Afrek og æviatriði

1935 Friðrik fæddur í Reykjavík 26. janúar, sonur Sigríðar Ágústu Dorotheu Símonardóttur (1908-1992) og Ólafs Friðrikssonar (1905-1983). Systur Friðriks eru Margrét Ólafsdóttir (fædd 1930) og Ásta Ólafsdóttir (fædd 1932).

1946 Friðrik tekur í fyrsta sinn þátt í skákmóti, 11 ára gamall. Hann teflir í 2. flokki á Skákþingi Íslendinga, fær 4,5 vinning af 8 og vekur mikla athygli.

1947 Friðrik sigrar í 2. flokki á Skákþingi Reykjavíkur, fær 9 vinninga af 11.

1948 Friðrik sigrar á Haustmóti TR.

1950 Friðrik sigrar í meistaraflokki á Skákþingi Norðurlanda.

1950 Tekur í fyrsta skipti þátt í skákmóti á erlendri grund: Lendir í 4. sæti af 20 á öflugu ungmennamóti í Birmingham.

1950 Sigrar á Afmælismóti Taflfélags Hafnarfjarðar.

1951 Lendir í 2.-3. sæti á Rossolimo-mótinu í Reykjavík.

1951 Er í miðjum hópi á heimsmeistaramóti ungmenna, 20 ára og yngri, í Birmingjam. Sigrar á mjög sterku hraðskákmóti sem haldið er í mótslok.

1951 Hraðskákmeistari Reykjavikur.

1952 Friðrik í 1.-2. sæti á Skákþingi Íslands ásamt Lárusi Johnsen. Friðrik sigrar Lárus í einvígi og verður Íslandsmeistari í fyrsta skipti.

1952 Hraðskákmeistari Íslands í fyrsta sinn. Vann titilinn líka 1954, 1955, 1957, 1959, 1963 og 1971.

1952 Friðrik teflir í fyrsta sinn fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótinu í Helsinki.

1953 Friðrik Norðurlandameistari í Esbjerg með 9 vinninga af 11.

1953 Lendir í 3.-4. sæti í úrslitum heimsmeistaramóts ungmenna í Kaupmannahöfn.

1953 Íslandsmeistari öðru sinni.

1953-54 Friðrik í 4.-7. sæti í Hastings. Leggur stórmeistara að velli í fyrsta skipti, goðsögnina Savielly Tartakover.

1954 Friðrik í 6. sæti á svæðamóti í Prag og Mariánski Lázne, fær 11,5 vinning af 19.

1954 Teflir á 1. borði á Ólympíumótinu í Amsterdam.

1955 Lendir í 1.-2. sæti ásamt Bent Larsen á Norðurlandamótinu í skák í Ósló.

1955 Gjörsigrar argentíska stórmeistarann Herman Pilnik 5-1 í einvígi í Reykjavík.

1955 Friðrik útskrifast sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík.

1955-56 Vinnur glæsilegan sigur í Hastings ásamt Korchnoi, fær 7 vinninga af 9. Lagði ríkjandi skákmeistara Sovétríkjanna, Mark Taimanov, í fyrstu umferð.

1956 Bíður lægri hlut fyrir Bent Larsen í einvígi í Reykjavík um Norðurlandameistaratitilinn. Sannkallað skákæði á Íslandi í kringum einvígið og sigur Friðriks í Hastings.

1956 Friðrik sigrar á Minningarmóti Guðjóns M. Sigurðssonar í Reykjavík, með 8 vinninga af 9, á undan Taimanov o.fl.

1956 Fær 13 vinninga af 18 á 1. borði á Ólympíuskákmótinu í Moskvu.

1956 Friðrik útnefndur alþjóðlegur meistari í skák.

1957 Leggur Herman Pilnik stórmeistara frá Argentínu öðru sinni í einvígi.

1957 Friðrik í 2.-3. sæti ásamt Pilnik á Benkö-mótinu. Heiðursgesturinn Pal Benkö sigraði.

1957 Íslandsmeistari í þriðja sinn, fær 8 vinninga af 9.

1957 Sigrar á Stórmóti Taflfélags Reykjavíkur.

1957 Friðrik í 2. sæti á svæðamóti FIDE í Wageningen.

1958 Friðrik útnefndur stórmeistari í skák.

1958 Friðrik í 5.-6. sæti á firnasterku millisvæðamóti FIDE í Portoroz með 12 vinninga af 20, og vinnur sér rétt til að tefla í átta manna áskorendamóti, þar sem sigurvegarinn öðlast rétt til að skora á heimsmeistarann.

1959 Sigrar með glæsibrag í Beverwijk, fær 7,5 vinninga af 9. Tekur þátt í alþjóðlegum skákmótum í Zürich og Moskvu.

1959 Friðrik lendir í 7. sæti á Áskorendamótinu í Júgóslavíu. Átta af sterkustu skákmönnum heims tefla fjórfalda umferð, alls 28 skákir. Sterkasta skákmót og mesta þolraunin á ferli Friðriks.

1960 Sigrar á Skákþingi Reykjavíkur með 7 vinninga af 7.

1960 Teflir í Mar del Plata og Buenos Aires með ágætum árangri.

1960 Sigrar á svæðamóti FIDE í Berg en Dal.

1961 Íslandsmeistari í fjórða sinn.

1961 Lendir í 3. sæti á Minningarmóti Alexanders Alekhine í Moskvu með 7 vinninga 11.

1961 Sigrar á svæðamóti FIDE í Marianske Lazne með 12,5 vinninga af 15.

1962 Friðrik og Auður Júlíusdóttir ganga í hjónaband. Dætur þeirra eru Bergljót (fædd 1962) og Áslaug (fædd 1969).

1962 Íslandsmeistari í fimmta sinn, með 10 vinninga af 11.

1962 Nær bestum árangri á 1. borði (ásamt Najdorf) á Ólympíuskákmótinu í Varna, fær 14 vinninga af 18.

1963 Friðrik í 3.-4. sæti á Piatgorsky-mótinu í Los Angeles, sterkasta skákmóti ársins í heiminum.

1963 Sigrar á alþjóðlegu skákmóti í Færeyjum.

1964 Friðrik í 3.-4. sæti á eftir Tal og Gligoric á 1. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1965 Friðrik sigrar á Júní-mótinu í Reykjavík.

1966 Friðrik sigrar á 2. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1966 Fær 11,5 vinninga af 18 á Ólympíuskákmótinu í Havana.

1968 Friðrik útskrifast sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

1968 Lendir í 3. sæti á 3. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1968-74 Fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

1969 Fær 9,5 vinning af 15 á mjög sterku skákmóti í Wijk aan Zee og lendir í 5. sæti af 16.

1969 Friðrik tekur í síðasta sinn þátt í Skákþingi Íslands og verður Íslandsmeistari í sjötta sinn.

1970 Lendir í 5.-6. sæti af 16 á 4. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1970 Í 2. sæti á alþjóðlegu móti í Lugano.

1971 Sigrar á Skákþingi Norðurlanda í Reykjavík og verður Norðurlandameistari öðru sinni.

1971 Friðrik í 2.-5 sæti af 16 á alþjóðlega mótinu í Beverwijk.

1971 Friðrik í 12. sæti af 18 á gríðarlegu sterku Minningarmóti Alexander Alekhine í Moskvu. Karpov og Stein urðu efstir og jafnir. Friðrik lagði Mikail Tal í 22 leikjum á mótinu.

1972 Friðrik í 1.-3. sæti á 5. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1974 Friðrik gerist atvinnumaður í skák.

1974 Lendir í 2.-3. sæti á alþjóðlegu móti í Las Palmas.

1975 Friðrik í 2.-3. sæti á mjög sterku alþjóðlegu móti í Tallinn. Keres sigraði með 10,5 af 15, næstir komu Friðrik og Boris Spassky með 9,5, fyrir ofan Bronstein, Hort, Taimanov o.fl.

1975 Friðrik í 4. sæti á svæðamóti FIDE í Reykjavík.

1976 Friðrik sigrar ásamt Ljubojevic á alþjóðamótinu í Wijk aan Zee.

1976 Efstur ásamt Timman á 7. alþjóðlega Reykjavikurskákmótinu.

1977 Í 5.-8. sæti af 16 á mjög sterku afmælismóti Skáksambands Þýskalands.

1978 Friðrik í 3.-6. sæti á 8. alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu.

1978 Í 3. sæti á alþjóðlegu móti í Las Palmas.

1978-82 Friðrik kjörinn forseti FIDE, alþjóðasambands skákhreyfingarinnar.

1980 Friðrik sigrar Anatoly Karpov ríkjandi heimsmeistara á stórmeistaramóti í Buenos Aires.

1982-84 Skólastjóri Skákskólans.

1984-2005 Skrifstofustjóri Alþingis.

1993 Friðrik teflir í fyrsta skipti í úrvalsliði eldri meistara, sem glíma við bestu skákkonur heims.

1995 Afmælismót Friðriks Ólafssonar haldið í Þjóðarbókhlöðunni í tilefni sextugsafmælis meistarans. Hannes H. Stefánsson sigraði á mótinu. Friðrik lenti í 8.-9. sæti með 4,5 vinninga af 11. Larsen, Gligoric og Smyslov meðal keppenda.

2001 Friðrik í 9.-10. sæti af 42 á Minningarmóti Jóhanns Þóris Jónssonar.

2003 Tekur þátt í fyrsta alþjóðlega skákmótinu á Grænlandi.

2003 Friðrik sigrar Bent Larsen 5-3 í atskákareinvígi á Hótel Loftleiðum.

2011 Lendir í 3. sæti á Norðurlandamóti öldunga í Reykjavík.

2013 Friðrik tekur þátt í  alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu í fyrsta sinn síðan 1984.

2015 Friðrik útnefndur heiðursborgari Reykjavíkur.

2015 Tekur þátt í alþjóðlegu skákmóti á Sardíníu.

2015 Teflir með Gullaldarliði Íslendinga á EM í Laugardalshöll. Sveitina skipa ásamt honum þeir Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason og Margeir Pétursson.