárlegastan í dag?

— Það er ekki gott að meta. Larsen fer til dæmis mikið sínar eigin leiðir. Hann hefur viðað sér geysimiklum fróðleik, og auk þess fundið upp á ýmsu sjálfur. Hann fer ekki mikið eftir teoríum. Enda er það nú svo að þeir skákmenn, sem komnir eru á toppinn núna tefla af það mikilli þekkingu að það borgar sig ekki að þræða þekktar leiðir. Það skiptir miklu að átta sig á sjálfum sér — þekkja sjálfan sig, eins og segir þar, þekkja veikleika sína og sínar sterku hliðar. Maður reynir alltaf ósjálfrátt að beina skákinni inn á vissar brautir, þó að maður viti ekki í hverju það liggur.

Heldurðu að skákmenn hafi gott af því að taka sér svona hlé eins og þú gerir?

— Það fer sjálfsagt eftir því hvernig menn eru gerðir. Ef menn elska þetta út af lífinu geta þeir haldið áfram að tefla hvíldarlaust.

Áttu bágt með að slíta þig frá því?

— Þetta er alltaf meira og minna í kollinum á manni, því skýtur upp þegar minnst varir.

Heldurðu að lögfræðin eigi ekki eftir að hafa áhrif á skákina?

— Ef ég fer aftur út í skákina býzt ég við að ég tefli með annarri tilfinningu, eftir að ég er búnn með þetta próf. Það veitir manni vissa öryggistilfinningu. Það verður gott að geta haft þetta embættspróf að bakhjarli ef miður skyldi fara í skákinni.

Komið þið ekkert saman til þess að tefla — reglulega — þessir sterkustu skákmenn hér á landi?

— Það hafa allir svo mikið að gera í þessu landi eins og þú veizt. Skákmennirnir, ekki síður en aðrir. Ingi er að ljúka námi, Guðmundur Pálmason er mjög upptekinn í sínu starfi og þannig er um fleiri.

Kemur landsliðið ekki saman til æfinga á næstunni?

— Það stendur til að byrja æfingar eftir áramótin eða einhverntíma í vetur. Væntanlega verða þá valdir menn, sem koma til greina við næsta Ólympíumót, sem haldið verður í Sviss næsta haust í október — nóvember. Það væri æskilegt að byrja þær æfingar sem fyrst, því fyrr sem byrjað er þeim mun betri árangurs má vænta.

Kemur þú ekki með að tefla eitthvað í vetur þrátt fyrir námið?

— Ég reikna alla vega með að tefla fáein fjöltefli.

Er erfiðara að tefla fjöltefli en þreyta venjulega kappskák óæfður?

— Það gengur miklu fljótar fyrir sig, ef maður er í æfingu og það kostar ekki eins mikla áreynslu. Það er sama lögmál, sem gildir og hjá píanóleikaranum — það verður að stunda fingraæfingarnar reglulega. Hins vegar er miklu erfiðara að tefla kappskák en fjöltefli. Þar kemur keppnin líka til. Það er miklu minni spenna í fjölteflinu og það er ekki eins mikið atriði að vinna, ekki eins mikið, sem liggur undir.

Finnst þér skákáhuginn meiri hér á landi núna en þegar þú varst að byrja?

— Það hefur alltaf verið áhugi á skák hérna. Það var mjög mikið skáklíf hér um það leyti sem ég byrjaði að tefla. Ég hreyfst einmitt með þeirri öldu sem þá gekk yfir. Þetta var um það leyti, sem Yanofsky-mótið var haldið hérna, ’47 minnir mig. Þá voru upp á sitt bezta menn eins og Baldur Möller, Guðmundur S. Guðmundsson, Eggert Gilfer, Ásmundur Ásgeirssonog fleiri.

Ég held að þegar á heildina er litið sé styrkleiki skákmannanna okkar nú ekkert meiri en þá var, þegar frá eru taldir þeir allra beztu núna. Það hefur alltaf háð mikið íslenzku skáklífi, hvað Iítið hefur komið út af skákbókum fyrir reynda skákmenn. Þær bækur, sem gefnar hafa verið út um skák hér eru flestar fyrir byrjendur.

En hins vegar vantar alveg bækur, sem gætu komið að gagni fyrir menn sem eru langt komnir. Skákmenn eru ekki allir færir um að tileinka sér erlendar bækur. Auk þess eru beztu blöðin um þetta efni á málum, sem eru ekki aðgengileg fyrir okkur Íslendinga. Það er þess vegna hætt við, þegar menn eru búnir að ná vissum styrkleika, að þeir staðni, vegna þess að þeir geta ekki aflað sér meiri þekkingar. Það þyrfti að gefa út fræðirit um skák á íslenzku ef einhvers árangurs á að vænta.

Nú um jólin kemur út á vegum tímaritsins Skákar bók, sem fjallar um miðtaflið á fræðilegan hátt, og er hún ætluð mönnum, sem komnir eru langt í skákinni, þessi bók er eftir þekktan rússneskan skákmann. Það mætti einnig taka fyrir endataflið og vissa þætti taflsins — strangfræðilega. Slík rit nálgast hrein vísindi að segja má, þar sem hvert atriði taflsins er skilgreint útaf fyrir sig og reynt að raða hlutunum í ákveðin kerfi.

Það er furðulegt hve hægt er að ganga langt í því að skilgreina hluti, sem eru óáþreifanlegir. Hins vegar hlýtur hugmyndaflugið alltaf að vera það sem mestu máli skiptir í skák, þegar allt kemur til alls, en lærdómur og úthald gegna þar stóru hlutverki. Skákmaður getur litlu áorkað hversu hugmyndaríkur sem hann er, og hæfileikamikill, ef hann hefur ekki „energi.“ Margir góðir skákmenn hafa lýst þyí yfir að það sem lægi að baki því að ná góðum árangri í skák væri 10% hugvit og 90% vinna.

Það hefur að sjálfsögðu orðið mikil þróun í skák seinustu árin, eins og við vorum að tala um hér á undan. Það er hægt að ná æðilangt með því að stúdera skák og lesa sér til. Menn geta jafnvel staðið í hinum beztu skákmönnum, þó að þeir fljóti ekki á öðru en þekkingunni. Þetta stafar af því, hve mikjð hefur verið gefið út af skákritum á seinustu áratugum — hreinum vísindaritum.

Keres, sem nú er búinn að tefla í ein fjörutíu ár, sagði það einhverntíma nýlega að það væri orðið erfiðara að vinna miðlungsskákmenn en hér áður fyrr. Þetta stafar af þessari miklu skákþekkingu manna.

Svo við snúum okkur aftur að íslenzku skáklífi…

— Já, ég er ekki í neinum vafa um að hér er miklu öflugri skákstarfsemi en áður, einkum meðal æskunnar og árangurinn hefur þegar sýnt sig. Það er stórum áfanga náð með félagsheimilinu, sem skákmenn hafa nú eignazt við Grensásveg. Það er mikill munur að hafa vissan stað til að leita til þegar á þarf að halda Þar myndast grundvöllur fyrir fasta, skipulagða skákstarfsemi.

Svo að lokum Friðrik, er er nokkur „praktískur“ ávinningur af því að stunda skák?

— Ég veit það ekki. Það er sagt að skák skerpi hugsunina og einbeitinguna. Hins vegar er hætt við því að skák komi niður á öðru, sem maður tekur sér fyrir hendur. Hún vill kannski verða ríkjandi í hugum þeirra, sem gefa sig mikið að henni. Hins vegar held ég að krakkarnir geri margt verra en tefla skák og sú starfsemi, sem nú er unnin á vegum taflfélaganna með unglingum ætti að gera sitt til þess að leysa „vandamál“ unga fólksins.

Merki: