1960: Friðrik skrifar frá Argentínu

,,Horfi í augu bola“

 

Birtist í Morgunblaðinu 2. júní 1960.

Ekkert hefur heyrzt um Friðrik Ólafsson, stórmeistara, á opinberum vettvangi, síðan skákmótinu í Argentínu lauk. Nýlega barst kunningja Friðriks hér heima bréf frá honum, dagsett 17. maí ´60 í Argentínu. Birtir Morgunblaðið hér glefsur úr bréfinu til fróðleiks og gamans.

„Stúderar“ sveitalífið

Bréfið hefst á þessum orðum: Þegar ég skrifa þessar lníur, er ég staddur á búgarði um það bil 300 km norðvestur af Buenos Aires (ekki fjarri borginni Pergamim) og „stúdera“ sveitalífið, eins og það gerist hérna megin hafs.

Kunningi minn á búgarðinn, og bauð hann mér hingað, gagngert í þeim tilgangi, að ég gæti af eigin raun kynnzt þeim atvinnuvegi, sem Argentínumenn eru frægastir fyrir, nautgriparækt. Kunningi minn elur upp svonefnd verðlaunanaut (kynbótanaut) og spígspora ég því um, þessa dagana, meðal nauta af öllum stærðum og gerðum, og virði þau fyrir mér spekingslegur á svip.

Örðugt finnst mér að sjá gæðamun á einu nauti og öðru, en mér er tjáð, að hausinn sé það mikilvægasta í þessu sambandi, og geri ég mér því jafnan far um að horfa í augu bola til að sjá, hversu greindarlegur hann sé. Að sjálfsögðu gæti ég þess, að láta þessar rannsóknir fara fram í hæfilegri fjarlægð.

Teflir fjöltefli

Vera mín hérna í Argentínu hefur gengið alveg hljóðalaust fyrir sig enn sem komið er, og hef ég ekki í hyggju að taka þátt í neinni þeirra uppreisna, sem hér dynja yfir annað slagið.

Ég hef að mestu leyti haldið kyrru fyrir í Buenos Aires, síðan ég kom frá Mar del Plata, og stúdera skák og spönsku, eins og kostur er. Annað slagið tefli ég svo fjöltefli til að auka peningaráð mín, og tefli ég þá einkum á stöðum fyrir utan borgina sjálfa.

„Cha-cha-ca“

Í þessum mánuði hefjast í Argentínu allsherjarhátíðahöld vegna 150 ára byltingarafmælisins, og má gera ráð fyrir að þau verði stórkostleg. Þá fær maður vist tækifæri til að kynnast Cha-cha-ca í allri sinní dýrð, og er ég síður en svo mótfallinn þeim kynnum.

Um „skvísurnar“ hérna er ekki margt að segja, þær eru flestar dökkar yfirlitum, en ekki beinlínis af þeirri gerðinni, að maður gleymi að anda, þegar maður sér þær. Þó má sjá margar snotrar hnátur innan um, en þær eru ekki mjög margar.

Handapat

Hérna í Argentínu ægir saman öllum þjóðarbrotum, sem nöfnum tjáir að nefna, svo sem Ítölum, sem eru í miklum meirihluta, Spánverjum, Frökkum, Þjóðverjum, Rússum, Englendingum o. fl., og er því fólkið, sem maður sér á götunum í dag, ein allsherjar „mixtúra“, líkt og bandaríska þjóðin.

Af þessum ástæðum er erfitt að draga upp ákveðna heildarmynd af skapgerð Argentínumanna, því hún er jafn margslungin og uppruni þeirra, en þó er geinilegt, að þeir hafa tileinkað sér þann skaphita, sem ríkir í hinum suðlægari Evrópulöndum.

Allt það handapat og hávaði, sem er samfara samræðum þeirra, verkaði fremur illa á mig til að byrja með, en ég er orðinn ónæmur fyrir þessu nú orðið og hef sjálfur hávaða í frammi, ef svo ber undir.

Biður að heilsa

Ég veit, að ykkur líður vel þarna upp við Norðurpólinn, því sumarið er að koma til ykkar, um leið og Vetur konungur kveður dyra hér niðurfrá. Ég bið að heilsa og vona að öllum líði vel.

Merki: