1978: ,,Í dag unnum við FIDE“

Buenos Aires, 8. nóvember Frá Högna Torfasyni fréttaritara Morgunblaðsins.

Friðrik Ólafsson er orðinn forseti Alþjóðaskáksambandsins. Þetta er dagur Íslands í Argentínu. Annar sigur Íslands í Buenos Aires. Árið 1939 vann Ísland Copa Argentina, Argentínubikarinn. Í dag unnum við Fide.

Þegar þingið kom saman í morgun voru mættir rúmlega 90 fulltrúar eða umboð fjarverandi landa. Loft var lævi blandið, allir frambjóðendurnir voru vongóðir og bjartsýnir um sinn hlut og þrátt fyrir endalausan áróður og ráð og leiðir til að afla einum eða öðrum fylgis, vissi enginn hver staðan var. Almennt var því trúað að Friðrik og Gligoric næðu hærri atkvæðatölu en Rabell-Mendes og því yrði baráttan háð milli þeirra tveggja fyrstnefndu. En margt fer öðruvísi en ætlað er.

Eftir mikið málþóf og eftir lélega fundarstjórn fráfarandi forseta, var loks búið að velja þrjá menn, sem skyldu annast talningu atkvæða. Einn þeirra var Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrum forseti. Skáksambands Íslands, og einn af samverkamönnum Friðriks hér á þinginu. Á milli þess sem kosið var voru umræður um ýmis dagskráratriði en loks komu teljendur fram á sviðið og Harry Golombek, framsögumaður teljenda, las upp úrslitin úr fyrstu atkvæðagreiðslu.

Þau úrslit komu eins og reiðarslag yfir þingheim allan: Rabell Mendes 31 atkvæði, Friðrik Ólafsson 30, Svetozar Gligoric 29 atkvæði og einn seðill ógildur. Menn trúðu vart sínum eyrum, að Gligoric skyldi falla út í fyrstu umferð. Því hafði enginn spáð og menn höfðu almennt búizt við því, að baráttan mundi standa á milli hans og Friðriks.

Ef til vill var það þetta eina atkvæði, sem var ógilt, sem réði þeim örlögum að Friðrik Ólafsson er í dag forseti FIDE því að í raun og sannleika hefði enginn vitað hvor þeirra ætti að falla út á jöfnum atkvæðum, 30 fyrir hvorn. Um það eru reglur FIDE alls ekki nógu ljósar og um þetta atriði var spurt áður en atkvæðagreiðsla hófst, en engin skýr svör fengust og var það vafalaust vegna þess að enginn hafði trú á að þessi staða kæmi upp.

Loftið var rafmagnað í þingsalnum hér á Sheraton. Það tók menn nokkra stund að átta sig á því að Gligoric, sem hafði verið talinn sterkur frambjóðandi, var búinn að vera og í skyndingi urðu menn að söðla um og gera sér grein fyrir því, hvort Rabell Mendes eða Friðrik Ólafsson ætti að verða næsti forseti FIDE.

Nú kom í haginn að fulltrúar Íslendinga höfðu undirbúið jarðveginn. Eins og fram kom í viðtali Mbl. við Gligoric fyrir fáum dögum var hann spurður hvort hann myndi styðja Friðrik ef svo ólíklega tækist til að Gligoric sjálfur félli út við fyrstu atkvæðagreiðslu.

Gligoric sagði þá fullur sjálfstrausts og öryggis að slíkt gæti aldrei skeð. Þýfgaður um það kvaðst Gligoric persónulega myndu styðja Friðrik ef þessi staða kæmi upp, þar sem hann teldi heppilegra að stórmeistari skipaði forsetaembættið. Við þessi orð hefur Gligoric staðið í dag. Hann hefur reynzt heiðursmaður, sem vill standa við orð sín.

Og enda þótt hann segist ekki geta talað fyrir munn stuðningsmanna sinna voru það einmitt þeir, sem færðu okkur sigurinn í dag. Í rauninni er þetta aðeins framhald af þeim viðræðum, sem forystumenn Skáksambands Íslands, Einar S. Einarsson forseti og Högni Torfason varaforseti áttu í fyrrasumar úti í Evien í Frakklandi eftir aukaþing FIDE í Lauzerne í Sviss.

Þá ræddum við við Baturinsky, helzta ráðamann sovézka skáksambandsins og voru Boris Spassky og Marina kona hans túlkar okkar Íslendinganna. Á þessum fundi stungum við upp á því, að Sovétríkin og þeirra menn styddu Friðrik Ólafsson svo fremi Gligoric félli út í fyrstu atkvæðagreiðslu en á móti kváðumst við mymtu bcita okkar áhrifum til þess að stuðningsmenn Friðriks styddu Gligoric, ef báran skvettist á annan veg.

Baturinsky sýndi þessu mikinn áhuga, en vildi ekki segja neitt ákveðið. Í dag bar þetta útsæði ávöxt. Sovézka sendinefndin studdi Friðrik í annarri atkvæðagreiðslu og einnig fleiri stuðningsmenn Sovétríkjanna en við höfðum nokkurn tíman þorað að vona. Sannaðist þar sú vissa okkar að Sovétmenn myndu ekki geta hugsað sér að höfuðstöðvar Alþjóðaskáksambandsins hyrfu úr Evrópu.

Nokkur mál voru tekin til umræðu meðan atkvæði annarrar atkvæðagreiðslunnar voru talin. Menn biðu spenntir í sætum sínum og satt að segja var hugurinn alls ekki við þau mál, sem til umræðu voru. Loks komu teljendurnir þrír fram á sviðið og um leið og við sáum glaðlegt bros og hýran svip Guðmundar vissum við hvernig farið hafði.

Harry Golombek settist niður, tók hljóðnemann og sagði: „Rabell Mendez 34 atkvæði, Friðrik Ólafsson 57.“

Brast þá á langvinnt lófatak og fagnaðarhróp gullu um salinn. Að okkur Íslendingum flykktust menn til að óska okkur til hamingju og einn þeirra fyrstu var heimsmeistarinn í skák, Anatoly Karpov.

Dr.  Dorazil, forseti Skáksambands Austurríkis og forseti þess FIDE-svæðis sem Ísland tilheyrir, færði Einari S. Einarssyni kampavínsflösku, sem hann sagði framlag Austurríkis og V-Þýzkalands til fagnaðarhófsins, en með honum var dr. Kinzel, forseti v-þýzka sambandsins.

Þessi mikli sigur er ekki aðeins sigur okkar vinsæla stórmeistara, heldur og sigur íslenzkrar skákhefðar og viðurkenning þess álits sem Ísland hefur unnið sér í skákheiminum. Mönnum er í fersku minni heimsmeistaraeinvígið í Reykjavík 1972. Hér er fjöldi skákmanna og blaðamanna, sem þar var, og menn minnast einnig Reykjavíkurskákmótsins á sl. vetri. Það kemur greinilega fram í samtölum við menn að Íslandi er treyst til forystu í skákmálum eins og nú hefur bezt sannast í kjöri Friðriks Ólafssonar.

Úrslit forsetakjörsins lágu fyrir klukkan 12:30 í dag að argentínskum tíma (15:30 að íslenzkum tíma) og var þá gert fundarhlé, en frambjóðendurnir höfðu yfirgefið salinn eftir að þeir höfðu flutt stutt ávörp í fundarbyrjun. Um miðjan dag var svo haldið áfram og kom þá Friðrik á fundinn.

Hann flutti þá ræðu og þakkaði það traust og þá sæmd sem sér hefði verið sýnd. Hann kvað sér ljóst að hann hefði axlað þunga byrði og mikla ábyrgð, en með góðum stuðningi og hjálp þeirra sem vildu Alþjóðaskáksambandinu vel, yrði ok hans létt. Var máli hans tekið með langvinnu lófataki.

Einar S. Einarsson forseti SÍ sagði eftir kjör Friðriks: „Þetta er mikill fagnaðardagur fyrir okkur Íslendinga. Við í skáksambandinu höfum unnið sleitulaust í hálft annað ár að því að ná þessum árangri. Skáksambandið studdi framboð Friðriks Ólafssonar af heilum hug og lagði sig allt fram um að ná sigri. Í dag er þessum sigri náð og honum skulum við öll fagna. Fyrir Ísland sem skákland og menningarland er þetta stór dagur. Okkar framlag í skákheiminum hefur hlotið alheims viðurkenningu og fyrir það erum við þakklátir og vegna þess snortnir. Ég óska Friðriki Ólafssyni alls velfarnaðar í hans nýja og vandasama embætti og Skáksamband Íslands fagnar því að þungamiðja skáklífsins í heiminum hefur nú færzt til Íslands.“

Merki: