2003: Friðrik meðal keppenda á fyrsta skákmótinu í sögu Grænlands

Friðrik Ólafsson var meðal keppenda þegar Hrókurinn efndi til fyrsta skákmótsins í sögu Grænlands, í Qaqortoq 28.-30. júní 2003. Ómar Óskarsson ljósmyndari og blaðamaður Morgunblaðsins fjallaði ítarlega um mótið í Mbl. 13. júlí og fer grein hans hér á eftir.

Friðrik Ólafsson og Luke McShane tóku eina létta skák í skipsferðinni með bátnum Tikeraaq frá Narssarssuaq á leið til Grænlandsmótsins í Qaqortoq.
Friðrik Ólafsson og Luke McShane tóku eina létta skák í skipsferðinni með bátnum Tikeraaq frá Narssarssuaq á leið til Grænlandsmótsins í Qaqortoq.

Grænlendingar kalla Qaqortoq stundum „græna bæ“ Grænlands. Qaqortoq þýðir sá hvíti og  mætti því kalla bæinn Hvítanes. Bærinn er afar fallegur og sérstæður. Litskrúðug húsin teygja sig upp um allar hlíðar frá höfninni.

Mikill menningarbragur er á Qaqortoq. Bærinn er helsta menntasetur Suður-Grænlands. Þar er að finna verslunarskóla, menntaskóla, iðnskóla og lýðháskólann „Sulisartut Höjskoliat“, sem Kaj Lyberth veitir forstöðu, en hann er kvæntur Eddu Björnsdóttur sem ásamt systur sinni Sigríði rekur „Restaurant Napparsivik“ afar vinalegan veitingastað í gömlu dönsku bindingsverkshúsi frá 19. öld.

Skákmótið var minningarmót um Íslandsvininn mikla Daniel Willard Fiske sem kenndi Íslendingum nútímaskák á ofanverðri 19. öldinni. Í sama anda vildi skákfélagið Hrókurinn kynna skákgyðjuna fyrir Grænlendingum, þar eð skák hefur lítið verið stunduð þar til þessa. Til að undirbúa Grænlendingana sem best hélt danski stórmeistarinn Henrik Danielsen 3ja daga skáknámskeið fyrir hátt í 30 manns í Qaqortoq áður en mótið hófst.

Hvítabjarnarárásin

Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.
Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.

Eftir tveggja tíma flug frá Reykjavík lenti um 80 manna hópur Hróksfélaga og fylgdarliðs í Narssarssuaq. Siglt var þaðan áleiðis til Qaqortoq á bátunum Sarangaq og Tikeraaq, sem var sá minni og hraðskreiðari. Sjóferðin tók á fimmtu klukkustund og skákstemning mikil um borð.

Halldór Blöndal og Einar S. Einarsson tefldu nokkrar villtar skákir á tölvu. Þeir Friðrik Ólafsson, Ivan Sokolov og Luke McShane blönduðu sér í málin og hófst nú rannsókn á nýrri byrjun sem strax var kölluð „Polar Bear Opening“, eða Hvítabjarnarárásin.

Á meðan útskýrði Steffen skipstjóri fyrir Reginu Pokornu hegðun og ferðalög hvítabjarna um landið og fullvissaði hana um að á þessum árstíma héldu þeir sig fjarri mannabyggðum. Rannsóknum á hvítabjarnarafbrigðinu var ekki fulllokið þegar siglt var inn höfnina í Qaqortoq. Á bryggjunni tóku Jonathan Motzfeldt þingforseti og helstu frammámenn í Qaqortoq á móti Hróksmönnum og fylgdarliði. Urðu miklir fagnaðarfundir, ekki sízt þegar þeir þingforsetar hittust.

Haldið var nú til gistingar og flestum komið fyrir í heimavistum framhaldsskóla bæjarins.

Hátíðin sett

2222 2 087Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Hátíðin hófst með ræðuhöldum helstu frammámanna í Qaqortoq og Halldór Blöndal þakkaði frábærar móttökur og óskaði Grænlendingum alls hins besta í skáklífi framtíðarinnar.

Eftir ræðuhöldin voru skemmtiatriði þar sem fram komu m.a. Barnakór Hróksins undir stjórn hinnar fjölhæfu Arnarak Patriciu Kristiansen og trumbudansarinn Jeremias Saaiunuinnaq.

Eftir setningarathöfnina var tekið til við skákina. 50 skákmenn frá 10 þjóðlöndum hófu taflið í menningarhúsinu í Qaqortoq, sem er skammt frá Lýðháskólanum, þar af 20 Grænlendingar og 20 Íslendingar.

Í fystu umferð fengu ýmsir miðlungs og veikari skákmenn að spreyta sig gegn stórmeisturum. Motzfeldt lenti gegn Sokolov, en Halldór Blöndal gegn Predrag Nikolic. Hinn ungi og efnilegi 10 ára gamli Sverrir Ásbjörnsson lenti gegn Friðriki Ólafssyni. Sverrir mætti til mótsins ásamt systkinum sínum, Ingvari og Ingibjörgu. Engin óvænt úrslit urðu í fyrstu umferð.

Grænlandsskák 422Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Í annarri umferð sigraði Jóhann Hjartarson Sævar Bjarnason og hinn 12 ára gamli Ingvar Ásbjörnsson náði sínum fyrsta vinningi gegn Paul Cohen frá Bandaríkjunum. Bróðir hans, Sverrir, 10 ára, sigraði Bjarke Thorsen frá Grænlandi.

Í þriðju umferð voru stórmeistararnir farnir að lenda saman; Sokolov vann Danielsen, Jóhann vann Reginu Pokorna en Friðrik Ólafsson tapaði fyrir hinum unga Luke McShane frá Englandi. Guðfríður Lilja vann Olav Henriksen og Ingvar krækti sér í annan vinning og lagði Kristjón Guðjónsson að velli.

Eftir fyrsta daginn og þrjár umferðir stóðu leikar þannig að Nikolic, Jóhann, McShane, Sokolov og Færeyingurinn Flovin Þór Næs voru með fullt hús stiga. Næstur kom Stefán Kristjánsson með tvo og hálfan vinning. Ingvar Ásbjörnsson og Halldór Blöndal höfðu krækt sér í tvo vinninga.

Majorkaveður

Skák á GrænlandiÁ öðrum keppnisdegi var brakandi sól og allheitt í veðri. Hvergi var skýhnoðra að sjá þótt vel væri leitað. Flugurnar áttu það til að hrekkja suma keppendur þegar þeir fóru út að kæla sig milli umferða. Flugnanetin seldust eins og heitar lummur.

Áfram var haldið og þau stórtíðindi gerðust í fjórðu umferðinni að hinn 19 ára gamli Luke McShane lagði stigahæsta mann mótsins Ivan Sokolov, en hin níu ára gamla Ingibjörg Ásbjörnsdóttir landaði vinningi gegn Peter Carlo Gudmundsen. Eftir umferðina voru eftir tveir keppendur með fullt hús, þeir Luke McShane og Flovin Þór Næs, næststigahæsti maður Færeyja, sem reyndar er íslenskur í móðurættina og talar íslensku ágætlega.

Í fimmtu umferðinni lentu saman efstu menn mótsins, en okkar maður Flovin Þór fór halloka fyrir undrabarninu frá Englandi. Bosníumennirnir Nikolic og Sokolov semja um skiptan hlut, en Jóhann Hjartarson vann Hannes Hlífar og er þar með farinn að blanda sér í toppbaráttuna.

Halldór Blöndal sýnir mikið keppnisskap og leggur Kristjón Guðjónsson að velli. Hinn ungi og efnilegi Ingvar Ásbjörnsson sigraði Steffen Lynge á meðan bróðirinn Sverrir lagði Kristian Isaksen.

Íslenska vonin

Fyrir sjöttu umferðina voru Íslendingar allvongóðir, Jóhann ekki nema hálfum vinningi á eftir undrabarninu frá Englandi og virtist til alls líklegur. Jóhann hafði hvítt gegn McShane sem beitti fyrir sig Sikileyjarvörn. Staðan var vænleg hjá Jóhanni og eftir 18. leik átti hann eftir tæpar 19 mínútur, en McShane tæpar níu. Þótti nú sýnt að okkar maður Jóhann væri líklegur til að leggja undrabarnið, enda undrabarn sjálfur löngu áður en hann gerðist virtur lögfræðingur.

Eftir flókna stöðubaráttu varð Jóhann þó að játa sig sigraðan með nægan tíma en gjörtapaða stöðu þegar McShane átti 19 sekúndur eftir. Þar fauk möguleikinn á íslenskum sigri út um gluggann.

Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.
Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.

Sævar náði jöfnu gegn Sokolov, Henrik Danielsen sigraði Stefán Kristjánsson og Friðrik tapaði fyrir Róberti Harðarsyni. Æsilegasta skák umferðarinnar var þó viðureign Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Halldórs Blöndal þar sem bæði höfðu kóng og hrók en Lilja var peði yfir. Barðist hún grimmt við að vekja upp drottningu í miklu tímahraki, en Halldór margbauð jafntefli, sem Lilja þáði þegar hún átti eina sekúndu eftir. Höfðu menn á orði að frammistaða Halldórs myndi tryggja honum sæti á þingi næsta kjörtímabil.

Að loknum öðrum keppnisdegi og sex umferðum voru línur teknar nokkuð að skýrast. Luke McShane var einn efstur með sex vinninga og fullt hús, en næstir komu Predrag Nikolic og Nick de Firmian með fimm vinninga. Jóhann, Róbert og Hinrik Danielsen voru með fjóran og hálfan, en stigahæsti maður mótsins Ivan Sokolov með fjóra vinninga ásamt mörgum öðrum og ekki beint sáttur við sinn hlut.

Lokadagur mótsins

Á lokadegi mótsins hélt Englendingurinn ungi sigurgöngunni áfram í sjöundu umferðinni og lagði nú Nikolic að velli. Henrik Danielsen og de Firmian skildu jafnir, Jóhann vann Róbert og Sokolov vann Reginu.

Jonatan gefur fyrirmæli á veitingastað í Qaqortoq.Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Sævar vann Flovin, en Guðfríður og Hollendingurinn Frank Wutz skildu jöfn. Hjörtur Jóhannsson sigraði Ingvar, en Grænlendingurinn Hans Christian Dahl sigraði Janus Chemnitz Kleist og var þar með orðinn efstur heimamanna með fjóra vinninga.

Luke McShane og Bandaríkjamaðurinn Nick deFirmian tefldu saman í áttundu og næstsíðustu umferð. Þetta var einhver æsilegasta skák mótsins og tímahrakið algjört og sviptingarnar eftir því. McShane tilkynnti að Nick hefði fallið þegar hann átti sjálfur tvær sekúndur eftir, en gat ekki krafist vinnings því hann átti eftir kónginn einan eftir gegn peði og kóngi deFirmians. Skákin dæmdist því jafntefli og þar með var ljóst að Luke McShane hafði unnið Grænlandsmótið.

Þótt Jóhann ynni Sokolov í 58 leikja baráttuskák gat hann einungis náð McShane í vinningum, en gat ekki náð honum í stigum, þ.e. samanlögðum vinningafjölda andstæðinga. Nú mættust þingforsetarnir og sömdu um skiptan hlut. Önnur  helstu úrslit urðu þau að Nikolic vann Sævar, Tomas Oral vann Henrik Danielsen, Hannes Hlífar vann Stefán og Frank Wuts vann Friðrik Ólafsson, Ingvar Ásbjörnsson vann Ole Lyremark, Sverrir Ásbjörnsson vann Frank Jörgensen og Steinunn Blöndal vann Ingibjörgu Ásbjörnsdóttur.

Fyrir lokaumferðina voru Luke McShane með sjö og hálfan, Jóhann með sex og hálfan, en Nikolic, de Firmian og Tomas Oral með sex vinninga.

Úrslitin ráðast

Kvennabarátta einkenndi lokaumferðina. Þær stöllur Guðfríður Lilja og Regina Pokorna voru báðar með fimm vinninga og efstar meðal kvenna og lentu þær saman, þannig að þær tefldu hreina úrslitaskák um hvor þeirra yrði kvennameistari Grænlandsmótsins. Guðfríður barðist vel, en Reginu tókst að snúa á hana áður en yfir lauk.

Luke McShane vann Tomas Oral, Jóhann vann de Firmian, Nikolic vann Hannes Hlífar, Sævar vann Henrik Danielsen, Stefán vann Friðrik Ólafsson. Hjörtur Jóhannsson vann Espen Andersen meðan systirin Sigurlaug vann Mikael Kofoed. Bæði eru þau börn Jóhanns Hjartarsonar stórmeistara.

Bendó leiðir Luke McShane að ræðupúltinu. Sigurvegarar þurfa að kunna að koma fyrir sig orði.Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Þegar upp var staðið reyndist undrabarnið Luke McShane ekki hafa tapað nema hálfum vinningi og sigraði því á mótinu með átta og hálfum vinningi af níu mögulegum.

Jóhann Hjartarson náði öðru sæti með sjö og hálfan vinning. Nikolic varð þriðji með sjö.

Í 4.–11. sæti með sex vinninga urðu Sokolov, de Firmian, Flovin Þór, Oral, Regina, Róbert, Wuts og Sævar. Í 12.–13. sætu voru Hannes Hlífar og Stefán Kristjánsson.

Meðal þeirra sem náðu 14.–25. sæti með fimm vinninga má nefna Hans Christian Dahl og Steffen Lynge, sem náðu bestum árangri Grænlendinga. Í þessum hópi var einnig Guðfríður Lilja, hinn efnilegi Ingvar Ásbjörnsson og Hjörtur Jóhannsson, 15 ára.

Friðrik og Áskell Örn Kárason náðu fjórum og hálfum, en meðal þeirra sem náðu fjórum vinningum voru Halldór Blöndal, Steinunn Blöndal, og Sverrir Ásbjörnsson, en systir hans Ingibjörg krækti sér í þrjá vinninga. Hin 10 ára gamla Sigurlaug Jóhannsdóttir var síðan í góðum félagsskap Jonathans Motzfeldts með tvo og hálfan vinning.

Lokahófið

Strax um kvöldið var öllum sem nærri skákmótinu höfðu komið boðið til stórveislu í íþróttahöllinni. Boðið var upp á glæsilegt hlaðborð með lamba- og hreindýrakjöti ásamt meðlæti og drykkjarföngum.

Steffen Lynge var útnefndur forseti skáksambands Grænlands á lokahófi Grænlandsmótsins. Steffen tefldi á Grænlandsmótinu og náði bestum árangri Grænlendinga ásamt Hans Christian Dahl, þeir hlutu 5 vinninga á mótinu. Hér tekur hann við gjöf frá skákfélaginu Hróknum í tilefni dagsins, en það voru um 40 töfl og klukkur ásamt skákbókum.
Steffen Lynge var útnefndur forseti skáksambands Grænlands á lokahófi Grænlandsmótsins. Steffen tefldi á Grænlandsmótinu og náði bestum árangri Grænlendinga ásamt Hans Christian Dahl, þeir hlutu 5 vinninga á mótinu.
Hér tekur hann við gjöf frá skákfélaginu Hróknum í tilefni dagsins, en það voru um 40 töfl og klukkur ásamt skákbókum.

Steffen Lynge, formaður skákklúbbsins í Qaqortoq, gekk í ræðustól og tilkynnti að grænlensku skákfélögin fimm í Qaqortoq, Nuuk, Narssaq, Aasiat og Maniitsoq hefðu ákveðið að mynda með sér landssamtök: Skáksamband Grænlands.

Hrafn Jökulsson gekk í púltið og þakkaði öllum sem lagt höfðu hönd á plóginn að gera mót þetta að veruleika og færði hinu nýja Skáksambandi að gjöf öll þau töfl og annan skákbúnað sem Hrókurinn hafði flutt með vegna mótshaldsins auk skákbóka. Hann hét því enn fremur að vinna að nánari samvinnu þjóðanna á skáksviðinu í framtíðinni.

Síðan var tekið til við verðlaunaafhendingar. Tíu skákmenn hlutu verðlaun og viðurkenningar. Luke McShane hampaði að sjálfsögðu sigurbikarnum sem Árni Höskuldsson gullsmiður lagði til auk glerlistaverks eftir Buuti sem er grænlensk listakona sem var verðlaunagripur frá mótshöldurum, auk peningaverðlauna.

Þeir Grænlendingar sem stóðu sig best, þeir Hans Christian Dahl og Steffen Lynge unnu ferð til Reykjavíkur með gistingu á Hotel Nordica.

Frá lokahófinu
Frá lokahófinu

Hófust nú skemmtiatriði. Barnakór Hróksins, skipaður grunnskólabörnum frá Qaqortoq söng, Jeremias trumbudansari kvað sínar frumsömdu vísur, eflaust í miklum skákanda og þjóðdansarar stigu dans í skrautbúningum.

Síðan var stiginn dans fram eftir nóttu og stukku þeir félagar Steffen Lynge og Kaj Lyberth á svið með rafmagnsgítara sína og sýndu góða takta með danshljómsveitinni. Geysigóð stemning var og gleði mikil í höllinni fram á rauða nótt.

Hraðskák og fjöltefli

Daginn eftir gleðina miklu var efnt til hraðskákmóts í húsnæði Lýðháskólans. Keppendur voru tuttugu og tveir. Ivan Sokolov fékk nú uppreisn æru og sigraði, en næstir komu Henrik Danielsen, Tomas Oral, Predrag Nikolic og Regina Pokorna. Ingvar Jóhannesson, tæknistjóri mótsins, tók nú þátt og sýndi mikla hörku, en náði þó ekki verðlaunasæti, þrátt fyrir að hafa velgt stórmeisturunum hressilega undir uggum. Luke McShane, sigurvegari Grænlandsmótsins, var nú fjarri góðu gamni og floginn áleiðis til til Esbjerg að keppa á móti þar og gekk vel þegar síðast fréttist.

Um kvöldið tefldi Ivan Sokolov fjöltefli  á 20 borðum. Ýmsir gerðu góða tilraun til að standa í kappanum, en leikar fóru svo að engum tókst að sigra hann né ná jafntefli.

Tvískák í Ráðhúsinu

Eftir að fundi vestnorrænu þingforsetanna lauk var komið á tvískákkeppni í Ráðhúsinu í Qaqortoq. Þátttakendur voru samtals átta, skákmeistarar og stjórnmálamenn.

Tvískákin var þannig að fjögur lið tefldu, tveir keppendur í hverju liði einn stjórnmálamaður og einn skákmeistari í hverju liði. Liðsmenn leika síðan til skiptis og mega ekki hafa samráð sín á milli. Friðrik Ólafsson tefldi með Halldóri Blöndal, slóvakíska skákdrottningin Regina Pokorna tefldi með Össuri Skarphéðinssyni, Ivan Sokolov með Jonathan Motzfeldt og Flovin Þór Næs með færeyska lögþingsmanninum Edmund Joensen.

Ráðhússkák 144Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Í fyrstu umferð unnu Jonathan og Sokolov Færeyingana, meðan Halldór og Friðrik unnu Reginu og Össur. Í annarri umferð unnu Halldór og Friðrik Ivan og Motzfeldt, meðan Regina og Össur unnu Færeyingana.

Friðrik og Halldór voru því sigurvegarar tvískákmótsins, þar sem þeir unnu báðar sínar skákir. Skákmót þetta vakti mikla kátínu meðal keppenda og allra viðstaddra.

Með þessari skemmtilegu uppákomu lauk skákhátíðinni miklu í Qaqortoq, sem allir voru sammála um að hefði verið einstaklega vel heppnuð og sérlega ánægjuleg og mannbætandi lífsreynsla fyrir alla sem að henni komu.

Merki: