1976: 38. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Frábær sigur Friðriks í Wijk aan Zee

Um síðustu áramót voru tvö ár liðin frá því Friðrik Ólafsson stórmeistari hóf taflmensku að nýju sem atvinnumaður, og þá eftir um það bil tíu ára fjarveru sem slíkur. Vissulega hafði hann tekið þátt í nokkrum skákmótum á tímabilinu, en þá algjörlega sem áhugamaður. Eftir að Friðrik hóf atvinnumannsferil sinn að nýju, hefur hann lagt aðaláherslu á að vinna upp það sem glatast hafði og tileinka sér þær nýjungar sem fram hafa komið á undanförnum árum. Þá hafa komið fram margir ungir og efnilegir stórmeistarar sem nauðsynlegt var að kynna sér eftir föngum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan Friðrik hóf raust sína að nýju, hefur hann því eflaust litið á þátttöku sína á mótum meira sem athugun á eigin getu og þoli frekar en að gera hnitmiðaðar kröfur um afgerandi árangur. Það er heldur ekki vandalaust, fyrir mann eins og Friðrik, að koma fram á sjónarsviðið eftir svo langt hlé, vitandi af sínum frábæra árangri hér áður fyrr. Nægir þar að nefna, að hann var aðeins 24 ára gamall þegar hann tefldi í Kandidatamótinu 1959. Augljóst er að þegar slíkur maður kemur fram á sjónarsviðið bíður skákheimurinn spenntur eftir að sjá hvernig til tekst. Er skemmst að minnast allra þeirra bollalegginga, sem áttu sér stað hér heima, þegar fréttin um að Friðrik ætlaði að snúa aftur inn á slóðir atvinnumennskunnar í skák barst út.

Friðrik Ólafsson, stórmeistariÁ útmánuðum 1974 fór svo meistarinn til þátttöku á erlenda grund. Ekki var valið af verri endanum. Stórmeistaramótið í Las Palmas á Kanaríeyjum hafði orðið fyrir valinu, og íslendingar urðu þaulsætnari en ella við útvarpsviðtækin á fréttatímum. Brátt varð greinilegt að Friðrik hafði engu gleymt. Hann var snemma í eldlínunni og hélt sér þar út mótið. Árangurinn varð betri en nokkur hafði þorað að vona. Hann hafnaði í öðru sæti næstur á eftir júgóslavanum Ljubojevic, stórmeistara ungum að aldri, sem um þessar mundir er talinn einn sá allra efnilegasti og líklegasti til keppninnar um heimsmeistaratitilinn. Og margir frægir kappar urðu að horfa á bakið á Friðrik þegar upp var staðið frá þessari fyrstu keppni okkar manns sem atvinnumanns. Árangurinn var gómsætur og augljóst var að Friðrik hafði kveðið sér hljóðs að nýju. Skákheimurinn, sem svo lítið hafði heyrt um langt skeið af stóra snillingnum frá litla landinu norður við íshaf, stóð agndofa.

Ekki leið á löngu þar til næsta högg reið af. Friðrik hafði haldið áfram af mikilli elju að rifja upp og tileinka sér nýjungar í fræðunum, af enn meiri ákafa en áður, og þegar honum barst boð um að tefla á skákmóti sem stóri risinn í austri hélt í Tallin í Eistlandi, þá þáði hann það með þökkum og bjó sig til fararinnar, sem best var á kosið. Ekki var það mót af lakari endanum heldur. Nær allir þátttakendur stórmeistarar og þeirra á meðal nokkrir þeirra sterkustu í heiminum um það leyti.

Friðrik fór sér að engu óðslega í upphafi. Hann þreifaði fyrir sér og fimm fyrstu skákirnar urðu jafntefli. Hér heima voru menn farnir að undrast þetta háttarlag. Friðrik hafði ekki, svo munað væri, gert svona mörg jafntefli í upphafi móts. Hvað var að ske? Var hann hættur að geta unnið skák eða hvað? Spurningin lifði ekki lengi, því Friðrik gerði sér lítið fyrir og vann fimm næstu skákir og skaut sér þar með í fremstu sætin. Þegar síðasta umferð rann upp gat Friðrik náð efsta sæti með því að vinna sovéska stórmeistarann Gipslis. Hann reyndi og um tíma virtist svo sem það ætlaði að takast, en örlítil ónákvæmni sneri sigri í tap. Þrátt fyrir það var annað sætið tryggt, en nú náði Spassky honum og þeir urðu jafnir í öðru til þriðja sæti. Í mínum huga gerði Friðrik rétt í að reyna, að vinna þessa skák sem raunar var sú eina sem hann tapaði í mótinu, minnugur þess, að heimurinn man aðeins sigurvegarana þegar frá líður.

Þetta afrek var í rauninni stærra en mætir auganu við fyrstu sýn, vegna þess, að sumarið áður hafði Friðrik orðið að fá sérstaka meðferð vegna magasárs og hafði það haft veruleg áhrif á frammistöðu hans á olympíumótinu rétt áður. Með þessum árangri hafði Friðrik sem sé sýnt fram á að hann væri að mestu búinn að ná sér af þeim leiða kvilla.

Nú tók hann ekki þátt í skákmótum erlendis fyrr en vorið 1975 er hann hélt til Las Palmas að nýju. Þegar hér var komið sögu, var öllum skákheimi ljóst, að Friðrik var verðugur andstæðingur sem gott var að gera jafntefli við. Sannaðist þetta áþreifanlega á þessu móti, því nú hættu menn ekki í neina tvísýnu, heldur tefldu ótrauðir til jafnteflis við Friðrik. Þrátt fyrir hörkutaflmennsku og þá staðreynd að hann tapaði aðeins einni skák, þá hafnaði hann í 5.-6. sæti ásamt Hort, en á eftir ekki lakari skákmeisturum en Ljubojevic, sem sigraði með 11 V., og Andersson, Mecking og Tal, sem urðu í 2.-4. sæti með 10 vinninga. Friðrik og Hort hlutu 9 1/2 vinning, en Petrosjan varð að láta sér nægja 7. sætið með 9 v. Næstu menn komu svo með 6 1/2 vinning, svo eitthvað hefur nú gengið á.

Ekki er ég frá því, að nú hafi Friðrik verið farinn að lýjast, því það að liggja yfir skákborðinu við endalausar rannsóknir í svo langan tíma sem raun bar vitni, hlýtur að vera þreytandi svo ekki sé meira sagt. Keppinautar hans höfðu verið virkir í langan tíma samfellt og því konmir á það stig að geta gengið að slíkum rannsóknum jöfnum höndum, sem hlýtur að vera mikilvægt. Auk þess eru íslenskir skákáhugamenn miklir kröfugerðarmenn og enginn fær náð fyrir þeirra augum nema með topp- árangri ef það dugar þá til.

Stundar ofþreyta og gamlir kvillar gerðu vart við sig og höfðu áhrif á Friðrik á næstu mótum, sem auk þess voru tefld við afgerandi slæmar kringumstæður, en nú leið að svæðamótinu og þar varð að leggja allt á eitt spil. Eftir afar óheppilegt tap í fyrstu umferð var allt á brattann sem eftir var. Friðrik sýndi í þessu móti aðdáanlega keppnishörku, því við hans verstu skilyrði tókst honum samt að komast í fremstu röð á mótinu og eftir marga frábæra sigra var hann kominn í þá aðstöðu, að vinningur í síðustu umferð færði honum rétt til úrslitakeppni um annað sætið á millisvæðamót. Eftir miklar þrengingar í upphafi skákarinnar tókst honum smám saman að snúa henni sér í vil og á ákveðnu augnabliki undir lokin í feiknarlegu tímahraki átti hann kost á að gera út um skákina. Stríðsgæfan var ekki til staðar og jafntefli varð óumflýjanlegt. Spá mín  er hins vegar sú, að Friðrik þurfi ekki að taka þátt í svæðamóti í næsta umgang, heldur fái þátttökurétt beint í millisvæðamót sem einn af 20 stigahæstu skákmönnum heims.

Frammistaða Friðriks Ólafsson á nýafstöðnu stórmóti í Beverwijk rekur óneitanlega gildar stoðir undir þá spá. Eftir fremur hægfara upphaf, þar sem hann sló öll sín fyrri met í jafnteflum í upphafi móts, eða sex í röð, sem er reyndar með ólíkindum af manni með skákstíl eins og Friðrik, þá herti hann á klónni og vinningarnir fóru að streyma inn. Þegar síðasta umferð rann upp var Friðrik kominn í sömu spor og í Tallin forðum. Vinningur í síðustu skákinni gat hrifið til hans efsta sætið, og sem orðinn reyndur í þessari stöðu vann Friðrik sannfærandi og varð efstur. Frábær sigur. Eins og sjá má á töflunni voru engar liðleskjur með á þessu móti, enda mótið í 12. styrkleikaflokki og gerast þau ekki öllu sterkari. Ljubojevic varð jafn Friðriki, en lægri á stigum. Hann fór að öðrum hætti af stað í mótinu og vann hverja skákina af annarri í upphafi. Hefur hann sennilega ofgert sér, því heldur fór af honum skriðurinn er á leið. Ljubojevic er, eins og áður er getið, einhver sterkasti stórmeistari vorra tíma og hefur oft verið nefndur sem líklegur kandidat um heimsmeistaratitilinn. Ennfremur er hann með eindæmum vinsæll sakir skákstíls síns. Þykir hann minna helst á Tal sjálfan eins og hann var bestur. Þessi júgóslavneski snillingur lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna og teflir ótrauður til vinnings meðan stætt er. Slíkur hugsunarháttur skapar ofurmennin.

Með þessum árangri bætir Friðrik fyllilega fyrir særindi áhangenda sinna undanfarna mánuði og rúmlega það. Nú getur engum dulist, að hann er til alls líklegur og æstu metorð standa í boði.

Af öðrum úrslitum var það markverðast, hvað Kurajica stóð sig vel. Hann hefur verið að geta sér orð í skákheiminum upp á síðkastið og þetta mót tók af allan efa um frægð hans hér á landi. Hann gerði sér lítið fyrir og bar sigurorð af þeim báðum stórkempunum, Tal og Ljubojevic, sem ekki neinum öðrum tókst á þessu móti. Fjórða sætið hreppti Tal og einhvern veginn finnst manni það ekki nógu gott hjá uppáhaldinu. Tal hefur um árabil átt við veikindi að stríða, sem skotið hafa upp kollinum við og við og þá auðvitað helst þegar síst skyldi. Ekki hafa þó neinar fregnir borist af slíku varðandi þetta mót, en óneitanlega eru jafnteflin orðin í miklum meirihluta hjá þessum glæsta sóknarskákmanni. Allra manna er ég ólíklegastur til að draga úr ágæti Tals, en þó er sagan góður kennari um það, að allar veislur taka enda og alltaf feta ungir menn í fótspor eldri meistaranna og komast oftast feti framar. Ekki veit ég að vísu um neinn arftaka Tals, enn sem komið er, til þess var hann og er allt of stórkostlegur. Hitt er svo annað mál, að eldglæringar sköpunarverka Tals eru ekki eins stingandi í auga og áður, þótt enn slái skærum bjarma á skákheiminn við og við.

1976: 38. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1976 Hoogovens - tafla

Vinningshlutall 68%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Svæðamót FIDE í Reykjavík

Svæðamótið í Reykjavík 1975

Zoltan Ribli öruggur sigurvegari

 

Zoltan RibliÞá er lokið frábæru skákmóti í Reykjavík — einum áfanga af mörgum á leiðinni til að fá úr því skorið hver fær að skora á Karpov til einvigis um heimsmeistaratitilinn í skák.

Skömmu eftir að mótinu hér í Reykjavík lauk, bárust einnig fréttir um úrslit sams konar móts í Búlgaríu.

Íslensku stómneistararnir tóku þátt í þessum mótum og bundu íslenskir iðkendur og unnendurnskáklistarinnar miklar vonir við þá báða. Var jafnvel talið í munn berandi, að þeir kæmust báðir áfram til keppni í millisvæðamóti, sem er næsti áfangi, og ef grannt er skoðað og lítið til árangurs islensku stómeistaranna, átti þetta að takast.

Sigurður Sigurðsson fréttamaður sem fylgst hefur með og flutt ágætar frásagnir af öllum meiriháttar skákmótum hérlendis á undanförnum árum, komst þannig að orði, er hann greindi frá úrslitum á mótinu í Búlgaríu, að þetta væru „vonbrigði á vonbrigði ofan.“ Undir þau orð munu margir taka, því miður.

Hér verður fyrst og fremst fjallað um mótið í Reykjavík, en hjá því verður ekki komist, að lýsa vonbrigðum yfir endalokum mótsins í Búlgaríu. Guðmundur Sigurjónsson sýndi frábæna taflmennsku á mótinu og vann margan frækinn sigur, allt til síðustu umferðarinnar. Þá teflir hann við aldinn skákmann frá Ísrael, sem mun hafa verið í neðsta sæti, og hefur Guðmundur baráttuna af því ofurkappi, að hann sést ekki fyrir og verður að fella kóng sinn í lokin. Þar með fór það, sem hélt. Það er hastarlegt að glopra þannig niður farseðlinum á millisvæðamótið og gera að engu þau afrek, sem Guðmundur var þegar búinn að vinna á mótinu. Á vonbrigðin vegna mótsins í Reykjavík verður að minnast síðar í þessu greinarkorni.

Liberzon-Parma-Friðrik-PautainenSvæðismótið í Reykjavík var viðamikið og kostnaðarsamt fyrirtæki og þótti ýmsum mikið færst í fang að taka að sér mótshaldið hér á landi. En forystumenn Skáksambands Íslands og Taflfélags Reykjavíkur héldu ótraruðir á brattann, minnugir þess hve heimsmeistaraeinvígið tókst vel hér í Reykjavík. Þeir hafa unnið frábærlega gott starf við undirbúning mótsins og mótshaldið sjálft og hefur það verið þeim til hins mesta sóma. Var það mál allra hinna erlendu keppenda, að mótið hafi verið mjög vel skipulagt og farið vel fram og luku þeir miklu lofsorði á mótsstjórnina, aðbúnað og viðurgenning allan.

Er ekki fjarri lagi, að loknu þessu móti, að taka undir orð borgarstjóra Reykjavíkur, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, i ávarpi, sem birtist í mótsskránni:

Reykjavík er því með sanni eitt af höfuðbólum skáklistarinnar í heiminum.

Við þessi orð mega íslenskir skákmenn og forystu menn samtaka þeirra vel una, enda til þeirra unnið.

Svæðismótið í Reykjavík fórhægt og silalega af stað. Þegar draga skyldi um töfluröð að kvöldi laugardagsins 18. október voru tveir keppenda ókomnir, þeir Liberzon frá Ísrael og Murray frá Írlandi. Þoka tafði hinn síðarnefnda, en nokkuð er óljóst um ferðir Liberzons. Þó mun það hafa komið fram, að hann lagði ekki af stað frá Ísrael fyrr en á laugardgsmorgun, og virðist hann ekki hafa ætlað sér langan frest til að komast frá einni heimsálfu í aðra. Var haldið uppi spurnum um hann á ýmsum stöðum á leiðinni og ekkert lét sá góði maður frá sér heyra. Þegar hann loks kom til landsins, kvaðst hann ekki hafa getað látið vita af sér því að símstöðvar hefðu verið lokaðar í London á sunnudeginum, og lét séra Lombardy, yfirdómari mótsins, segja sér það tvisvar, og trúði þó eigi.

Þegar loks Liberzon kom til landsins tók ekki betra við. Mótsstjórnin hafði fengið í hendur mynd af skákmanninum og bar þar fyrir augu sköllóttan mann og nokkuð við aldur að sjá. Þeir sem fóru suður á Keflavíkurflugvöll að taka á móti eftirlegukindunum tveimur, skimuðu í allar áttir eftir þessum sköllótta manni, en sáu hvergi. Var þá gripið til þess ráðs að kalla manninn upp í kallkerfi vallarins, og birtist þá allhærður og fremur unglegur maður á sviðinu. Reyndist Liberzon hafa fengið sér engu tilkomuminna höfuðdjásn en Ingólfur í Útsýn.

Þessir byrjunarörðugleikar ollu nokkrum erfiðleikum en voru yfirstignir og mótið gat hafist. Í fyrstu umferð seig þegar í stað á ógæfuhliðina fyrir stórmeistaranum okkar, Friðriki Ólafssyni. Hann tefldi við jafn tiginn mann, stórmeistarann Bruno Parma frá Júgóslavíu, sem hlýtur eiginlega að vera af ítölsku kyni, svo miklu fremur líikist hann Ítala í fasi og framkomu en Slava. Er skemmst frá því að segja, að Friðrik tefldi þarna langt undir styrkleika og átti sér aldrei viðreisnar von eftir mistök í byrjuninni.  Ástæðulanst er að rekja gang mála í fyrstu umferðunum, þær voru ósköp lítið áhugaverðar og fátt um fína drætti. Það var eins og mótið væri varla komið í gang, í mesta lagi í fyrsta gír. Áhugi almennings fór eftir því og aðsókn lengi framan af var fremur dræm og fjármálamönnum mótastjórnar lítt að skapi.

W-LombardyÞað sýndi sig strax í upphafi, að vel hafði tekist val á yfirdómara mótsins, séra William Lombardy stórmeistara frá Bandaríkjunum. Hann er íslenskum skákmönnum að góðu kunnur og hefur tvívegis komið hér áður og eignast marga vini og kunningja. Lombardy reyndist mjög traustur og öruggur skákstjóri og naut mikilla vinsælda og virðingar keppenda, enda fór saman hjá honum traust þekking á skák, skákreglum og keppnisreglum og hlýleg og glettin framkoma hins mannlega heimsborgara. Honum til aðstoðar voru tveir góðkunnir Skákmeistarar íslenskir, þeir Bragi Kristjánsson og Jón Pálsson og stóðu þeir vel fyrir sínu.

Keppnistaðzstaða á Hótel Esju var góð, en þegar leið á mótið kom í ljós, að áhorfendarými var of lítið. Áhorfendum til hróss skal það sagt, að þeir létu ekki þrengslin á sig fá og veittu keppendum gott hljóð í salnum og næði til að hugsa upp næstu fléttu.

Þetta svæðismót var að mörgu leyti mjö g frábrugðið hinu heimsfræga einvígi Fischers og Spasskys, sem að líkum lætur. Engu að síður er þetta mjög merkilegt mót þar sem hér var ekki eingöngu teflt um hver yrði efstur eins og allajafna er á skákmótum, heldur var þetta útsláttarkeppni og aðeins tveir efstu höfðu eftir einhverju verulegu að slægjast, sem sé þátttöku í millisvæðamótinu.

Heimsmeistaraeinvígið í Laugardalshöllinni var vitanlega mikill skákviðburður og tekinn sem slíkur af miklum fjölda áhorfenda, sem það sóttu. En mótið var einnig „sjó“, eins konar karnival, þar sem menn komu til þess að sýna sig og sjá aðra þótt þeir hefðu aldrei lært mannganginn og kynnu varla mun á peði og biskup. Þar komu skáld og listamenn, listasnobbarar, salmkvæmismenn og þeir, sem vildu vera með á nótunum. Þessu var ekki til að dreifa á svæðismótinu í Reykjavík. Þangað komu fyrst og fremst áhugamenn um skák, gamlar skákkempur og skákiðkendur, misjafnlega vel að sér í fræðunum, en þó að heita má allir með einhverja nasasjón af skáklistinni. Þetta var því miklu fremur skákmót en ekki samkvæmisleikur i viðburðasnauðu menningarlífi borgarinnar eins og sumarið ’72.

Þegar liða tók á mótið fengu  menn eitt og annað að sjá fyrir peningana og spennan jókst. Að vísu þótti mönnum hlutur Friðriks fremur rýr framan af og um hinn íslenska keppandann, Björn Þorsteinsson Íslandsmeistara, er það að segja, að hann mun ekki hafa gengið heill til skógar í þessu móti og sýndi því alls ekki getu sína og styrkleika og er leitt til þess að vita. Auk þess má benda á, að Björn var eini keppandinn á mótinu, sem varð að stunda vinnu sína jafnhliða keppninni, svo að hann sat þar ekki við sama borð og hinir.

Hartson-HamannSkákskýringar voru allajafna fluttar í hliðarsal og stóðu mest megnis fyrir þeim ungir skákmeistarar svo sem Helgi Ólafsson og Margeir Pétursson, en einnig nokkrir eldri og bar þar hæst Ingvar Ásmundsson. Úr hópi áheyrenda mátti heyra ýmsar raddir og tillögur um leiki og voru þar á ferðinni ýmsir kunnir skákmenn og reyndar einnig ýmsir minni spámenn, en athyglisverðasti skákskýrandi úr hópi áhorfenda var að sjálfsögðu okkar eini og sanni Benóný. Skákskýringar þessar voru að sumu leyti nokkru lausari í böndum en við höfum átt að venjast, en það stendur vafalaust til bóta. Nokkrir erlendu keppendanna fengust aðeins við að skýra skákir og var þeirra einna skemmtilegastur Englendingurinn Hartston.

Friðrik Ólafsson hristi af sér slenið um miðbik mótsins og jók á vonir manna um að hann næði að komast í annað efstu sætanna.

Í elleftu umferð tefldi hann við Hollendinginn unga, Jan Timman, sem var einstaklega óheppinn í þessu móti, og varð að auki fyrir persónulegu áfalli undir lok þess. Þegar skák þeirra fór í bið um kvöldið, var það allra manna mál, að Friðrik væri með tapað tafl og þar með útilokað að hann fengi reisupassa á millilsvæðamótið. Fóru flestir i þungum hug frá mótinu það kvöldið. Morguninn eftir var tekið til við biðskákina. Friðrik hafði rannsakað biðstöðuna mjög nákvæmlega og legið yfir skákinni allt fram til klukkan fjögur um nóttina, þá fór hann í sitt ból. Vafalaust hefur Friðrik lagst djúpt og kannað hverja leið, sem kynni að rétta taflið ef Hollendingurinn gæfi færi á því. Enda fór svo morguninn eftir, mirabile dictu, að Timman missteig sig og lék einn ónákvæman leik, er dugði okkar  íslenska stórmeistara til sigurs.  Vænkaðist nú hagur Strympu.

Sama kvöldið átti Friðrik í höggi  við Liberzon, einn skæðasta, keppinautinn um efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Friðrik vann þar glæsilegan sigur. Lyftist nú brúnin á mörgum og menn eygðu fræðilegan möguleika á að Friðriki tækist að ná settu marki.

Æstist nú leikurinn og runnin var upp örlagastund. Áhorfendum fór sífjölgandi og margt bar skemmtilegt fyrir augu í skákunum og urðu víða harðar sviptingar. Sennilega verður skákin, sem ungi Finninn Poutiainen tefldi við við tékkneska stórmeistarann Jansa, eftirminnilegust fyrir áhorfendur. Polutiainen var sá keppenda, sem tefldi mest fyrir áhorfendur, ef svo mætti að orði komast. Hann er eitilharður sóknarskákmaður og teflir í stíl hinzs fræga Tal, allt í háalofti, blikandi brandar og brugðin sverð, enda fóru leikar svo í þessari skák, að stórmeistarinn varð að þola þá niðurlægingu, að vera mátaður hastarlega úti á miðju borði. Áður hafði Finninn mátað Timman mjög fallega í mikilli sóknarskák og hlaut fegurðarverðlaun mótsins fyrir hana. Óneitanlega var þessi skák falleg og augnayndi fyrir áhorfendur, en hvort hún var best teflda skákin í mótinu leyfi ég mér að draga í efa. Poutiainen er sóknharður og vigdjarfur skákmaður og gæddur hinu finnska „sisu“, baráttuvilja og þrautseigju, sem einkennir þjóð hans. Athyglisvert er, að hann vann átta skákir, gerði aðeins eitt jafntefli, en tapaði fimm skákum. Segir þetta sitt um skákstíl hans. Með þessum úrslitum tryggði hann sér titil alþjóðlegs meistara i skákinni. Í hraðskákmótinu, sem haldið var eftir svæðismótið, reyndist Finninn harður í hríð og sigraði. Verður gaman að fylgjast með ferli þessa unga skákmeistara á komandi árum.

VandenBroeck-Murray-Björn-LaineAnnar ungur maður vakti mikla athygli, þótt ekki færi jafn mikið fyrir honum, en það var ungverski skákmeistarimn Ribli, sem jafnt og þétt safnaði saman vinningum, að því er virtist án mikilla tilþrifa, en af miklu öryggi, og þegar líða tók á mótið, varð séð að hverju fór, og Ribli varð öruggur sigurvegari mótsins.

Annar vaxandi skákmaður er Oistermayer, næsta hlédrægur og óframfærinn, en á stundum beinskeyttur og illzskeyttur við skákborðið, og fengu ýmsir að kenna á því.

Komið hafa fram raddir um það, að tilhögun svæðamótanna hjá FIDE sé „hrein vitleysa“. Er ástæða til að taka undir það, að æskilegra væri að jafnsterkir menn ættust við á slíkum mótum. Hér komu til leiks keppendur, sem hafa ekki roð við stórmeistununum og hafa enga möguleika á að komast áfram, en eru valdir til keppni eingöngu af landfræðilegum ástæðum. — Á þetta við um ýmsa neðstu menn á mótinu, sem flestir stórmeistararnir „settust á“ í 15-16 leikjum, eins og einn áhorfandinn orðaði það, þó að sumir stórmeistaranna gættu sín ekki sem skyldi og létu það henda sig að ná aðeins jafntefli gegn þeim.

Meðal hinna ágætu manna, sem vart gátu talist eiga erindi í þennan trönudans var geðþekkur garðyrkjubóndi frá eynni Guernsey á Ermarsundi, Laine að nafni. Hann sagði sjálfur í samtali við undirritaðan, að hann gæti ekkert á móti þessum stórkörlum, enda ekki byrjað að tefla skák fyrr en um fertugt. En ekki fer á milli mála að Laine var mesti göngugarpurinn á mótinu. Hann sagðist hafa stundað gönguferðir frá unga aldri og oft gengið 30-40 enskar milur sér til hugarhægðar, og einn daginn í góðviðrinu á meðan á mótinu stóð, fékk hann sér stuttan göngutúr upp að Rauðavatni og aftur niður á Hótel Esju án þess að blása úr nös.

Danski skákmeistarinn Svend Hamann þæfðist illa fyrir sumum stórmeisturunum og í mótslok mátti gera því skóna, að sómi okkar væri í höndum Dana. Var dæmið sett upp þannig, að Friðrik ynni Jansa í síðustu umferðinni, en Hamann næði jafntefli við Parma og þar með næði Friðrik öðru sætinu. Parma þurfti reyndar um 90 Ieiki til að leggja Hamann að velli og einnig frýði skuturinn skriðar hjá okkar manni.

Zwaig-Timman-Ostermayer-JansaFjölmiðlar gerðu þessu merka skákmóti mikil og góð skil og fluttu flest fréttir og langar frásagnir af hverri umferð. Hljóðvarpið stóð mjög myndarlega að verki og útvarpaði Sigurður Sigurðsson beint frá Hótel Esju að lokinni hverri umferð og hafði mikinn sóma af. — Eina undan tekningin var hið háa Sjónvarp. Ókunnugir hefðu mátt halda að sjónvarpsmenn hefðu ekki frétt af mótshaldinu. Fréttir af mótinu voru næsta slitróttar eða engar á stundum.

Það fer víst að verða best að slá botninn í þetta rabb. Ég vona að okkar afburða stórmeistarar séu ekki þau goð á stalli, að ekki megi gagnrýna þá, rétt eins og handboltamenn eða blakara.

Mér finnst að það hljóti að vera hálfgerð handvömm þeirra Friðriks og Guðmundar að komast ekki áfram í millisvæðamótið. Ég hefi áður minnst á Guðmund og nefnt skák Friðriks við Parma. Segja má að Friðrik hafi hlotið heppnissigur gegn Timman og hamrað járnið þegar í stað á meðan það var heitt með því að sigra Liberzon strax á eftir. En svo lét hann deigan síga. Jafnteflið við Ostermayer er þyngra en tárum taki og svipað má segja um jafnteflið við Jansa, svo að ekki sé minnst á jafnteflið við van der Broeck fyrr á mótinu. Ekkert er fráleitt að Friðrik hefði getað náð jafntefli við Parma með eðlilegri taflmennsku Þarna hafa þá farið samtals 2 vinningar. Segjum að Friðrik hefði átt að tapa fyrir Timman að öllu jöfnu ef tekið er mið af biðastöðunni. Hann væri samt heilum vinningi hærri ef umræddar skákir hefðu endað á eðlilegan hátt.

Ég veit ekki hvort íslensku stórmeistararnir voru „á réttu róli“ eins og sagt er, á þessum mótum. Árangur þeirra hlýtur að verða þeim hvatning til að taka skákina fastari tökum og minnast þess, að kapp er best með forsjá. Með ósk um betri tíð og blóm í haga þeim til handa í skáklistinni, læt ég þessum pistli lokið.

Högni Torfason.

1975: Svæðamót FIDE í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_svaedamotid_tafla

Vinningshlutall 71%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Minningarmót um Hugh Alexander í Middlesbrough

1975 Minningarmót Alexanders - Efim Geller sigurvegari
1975 Minningarmót Alexanders – Efim Geller sigurvegari

Dagana 1.-18. september sl. var haldið alþjóðlegt skákmót í Middlesbrough, Englandi, til minningar um breska skákmeistarann Alexander, en hann var einn sterkasti skákmaður þeirra á árunum 1930-1950. Mót (þetta var mjög vel setið og meðal þátttakanda nokkrir af sterkustu stórmeisturum heims. – Upphaflega var áætlað að keppendur yrðu sextán og að annað hvort Browne eða Ljubojevic kæmu beint úr Milanómótinu, en á síðustu stundu gat ekki af því orðið af óviðráðanlegum orsökum og því urðu keppendum aðeins fimmtán.

Skákmót þetta var í 12. styrkleikaflokki. Til að öðlast stórmeistaratígn þurfti 7 1/2 vinning en 6 vinninga til að hreppa alþjóðlegan meistaratitil.

Úrslit mótsins urðu þau, að sovéski stórmeistarinn Geller hreppti efsta sætið, tapaði engri skák. Var hann vel að sigrinum kominn og tefldi af miklu öryggi. Það var ekki fyrr en eftir 9. umferð að Geller hafði tekið forustuna í mótinu ásamt Sax hinum ungverska, en eftir 10. umferð var Geller einn í efsta sæti og hélt því út mótið,

Í 2. sæti varð landi Gellers, V. Smyslov, fyrrverandi heimsmeistari. Hann tapaði aðeins einni skák, fyrir landa sínum Bronstein.

1975 Hugh Alexander
1975 Hugh Alexander

Þrír kunnir stórmeistarar lentu í 3. – 5. sæti, en það voru þeir Bronstein, Hort og Hübner, hlutu 8 v. hver. Bronstein for geyst af stað og hafði forustu í mótinu framan af. Eftir 6. umferð hafði hann hlotið 4 1/2 vinning og engri skák tapað. Í 7. umferð hlaut Bronstein fyrsta tapið og var það gegn hinum unga breska meistara Miles. Varð skák þeirra löng og hörð barátta og lauk ekki fyrr en eftir 72 leiki. Tap þetta virtist hafa slæm áhrif á Bronstein, því hann mátti lúta í lægna haldi strax í næstu umferð og þá fyrir Timman. Eftir þessi áföll voru sigurlíkur Bronsteins í mótinu orðnar litlar.

Tékkneski stórmeistarinn Hort, virðist ekki hafa verið í neinum baráttuham, því hann vann aðeins tvo neðstu mennina, en gerði aðrar skákir sínar jafntefli.

Hübner hafði mikla möguleika til að hafna einn í 2. sæti, þar eð hann hafði hlotið 8 vinninga þegar ein umferð var eftir. En óvænt atvik kom í veg fyrir skákin væri tefld. Upphaflega hafði verið áætlað að síðasta umferð skyldi tefld kl. 2 e. h., en þegar mótsskránni var dreift meðal keppenda, var skýrt tekið fram að síðasta umferð ætti að hefjast kl. 9.30 f. h.. Hübner sagðist ekki hafa vitað um þetta, en þrir þátttakenda kváðust hafa sagt honum frá breytingunni kvöldið áður. Þrátt fyrir að hefði verið bent á að engin undanþága fengist og neitun yrði skoðuð sem töpuð skak, neitaði hann að mæta og því var ekki um annað að ræða fyrir skákstjórann en bóka núll á hann.

Ungverski stórmeistarinn Sax hélt sig við toppinn framan af og var jafnvel kominn í efsta sætið ásamt Geller i 9. umferð. En í 10. umferð beið hann ósigur fyrir Bronstein, og síðan fyrir Geller í þeirri 11. Þar með voru hans vonir um efsta sæti roknar út í veður og vind.

Í 7 .-8. sæti koma Timman og Kavalek með 7 vinninga. Baráttuhugur fyrrnefnda virtist mun meiri en hins, þvi Timman vann þó fjórar skákir og tapaði þrem, meðan Kavalek gerði allar sínar skákir jafntefli!

Friðrik Ólafsson hafnaði í níunda sæti með 7 vinninga. Hann tapaði aðeins fyrir sigurvegarananum Geller, en vann heldur ekki nema einna skák, gegn Miles. Aðrar skákir hans enduðu með jafntefli. Nokkur uppbót var þó sú viðurkenning að skák Friðriks við Miles fékk verðlaun sem best tefldu tafllokin.

Af heimamönnum náði Miles bestum árangri, 6 1/2 v. og nægði það til að hljóta alþjóðlegan meistaratitil.

Skák nr. 3473.

Hér sjáum við einu vinningsskák Friðriks, og hún er ekki af lakari gerðinni, því hún fékk sérstök verðlaun sem bestu tafllokin, eins og áður hefur verið frá sagt. Hvítur nær betra tafli þegar í byrjun eftir drottningakaup og eykur smátt og smátt yfirburði sína. Hann þjarmar lengi vel að svörtum á drottningarvæng og þrýstir á veikt b-peð svarts. Ef hægt er að tala um beint gegnumbrot, þá skeður það hins vegar í g-linunni. Svartur glatar dýrmætu e-peði sínu og eftir það hallar fljótt undan fæti. Látum þessa fátæklegu lýsingu á gangi mála nægja, enda talar skákin best sinu máli sjálf.

Hvítt: Friðrik Ólafsson – Ísland       
Svart: Miles –  England     

Ben-Oni.

Skák nr. 3474.

Bronstein vann fallegan sigur yfir Keane í fyrstu umferðinni. Eftir skemmtilega peðsfórn i 16. leik nær hann sterkum tökum á miðborðinu og veikri kóngsstöðu svarts, sem verður um síðir að láta drottningu sína fyrir hrók og biskup. Þessar ráðstafanir duga þó skammt og Bronstein knýr andstæðinginn til uppgjafar í 30. leik þegar mát er óumflýjanlegt.

Hvítt: Bronstein -Sovétríkin
Svart: Keene – England

Catalan

Skák nr. 3475.

Þótt Friðrik hafi gert langflestar skáka sinna jafntefli, þá er ekki þar með sagt að það hafi verið baráttulaust, síður en svo. Það sannar best eftirfarandi skák hans við hollenska stórmeistarann Timman. Í 22. leik fórnar Friðrik drottningu sinni fyrir tvo „létta“ menn. Í staðinn fær hann allsterkt mótspil á drottningarvæng. Staðan er flókin og báðir keppendur lenda í timaþröng og hún hefur sin áhrif. Í 27. leik er líklegt að hvítur hefði átt einhverjar vinninngslíkur, ef hann hefði leikið Hd2 í stað Hf2. Hins vegar er einnig líklegt að svartur hafi átt hvassara framhald, sem erfitt er að koma auga á í tímaþröng. Eftir nokkrar sviptingar sættast keppendur á jafntefli — hvítur á þá drottningu og tvö peð en svartur hrók og fjögur peð. — Fjörug skák.

Hvitt: Timman – Holland
Svart: Friðrik Ólafsson –  Ísland

Kóngsindversk vörn.

Skák nr. 3476.

Í næstsíðustu umferð vann Geller snaggaralegan sigur yfir enska meistaranum Stean en hann hafði þá þegar tryggt sér alþjóðlegan meistaratitil í þessu móti. Í 12. leik býður Geller upp á eitrað peð, sem svartur má alls ekki þiggja. Stean hefur greinilega aðrar hugmyndir um gæði peðsfórnarinnar og þiggur hana umsvifalaust. Afleiðingarnar eru vægast sagt ömurlegar, því Geller bókstaflega kaffærir andstæðinginn. Hann fórnar öðru peði, siðan skiptamun og þegar skothríðinni linnir er svarta staðan sokkin í djúp sjávarins.

Hvítt: Geller – Sovétríkin
Svart: Stean – England

Sikileyjarvörn.

Skák nr. 3477.

Greinilegt er að Smyslov gerir sig ánægðam með jafntefli í eftirfarandi skák og hann flýtir sér svo að einfalda stöðuna. að hann gætir sín ekki og situr uppi með hartnær tapað tafl. Eftir tvöföld uppskipti hróka gerast svörtu mennirnir aðsópsmiklir og hvítur fær við ekkert ráðið. Þegar hann gefst upp er mannstap óumflýjanlegt.  Líklega hefur Smyslov láðst að tryggja sér jafnteflið fyrirfram!

Hvítt: Smyslov – Sovétríkin
Svart: Bronstein – Sovétríkin

Kóngsindversk vörn.

1975: Minningarmót um Alexander í Middlesbrough

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_minningarmot_alexanders_tafla

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Alþjóðlegt skákmót í Zürich

1975 Alþjóðlegt mót í Zurich - Garcia
1975 Alþjóðlegt mót í Zurich – Garcia

Fyrsta alþjóðlega meistaramót Sviss var haldið síðastliðið sumar. Meðal þátttakenda voru stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Unzidker frá Vestur-Þýskalandi, en þeir voru álitnir sigurstranglegastir í upphafi mótsins.

En margt fer öðruvísi en ætlað er, því úrslit mótsins urðu þau að kúbanski meistarinn Garcia, ásamt þeim Hug og Keller frá Sviss skiptu með sér efsta sæti, hlutu 9 v. af 13.

Öðrum stórmeistaranum tókst þó að krækja í fjórða sætið, en tvö töp fyrir veikari andstæðing um gerðu út um sigurvonir hans í mótinu.

Frammistaða Friðriks er óneitanlega frekar slök, því hann nær aðeins helming vinninga, vinnur  tvær skákir og tapar tveim. Ef til vill má rekja þetta til þess, að í fyrsta lagi var aðbúnaður á keppnisstað afar slæmur, og í öðru lagi gekk mikil hitabylgja yfir landið og háði það Norðurlandakeppandanum einna mest.

Hins vegar má segja að þessi mikli hiti hafi verið sigurvegara mótsins í hag, þar sem hann sat kappklæddur og virtist njóta sín mjög vel, meðan aðrir keppendur hefðu helst kosið að tefla í sundfötum!

En hvað um það, sigur Garcia var staðreynd, og því til sönnunar skulum við sjá hvernig hann teflir gegn stórmeistaranum okkar:

Skák nr. 3489.
Hvítt: Friðrik Ólafsson – Ísland
Svart: Garcia – Kúba

Sikileyjarvörn.

1975: Alþjóðlegt skákmót í Zürich

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975 Alþjóðlegt mót í Zurich_tafla

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Alþjóðaskákmótið í Las Palmas 1975

Ljubojevic sigraði annað árið í röð

 

Há peningaverðlaun einkenndu hið árlega alþjóðaskákmót, sem haldið var í Las Palmas á Kanaríeyjum síðastliðið vor. Mót þetta var eitt hið sterkasta, sem haldið hafði verið á þessu ári, eða í 10. flokki. Til að öðlast stórmeistaratitil þurfti 9 1/2 vinning, en 7 til að ná alþjóðlegum meistaratitli. Tíu stórmeistarar og fjórir alþjóðlegir meistarar voru meðal þátttakendanna sextán, og því aðeins tveir titillausir.

Það voru engir smákarlar saman komnir í stórmeistarahópnum: Tveir fyrrverandi heimsmeistarar, en hinir átta úr röðum fremstu stórmeistara heimsins.

Verðlaunin höfðu mikið aðdráttarafl: 130 þúsund pesetar í fyrstu verðlaun, en tíu þúsund pesetar fyrir neðstu sætin.

Það var því fyrirfram vitað að baráttan um efsta sætið yrði hörð og tvísýn. – Henni lauk þó með verðskulduðum sigri júgóslavneska stórmeistarans Ljubojevic, sem hlaut 11 vinninga af 14, tapaði engri skák.

Þrír stórmeistarar skiptu með sér 2.-4. sæti, en það voru þeir Andersson, Mecking og Tal, sem hlutu 10 v. hver. Andersson sigldi taplaus gegnum mótið, en Meckinig tapaði aðeins fyrir sigurvegaranum, Ljubojevic. – Sovétstórmeistarinn Tal mátti þola tvö töp, fyrir þeim Mecking og Friðriki.

Í 5.-6. sæti koma þeir Hort og Friðrik með 9 1/2. v. hvor. – Hort tapaði fyrir Andersson og Mecking, en nokkur sárabót var þó árangurinn gegn minni spámönniunum, þvi Hort hlaut 7 1/2 V. gegn átta neðstu mönnunum.

Árangur Friðriks verður einnig að teljast góður. Hann tapaði aðeins fyrir Ljubojevic. Sigur Friðriks yfir heimsmeistaranum fyrrverandi, Tal, var nokkur búbót á árangurinn, og birtist sú skák hér í blaðinu.

Öryggið sat greinilega í fyrirrúmi hjá Petrosjan, sem gerði tiu jafntefli og vann fjórar skákir. Þetta dugði þó aðeins til að ná sjöunda sætinu.

Af heimamönnum náði Bellón bestum árangri, 6 v., ásamt Tatai hinum ítalska. – Sést best á þessu hve styrkleikamumurinn er mikill: þrír vinningar skilja að 7. og 8. sætið!

Danski stórmeistarinn B. Larsen var einnig meðal þátttakenda í byrjun mótsins, og hefur ugglaust ætlað sér stóran hlut. Eins og mönnum er ef til vill kunnugt hefur Larsen sest að á Kanaríeyjum, þar sem hann telur hag sinum mun betur borgið en í Danmörku vegna skattákvæða. Eiginkona Larsens er þó enn búsett í Danmörku og það var einmitt sökum veikinda hennar sem Larsen varð að hætta þátttöku eftir sex umferðir. – Ekki hafði þá blásið byrlega, því hann hafði tapað fyrir Pomar og Rodriguez. Það var einmitt í 7. umferð sem Friðrik átti að tefla við Larsen, er hann varð að hætta í mótinu.

Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.

 

Þetta var í fjórða sinn sem alþjóðlegt skákmót var haldið í Las Palmas og er það jafnframt minningarmót um spænska skákmeistarann Ruy Lopez. Árið 1972 sigraði Portisch, en næstir komu Larsen og Smyslov. Árið 1973 unnu Sovétmenn tvöfaldan sigur: Stein og Petrosjan, en Hort náði þriðja sæti. Í fyrra sigraði Ljubojevic, en næstir urðru Beljavsky og Friðrik Ólafsson. – Þá voru veitt fegurðarverðlaun fyrir best tefldu skákina, 12.000 pesetar. – Fyrir  bestu leikfléttuna 8000 pesetar og fyrir bestu tafllokin 8000 pesetar. Skákunnendum skal bent á að Friðrik Ólafsson ritar bók um mótið í ár og mun hún verða gefin út af tímaritinu Skák.

SKÁK, 5 tbl. 1975.

 

,,Byrjaði fullseint á lokasprettinum“

 

Morgunblaðið 26. apríl 1975.

,,Ég byrjaði eiginlega fullseint á lokasprettinum,“ sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari er Mbl. náði tali af honum að loknu skákmótinu í Las Palmas í gærkvöldi. Friðrik gerði jafntefli við brasilíska stórmeistarann Mecking í 20 leikjum í gærkvöldi og hafnaði í  5.-6. sæti ásamt Hort með 9,5 vinning. Ljubomir Ljubojevic bar sem vænta mátti sigur í mótinu, hlaut 11 vinninga.

„Eftir ástæðum er ég bara nokkuð ánægður með frammistöðuna i mótinu,“ sagði Friðrik. „Ég fann mig reyndar ekki almennilega í byrjun og glopraði t.d. tveimur kolunnum skákum niður í jafntefli.  Í lokin gekk þetta svo allt miklu betur og ég held að ég hafi ekki lent í slæmum félagsskap ef litið er á nöfnin.“

Mótið i Las Palmas var svipað að styrkleika og mótið á Tallin á dögunum en þá fékk Friðrik 9,5 vinning í 15 skákum en nú 9,5 vinning í 14 skákum svo frammistaða hans nú er ekki síðri og jafnvel heldur betri. Þess má geta til gamans að stórmeistaraárangur á þessu móti voru 8 vinningar og er Friðrik vel yfir því marki.

Friðrik kvaðst vonast til að komast heim seinnipartinn i dag. Hann sagðist ætla að hvíla sig á skákmótum næstu tvo mánuði og nota þann tíma til að grúska í skákbækur.

1975: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_Las-Palmas_tafla

Vinningshlutall 68%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Alþjóðlegt skákmót í Tallinn

Alþjóðamótið í Tallin 1975

Frábær árangur Friðriks Ólafssonar

 

Dagana 15. febrúar til 10. mars sl. var haldið mjög sterkt alþjóðlegt skákmót í Tallin, höfuðborg Eistalands. Tólf sterkir erlendir meistarar kepptu þar við heimamennina, Keres, Nei, Kárner og Rytov.

1975_Tallin_Fridrik-Olafsson_KeresGamli stórmeistarinn Paul Keres vann öruggan sigur á mótinu, en Friðrik Ólafsson og Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari, höfnuðu í 2.-3. sæti. Frammistaða Friðriks á mótinu var mjög góð. Hann sýndi meira öryggi en oft áður, en hamingjan var honum ekki hliðholl á úrslitastund. Rétt er að lita örlítið nánar á gang mótsins.

Friðrik fór rólega af stað. Hann gerði jafntefli í fimm fyrstu umferðunum, við Taimanov, Espig, Spassky, Lombardy og Marovic. Keres byrjaði með miklum látum, vann 5 fyrstu skákimar. Spassky ætlaði sér einnig stóran hlut og hlaut 4 vinninga i 5 fyrstu skákunum. Meðal fórnarlamba hans var Hort.

SKÁK, 4. tbl. 1975.

1975: Alþjóðlegt skákmót í Tallinn

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_Tallin_tafla

Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1975: Skákþing Reykjavíkur

Öruggur sigur Friðriks á Skákþingi Reykjavíkur

 

Blaðið hafði samband við Friðrik Ólafsson stórmeistara, nýbakaðan Reykjavíkurmeistara í skák 1975. Friðrik vann mótið með níu og hálfum vinningi af ellefu mögulegum. Þegar þetta er ritað á eftir að tefla tvær biðskákir, þannig að röðin í efstu sætunum er ekki alveg örugg, en búizt er við að hinn ungi skákmaður, Margeir Pétursson, verði í fjórða sæti með 7 vinninga. Tryggði Margeir sér þar með rétt til þátttöku í landsliðsflokki í Íslandsmótinu, sem er frábær árangur.

„Mér sýnist á því sem ég hef séð til Margeirs, að hann sé vel liðtækur skákmaður, sagði Friðrik Hann hefur gott „blikk“ eða innsýn i skákina og getur komið til með að verða góður skákmaður. Það sem mest háir honum er auðvitað reynsluleysi, en hann hefur gert vel hingað til af svo ungum skákmanni að vera, en hann er aðeins fjórtán ára.“

Guðlaug Þorsteinsdóttir var sigurvegari í kvennaflokki, og má telja það mjög góðan árangur, en Guðlaug er aðeins þrettán ára.

„Hún er að vísu ekki búin að ná skákstyrkleika á borð við Margeir,“ sagði Friðrik, ,,en hún hefur meiri styrkleika en almennt er á hennar aldri. Annars er mjög erfitt að dæma um hverjir möguleikar þessara unglinga eru, það kemur oft stöðnun í skákina hjá þeim, og þá er að sjá hvernig fer, hvort þau halda áfram eða ekki.“

Við spurðum Friðrik hvað væri framundan hjá honum.

„Um miðjan mánuðinn fer ég á alþjóðlegt skákmót i Tallin i Eistlandi, en það stendur til 10. marz. Þar verður mest um sovézka skákmenn, og má þar nefna tvo fyrrverandi heimsmeistara, þá Tal og Spassky, auk Bronsteins og fleiri. Styrkleikastig eru misjöfn á mótunum, en þetta mót verður mjög sterkt að mér sýnist. Má geta þess sem dæmi, að í Tallin nægir að fá sjö og hálfan vinning til að hljóta stórmeistaratitil, en á Hastings-mótinu, þar sem Guðmundur Sigurjónsson hlaut stórmeistaratitilinn þurfti tiu vinninga.“

„Nú svo fer ég á skákmót 6. apríl, sem haldið verður í Las Palmas, á Kanaríeyjum, en ég tók einnig þátt í þessu móti í fyrra.“ segir Friðrik.

„Síðan kemur svæðamótið, en ekki er enn ákveðið hvenær það verður, sennilega á tímabilinu maí til september. Svæðamótið er fyrsfi liðurinn í heimsmeistarakeppninni, en síðan kemur millisvæðamótið og síðast áskorendakeppnin, þar sem sigurvegarinn hlýtur rétt til að skora á heimsmeistarann, en þetta tekur þrjú ár hverju sinni.“ sagði Friðrik Ólafsson, stórmeistari að lokum.

Tíminn 2. febrúar 1975.

 

„Það borgar sig nú líka stundum að vera varkár“

— segir Margeir Pétursson, og vill helzt líkjast Petrosjan

 

MARGEIR Pétursson var sá skákmaður sem mesta athygli vakti á nýafstöðnu Skákþingi, enda frammistaða þessa 14 ára pilts sérlega glæsileg þegar tekið er tillit til þess, að við var að etja marga af beztu skákmönnum landsins. Hann hlaut 7 vinninga af 11 mögulegum og er vinningshlutfallið því 63,6%. Margeir er sonur Péturs Haraldssonar og Halldóru Hermannsdóttur Sólheimum 34. Hann stundar nú nám í landsprófsdeild Vogaskóla.

— Hvenær lærðir þú að tefla Margeir?

„Ég hef verið 6—7 ára þegar ég lærði mannganginn af pabba mínum. Ég tefldi alltaf af og til þegar ég var strákur en 12 ára gamall fór ég að tefla af alvöru og þá hjá Taflfélaginu. Fram að þeim tíma hafði ég verið i fótbolta og öðrum iþróttunm, en ég lagði þær á hilluna og sneri mér eingöngu að skákinni.“

— Hefur þú teflt mikið á kappmótum?

„Ég hef teflt töluvert. Ég tefldi t.d. í unglingaflokknum á Skákþingi Reykjavíkur 1973 og vann þann flokk. Þá tefldi ég í 2. flokki á Haustmóti TR sama ár og vann þann flokk. Árið 1974 tefldi ég í D-flokki á Skák- þinginu og varð annar og á Íslandsmótinu það ár varð ég 7.—8. í meistaraflokki. Loks keppti ég á Haustmóti Kópavogs 1974 og varð efstur. Þá held ég að það helzta sé upptalið.“

— Nú minnir mig að þú hafir keppt erlendis skömmu fyrir jól?

„Já, ég fór til Svíþjóðar og tefldi á alþjóðlegu unglingamóti í Hallberg. Ég hafði ekki teflt ytra áður og fór einn út á mótið svo það var kannski ekkert skrítið, að árangurinn skyldi verða slakur. En ég hafði þó gaman af því að fara á þetta mót og órugglega mikið gagn af þvi. Þegar ég kom heim frá þessu móti var byrjað að tefla á Skákþingi Reykjavíkur og skellti ég mér því beint í það.“

— Kom frammistaðan á Skákþinginu þér ekki á óvart eftir þessa frekar slöku frammistöðu i Sviþjóð?

„Óneitanlega gekk mér mun betur en ég hafði reiknað með. Ég æfði mig mjög vel fyrir Svíþjóðarferðina en ég held að æfingin hafi ekki komið mér að notum fyrr en á Skákþinginu. Ég var í góðri æfingu og það gerði líka sitt gagn að koma beint úr öðru móti.“

— Varstu nokkuð taugaóstyrkur þegar þú byrjaðir að tefla við kappana í A-riðlinum?

„Svolítið fyrst en maður jafnaði sig á því, sérstaklega af þvi að mér gekk vel i byrjun.“

— Hver var þín erfiðasta skák?

1975_skakthing-reykjavikur_Margeir-Petursson_Fridrik-Olafsson„Tvimælalaust skákin við Friðrik. Ég átti aldrei möguleika gegn honum. Hann er sá bezti sem ég hef teflt við.“

— Nú áttu rétt á því að tefla i landsliðsflokki næst. Seturðu markið hátt þar?

„Ég er ákveðinn i því að nota mér réttindin og tefla í landsliðsflokknum. Ég set mér það eina mark að standa mig vel í keppninni en það er langt í frá að ég stefni eitthvað hátt, t.d. að efsta sætinu. Það er alveg út í hött.“

— Eyðirðu miklum tíma i skákina?

„Ég stúdera skákina á hverjum degi svona 1—2 tima eftir því sem tíminn leyfir og svo tefli ég auðvitað, aðallega i skákheimilinu.“

— Nú liggur þú yfir skákum meistaranna. Átt þú þér einhvern uppáhaldsskákmann?

„Ég er einna hrifnastur af Petrosjan fyrrverandi heimsmeistara og reyni að tefla eins og hann, en það tekst þvi miður alltof sjaldan.“

— Nú hefur Petrosjan orð á sér fyrir að vera heldur varkár taflmaður er ekki svo?

„Jú það er satt, en það borgar sig nú líka stundum að vera varkár.“

— Og að lokum Margeir. Gætir þú hugsað þér að verða atvinnumaður í skák?

„Ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt fram i timann. En ég er ákveðinn í því að halda áfram að tefla af fullum krafti meðan áhuginn er fyrir hendi. Hann skortir reyndar ekki þessa stundina.“

Morgunblaðið 2. febrúar 1975.

1975: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_skakthing_reykjavikur_Tafla

Vinningshlutall 86%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: XXI. Ólympíuskákmótið í Nice

Stórsigur Sovétmanna: Íslenska sveitin 21.-23. sæti af 74

 

Tíminn 24. júlí 1974.

Ólympiuskákmótið er fram fór í Nice í Frakklandi dagana 6.-30. júní, var hið 21. í röðinni, og jafnframt var 50 ára afmæli FIDE, Alþjóðaskáksambandsins, haldið hátíðlegt en það var stofnsett í París árið 1924. Þátttökuþjóðir voru nú 74 og var þeim skipt í 8 forriðla og voru 9 og 10 þjóðir í hverjum riðli, tvær efstu þjóðirnar skipuðu síðan úrslitariðilinn A, tvær þær næstu B-riðil o.s.frv.

1974 Karpov (1)
Hinn ungi Karpov leiddi firnasterka sveit Sovétríkjanna til sigurs á 21. Ólympíuskákmótinu.

Sovéska skáksveitin sigraði með nokkrum yfirburðum, og hlaut hún 46,5 vinninga af 60 skákum úrslitakeppninnar, í öðru sæti komu Júgóslavar með 37,5 og Bandaríkjamenn í þriðja sæti með 36,5.

Vinningshlutfall sovésku sigurvegaranna var: Karpov 12 v. af 14, Korchnoi 11,5 v. af 15, Spassky 11 v. af 15, Petrosian 12,5 af 14, Tal 11,5 af 15 og Kuzmin með 12,5 af 15.

Íslenska sveitin hafnaði í B-riðli úrslitakeppninnar, og varð þar í 5.-7. sæti ásamt Norð-mönnum og Pólverjum með 32 vinninga. A-riðill úrslitakeppninnar taldi 16 þjóðir, sömuleiðis B-riðill.

Íslendingar höfnuðu því endanlega í 21.-23. sæti, en þátttökuþjóðir voru 74, eins og fyrr greinir. Til gamans má geta þess, að á Olympiuskákmótinu í Skopje i Júgóslaviu 1972, hafnaði íslenska skáksveitin í 24. sæti, en þá voru 64 þjóðir mættar til leiks.

Vinningar íslensku skáksveitarinnar skiptust þannig:

Friðrik Ólafsson 10,5 vinningar í 17 skákum.
Guðmundur Sigurjónsson 10,5 vinningar í 18 skákum.
Ingi R. Jóhannsson 10,5 vinningar í 17 skákum.
Jón Kristinsson 6,5 vinningar í 13 skákum.
Ingvar Ásmundsson 6,5 vinningar í 11 skákum.
Björgvin Viglundsson, 5 vinningar í 11 skákum.

Fyrirliði sveitarinnar var Friðrik Ólafsson, en fararstjóri var Þórhallur Ólafsson læknir, og var fulltrúi Íslands, ásamt Þráni Guðmundssyni, á þingi FIDE er haldið var í Nizza á sama tíma.

Þar var dr. Max Euwe endurkjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) og varaforsetar voru kosnir þrír, í stað eins áður. Fyrir valinu urðu þeir Campomanes frá Filippseyjum, Prentice frá Canada, og B. Kasic frá Jugóslavlu.

Samþykkt var ein mikilvæg breyting á fyrirkomulagi Ólympíuskákmótsins, en hún var sú, að á næsta móti skyldi teflt eftir svissneska kerfinu, sennilega 13 umferðir. Hvar næsta Ólympluskákmót, árið 1976, yrði haldið, var ekki ákveðið á þessu þingi.

1974: XXI. Ólympíuskákmótið í Nice

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 62%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: Alþjóðlegt skákmót í Glasgow

,,Gott æfingamót fyrir mig“

 

Morgunblaðið 3. október 1974

Friðrik Ólafsson stórmeistari kom heim í gær frá Skotlandi, þar sem hann keppti á alþjóðlegu móti í Glasgow. Sigraði Friðrik í efsta flokki, sem skipaður var 12 mönnum, hlaut 4,5 vinning af 5 mögulegum, en umferðir voru aðeins fimm.

Framkvæmd mótsins var þannig, að þeir, sem unnu tefldu saman og þeir, sem töpuðu tefldu saman, en meðal keppenda voru sterkustu skákmenn Bretlands og Skotlands og einn skákmaður frá Ástralíu. Þetta mót var haldið til að auka áhuga á skákíþróttinni í Skotlandi og voru alls 400 þátttakendur, allt niður í barnaskólabörn, en skákáhugi hefur aukizt mikið á síðustu árum í Skotlandi.

Morgunblaðið hafði tal af Friðriki Ólafssyni i gærkvöldi og sagði hann, að fyrir sig persónulega hefði þetta verið gott æfingamót.

„Þótt ekki væri þarna menn á heimsmælikvarða“, sagði hann, „voru þarna sterkustu menn þessara landa og all þétt lið, þannig að maður varð að taka á honum stóra sínum. Ég lenti m.a. í þremur biðskákum. Númer tvö varð Basman frá Englandi með 3,5 vinning, en harin var efstur ásamt öðrum í brezka meistaramótinu s.l. ár, en tapaði einvígi um brezka meistaratitilinn. Þrír voru jafnir og næstir með 3 vinninga hver, en það voru Bellin frá Englandi, sem nú varð einn af efstu mönnum á brezka meistaramótinu, þar sem eftir er að keppa til úrslita, Cafferty frá Englandi og McKay frá Skotlandi.“

Meðal þátttakendanna í mótinu var heimsmeistari unglinga í skák, Miles frá Bretlandi, en hann hlaut 2 vinninga. Friðrik kvað mikíð gefið út af skákbókum í Bretlandi og skákmenn vel að sér í þeim, þannig að erfitt væri að koma þeim á óvart.

1974: Alþjóðlegt skákmót í Glasgow

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1974_Glasgov_tafla

Vinningshlutall 90%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Ljubojevic efstur, frábær frammistaða Friðriks

 

Jón Þ. Þór skrifar.

Eins og flestum mun í fersku minni stóð Friðrik Ólafsson stórmeistari sig með afbrigðum vel á stórmeistaramótinu í Las Falmas á Kanaríeyjum fyrr í vor, varð í 2-3. sæti með 10 v. af 15 mögulegum.

Friðrik leiddi mótið framan af, en um miðbik þess tapaði hann tveimur skákum í röð og missti þar með af efsta sætinu. Engu að síður verður þessi frammistaða Friðriks að teljast mjög góð; þetta var annað mótið, sem hann tók þátt í eftir að hann gerðist atvinnumaður, og því mun hann varla hafa verið kominn í fulla æfingu.

Beljavsky heimsmeistari unglinga kom mjög á óvart með sinni ágætu frammistöðu og sama má um Kúbumanninn G. Garcia segja. Hins vegar munu flestir hafa vænzt betri árangurs af bandarísku stórmeisturunum tveimur sem og af þeim Bent Larsen og Polugaevsky. Frammistaða hinna tveggja síðastnefndu getur að vísu trauðla talizt léleg, en staðreyndin er þó sú, að þeir blönduðu sér aldrei í baráttuna um efsta sætið.

Morgunblaðið 12. júní 1974.

1974: Alþjóðlegt skákmót í Las Palmas

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1974_Las-Palmas_tafla

Vinningshlutall 67%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: Alþjóðlegt skákmót í Lanzarote

I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

1974: Alþjóðlegt skákmót í Lanzarote

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1974_lanzarote-tafla

Vinningshlutall 64%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: VI. Reykjavíkurskákmótið

REYKJAVÍKURMÓTID 1974

Vassily Smyslov sigrar örugglega

 

smyslov_1974Á þessu ári voru liðin tíu ár frá því er fyrsta alþjóðlega mótið fór hér fram. Það var því sérstaklega ánægjulegt hversu vel til tókst með þátttöku að þessu sinni. Flestir okkar bestu menn voru með og erlendu þátttakendurnir með því sterkasta sem hér hefur verið boðið upp á. Þá vakti sérstaka ánægju, að þeir Smyslov og Bronstein skyldu vera fulltrúar Sovétríkjanna að þessu sinni.

Þriðja febrúar var þingið sett að Kjarvalsstöðum, þar sem Skáksambandið hafði fengið annan salinn undir mótið, og setti það sérstakan svip á viðburðinn. Menntamálaráðherra, Magnús Torfi, setti mótið með ágætri ræðu og Guðmundur G. Þórarinsson forseti skáksambandsins sagði nokkur orð. Að því búnu tók Guðmundur Arnlaugsson við stjórninni og keppnin hófst með því, að Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri lék fyrsta leikinn í skák þeirra Smyslovs og Tringovs.

Keppnin var hafin og margar spurningar sóttu á hugann. Svörin komu miskunnarlaus eftir því sem á leið mótið. Erlendu keppendurnir voru ofjarlar okkar manna enn einu sinni. Friðrik hélt þó dampinum uppi fram í fimmtu umferð er hann tapaði óvænt fyrir ungum og efnilegum Norðmanni, Leif Ögaard. Friðrik náði sér samt strax á strik aftur, en tap í þremur síðustu skákunum gerði útslagið á árangurinn. Frammistaða stórmeistarans okkar var þó engan veginn slæm. Hann hefur ekki teflt neitt um nokkurra ára skeið, og því varla hægt við því að búast að hann standi jafnfætis atvinnumönnunum svona í fyrsta móti. Friðrik hefur nefnilega ákveðið að gera tilbreytingu á högum sínum komandi ár og gerast atvinnumaður í skák. Ákvörðunin mun þó aðeins ná yfir eitt ár til að byrja með. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir íslenzka skáklist og verður gaman að fylgjast með átökum hans við fremstu meistara heims í skákmótum ársins. Árangur Friðriks nú verður að skoðast með tilliti til þessarar ákvörðunar hans. Hann hefur þegar hafið kerfisbundna þjálfun og rannsóknir og sagði því, að þátttaka í þessu þingi félli ekki sem best inn í þá áætlun, þar sem hann væri enn stutt á veg kominn í þeim efnum. Hann taldi því að það bezta sem hann gæti gert, væri að tefla hverja skák til þrautar burtséð frá öllum jafnteflismöguleikum. Taflmennska Friðriks fór í einu og öllu eftir þessari ákvörðun. Hann tefldi af hörku og þar sem margir hefðu sæzt á jafntefli hélt hann áfram og teygði sig þá stundum of langt og tapaði. Það fer samt ekki Iá milli mála, að fyrir mann sem ætlar sér að ná einhverjum árangri, verður hann á stundnum að tefla til þrautar og staðreynd er að enginn nær langt án þess að þora að taka áhættuna.

1974 Reykjavíkurmótið - myndEins og áður segir sigraði Smyslov örugglega á þessu þingi. Gamla kempan var í essinu sínu og hinn kristalstæri „position-stíll“ reyndist gjörsamlega óyfirstíganlegur. Eftirtektarverðast var hversu létt hann virtist eiga með að framfylgja stílnum. Hann lenti aldrei í tímahraki og oftast var útséð um úrslitin snemma tafls. Hann lenti aldrei í tapstöðu að því ég bezt veit, en stundum fannst áhorfendum eins og andstæðingar hans væru heldur klaufskir við jafnteflismöguleikann.

Koma Smyslovs til Íslands hefur verið langþráður draumur og ekki brást hann því trausti sem menn hafa á honum sem skáksnillingi.

Í öðru sæti var ungverjinn Forintos, einhver geðþekkasti skákmaður sem ég hef hitt, enda vann hann hugi allra með frábærri framkomu og glæsilegri taflmennsku. Hann þurfti 10 vinninga til þess að öðlast stórmeistaratign, svo það jók enn á ánægju móthaldsins að einn keppandinn, Forintos, náði einmitt stórmeistaratign á þessu móti. Forintos ívar í efsta eða næstefsta sæti allt mótið út í gegn, og virtist ekki láta það mikið á sig fá, þótt svo mikið væri í húfi sem raun bar vitni. Hann virðist mjög sterkur skákmaður, þótt styrkur skákmanna virðist vera eins og veðrið, skin og skúrir. Þannig tefldi Forintos á móti skömmu áður en hann kom hér ásamt Tringov. Er skemmst frá því að segja, að Forintos varð í miðju móti en Tringov sigraði glæsilega. Hér snerist dæmið næstum við.

Bronstein og Velimirovic komu næstiri í 3. og 4. sæti. Fyrirfram var búist við mestu af þessum mönnum, hvað snerpu og áræði snertir. Báðir frægir fyrir hinn hvassa sóknarstíl sinn. Því miður varð ekki af sýningunni að þessu sinni, en vonandi eru þeir ekki þrotnir að kröftum enn. Norðmaðurinn Leif Ögaard náði þeim ágæta árangri, að verða 5. í svo sterku móti. Má telja að nú sé hann farinn að ógna Svein Johannesen, norska skákkonunginum, ef hann hefur ekki þegar rutt honum úr hásæti. Leif teflir af miklu öryggi, en naut þess, sérstaklega í upphafi mótsins, að hann var talinn auðveld bráð. Þetta fór á annan veg. Ögaard var ekki eins auðunninn og ætlað var. Má ætla, að Íslendingarnir hefðu jafnvel getað fengið fleiri jafntefli á hann ef þeir hefðu reiknað hann a. m. k. jafnoka sinn í skáklistinni. Hann vann þá alla nema Júlíus Friðjónsson. Júlíus tefldi við Ögaard í síðustu umferð og Norðmanninum dugði jafntefli til þess að hljóta alþjóðlegan meistaratitil. Það urðu því tveir sem áfanga náðu á þessu móti og er það gleðiefni, þótt gleðilegra  hefði verið, að þeir sem mótið var stofnað fyrir hefðu verið nær markinu.

Friðrik og Guðmundur komu næstir og jafnir. Um árangur Friðriks hefur þegar verið rætt, en Guðmundur fór illa af stað og leit ekki vel út hjá honum fram eftir móti. Hann sótti sig samt er á leið og árangurinn varð góður þegar yfir lauk.

Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.

1974: VI. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1974 Reykjavíkurskakmótið - taflaa

Vinningshlutall 57%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1973: Sex landa keppni

,,Það var einhver ógæfa yfir okkur“

 

Tíminn 11. ágúst 1973.

„Þetta gekk einkennilega illa hjá okkur. Við vorum oft komin með mun betri og jafnvel unnin töfl, en einhvern veginn tókst okkur að klúðra skákunum niður i jafntefli og jafnvel tapa þeim. Það var einhver ógæfa yfir okkur,“ sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari, í viðtali við Timann um frammistöðu íslenzku skáksveitarinnar í sexlandakeppninni sem nýlokið er í Danmörku, en við náðum tali af Friðriki við heimkomu hans í gærkvöldi.

Íslenzka sveitin hafnaði í fimmta sæti keppninnar með 11,5 vinning af 30 mögulegum. Danir urðu sigurvegarar með 20,5 vinning, næstir komu Svíar með 17,5 Norðmenn þriðju með 15,5 vinning, Vestur-Þjóðverjar fjórðu með 15 vinninga, þá komu Íslendingar með 11,5 vinning og lestina ráku Finnar með 10 vinninga.

Íslenzka sveitin vann enga hinna sveitanna. Bezt gekk gegn Finnum, en þar varð jafntefli, þrír vinningar gegn þremur. Tveir og hálfur vinningur náðust af Svíum, Dönum og Þjóðverjum, en Norðmennirnir létu ekki nema einn vinning af hendi.

Friðrik sagðist sjálfur hafa fengið tvo og hálfan vinning eða fimmtíu prósent. Hann vann Finnann Saren, tapaði fyrir Þjóðverjanum Dueball, en gerði jafntefli við Larsen, Andersson og Ögaard. Ekki sagðist Friðrik vera ánægður með þessa vinningatölu, sagðist hafa náð betri stöðu í öllum skákunum, nema þeirri gegn Svíanum Andersson, en ekki tekizt að nýta sér yfirburðina til vinnings.

Nefndi hann sem dæmi skákina gegn Dueball, en þar var hann kominn með gjörunnið tafl, með mann yfir og gat reyndar gert út um skákina í einum leik, en þá lék hann svo hroðalega af sér og skákin tapaðist. Friðrik sagðist hafa fengið betra tafl út úr byrjuninni gegn Larsen og haft betri stöðu i biðskákinni, en lítill timi vannst til að rannsaka biðstöðuna, sem var flókin og áhættusöm, þannig að Friðrik sagðist ekki hafa viljað taka áhættuna af því að tefla til vinnings og hefðu þeir félagarnir því samið um jafntefli fljótlega eftir að setzt var að skákborðinu að nýju.

Annars var Larsen ákaflega heppinn á þessu móti, sagði Friðrik. Hann var t.d. með koltapaða skák gegn Svíanum, en Svíinn lék af sér og tapaði. Larsen og Dueball fengu beztu útkomu keppenda á fyrsta borði, hlutu 3,5 vinning hvor.

Um frammistöðu annarra keppenda í íslenzku sveitinni, sagði Friðrik að Ingi R. Jóhannsson hafði náð beztum árangri. Ingi fékk fjóra vinninga úr fimm skakum, gerði jafntefli við Svíann og Norðmanninn. Ingvar Ásmundsson og Júlíus Friðjónsson hlutu 1,5 vinning hvor og þau Jón Kristinsson og Guðlaug Þorsteinsdóttir fengu einn vinning.

,,Vissulega virtist kvenmaðurinn í sveitinni vera veikasti hlekkurinn, — enda er Guðlaug aðeins 12 ára, en hún spjaraði sig ágætlega og gerði tvö jafntefli. Hún tefldi oft stórvel, en skorti reynslu til þess að ná meiru út úr skákunum. Stelpan verður stórgóð í framtíðinni og miklu betri en þessar kvensur, sem hún átti í höggi við á þessu móti,“ sagði Friðrik að lokum.

1973: Sex landa keppni

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1972: V. Reykjavíkurskákmótið

Friðrik Ólafsson, Vlastimil Hort og Florin Gheorghiu urðu efstir og jafnir á V. Reykjavíkurskákmótinu, sem var gríðarlega vel skipað og spennandi. Þarna átti Friðrik einhvern magnaðasta endasprett sem um getur — sigraði í sex síðustu skákunum. Í mótslok átti Morgunblaðið viðtal við Friðrik. Viðtalið birtist í blaðinu 1. mars 1972 og fer hér á eftir.

„Það er gott að vera búinn,“ sagði Friðrik Ólafsson, skákmeistari , er Morgunblaðið hitti hann að máli í fyrradag. „Mótið er ef til vill hið sterkasta, sem hér hefur verið haldið, nema ef vera skyldi stúdentaskákmótið, sem haldið var hér 1957. Þar voru margir mjög sterkir skákmenn.“

Friðrik Ólafsson varð í 1.-3. sæti á Reykjavíkurskákmótinu ásamt Tékkanum Vlastimil Hort og Rúmenanum Florin Gheorghiu. Vann Friðrik það afrek að vinna 6 síðustu skákir sínar á mótinu.

Við spurðum Friðrik um þetta: „Já, þetta gekk heldur skrykkjótt fyrst framan af og ég var lengi að komast í gang. Sennilega hef ég tekið mótið full rólega í upphafi. Ég fann það sjálfur um miðbik mótsins, þegar ég komst í réttan baráttuhug.“

Hvað olli því?

„Ég veit það ekki fyrir víst, en þó gæti ég ímyndað mér að skákin gegn Tukmakov hefði skipt sköpum. Það er alltaf mjög mikilvægt að vel gangi. Gott gengi í skák, kemur manni oft og tíðum á sporið.“

Hvaða skák fannst þér erfiðust?

„Það er erfitt að segja. Síðasta skákin var kannski erfiðust. Þá mátti svo litlu muna og ekkert út af bera til þess að settu marki náð — en það hafðist, þótt sú skák hafi því miður verið Timman kannski öllu mikilvægari því að með því að tapa henni missti hann af stórmeistaratitlinum að þessu sinni.“

Nú hlutu tveir ungir menn næga stigatölu fyrir stórmeistaratitil á þesu móti. Annar þeirra, Andersson er mjög ungur maður. Hvað finnst þér um hann?

„Já, það er mjög ánægjulegt að þessir tveir skákmenn, Andersson og Tukmakov skyldu ná þessum áfanga hér og að þetta mót skyldi í raun gera út um að þeir hlytu stórmeistaratitil. Mér líst ágætlega á Andersson sem skákmann og hann ætti að geta náð nokkuð langt. Það virðist ekkert vefjast fyrir honum. Skákin er hið eina sem kemst að. Að þessu leyti finnst mér honum svipa svolítið til Fischers. Það komast engar efasemdir að hjá honum.“

Hvað tekur nú við í skákinni næst.

„Ég veit það ekki. Eins og menn vita var ég valinn varamaður á millisvæðamótið og það þýðir að heltist enginn úr lestinni, þá þarf ég að byrja frá rótum. Ég hef ekki ákveðið mig enn um þátttöku, en verði af því þá þarf ég að tilkynna þátttöku í svæðamóti í Júgóslavíu í vor. Eigi ég svo að komast áfram í millisvæðamót, þarf ég að verða þar í 1. eða 2. sæti — Enn veit ég ekki hvaða keppendur verða þar. Georghiu þarf einnig að tefla á svæðamóti, af því að hann hafði ekki nægan styrkleika til þess að komast í millisvæðamótið, en það höfðu Stein og Hort aftur á móti. Nú, þá eru einnig við og við sæmileg mót, sem kæmu til greina. Ég gæti til dæmis teflt á mótum í Hollandi þegar ég vil.“

Finnst þér þú vera í sama keppnisforminu og hér áður fyrr, þegar þú vannst þína stóru og miklu sigra?

„Það er allt öðru vísi. Nú hef ég aðstöðu til þess að tefla miklu öruggar. Í gamla daga var ég vígreifur og til alls líklegur — var að koma mér up og hafði engu að tapa en allt að vinna. Þá rak metnaðurinn mann áfram, en nú þegar maður er kominn upp á ákveðið svið, er erfiðara að láta að sér kveða. Takist illa til, getur fallið orðið svo mikið.“

Hvað finnst þér um mótið í heild?

„Þetta mót tókst mjög vel og þeir sem stjórnuðu því eiga miklar þakkir skyldar. Erlendu keppendurnir voru mjög ánægðir, að því er ég held. Slík mót hér heima eru mjög æskileg og veita íslenskum skákmönnum tækifæri til að reyna getu sína gegn erlendum skákmönnum. Kannski eru tvö ár [milli Reykjavíkurskákmóta] of langur tími og nauðsynlegt að halda mótin árlega eða þá senda íslenska skákmenn utan til þátttöku í mótum erlendis. Það var einnig áberandi fyrst framan af, að sumum íslensku skákmönnunum stóð stuggur af erlendu þátttakendunum.“

Nú, ef við skiptum um umræðuefni. Hvað finnst þér um að halda heimsmeistaraeinvígið hér?

„Ég vona að það verði haldið hér og að því ber að stuðla, ef landkynning er einhvers virði. Frá skáklegu sjónarmiði gæti einvígið ýtt mjög undir áhuga á skák meðal Íslendinga.

Á hvorn keppandann veðjar þú?

„Ég veðja nú á Spassky — kannski vegna þess að allir veðja á Fischer. Þó ber þess að geta að Spassky er mjög harður einvígismaður, síðan hann komst verulega í gang. Hann gerði atlögu að heimsmeistaratitlinum 1966 og tapaði, en vann síðan titilinn af Petrosian 1969. Hann hefur teflt mikinn fjölda einvígisskáka, og frá því er hann virkilega komst í gang hefur kannski tapað 5 skákum. Ef Spassky stendur ekki í Fischer, þá gerir það enginn.“

Hvernig er staða þín gegn þessum tveimur mönnum?

„Ég hef 5 sinnum teflt við Spassky, tapað þremur skákum og gert tvö jafntefli. Gegn Fischer stend ég heldur ekki vel. Þar hef ég tapað 6 skákum, en unnið tvær.“

Hvað heldur þú að Rússarnir geri í sambandi við keppnisstaðinn?

„Ég veit ekki hvað þeir eru stífir á mótmælum sínum, en það er alveg ljóst, að þeir vilja að einvígið verði haldið hér og þeir berjast fyrir því. Það er hin stóra spurning, hve sterkur dr. Euwe er. Þá er það einnig ljóst, að Júgóslavar óttast að þeir hafi ekki eins sterka vígstöðu og Íslendingar og leggja því til samkomulag um skiptingu einvígisins. Tryggara hefði verið, að hafa fyrri hluta einvígisins hér heima, en töluverð áhætta er að hafa hinn síðari, því ekki er ljóst, hve margar skákir verða etir. Þó er það og kostur að síðari hlutinn getur farið fram í ágúst-september, þegar aðalferðamannatíminn er liðinn. Ég ræddi við Spassky í Moskvu fyrir jól og sagði honum þá, að ef hann vildi koma til Íslands, væri hann ávallt velkominn. Þá hafði tilboð Skáksambandsins ekki verið lagt fram, svo að ég gat ekki orðað þetta beint við hann. En ég afhenti honum mikið lesefni um Ísland, bæklinga o.fl.“

Hvers vegna kemur Spassky hvergi fram og segir álit sitt á tilboðunum opinberlega?

„Ég held að sovéska skáksambandið vilji ekki þreyta Spassky á samningaviðræðum og öllu því taugastríði, sem því fylgir. Þótt hér sé aðeins um skák að ræða, þá er þó annað og meira að baki. Skákstyrkleiki Sovétríkjanna er talinn afsprengi þeirrar stjórnmálastefnu, sem ríkir í Sovétríkjunum og það yrði þeim töluvert áfall að missa heimsmeistarann. Lenín sjálfur var skákmaður og taldi skák góða afþreyingu fyrir fólk almennt.“

Að lokum Friðrik, hvarflar aldrei að þér að gerast atvinnuskákmaður?

„Ég veit ekki — mér finnst eins og verið hefur ekki hafa verið nógu skemmtilegur grundvöllur fyrir atvinnuskákmenn. Verðlaun eru mishá og á þessu máli eru einnig fleiri hliðar. Mótin eru oft og tíðum mjög löng og menn eru fjarverandi frá fjölskyldu sinni kannski mánuðum saman. Maður verður að hugsa um það hvernig maður geti höndlað hamingjuna á sem bestan hátt,“ sagði Friðrik Ólafsson að lokum.

1972: V. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1972 Reykjavíkurmotið - tafla

Vinningshlutall 73%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1971: Minningarmót Alexander Alekhine í Moskvu

Karpov og Stein sigruðu í Moskvu: Friðrik lagði Tal í 22 leikjum!

 

Anatoly Karpov
Anatoly Karpov

Hinn tvítugi Anatoly Karpov og kempan gamalreynda, Leonid Stein, sigruðu á sterkasta skákmóti ársins, sem fram fór í Mosvku 24. nóvember til 18. desember 1971. Heimsmeistarinn Spassky varð að gera sér 6.-7. sætið að góðu, en á mótinu tefldu hvorki fleiri né færri en fimm fyrrverandi og verðandi heimsmeistarar: Karpov, Smyslov, Petrosian, Tal og Spassky.

Keppendur voru 18, og sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Friðrik Ólafsson deildi 12. sætinu með rúmenska stórmeistaranum Gheorghiu með 7,5 af 17 mögulegum. Hann vann Mikail Tal í aðeins 22 leikjum með laglegri drottningarfórn. Skákin, og endalokin, vöktu mikla athygli, og sagði Tal síðar að næstu 10 árin hefði hann eytt að minnsta kosti sekúndu(!) á hvern leik í miðtaflinu til að passa upp á 8. reitaröðina.

Friðrik gerði jafntefli við báða sigurvegarana. Þetta var í fyrsta sinn sem hann tefldi við Karpov, sem var á hraðferð upp á stjörnuhimininn.

Leonid Stein
Leonid Stein

Leonid Stein var af kynslóð Friðriks, fæddur 1934, og meðal allra sterkustu skákmeistara heims á sjöunda áratugnum. Hann varð skákmeistari Sovétríkjanna í þrígang á árunum 1963 til 1966, og í hávegum hafður fyrir leiftrandi sóknarstíl. Þeir Friðrik mættust alls þrisvar sinnum við skákborðið, Friðrik vann eina skák og tveimur lauk með jafntefli. Stein lést í blóma lífsins, árið 1973.

Árangur Friðriks á þessu ofurmóti verður að teljast góður, enda fór hann til Moskvu með litlum fyrirvara og var einn af sárafáum keppendum sem ekki voru atvinnumenn. Tilgangur hans með ferðinni var ekki síst að telja Sovétmenn á að heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskys færi fram í Reykjavík.

1971: Minningarmót Alexander Alekhine í Moskvu

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1971_Moskva-tafla

Vinningshlutall 44%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1971: Skákþing Norðurlanda í Reykjavík

Fingraæfing Friðriks í Norræna húsinu

 

Friðrik Ólafsson sigraði með yfirburðum á Norðurlandamótinu í skák, sem fram fór í Norræna húsinu Reykjavík í ágúst 1971. Hann hlaut 9 vinninga af 11 mögulegum, og var 1,5 vinningi á undan danska meistaranum Sejer Holm. Þriðji varð Johnny Ivarsson frá Svíþjóð. Friðrik var eini stórmeistarinn sem keppti á mótinu, og því um ,,skyldusigur“ að ræða. Sjálfur sagði Friðrik í viðtali við Vísi 30. ágúst: ,,Einhvern veginn var ég í þeirri aðstöðu, að ég varð að vera efstur.“

Þrátt fyrir sigurinn, sem Friðrik hafði tryggt sér fyrir síðustu umferð var meistarinn ekki nema í meðallagi ánægður með taflmennsku sína, og saknaði þess líka að fleiri Íslendingar skyldu ekki blanda sér í toppbaráttuna. Það gladdi þó hjörtu Íslendinga að hinn ungi og bráðefnilegi Sævar Bjarnason skyldi verða unglingameistari Norðurlanda.

Sigur Friðriks var aldrei í hættu, enda andstæðingarnir ekki af sama styrkleika og hann á að venjast á alþjóðlegum stórmótum. Þannig hafði hann fyrir mótið aldrei heyrt getið um Svíann Ivarsson sem hreppti bronsið. Morgunblaðið spurði Friðrik 26. ágúst hvort hann væri aðeins með í mótinu til þess að halda sér í þjálfum:

,,Það má segja að ég sé að þessu til að halda fingraæfingu,“ sagði Friðrik og hló við.

Í samtali við Vísi sagði Friðrik að erfiðasta skákin hefði verið gegn Jóni Kristinssyni, en sú skemmtilegasta gegn Norðmanninum Barda í síðustu umferð:

,,Þegar ég tefldi hana, var ég öruggur um efsta sætið svo að úrslitin skiptu ekki máli. Ég var í léttu skapi, og þá gengur manni oft best.“

1971: Skákþing Norðurlanda í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 82%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1971: 33. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Kortsnoj sigurvegari í Beverwijk-mótinu

Friðrik Ólafsson leiddi mótið lengst af

 

Fridrik_Olafsson-1971Laust upp úr síðustu áramótum lagði Friðrik Ólafsson land undir fót. Var förinni heitið alla leið til Bjórvíkur í Hollandi, hvar hann skyldi heyja kapp við marga snjalla skákmeistara. Meðal þeirra var fyrrverandi heimsmeistari, nýbakaður meistari Sovétríkjanan ásamt Vesturþjóðverjanum unga, sem nýverið vann það glæsta afrek, að verða kandidat í heimsmeistarakeppninni sem nú stendur yfir. Þarna voru margar aðrar frægar kempur, svo ekki virtist blása byrlega fyrir stórmeistaranum okkar.

Dag skal að kveldi lofa, stendur einhvers staðar, og þannig var því einnig varið nú. Þegar líða tók á mótsdaginn, kom í ljós að Friðrik átti í fullu tré við hinar erlendu kempur. Hann var í fremstu röð allt frá upphafi og til loka. Þegar síðasta umferð rann upp var hann efstur ásamt Kortsnoj og höfðu þeir hálfum vinning meira en næstu menn. Báðir áttu að mæta stórmeisturum í síðustu umferðinni svo ekki hallaði á hvað það snerti. Kortsnoj tefldi við Hubner frá V.-Þýzkalandi og átti í vök að verjast lengst af. Þegar svo virtist, að Þjóðverjinn væri að brjóta Sovétbúann undir sig, urðu  honum á slæm mistök, sem kostuðu hann skákina.

V-Kortsjoj_B-IvkovKortsnoj var því orðinn efstur og Friðrik varð að vinna Jan Hein Donner frá Hollandi ef hann ætlaði ekki að  verða af sigurlaununum. Friðrik barðist lengi til sigurs, en Donner varðist að sama skapi vel. Lauk svo skákinni að hvorugur vann á hinum og Friðrik varð að sætta sig við annað til fimmta sæti. Var það þeim mun sárara fyrir okkar mann, að hann hefur oftast unnið Donner í þeirra viðureignum.

Kortsnoj bar því sigur úr býtum frá þinginu með 10 vinninga. Hann er vel að þessum sigri kominn, þótt hann hafi ekki teflt eins sannfærandi nú eins og svo oft áður. Hann fór hægt af stað, meðal annars tapaði hann í annarri umferð fyrir ungum og efnilegum Svía, Ulf Andersson og gerði töluvert af jafnteflum.

Árangur Friðriks var frábær. Hann tefldi að eigin sögn misjafnlega, en vel þegar á heildina er litið. Hann tapaði aðeins tveimur skákum, en vann marga ágæta sigra, t. d. Andersson frá Svíþjóð, en það var lengsta skák mótsins, og Húbner, V-Þýzkalandi. Með frammistöðu sinni á þessu móti hefur Friðrik enn einu sinni sýnt fram á það, að hann er einn af allra sterkustu skákmeisturum heims.

S-Gligoric_T-PetrosjanÁsamt Friðrik í 2.-5. sæti urðu þeir T. Petrosjan, fyrrum heimsmeistari, S. Gligmic og B. lvkov. Enginn af þessum mönnum var raunverulega í toppnum fyrr en í síðustu umferðunum, þrátt fyrir það, að þeir séu allir frábærir skákmenn.

Svíinn Ulf Andersson, sem aðeins er 19 ára gamall, kom helzt á óvart með góðri taflmennsku. Hann virtist eiga í fullu tré við alla og var efstur svotil sleitulaust þar til seint í mótinu, er hann tapaði sinni fyrstu skák fyrir Friðrik. Eftir það var hann ekki eins öruggur og í síðustu umferð glataði hann góðri skák gegn Ivkov. Svíar hafa eignast þarna framúrskarandi skákmann sem áreiðanlega á eftir að afla sér mikils frama í list sinni.

Skák nr. 2577.

Hvítt: Friðrik Ólafsson
Svart: R Húbner (V-Þýzkaland).

Sikileyjar-vörn.

1971: 33. alþjóðlega Hoogovens skákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1971_hoogovens-tafla

Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1970: Haustmót TR: Ægishjálmur Friðriks

Sjötíu ára Afmælismóti T.R. er lokið. Skákmótið stóð yfir í rúmlega mánaðartíma, eða frá 22. september til 30. október. Keppendur voru samtals 62 í þremur flokkum, meistaraflokki með 32 keppendum, fyrsta flokki með 12 keppendum og öðrum flokki með 18 keppendum.

Margir telja að sjaldan ef nokkru simni hafi meistaraflokkur verið betur setinn. Í meistaraflokki bar ægishjálm yfir aðra, skáksnillingurinn Friðrik Ólafsson, fékk hann 10 vinninga af 11 mögulegum, leyfði aðeins tvö jafntefli og var aldrei í taphættu, enda tefldi hann frábærlega traust og „logískt“.

Annar varð Stefán Briem með sjö og hálfan vinning. Skákir Stefáns vöktu mikla athygli, enda má telja hann með einn fjörugasta skákstíl, sem hér hefur sézt. Stefán slapp með „skrekkinn“ í skákinni víð Guðmund Ágústsson, en kannski var hann líka óheppinn í skákinni við Braga Kristjánsson, en í þeirri skák varðist Bragi vel. Stefán var vel að sínu sæti kominn.

Næstir koma fimm skákmenn með sjö vinninga hver og má vart á milli sjá, en ákveðið var við byrjun mótsins að stig myndu ráða um öll önmur sæti en efsta sæti, en stig eru samanlagðir vinningar andstæðinganna. Bragi Kristjánsson varð þriðji með sjö vinnimga (70 stig) hnífjafnir í fjórða og fimmta sæti urðu Guðmundur Ágústsson og Ingi R. Jóhannsson með sjö vinminga og jafnir á stigum (69,5).

Þetta voru fimm verðlaunasætin en verðlaun voru samtals þrjátíu og fimm þúsund krónur: 1. verðlaun 15.000,00, 2. verðlaun 10.000,00, 3. verðlaun 5000,00, 4. verðlaun 3.000,00 og 5. verðlaum 2.000,00. Þetta eru veglegustu verðlaun, sem veitt hafa verið á innlendu skákmóti.

Í sjötta sæti kom Björn Siguriónsson með sjö vinninga (69 stig) og í sjöunda sæti Bjöm Þorsteinsson einnig með sjö vinninga, en hann var töluvert lægri á stigum en hinir (59 stig). Áttundi varð Gunnar Gunmarsson með sex og hálfan vinning.

Í fyrsta flokki sigraði Baldur Pálmason með fimm og hálfan vinning af sjö mögulegum, annar varð Pétur Þorvaldsson með fimm og ganga þeir upp í meistaraflokk.

Ríkisútvarpið má bú- ast við góðu gengi á næstunni í „Firmakeppninni“, en bæði Baldur og Pétur eru starfsmenn þar. Í öðrum flokki sigraði Sigurður Tómasson, fékk sex vinninga af sjö. Annar varð Jón Baldurssom með fimm vinninga og þriðji Páll Þór Bergsson með fimm vimninga. Mótsstjóri og einnig skákstjóri var Svavar Svavarsson.

Frétt frá Taflfélaginu.

1970: Haustmót TR

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Vinningshlutall 94%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1970: Heimaliðið gegn Sovétríkjunum

I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

1970: Heimaliðið gegn Sovétríkjunum

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1970_heimalidid_sovjet_tafla

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1970: IV. Reykjavíkurskákmótið

Guðmundur Sigurjónsson vann glæsilegan sigur á IV. Reykjavíkurskákmótinu, sem fram fór í Hagaskóla 15. janúar til 5. febrúar 1970. Guðmundur fékk 12 vinninga af 15 og tapaði ekki skák.  Vendipunkturinn í mótinu var mögnuð baráttuskák Guðmundar og Friðriks Ólafssonar í 5. umferð. Þar hafði Guðmundur betur og var þetta í fyrsta sinn sem Friðrik tapaði fyrir Íslendingi á Reykjavíkurmóti.

Áður en mótið hófst þóttu Friðrik og júgóslavenski stórmeistarinn Milan Matulovic sigurstranglegastir. Matulovic (f. 1937) varð skákmeistari Júgóslavíu 1965 og 1967, og hafði auk þess unnið marga sigra á alþjóðlegum mótum. Hann náði sér aldrei á strik í Hagaskóla og endaði í 7.-8. sæti ásamt Jóni Kristinssyni. Jón vann það afrek á mótinu að leggja bæði Friðrik og Matulovic.

Rúmeninn Ghitescu (f. 1934) varð í 2. sæti á mótinu, hlaut 11,5 vinning, og Kanadamaðurinn Bruce Amos kom flestum á óvart með því að hreppa bronsið með 11 vinningum.

Helgi Ólafsson stórmeistari segir í hinni bráðskemmtilegu bók sinni um Reykjavíkurmótin, að af mótstöflu og skákunum sem Friðrik tefldi, mætti ráða að Friðrik hafi í einhverri lægð um þessar mundir. Lítið hafi sést af þeim glæsilegu tilþrifum sem einkenndu taflmennsku hans á á III. Reykjavíkurmótinu.

En glæsilegur sigur Guðmundar á mótinu var öllum íslenskum skákáhugamönnum fagnaðarefni, og sýndi að við vorum nú að eignast annan meistara sem var líklegur til að komast í fremstu röð. Guðmundur stóð undir þeim væntingum og varð annar stórmeistari Íslendinga, árið 1975.

1970: IV. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1970 Reykjavíkurskákmotið - tafla

Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1970: Alþjóðlegt skákmót í Lugano

Morgunblaðið, 20. mars 1970.

Friðrik Ólafsson varð annar á stórmeistaramótinu sem lauk í gær í Lugano, Sviss. Bent Larsen sigraði á mótinu, hlaut 9,5 vinning, en Friðrik 8,5. Í þriðja og fjórða sæti urðu Gligoric, Júgóslavíu, og Vestur-Þjóðverjinn Unzicker með 7,5 vinning hvor. Byrne, Bandaríkjunum hlaut 7 vinninga og varð fimmti. Ungverjinn Szabo varð sjötti með 6 vinninga, Tékkinn Kavalek sjöundi með 5,5 og Donner, Hollandi, áttundi með 4,5 vinning.

 

Öllum skákunum í síðustu umferð lauk með jafntefli. Friðrik gerði jafntefli við Byrne, Donner við Larsen, Unzicker við Kavalek og Gligoric við Szabo. Flestar voru skákirnar stuttar og keppendur búnir að sætta sig við röðina og enginn þeirra virtist þess umkominn að taka á sig neina hættu undir lokin.

Friðrik vann 5 skákir, gerði 7 jafntefli og tapaði tveimur skákum á mótinu, en Larsen vann 7 skákir, gerði 5 jafntefli og tapaði einnig tveimur.

Blaðið átti í gær stutt viðtal við Friðrik og í því gat hann þess að á morgun héldi hann frá Sviss til Belgrad, höfuðborgar Júgóslavíu, en þar hefst þann 29. þessa mánaðar allnýstárleg skákkeppni, sem oft hefur verið talað um á undanförnum árum en aldrei orðið að veruleika fyrr en nú, en  það er keppni milli 10 bestu skákmanna Sovétríkjanna gegn 10 bestu skákmönnum heims utan Sovétríkjanna.

 

Dr. Euwe, heimsmeistari í skák 1935-37, valdi heimsliðið. Friðrik var valinn í 11. sæti, eða sem 1. varamaður í keppninni. Aðspurður um ákvörðun Bent Larsens um að taka ekki þátt í fyrrnefndri keppni, sagðist Friðrik halda að Larsen ætli að mæta í Belgrad og sjá hverju fram vindur. En Larsen vill tefla á 1. borði, eða sitja hjá ella.

 

,,Það er dálítið erfitt þegar um tvær primadonnur er að ræða. Önnur hvor verður að gefa sig,“ bætti Friðrik við og átti þá við þá Fischer og Larsen á 1. og 2. borði heimsliðsins.

 

Í keppni þessari tefla Sovétmenn, með Spassky og Petrosian í fararbroddi, fjórum sinnum gegn heimsliðinu og er því um 40 mögulega vinninga að tefla.

 

Blaðið óskar íslenska stórmeistaranum til hamingju með sína ágætu frammistöðu í Lugano.

1970: Alþjóðlegt skákmót í Lugano

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1970 lugano mótstafla

Vinningshlutall 61%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1970: Skákkeppni stofnana

Friðrik og Stjórnarráðið í 3. sæti

 

Hinni árlegu skákkeppni stofnana í ár er lokið. 41 skáksveit mætti til keppninnar að þessu sinni og voru 18 þeirra í A-flokki en 23 í B-flokki. Efstar í A-flokki voru sveitir Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins annars vegar og A-sveit Búnaðarbankans hins vegar. Hlutu þær 16,5 hvor.

Sveit Stjórnarráðsins var í þriðja sæti með 16 vinninga, sveit Útvegsbankans fjórða með 15 vinninga, B-sveit Hreyfils varð fimmta 14 vinninga(!) og A-sveit Hreyfils sjötta með 13 vinninga. Eins og sjá má af vinningum var keppnin afar tvísýn og skemmtileg.

Tefldar voru sex umferðir eftiir Monrad-kerfi og teflt á fjónum borðum. Mögulegir vinningar voru því 24.

1970: Stofnanakeppnin

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 100%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1969: Svæðamót FIDE í Aþenu

,,Þetta misheppnaðist einhvern veginn“

 

Milan Matulovic
Milan Matulovic

Júgóslavinn Milan Matulovic vann nauman en verðskuldaðan sigur á svæðamóti FIDE í Aþenu, kom í mark sjónarmun á undan Hort frá Tékkóslóvakíu og Þjóðverjanum Hübner. Matulovic var jafnaldri Friðriks, fæddur 1935, og var um árabil meðal allra sterkustu skákmanna Júgóslavíu.

Árangur Friðriks í Aþenu olli bæði honum og aðdáendum hans vonbrigðum, svo sem ráða má af viðtali sem blaðamaður Vísis átti við hann 6. nóvember 1969. Eins og fram kemur í viðtalinu var herforingjastjórn við völd í Grikklandi og kraumandi spenna. Viðtalið fer hér á eftir:

,,Ég er svona að safna mér saman. Ég er hálf eftir mig eftir þetta,“ sagði Friðrik Ólafsson skákmeistari, þegar Vísir ræddi við hann nýkominn heim frá svæðamótinu í Aþenu, þar sem hann varð númer 8 af átján keppendum. Flestir höfðu búizt við betri árangri hjá Friðriki í þessu móti og ýmsir hafa verið að burðast við að skýra gengisleysi hans í mótinu, æfingarskortur segja sumir, afturför segja aðrir, óheppinn og illa fyrir kallaður.

En víst er um það, að Friðrik tefldi langt fyrir neðan sinn „standard“ eins og við höfum kynnzt honum til þessa.

,,Þetta misheppnaðist einhvern veginn,“ sagði Friðrik. ,,Ég komst aldrei almennilega í gang. Það er einhvern veginn svona, stundum er eins og ekkert heppnist fyrir manni. Orsakirnar eru margar og ekki svo gott að gefa neinar ákveðnar skýringar.“

Er eitthvað framundan á næstunni?

,,Það er ekkert framundan núna alveg á næstunni nema þetta alþjóðamót hér heima i vetur. Mér hefur hins vegar verið boðið til Sviss á næsta ári í átta manna mót.“

Veiztu nokkuð, hvaða skák menn tefla þar aðrir?

,,Það hefur verið talaö um Spassky, að líkindum Portisch, Larsen, Gligoric og Vestir-Þjóðverj-ann Unzicker, Robert Byrne, sem hér var og ýmsir kannast við. Þátttaka þessara manna er ekki endanlega ákveðin, það hefur aðeins verið talað um þetta. Keres mun einnig hafa verið boðin þátttaka í þessu móti, en ég veit ekki hvort hann kemst. Hann kvað vera hafður í ferðabanni i eitt ár, eftir því sem ég bezt veit.“

Hvers konar mót er þetta?

,,Þetta er prívatmót. Þau eru yfirleitt miklu skemmtilegri heldur en til dæmis þessi svæða mót, þar sem aðbúnaður er of hálflélegur.“

Hvernig var annars stemmningin á mótinu í Aþenu, var ekki barizt hart?

,,Jú, þetta mót var anzi skemmtilegt í lokin. Þarna voru fimm menn sem komu til greina í baráttunni um efstu sætin.“

Var mikill áhugi á þessu móti í Aþenu?

,,Það var svolítið erfitt að átta sig á þvi, hverjir sóttu mótið af skákáhuga og hverjir bara ,,droppuðu“ þarna inn. Húsið, sem teflt var í stóð í miðjum garði, svona listaverkagarði og þar var alltaf talsvert af fólki á ferli. Annars virðist vera að vakna talsverður áhugi þarna á skák upp á síðkastið. Hann mun víst vera mikill áhugamaður um skák ráðherrann, sem fer með íþróttamál og slíkt í þeirri „ágætu“ stjórn.

Urðuð þið vör við mikil mótmæli gegn herforingjastjórninni?

,,Aðallega sprengingar, sem urðu þarna á hótelinu okkar, eins og komið hefur fram. Annars virðist það ekki vera stór hópur sem heldur uppi þessum mótmælum. Fólkið virðist sætta sig við þetta einhvern veginn. Það er orðið ýmsu vant. “

Nú hafa ýmsir kveðið upp úr með það að þú ættir að gerast atvinnumaður í skák?

,,Já, þar er nokkuð í efni, sem erfitt er að átta sig á, sem sakir standa, ég held ég kæri mig ekki um algjöra atvinnumennsku. Þetta er auðvitað hlutur sem maður verður að gera rækilega upp við síg og það hef ég ekki gert. Þetta færi sjálfsagt eftir því hvað væri í boði. Ég verð þess vegna að svara þessari spurningu með spurningarmerki.“

1969: Svæðamót FIDE í Aþenu

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1969 Aþena - mótstafla

Vinningshlutall 56%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1969: Einvígi við Guðmund Sigurjónsson

Skákeinvígi Friðriks og Guðmundar Sigurjónssonar

 

Ingvar Ásmundsson skrifar.

1969_Einvigi_Fridrik-Olafsson_Gudmundur-Sigurjonsson_Ingvar-AsmundssonÁrið 1963 tefldi Friðrik Ólafsson fjögurra skáka einvígi við Inga R. Jóhannsson. Því einvígi lauk á sama hátt og einvígi Friðriks og Guðmundar Sigurjónssonar, með 2 1/2 : 1 1/2, en þá sem nú vann Friðrik tvær seinustu skákirnar.

Bæði Ingi og Guðmundur hafa staðið sig mun betur gegn Friðriki en aðrir islenzkvir skákmeistarar og veldur þar áreiðanlega miklu almennur skákstyrkleiki þeirra. En þar eð Friðriki gengur verr gegn Inga og Guðmundi en erlendum mönnum í sama styrkleikaflokki er þetta ekki fullnægjandi skýring.

Yfirburðir Friðriks liggja fyrst og fremst í óvenju djúpum skilningi á eðli skákarinnar, en helzti veikleiki hans er fólginn í reglubundinni sóun umhugsunartímans. Lendir Friðrik því oft í ógnvekjandi tímahraki. Þrír kostir Inga B. sem skákmanns hafa þegar þeir koma allir saman reynzt Friðriki erfiðir viðfangs, mikil þekking í skákbyrjunum, frábær þrautseigja í lakari stöðum ásamt óvenjulegum hæfileika til að halda opnum leiðum til gagnaðgerða og síðast en ekki sízt hnaðskákmeistarastyrkur á heimsmælikvarða, sem kemur sér vel í tímaihraki.

1969_Einvigi_Fridrik-Olafsson_Gudmundur-Sigurjonsson_3Guðmundur Sigurjónsson virðist nú að verulegu leyti vera þessum sömu kostum búinn. Hann hefur þó tæplega eins mikla þrautseigju til að bera og Ingi. Ekki er hann heldur nærri eins góður hraðskákmaður og Ingi var, þegar hann var upp á sitt bezta. Aftur á móti er Guðmundur mun hættulegri sóknarskákmaður en Ingi hefur nokkru sinni verið. Guðmundur og Ingi eiga það sameiginlegt að veita öflugt viðnám í upphafi tafls, þannig að Friðrik eyðir yfirleitt mjög miklum umhugsunartíma til að ná undirtökunum í miðtaflinu, en þarf svo iðulega í tímahraki að varast hættulegar undiröldur með sífelldum hótunum um gagnaðgerðir.

Einvígi þeirra Friðriks og Guðmundar var óvenjulega skemmtilegt og mjög spennandi. Skákirnar hvoru fjörugar og tímahrakið æsandi, en áhorfendur, sem gátu gengið að hvorutveggja vísu, voru furðu fáir.
Í fyrstu skákinni hafði Friðrik hvítt, en tefldi ónákvæmt gegn frönsku vörninni, tapaði frumkvæðinu, en tefldi vel úr því og hélt sínum hlut án þess að komast nokkru sinni í hættu.

Guðmundur blés strax til sóknar gegn Sikileyjarvörninni í annarri skákinni og fórnaði snemma peði. Hélt hann síðan uppi látlausum sóknaraðgerðum og fórnaði skiptamun til viðbótar. Friðrik tefldi vörnina vel og átti að minnsta kosti tvívegis kost á jafntefli, en ætlaði að vinna taflið og valdi rangt framhald í tímahrakinu og tapaði.

Í þriðju skákinni náði Friðrik fljótt undirtökunum og hélt þeim út skákina, en Guðmundur varðist vel og hélt opnum leiðum til gagnaðgerða í tímahrakinu, þar til hann lék af sér peði í 39. leik og tapaði.

Í fjórðu skákinni tefldi Guðmundur ótrúlega veikt gegn Sikileyjarvörn Friðriks og hafði greinilega lakara tafl eftir 10 leiki. Guðmundur varðist vel, en Friðrik hafði yfirhöndina í miðtaflinu og á tímanum. Lítilsháttar ónákvæmni af hendi Friðriks gaf Guðmundi tækifæri til gagnaðgerða. Friðrik komst nú í timahrak að vanda, þótt tími Guðmundar væri enn naumari. Í timahrakinu lék Friðrik af sér manni og átti þá gjörtarpað tafl á borðinu, en fallöxi á klukku Guðmundar var á heljarþröminni. — Guðmundur tefldi nú meira af flýti en fyrirhyggju og varð honum það meðal annars á að snerta kóng sinn áður en Friðrik hafði sleppt drottningu, er hann hugðist leika til g4, en lék síðan til e2. Nú gat Guðmundur ekki leikið biskup á g2, því hann hafði snert kónginn, og varð að leika honum. Féll nú biskupinn á e3 óbættur og Friðrik var aftur með betra tafl. Bætti hann enn stöðuna í timrahrakinu og vann skákina og einvígið.

Af svo stuttu einvígi sem þessu er varhugavert að draga mjög víðtækar ályktanir. Þó er ljóst, að Guðmundur er í framför og ef til vill orðinn ámóta sterkur skákmaður og Ingi R. var þegar hann var hvað sterkastur, en ekki jafn sterkur og Friðrik var á hans aldri. Friðrik er án efa í mun lakari þjálfun en hann var í á sínum beztu árum. Þetta kemur ekki fram í skilningi hans og yfirsýn, því fáir skákmenn munu hafa dýpri skilning á skák en hann. Aftur á móti er hann ekki eins öruggur í tímahraki og hann var fyrir 10-15 .árum.

Það verður spennandi að fylgjast með Friðriki og Guðmundi á svæðismótunum, sem nú eru að hefjast, þegar þetta er ritað. Tekst Friðriki að finna sinn gamla kraft og komast áfram í millisvæðamótið? Til þess þarf hann að hljóta eitt af þremur efstu sætunum.

Það væri mikil bjartsýni að ætla að Guðmundur komist í millisvæðamótið, en hann ætti að hafa góða möguleika á að vinna sér alþjóðlegan meistaratitil.

1969: Einvígi við Guðmund Sigurjónsson

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Umferð Dags Nafn Stig Úrslit Nafn Stig
1 16.9. Friðrik Ólafsson 2600 1/2-1/2 Guðmundur Sigurjónsson 2380
2 18.9. Guðmundur Sigurjónsson 2380 1-0 Friðrik Ólafsson 2600
3 22.9. Friðrik Ólafsson 2600 1-0 Guðmundur Sigurjónsson 2380
4 23.9. Guðmundur Sigurjónsson 2380 0-1 Friðrik Ólafsson 2600
Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1969: Skákkeppni stofnana

Friðrik leiddi Stjórnarráðið til sigurs

 

Þjóðviljinn 7. mars 1969.

Skákkeppni stofnama 1969 Iauk í fyrrakvöld og sigraði sveit Stjórnarráðsins að þessu sinni örugglega, hlaut 19 vinninga í 24 skákum. Sveitina skipuðu þeir Friðrik Ólafsson er hlaut 6 vinninga á 1. borði, vann allar sínar skákir, Baldur Möller er fékk 5,5 vinning, Áki Pétursson 3,5 og Högni Ísleifsson 4.

Önnur i röðinni í A-flokki að þessu sinni varð sveit Búnaðarbankans, er hefur unnið þessa keppni með yfirburðum undanfarin ár, en hana skipa Jón Kristinsson er hlaut 4,5 vinning, Arinbjörn Guðmundsson 5, Bragi Kristjánsson 6 og Kristinn Bjarnason 2, fékk sveitin því alls 17 vinninga.

Í 3. sæti varð sveit Raforkumálaskrifstofunnar með 16 vinninga og sveit Landsbankans og B-sveit Búnaðarbankans urðu í 4.-5. sæti með 14,5 vinning.

1969: Stofnanakeppnin

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 100%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1969: Skákþing Íslands

Friðrik Íslandsmeistari í sjötta sinn eftir harða baráttu við Guðmund Sigurjónsson

 

Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar.

Friðrik Ólafsson vann titilinn Skákmeistari Islands 1969 eftir tvísýna keppni við Guðmund Sigurjónsson. Tefldi Friðrik af miklu öryggi og var honum aðeins einu sinni ógnað, er hann tefldi gegn Guðmundi í næst síðustu umferð. Sú skák varð þó jafntefli eftir harðar sviptingar.

Guðmundur sannaði ótvírætt að hann er nú okkar næst sterkasti skákmaður. Hann tapaði aðeins einni skák, gegn Hauki Angantýssyni. Tefldi Haukur hina gamalkunnu Birds byrjun, en danski meistarinn Bent Larsen hefur mikið dálæti á þessari byrjun. Fórnaði Haukur skiptamun í byrjun tafls og fékk góð sóknartækifæri í staðinn. Tefldi hann sóknina fast og vel og var ekki að sökum að spyrja.

Haukur og Björn Þorsteinsson hlutu 3. og 4. sætið og skipa þeir landslið Íslendinga 1969 ásamt Guðmundi og Friðriki.

Freysteinn Þorbergsson náði 5. sæti, en tefldi ekki af sama öryggi og á Fiske-mótinu sl. sumar. Nokkuð sérstakt atvik kom fyrir í skák hans gegn Halldóri Jónssyni. Fór skákin í bið eftir 40 leiki og lék Halldór biðleik. Er tekið var til við skákina að nýju kom í Ijós að Halldór hafði leikið nokkuð kynlegan leik Rc2-e4. Ekki var skákstjórinn ánægður með þennan riddaragang og dæmdi skákina réttilega unna hjá , Freysteini. Reyndar stóð hann öllu betur, en þó var töluvert eftir af skákinni.

Vísir 19. apríl 1969.

1969: Skákþing Íslands

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1969 Skákþing Íslands - tafla

Vinningshlutall 82%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1969: 31. alþjóðlega Hoogovens skákmótið í Wijk aan Zee

Góður árangur Friðriks: Aðeins vinningi á eftir Botvinnik og Geller

 

Morgunblaðið 11. febrúar 1969.

Friðrik Ólafsson er kominn heim eftir frækna för til Hollands, þar sem hann varð fimmti á skákmótinu í Beverwijk, svo sem kunnugt er, en ekki munaði nema einum vinningi á honum og sigurvegurunum; þeim Botvinnik og Geller. Morgunblaðið hafði samband við Friðrik og kvaðst hann vera nokkuð ánægður með útkomuna.

Mikail Botvinnik (1911-1995) varð þrisvar heimsmeistari. Þeir Friðrik mættust aðeins einu sinni og þá bauð sovéski jöfurinn jafntefli eftir 13 leiki.
Mikail Botvinnik (1911-1995) varð þrisvar heimsmeistari. Þeir Friðrik mættust aðeins einu sinni og þá bauð sovéski jöfurinn jafntefli eftir 13 leiki.

Í síðustu umferð mótsins tefldi Friðrik við Botvinnik, fyrrverandi heimsmeistara, og lauk þeirri skák með jafntefli eftir 13 leiki. Þetta var fyrsta skák þeirra kappanna og spurðum við Friðrik um hana.

„Jú, ég var alveg laus við ótta, þegar við settumst að skákinni,“ sagði Friðrik og hló við.

„Ég var hálft í hvoru að vona, að Botvinnik myndi tefla til vinnings, en svo kom hann mér í hálfgerðan bobba með að bjóða jafntefli eftir 13 leiki. Þar með þurfti ég að taka ákvörðun og mér fundust aðstæður ekki þesslegar, að það hefði neitt upp á sig að hafna boði hans. Að vísu var ég kominn með frjálsari stöðu að mörgu leyti, en staða Botvinniks var föst fyrir og enga veikleika í henni að finna. Svo ég ákvað að hætta ekki á neitt.“

Hver var þín skemmtilegasta skák að þínum dómi?

,,Ja, ég tefldi margar skemmtilegar skákir þarna. Skákin við Kavalek í fyrstu umferð var mjög góð; stutt og áhrifamikil og einnig skákin við Portisch í annarri umferð. En sumar jafnteflisskák irnar voru líka anzi skemmti legar, t.d. við Ree.“

En hvaða skák ertu óánægðastur með?

,,Ég hlýt að vera óánægður með tapið gegn Doda. Í þeirri skák lokaðist ég alveg og lék henni út úr höndunum á mér.“

Fékkstu einhver verðlaun?

,,Já. Það voru verðlaun alveg ofan í áttunda sæti. Þetta mót er dálítið sérstakt að því leyti, að það eru miklar stálverksmiðjur þarna, sem halda það, og var teflt í mörgum flokkum, auk meistaraflokksins. “

Hvað er svo næst?

,,Ég reikna með því, að ég taki þátt í næsta svæðismóti fyrir heimsmeistarakeppnina. Enn er óákveðið, hvenær og hvar það mót verður en sem stendur er helzt talað um Rúmeníu og Austurríki í því sambandi.“

Hefur þú fengið boð um að taka þátt í eirahverjum mófcum þar fyrir utan?

,,Ég er alltaf að fá boð en get auðvitað ekki þegið þau öll. Ég hef mína atvinnu utan skákarinnar og verð að sinna henni.“

Hefur þér aldrei flogið í hug að lifa af skákinni?

,,Nei. Ég hef ekki talið hana æskilegan grundvöll að lífsstarfi sagði stórmeistarinn Ólafsson að lokum.“

1969: 31. alþjóðlega Hoogovens skákmótið í Wijk aan Zee

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1969_hoogovens_tafla

Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1968: III. Reykjavíkurskákmótið

Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar. Vísir 22. júní.
Fiske-skákmótinu, sterkasta skákmóti sem hér hefur verið haldið, er lokið. Rússunum tókst nú að sigra Friðrik á heimavelli en það hefur ekki skeð síðan Tal sigraði á Reykjavíkurmótinu 1964. Taimanov virtist taka mótið nokkuð létt og komst aðeins einu sinni í vandræði. Var það gegn Freysteini, sem fann þó ekkert afgerandi í tímahrakinu.
Vasiukov lagði mun meiri vinnu í skákir sínar og teflir þyngri stíl. Í síðustu umferð virtist Vasiukov einna næstur sigri í mótinu, en hann lét sér nægja jafntefli í skák sinni gegn Braga, lítt tefldri.

 

Friðrik byrjaði fremur illa. Æfingaleysi hans kom fram í mikilli tímaeyðslu á fyrri helming skákanna og gegn Vasiukov kostaði þetta heilan vinning og efsta sætið í mótinu.
Byrne tefldi léttan og lipran skákstíl, þótt hann virtist skorta styrkleika á við Rússsana og Friðrik. Byrne er sagður vinsælasti skákmeistari Bandaríkjanna og vissulega var hann ánægjulegur fulltrúi lands síns á móti þessu.
Uhlmann virkar skákþreyttur enda hefur hann kvartað undan miklu álagi sem eini stórmeistari Austur-Þýskalands.
Þáttur Guðmundar Sigurjónssonar er vissulega ánægjulegasti hluti mótsins. Til að ná titli alþjóðlegs skákmeistara þarf mikinn skákstyrkleika, styrkleika sem Guðmundur hefur og virðist sífellt vera að bæta við.
Freysteinn tefldi einnig mjög vel og vantaði aðeins hálfan vinning til að ná sama árangri og Guðmundur. Freysteinn tefldi sérlega vel gegn Rússunum og hafnaði reyndar jafnteflisboði frá báðum, þótt hann yrði að sætta sig við skiptan hlut í lokin.

1968: III. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1968 Reykjavíkurmótið - tafla

Vinningshlutall 71%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1967: Dundee International Centenary Tournament

Stórslys gegn Larsen í síðustu umferð kostaði Friðrik efsta sætið

 

Alþýðublaðið 26. júlí 1967.

Friðrik Ólafsson varð að bíta í það súra epli í Dundee í gær að lúta í lægra haldi fyrir Bent Larsen, þó að hann hefði verið með gjörunna skák skömmu áður.

Sagði Friðrik, er Alþýðublaðið hafði snöggvast tal af honum í gærkvöldi, að hann hefði verið með góða vinningsstöðu gegn Larsen, og Larsen verið í tímahraki, er Friðrik lék svo heiftarlega af sér, að hann tapaði skákinni.

Friðrik kvaðst hafa leikið upp á vinning, því að með því móti einu gat hann sigrað í mótinu eða a.m.k. orðið jafn Gligoric í efsta sæti, en sennilega hefur þreyta komið til, að hann lék svo illa af sér sem raun varð á. Þeir Gligoric og O’KelIy gerðu jafntefli.

Úrslitin urðu því þau, að Gligoric varð efstur með 6,5 vinning, í öðru og þriðja sæti urðu þeir Friðrik og Larsen með 5,5 vinning og jafnir í fjórða og fimmta sæti urðu Penrose ogr O’Kelly með 5 vinninga.

1967: Dundee International Centenary Tournament

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Dundee  1967
1 2 3 4 5 6 7 8 9 Vinningar
1 Gligoric,Svetozar X ½ ½ ½ 1 1 1 1 1 6,5
2 Olafsson,Fridrik ½ X ½ 1 0 ½ 1 1 1 5,5
3 Penrose,Jonathan ½ ½ X ½ 1 ½ ½ 1 ½ 5
4 O’Kelly de Galway,Alberic ½ 0 ½ X ½ 1 1 1 ½ 5
5 Larsen,Bent 0 1 0 ½ X 1 1 1 1 5,5
6 Kottnauer,Cenek 0 ½ ½ 0 0 X ½ 1 ½ 3
7 Davie,Alexander Munroe 0 0 ½ 0 0 ½ X 0 1 2
8 Wade,Robert Graham 0 0 0 0 0 0 1 X 1 2
9 Pritchett,Craig William 0 0 ½ ½ 0 ½ 0 0 X 1,5
Vinningshlutall 69%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1966: XVII. Ólympíuskákmótið á Havana

Tíminn, 27. nóvember 1966.

Íslenska skáksveitin kom heim frá Ólympíuskákmótinu á Havana í gærkvöldi eftir langa og stranga útivist, sem stóð um sex vikur. Sveitin stóð sig með miklum ágætum og náði betri árangri en nokkur sveit íslensk áður á slíku móti — skipaði 11. sætið af 52 þjóðum. Blaðið náði rétt sem snöggvast tali af fyrirliða sveitarinnar, Friðriki Ólafssyni við heimkomuna.

Það er ansi gott að vera kominn heim til fjölskyldunnar aftur — þetta hefur verið langur tími, en við fórum utan hinn 18. október, sagði Friðrik, og mótið sjálft var mjög strangt.

Ertu ánægður með frammistöðuna?

Já, þetta er betri árangur en nokkur þorði að vona í upphafi, en við hefðum án nokkurrar heppni átt að verða fyrir ofan Dani. Ingi stóð sig ágætlega — betur en við áttum von á — og Guðmundur Pálmason stóð sig í stykkinu. Árangur var hinsvegar heldur slakur á neðsta borðinu.

En hvað með þig sjálfan?

Ég var sæmilega ánægður, en æfingarleysið háði mér nokkuð — og þó einkum kunnáttuleysi í byrjunum. Ég hef ekki haft tíma til að rannsaka byrjanir nógu vel undanfarin ár — maður þarf raunverulega að fara yfir nýjar skákir á hverjum degi; það er alltaf eitthvað nýtt að koma fram.

Þú tapaðir þremur skákum?

Já, það var nú sennilega þreytu um að kenna að nokkru leyti. Ég átti auðveldar vinningsleiðir í tveimur þessara skáka, gegn Tékkanum Hort og Austur-Þjóðverjanum Uhlmann, einkum var þó skákin gegn Uhlmann létt unnin, en ég eyddi of miklum tíma í hana, fórnaði of mörgum mönnum — og tefldi af mér í tímahraki. Ég skil raunverulega ekki hvernig ég gat tapað þeirri skák. Gegn Fischer átti ég ágætt tafl, og það var engin þörf að tapa þeirri skák.

Hver var besta skákin þín?

Ja, ég veit ekki — sennilega vinningsskákin gegn Larsen.

Hvernig gekk Larsen á mótinu?

Illa framan af, en hann lagði árangur sinn mjög í lokin, vann þá Gligoric, Pachmann og Minev — og hann hefur sennilega verið með svipaðan árangur og ég í úrslitakeppninni, um 50%, kannski þó aðeins lakari.

Hver hlaut flesta vinninga á 1. borði?

Það þori ég ekki að fulyrða, en heimsmeistarinn Petrosian fékk besta hlutfallstölu alla vega. Ég veit ekki hve margar skákir hann tefldi, en hann vann allar nema þrjár, sem hann gerði jafntefli í.

En Fischer?

Hann stóð sig lengi mjög vel, en dalaði undir lokin, tapaði þá meðal annars fyrir Gheorghiu frá Rúmeníu.

Hvernig var framkvæmd mótsins?

Hún var mjög góð og móttökurnar alveg frábærar. Allir keppendur á mótinu voru leystir út með gjöfum í lokin, og þetta er áreiðanlega glæsilegasta Ólympíumót, sem haldið hefur verið, sagði Friðrik að lokum.

1966: XVII. Ólympíuskákmótið á Havana

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Ólympíumótið 1966: Undanrásir

1966_havana_undanrasir-tafla

Ólympíumótið 1966: Úrslit

1966_havana_urslit-tafla

Vinningshlutall 64%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1966: II. Reykjavíkurskákmótið

Friðrik sigurvegari í Reykjavíkurmótinu

 

Jóhann Þórir Jónsson skrifar.

Fyrir nokkru síðan lauk í Reykjavík hinu öðru alþjóðlega stórmóti, sem haldið hefur verið. Hið fyrra var haldið 1964. Að þessu sinni var það Skáksamband Íslands sem stóð fyrir mótinu og var það helgað 40 ára afmæli sambandsins og einnig fyrstu stjórn þess.

Skáksamband Íslands var stofnað á Blönduósi 1925. Fyrsti forseti sambandsins var Ari Guðmundsson, Akureyri, en aðrir í stjórn þess voru Kristján Arinbjarnar, Blönduósi, og Jóhann Havsteen, Akureyri.

Það kemur ef til vill mörgum spánskt fyrir sjónir að Skáksamband Íslands skuli nú standa eitt að mótinu, ekki sízt er þess er gætt að 1964 voru það Taflfélag Reykjavíkur og Skáksamband Íslands sem héldu mótið og meira að segja var það T. R. sem átti frumdrögin að mótinu. Skapast þetta af deilum sem ekki mun farið nánar út í hér að svo stöddu, en endanlega tókust þó samningar milli þessara aðila þannig að T. R. stendur fyrir mótinu 1968.

Mótið í ár var að vísu ekki jafn svipmikið og það sem haldið var 1964, sem verður að teljast með því bezta sem gerist í þessum efnum. En það er heldur ekki aðalatriðið að hafa eintómar „kanónur“ í hverju móti, heldur að halda það reglulega. Enginn efi er á því að þessi mót eiga miklum vinsældum að fagna, enda má segja að áhuga fyrir skák rísi hvað hæzt meðan þau standa yfir. Undirbúningurinn að mótinu hófst snemma s.l. sumar og má segja að nokkuð samfellt hafi verið starfað síðan og þar til mótið hófst. Þrátt fyrir þetta lentu undirbúningsmenn í gegivænlegu tímahraki undir lokin og stóð jafnvel svo um tíma, að ekki tækist að fylla tölu keppenda. Kom þar margt til, m. a. það að ameríski stórmeistarinn Bisguier forfallaðist á síðustu stundu, svo og stóð til að Boris Spassky kæmi, en þar eð hann vann einvígið um áskorunarréttinn af Tal, þá brast það. Sovézka skáksambandið mun þá hafa boðið að senda annan mann, en á kostnað Skáksambandsins, og var því hafnað. Má telja það vafasamt, þar eð reikna má með að komið hefði nægilega sterkur skákmaður til að fylla skarð Spasskys. Í þess stað var farin sú leiðin að reyna við ýmsa menn úr nágrenninu, svo sem Larsen og Uhlmann, en báðir höfnuðu. Larsen vegna of stutts fyrirvara. En hvað um það, mótið komst á stað með fulla tölu og getum við gert okkur ánægða með það, því ekki má eingöngu vanþakka þau störf sem unnin eru í góðri trú og af mikilli fórnfýsi. Hvað sem annars verður sagt kostar það mikla vinnu að halda slíkt mót sem þetta og ekki hefur það þekkst hér enn að greiða mönnum neinar miskabætur, enda um áhuga- og tómstundastarf að ræða.

1966_Reykjavikurmotid_Fridrik-OlafssonMótið fór fram í Lídó, hófst 12. janúar og var teflt út mánuðinn.
Strax í upphafi hófst æðisgengið kapphlaup milli Friðriks og Vasjukoffs. Friðrik tók þó forystuna í annarri umferð, er Freysteinn gerði jafntefli við Vasjukoff. Má segja að Friðrik hafi haldið forystunni óslitið eftir það. Vasjukoff komst þó tvisvar upp að hliðinni á honum og fyrir síðustu umferð voru þeir jafnir, en Vasjukoff átti að tefla við Guðmund Pálmason og varð að sætta sig við jafntefli, meðan Friðrik vann Jón Kristinsson í skemmtilegri skák.

Friðrik varð því sigurvegari í mótinu með 9 vinninga af 11 mögulegum. Hann átti það vel skilið, enda tvímælalaust bezti skákmaðurinn í hópnum, þó æfingarlítill sé. Má segja að hann hafi stolizt frá prófsundirbúningnum til keppninnar. Friðrik komst aldrei í taphættu, en hætti sér heldur ekki út í nein stórævintýri.

Vasjukoff varð annar með 8 1/2 vinning. Hann tefldi of „passívt“ og komst a. m. k. einu sinni í verulega taphættu, gegn Kieninger, en hann lék þá svo herfilega af sér að unnin skák snerist í tap. Stíll Vasjukoffs er mjög öruggur, þrátt fyrir þetta, en jafnframt þannig að flestum ætti að takast að tefla af fullum styrkleika gegn honum og er það eftir atvikum slæmt.

Þriðji varð O,Kelly með 8 v. Hann teflir einnig traust og hættir yfirleitt ekki á að tefla fyrir augað að neinu ráði. Hann komst þó ef til vill einu sinni í taphættu, gegn Guðm. Pálmasyni, en náði jafntefli.

Í fjórða sæti kemur Guðmundur Pálmason með 7 vinninga. Hann sýndi hér með enn einu sinni að hann er, þrátt fyrir enga æfingu, okkar annar eða þriðji sterkasti skákmaður. Hann teflir ákaflega þungan stíl, en hefur frábært vald á taflmennsku sinni. Guðmundur fékk ákaflega athyglisverða útkomu úr mótinu, ekki sízt vegna þess að hann hann fékk beztu útkomuna á titilbera mótsins. Hann gerði jafntefli við alla stórmeistarana og vann alla alþjóðlegu meistarana, en gerði svo jafntefli við hina. Má þar ef til vill kenna um æfingaleysinu. Mikill skaði er það skáklífi okkar að Guðm. getur ekki sinnt skákinni meira og teflt fyrir þjóðina erlendis. Því ætla má að fáir sæki gull í greipar hans.

Freysteinn Þorbergsson kom næstur, aðeins hálfum vinningi á eftir Guðm. Freysteinn virðist í örum vexti sem skákmaður og gæti svo farið að aðeins, sé um tímaspursmál að ræða þar til hann nær alþjóðlegum titli, ef hann heldur áfram að tefla. Freysteinn tapaði aðeins einni skák í mótinu, þ.e.a.s. fyrir Friðriki, og má það teljast mjög gott.

Næstir koma þeir R. Wade og E. Böök með 5 vinninga. Böök var fremur óheppinn í mótinu, einkanlega gegn Wade í síðustu umferð, er hann tapaði á mjög dramatískan hátt. Tap Bööks gegn Guðm. Pálmasyni var hið fyrsta gegn Íslendingi. Kemur þar máske aðallega tvennt til: í fyrsta lagi er hann sjálfsagt farinn að tapa þreki og því samfara lítið teflt undanfarið, og í öðru lagi hefur hann ekki teflt við svo marga landa í einu. – Wade má einnig muna sinn fífil fegri er hann tefldi hér síðastl 1964. Þá sigraði hann bæði Friðrik og Inga R. (Ingi gat ekki verið með nú sakir anna, og var það mikill skaði) og hafnaði í 5. sæti af 14 þátttakendum. Hann tefldi nú fremur illa á köflum og virtist vanta ferskleikann.

Jón Kristinsson var næstur með 4 1/2 vinning. Hann gekk ekki heill til skógar meðan mótið stóð yfir og verður því hlutfall hans að teljast þokkalegt og hefði vel getað orðið betra.

Björn Þorsteinsson hafnaði í 9. sæti með 4 vinninga. – Hann tefldi undir styrkleika, enda hlutfall hans eftir því. Virðist hann mega taka tafllokafræðina betur í gegn, ef hann ætlar sér að þreyta þau sem nokkru nemur.

Í 10. sæti kemur Kieninger með 3 1/2 vinning. Hann fór þokkalega af stað, en breyttist er á leið og fór að tapa. Má segja að hann hafi „brotnað“ við tapið gegn Vasjukoff, enda náði hann sér ekki á strik eftir það.

Þeir Guðm. Sigurjónsson og Jón Hálfdánarson ráku svo lestina, Guðm. með 3 v., en Jón með 2 v. Þeir höfðu báðir þá afsökun að standa í prófum á sama tíma og þeir voru að tefla, en það getur aldrei farið saman. Útkoman varð því slæm og mjög slæm hjá Guðmundi.

Við skulum samt vona að þessir ungu menn sem jafnframt voru yngstu menn mótsins, láti þetta ekki á sig fá, en vinni nýja sigra og glæsta í komandi framtíð.

Grein úr SKÁK, 1.-2. tbl. 1966

1966: II. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1966_Reykjavikurmotid_tafla

Vinningshlutall 82%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1965: Júnímótið í Reykjavík

Friðrik sigraði

 

Tíminn, 16. júní 1965:

Friðrik Ólafsson, stórmeistari varð sigurvegari í júní-skákmótinu, þegar hann sigraði hinn 17 ára Íslandsmeistara, Guðmund Sigurjónsson, í síðustu umferðmni í aðeins 22 leikjum, en þeir voru jafnir fyrir umferðina. Þetta er í fyrsta sinn, sem þeir mætast við skákboröið, og sennilega hefur taugaspennan haft ein hver áhrif á skák unga meistarans, en að öðru leyti tefldi hann mjög vel í mótinu.

Friðrik hlaut 4,5 vinning úr fimm skákum, Guðmundur varð nr. 2 með 3,5 v. Freysteinn Þorbergsson og Jón Hálfdanarson hlutu tvo vinninga og skipa því þriðja og f jórða sætið í landsliðsflokki. Björn Þorsteinsson varð fimmti með 1,5, og Haukur Angantýsson sjötti með hálfan vinning.

Jafnframt kepptu efstu menn í  meistaraflokki frá síðasta ÍsIandsmóti um sæti í landsliðsflokki, og urðu Jóhann Sigurjónsson og Sigurður Jónsson  efstir með 2,5 vinning.

1965: Júnímótið í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 90%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1964: Opna Kaupmannahafnarmeistaramótið

Friðrik-Ólafsson_Opna-KaupmannahafnarmeistaramótiðDagana 22. til 30. ágúst sl. tók ég þátt í skákmóti í Höfn, sem Danir nefna „opna“ Kaupmannahafnarmeistaramótið, en sú nafngift felur það í sér, að öllum er heimil þátttaka, jafnt erlendum skákmönnum sem dönskum.

Mótið fór fram í Kirsebærhavens skóla í Valby og voru þátttakendur alls 156, þar af 32 í efsta flokki (Eliteklassen).

Í efsta flokknum var notast við Monradkerfi og tefldar átta umferðir, en það er að sjálfsögðu alltof lítið, þegar svo margir þátttakendur eru annars vegar. Níu umferðir hefðu strax gefið betri raun, en sennilega hefði þurft ellefu umferðir til að fá fram fyllilega viðunandi heildarmynd í mótslok, a. m. k. hefðu þá flestir forystusauðirnir náð að tefla innbyrðis.

Áður en mótið hófst var það almennt álit manna, að stórmeistararnir tveir, þ. e. Larsen og undirritaður, mundu fljótlega stinga aðra keppinauta sína af og sigra með yfirburðum í mótinu. Þessir Spádómar brugðust hrapalega þegar í fyrstu umferðunum. Larsen byrjaði á því að gera jafntefli í tveim fyrstu skákunum – mátti jafnvel prísa sig sælan, að ekki fór verr og í 3. umferð tapaði hann fyrir hinum unga og efnilega landa sínum, Svend Haman. Þar með var útséð um möguleika Larsens, og enda þótt hann tæki sig gífurlega á undir lokin, náði hann aldrei að komast í snerting við efsta sætið.

Margir hafa furðað sig á þessari frammistöðu Larsens og telja, að öryggi hans sé mjög ábótavant. Þetta er að vissu leyti rétt, en ég held, að aðal orsökin sé sú, að Larsen hefur teflt of mikið að undanförnu og hefur auk þess ekki haft neinn sérstakan áhuga fyrir skákmótinu. Hugurinn stefnir hátt um þessar mundir, það er sjálf heimsmeistarakórónan, sem hann hefur í sigti.

Slæleg frammistað í minniháttar móti dregur engan dilk á eftir sér, það er aðalatriðið að vera vel undirbúinn, þegar Áskorendamótið hefst á næsta ári..

Kaupmannahafnarmeistaramótið hefur því ekki haft mikla þýðingu í augum Larsens, það bera skákir hans ljóslega með sér. Ég get tekið sem dæmi skák hans við Söby úr 4. umferð:

Hvítt: Larsen. Svart: Söby.

Fromsgambítur.

Svartur er nú með unnið tafl, en á einhvern furðulegan hátt tókst honum að tapa skákinni!

Í lok þessa mánaðar tekur Larsen þátt í geysisterku skákmóti í Júgóslafíu og þá fáum við að sjá, hvort hann fær uppfyllt þær kröfur, sem til hans eru gerðar eftir árangur hans í millisvæðamótinu í sumar. Í móti þessu munu taka þátt m. a. núverandi heimsmeistari, Petrosjan, ennfremur Botvinnik, Tal, Fischer, Ivkov og Gligoric, svo að andstæðingarnir verða ekki af lakari endanum. Larsen verður greinilega að taka á honum stóra sínum í þessu móti, en sýni hann svipaða taflmennsku og í Amsterdam, ætti hann ekki að þurfa að kvíða neinu.

Um mína frammistöðu er þetta að segja: Ég komst aldrei í taphættu í mótinu og stóð yfirleitt betur í öllum skákum mínum. Hins vegar háði æfingarleysið mér nokkuð og þegar gamli óvinur minn, tímahrakið, kom jafnframt til sögunnar, var ekki að sökum að spyrja. Tvær vinningsstöður hurfu úr höndum mér sem dögg fyrir sölu og ég varð að sætta mig við jafntefli í báðum skákunum. Þetta var sérstaklega bagalegt í annarri skákinni, því að þar var andstæðingur minn Hvenekilde, sá er að lokum sigraði í mótinu. Í hinni skákinni lá vinningurinn ekki eins beint við, en það er sannast sagna ótrúlegt, að andstæðingur minn skyldi sleppa lifandi úr þeirri klípu, sem hann var kominn í:

Skák nr. 1425.
Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: B. Andersen.

Ensk byrjun.

Sigur Bent Hvenekilde kom öllum áóvart, ekki sízt honum sjálfum. síðustu umferð átti hann við Bent Sörensen, efnilegan skákmann frá Árósum og það leit síður en svo gæfulega út fyrir Hvenekilde. Sörensen virtist geta leitt skákina til sigurs hvenær sem var, en hann hikaði í sífellu og þegar hann að lokum lét til skarar skríða var um hreint frumhlaup að ræða. Hvenekilde rétti úr kútnum, náði hættulegri kóngssókn og vann. Þar með var efsta sætið hans. – Röð efstu manna varð annars sem hér segir:

  1. Bent Hvenekilde 6 v.
  2. Björn Brinck-Ciausen 5 1/2 v.
  3. Friðrik Ólafsson 5 1/2 v.
  4. Börge Andersen 5 1/21 v.
  5. Ole Jakobsen 5 1/2 v.
  6. Bent Larsen 5 v.
  7. Norman-Hansen 5 v.

Þess má geta hér til gamans, að Bent Sörensen, sem hlaut alls 4 1/2 vinning, hefði orðið efstur í mótinu sökum hagstæðrar stigatölu sinnar, hefði hann náð að sigra Hvenekilde. Þetta er furðulegt þegar þess er gætt, að Sörensen tefldi einungis við tvo af þeim mönnum, sem hér eru taldir upp að framan, þ. e. þá Hvenekilde og Jakobsen. En eins og ég gat um áðan, þá var mótið alltof stutt til að eðlileg heildarmynd fengist og framangreindur möguleiki hefði als ekki verið fyrir hendi, ef mótið hefði verið lengt um 2-3 umferðir.

Bent Hvenekilde átti sjálfsagt skilið að sigra í mótinu sökum hörku sinnar, seiglu og útsjónarsemi, en hefði ég mátt ráða, hefði ég hiklaust látið hann víkja sæti fyrir Brinck-Clausen, sem um þessar mundir er einhver skærasta stjarna Dana. – Brinck-Clausen tefldi flestar skákir sínar mjög vel og var m. a. sá eini, sem lagði Hvenekilde að velli. Hann var efstur fyrir síðustu umferð, en þá brugðust taugarnar og hann tapaði heldur illilega fyrir Ole Jakobsen. Þar með var draumurinn búinn um efsta sætið, en Brinck Clausen hélt 2. sæti sökum hagstæðrar stigatölu. Brinck-Clausen er sem kunnugt er skákmeistari Norðurlanda um þessar mundir.

Börge Andersen, Kaupmannahafnarmeistarinn í ár, tefldi nokkuð skrykkjótt framan af, en tók svo góðan endasprett og hafnaði í 4. sæti. Danmörku er hann talinn ganga Bent Larsen næstur að styrkleika og teflir hann væntanlega á efsta borði fyrir Dani á Ólympíuskákmótinu í Ísrael í vetur, þar eð Bent Larsen mun ekki sjá sér fært að vera með.

Sérstök ástæða er til að veita athygli frammistöðu Norman-Hansen, er hafnaði í 7. sæti. Norman-Hansen er orðinn 72 ára gamall, en ekki ber taflmennska hans keim af því nema síður sé. Hann hafði forystu í mótinu lengst framan af, en tapaði þá fyrir Hvenekilde og dróst við það nokkuð aftur úr. Bezta árangri á skákferli sínum mun Norman Hansen hafa náð á Ólympiuskákmótinu í London 1927 (!), en þá varð hann efstur allra fyrstaborðsmanna.

Það vakti mjög athygli mína í sambandi við mót þetta, hversu Danir eiga nú á að skipa miklum fjölda efnilegra nýliða. Ekki var það fyrst og fremst fjöldinn, sem dró að sér athygli mína, heldur kunnátta þessara ungu manna og styrkleiki. Þeir virðast stunda íþrótt sina af mikilli alvöru og kostgæfni og gera sér greinilega ljóst, að árangur næst ekki nema eitthvað sé lagt í sölurnar í staðinn. Hygg ég að jafnaldrar þeirra hér á Íslandi gætu margt af þeim lært í þessum efnum, a. m. k. væri æskilegt, að þeir reyndu að temja sér svipað hugarfar.

Að síðustu vil ég geta þess, þótt það heyri ekki beint til þessari grein, að litlar líkur eru fyrir því, að einvígi það, sem Skáksamband Íslands hyggst koma á milli Larsens og undirritaðs, eigi sér stað. Ráðgert hafði verið að halda einvígið í febrúar og marz á næsta ári, en þann tíma ætlar Larsen einmitt að nota til að búa sig undir Áskorendamótið. Virðist ósennilegt, að hann geri nokkra breytingu á þeirri ákvörðun sinni.

 

Óþekktur Dani skákaði stórmeisturunum

 

Morgunblaðið 1. september 1964.

Á sunnudaginn lauk í Kaupmannahöfn Opna Kaupmannahafnarmeistaramótinu í skák en meðal keppenda þar var Friðrik Ólafsson, stórmeistari. Öllum á óvart bar ungur danskur skákmaður og tiltölulega óþekktur, Hvene- kilde að nafni, sigur úr býtum.

Teflt var eftir svokölluðu Monrad-kerfi, þar sem útkoman er reiknuð í stigum, og hlaut hinn ungi sigurvegari 6 stig. Í öðru sæti var Daninn Brinck Clausen með 5,5 stig og í þriðja sæti Friðrik Ólafsson með jafn mörg stig.

Blaðið ræddi við Friðrik Ólafsson í gær og innti hann tíðinda af mótinu. Hann sagði, að mót þetta væri annað tveggja Kaupmannahafnarmeistaramóta, en sá væri munurinn, að til þessa móts væri útlendingum og boðið til keppni. Auk Friðriks tóku þátt í mótinu tveir Hollendingar en þeir stóðu sig ekki sérlega vel, að því er Friðrik sagði.

Aðspurður um skákstíl hins unga sigurvegara, Hvenekilde, sagði Friðrik, að erfitt væri að skilgreina hann.

,,Hann virðist ekki tefla neitt sérstaklega vel,“ sagði Friðrik, ,,en hann er ákaflega seigur. Í síðustu umferðinni var hann t.d. með gjörtapað tafl, en andstæðingur hans var mjög taugaóstyrkur. Hvenekilde virtist kunna að notfæra sér það og tókst að sigra að lokum. Ef andstæðingur hans, Bent Sörensen, hefði unnið skákina, hefði sá orðið efstur á mótinu.“

Hver var árangur þinn í mótinu, Friðrik?

,,Þrjá skákir unnar og 5 jafntefli.“

Hvernig gekk þér á móti sigurvegaranum?

,,Það varð jafntefli.“

Friðrik sagði, að léleg frammistaða Bent Larsens hefði komið mjög á óvart. Öllum til mikillar furðu var hann ekki meðal efstu manna.

,,Hann segir líka sjálfur,“ sagði Friðrik, ,,að hann geti ekki alltaf teflt vel.“

Mótið var haldið í Valby, úthverfi Kaupmannahafnar, og var mjög vel sótt af áhorfendum og sagði Friðrik, að Larsen hefði átt mikinn þátt í því að draga að áhorfendur.

,,Annars var ég óánægður með Monrad-kerfið,“ sagði Friðrik. Því er þannig hagað, að þeir, sem eru svipaðir að vinningum, tefla saman. Þeir, sem vinna t. d. í fyrstu umferð eru látnir tefla saman í annarri umferð. Þetta finnst mér vafasamt fyrirkomulag. Það má geta þess, að þetta kerfi gerði það að verkum, að Larsen tefldi aldrei við sigurvegarann.

Í þessu móti tóku þátt 150 skákmenn og var teflt í nokkrum flokkum. Í flokki Friðriks tefldu 36 skákmenn og hlaut Friðrik 3. sæti sem fyrr segir.

1964: Alþjóðlegt skákmót í Kaupmannahöfn

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1964_motstafla_kaupmannahofn-page-001

Vinningshlutall 69%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1964: I. Reykjavíkurskákmótið

Glæsilegur sigur töframannsins frá Riga

 

Þórir Ólafsson skrifar í Vísi 5. febrúar 1964.
1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Gylfi-Gislason_Morozov_Tal
Dr. Gylfi Gíslason, Menntamálaráðherra, Morzov, sendiráðsritari Rússa og Tal

Þá er lokið glæsilegasta skákmóti, sem haldið hefur verið hér á landi. Sigurvegari var Mikail Tal frá Sovétríkjunum, fyrrverandi heimsmeistari og einhver sterkasti skákmeistari vorra tíma. Svo margt hefur þegar verið rætt og ritað um þennan furðumann skáklistarinnar, að það er í raun og veru að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar nokkru við.

Vinningafjöldinn, 12,5 af 13 mögulegum, tala rsínu skýra máli um yfirburðina, en þegar þess er gætt, hvernig þessir vinningar fengust, dofna öll lýsingarorð. Eftir hvern leik andstæðingsins var engu líkara en kynngi magnaður rafeindaheili færi í gang og svarið lét ekki standa á sér, en rak flesta venjulega menn á gat.

 

Sigur Tals verður því ekki aðeins minnisstæður fyrir hið háa vinningshlutfall, sem hann hlaut á mótinu, heldur miklu fremur fyrir þá glæsilegu taflmennsku, sem hann sýndi.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Gligoric_Thordur-Einarsson
Gligoric og Þórður Einarsson, fulltrúi í menntamálaráðuneytinu

Í öðru sæti varð Gligoric með 11,5 vinning, sem er einnig mjög hátt vinningshlutfall. Kom þessi frammistaða hans engum á óvart, því hann hefur um árabil verið einn snjallasti skákmeistari heims utan Rússlands.

Hinu hafa fæstir búizt við, að Johannessen hafnaði í þriðja sæti ásamt Friðriki Ólafssyni. Þeir hlutu 9 vinninga hvor. Þori
ég að fullyrða, að þetta sé bezti skákárangur Norðmannsins til þessa. Johannessen teflir lipran position-stíl er lítið fyrir hatrammar flækjur, en hægfara stöðubarátta á vel við hann, laginn að notfæra sér veilur í stöðu andstæðingsins.

Í upphafi mótsins hefðu víst fæstir kyngt þeim spádómi, að Friðrik yrði að berjast fyrir þriðja sætinu. Og þótt okkur þyki að sjálfsögðu súrt í broti, að bezti fulltrúi okkar skyldi ekki verða hærri en raun ber vitni, hljótum við að íhuga vel aðstæður, áður en dómur um frammistöðu hans er upp kveðinn.

Friðrik vissi vel, að til mikils var ætlazt af honum og hann lá sannarlega ekki á liði sínu. Öðru nær og einmitt þess vegna, að hann var i sviðsljósinu, reisti hann sér hurðarás um öxl. Undir „eðlilegum“ kringumstæðum hefði Friðrik gert jafntefli bæði við Tal og Gligoric, en nú tefldi hann til vinnings gegn þeim báðum.

Þeir, sem þekkja eðli skákarinnar vita hvað það þýðir: Sá, sem teflir upp á vinning verður alltaf að hætta á að tapa. Ósigurinn gegn Wade er auðvitað annars eðlis. Hann verður að skrifa á kostnað tímahraks, sem er auðvitað að miklu leyti afleiðing Iítillar þjálfunar.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_Aki-Petursson_Fridrik-Olafsson_Ingi-R-Johannsson
Menntamálaráðherra, Áki pétursson deildarstjóri, Friðrik Ólafsson og Ingi R. Jóhannsson

Wade varð fimmti með 7,5 vinning. Með tilliti til þess, að hann er alþjóðlegur meistari verður þetta að teljast eðlileg útkoma eftir atvikum. En samt sem áður kom árangur NýsjáIendingsins mjög á óvart. Menn hafa einhvern veginn ekki ennþá melt það, að Wade hefur farið býsna mikið fram síðan hann tefldi hér árið 1947. Vanmat hinna yngri meistara okkar á honum varð þeim að falli.

Þessi viðkunnanlegi og þægilegi skákmeistari hefur lýst því yfir, að hann sé fús til þess að ferðast um landið og tefla fjöltefli. Vonandi er, að taflfélög úti um land taki þetta til athugunar.

Sjötti varð Guðmundur Pálmason með 7 v., og má segja, að hann hafi verið sá eini, sem stóð sig framar vonum. Í Guðmundi hljótum við að eygja næsta alþjóðlegan meistara okkar, haldi hann áfram að tefla eitthvað að ráði. Hann tefldi vel frá byrjun, en einhverra hluta vegna vildu vinningarnir ekki koma fyrr en undir lokin. En úr því að hann gerði jafntefli við Tal um mitt mótið, fór hin góða taflmennska hans að bera ávöxt og þrír vinningar úr síðustu fjórum skákunum tala sínu máli.

1964_Reykjavikurskakmotid_Menntamalaradherra_skakdrottningar_Audur-Juliusdottir_Gudrun-Thordardottir_Sigthrudur-Steffensen
Auður Júlíusdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Sigþrúður Steffensen

 

Ingi R. Jóhannsson hafnaði í síðasta verðlaunasætinu, 7. sæti. Varla fer hjá því, að árangur hans valdi talsverðum vonbrigðum. Til marks um það, að Ingi er greinilega í öldudal, má minna á, að þeir Johannessen eru gamlir keppinautar og í viðureign þeirra, hefur Ingi oftast borið hærri hlut. En í þetta sinn gekk fæst samkvæmt áætlun. Vel uppbyggðar stöður hrundu sem spilaborgir fyrir klaufalega afleiki og Inga virtist ekki endast mótið til að losna við taugaspennuna.

Í 8.-9. sæti urðu Gaprindasvili og Magnús Sólmundarson. Eftir góða byrjun mátti heimsmeistari kvenna þola hvern ósigurinn á fætur öðrum og þrátt fyrir liðlega taflmennsku skorti hana úthald, svo að hlutur hennar verður að teljast sanngjarn. Jafntefli við tvo af okkar sterkustu skákmönnum, Friðrik og Inga, sýnir að hér er enginn aukvisi á ferð.

Hlutur Magnúsar er góður, því að fæstir höfðu spáð því, að hann riði feitum hesti úr svo sterku móti. En hann sýndi, að
hann er vaxandi skákmaður og mátti jafnvel greina framfaramerki hjá honum, meðan á mótinu stóð.

Það verður að skipa þeim, sem lestina reka í einn flokk. Ber þar tvennt til: Annars vegar hversu svipaðir þeir eru að vinningum og hins vegar hve gæði skáka þeirra voru lík. Einna beztan verður að telja árangur Trausta, en honum virtist vaxa ásmegin, er líða tók á mótið.

Um hina reyndari skákmenn, Arinbjörn, Freystein og Ingvar er skylt að segja, að þeir náðu ekki sínu bezta, og má sjálfsagt kenna æfingarleysi um. Jón er enn óharðnaður skákmaður og er nú að byrja að öðlast þá reynslu, sem nauðsynleg er hverjum meistara.

1964: I. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1964 Reykjavíkurmótið - leiðrétt tafla

Vinningshlutall 69%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1963: I. Piatgorsky Cup í Los Angeles

Frábær frammistaða Friðriks í Las Angeles

 

Ekki var liðinn langur tími frá því að Tigran Petrosjan varð heimsmeistari og þar til hann ákvað að vera með í Piatigovsky mótinu. Í upphafi hafði verið óskað eftir að hann og Botvinnik kæmu til keppni þessarar, en þar sem mótið hófst skömmu eftir að einvíginu um heimsmeistaratitilinn lauk, var talið að þeir myndu ekki gefa kost á sér. Af þessum sökum var því ákveðið að senda þá Paul Keres og Victor Kortsnoj. Endirinn varð þó sá, að Petrosjan, hinn nýbakaði heimsmeistari, og Keres fóru til Los Angeles.

1963_Piatgorsky_sigurvegararnirHér, eins og oft áður, sannaðist hið fornkveðna, að sá sterki sigrar að lokum, og þótt heimsmeistarinn færi frekar hægt af stað; vann hann hægt og bítandi á og sigraði örugglega ásamt Keres, og hlutu þeir 8 1/2 v. af 14 mögulegum. Petrosjan tapaði aðeins einni skák, fyrir Gligoric í 2. umferð, og má það heita furðulegt öryggi í jafn sterku móti. Keres tapaði fleirum og vann líka fleiri, svo sem venja hans er.

Í 3.-4. sæti komu þeir Friðrik og Najdorf með 7 1/2 v. Friðrik fór hægt af stað, hafði 3 1/2 v. eftir fyrri helminginn, en þá tók hann kipp og skaut sér í efsta sæti með því að vinna þrjár skákir í röð. – Þá skeði ógæfan. Keres, sem var jafn Friðriki að vinningum og næstur í röðinni, lagðist veikur, svo að fresta varð skákinni. Og þar sem Reshevsky var einnig lasinn, var tekið það ráð að færa til umferðirnar, þannig að Keres og Reshevsky voru látnir tefla saman. Friðrik fékk því Benkö til að glíma við, sem var þá neðstur í mótinu. Þetta hefur áreiðanlega verkað illa, og Friðrik teygði sig of langt í að hreppa vinninginn og missti jafntefli niður í tap! En hvað sem því líður má Friðrik vel við una, því með þessu tókst honum enn einu sinni að sanna að hann er einn af alsterkustu skákmönnum heimsins.

Najdorf stóð sig frábærlega vel og betur en flestir bjuggust við af jafn gömlum manni. Hann stóð sig bezt í fyrri hlutanum, missti ferðina um miðbik mótsins, en náði sér aftur á strik í lokin.

Næstur kom gamla ljónið, Reshevsky, með 7 v. Hann fékk 50% úr báðum hlutunum. Reshevsky hefur ekki teflt lengi utan Bandaríkjanna í sterkum mótum, en lengi lifir í gömlum glæðum og hann á eflaust margt ósagt enn.

Gligoric kom næstur með 6 v. Hann var efstur eftir fyrri hlutann, en brást alveg í síðari hlutanum og varð að sætta sig við 1 1/2 vinning úr honum.

Panno og Benkö ráku lestina. Kom það nokkuð á óvart, hve Benkö stóð sig illa, en hann náði ágætum árangri í síðasta Áskorendamóti. – Panno hefur aftur á móti lítið haft sig í frammi á skákmótum hin síðari ár.

1963: I. Piatgorsky Cup í Los Angeles

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1963_Piatgorsky_tafla

Vinningshlutall 70%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1963: Alþjóðlegt skákmót í Færeyjum

Alþjóðlegt skákmót – í Færeyjum!

 

Margeir Sigurjónsson skrifar.

Havnar Telvingarfelag,  Þórshöfn í Færeyjum á 40 ára afmæli á þessu ári.   Í tilefni af þessu var stofnað til afmælismóts, sem hófst í Þórshöfn 2. júní og lauk 11. júní. Var undirrituðum ásamt Friðriki Ólafssyni stórmeistara og Ingvari Ásmundssyni boðið að taka þátt í móti þessu. Auk okkar þriggja voru mættir B. H. Wood, ritstjóri „Chess“, Dr. A. Seitz frá Þýzkalandi og F. Ronsperger frá Sviss. Þátttakendur voru auk þess Mr. F. P. Goldney, sem er Englendingur, en hann stjórnaði brezka hernum í Færeyjum á stríðsárunum, og hefir verið búsettur þar síðan, og 7 Færeyingar, þannig að þátttakendur voru samtals 14. Var teflt eftir Monrad kerfi, 9 umferðir.

Mótið fór vel fram, og úrslit samkvæma meðfylgjandi töflu. Sex fyrstu umferðirnar voru tefldar á Hotel Hafnia og þar bjuggu hinir erlendu keppendur, að undirrituðu mundanskildum, sem bjó hjá færeysku vinafólki. Þrjár síðustu umferðirnar voru tefldar í nýja sjómannaskólanum í Þórshöfn, sem er mjög vegleg bygging.

Teflt var frá kl. 7 til 12 daglega, 45 leiki á 2 1/2 klukkustund.

Knud Lambaa  stórkaupm. og heiðursfélagi Havnar Telvingarfelags hélt þátttakendum samsæti laugardagskvöldið 8. júní, en 12. júní var samsæti og verðlaunaafhending, en 1. verðlaun voru 600 færeyskar krónur, 2. verðlaun 300 f. kr. og 3.  verðlaun 100 f. kr. – Auk þess voru greiddar 30 f. kr. fyrir hverja unna skák.

Formaður Havnar Telvingarfelag er nú Torarinn Evensen, og var hann skákstjóri mótsins. Undirritaður var búsettur í Færeyjum árin 1933-1945, og kom einmitt til Færeyja þegar félagið hélt upp á 10 ára afmælið. Þetta mun vera í fyrsta skipti, sem mót með erlendum þátttakendum er haldið í Færeyjum.

Áhugi er talsverður fyrir skák í Færeyjum, og munu sterkustu skákfélögin vera Havnar Telvingafelag og taflfélagið í Vestmanhavu, sem eru nokkurn vegin álíka að styrkleika. Havnar Telvingarfelag á hús í Þórshöfn, sem er notað til æfingafunda, og stendur þar framar en íslenzk skákfélög. Undirritaður hafði mikla ánægju af ferð þessari, og fékk nú tækifæri til að hitta gamla kunningja, og meðal þátttakenda í þessu móti voru  J. P. Hendriksen og Olaf Andreasen, sem voru með þeim beztu á þeim tíma, sem ég var félagi í Havnar Tevlingarfelag. Ég varð þá svo frægur að tefla einvígi við J. P. Hendriksen um Færeyja meistaratignina, en tapaði. Var þá teflt í 12 tíma án klukku, og hafði ég það mér til afsökunar. J.P. Hendriksen er einn af stofnendum félagsins og um árabil var hann formaður þess, en hefir lítið teflt seinni árin eins og ég.

Friðrik Ólafsson tefldi útvarpsskák í Utvarp Færoya við B. H. Wood og lauk þeirri skák með jafntefli. Leiknir voru 30 leikir á klukkustund, og var skákinni útvarpað jafnóðum og hún var tefld. Ingvar tefldi samskonar skák við F. Ronsperger, og vann hana. Þeirri skák á að útvarpa seinna.

Friðrik Ólafsson tefldi fjöltefli á 32 borðum, eftir mótið, hann vann 29, tapaði 1 og gerði 2 jafntefli.

Ef Færeyingar fá tækifæri til að tefla við sér sterkari skákmenn, munu þeir fljótlega verða skeinuhættir, og væri skemmtilegt ef hægt væri að endurgjalda þetta boð þeirra.

Íslenzku þátttakendurnir fóru með Drottningunni 30. maí og komu aftur með Heklu 19. júní. Konur þeirra voru með í ferðinni.

1963: Alþjóðlegt skákmót í Færeyjum

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1963_Althjodlegt-skakmot-Faereyjum_tafla

Vinningshlutall 89%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1963: Einvígi við Inga R. Jóhannsson

Friðrik Reykjavíkurmeistari: Lagði Inga R. í spennandi einvígi

 

Sveinn Kristinsson skrifar.

Hinu spennandi einvígi þeirra Friðriks og Inga um Reykjavíkurmeistaratitilinn lauk með sigri Friðriks, sem hlaut 2,5 vinning gegn 1,5. Fyrsta skákin varð jafntefli, aðra skákina vann Ingi en þá þriðju og fjórðu vann Friðrik. Þannig hreppti stórmeistarinn æðsta skáktitil Reykvíkinga, svo sem flestir höfðu búizt við. Hins vegar á Ingi hrós skilið fyrir hið harðvítuga viðnám, sem hann veitti, og hefur hann að mínu viti stórum aukið orðstír sinn í keppninni sem heild.

Flestir munu mér samdóma um að óþarft sé að kynna skákmeistara Reykjavíkur. En ávallt þegar ég frétti af nýjum sigurvinningum Friðriks, þá fer ekki hjá því, að hugur minn hvarfli aftur til ársins 1946, en þá tók Friðrik þátt í sinni fyrstu opinberu keppni, á Skákþingi Íslands. Friðrik var þá 11 ára að aldri, er hann kom og vildi fá sig skráðan til keppni í 2. flokki.

En þá kom upp vandamál mikið. Hvergi fannst skráð heimild um það í lögum Skáksambandsins, að svo ungum manni væri kræft að taka þátt í móti á vegum þess. Og fordæmi voru engin fyrir því.

Voru nú kvaddir til einir þrír vitringar til að leysa fram úr þessu vandamáli. Úrlausn þeirra varð sú, að rétt væri að hleypa Friðriki í keppnina, þrátt fyrir æsku sína „enda mundi hann engum mein gera.“

Varð því niðurstaðan sú, að Friðrik tók þátt í keppninni, eins og áður greinir. Engum blandast nú hugur um, að dómsúrlausn þeirra þremenninga hafi orðið íslenzku skáklífi mjög til góðs.

Er nú svo komið að einna mestur ljómi mun standa um nafn Friðriks af öllum núlifandi Íslendingum, og eigum við þó marga góða fulltrúa bæði á sviði vísinda, lista og íþrótta. Hitt gæti líklega fremur orðið ágreiningsefni, hvort þær forsendur dómsins, að hann muni „engum mein gera“, hafi rætzt nema í takmörkuðum skilningi.

Því frá herfræðilegu sjónarmiði skákarinnar, þá hafa víst fáir Íslendingar gert meisturum og stórmeisturum meira mein en einmitt Friðrik Ólafsson. En hvaða máli skiptir það, þótt forsendur dóms orki tvímælis, ef dómsniðurstaðan hefur jafn heillavænlegar afleiðingar og hér varð raun á.

Þátturinn óskar Friðriki Ólafssyni einlæglega til hamingju með meistaratignina.

Þjóðviljinn 17. mars 1963.

1963: Einvígi við Inga R. Jóhannsson

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Umferð Dags. Nafn Úrslit Nafn
1 3.3. Ingi R. Jóhannsson 1-0 Friðrik Ólafsson
2 4.3. Friðrik Ólafsson 1/2-1/2 Ingi R. Jóhannsson
3 5.3. Friðrik Ólafsson 1-0 Ingi R. Jóhannsson
4 10.3. Ingi R. Jóhannsson 0-1 Friðrik Ólafsson
Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1963: Skákþing Reykjavíkur

Friðrik og Ingi R. efstir: Þurfa að tefla einvígi um titilinn!

 

Sveinn Kristinsson skrifar.

Þau urðu úrslit Reykjavíkurmótsins, sem kunnugt er, að Friðrik og Ingi R. Jóhannsson urðu þar jafnir efstir með 5 vinninga hvor. Friðrik tapaði einni skák, fyrir Jónasi Þorvaldssyni, en Ingi tapaði engri. Munu þeir kappar verða að heyja einvígi um meistaratignina, og hefst það væntanlega bráðlega. Jónas Þorvaldsson, sem náði þriðja sæti og hlaut 1,5 vinning gegn þeim Friðrik og Inga, var þó líklega sá keppandinn sem mesta athygli vakti. Er Jónas greinilega í mikilli framför og hefur aukizt öryggi.

Annars sýndi mótið í heild aðð þeir Friðrik og Ingi verða að fara að gæta sín alvarlega gegn hinum yngri meisturum. Stórmeistarinn hefur ekki lengur jafneinsýna yfirburði og hann hafði yfir helztu andstæðinga sína um árabil. Slíkt væri líka óeðlilegt, því framför manna verður yfirleitt hægari eftir því sem menn ná meiri styrkleika.

Bilið milli sterkra manna og veikari hefur því að jafnaði tilhneigingu til styttingar og því meiri því blómlegra sem skáklíf er og meira teflt. Nú er t.d. ljóst orðið, að styrkleikamunur þeirra Friðriks og Inga er ekki ýkja mikill, og má þó telja þvínær öruggt, að stórmeistarinn muni sigra í væntanlegu einvígi þeirra. En ekki er líklegt, að vinningsmunur verði mikill.

Skákþing Reykjavíkur í ár fór vel fram og var með köflum allvel sótt af áhorfendum. Þar voru tefldar ýmsar skemmtilegar skákir og fjörugar, en talsvert var um afleiki, eins og vill oft verða svo, þegar harkalega er barizt.

Þjóðviljinn 24. febrúar 1963.

1963: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 71%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1962: XV. Ólympíuskákmótið í Varna

Friðrik með bestan árangur allra á 1. borði!

 

Þjóðviljinn 20. október 1962.

Í gær hitti fréttamaður blaðsins að máli Arinbjörn Guðmundsson skákmeistara en hann kom heim í fyrrinótt ásamt fjórum öðrum félögum sínum, er kepptu fyrir Íslands hönd á nýafstöðnu Ólympíuskákmóti í Varna í Búlgaríu. Notaði fréttamaðurinn tækifærið að inna hann frétta af mótinu og þá sérstaklega frammistöðu íslenzku sveitarinnar.

Hvað viltu segja um frammistöðu íslenzku skáksveitarinnar, Arinbjörn, reiknuðuð þið með betri eða lakari heildarárangri?

,,Ég held að hún hafi verið eftir öllum vonum, því að við vorum allir mjög lítið þjálfaðir og illa undir mótið búnir, enda kom það greinilega fram að æfingaleysi háði okkur, sérstaklega í byrjun mótsins. Ég hafði reyndar vonað, að við yrðum heldur ofar í röðinni í B-flokknum en keppnin þar var mjög jöfn og lítill munur á sveitunum, þannig hefðum við orðið um miðjan flokk, ef við hefðum fengið tveim vinningum meira.“

Hvað geturðu sagt mér um árangur einstakra keppenda?

,,Friðrik stóð sig eins og hetja og var með hæsta vinningahlutfall allra keppenda mótsins á 1. borði. Hann fékk 77,78% vinninga, vann 10 skákir, gerði 8 jafntefli og tapaði engri. Friðrik tefldi flestar skákirnar mjög vel, sérstaklega skákina á móti Gligoric sem var mjög erfið, en henni lauk með jafntefli. Skákina gegn O’Kelly vann hann mjög skemmtilega í aðeins 20 leikjum.“

Þú stóðst þig ágætlega í undankeppninni en tefldir aðeins 3 skákir í úrslitakeppninni. Hvernig stóð á því, varstu veikur?

,,Þegar ég var búinn að tefla 7 skákir, fékk ég mikil óþægindi í augun og fóru þau síversnandi eftir hverja skák. Fór ég til augnlæknis og kom í ljós, að gleraugun sem ég var með áttu ekki við sjónina og bólgnuðu augun af þeim sökum. Bannaði hann mér að tefla meira. Ég tefldi alls 11 skákir, vann 3, gerði 7 jafntefli og tapaði einni.“

Hvernig stóðu nýliðarnir í skáksveitinni sig?

,,Frammistaða þeirra Jóns Kristinssonar og Jónasar Þorvaldssonar kom mjög á óvart. Jón hefur aldrei teflt áður á erlendum vettvangi og Jónas aðeins einu sinni, á unglingamóti í Noregi 1957. Jón sýndi mikla keppnishörku og seiglu og þótt hann væri með verri stöðu í sumum skákunum gaf hann sig ekki. Hann hlaut 6 vinninga í 14 skákum, vann 2, gerði 8 jafntefli og tapaði 4. (42,86%). Jónas tefldi einnig af miklu meiri hörku en hann hefur gert áður. Hann hlaut 5 vinninga í 13 skákum, vann 4, gerði 2 jafntefli og tapaði 7. (38,46%).“

,,Björn Þorsteinsson hlaut 50% vinninga og var vel að þeim árangri kominn. Hann stóð sig vel en tefldi ekki eins traust og hann hefur gert oft áður. Hann vann 4 skákir, gerði 4 jafntefli og tapaði 4 skákum. Jón Pálsson þekkti maður ekki fyrir sama mann eins og hann hefur teflt á mótum hér heima. Hann hlaut 2,5 vinning í 12 skákum, vann eina, gerði 3 jafntefli og tapaði 8. (20.83%).

Hvernig var aðbúnaðurinn og aðstaðan á mótinu?

,,Aðbúnaðurinn var ágætur nema maturinn féll okkur Norðurlandabúunum ekki, og urðu sumir hart úti af þeim sökum. Annars var þetta ágætur matur fyrir þá sem voru vanir honum.“

Hvað geturðu sagt mér af úrslitakeppninni í A-flokknum?

,,Þar bar hæst skákina milli Botvinniks og Fischers. Að henni voru eins margir áhorfendur úti sem inni, enda var hún sýnd á sýningarborði úti. Hún endaði með jafntefli. Botvinnik hafði hvítt og tefldi byrjunina óvenju hvasst og virtist hann fá heldur betra tafl. Hann fórnaði svo snemma peði til þess að halda spennunni á miðborðinu, en Fischer tókst með nákvæmri taflmennsku að létta á stöðunni og halda peðinu sem hann hafði yfir. Rétt áður en skákin fór í bið virtist Fischer hafa miklar vinningslíkur. Hann átti 2 peð á drottningarvæng (á b6 og a7) á móti einu peði hjá Botvinnik (á a2). Einnig átti Fischer hrók, sterkan riddara og 2 peð kóngsmegin á móti hróki og biskupi og tveim peðum kóngsmegin hjá Botvinnik.“

,,Fischer hefur líklega misst af vinningnum með því að skipta á riddaranum og biskupnum. Rétt fyrir biðina gat Botvinnik skipt upp á a-peði sínu og b-peði Fischers og tókst Fischer ekki að vinna skákina vegna nákvæmrar taflmennsku Botvinniks þrátt fyrir átta tíma setu alls.“

Hvernig fóru hinar skákirnar milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna?

,,Petrosjan og Benkö gerðu jafntefli, Spassky vann Robert Byrne og Tal og David Byrne gerðu jafntefli svo að Rússar unnu með 2,5 vinningi gegn 1,5. Ég held að Spassky hafi teflt manna bezt á mótinu heilt yfir. Sýndi hann sérstaklega mikið öryggi.“

1962: XV. Ólympíuskákmótið í Varna

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1962: XV. Ólympíumótið í Varna: Riðlakeppni

1962_varna_tafla_ridla

1962: XV. Ólympíumótið í Varna: Úrslitakeppni

1962_varna_tafla_urslit

Ólympíumót: Öll mót Friðriks

1956_Olympiumot_oll-mot-Fridriks

Vinningshlutall 78%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1962: Skákþing Íslands

Friðrik Íslandsmeistari í fimmta sinn: Fékk 10 vinninga af 11

Sveinn Kristinsson skrifar.

Skákþing Íslands fór fram dagana 14.—24. apríl sl., að mestu í Breiðfirðingabúð. Þátttakendur voru alls 31; tólf í landsliðsflokki og 19 í meistaraflokki. Mun ég nú fara nokkrum orðum um úrslitin í landsliðsflokki. Þar varð stórmeistarinn Friðrik ÓJafsson hlutskarpastur svo sem vænta mátti og hlaut tíu vinninga, tapaði engri skák en gerði tvö jafntefli, við þá Sigurð Jónsson og Inga R. Var hann raunar í taphættu í báðum  þeim skákum.

Þrátt fyrir það var auðsætt að Friðrik hafði verulega yfirburði yfir alla andstæðinga sína, enda hefur hann margfalda keppnisreynslu á við hvern þeirra sem er. Þótt Friðrik hætti að tefla fyrir fullt og allt í dag (sem vonandi verður nú ekki!) þá mundi það sjálfsagt taka skæðustu keppinauta hans á þessu móti ein 5 ár að ná honum að styrkleika. Svo miklu forskoti hefur hann náð í hernaðartækni.

Þetta er í 5. sinn sem Friðrík vinnur titilinn Skákmeistari íslands. Hin skiptin voru. 1952, 1953, 1957 og 1961. Til nánari skýringar fyrir þá, sem ekki þekkja til, má geta þess, að frá og með árinu 1952 hefur Friðrík unnið titilinn í öll þau skipti, sem hann hefur tefit um hann. Þátturinn óskar skákmeistara íslands til hamingju með titilinn.

Annars var það hinn ungi meistari Taflfélagsins, Biörn Þorsteinsson, sem mesta athygli vakti í landsliðsflokki. Hann vann 8 fyrstu skákirnar(!) og var þá efstur, er aðeins 3 umferðir voru eftir. En í þremur síðustu umferðunum tapaði hann fyrir Gunnari, Friðriki og Ingvari og „hrapaði“ við það niður í annað sæti, tveimur vinningum fyrir neðan Friðrik.

Björn teflir lipran sóknarstíl og sú vinna, sem hann leggur í skákina, kemur ekki svo mjög fram á yfirborðinu, því hann er fljótur að hugsa og er rökhugull að eðlisfari. Minnir hann mig mest á Baldur Möller af yngri meisturum okkar. IMeð árangri sínum á þessu móti hefur Björn sýnt, að hann er kominn í hóp okkar  beztu   skákmanna.

Ingvar Ásmundsson varð þriðji með 7 vinninga. Ingvar er svo mikill bardagamaður, að hann setur alltaf skemmtilegan svip á mót þau, sem hann teflir á. Hann teflir af þeim skapþunga, að þar mun tæpast nokkur af meisturum okkar standa honum framar. Á þessu móti tefldi hann misjafnlega, en bó verður útkoma hans í heild að teljast góð. Meðal annars vann hann Inga R. snaggaralega.

Í 4.-5. sæti komu svo Ingi R. og Jónas Þorvaldsson með 6,5 vinning. Ingi tefldi margar skákir sínar óvenjuslappt og af lítilli festu. Sennilega hefur hann ekki búið sig nógu vel undir keppnina, því svona ströng keppni krefst góðs undirbúnings. Ef vel ætti að vera þyrftu menn t.d. að þjálfa sig sérstaklega í úthaldi til að tefla tvær umferðir á dag, svo sem stundum var gert á þessu móti. Vonandi táknar þetta engan afturkipp hjá Inga, því söknuður væri að honum úr „toppinum“. Hafa fáir meistarar okkar jafnglöggt stöðumat og Ingi, þegar honum tekst bezt.

Jónas Þorvaldsson getur hins vegar verið ánægður með útkomu sína, sem Jofar góðu um framtíð hans. Þeir Ingi og Jónas munu verða að heyja einvígi   um  4.   landsliðssætið.

Sjötti varð Jón Kristinsson með 5,5 vinning. Er hann nýliði í landsliðsflokki og er þetta því mjög athyglisverður árangur. Jón vann t.d. bæði Ingvar Ásmundsson og Gunnar Gunnarsson. Kunnugir spá Jóni miklum frama í skákjnni, og hef ég oft heyrt ótrúlegri spár, því hann hefur „typiska“ skákmannsskapgerð; er fremur fálátur en íhugull, enginn yfirborðsmaður en skapfastur.

Gunnar Gunnarsson sem varð 7. með 5 vinninga skartaði ekki sínu bezta á þessu móti. Hann var óvenju hnotgjarn og mistækur og getur ekki hafa þjálfað sig neitt að ráði fyrir keppnina. Gunnar var eini keppandinn, sem ekkert jafntefli gerði, og talar það sínu máli um stíl hans.

Í  8.-9. sæti komu þeir Gylfi Magnússon og Ólafur Magnússon með 4 vinninga hvor. Maður hefði getað búizt við betra af Ólafi, sem hefur talsverða reynslu af kappteflum en grunur minn er sá, að hann hafi ekki verið í sem beztri æfingu.

Gylfi er nýliði í landsliði og þarf ekki að kvarta. Hann ermjög harðskeyttur skákmaður, þegar honum tekst upp.  Ingi R. Jóhannsson og Benóný Benediktsson urðu meðal fórnarlamba hans að þessu sinni.

Tíundi varð Helgi Ólafsson með 3,5 vinning. Helgi er skákmeistari Suðurnesja, teflir nú í fyrsta skipti í landsliði, skortir enn reynslu, en lofar góðu.

Og svo ráku beir lestina Benóný Benediktsson og Sigurður Jónsson með 3 vinninga hvor. Það kom flestum á óvart að skákmeistari Reykjavíkur skyldi lenda í neðsta sæti, og ekki kann ég skýringu á því. Í skákinni fetar Benóný oft furðulegustu refilstigu utan alfaraleiðar, og ekki er alItaf gott að segia hvað fyrir honum vakir eða hvert ferðinni er heitið.

Að þessu sinni hefur Benóný ef til vill sem aldursforseti í landsliðsflokki, vanmetið einhverja af hinum ungu andstæðingum sínum. Í sumum skákanna tefldi hann svo kynlega, að hann lét sjálfur svo ummælt, að hann hefði aldrei séð slíka   taflmennsku!

En þannig er Benóný. Hann þarf alltaf að koma á óvart. Ef hann er ekki efstur, þá er hann kannski neðstur. Einn daginn gerir hann jafntefli við heimsfrægan stórmeistara, annan daginn tapar hann fyrir viðvaningi. Meðalmennsku á hann ekki til; því er það, að hann vinnur hugi áhorfenda.

„Hvað gerir Benóný næst?“ Sú spurning fer oft um áhorfendabekkina. Hún minnir mig á þegar fólk spyr:„Hvernig skyldi nú sumarið verða“? Svo torræður er Benóný, eins og sjálf náttúruöflin; dulúðugur, skapandi andi, sem við meðalmennirnir hristum oft hausinn yfir, af því við ristum ekki eins djúpt og horfum ekki eins hátt.

Sigurður Jónsson, sem varð jafn Benóný, olli mönnum einnig vonbrígðum hvað vinningatölu snerti, því hann á til mjög sterkar hliðar.

Þjóðviljinn 29. apríl 1962.

1962: Skákþing Íslands

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1962 Skákþing Íslands - tafla

Vinningshlutall 91%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu