1956: Fékk ekki harmónikku og sneri sér að skákinni

Fékk ekki harmónikku og sneri sér að skákinni

 

Vikublaðið Gestur 1. tbl. 1956

Hastings er lítil borg í Englandi, vinsæl meðal ferðamanna, og kemst í heimsfréttirnar um jólaleytið ár hvert, er snjallir menn úr heimi skáklistarinnar leiða þar saman hesta sína. Nú nýverið hefur nafn þessarar borgar verið á vörum allra Íslendinga, hvort heldur þeir hafa mætzt og tekið hvorn annan tali í norðangjóstinum, eða setið í hlýjum híbýlum kunningj anna.

Því að — eins og sænska útvarpið ku hafa tekið til orða — í Hastings áttust við frægir meistarar frá Rússlandi og Þýzkalandi með fríðu föruneyti efldra aðstoðarmanna, en einnig kom á vettvang unglingur norðan af Íslandi, með annan ungling sér til halds og trausts — og vann frækilegan sigur!

Friðrik Ólafsson verður tuttugu og eins árs þ. 26. þ. m., og um þessar mundir eru einmitt liðin tíu ár frá því að hann tefldi fyrst á skákmóti.

Kominn í fremstu röð

Átta ára gamall lærði Friðrik mannganginn af föður sínum, Ólafi Friðrikssyni. Ekki segir hann hafa haft neinn sérstakan áhuga fyrir þessari íþrótt í þann tíð, en þrem árum síðar tekur hann aftur til við taflið af auknum áhuga, og mun ástæðan til þess hafa verið sú, að hann fékk ekki harmóniku, sem honum lék mikill hugur á að eignazt.

En eitthvað þurfti að hafa fyrir stafni, og þá var taflið alveg tilvalið. Einhverja getu mun hann fljótt hafa fundið hjá sér, því að skömmu síðar tefldi hann við Baldur Möller í fjöltefli. Friðrik tapaði þeirri skák, en hefur líklega hugsað með sér, að fall væri fararheill, því að árið eftir tekur hann þátt í móti Taflfélags Reykjavíkur, og verður efstur í öðrum flokki.

Þannig er byrjunin á ferli hins glæsilegasta skákmanns, sem við Íslendingar höfum eignazt. Árangur hans á skákmótinu í Hastings hefur skipað honum í röð fremstu skáksnillinga heims, er hann bar sigurorð af stórmeisturum í skáklistinni.

Innilegt þakklæti allra landsmanna

Naumast hefur annars eins gestagangur verið á nokkru heimili í Reykjavik undanfarið eins og heima hjá foreldrum Friðriks, Ólafi Friðrikssyni og Sigríði Símonardóttur. Og hverjum gesti hefur verið tekið opnum örmum og þeim hlýhug, sem sæmdarfólk á til að bera.

Friðrik hefur líka á ýmsan hátt fundið innilegt þakklæti og virðingu allra landsmanna, sem í verki hafa sýnt hug sinn til hans. Strax og úrslitin urðu kunn á mótinu, rigndi yfir hann heillaóskaskeytum héðan að heiman og stórar fégjafir bárust sjóðnum, sem stofnaður hefur verið að tilhlutan stúdentaráðs honum til styrktar.

Og eftir heimkomuna var honum sýndur margvíslegur sómi. Meðal gjafanna, sem Friðrik bárust, er glæsileg marsípanterta, sem nemendur Húsmæðraskólans í Reykjavík bjuggu til fyrir hann, og er skákborð með skákmönnum. — Frændi hans, Magnús Guðbjörnsson, færði honum innbundið eintak af skákblaðinu gamla, Í uppnámi, sem nú er með öllu ófáanlegt. Og er þá fátt eitt talið.

Fósturjörðinni til sóma

Friðrikssjóður hefur, eins og áður er getið, vaxið allmjög eftir afrek Friðriks, og er það vel, því að öllum ber oss skylda til að búa svo um hnútana, að skáksnillingurinn ungi fái gefið sig að list sinni, við þær aðstæður, sem honum sæmjr, er hann hefur gert fósturjörð sinni slíkan sóma.

Það þótti tíðindum sæta, þegar rakinn var skyldleiki þeirra Friðriks og frægasta íslenzks skákmanns fyrri tíma, Magnúsar Magnússonar Smith, en hins hefur ekki verið minnzt, að íslenzku „unglingarnir“ á Hastingsmótinu, Friðrik og Ingi, eru náfrændur, þótt vér kunnum ekki ætt þeirra að rekja.

Merki: