1969: Svæðamót FIDE í Aþenu

,,Þetta misheppnaðist einhvern veginn“

 

Milan Matulovic
Milan Matulovic

Júgóslavinn Milan Matulovic vann nauman en verðskuldaðan sigur á svæðamóti FIDE í Aþenu, kom í mark sjónarmun á undan Hort frá Tékkóslóvakíu og Þjóðverjanum Hübner. Matulovic var jafnaldri Friðriks, fæddur 1935, og var um árabil meðal allra sterkustu skákmanna Júgóslavíu.

Árangur Friðriks í Aþenu olli bæði honum og aðdáendum hans vonbrigðum, svo sem ráða má af viðtali sem blaðamaður Vísis átti við hann 6. nóvember 1969. Eins og fram kemur í viðtalinu var herforingjastjórn við völd í Grikklandi og kraumandi spenna. Viðtalið fer hér á eftir:

,,Ég er svona að safna mér saman. Ég er hálf eftir mig eftir þetta,“ sagði Friðrik Ólafsson skákmeistari, þegar Vísir ræddi við hann nýkominn heim frá svæðamótinu í Aþenu, þar sem hann varð númer 8 af átján keppendum. Flestir höfðu búizt við betri árangri hjá Friðriki í þessu móti og ýmsir hafa verið að burðast við að skýra gengisleysi hans í mótinu, æfingarskortur segja sumir, afturför segja aðrir, óheppinn og illa fyrir kallaður.

En víst er um það, að Friðrik tefldi langt fyrir neðan sinn „standard“ eins og við höfum kynnzt honum til þessa.

,,Þetta misheppnaðist einhvern veginn,“ sagði Friðrik. ,,Ég komst aldrei almennilega í gang. Það er einhvern veginn svona, stundum er eins og ekkert heppnist fyrir manni. Orsakirnar eru margar og ekki svo gott að gefa neinar ákveðnar skýringar.“

Er eitthvað framundan á næstunni?

,,Það er ekkert framundan núna alveg á næstunni nema þetta alþjóðamót hér heima i vetur. Mér hefur hins vegar verið boðið til Sviss á næsta ári í átta manna mót.“

Veiztu nokkuð, hvaða skák menn tefla þar aðrir?

,,Það hefur verið talaö um Spassky, að líkindum Portisch, Larsen, Gligoric og Vestir-Þjóðverj-ann Unzicker, Robert Byrne, sem hér var og ýmsir kannast við. Þátttaka þessara manna er ekki endanlega ákveðin, það hefur aðeins verið talað um þetta. Keres mun einnig hafa verið boðin þátttaka í þessu móti, en ég veit ekki hvort hann kemst. Hann kvað vera hafður í ferðabanni i eitt ár, eftir því sem ég bezt veit.“

Hvers konar mót er þetta?

,,Þetta er prívatmót. Þau eru yfirleitt miklu skemmtilegri heldur en til dæmis þessi svæða mót, þar sem aðbúnaður er of hálflélegur.“

Hvernig var annars stemmningin á mótinu í Aþenu, var ekki barizt hart?

,,Jú, þetta mót var anzi skemmtilegt í lokin. Þarna voru fimm menn sem komu til greina í baráttunni um efstu sætin.“

Var mikill áhugi á þessu móti í Aþenu?

,,Það var svolítið erfitt að átta sig á þvi, hverjir sóttu mótið af skákáhuga og hverjir bara ,,droppuðu“ þarna inn. Húsið, sem teflt var í stóð í miðjum garði, svona listaverkagarði og þar var alltaf talsvert af fólki á ferli. Annars virðist vera að vakna talsverður áhugi þarna á skák upp á síðkastið. Hann mun víst vera mikill áhugamaður um skák ráðherrann, sem fer með íþróttamál og slíkt í þeirri „ágætu“ stjórn.

Urðuð þið vör við mikil mótmæli gegn herforingjastjórninni?

,,Aðallega sprengingar, sem urðu þarna á hótelinu okkar, eins og komið hefur fram. Annars virðist það ekki vera stór hópur sem heldur uppi þessum mótmælum. Fólkið virðist sætta sig við þetta einhvern veginn. Það er orðið ýmsu vant. “

Nú hafa ýmsir kveðið upp úr með það að þú ættir að gerast atvinnumaður í skák?

,,Já, þar er nokkuð í efni, sem erfitt er að átta sig á, sem sakir standa, ég held ég kæri mig ekki um algjöra atvinnumennsku. Þetta er auðvitað hlutur sem maður verður að gera rækilega upp við síg og það hef ég ekki gert. Þetta færi sjálfsagt eftir því hvað væri í boði. Ég verð þess vegna að svara þessari spurningu með spurningarmerki.“

1969: Svæðamót FIDE í Aþenu

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1969 Aþena - mótstafla

Vinningshlutall 56%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu