Friðrik gerist atvinnumaður:
,,Þessi baktería hefur alltaf nagað mig“
Eftir Jón Þ. Þór. Morgunblaðið 1. mars 1974.
Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Friðrik Ólafsson stórmeistari nú ákveðið að gerast atvinnumaður í skák, í bili a.m.k. Af þessu tilefni þótti tilvalið að eiga stutt samtal við Friðrik og spyrja hann um helztu framtíðaráætlanir hans. Fer samtalið hér á eftir:
Friðrik, hvers vegna tókstu þá ákvörðun að gerast atvinnumaður í skák?
„Það er kannski erfitt að gefa viðhlítandi skýringu á því. Ég held að það sé hverjum manni hollt að breyta til öðru hvoru og einhvern veginn hefur þessi baktería alltaf nagað mig. Mig langaði til að reyna og freista þess að sjá hvernig ég stæði að vígi. Maður getur þá ekki nagað sig í handarbökin síðar fyrir að hafa ekki lagt á brattann þegar tækifæri bauðst.“
Reykjavíkurskákmótið var fyrsta mótið, sem þú tókst þátt í eftir að hafa tekið þessa ákvörðun, ertu ánægður með frammistöðuna?
„Ég get nú varla sagt að ég sé ánægður, en þetta mót kom eiginlega hálfilla inn í mínar áætlanir. Eg hefði helzt kosið að fást við rannsóknir og að byggja mig upp fyrri hluta ársins, áður en ég færi að tefla. Ég hef verið að reyna að rannsaka byrjanir, en það tekur langan tíma og sem dæmi má nefna, að það, sem ég hafði kynnt mér þannig kom aðeins að notum í einni skák í þessu móti. Í þeirri skák fann ég til öryggis, sem ég fann ekki í öðrum skákum. Ég reyndi að nota þetta mót til þess að komast í snertingu við skákina aftur og reyndi þess vegna að tefla hverja skák í botn. Auðvitað er ég ekki fyllilega ánægður með taflmennskuna í öllum skákunum, en það verður víst aldrei á allt kosið.“
Hver er staða skákarinnar á íslandi í dag, finnst þér vera um framfarir að ræða?
„Ég veit ekki hvort við getum talað um framfarir. Mér finnst stundum eins og stöðnun sé að gera vart við sig, þetta eru alltaf sömu mennirnir og þeir, sem bætast i hóp þeirra sterkustu standa líka í stað þegar þeir hafa náð ákveðnu marki. Menn þurfa að fá meiri reynslu á alþjóðlegum vettvangi, gallinn er bara sá, að það er erfitt að koma mönnum inn í alþjóðleg mót, ekki sizt eftir að Elo-stigakerfið var tekið upp.“
Nú er búið að stofna til vísis að skákskóla hér, heldurðu að hann geti bætt eitthvað úr?
„Við skulum nú fara varlega í að kalla þetta skákskóla, þetta er hópur manna, sem hefur verið valinn til æfinga og svo á að heita að við Guðmundur Sigurjónsson eigum að veita þeim forystu. Vonandi getur þetta bætt eitthvað úr, en menn verða að gæta þess, að það er alls ekki víst að við séum réttu mennirnir til að kenna öðrum. Ég segi fyrir sjálfan mig, að ég hef orðið að prófa mig áfram með flest, en er enginn útlærður þjálfari. Ég gæti vel hugsað mér að affarasælla yrði að fá hingað lærðan þjálfara þó ekki væri nema tvo til þrjá mánuði til að byrja með.“