Skáktafl í ferli til sjálfstæðis

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður skrifaði þessa grein í Mbl. í tilefni af áttræðisafmæli Friðriks Ólafssonar.

Sjálfstæði og fullveldi var viðvarandi viðfangsefni í sögu íslensku þjóðarinnar síðustu tvær aldir. Í upphafi ætluðu skáldin að yrkja land og þjóð til sjálfstæðis og fullveldis. Svo komu stjórnmálamennirnir, sem sumir hverjir voru einnig skáld, og vörðuðu hina formlegu hlið málsins.

Þann feril má tímasetja:

Stjórnarskrá 1874

Heimastjórn 1904

Fullveldi 1918

Lýðveldi 1944

Sumt í þessu ferli er okkur nútímamönnum algerlega óskiljanlegt. Val á ráðherrum varð stundum tilviljanakennt þar sem glæsileiki eða stafrófsröð réð vali. Dr. Valtýr Guðmundsson sagði að Hannes Hafstein hefði sigrað á glæsileikanum, og að Einar Arnórsson hefði orðið ráðherra en ekki Sveinn Björnsson, þar sem Arnórsson var á undan Björnsson í stafrófinu.

Við lýðveldisstofnun kepptust stjórnmálamenn við að afla hinu nýja lýðveldi alþjóðlegrar viðurkenningar, ekki aðeins þeirra stórvelda, sem áttu í stríði við möndulveldin þegar lýðveldi var stofnað 1944, heldur með því að hið nýstofnaða lýðveldi varð fullgilt sem stofnaðili að þeim alþjóðastofnunum sem stofnaðar voru á lýðveldisárinu. Þær stofnanir eru Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðaflugmálastofnunin. Ef til vill var framsýni ráðamanna mest þegar ákveðið var að senda fulltrúa á stofnfund Alþjóðaflugmálastofnunarinnar þar sem aðeins voru gefin út 25 flugskírteini á Íslandi.

Þessar viðurkenningar með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi voru hin ytri atriði sem sneru að þjóðríkinu Íslandi. Þjóðin Íslendingar þurfti á alþjóðlegri viðurkenningu að halda. Það var nærtækast að menningararfleifðin hlyti viðurkenningu umheimsins. Til þess átti þjóðin skáld, sem vildi skrifa fyrir heiminn. Skáldið vildi öðlast viðurkenningu, sem fólst í bókmenntaverðlaunum Nóbels og fékk viðurkenninguna árið 1955. Verðlaunin voru ekki aðeins viðurkenning fyrir skáldið heldur einnig frásagnarlist íslensks sagnaarfs frá miðöldum.

Þann 7. janúar 1956 birtist frétt í Morgunblaðinu: „Sigur Friðriks skipar honum við hlið beztu skákmanna heimsins.“ Í greininni segir: „Í gær var nafn Íslands í annað sinn á þessum vetri nefnt í heimsfregnunum í sambandi við unnin afrek. Í desember var það nafn nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Kiljan Laxness, sem ljóma varpaði á nafn Íslands. Í gær var það nafn Friðriks Ólafssonar skákmeistara.“

Þá hafði hinn tvítugi skákmaður, Friðrik Ólafsson, hlotið efsta sæti á skákmóti í Hastings ásamt Viktor Korshnoi, en hann var útnefndur stórmeistari síðar það ár. Afrek Friðriks héldu áfram og var hann útnefndur stórmeistari árið 1958. Skák var þá og er enn þjóðaríþrótt Íslendinga.

Í Morgunblaðsfréttinni sagði jafnframt: „Þessi sigur Friðriks skipar honum sess með beztu skákmönnum heimsins og opnar honum efalaust leið inn í allar meiriháttar skákkeppnir, en um þær mun leið hans liggja til æðstu virðingarsæta meðal skákmeistaranna.“ Svo mörg voru þau orð; skákmeistarinn ungi varð forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE.

Nóbelsverðlaun og stórmeistarititill voru viðurkenningar fyrir afrek einstaklinga en þjóðin eignaði sér þau.

Þá var aðeins eitt eftir; þjóðin sem eitt sinn hafði aðeins átt eina sameign, að því er skáldið sagði:

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign, sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum.“

Sú þjóð átti aðra sameign, það voru handritin í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þau þurfti að endurheimta. Það gerðist árið 1971 þegar þjóðin þyrptist niður að höfn til að taka á móti skipi sem kom með tvær bækur. Þá varð sjálfstæðið fullkomnað.

Það er rétt að óska sigurvegaranum í Hastings 1956 til hamingju með afmælið. Hann sannaði að Íslendingar voru þjóð sem átti erindi meðal annarra þjóða.

VIÐTAL VIÐ FRIÐRIK ÓLAFSSON / ÓTTAR FELIX HAUKSSON.

Óttar Felix Hauksson skrifar í Skákblað TR 2010

FRIÐRIK ÓLAFSSON - 2012 ljósm. ESE 19.1.2013 17-32-27.2013 17-32-028 (2)Friðrik Ólafsson er það nafn sem mestum ljóma stafar frá í íslenskri skáksögu. Allt frá miðri síðustu öld hefur þjóðin fylgst með og fyllst stolti yfir afrekum hans, jafnt hérlendis sem á alþjóðavettvangi. Afrek Friðriks Ólafssonar voru í raun hluti af sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar sem, nýskriðin úr faðmi danska konungsvaldsins, var í mun að láta að sér kveða í samfélagi þjóðanna. Það er hægt að telja á fingrum annarar handar þá sem báru hróður Íslands út fyrir landssteinanna á sjötta áratug síðustu aldar þegar Friðrik hóf strandhögg á erlendri grund. Albert Guðmundsson knattspyrnuhetja og frjálsíþróttakapparnir Clausen bræður og Gunnar Huseby og svo náttúrulega skáldjöfurinn Halldór Laxness. Þetta voru útrásarvíkingarnir. Svo kom Friðrik Ólafsson og á örfáum árum var hann kominn í fremstu röð í heiminum í þeirri andans íþrótt, sem notið hefur hvað mestrar virðingar, skáklistinni. Það er engin furða að Íslendingar litu til afreka Friðriks með stolti og gleði, hann stækkaði okkur sem þjóð og fyrir það hefur hann alla tíð notið virðingar allra landsmanna.

Friðrik átti stórafmæli á árinu, varð sjötíu og fimm ára. Hann hefur frá upphafi verið félagi í Taflfélagi Reykjavíkur. Afmælisritinu fannst tilvalið, á þessum tímamótum, að fá Friðrik til að segja frá rótum sínum, upphafinu og fyrstu skrefunum á skákferlinum. Ég heimsótti þau hjónin, Friðrik Ólafsson og Auði Júlíusdóttur á fallegt heimili þeirra að Kirkjusandi í Reykjavík og bauð húsbóndinn mér inn á „kóngsvænginn“ eins og hann kallaði bjartar vistarverur sínar, þar sem einstakt útsýnið yfir sundin blá, alla leið vestur á Snæfellsjökul, lyftir svo sannarlega andanum. Ég lét fara vel um mig, þáði gosdrykk og súkkulaðikex hjá frú Auði og sagði við Friðrik að gaman væri að fá að heyra svolítið frá uppvextinum á Laugavegi 134 og upphafsárunum:

“Hverjir voru foreldrar þínir“?

Faðir minn hét Ólafur Friðriksson og var fæddur 1905. Hann var verslunarmaður, starfaði lengst af sem framkvæmdastjóri Sultu- og efnagerðar bakara í gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Skúlagötu, en hafði áður starfað hjá Agli Vilhjálmssyni, rétt fyrir neðan þar sem við bjuggum á Laugaveginum. Móðir mín hét Sigríður Ágústa Dóróthea Símonardóttir og var fædd 1908. Foreldrar mínir eru bæði látin.

„Átt þú systkini“?

Við erum þrjú systkinin. Margrét er elst fædd 1930, síðan kom Ásta 1932. Ég er yngstur fæddur 1935. Reyndar á Ásta sama afmælisdag og ég, 26. janúar, og leit svo á að hún hefði fengið mig í afmælisgjöf! Eldri systurinni líkaði það nú ekki allskostar og því var tekið til bragðs að gauka að henn einhverri gjöf og tók hún þá gleði sína á nýjan leik.

Bernskuár

„Bjóst þú Laugavegi 134 frá fæðingu“?

„Hvenær manstu fyrst eftir þér“ ?

Mínar fyrstu minningar eru tengdar Laugavegi 134 og Hlemmi sem var leiksvæði okkar barnanna í þá daga. Ég man t.d. vel eftir Bretunum eftir að þeir herrnámu landið í maí 1940 og komu sér fyrir á ýmsum stöðum í bænum. Þá var ég fimm ára. Mér er einkar minnisstætt þegar ég og leikfélagi minn tókum okkur til einn góðan veðurdag og löbbuðum okkur þar sem leið liggur niður Hverfisgötuna og alla leið út í Örfirsey sem var talsvert ferðalag fyrir smáhnokka. Í Örfirsey höfðu Bretarnir reist sér bækistöð, eina af mörgum. Þarna löbbuðum við okkur inn og var ljúflega tekið af hermönnunum sem voru barngóðir og léku sér við okkur. Okkur dvaldist þarna drjúga stund og upphófst leit að okkur þegar ekkert bólaði á okkur á heimaslóðum. Við hugsuðum að sjálfsögðu lítið út í það. En allt fór þetta vel að lokum. Einhver hafði séð til okkar á leiðinni út í Örfirsey og mig minnir að lögreglan hafi haft upp á okkur og komið okkur til skila í heimahús á Laugaveginum. Ekki man ég hvernig mótttökur við fengum en vafalaust höfum við fengið einhverjar ákúrur fyrir vikið. Kannski voru þetta fyrstu merkin um útrásarhneigðina sem síðar átti eftir að koma í ljós.

„Fórstu í Austurbæjarskólann þegar skólaganga hófs. Kynntistu skákinni í skólanum“ ?

fridrik_afmælisgjöfinÉg var í Austurbæjarskólanum fyrstu ár skólagöngunnar en skákinni kynntist ég hjá föður mínum. Hann var áhugamaður um skák, fylgdist vel með og tefldi oft við kunningja sína í stofunni heima. Ég fylgdist með þeim og lærði eiginlega mannganginn af því að horfa á þá. Þá var ég sjö eða átta ára gamall. Sérstaklega man ég eftir einum skákfélaga föður míns sem Jörundur hét. Einhvern tíman, þegar ég var að horfa á þá, þótti mér Jörundur tefla heldur illa og hafði orð á því. Faðir minn bauð mér þá að tefla sjálfur við Jörund. Ég gerði ég það og slysaðist á að vinna hann. Ég man að faðir minn hló svo mikið að þessu að hann ætlaði eiginlega aldrei að geta hætt. Ég held að þetta séu einhver fyrstu kynni mín af skák þótt ég sé ekki alveg viss í minni sök. Svo var það náttúrulega hann móðurbróðir þinn í næsta húsi, Hörður Felixson, á Laugavegi 132. Hann var tveim árum eldri en ég, fæddur 1933, og hafði lært að tefla á undan mér. Við byrjuðum að tefla saman. Ég tel því að það séu fyrst og fremst pabbi og kunningjar hans ásamt Herði sem komu þessu af stað.

Kominn í Taflfélag Reykjavíkur

„Hvenær vaknar svo leiftrandi áhugi þinn fyrir skákinni og þú ferð að tefla út fyrir þennan þrönga hóp“ ?

fridrik_1946
1946: Friðrik Ólafsson

Þetta fór nú svona rólega af stað allt saman. Ég var farinn að fylgjast vel með því sem var að gerast í skáklífinu í blöðum og útvarpi. Ég held að fyrsta skipti skipti sem ég tefldi opinberlega hafi verið á Skákþingi Íslands 1946, þá var ég ellefu ára og tefldi í öðrum flokki. Eitthvað var þátttaka mín umdeild sökum ungs aldurs míns. Sumir þátttakenda vildu meina að það gæti haft slæm áhrif á mig, ungan pilt, að verða “fallbyssufóður” eldri keppenda í mótinu og úr þessu varð heilmikil rekistefna. Það varð samt úr að ég fékk að tefla og ég hafði lúmskt gaman af því þegar mér strax í 2. umferð tókst að sigra þann sem hafði haft sig mest frammi gegn þátttöku minni i mótinu. Reyndar vann ég tvær fyrstu skákirnar og við það hljóðnuðu gagnrýnisraddirnar. Ég endaði svo í miðjum hópi með 50% vinninga. Þetta sama ár tók ég líka þátt í fjöltefli við Baldur Möller og var mín þá í fyrsta sinn getið í fjölmiðlum. Það þótti fréttnæmt að það hefði tekið Baldur sextíu og sex leiki að leggja þennan ellefu ára snáða að velli og vorum við orðnir einir eftir að tafli þegar yfir lauk. Eftir þennan atburð byrjaði ég að mæta á skákæfingar hjá Taflfélaginu.

Hvar voru æfingarnar á þessum tíma? Var ekki Taflfélagið á eilífum hrakhólum í húsnæðisleysinu?

Það vildi svo heppilega til að á þessum tíma voru æfingarnar í Þórscafé, sem þá var til húsa við Hlemmtorgið, rétt steinsnar frá æskuheimili mínu að Laugavegi 134, svo að það var stutt að fara. Annars var Taflfélagið á miklum húsnæðishrakningum á þessum árum. M.a. var teflt í braggahverfinu Kamp Knox í hriplekum herskála sem félagið fékk til umráða að stríði loknu. Hann hvorki hélt vatni né vindum og mynduðust oft pollar inni í bragganum. Þurftu menn helst að vera í regnstökkum þegar þeir sátu að tafli. Einnig voru æfingar í kjallara félagsheimilis prentara á Hverfisgötu 21, í veitingahúsinu Röðli við Laugaveg 89 og í Alþýðubrauðgerðinni á Vitastíg svo eitthvað sé nefnt af þeim stöðum, sem upp í hugann koma.

„Varstu ekki sendur í sveit eins og algengt var með börn á þessum árum“ ?

Jú, vegna stríðsástandsins í heiminum og veru hersins í landinu þótti vissara að senda börnin úr bænum. Ég var heppin, fór sex ára gamall austur í Skaftártungu og var þar í Svínadal hjá hinum kunna hagleiksbónda Eiríki Björnssyni í Svínadal, ein fjögur sumur. Eiríkur var landskunnur fyrir framlag sitt til rafvæðingar sveitanna, ferðaðist víða og virkjaði bæjarlæki, smíðaði túrbínur og setti upp rafstöðvar. Hann lærði af frumkvöðlinum Bjarna Runóllfssyni í Hólmi í Landbroti, en þeir félagarnir höfðu rafvætt Svínadalinn 1925. Það var ekki algengt, þegar ég kom í sveitina sumarið 1941, að rafmagn væri á bæjum. Það var frábært að vera hjá Eiríki og Ágústu konu hans í Svínadal. Mér leið vel þar.

„Voru ekki einhverjir skákmenn á þínu reki að koma upp í Taflfélaginu á sama tíma og þú.“ ?

fridrik_gudmundur_arinbjorn
Friðrik, Guðmundur og Arinbjörn

Ingvar Ásmundsson kom nokkuð snemma til leiks, sennilega haustið 1947. Einn daginn kom hann gangandi yfir Klambratúnið úr Drápuhlíðinni, þar sem hann bjó, bankaði upp á heima hjá mér og spurði eftir mér. Hann var ekki að tvínóna neitt með erindið og kom sér beint að efninu. Hann sagðist vera með áhuga fyrir skák og spurði hvort að ég vildi ekki verða æfingafélagi sinn! Það var auðsótt mál. Okkur varð vel til vina en keppnisandinn ríkti þó að sjálfsögðu ávallt á milli okkar á skákborðinu. Einnig verð ég að nefna þá Jón Einarsson og Arinbjörn Guðmundsson sem voru nokkrum árum eldri en við Ingvar en vissulega verðugir keppinautar. Arinbjörn varð með tímanum einn af sterkustu skákmönnum landsins og keppti fyrir Íslands hönd á mörgum Ólympíumótum en flutti til Ástralíu 1970. Jón Einarsson var líka sterkur skákmaður. Hann fór í kennaranám að loknu stúdentsprófii og réð sig síðan sem kennara við héraðskólann að Skógum, giftist heimasætu þar og hætti að mestu skákiðkun upp úr því. Ingi R. Jóhannnsson var aftur á móti tæpum tveimur árum yngri en ég en lét til sín taka í Taflfélaginu upp úr 1950 og náði skjótum frama.

Frá skákmönnum

„Áttirðu einhverja uppáhalds skákmenn meðal okkar fremstu skákmanna á þessum tíma“ ?

gudmPalma
Guðmundur Pálmason

Ég get ekki sagt það, en auðvitað voru þarna margir sterkir skákmenn, sem ég bar mikla virðingu fyrir og tók mér til fyrirmyndar, eins og Baldur Möller og Guðmund Pálmason. Baldur var oftast skákmeistari Íslands á mínum fyrstu árum í skákinni og varð fyrstur íslenskra skákmanna til að verða Norðurlandmeistari í skák. Frami Guðmundar Pálmasonar í Taflfélaginu var skjótur. Hann var rúmum sex árum eldri en ég, fæddur 1928. Hann var í menntaskólanum í Reykjavik og komst á unga aldri í fremstu röð, náði öðru sæti í landsliðsflokki 1948 á eftir Baldri Möller. Á síðasta ári hans í menntaskóla, í desember 1948, varð hann annar í Euwe-mótinu svonefnda, sem haldið var í tilefni heimsóknar Dr. Euwe, fyrrum heimsmeistara og seinna forseta FIDE. Guðmundur fór taplaus í gegnum þetta sterka mót. Ég var þá þrettán ára og fannst auðvitað mikið til þessara manna koma.

Voru ekki fleiri sterkir sem létu til sín taka í Taflfélaginu á þessum árum í kringum 1950?

Svo voru þarna „hinir Guðmundarnir“ allsterkir, þeir Guðmundur S. Guðmundsson, Guðmundur Ágústsson og Guðmundur Arnlaugsson, fyrsti rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Hann varð Íslandsmeistari 1949. Og ekki má gleyma Ásmundi Ásgeirssyni, sem varð einmitt Íslandsmeistari, sama árið og ég gekk í TR, eftir að hafa sigrað Guðmund Ágústsson í einvígi, og heldur ekki nestor íslenskra skákmanna, Eggert Gilfer, sem lét sig aldrei vanta í mót þótt árin væru farin að færast yfir. Einnig verð ég að nefna þá Árna Snævarr, Lárus Johnsen, Guðjón M. Sigurðsson og Svein Kristinsson sem allir voru skæðir skákmenn á þessum árum og oftast í baráttusætunum þegar þeir tóku þátt í skákmótum. Árni fór þó mjög að draga úr þátttöku í skákmótum þegar líða tók á sjötta áratuginn.

Hvað með eldri íslenskra skákmanna kynslóðina sem héldu merkinu á lofti fyrir stríð?

1939 Ólympíulið Íslands
1939 Ólympíulið Íslands

Ólympíufararnir sem teflt höfðu í Munchen 1936 og í Buones Aires 1939 voru enn virkir skákmenn að undanskildum þeim Einari Þorvaldssyni og Jóni Guðmundssyni sem voru hættir. Frammistaða Jóns í úrslitakeppni Ólympíuskákmótsins í Buenos Aires var í minnum höfð, en hann sigraði þar alla andstæðinga sína, tíu talsins, og varð langhæstur íslensku keppendanna með 78,6 % vinninga sem er eitthvert hæsta vinningshlutfall sem nokkur íslenskur skákmaður hefur náð á Ólympíuskákmóti fyrr og síðar. Jón er án efa einhver öflugasti skákmaður sem Íslendingar hafa eignast en því miður hætti hann alveg að tefla nokkru eftir að hann kom heim frá Buenos Aires. Einhver misklíð kom upp milli hans og félaga hans í skákhreyfingunni sem olli því að hann hætti allri þáttöku í skákmótum. Svona nokkuð kemur engum á óvart sem er kunnugur sögu íslenskrar skákhreyfingar og hefur fylgst með þeim væringum sem þar hafa átt sér stað í tímans rás, en fyrir íslenskt skáklíf var það mikill missir að fá ekki að njóta krafta Jóns lengur en raun ber vitni.

1950-1960 Eggert Gilfer
Eggert Gilfer

Helstu meistarar eldri kynslóðarinnar voru, eins og áður segir, Eggert Gilfer, sem hafði verið einna sterkastur skákmanna millistríðsáranna, og Ásmundur Ásgeirsson sem tók við af honum. Hjá þeim báðum var farið að halla á seinni hluta skákferilsins. Ásmundur var farinn að minnka taflmennskuna þegar á þessum árum og mun síðasta stóra mótið hans hafa verið Rossolimo-mótið 1951, en hann var þá hálffimmtugur. Hins vegar hélt Eggert ótrauður áfram jafnvel eftir að hann komst á sjötugs aldurinn. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði á Skákþingi Reykjavíkur 1952 og tefldi síðan á fyrsta borði fyrir Ísland á Ólympíuskákmótinu í Helsinki sama ár. Einnig mætti nefna nokkra aðra af eldri kynslóðinni, eins og þá Steingrím Guðmundsson, sem hafði verið í íslensku sveitinni á Ólympíuskákmótinu í München 1936, og var tíður þátttakandi í kappmótum á þessum árum, og Sturlu Pétursson, sem lét heldur ekki sitt eftir liggja þegar kappmótin voru annars vegar. Hann var bróðir Áka sem einnig var sterkur skákmaður en sinnti meira félagsmálum skákhreyfingarinnar og tók oft að sér að vera skákstjóri í skákmótum. Frá honum eru runnin hin frægu “Ákastig”. Það er auðvitað ekki nokkur leið að telja upp alla þá sem þarna komu við sögu undir lok 5. áratugarins, það væri þá helst Jón Þorsteinsson sem tefldi í nánast á öllum Skákþingum Íslands á þessum árum og átti raunar eftir að koma meira við sögu síðar. Hann tilheyrði hins vegar yngri kynslóð skákmanna en hér er verið að ræða um.

Hvernig var stúderingum háttað á þessum tíma? Var gott aðgengi að skákblöðum og skákbókum?

Nei, því miður, svo var nú ekki. Það háði okkur hvað við vorum einangraðir hérlendis og urðum að bíða lengi eftir því að skákir bærust frá mótum erlendis. Þær var helst að finna í erlendum skáktímaritum, sem oft bárust hingað eftir dúk og disk, því að flest var eftirá á þessum árum. Upplýsingarnar bárust sem sé ekki um leið og atburðirnir voru að gerast eins og við eigum að venjast í dag. Því má segja að það hafi stundum verið farið “að slá” í nestið sem maður hafði með sér þegar farið var utan á mót. Það sem var nýtt fyrir manni var í raun og veru orðið nokkurra mánaða gamalt og í hringiðunni í Evrópu var kannski búið að halda nokkur mót, sem umturnuðu því sem maður taldi vera nýtt! Ég minnist þess þó að einu sinni var fylgst með móti nokkurn veginn á meðan það fór fram. Þetta var hið fræga Groningen-skákmót í Hollandi 1946. Þá bárust fréttir af mótinu nokkuð samfellt og á kvöldin söfnuðust skákáhugamenn saman í Þórscafé og farið var yfir skákirnar. Skáktímarit voru sjaldgæf en ég var svo heppinn hvað þetta varðaði að móðurbróðir minn var stýrimaður á Tröllafossi, sem sigldi reglulega til Bandaríkjanna á þessum árum. Þar keypti hann tímarit bandaríska skáksambandsins “Chess Review” og færði mér þegar heim kom. Þetta tímarit var mjög vandað og aðgengilegt og opnaði fyrir mér heim skáklistarinnar sem strax heillaði mig. Fyrsta skákbókin sem ég eignaðist voru skákir Capablanca. Hana keypti ég í Bókaverslun Sigurðar Kristjánssonar sem þá hét og var í Bankastrætinu. Capablanca var minn maður og í fyrirmyndin á þessum tíma. Ég bókstaflega drakk í mig skákir hans. Sennilega hentar hinn tæri og áreynslulausi stíll hans byrjendum vel. Ég æfði mig einnig töluvert með þeim hætti að setja upp ýmsar stöður úr tefldum skákum á taflborðinu og tefla þær við sjálfan mig, ég á raunar enn bók frá unglingsárunum með uppskrifuðum skákum sem ég tefldi við sjálfan mig. Það gekk þó ekki svo langt, eins og hjá dr.B í Manntafli eftir Stefán Zveig, að ég vissi ekki hvað hvítur var að hugsa, þegar ég lék fyrir svart og svo vice versa!

Útrásin hafin

Árið 1950 er merkisár á þínum skákferli. Þú verður fimmtán ára gamall í ársbyrjun, færð þína eldskírn í hópi hinna sterkustu hér á landi í meistaraflokki á Skákþingi Reykjavíkur og í vorbyrjun ferðu í fyrsta sinn á skákmót í útlöndum. Hvernig kom það til?

fridrik_birmingham
Birmingham

Skáksambandi Íslands bauðst að senda einn keppenda á unglingameistaramót sem haldið skyldi í Birmingham á Englandi í vorbyrjun 1950. Þetta mót var nokkurs konar undanfari heimsmeistaramóts unglinga. FIDE hafði auga með þessu mótshaldi og ákvað að því loknu að mótið skyldi framvegis haldið á þess vegum og þá sem opinbert heimsmeistaramót unglinga. Þessi ferð var mjög sérstök í mínum huga og verður mér ávallt minnisstæð. Það var ekki mikið um peninga hjá Skáksambandinu á þessum árum og mönnum mun hafa fundist í full mikið lagt að senda stráklinginn utan með flugvél. Árni Snævar, þáverandi forseti skáksambansins, var að mig minnir í stjórn bæjarútgerðar Reykjavíkur og hafði milligöngu um að ég fengi að sigla með einum af nýsköpunartogurum Bæjarútgerðarinnar, Agli Skallagrímsyni, sem var á leið til Grimsby með fisk á markað. Ég leiddi að sjálfsögðu ekki að því hugann þá, en mér hefur alltaf fundist það dálítið skondið eftir á, að ég skyldi fara í fyrstu “útrásina” mína með útrásarvíkingnum Agli Skallagrímssyni. Núna í dag sækist enginn maður eftir þeirri nafngift.

Varstu ekki sjóveikur? Að velkjast þetta í fyrsta skipti á milli landa á síðutogara?

Jú. Ég hafði aldrei verið á sjó áður og við fengum afleitt veður mestan hluta ferðarinnar. Mér varð oft hugsað til hans móðurafa míns Símonar Sveinbjörnssonar togaraskipstjóra, þegar ég lá sjóveikur í lúkarnum aftast í skipinu og beið eftir að heyra hvininn í skipsskrúfuni, þegar togarinn var á leið niður í öldudalinn og skrúfan greip í tómt. En á þriðja degi, þegar við nálguðumst land, lægði veðrið, ég hressist nokkuð og hét sjálfum mér því eftir þessa lífsreynslu að ég skyldi aldrei verða sjómaður! Þegar komið var til Grimsby rann það skyndilega upp fyrir mér, að í öllum flýtinum að koma mér um borð í togarann í Reykjavík, hafði það gleymst að láta mig fá farareyri. Engum hafði dottið í hug, ekki einu sinni mínum nánustu, að ég þyrfti á einhverjum peningum að halda þarna í útlandinu!

…og hvernig tókst þér að leysa úr þeirri stöðu sem nú var komin upp?

Ég kom að máli við skipsstjórann og spurði hann hvort hann gæti lánað mér nokkra breska pundseðla. Hann tók því ljúfmannlega og leysti þar með úr vandanum. Ég þurfti að komast með lest frá Grimsby til Birmingham og skipta um lest á leiðinni og þótt ég væri orðinn slarkfær í ensku kunni ég auðvitað ekkert á lestarkerfið. Ég fékk því með mér bréf til vonar og vara. Í bréfinu var þess farið á leit að mér yrði veitt aðstoð til að komast til Birmingham ef eitthvað færi úrskeiðis. En þetta fór allt vel, ferðin gekk alveg snurðulaust og ég var komin til Birmingham í tæka tíð. Keppendur bjuggu allir á einkaheimilum meðan á mótinu stóð. Þrátt fyrir að vera lang yngstur keppenda, þeir voru flestir 18-19 ára, gekk mér ágætlega og lenti að lokum í 4. sæti aðeins einum vinningi fyrir neðan efsta mann, Häggquist frá Svíþjóð. Ári seinna fór fram heimsmeistaramót unglinga 18 ára á sama stað var það fyrsta opinbera unglingamótið á vegum FIDE. Þá gekk mér ekki eins vel, fékk 50% vinninga og varð í miðjum hópi. Skömmu eftir að ég kom heim frá þeirri keppni hitti ég þekktan skákmann á förnum vegi og hann spurði mig hvernig hefði gengið. Ég sagði honum það. Ummæli hans hafa greypst mér í minni og áreiðanlega orðið mér hvatning til að gera betur: “Já, sagði hann, við Íslendingar erum bara ekki betri en þetta!”

(viðmælandi verður að koma hér að örlítilli athugasemd: Það er engum blöðum um það að fletta að af hálfu Skáksambandsins var alls ekki nógu vel staðið að undirbúningi Friðriks fyrir þetta mót. Sökum aðgerðaleysis hafði keppni í landliðsflokki, sem heyja átti um vorið, verið slegið á frest og hafði Friðrik því ekki tekið þátt í neinni keppni síðan Rossolimo-mótið var haldið í Listamannaskálanum fyrrihluta febrúarmánaðar eða í heila fjóra mánuði! Að unglingamótnui loknu var haldið öflugt hraðskákmót sem lyktað með glæsilegum sigri Friðriks fyrir ofan þekkta kappa eins og Rossolimo, Donner, Matanovic, Tartakower og Unzicker! Á þessu móti stofnaði hann til kynna við einn jafnaldra sinn sem átti eftir að verða verðugur keppinautur hans og góður vinur allar götur síðan, Danann Bent Larsen. )

Íslandsmeistartitill og ferðin frá ólympíumótinu i Helsingfors.

Um haustið tekur þú þátt í fyrsta sinn í síðbúnum landsliðflokki á Skákþingi Íslands 1951?

Já, þetta mót er mér eftirminnilegt fyrir þær sakir að ég tapaði mjög óvænt fyrir Steingrími Guðmundssyni, sem ég hélt að ég gæti ekki tapað fyrir! Ég hafði alltaf farið létt með Steingrím fram að þessu og þetta kenndi mér að maður á aldrei að vanmeta nokkurn mann. Þegar upp var staðið varð þetta tap til þess að Lárus kom í mark hálfum vinningi á undan mér og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn. En annað sætið í fyrstu landsliðskeppninni, sem ég tók þátt í, og sæti í Ólympíuliði Íslands sumarið eftir var ekki alslæmt!

Nú var þess ekki langt að bíða að fyrsti Íslandsmeistaratitillinn liti dagsins ljós. Það var vorið 1952?

Lárus Johnsen - Friðrik Ólafsson
Lárus Johnsen – Friðrik Ólafsson

Það þurfti einvígi á milli okkar Lárusar Johnsen til að skera úr um titilinn það árið. Ég leiddi mótið lengst af en tap fyrir Sigurgeiri Gíslasyni í lokin hleypti Lárusi upp að hlið mér. Ákveðið var að einvígi skyldi fara fram til að fá úr því skorið hver yrði Íslandsmeistari 1952. En Lárus leit öðru vísi á málið. Hann taldi sig eiga að halda titlinum á jöfnu þar sem hann hafði orðið Íslandsmeistari árið áður en ekkert slíkt var í reglunum. Hann var á móti því að einvígið færi fram. Ég hefði alveg eins getað krafist titilsins með þeim rökum að ég væri hærri á mótsstigum en hann en ekkert slíkt hvarflaði að mér. En svo fór þó að fjögurra skáka einvígi var teflt og stóðum við jafnir að því loknu. Varð því ákveðið að tefldar yrðu tvær skákir til viðbótar. Hófst þá sama sagan aftur. Lárus taldi sig ekki eiga þurfa að tefla um þetta og þráðist lengi við við. Eftir mánaðar hlé var loks dagsett framhald einvígisins. Þegar fimmta skákin átti að hefjast á veitingahúsinu Röðli mætti Lárus ekki og þurftu menn frá stjórn skáksambandsins að fara heim til hans og tala hann til! Lárus mætti loks til leiks og svo fór í þessari lotu að ég hafði betur og sigraði í einvíginu 3½-2½. Þegar úrslitin lágu fyrir lét Lárus þau orð falla “að héðan í frá mun engin stöðva Friðrik.“ Þetta reyndust orð að sönnu.

Segðu mér frá ferð þinni á Ólympíuskákmótið í Helsingfors sumarið 1952. Hvernig var liðið og hvernig gekk?

1952 ÓlympíumótÞað var all skrautleg blanda af karakterum í þessari fyrstu ferð minni ólympíuskákmót. Ákveðið hafi verið að efstu menn í landsliðskeppninni 1952 skyldu valdir til að í mótinu en einn þeirra, Árni Snævar, átti ekki heimagengt. Ég tefldi á 2. borði þótt ég væri nýorðinn Íslandsmeistari og hefði átt rétt á að tefla á 1. borði. Ástæðan var sú að Eggert Gilfer hafði orðið sextugur þetta sama ár og auk þess borið sigur úr býtum á Skákþingi Reykjavíkur 1952. Þótti tilhlýðilegt að sýna þessum heiðursmanni og nestor íslenskra skákmanna þá virðingu að bjóða honum að tefla á 1. borði. Ég hafði ekkert við þetta að athuga, síður en svo. Í raun tefldi ég þó flestar mínar skákir á 1. borði, því að það var aldrei ætlunin að leggja of mikið á Eggert, sem var dálítið farinn að reskjast, þótt hann væri enn sami eldhuginn og áður. Lárus Johnsen tefldi á 3. borði, Sigurgeir Gíslason á 4. borði en varamenn voru þeir Guðjón M. Sigurðsson og Guðmundur Arnlaugsson, sem jafnframt var fararsjóri hópsins og liðsstjóri. Hann tefldi u.þ.b. helming umferðanna og stóð sig best allra liðsmanna. Einstaklingarnir í hópnum náðu ekki vel saman og lítið fór fyrir liðsandanum. Það kom því ekki á óvart að sveitinni vegnaði ekki vel, við enduðum með þeim neðstu í mótinu.
Heimferðin varð hálf ævintýraleg. Þegar komið var til Kaupmannahafnar varð Guðmundur þar eftir og gerði Eggert Gilfer að fararstjóra í sinn stað. Við áttum að taka járnbrautalest frá Kaupmannahöfn að morgni dags til Esbjerg á vesturströnd Jótlands og sigla þaðan um miðjan dag með togara heim til Íslands. Eggert var kannski ekki alveg með á nótunum í fararstjórninni þótt ekki geti það alfarið skrifast á hans reikning hversu endaslepp ferðin varð. Svo háttaði til, þegar komið var til bæjarins Fredricia á Jótlandi, að lestinni var skipt í tvo hluta. Aftari lestarhlutinn var settur á spor norður til Álaborgar en fremri hlutinn á spor vestur til Esjberg. Svo vildi til að einmitt þegar verið var að skipta lestinni í Fredricia sátum við að snæðingi í matvagninum í aftari hluta lestarinnar og nutum góðrar máltíðar, algerlega grunlausir um hvað beið okkar á næsta leiti.

Misstuð þið þá ekki af skiptingunni og þar af leiðandi af lestinni til Esbjerg?

1952 Ólympíumótið - kápumynd af Skákritinu
1952 Ólympíumótið – kápumynd af Skákritinu

Þegar við stóðum upp frá borðum og ætluðum að ganga til klefa okkar komumst við að því hvernig málum var háttað. Allur farangur okkar var nefnilega á leið til Esbjerg en við aftur á móti á norðurleið til Álaborgar! Loksins, þegar lestin náði leiðarenda, könnuðum við hvaða möguleikar væru í stöðunni, hvernig við kæmumst til Esbjerg í tæka tíð. Nú voru góð ráð dýr! Ekki var um annað að ræða fyrir okkur en að taka leigubíl til Esbjerg og freista þess að ná skipinu. Bíllinn brunaði þarna suður Jótland eins hratt og aðstæður leyfðu. Þegar til Esbjerg var komið var fyrst farið á járnbrautarstöðina til ná í farangurinn en að því búnu var ekið í hendingskasti niður á höfnina. Við urðum aðeins of seinir. Við gátum bara horft á eftir togaranum sem kominn var langleiðina út í hafsauga. Við fréttum þó síðar að skipstjórinn hafi frestað brottför um hálftíma en þegar ekkert bólaði á okkur hafi hann siglt af stað.

Hvað var nú til bragðs að taka, þegar svona staða var óvænt komin upp?

Þarna stóðum við, íslenska skáklandsliðið, strandaglópar á kajanum í Esbjerg og peningalitlir. Við fundum gistiheimili, „pensjónat“, eins og það heitir í Danmörku, til að gista á og þaðan hringdi Eggert í Guðmund Arnlaugsson í Kaupmannahöfn og sagði honum farir okkar ekki sléttar. Guðmundur brást skjótt við og sendi okkur peninga símmleiðis, sem við fengum strax næsta dag. Þarna vorum við innlyksa í Esbjerg í heila viku, en þá var næsti togari væntanlegur. Á pensjónatinu fengum við á hverju kvöldi biximat á stóru fati og lítið við að vera annað en að tefla hraðskákir, lesa og spássera um bæinn. Ég held að við höfum ekki haft efni á því að fara á bíó eða leyfa okkur neinar slíkar lystisemdir. Annað slagið skrapp svo Eggert út í búð til að kaupa inn fyrir “félagsbúið” ýmsar vistir svo sem mjólk, brauð og smjör, svo að við hefðum eitthvað til að næra okkur á yfir daginn áður en sest var að biximatnum um kvöldið. Biximaturinn var vel útilátinn og þegar menn höfðu fengið nægju sína, þ.e.a.s. flestir, varð það fastur liður að einn úr liðinu – snaggaralegur náungi – sagði: “Eruð þið orðnir saddir strákar?” Ég ætla þá að klára restina!”
Ekki hafði ég hugmynd um það að á meðan á dvöl okkar þarna stóð, á þessum hálf óyndislega stað að okkur fannst, var einmitt verið að leggja drög að því að næsta Skákþing Norðurlanda yrði haldið í Esbjerg. Og enn síður hafði ég hugboð um að ég ætti eftir að verða Skákmeistari Norðurlanda á þessum stað!

(Innskot viðtalanda: Sigur Friðriks Ólafssonar á Skákþingi Norðurlanda í Esbjeg ári seinna var óvenju glæsilegur. Hann fékk 9 vinninga af 11 í landsliðflokki og var einum og hálfum vinningi fyrir ofan næsta mann. Þessi frábæri árangur Friðriks sem þá var aðeins átján ára gamall og sá yngsti sem hafði sigrað á þessu móti vakti mikla athygli. Fóru Norðurglandablöðin mjög lofsamlegum orðum um skákstyrkleika hans og báru afrek hans m.a. saman við sigra Aljekíns í San Remo og Bled, árið 1931, og sigur Kotov í Saltsjöbaden 1953. )

Og skákævintýri hins unga Friðriks Ólafssonar héldu áfram,hann styrktist og þroskaðist með hverri raun. Um áramótin ´53/´54 tók hann í fyrsta skipti þátt í hinu fræga árlega skákþingi í Hastings og deildi þar fjórða sætinu með Júgóslavanum Matanovic, Rússanum Tolush og Vestur-Þjóðverjanum Teschner. Nítján ára gamall nái hann frábærum árangri á Svæðamótinu í Prag og Marianske Lazne 1954 í tuttugu manna sterku móti náði hann 6. sæti og var fyrir framan sterka meistara eins og Svíann Lundin, Ungverjann Barcza, Rúmenann Ciocaltea og Austur-Þjóðverjann Uhlmann. Friðrik var aðeins feti frá að komast áfram á millisvæðamót en fimm efstu öðluðust réttindin. Menn voru farnir að vera allverulega varir við ljóshærða skákvíkinginn frá Íslandi. Um haustið var 11. Ólympíumótið haldið í Amsterdam og fór Friðrik fyrir ólympíuliði Íslendinga á fyrsta borði. Auk Friðriks, 19 ára, var liðið skipað hinum 17 ára gamla Reykjavíkurmeistara, Inga R. Jóhannssyni, svo og „Guðmundunum fjórum“ Guðmundi Pálmasyni, Guðmundi S. Gumundssyni, Guðmundi Ágústssyni og Guðmundi Arnlaugssyni, sem auk taflmennskunnar var að venju fararstjóri og sendi auk þess daglega skemmtilega fréttapistla heim til Íslands . Frammistaða liðsins var betri en áður og Ísland komst í fyrsta sinn í A-úrslit.

Í fangelsinu með Inga R. !

Friðrik, í lokin væri gaman að fá eina góða sögu úr skákferðum þínum frá þessum upphafsárum.

Það væri þá helst sagan af því þegar við Ingi R. gistum fangageymslur lögreglunnar í Hastings.

Fangageymslur lögreglunnar! Því á ég nú bágt með að trúa. En lát oss fá meira að heyra.

1955 Hastings
1955: Hastings

Þetta var á jólunum 1955. Ég var nú kominn á þann stall að það þótti tilhlýðilegt að ég fengi að hafa með mér aðstoðarmann og ég var svo heppinn að Ingi R. Jóhannson gaf kost á sér til fararinnar. Hann reyndist mér ómetanlegur styrkur í mótinu og góður félagi. Mótið átti að hefjast 27. desember og flogið var til Lundúna á jóladag. Þar gistum við eina nótt og héldum síðan til Hastings með lest á öðrum degi jóla. Ekki höfðum við Ingi hugmynd um að annar dagur jóla væri sérstakur hátíðar- og tyllidagur í Englandi , en þar er hann nefndur Boxing day og byggir á alda gamalli hefð. Lestin var þéttsetin fólki, allir voru á suðurleið, og þegar til Hastings var komið síðla dags sáum við að þar var mikið um dýrðir, strætin skreytt alls konar borðum og veifum og byggingar allar uppljómaðar hvert sem augum var litið. Næstum því öll hús þarna í miðbænum eru annað hvort hótel eða gistiheimili (guesthouse) enda hefur Hastings í gegnum tíðina verið einn af vinsælli sumardvalarstöðum Englendinga á suðurströndinni. Þarna var greinilega mikill gleðskapur í gangi og hvarvetna dansandi fólk í grímubúningum á veitingastöðum og hótelum út um allan bæ. Ekki var laust við að við Ingi værum svolítið hissa á öllu þessu tilstandi, en létum það ekki trufla okkur og héldum rakleitt til hótelsins, þar sem við áttum að gista.

„Allir dansa Conga“ var nú sungið á Íslandi líka í eina tíð!

Við fundum hótelið von bráðar en þá kom í ljós að ekki hafði verið gert ráð fyrir okkur fyrr en daginn eftir, þ.e. 27. desember, sama dag og mótið átti að hefjast. Við áttum því ekki bókað herbergi fyrr en daginn eftir og ekkert herbergi var að fá, allt var uppbókað þennan dag, að sjálfsögðu út af Boxing day. Engu var hægt að hnika en við tókum þessu með jafnaðargeði, einhvers staðar hlyti að vera hægt að fá inni – eina nótt – í öllum þeim aragrúa gististaða sem var að finna í bænum. Við höfðum því ekki ýkja miklar áhyggjur af þessu þegar við yfirgáfum hótelið og hófum að kynna okkur hótelin í næsta nágrenni. Við komumst fljótlega að raun um að málið var snúnara en við höfðum talið, allt var þar bókað í bak og fyrir. Við héldum engu að síður ótrauðir áfram leitinni. Hófst nú mikil þrautaganga okkar út um allan bæ að finna hótel. En það var sama hvar niður var borið, allstaðar var yfirfullt. Við mættum þó hvarvetna skilningi og vinsamlegu viðmóti. Ekki fór hjá því, þegar við vorum að spyrjast fyrir í móttöku hótelanna, að glaðværir gestirnir veittu okkur athygli og vildu fá að taka þátt í að leysa vanda okkar. Brátt snerist þetta upp í einhvers konar leik hjá þeim – ekki mátti fara á mis við alla skemmtun þótt verið væri að hjálpa náunganum! Ég minnist þess að eitt sinn varð mér litið til baka og við mér blasti “surrealistisk” mynd af halarófu dansandi fólks sem bylgjaðist á eftir okkur syngjandi “la Conga razia.” Eitthvað sem ég sé alltaf fyrir mér en trúi varla að hafi gerst. Fljótlega fór þó halarófan að riðlast, þegar hvorki gekk né rak að finna herbergi, og að lokum hvarf hún með öllu.

FRIÐRIK VS. KORCHNOI í Hastings 1955-56.2014 151957
Friðrik mætir Kortsnoj í Hastings 1955-1956

Nú var komið kvöld og farið að kólna og þegar við áttum leið framhjá lögreglustöðinni í Hastings ákváðum við að líta þar inn og láta á það reyna hvort þar væri aðstoð að fá. Ég bað varðstjórann um að fá að hringja í framkvæmdastjóra skákmótsins, Frank Rhoden. Varðstjórinn fann númerið og ég náði sambandi við Rhoden og tjáði honum vandræði okkar. Hann virtist ekki sérlega uppnæmur og taldi sig lítið geta gert svo síðla kvölds. Eftir að við höfðum rætt saman nokkra stund bað hann um að fá að tala við varðstjórann og spurði hann vafningalaust hvort við gætum ekki fengið að gista á lögreglustöðinni um nóttina! Ég held að varðstjóranum hafi fundist þetta undarleg beiðni en það varð úr að okkur var fenginn til afnota klefi með tveimur beddum og teppum, kaldur og rakur án upphitunar. Sem betur fer gat varðstjórinn útvegað okkur rafmagnsofn til að hafa um nóttina sem gerði okkur lífið bærilegra þótt hann dygði skammt gegn sagganum og kuldanum. Þótt við færum í allar þær skjólflíkur sem sem við höfðum meðferðis held ég að hvorugum okkar hafi orðið mikið úr svefni um nóttina. Við vorum svo ræstir snemma morguns, fengum einn kaffibolla og þurftum svo að vera farnir út klukkan átta um morguninn fyrir vaktaskiptin! Ekki komumst við inn á hótel fyrr en á hádegi og tókum það til bragðs að bíða í veitigasalnum á járnbrautastöðinni. Eins og vonlegt er kvefuðumst við báðir og vorum farnir að hósta þegar leið á daginn.

„Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!“

Já, það er ekki loku fyrir það skotið að þetta hafi haft áhrif á gengi mitt í mótinu til hins betra. Þessar “móttökur” hleypti í mig hörku, ég varð ákveðinn og einbeittur og erfiður viðureignar. Vann flestar af skákunum í upphafi mótsins og deildi að lokum efsta sætinu með sovéska stórmeistaranum Viktori Kortsnoj. Þegar enski skákmeistarinn B.H. Woods frétti af þessari meðferð á okkur Inga gagnrýndi hann hana harðlega í tímaritinu Chess og sagði hana vera í hrópandi mótssögn við þá frægu gestrisni sem hann og aðrir skákmeistarar hefðu notið á Íslandi.

Lokaorð

Hér sláum við botninn í viðtalið að þessu sinni. Ýmislegt fleira bar á góma sem geymt er. Það yrði öllum skákunnendum kærkomið ef Friðrik myndi skrá æfisögu sína alla. Frásagnirnar af skákferðunum, samferðafólkinu,og málefnum skáklistarinnar fylla djúpan sagnabrunn sem svo sannarlega mætti bergja betur af. Taflfélag Reykjavíkur þakkar Friðriki Ólafssyni samfylgdina og trygglyndið sem hann hefur sýnt félaginu alla tíð. Hann er vaskasti sveinninn á vegferð félagsins frá upphafi til þessa dags, í hundrað og tíu ár. Við óskum Friðriki Ólafssyni og Auði Júlíusdóttur alls hins besta á komandi árum.

Ávarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra

Illugi 26.1.2016 01-05-32.2016 010532Við Íslendingar höfum gjarna litið svo á að eftir langan aðdraganda hefjist nútímasaga þjóðarinnar á Þingvöllum 17. júní 1944, þegar lýðveldið var stofnað og Íslendingar tók öll sín mál í eigin hendur. Það var hins vegar fyrst um og eftir miðja öldina sem einstakir afreksmenn, hver á sínu sviði, vöktu athygli langt út fyrir landsteinana og urðu bæði til að vekja með okkur þjóðarstolt og auka virðingu Íslendinga og jafnvel aðdáun meðal annarra þjóða.

Meðal slíkra einstaklinga má nefna Albert Guðmundson knattspyrnumann, sem gerði garðinn frægan með nokkrum þekktustu knattspyrnuliðum Evrópu á þessum tíma, og ekki síður rithöfundinn Halldór Laxness, sem hlaut hin eftirsóttu Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1956. Sá afreksmaður sem hreif íslenska þjóðarsál einna mest á þessum tíma var þó að öðrum ólöstuðum hógvær ungur maður, Friðrik Ólafsson, sem skaut hratt upp á stjörnuhimin skáklistarinar. Hann varð Íslandsmeistari í skák í fyrsta sinn árið 1953, aðeins 17 ára gamall, og ári síðar varð hann einnig Norðurlandameistari í fyrsta sinn, og var þá sá yngsti sem hafði unnið þann titil. Árið 1958 var Friðrik Ólafsson útnefndur stórmeistari í skák, fyrstur Íslendinga, og frá þeim tíma má segja að hafi endanlega verið leystur úr læðingi sá mikli áhugi sem hefur gert skákina að einni helstu þjóðaríþrótt Íslendinga æ síðan.

Friðrik vann fjölmörg frekari afrek á skákborðinu, sem seint verða tíunduð til fullnustu, en ekki er síður vert að minnast þeirra áhrifa, sem hann hafði á þróun skáksögunnar. Heimsmeistaraeinvígi Spassky og Fischer árið 1972 hefði til dæmis varla verið valinn staður á Íslandi nema fyrir það orðspor sem fór af skákáhuga landsmanna fyrir tilstilli hans, og í starfi sínu sem forseti alþjóðaskáksambandsins, FIDE, náði Friðrik með þolinmæði og þrautseigju að vopni að þræða vandrataða krákustigu kaldastríðsáranna þannig að orðstír og virðing skákheimsins óx og dafnaði sem aldrei fyrr. Má segja að í því starfi hafi hann fylgt orðum Goethe, sem sagði eitt sinn: „Djarfar hugmyndir eru líkt og taflmenn í sókn. Þeir kunna að falla, en þeir geta einnig verið upphafið að sigurleik.“

Hæverska, þolgæði og framsýni hafa einkennt allt ævistarf þessa fyrsta stórmeistara okkar Íslendinga, og aflað honum ómældrar virðingar og viðurkenningar alls staðar þar sem hann hefur lagt sín lóð á vogarskálar, t.d. í mótun starfshátta Alþingis, sem var starfsvettvangur hans um langt árabil.

Það er öllum ljóst, að skákin hefur öðru fremur markað feril Friðriks Ólafssonar og fyrir það er íslensk þjóð ævinlega þakklát. Því er vel til fundið að glæstum ferli og miklu ævistarfi hans séu gerð skil með vettvangi sem þessum, og ber að þakka sérstaklega fyrir það framtak sem felst í þessu verkefni.

Er þess að vænta að hér verði að finna drjúgan fróðleiksbrunn fyrir alla þá, sem vilja kynnast Friðrik Ólafssyni stórmeistara nánar, og megi þeir vel njóta.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.    

 

Æviágrip – Samtímamenn

Vaka – Helgarfell 2003

Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis og stórmeistari í skák, f. 26.1. 1935 í Reykjavík.

Foreldrar: Sigríður Ágúst Dóróthea Símonardóttir húsmóðir, f. 8.1. 1908 í Reykjavík, d. 9.12. 1992, og Ólafur Friðriksson skrifstofumaður, f. 14.2. 1905 í Reykjavík, d. 20.10. 1983.

Systkin: Margrét kaupmaður, f. 28.11.1930 og Ásta skrifstofumaður, f. 26.1. 1932.

Maki: Auður Júlíusdóttir deildarstjóri, f. 4.3. 1941. Foreldrar maka: Bergljót Sigurjónsson, f. Patursson, húsmóðir, f 1.1. 1910 og Júlíus Sigurjónsson prófessor, f. 26.12. 1907, d. 9.9. 1988.

Börn: Bergljót gjaldkeri, f. 24.8 1962 og Áslaug lögfræðingur, f. 17.8 1969.

Menntun: Stúdentspróf frá MR 1955. Lögfræðipróf frá HÍ 1968.

Starfsferill: Fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu 1968-1974. Forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) 1978-1982. Ritstjóri Lagasafns Íslands 1982-1983. Skrifstofustjóri Alþingis frá 1984. Varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst 1952, og Norðurlandameistari í skák 1953 og 1971. Alþjóðlegur skákmeistari 1956 og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák 1958. Varð sigurvegari á skákmótinu í Hastings 1955-1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, Í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975. Veitti forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar 1982-1984. Sat í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins 1989 sem vann að undirbúningi frumvarps til laga um Skákskóla Íslands og stórmeistaralaun.

Ritstörf: Lærið að tefla, kennslubók í skák, ásamt Ingvari Ásmundssyni, 1958. Heimsmeistaraeinvígið í skák 1972, ásamt Freysteini Jóhannssyni, 1972. Við skákborðið í aldarfjórðung, 1976. Auk þess fjöldi greina um skák í tímaritu og dagblöðum.

Viðurkenningar: Sæmdur titlinum alþjóðlegur stórmeistari í skák 1958, fyrstur Íslendinga. Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1972 og stórriddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1980. Gerður að heiðursborgara Reykjavíkur og aðalheiðursfélaga FIDE, 2015.

Án hans hefði þetta aldrei gerst

Afmælisrit SÍ á 40 ára afmæli Einvígis aldarinnar 2012

Hrafn Jökulsson fjallar um Friðrik Ólafsson:

Það gerðist ekki af sjálfu sér að Ísland yrði vettvangur fyrir sögufrægasta skákeinvígi allra tíma. Árið 1972 voru ekki nema 28 ár síðan Ísland varð sjálfstætt ríki. Hingað komu fáir ferðamenn og Björk var bara 7 ára, drengirnir í Sigurrós varla fæddir. Sjónvarpið var í svarthvítu. Það var verið að byggja í Breiðholtinu. En það voru ósköp fáir að pæla í Íslandi.

fridrik_olafssonNokkrir einstaklingar höfðu hinsvegar náð afburðaárangri á sínu sviði – það gladdi Íslendinga ógurlega þegar Laxness fékk Nóvelsverðlaunin 1955, þar með höfðum við  uppáskrift sænsku akademíunnar að hér byggi gáfuð þjóð.
Þessvegna fyllti það Íslendinga ekki síður stolti, þegar fréttir tóku að berast af því í kringum 1950 að ungur og hæglátur piltur, Friðrik Ólafsson að nafni, væri efnilegasti skákmaður sem Íslendingar hefðu eignast. Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig Friðrik tókst á undraskömmum tíma að komast í hóp fremstu skákmanna heims. Jújú, skáklífið var að mörgu leyti blómlegt, en á æfingum voru þungbúnir miðaldra menn í miklum meirihluta.

Það þurfti meira að segja að greiða um það atkvæði hvort 11 ára gamall Friðrik fengi að vera með í skákmóti fullorðinna. Sumum keppendum fannst hugmyndin alveg fráleit – og höfðu víst mestar áhyggjur af því að pjakkurinn yrði niðurbrotinn í mótslok. Það fór nú á aðra leið, og sá sem hafði mestar áhyggjur af þátttöku Friðriks litla var auðvitað gjörsigraður!

Friðrik varð fyrst Íslandsmeistari 1952 og síðan í öll þau sex skipti sem hann tók þátt í Skákþingi Íslands. Hann varð Norðurlandameistari 1953 og háði um árabil mikla gímu við danska meistarann Bent Larsen, sem tefldi á fyrsta borði heimsliðsins gegn Sovétmönnum 1970.

Friðrik var útnefndur stórmeistari 1958, en þá voru aðeins nokkrir tugir sem gátu skartað því sæmdarheiti – nú eru þeir um 1500!

Friðrik kom Íslandi á skákkort heimsins. Hann var efstirsóttur á skákmót, því bæði er hann þekktur fyrir herramennsku, góðan húmor og yfirburða þekkingu á skáksögunni. Það er unun að heyra Friðrik segja frá því hvernig skákin ferðaðist frá Indlandi fyrir hálfu öðru árþúsundi, og barst síðan með Persum og Aröbum til Evrópu…

En eitt er víst: Ef Friðrik Ólafsson hefði ekki verið búinn að koma Íslandi á skákkort heimsins er alveg bókað að einvígið mikla 1972 hefði ekki verið haldið í Reykjavík. Það hefði einfaldlega engum dottið það í hug. En allir þekktu Friðrik Ólafsson og hann þekkti bæði Fischer og Spassky.

Hin stórhuga stjórn Skáksambands Íslands á þessum árum, undir forystu Guðmundar G. Þórarinssonar vann þrekvirki, sem lengi verður í minnum haft. Og úr varð langstærsti viðburður sem haldinn hefur verið á Íslandi. Um einvígið hafa verið skrifaðar 150 bækur. Um það hafa verið gerðir ótal sjónvarpsþættir. Það er sífellt verið að fjalla um þetta einvígi, skoða það frá nýjum hliðum.

Ég læt sérfræðingum eftir að reikna út „markaðslegt gildi“ þess, en með hliðsjón af öllu framansögðu held ég að við getum útnefnt Friðrik Ólafsson einhvern verðmætasta og mikilvægasta einstakling 20. aldar.

2010: Jóhann sigraði á Afmælismóti Friðriks í Djúpavík

Helgi Ólafsson skrifar. Morgunblaðið 27. júní 2010:

Jóhann Hjartarson varð hlutskarpastur á afmælismóti Friðriks Ólafssonar sem fram fór í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavik laugardaginn 19. júní. Mótið var liður í skákhátíð Hróksins og var þessu sinni tileinkað 75 ára afmæli fyrsta stórmeistara Íslendinga.

Tefldar voru niu umferdir og var umhugsunartíminn 10 mínútur á skák. Jóhann hlaut 8  vinninga, Helgi Ólafsson varð í 2. sæti med 7 . v. og Friðrik varð í 3. sæti með 6 v. Í 4.-8. sæti komu svo Hlíðar Þór Hreinsson, Róbert Lagermann, Guðmundur Kjartansson, Sigurður E. Kristjánsson og Sigríður Björg Helgadóttir með 5,5 vinninga. Sigríður Björg náði bestum árangri unglinga og kvenna á mótinu.

Menntamalaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lék fyrsta leik mótsins í skák afmælisbarnsins og Árnýjar Björnsdóttur, sem við upphaf mótsins skemmti gestum með gítarspili og söng ásamt systur sinni Ellen Björnsdóttur.

Meðal annarra var tvískákmót sem fram fór 18. júní og hraðskákmót sem haldið var í Norðurfirði þann 20. júní, en þar sigraði Róbert Lagermann, sem ásamt Hrafni Jökulssyni skipulagði þessa skemmtilegu skákhátíð.

2003: Friðrik leggur Larsen í einvígi

Árið 2003 skipulagði Hrókurinn átta skák einvígi milli fornvinanna og keppinautanna Friðriks Ólafssonar og Bents Larsens. Þeir tefldu 8 atskákir á Hótel Loftleiðum og lauk einvíginu með öruggum sigri Friðriks, 5-3. Af því tilefni tók Freysteinn Jóhannsson, blaðamaður Morgunblaðsins, viðtal við kempurnar þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar. Viðtalið birtist í Mbl. 11. nóvember 2003:

Einvígið sem öll þjóðin fylgist með, sagði Morgunblaðið um skákeinvígi Bents Larsens og Friðriks Ólafssonar í Sjómannaskólanum 1956. Í kvöld setjast kapparnir enn að skákborðinu. Freysteinn Jóhannsson rifjar upp eldri tíma og talar við skákmeistarana.

Sömandsskolen i Reykjavik revisited
Sömandsskolen i Reykjavik revisited

„Þetta er svona smánostalgía. Við ætlum að rifja upp gamla atburði. Má vera að við séum ekki alveg eins klárir og við vorum 1956, en við höfum alla vega öðlast talsverða reynslu síðan,“ segir Friðrik, en atskákeinvígi þeirra Larsens hefst á Hótel Loftleiðum í kvöld; einvígi sem haldið er til að minnast einvígis þeirra 1956 um Norðurlandameistaratitilinn í skák.

Skákirnar verða átta, eins og 1956. Það einvígið stóð í 16 daga. Nú verða tefldar tvær skákir á kvöldi; hvor keppandi hefur 25 mínútur, hver skák verður tefld til þrautar og einvíginu lokið á fjórum dögum. Setningarathöfn hefst á Hótel Loftleiðum klukkan 19.30 og klukkan 20 hefst fyrsta skákin og sú síðari klukkan 21.

Einvígið um Norðurlandameistaratitilinn í skák 1956 hófst í Sjómannaskólanum þriðjudaginn 17. janúar og því lauk með hreinni úrslitaskák að kvöldi fyrsta febrúar. Larsen vann skákina og þar með titilinn.

Þjóðernisleg undiralda

Larsen kom til Íslands nýkominn frá skákkeppni í Svíþjóð þar sem hann varð „aðeins annar, en fyrir ofan allt sænska landsliðið“. Þar áður hafði hann deilt sigursæti á móti í Júgóslavíu með svissneskum skákmanni; Bhend. Íslandsferð Larsens gekk ekki snurðulaust.

„Ég man að við lentum í bullandi snjókomu á Fornebu-flugvelli við Osló, en komumst ekki strax áfram vegna rafmagnsbilunar,“ segir hann. „Hún olli því að við lentum í Keflavík klukkan fjögur um nóttu í stað kvöldsins áður.“

En Larsen komst til Íslands, þar sem hann sá og sigraði.

Friðrik kom til einvígisins 1956 í sigurvímu eftir stóran einvígissigur á Pilnik og frækinn mótssigur með Viktor Korchnoj í Hastings. Fyrir þessa frammistöðu vildu margir bóka á Friðrik sigur í einvíginu fyrirfram.

„Það var ef til vill galli á þessu hversu skammt var liðið frá Hastings, þegar við Larsen tefldum einvígið,“ segir Friðrik. „Það kann að hafa setið í mér einhver þreyta þótt ég sé ekki þar með að afsaka útkomuna.“

Friðrik hefur áður bent á að sigurvíma og þjóðernismetingur séu afleit blanda í íþróttum, sem við Íslendingar höfum oft fengið að súpa seyðið af.

„Það var náttúrlega mikið að gerast í skákinni og mikill uppgangur hér heima,“ segir hann. „En útslagið gerði að andstæðingur minn var Dani. Sambandið við þá sat enn í Íslendingum. Danir voru því ekkert sérstaklega vel liðnir og ég fékk að heyra það daglega fyrir einvígið að ég ætti að lúskra á Baunanum! Það hefði ekki verið sama undiraldan í þessu einvígi ef Larsen hefði verið annarrar þjóðar maður.“

„Ég reyndi að leiða þetta hjá mér,“ heldur Friðrik áfram. „En það var mikið hringt á meðan á einvíginu stóð og margir vildu gefa mér góð ráð. Það bjó rík þjóðernistilfinning á bak við þetta allt saman.“

Larsen segist hafa tekið öllu með stóískri ró. „Ég fann aldrei fyrir neinni andúð. Auðvitað skynjaði ég að menn héldu með Friðriki en þeir voru samt ekki á móti mér. Eftir einvígið komu þrír ungir menn til mín og sögðu að ég ætti að söðla um og tefla fyrir Ísland. Það væri nóg pláss fyrir okkur Friðrik báða. Satt að segja held ég að það hafi verið mistök hjá mér að taka þá ekki á orðinu. Og ég meina það!“

Seldu mér miðann!

Þriðjudaginn 17. janúar 1956 segir Morgunblaðið að búast megi við skemmtilegri keppni og tvísýnni milli Friðriks og Larsens. Aðstæðum á keppnisstað er svo lýst:

„Í matstofu Sjómannaskólans er upphækkaður pallur, þar sem keppendur sitja. Á þili rétt hjá er sýningarborð, sem smíðað hefir verið sérstaklega fyrir þessa keppni og sést ágætlega á það allstaðar úr salnum. Hjá borðinu er klukka er sýnir hve miklum umhugsunartíma hvor keppandi fyrir sig hefir eytt. Á klukkunni er einnig ör, sem sýnir hvor keppandi á leik. Á þilinu er einnig tafla, á hana verða skákirnar skrifaðar. Aðstaða til að fylgjast með skákunum er því ágæt.“

Og í baksíðufrétt Morgunblaðsins 19. janúar segir:

„Stjórnendur mótsins tóku upp þá nýbreytni að hafa færa skákmenn til þess að skýra skákina jafnóðum og skákmeistararnir léku. Fluttu þeir skýringarnar Guðmundur Arnlaugsson, Ingi R. Jóhannsson og Guðmundur Pálmason. Fór þetta fram uppi á loft en sjálf keppnin er háð í sal á neðri hæðinni. Voru skýringar þessar hinar ánægjulegustu og var mikill fjöldi fólks að hlusta á þær. Var skemmtilegt að hlusta á hve margir höfðu áhuga á gangi leikanna.“

Og áhugann vantaði ekki. Sjö hundruð manns voru í  sal Sjómannaskólans, þegar fyrsta skákin var tefld, en margir urðu frá að hverfa. Konráð Árnason, sem fjallaði um einvígið fyrir Morgunblaðið, segir:

„Salurinn fylltist af fólki á svipstundu og sömuleiðis gangar hússins en þar var skákin einnig sýnd og á tímabili varð að loka húsinu, en hópur manna var fyrir utan. Á níunda tímanum   kom kunningi minn inn í salinn sigri hrósandi. Maður einn hafði komið út úr húsinu. „Seldu mér miðann,“ hrópaði fólkið fyrir utan. „10 kr.“, „20 kr.“, „30 kr.“, en maðurinn gekk að mér og gaf mér miðann. Veitingamaður hússins var ekki heldur við því búinn að taka á móti þessum fjölda. Um kl. 10 voru birgðir hans þrotnar af öli og gosdrykkjum og varð hann að hringja í veitingahús bæjarins og vita hvort þau gætu ekki hjálpað honum þó ekki væri nema um nokkra kassa. Ekki vissi ég hvern árangur þetta bar, en kaffibirgðir þraut ekki.“

300 manns a glugganum

Hvað sem veitingunum leið þá hefur andrúmsloftið á skákstaðnum verið hreint rafmagnað. Velvakandi Morgunblaðsins getur þess 22. janúar að þegar Friðrik vann aðra skákina hafi áhorfendur brugðizt við sigri hans „eins og hér hefði verið um hnefaleikakeppni að ræða – æpt, klappað og stappað í gólfið. Ekki er nema eðlilegt, að áhorfendur fylgi landa sínum að málum og fagni sigri hans – en slíkur ofstopi er engan veginn sæmandi og verður að teljast lítil kurteisi í garð erlenda gestsins – og í garð Friðriks.“

Það var ekki einasta að menn flykktust á einvígisstaðinn: Strætisvagnar Reykjavíkur breyttu áætlunarferðum svo að strætisvagn ók fram hjá Sjómannaskólanum á hálftíma fresti þegar teflt var.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 21. janúar segir, að mest umtöluðu menn á Íslandi þessa viku hafi áreiðanlega verið þeir Friðrik Ólafsson og Bent Larsen.

„Svo mikill hefur áhuginn verið bæði hér í Reykjavík og úti um land fyrir þessari keppni, að hvað eftir annað hefur verið hringt heim til Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra að næturlagi og hann beðinn um það að láta útvarpið ekki ljúka dagskrá sinni fyrr en úrslit væru kunn í skákinni. Á vinnustöðvum hafa menn komið með tafl með sér til þess að geta velt biðskákunum fyrir sér.“

Larsen segir að aðsóknin og áhuginn hafi verið með ólíkindum. „Ég man eitt kvöldið; það var snjókoma og hvassviðri. Sjö hundruð manns komust inn í húsið, en fyrir utan stóðu þrjú hundruð manns og horfðu inn um gluggann og fylgdust með skákinni á sýningarborðinu. Þetta var alveg ótrúlegt!“

 

Hrein úrslitaskák í  lokin

Fyrsta einvígisskákin 1956 fór tvisvar í bið. Aðra skákina vann Friðrik í 30 leikjum. Sú þriðja fór í bið og á sunnudagskvöld vann Larsen báðar biðskákirnar; í 95 leikjum og 59. Fjórðu einvígisskákinni lauk með jafntefli eftir 32 leiki, þannig að þegar einvígið var hálfnað hafði Larsen 2½ vinning gegn 1½ vinningi Friðriks.

Fimmta einvígisskákin var tefld á afmælisdegi Friðriks og gaf hann taflið í 45. leik. „Greinilegt er að Friðrik teflir undir sínum styrkleika, hvernig sem á því stendur,“ sagði Morgunblaðið.

En Friðrik tók sig á og sjöttu skákina, sem fór í bið, vann hann eftir 51 leik. Morgunblaðið segir, að Larsen hafi virzt gera sig ánægðan með jafntefli, en Friðrik vann mann fyrir peð og þar með skákina. Og sjöundu skákina vann Friðrik í 24 leikjum.

Skákmeistararnir voru þar með jafnir að vinningum, þannig að síðasta skákin varð hrein úrslitaskák. Þegar 16 leikir voru búnir í síðustu skákinni, sagði fréttaritari Morgunblaðsins:

„Mér finnst þetta of mikill „hasar“ og of lítið öryggi. Langa hrókunin hjá Friðrik skapar einhverja hættu. En ég sé ekki hvor staðan er betri nú.“ Þegar leiknir höfðu verið 26 leikir taldi fréttaritarinn stöðu Friðriks lakari; hann var kominn í talsvert tímahrak, átti eftir 15 mínútur, en Larsen 45. Og rétt fyrir miðnætti kom fréttin um tap Friðriks:

„Þetta skeði allt í svo skjótri svipan, að það var ekki hægt að gera sér grein fyrir því. Friðrik varð að leika svona hratt klukkunnar vegna – og fékk svo aðeins tíma til að líta á stöðuna eftir mannfallið – og þá var ekki um annað að gera en gefa.“

Og á baksíðu Morgunblaðsin segir ennfremur:

„En þó leikslok yrðu þessi, þá samglöddust áhorfendur Larsen með löngu og innilegu lófataki. Þetta einvígi hafði verið um margt mjög skemmtilegt. Hinir ungu skákmenn höfðu háð harða keppni.“

„Hann tefldi betur en ég í þessu einvígi, eins og úrslitin féllu,“ segir Friðrik.

„Þegar ég hef farið yfir skákirnar á eftir, sé ég í þeim ýmsar bommertur. Það var eitthvað sem var ekki alveg í lagi hjá mér. Eiginlega slapp ég ótrúlega vel miðað við taflmennskuna! Það voru miklar sviptingar í þeim skákum, sem ég vann. Hann kom mér svo á óvart í síðustu skákinni, lumaði á leik í byrjuninni, sem sló mig út af laginu.“

„Ég var með tveggja vinninga forskot eftir fimm skákir og átti þá forystu alveg skilið,“ segir Larsen. „En kannski varð ég kærulaus, því ég lét Friðrik plata mig illa í sjöttu skákinni. Hann tefldi svo af miklum krafti í sjöundu skákinni og við vorum allt í einu orðnir jafnir að vinningum. Það hristi verulega upp í mér! Og í úrslitaskákinni tókst mér að snúa taflinu mér í hag og það gerði gæfumuninn.“

Hvergi nema a Íslandi

Síðustu dagana hefur Larsen stjórnað Mjólkurskákmótinu á Selfossi.

„Þetta er ekki mitt fyrsta skipti á Selfossi,“ segir hann. „Ég tefldi hér fjöltefli eftir einvígið 1956. Þá fór ég með Guðmundi S. Guðmundssyni hingað austur í íslenzku vetrarveðri. Hann lét það ekkert á sig fá og fór með mig til Þingvalla í leiðinni, þar sem við ókum í gegnum Almannagjá. Þegar fjölteflið var búið var ófært í bæinn svo við urðum að gista. Við fengum okkur svolítið í staupinu og þá var sagt í útvarpinu, að þetta kvöld væri Larsen veðurtepptur á Selfossi. En vonandi kæmust þeir Guðmundur S. í bæinn aftur, þegar búið væri að ryðja fyrir mjólkurbílana morguninn eftir, því Larsen ætti að mæta í skákþátt hjá Baldri Möller klukkan fimm. Þetta tókst og ég komst í þáttinn hjá Baldri. Hann var mjög góður dönskumaður og talaði tvö tungumál allan þáttinn. En tíminn hljóp frá okkur og þegar þættinum átti að ljúka, áttum við alveg eftir að fara í gegnum síðustu skák einvígisins, sem átti nú að vera meginefni þáttarins! Þá kom tæknimaðurinn með miða sem hann setti hjá Baldri. Þar stóð: Það er allt í lagi með tímann.“

– Þessa setningu segir Larsen á íslenzku. „Við héldum þá bara áfram, en þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í sjö kom tæknimaðurinn með annan miða. Þar stóð: Fimm mínútur! Og okkur tókst að klára skákina og þáttinn fyrir sjö! Ég er viss um að svona nokkuð hefði hvergi getað gerzt nema á Íslandi. Alla vega ekki í danska útvarpinu, svo mikið er víst!“

Metin jöfnuð í afmælismóti

Fyrir einvígið 1956 höfðu Friðrik og Larsen teflt fjórar skákir og vann Friðrik þrjár þeirra.

„Mér skilst, þegar allt er talið að við stöndum nú jafnt að vígi,“ segir Friðrik. „Hann jafnaði metin í afmælismótinu mínu 1995. Við höfum unnið fimmtán skákir hvor, en lítið verið fyrir það að gera jafntefli; gerðum eitt í einvíginu 56 og ég held tvö síðan.“

Það hefur ekki færzt nein friðsemd yfir skákmeistarana með aldrinum.

„Alla vega ekki, þegar við leiðum saman hesta okkar á skákborðinu,“ segir Friðrik. „En það fer vel á með okkur þess utan.“

Og hvernig fer þetta svo?

„Ætli við séum ekki báðir sigurvissir,“ segir Friðrik.

„Ég vinn,“ segir Larsen ákveðinn. „Þó ekki væri nema bara fyrir hefðina frá 56!“

Skákir

2003: Friðrik meðal keppenda á fyrsta skákmótinu í sögu Grænlands

Friðrik Ólafsson var meðal keppenda þegar Hrókurinn efndi til fyrsta skákmótsins í sögu Grænlands, í Qaqortoq 28.-30. júní 2003. Ómar Óskarsson ljósmyndari og blaðamaður Morgunblaðsins fjallaði ítarlega um mótið í Mbl. 13. júlí og fer grein hans hér á eftir.

Friðrik Ólafsson og Luke McShane tóku eina létta skák í skipsferðinni með bátnum Tikeraaq frá Narssarssuaq á leið til Grænlandsmótsins í Qaqortoq.
Friðrik Ólafsson og Luke McShane tóku eina létta skák í skipsferðinni með bátnum Tikeraaq frá Narssarssuaq á leið til Grænlandsmótsins í Qaqortoq.

Grænlendingar kalla Qaqortoq stundum „græna bæ“ Grænlands. Qaqortoq þýðir sá hvíti og  mætti því kalla bæinn Hvítanes. Bærinn er afar fallegur og sérstæður. Litskrúðug húsin teygja sig upp um allar hlíðar frá höfninni.

Mikill menningarbragur er á Qaqortoq. Bærinn er helsta menntasetur Suður-Grænlands. Þar er að finna verslunarskóla, menntaskóla, iðnskóla og lýðháskólann „Sulisartut Höjskoliat“, sem Kaj Lyberth veitir forstöðu, en hann er kvæntur Eddu Björnsdóttur sem ásamt systur sinni Sigríði rekur „Restaurant Napparsivik“ afar vinalegan veitingastað í gömlu dönsku bindingsverkshúsi frá 19. öld.

Skákmótið var minningarmót um Íslandsvininn mikla Daniel Willard Fiske sem kenndi Íslendingum nútímaskák á ofanverðri 19. öldinni. Í sama anda vildi skákfélagið Hrókurinn kynna skákgyðjuna fyrir Grænlendingum, þar eð skák hefur lítið verið stunduð þar til þessa. Til að undirbúa Grænlendingana sem best hélt danski stórmeistarinn Henrik Danielsen 3ja daga skáknámskeið fyrir hátt í 30 manns í Qaqortoq áður en mótið hófst.

Hvítabjarnarárásin

Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.
Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.

Eftir tveggja tíma flug frá Reykjavík lenti um 80 manna hópur Hróksfélaga og fylgdarliðs í Narssarssuaq. Siglt var þaðan áleiðis til Qaqortoq á bátunum Sarangaq og Tikeraaq, sem var sá minni og hraðskreiðari. Sjóferðin tók á fimmtu klukkustund og skákstemning mikil um borð.

Halldór Blöndal og Einar S. Einarsson tefldu nokkrar villtar skákir á tölvu. Þeir Friðrik Ólafsson, Ivan Sokolov og Luke McShane blönduðu sér í málin og hófst nú rannsókn á nýrri byrjun sem strax var kölluð „Polar Bear Opening“, eða Hvítabjarnarárásin.

Á meðan útskýrði Steffen skipstjóri fyrir Reginu Pokornu hegðun og ferðalög hvítabjarna um landið og fullvissaði hana um að á þessum árstíma héldu þeir sig fjarri mannabyggðum. Rannsóknum á hvítabjarnarafbrigðinu var ekki fulllokið þegar siglt var inn höfnina í Qaqortoq. Á bryggjunni tóku Jonathan Motzfeldt þingforseti og helstu frammámenn í Qaqortoq á móti Hróksmönnum og fylgdarliði. Urðu miklir fagnaðarfundir, ekki sízt þegar þeir þingforsetar hittust.

Haldið var nú til gistingar og flestum komið fyrir í heimavistum framhaldsskóla bæjarins.

Hátíðin sett

2222 2 087Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Hátíðin hófst með ræðuhöldum helstu frammámanna í Qaqortoq og Halldór Blöndal þakkaði frábærar móttökur og óskaði Grænlendingum alls hins besta í skáklífi framtíðarinnar.

Eftir ræðuhöldin voru skemmtiatriði þar sem fram komu m.a. Barnakór Hróksins undir stjórn hinnar fjölhæfu Arnarak Patriciu Kristiansen og trumbudansarinn Jeremias Saaiunuinnaq.

Eftir setningarathöfnina var tekið til við skákina. 50 skákmenn frá 10 þjóðlöndum hófu taflið í menningarhúsinu í Qaqortoq, sem er skammt frá Lýðháskólanum, þar af 20 Grænlendingar og 20 Íslendingar.

Í fystu umferð fengu ýmsir miðlungs og veikari skákmenn að spreyta sig gegn stórmeisturum. Motzfeldt lenti gegn Sokolov, en Halldór Blöndal gegn Predrag Nikolic. Hinn ungi og efnilegi 10 ára gamli Sverrir Ásbjörnsson lenti gegn Friðriki Ólafssyni. Sverrir mætti til mótsins ásamt systkinum sínum, Ingvari og Ingibjörgu. Engin óvænt úrslit urðu í fyrstu umferð.

Grænlandsskák 422Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Í annarri umferð sigraði Jóhann Hjartarson Sævar Bjarnason og hinn 12 ára gamli Ingvar Ásbjörnsson náði sínum fyrsta vinningi gegn Paul Cohen frá Bandaríkjunum. Bróðir hans, Sverrir, 10 ára, sigraði Bjarke Thorsen frá Grænlandi.

Í þriðju umferð voru stórmeistararnir farnir að lenda saman; Sokolov vann Danielsen, Jóhann vann Reginu Pokorna en Friðrik Ólafsson tapaði fyrir hinum unga Luke McShane frá Englandi. Guðfríður Lilja vann Olav Henriksen og Ingvar krækti sér í annan vinning og lagði Kristjón Guðjónsson að velli.

Eftir fyrsta daginn og þrjár umferðir stóðu leikar þannig að Nikolic, Jóhann, McShane, Sokolov og Færeyingurinn Flovin Þór Næs voru með fullt hús stiga. Næstur kom Stefán Kristjánsson með tvo og hálfan vinning. Ingvar Ásbjörnsson og Halldór Blöndal höfðu krækt sér í tvo vinninga.

Majorkaveður

Skák á GrænlandiÁ öðrum keppnisdegi var brakandi sól og allheitt í veðri. Hvergi var skýhnoðra að sjá þótt vel væri leitað. Flugurnar áttu það til að hrekkja suma keppendur þegar þeir fóru út að kæla sig milli umferða. Flugnanetin seldust eins og heitar lummur.

Áfram var haldið og þau stórtíðindi gerðust í fjórðu umferðinni að hinn 19 ára gamli Luke McShane lagði stigahæsta mann mótsins Ivan Sokolov, en hin níu ára gamla Ingibjörg Ásbjörnsdóttir landaði vinningi gegn Peter Carlo Gudmundsen. Eftir umferðina voru eftir tveir keppendur með fullt hús, þeir Luke McShane og Flovin Þór Næs, næststigahæsti maður Færeyja, sem reyndar er íslenskur í móðurættina og talar íslensku ágætlega.

Í fimmtu umferðinni lentu saman efstu menn mótsins, en okkar maður Flovin Þór fór halloka fyrir undrabarninu frá Englandi. Bosníumennirnir Nikolic og Sokolov semja um skiptan hlut, en Jóhann Hjartarson vann Hannes Hlífar og er þar með farinn að blanda sér í toppbaráttuna.

Halldór Blöndal sýnir mikið keppnisskap og leggur Kristjón Guðjónsson að velli. Hinn ungi og efnilegi Ingvar Ásbjörnsson sigraði Steffen Lynge á meðan bróðirinn Sverrir lagði Kristian Isaksen.

Íslenska vonin

Fyrir sjöttu umferðina voru Íslendingar allvongóðir, Jóhann ekki nema hálfum vinningi á eftir undrabarninu frá Englandi og virtist til alls líklegur. Jóhann hafði hvítt gegn McShane sem beitti fyrir sig Sikileyjarvörn. Staðan var vænleg hjá Jóhanni og eftir 18. leik átti hann eftir tæpar 19 mínútur, en McShane tæpar níu. Þótti nú sýnt að okkar maður Jóhann væri líklegur til að leggja undrabarnið, enda undrabarn sjálfur löngu áður en hann gerðist virtur lögfræðingur.

Eftir flókna stöðubaráttu varð Jóhann þó að játa sig sigraðan með nægan tíma en gjörtapaða stöðu þegar McShane átti 19 sekúndur eftir. Þar fauk möguleikinn á íslenskum sigri út um gluggann.

Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.
Jonathan Motzfeldt heilsar Friðrik Ólafssyni stórmeistara með virktum á landganginum á bryggjunni í Qaqortoq, þegar Friðrik kemur þangað með bátnum Tikeraaq eftir rúmlega fjögurra tíma siglingu frá Narssarssuaq.

Sævar náði jöfnu gegn Sokolov, Henrik Danielsen sigraði Stefán Kristjánsson og Friðrik tapaði fyrir Róberti Harðarsyni. Æsilegasta skák umferðarinnar var þó viðureign Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Halldórs Blöndal þar sem bæði höfðu kóng og hrók en Lilja var peði yfir. Barðist hún grimmt við að vekja upp drottningu í miklu tímahraki, en Halldór margbauð jafntefli, sem Lilja þáði þegar hún átti eina sekúndu eftir. Höfðu menn á orði að frammistaða Halldórs myndi tryggja honum sæti á þingi næsta kjörtímabil.

Að loknum öðrum keppnisdegi og sex umferðum voru línur teknar nokkuð að skýrast. Luke McShane var einn efstur með sex vinninga og fullt hús, en næstir komu Predrag Nikolic og Nick de Firmian með fimm vinninga. Jóhann, Róbert og Hinrik Danielsen voru með fjóran og hálfan, en stigahæsti maður mótsins Ivan Sokolov með fjóra vinninga ásamt mörgum öðrum og ekki beint sáttur við sinn hlut.

Lokadagur mótsins

Á lokadegi mótsins hélt Englendingurinn ungi sigurgöngunni áfram í sjöundu umferðinni og lagði nú Nikolic að velli. Henrik Danielsen og de Firmian skildu jafnir, Jóhann vann Róbert og Sokolov vann Reginu.

Jonatan gefur fyrirmæli á veitingastað í Qaqortoq.Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Sævar vann Flovin, en Guðfríður og Hollendingurinn Frank Wutz skildu jöfn. Hjörtur Jóhannsson sigraði Ingvar, en Grænlendingurinn Hans Christian Dahl sigraði Janus Chemnitz Kleist og var þar með orðinn efstur heimamanna með fjóra vinninga.

Luke McShane og Bandaríkjamaðurinn Nick deFirmian tefldu saman í áttundu og næstsíðustu umferð. Þetta var einhver æsilegasta skák mótsins og tímahrakið algjört og sviptingarnar eftir því. McShane tilkynnti að Nick hefði fallið þegar hann átti sjálfur tvær sekúndur eftir, en gat ekki krafist vinnings því hann átti eftir kónginn einan eftir gegn peði og kóngi deFirmians. Skákin dæmdist því jafntefli og þar með var ljóst að Luke McShane hafði unnið Grænlandsmótið.

Þótt Jóhann ynni Sokolov í 58 leikja baráttuskák gat hann einungis náð McShane í vinningum, en gat ekki náð honum í stigum, þ.e. samanlögðum vinningafjölda andstæðinga. Nú mættust þingforsetarnir og sömdu um skiptan hlut. Önnur  helstu úrslit urðu þau að Nikolic vann Sævar, Tomas Oral vann Henrik Danielsen, Hannes Hlífar vann Stefán og Frank Wuts vann Friðrik Ólafsson, Ingvar Ásbjörnsson vann Ole Lyremark, Sverrir Ásbjörnsson vann Frank Jörgensen og Steinunn Blöndal vann Ingibjörgu Ásbjörnsdóttur.

Fyrir lokaumferðina voru Luke McShane með sjö og hálfan, Jóhann með sex og hálfan, en Nikolic, de Firmian og Tomas Oral með sex vinninga.

Úrslitin ráðast

Kvennabarátta einkenndi lokaumferðina. Þær stöllur Guðfríður Lilja og Regina Pokorna voru báðar með fimm vinninga og efstar meðal kvenna og lentu þær saman, þannig að þær tefldu hreina úrslitaskák um hvor þeirra yrði kvennameistari Grænlandsmótsins. Guðfríður barðist vel, en Reginu tókst að snúa á hana áður en yfir lauk.

Luke McShane vann Tomas Oral, Jóhann vann de Firmian, Nikolic vann Hannes Hlífar, Sævar vann Henrik Danielsen, Stefán vann Friðrik Ólafsson. Hjörtur Jóhannsson vann Espen Andersen meðan systirin Sigurlaug vann Mikael Kofoed. Bæði eru þau börn Jóhanns Hjartarsonar stórmeistara.

Bendó leiðir Luke McShane að ræðupúltinu. Sigurvegarar þurfa að kunna að koma fyrir sig orði.Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Þegar upp var staðið reyndist undrabarnið Luke McShane ekki hafa tapað nema hálfum vinningi og sigraði því á mótinu með átta og hálfum vinningi af níu mögulegum.

Jóhann Hjartarson náði öðru sæti með sjö og hálfan vinning. Nikolic varð þriðji með sjö.

Í 4.–11. sæti með sex vinninga urðu Sokolov, de Firmian, Flovin Þór, Oral, Regina, Róbert, Wuts og Sævar. Í 12.–13. sætu voru Hannes Hlífar og Stefán Kristjánsson.

Meðal þeirra sem náðu 14.–25. sæti með fimm vinninga má nefna Hans Christian Dahl og Steffen Lynge, sem náðu bestum árangri Grænlendinga. Í þessum hópi var einnig Guðfríður Lilja, hinn efnilegi Ingvar Ásbjörnsson og Hjörtur Jóhannsson, 15 ára.

Friðrik og Áskell Örn Kárason náðu fjórum og hálfum, en meðal þeirra sem náðu fjórum vinningum voru Halldór Blöndal, Steinunn Blöndal, og Sverrir Ásbjörnsson, en systir hans Ingibjörg krækti sér í þrjá vinninga. Hin 10 ára gamla Sigurlaug Jóhannsdóttir var síðan í góðum félagsskap Jonathans Motzfeldts með tvo og hálfan vinning.

Lokahófið

Strax um kvöldið var öllum sem nærri skákmótinu höfðu komið boðið til stórveislu í íþróttahöllinni. Boðið var upp á glæsilegt hlaðborð með lamba- og hreindýrakjöti ásamt meðlæti og drykkjarföngum.

Steffen Lynge var útnefndur forseti skáksambands Grænlands á lokahófi Grænlandsmótsins. Steffen tefldi á Grænlandsmótinu og náði bestum árangri Grænlendinga ásamt Hans Christian Dahl, þeir hlutu 5 vinninga á mótinu. Hér tekur hann við gjöf frá skákfélaginu Hróknum í tilefni dagsins, en það voru um 40 töfl og klukkur ásamt skákbókum.
Steffen Lynge var útnefndur forseti skáksambands Grænlands á lokahófi Grænlandsmótsins. Steffen tefldi á Grænlandsmótinu og náði bestum árangri Grænlendinga ásamt Hans Christian Dahl, þeir hlutu 5 vinninga á mótinu.
Hér tekur hann við gjöf frá skákfélaginu Hróknum í tilefni dagsins, en það voru um 40 töfl og klukkur ásamt skákbókum.

Steffen Lynge, formaður skákklúbbsins í Qaqortoq, gekk í ræðustól og tilkynnti að grænlensku skákfélögin fimm í Qaqortoq, Nuuk, Narssaq, Aasiat og Maniitsoq hefðu ákveðið að mynda með sér landssamtök: Skáksamband Grænlands.

Hrafn Jökulsson gekk í púltið og þakkaði öllum sem lagt höfðu hönd á plóginn að gera mót þetta að veruleika og færði hinu nýja Skáksambandi að gjöf öll þau töfl og annan skákbúnað sem Hrókurinn hafði flutt með vegna mótshaldsins auk skákbóka. Hann hét því enn fremur að vinna að nánari samvinnu þjóðanna á skáksviðinu í framtíðinni.

Síðan var tekið til við verðlaunaafhendingar. Tíu skákmenn hlutu verðlaun og viðurkenningar. Luke McShane hampaði að sjálfsögðu sigurbikarnum sem Árni Höskuldsson gullsmiður lagði til auk glerlistaverks eftir Buuti sem er grænlensk listakona sem var verðlaunagripur frá mótshöldurum, auk peningaverðlauna.

Þeir Grænlendingar sem stóðu sig best, þeir Hans Christian Dahl og Steffen Lynge unnu ferð til Reykjavíkur með gistingu á Hotel Nordica.

Frá lokahófinu
Frá lokahófinu

Hófust nú skemmtiatriði. Barnakór Hróksins, skipaður grunnskólabörnum frá Qaqortoq söng, Jeremias trumbudansari kvað sínar frumsömdu vísur, eflaust í miklum skákanda og þjóðdansarar stigu dans í skrautbúningum.

Síðan var stiginn dans fram eftir nóttu og stukku þeir félagar Steffen Lynge og Kaj Lyberth á svið með rafmagnsgítara sína og sýndu góða takta með danshljómsveitinni. Geysigóð stemning var og gleði mikil í höllinni fram á rauða nótt.

Hraðskák og fjöltefli

Daginn eftir gleðina miklu var efnt til hraðskákmóts í húsnæði Lýðháskólans. Keppendur voru tuttugu og tveir. Ivan Sokolov fékk nú uppreisn æru og sigraði, en næstir komu Henrik Danielsen, Tomas Oral, Predrag Nikolic og Regina Pokorna. Ingvar Jóhannesson, tæknistjóri mótsins, tók nú þátt og sýndi mikla hörku, en náði þó ekki verðlaunasæti, þrátt fyrir að hafa velgt stórmeisturunum hressilega undir uggum. Luke McShane, sigurvegari Grænlandsmótsins, var nú fjarri góðu gamni og floginn áleiðis til til Esbjerg að keppa á móti þar og gekk vel þegar síðast fréttist.

Um kvöldið tefldi Ivan Sokolov fjöltefli  á 20 borðum. Ýmsir gerðu góða tilraun til að standa í kappanum, en leikar fóru svo að engum tókst að sigra hann né ná jafntefli.

Tvískák í Ráðhúsinu

Eftir að fundi vestnorrænu þingforsetanna lauk var komið á tvískákkeppni í Ráðhúsinu í Qaqortoq. Þátttakendur voru samtals átta, skákmeistarar og stjórnmálamenn.

Tvískákin var þannig að fjögur lið tefldu, tveir keppendur í hverju liði einn stjórnmálamaður og einn skákmeistari í hverju liði. Liðsmenn leika síðan til skiptis og mega ekki hafa samráð sín á milli. Friðrik Ólafsson tefldi með Halldóri Blöndal, slóvakíska skákdrottningin Regina Pokorna tefldi með Össuri Skarphéðinssyni, Ivan Sokolov með Jonathan Motzfeldt og Flovin Þór Næs með færeyska lögþingsmanninum Edmund Joensen.

Ráðhússkák 144Fyrsta_Grænlandsmótið_2003Í fyrstu umferð unnu Jonathan og Sokolov Færeyingana, meðan Halldór og Friðrik unnu Reginu og Össur. Í annarri umferð unnu Halldór og Friðrik Ivan og Motzfeldt, meðan Regina og Össur unnu Færeyingana.

Friðrik og Halldór voru því sigurvegarar tvískákmótsins, þar sem þeir unnu báðar sínar skákir. Skákmót þetta vakti mikla kátínu meðal keppenda og allra viðstaddra.

Með þessari skemmtilegu uppákomu lauk skákhátíðinni miklu í Qaqortoq, sem allir voru sammála um að hefði verið einstaklega vel heppnuð og sérlega ánægjuleg og mannbætandi lífsreynsla fyrir alla sem að henni komu.

1953: Friðrik Ólafsson Norðurlandameistari skrifar í Skólablað MR

Friðrik Ólafsson skrifaði þessa grein í Skólablað Menntaskólans í Reykjavík, 29. árgang 1953.

Skákíþróttin er, sem kunnugt er, ævagömul. Hún er talin vera upprunnin á Indlandi löngu fyrir Krists burð, og þaðan mun hún hafa breiðzt, hægt og sígandi, um heim allan, t. d. munu Persar og fornþjóðir við Miðjarðarhaf snemma hafa haft kynni af skákinni og ýtt undir frekari útbreiðslu hennar, er á leið.

Eins og vænta má, hefur skákin tekið miklum stakkaskiptum í meðförum ýmissa þjóða, en allar hafa þær endurbætur og breytingar, sem á henni hafa verið gerðar, miðað í þá átt að fullkomna og gera hana djúptækari. Reynslan hefur í þessum efnum sem öðrum lagt til stærstan skerf.

Skákin, eins og hún er nú, er byggð á reynslu hinna síðustu áratuga, reynslu, sem hefur verið varðveitt í bókum, enda er nú svo komið, að skákin er mestmegnis bókalærdómur, eða með öðrum orðum, bókþekkingin er undirstaðan, en æfingin er að sjálfsögðu hinn skapandi máttur.

Nú á dögum getur enginn talizt góður skákmaður, nema hann, sé sæmilega vel að sér í skákfræðum, og þeir, sem hafa gert skákina að atvinnu sinni, verða að vera vel á verði gagnvart öllum nýjungum, sem fram kunna að koma. Ekkert má fara fram hjá þeim, gengi þeirra og lífsafkoma er undir því komið, eins og liggur í augum uppi. Þrátt fyrir allan þennan bóklega lærdóm myndar hver einstakur skákmaður sér sérstakan stíl, sem mótast af skapgerð hans og hugsanagangi.

Unnt er að þekkja teflendur skákar á stíl þeirra án þess að vita fyrirfram, hverjir hafa teflt skákina. Til er sönn saga um Dr. E. Lasker sem var heimsmeistari á árunum 1894-1921, og virðist hún sanna þetta. Eins og fleiri frægir skákmeistarar hafði Lasker stundum gaman af að skjóta upp kollinum sem óþekktur maður í einhverjum skákklúbb og veita ,,meistara“ þess félagsskapar harða ráðningu. Ekki tókst Lasker þó alltaf að dyljast, eins og eftirfarandi saga sýnir:

Í einum þessara leiðangra sinna tefldi Lasker við allsterkan skákmann, sem var blindur. Þegar Lasker hafði eitt sinn leikið nokkra sérstaklega sterka leiki, rétti blindi maðurinn sig upp í sætinu og sagði brosandi: ,,Ó, dr. Lasker, ekki  satt?“

Enda þótt skákin virðist í eðli sínu leiðinleg, hefur hún margt það til að bera, sem getur rifið skákmanninn, eins og tónlistin heillar tónlistarunnandann og málverkin heilla listvininn. Hún hlítir að sjálfsögðu sínum lögmálum eins og allt annað, en hún er ótæmandi af möguleikum og verður ekki krufin til mergjar án mikillar íhugunar. Oftast má líkja henni við sérstæða rökfræði.

Rökfræði í skák liggur beint fyrir en umráðasvæði hennar er geysimikið. Við skulum hugsa okkur að tveir menn, A og B sætu að tafli og A ætti leik. Hann hefur í huga. ákveðinn leik, sem færir honum sigur, ef hann heppnast, en annars tap. Hann vill því kryfja málið til mergjar, og eftir nokkra athugun sér hann, að B getur svarað leiknum á t. d. 10 mismunandi vegu, eða með öðrum orðum leikurinn leiðir af sér 10 möguleika. En þar með eru ekki öll kurl kominn til grafar.

Eftir 1. leik í hverjum möguleika gætu komið fram tvær eða fleiri nýjar leiðir og þessar nýju leiðir geta falið í sér nýja möguleika. Í slíkum tilfellum kemur skákmanninum til hjálpar meðþjálfaður eiginleiki, sem nefnist stöðuskynjun. Fyrri reynsla hans í slíkum efnum gerir honum kleift að skynja, hvernig fara muni, þótt hann sjái það ekki beint fyrir.

Ekki ber þó að skilja þetta á þann veg, að skákin sé alltaf svo erfið, heldur er þetta dæmi til þess að sýna, hve umfangsmikil hún getur verið.

Að endingu vil ég svo vona að framangreind atriði hafi veitt mönnum nokkra nasasjón af, hvað skákin er í raun og veru og læt hér staðar numið.

 

..Ég sé ekki eftir þeim tíma, sem ég hef eytt í skákina“

VIKAN heimsækir Friðrik Ólafsson, stórmeistara, og konu hans, Auði Júlíusdóttur. Texti Kristín Halldórsdóttir. Myndir: Sigurgeir Sigurjónsson.

Það gæti verið nógu gaman að kanna, hver er þekktastur núlifandi Íslendinga: Kristján Eldjárn? Halldór Laxness? Eða er það kannski Friðrik Ólafsson? Okkur kæmi ekki á óvart, þótt hann kæmi sem sigurvegari úr þeirri keppni. Hitt er annað mál, hvort hann væri nokkuð yfir sig hrifinn af slíkri auglýsingu. Stórmeistarinn okkar þjáist nefnilega af öllu öðru frekar en mikilmennskuórum.

Friðrik og AuðurVið heimsóttum þau hjónin Auði Júliusdóttur og Friðrik Ólafsson að Hjarðarhaga 15, þar sem þau hafa búið sér notalegt heimili með dætrum sínum tveimur, Bergljótu 10 ára og Áslaugu 3 ára. Það er aldrei auðvelt að lýsa andrúmslofti staða, en hugsið ykkur bara litla stofu, sem þó virðist stór, einföld en þægileg húsgögn, notalega birtu og létta klassíska tónlist, og þá eruð þið komin með okkur heim til Auðar og Friðriks.

Eflaust er það smekkvísi hús móðurinnar, sem ræður heimilisbragnum, en áhugamál húsbóndans setur lika sinn sérstaka svip á heimilið. Það fyrsta sem við rákum augun i inni i stofunni, var forláta skákborð úr mahogny með marmarareitum, og það stóð þar ekki bara upp á punt, þvi Friðrik var i miðri skák. Og borðið á sér sögu:

— Þetta er gjöf frá Fidel Castro, segir Friðrik okkur, og mér finnst mjög gaman að eiga þetta til minningar um ólympíumótið sem haldið var á Kúbu 1966. Okkur gekk vel þar, Íslendingunum, urðum i 11. sæti i A-flokki. Við þurfum ekki einu sinni að bregða fyrir okkur höfðatölureglunni margfrægu til að sanna það. Eftir mótið fengum við 1. borðs mennirnir allir að gjöf þessi borð, sem notuð voru á mótinu og m.a.s. stólana lika.

— En mennirnir?

— Ég tími ekki að nota þá, segir Friðrik og dregur fram forkunnar finan kassa, sem er  eins og hús i laginu. Hann lyftir þakinu og dregur út hliðarnar, og við fáum að sjá þessa forláta taflmenn á þremur hæðum, og á botninum er nafnspjald Fidels Castros.

— Ég hef nú afdrep annars staðar í íbúðinni til skákiðkana, það er svo mikið drasl i kringum þetta, bækur og rit. En ég sit þó oft hér að tafli, segir Friðrik.

— Krakkar eru spenntir fyrir  þessu tafli, segir Auður. Systurdóttir mín kallaði taflmennina voffa, þegar hún var lítil, og sagði, að Friðrik væri að leika sér að voffunum sinum, þegar hann var að tefla.

— Teflir þú, Auður?

— Ég kann mannganginn, en meira er það nú ekki. Friðrik er of góður til að nokkur annar i fjölskyldunni geti lagt þetta fyrir sig.

— Ferðu með manninum þinum á skákmót erlendis?

—Ég hef  farið þrisvar sinnum, að ég held, maður á ekki alltaf heimangegnt, þegar börnin eru lítil.— Ertu nokkuð afbrýðisöm út í skákina?

— Nei, drottinn minn dýri! Það var þá spurning! Ég hafði mjög gaman af því að vinna hjá skáksambandinu í sumar í sambandi við heimsmeistaraeinvígið og fylgjast með því inni í Laugardalshöll.

— Hvenær byrjaðirðu að tefla, Friðrik?

— Ég var víst 10 ára.

— Og hvað kom þér á sporið?

— Ætli það hafi ekki bara verið  rigning og lítið við að vera. Nei, annars, þetta er víst það sem Larsen er vanur að segja. Minn áhugi vaknaði fyrir alvöru, þegar enski skákmeistarinn Wood kom hingað og tefldi við Ásmund Ásgeirsson, þáverandi Íslandsmeistara. Þá greip um sig mikið skákæði.

— Og frami þinn varð skjótur á þessu sviði.

— Það má kannski segja það, ég var kominn i landsliðið 15 ára.

Friðrik er ósköp hógvær og erfitt að toga upp úr honum afrekaskrána. Hann er mjög rólegur í fasi, tottar pípu sina og hlær afsakandi, þegar honum finnst orð sín bera vitni um sjálfshól.

Við flettum upp í íslenzkum samtíðarmönnum og sáum þar, að Íslandsmeistan hefur Friðrik orðið 6 sinnum, i fyrsta skipti aðeins 17 ára, og árið eftir varð hann Norðurlandameistari.

Mörgum er enn i fersku minni, þegar Friðrik sigraði ásamt V. Kortsnoj á skákmóti i Hastings 1955-56, þá nýútskrifaður stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík. Menn fylgdust með fréttum frá Hastings í miklum spenningi og fögnuðu innilega með meistaranum unga.

Alþjóðlegur skákmeistari varð Friðrik árið 1956 og stórmeistari 1958, sigurvegari á alþjóða skákmótinu í Beverwijk i Hollandi 1959 og á svæðamótinu i Marianske Lasne i Tékkóslóvakíu 1961. Svona mætti lengi telja.

— Þetta hlýtur að vera ákaflega timafrekt áhugamál, Friðrik. Hefurðu nokkurn tíma séð eftir þvi að hafa eytt svona miklum tíma i skákina?

— Það er rétt, skákin er mjög krefjandi um tíma  og fleira, og auðvitað kom þetta mjög mikið niður á náminu. En ég sé ekki  eftir þeim tima, sem ég hef eytt í skákina, síður en svo.

— Kom aldrei til greina, að þú gerðist atvinnumaður í  skák?

— Oft er ég spurður að þessu, og svo virðist, sem flestir haldi, að mig hafi skort skilning og aðstoð til að gerast atvinnumaður í skák.  Staðreyndin er sú, að ég kærði mig ekki um það.

— Hvers vegna ekki?

— Til þess liggja einkum tvær ástæður. Skákmót eru yfirleitt mjög löng og þreytandi, og það er erfitt að samræma atvinnumennsku í skák venjulegu fjölskyldulífi. Það má nú eiginlega segja, að ég hafi verið atvinnumaður fyrstu árin eftir stúdentspróf, og það var spennandi tímabil, en svo sneri ég mér að lögfræðináminu fyrir alvöru.

— Guðmundur Sigurjónsson er líka í lögfræði. Er kannski eitthvað skylt með lögfræði og skák?

— Það er ekki alveg fráleitt. Báðar greinar krefjast mikillar umhugsunar, það þarf að vega og meta ýmsa möguleika.

— Og nú starfarðu í dómsmálaráðuneytinu.

— Já, ég fór til Baldurs Möllers í dómsmálaráðuneytinu að loknu prófi til að spyrjast fyrir um atvinnumöguleika og var jafnvel að hugsa um að fara út á land. En þá benti hann mér á, að hann hefði þarna lausa stöðu. Nei, þú þarft ekki að líta á mig neinum grunsemdaraugum: við Baldur minnumst ekki á skák í vinnunni, hvað þá að við tökum upp taflið!

— Er atvinnumennska í skák ábatasöm?

— Hún hefur ekki verið það. Þátttakendur fá fríar ferðir og uppihald, en verðlaunaféð fá aðeins þeir beztu, og það eru ekki háar upphæðir, jafnvel ekki á okkar mælikvarða. En þetta fer að líkindum að lagast, og við getum vafalaust þakkað Fischer það.

— Nú hefur þú teflt víða um heim. Hvar hefur þér fundizt bezt að tefla?

— Liklega i Hollandi. Aðstæður eru þar líkar og hér heima, bæði loftslag og matur. Það er nefnilega alls ekki út í bláinn, þegar aðstæðum er kennt um lélegan árangur, hvort sem um skák eða annað er að ræða. Manni verður að líða vel líkamlega til þess að ná einhverjum árangri.

— Nú, og svo hefur afstaða fólksins lika mikil áhrif. Það er t.d. engin furða, þótt Fischer þyki gott að tefla í Júgóslaviu, því að Júgóslavar hafa horní síðu Rússa og eru þar af leiðandi afskaplega hlynntir Fischer.

— Ég á eina bráðskemmtilega minningu frá skákmóti í Zagreb 1958. Við tefldum í húsi við aðaltorg borgarinnar, sem er geysilega stórt, og þar var alltaf mikill mannfjöldi að fylgjast með mótinu á stórri sýningartöflu. Svo var það eitt kvöldið, að júgóslavneski meistarinn Gligoric tapaði sinni skák fyrir Tal, og það vakti ólgu og vonbrigði meðal Júgóslavanna á torginu.

Rétt á eftir vann ég mína skák við Petrosjan, og þá fannst Júgóslövum sem ég hefði hefnt nokkuð ófara landa þeirra og upphófu mikil fagnaðarlæti, heimtuðu að ég kæmi fram á svalimar og veifaði til mannfjöldans og allt eftir því. Þegar ég svo kom út úr húsinu, vissi ég ekki fyrri til en ég var þrifinn og borinn á gullstól fram og aftur um torgið og allir vildu snerta og þrífa í mig. Ég var eiginlega orðinn dauðrædur, og þegar mér loks tókst að slíta mig lausan, tók ég til fótanna og hljóp sem mest ég mátti alla leið heim á hótel með skarann á hælunum.

—Þú hefur líka eitthvað gert af því að fara um hér innanlands og tefla fjöltefli.

Friðrik við taflborðið— Ég gerði dálítið af því einu sinni, en ekkert núna lengi. Skákáhuginn nær um allt landið og fólk úti á landi hefur mjög gaman af að fá svona heimsóknir. Ég man t.d. eftir einum bónda, sem kom gangandi með taflið sitt undir hendinni alla leið innan úr Fljótum til Sauðárkróks, þar sem ég tefldi þá fjöltefli við 76 manns.

— Er nóg gert fyrir skák hér á Íslandi?

Skáksambandið fær nokkuð góðan ríkisstyrk, miðað við t.d. nágrannalöndin.

— Hvernig hagarðu þjálfun þinni? Teflirðu eitthvað á hverjum degi?

— Það er nú misjafnt. Ég les talsvert um skák, reyni að fylgjast með því, sem er að gerast og geri sjálfstæðar athuganir.

— Margir skákmenn leggja mikið kapp á þjálfun líkamans, eins og við  kynntumst t.d. meðFischer og Spasskí. Stundar þú einhverja líkamsrækt?

— Þetta er áreiðanlega talsvert mikilvægt atriði. En ég hef aldrei farið út í það.

— Fyrir fávísa á þessu sviði er  alveg furðulegt að sjá til þín í sjónvarpinu, þegar þú rekur skákirnar í allar áttir og drepur og færir sitt á hvað, án þess að ruglast i réttu stöðunni. Hvernig ferðu að þessu þessu?

Og nú hlær Friðrik þessum afsakandi hlátri, sem heyrist svo oft, þegar honum finnst sér hælt um of.

— Þetta er bara æfing, maður þekkir yfirleitt þessar leiðir, sem hægt er að fara.

— Er einhver ein skák þér minnisstæðust af þeim, sem þú hefur teflt um ævina?

— Ekki get ég sagt það. Mér finnst alltaf sú skák athyglisverðustu, sem ég  er að tefla þá stundina.

— Hefurðu einhver áhugamál önnur en skákina?

— Þetta. segir Friðrik og kinkar kolli í áttina til plötuspilarans.

— Tónlistin er okkar sameiginlega  áhugamál, segir Auður. Við sækjum oft tónleika og eigum sæmilegt plötusafn. Við erum mest fyrir klassík, en höfum ekkert á móti James Last, eins og þú heyrir, enda ef ég viss um, að Beethoven væri ekki óánægður með útsetningar hans.

— Leiðist þér ekki að heyra okkur ekki tala um annað en eitthvað viðkomandi skák?

— Nei, mér finnst það einmitt ágætt, segir Auður. Ég hef nú eiginlega ekki heyrt minnzt á skák, síðan heimsmeistaraeinvíginu lauk. Ég held, að allir hafi bara verið búnir að fá nóg þá.

— Það getur óneitanlega verið dálítið þreytandi stundum, segir Friðrik, en sumir virðast álíta, að ég vilji ekki tala um neitt annað en skák. Ég tel mig hins vegar viðræðuhæfan á fleiri sviðum.

Við látum okkur þetta að kenningu verða, og það sem eftir er kvöldsins ræðum við um ferðalög og fjarlæg lönd. Einsog gefur að skilja, hefur Friðrik farið víða til þess að taka þátt í skákmótum, en skákin setur honum lfka nokkrar skorður, hann getur yfirleitt lítið séð sig um, meðan á mótum stendur. Skákin heimtar alltaf sitt.

Í september s.l. fóru þó hjónin með báðar dæturnar í sumarfrí til Júgóslavíu og dvöldust þar í hálfan mánuð, og þó þau teldu sig ekki hafa verið nógu heppin með veður, var augljóst, að eitthvað hafði sólin skinið

En siðasta spurningin hlýtur að snerta skák.

— Larsen hefur látið hafa það eftir sér, Friðrik, að þú sért bezti áhugamaður í skák í öllum heiminum. Hvað viltu segja um það?

Og svarið er dæmigert fyrir okkar ágæta Friðrik:

— Hann neyðist náttúrlega til að segja það. Ég hef svo oft unnið hann!

Friðrik Ólafsson forseti FIDE

Eftir Guðmund G. Þórarinsson.

Guðmundur G. Þórararinsson, verkfræðingur og kenningasmiður. 13.4.2013 16-37-54. 13.4.2013 16-37-54. alþingismaður
Guðmundur G. Þórararinsson

Það er líklega á árinu 1976 sem dr Max Euwe fyrrverandi heimsmeistari í skák og þáverandi forseti FIDE  gefur til kynna að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti. Euwe var fæddur 1901 og hafði verið forseti FIDE frá  1970.  Kjósa skyldi nýjan forseta í Buenos Aires 1978  en  þá  hafði Euwe náð 77 ára aldri.

 

Þegar Euwe fór að svipast um eftir eftirmanni á forsetastól staðnæmdist hann við nafn Friðriks Ólafssonar. Friðrik var heimskunnur sem skákmaður og hafði getið sér gott orð sem drenglyndur heiðursmaður. Friðrik lét til leiðast að vera í framboði enda hugmyndin mikill heiður fyrir hann og land hans.  Skáksamband Íslands undir forystu Einars S. Einarssonar hóf þegar undirbúning að framboði Friðriks.

Á aukaþingi FIDE í Luzern 1977 kynntu þeir Einar og Högni Torfason varaforseti SÍ hugmyndina um framboð Friðriks og á þingi FIDE í Caracas í Venezuela 1977  kynntu þeir Einar og Gísli Árnason, gjaldkeri SÍ bækling SÍ  um framboð Friðriks og hófu að afla framboðinu stuðnings. Stjórnvöld á Íslandi studdu við framboðið með fjárframlögum.

Í framboði til forseta voru auk Friðriks Rabell Mendez frá Puerto Rico og stórmeistarinn Svetozar Gligoric.  Mendes var ekki kunnur skákmaður en hafði setið í stjórn FIDE og var kunnur félagsmálamaður innan skákhreyfingarinnar og m.a. svæðisforseti fyrir Suður-Ameríku.  Gligoric var vinsæll meðal skákmanna, hann hafði starfað sem blaðamaður og rithöfundur og mun hafa verið virkur í andspyrnuhreyfingu Titos á sínum tíma.

Fljótlaga varð ljóst að Mendes naut stuðnings að mestu meðal Suður-Ameríkuríkja og auk þess í Afríku og fleiri löndum þriðja heimsins, Gligoric naut stuðnings hjá austurblokkinni, Sovétríkjunum og fylgilöndum þeirra, en Friðrik naut stuðnings í Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada.

Mörg öflugustu skáklöndin töldu æskilegt að sterkur skákmaður væri forseti FIDE. Á einvígi þeirra Kortsnojs og Polugajevskys í Evien í Frakklandi 1976 hittu þeir Einar og Högni Baturinsky sem var í forystusveit skákhreyfingar í Sovétríkjunum og viðruðu þá hugmynd  að Sovétríkin styddu Friðrik ef Gligoric félli út í fyrstu umferð kosninganna en Ísland styddi Gligoric ef Friðrik félli út.  Baturinsky hlustaði án þess að taka af skarið.

Kosningarnar voru með því sniði að frambjóðandi varð að fá 50% atkvæða til þess að ná kjöri, næði enginn því marki skyldi kjósa aftur milli þeirra tveggja sem mest fylgi höfðu.

Kosningin  fór síðan fram á þingi FIDE í Buenos Aires 1978 en þar var jafnframt teflt Ólympíumót.  Frambjóðendur fluttu framboðsræður og mikil spenna var í lofti. Með Friðriki var kona hans Auður Júlíusdóttir og var honum mikill stuðningur. Þarna voru mættir þeir Einar S. og Högni til þess að vinna að framboðinu og síðar bættust í hópinn Gísli Árnason og undirritaður. Ljóst var þegar í upphafi að kosningarnar yrðu tvísýnar.

Fyrstu umferð kosninganna lauk þannig að Mendez hlaut 31 atkvæði, Friðrik 30 og Gligoric hlaut 29 atkvæði og einn seðill var ógildur. Það kom mörgum á óvart að Gligoric féll út í fyrstu umferð.  Júgóslavar ræddu það á göngum hótelsins að einn stuðningsmaður Gligorics hefði verið að tefla biðskák og ekki gefið neinum umboð til þess að fara með atkvæði sitt. Ekki skal lagður dómur á þessa sögusögn hér. Engum var ljóst hvað gera skyldi ef tveir hefðu orðið jafnir í 2.-3. sæti en til þess kom ekki.

Í seinni umferð hlaut Friðrik 57 atkvæði en Mendez 34 og kom í ljós að austurblokkin studdi Friðrik.  Sovétmenn vildu ekki að höfuðstöðvar FIDE færu úr Evrópu.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar úrslit voru gerð kunn og langvinnt lófatak fyllti salinn.  Hamingjuóskir bárust Friðriki úr öllum áttum m.a. frá Karpov þáverandi heimsmeistara.

Friðrik tilnefndi síðan Svein Jónsson endurskoðanda sem gjaldkeraefni sitt en hefð er fyrir því að forseti og gjaldkeri komi frá sama landi.  Dálítinn skugga bar á vegna frétta af deilum innan íslensku sveitarinnar um gjaldkeramálið en það mál er löngu gleymt og grafið.

Íslendingurinn Friðrik Ólafsson var nú orðinn forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE og Ísland  orðið áhrifaland í skáklífi heimsins.  Friðrik hafði verið kjörinn 4. forseti FIDE en áður höfðu verið forsetar  Hollendingurinn dr Alexandre Rueb 1924-1949, Svíinn Folke Rogard 1949-1970 og Hollendingurinn Max Euwe 1970-1978.

Viðbrögð skákheimsins við kjöri Friðriks voru almenn ánægja. Fyrst og fremst var kjörið viðurkenning á einstaklingnum Friðriki Ólafssyni og lýsti trausti á honum og sýndi vinsældir hans. Í annan stað var kjörið viðurkenninga á skákhefð Íslendinga. Ísland var orðið þungamiðja í skáklífi heimsins.

Með kjöri Friðriks má segja að nýr kafli hefjist í sögu FIDE. Að ýmsu leyti varð nú meiri festa í starfsemi FIDE sem ekki síst sýndi sig í stjórn og skipulagi þinga FIDE. Friðrik var farsæll í starfi sem forseti, lét setja reglur um alþjóðlegt mótahald, gaf út bækling um FIDE og þinghald færðist allt til hins betra.

Deilur risu hins vegar vegna máls Korchnois og fjölskyldu hans og að mig minnir um mótshald vegna einvígis Korchnois og Karpovs sem að endingu fór fram í Merano. Friðrik beitti sér mjög í máli Kortsnojs og fyrir því að hann fengi fjölskyldu sína út úr Sovétríkjunum. Sovétmenn snerust gegn honum vegna þessa máls.

Á þingi FIDE í Luzern í Sviss 1982 náði Friðrik ekki endurkjöri.  Einkum varð honum að fótakefli í þeim kosningum andstaða Sovétmanna vegna baráttu hans í mannréttindamáli Kochnois og hins vegar baráttu aðferði mótframbjóðandans Campomanesar.

Á vegum FIDE var sjóður sem Campomanes beitti til kaupa á töflum og gjöfum einkum til landa þriðja heimsins. Mér er minnisstætt að við töldum eftir samtöl við ýmis Afríkuríki að þau styddu Friðrik í kosningunni. Eftir á kom annað í ljós. Þegar ég gekk eftir því hvað hefði gerst svöruðu sumir afrísku fulltrúanna: “Friðrik vildi ekki vera kjörinn. Í okkar löndum er lýðræði og við þekkjum vel leikreglurnar. Þeir sem vilja ná kjöri gefa gjafir. Friðrik gaf ekki gjafir svo við töldum að hann vildi ekki ná kjöri.”

Ísraelsmennirnir sem voru nærstaddir og höfðu stutt okkur,  heyrðu þetta og sögðu hlæjandi:“ Íslendingar kunna ekki að vinna að svona kosningum.”

Í raun hefur FIDE sett talsvert niður frá því Friðrik hætti.  Campomanes var knúinn til þess að segja af sér og deilur spunnust út af fjárreiðum FIDE einkum vegna greiðslna á eftirlaunum til hans sjálfs árið 1995.  Bæði hann og eftirmaður hans, Kirsan Illymzhinov hafa fært stjórn FIDE meir í átt einveldis.

Þegar regluleg kosning forseta fór fram árið 1996 kom upp undarleg staða. Tilkynna varð framboðslista með tveggja mánaða fyrirvara. Þegar að þingi kom var aðeins einn listi í framboði og Illymzhinov var ekki á honum.  Ég taldi því augljóst að dagar hans á forsetastóli væru taldir.

En þá kom fram ,,snilli“ austurlandabúans. Hann samdi við nokkra þá sem voru í framboði á þessum eina lista að draga  sig til baka. Skæðar tungur sögðu að fjármunir hafi verið í boði. Þar með var eini listinn orðinn ólöglegur og Illymzinov bauðst til að leysa málið með því að leggja fram á þinginu nýjan lista þar sem hann var forsetaefni. Það gekk eftir. Þannig leysti hann þraut sem allir lýðræðissinnar hefðu talið óleysanlega.

Segja má að FIDE hafi verið vængbrotið hin síðustu ár. Deilur hafa einkennt starfsemina og margir minnast þess er Kasparov klauf FIDE og stofnaði sinn heimsmeistaratitil. Einar S. Einarsson sem um árabil hefur verið fulltrúi Íslands hjá FIDE hefur orðað það svo að síðan Friðrik hætti hafi FIDE verið í tröllahöndum.  Óreiðutal og einræðistilburðir hafa um of einkennt umræðuna um FIDE síðustu ár.

Í forsetatíð Friðriks Ólafssonar var FIDE virt alþjóðasamband. Forsetastarf hans var bæði honum og íslensku þjóðinni til sóma.

 

 

Ævintýrið um Friðrik Ólafsson

Eftir Guðmund G. Þórarinsson.

Guðmundur G. Þórararinsson, verkfræðingur og kenningasmiður. 13.4.2013 16-37-54. 13.4.2013 16-37-54. alþingismaður
Guðmundur G. Þórararinsson

Á áratugnum milli 1950 og 1960 varð Friðrik Ólafsson þjóðhetja. Þegar ég horfi aftur til þessara ára virðist mér staða Friðriks á þessum árum ekki ólík því sem staða Bjarkar varð síðar. Afrek Friðriks við skákborðið voru á heimsmælikvarða þrátt fyrir einangrun og erfiðar aðstæður.

Árangur hans vakti athygli ekki síður erlendis en hér heima. Margir þættir spunnust saman  við að auka þessi áhrif, glæsilegir sigrar,  drengileg og hógvær framkoma, myndarlegur og glaðlegur ungur maður með ákveðið aðalsyfirbragð.

Sigrar hans vöktu bergmál í hugum yngri kynslóðarinnar og segja má að yngri meistarar okkar standi á herðum hans.

Þegar rætt er um áhrif Friðriks Ólafssonar á íslenskt skáklíf   koma margir þættir í hugann:

Í fyrsta lagi skákfræðileg áhrif Friðriks, stíll hans, byrjanaval, tækni, rannsóknaraðferðir og skrif hafa haft áhrif á skákstyrk Íslendinga.

Í öðru lagi áhrif hans í þá átt að efla áhuga á skák í landinu, jafnvel áhrif hans á þá sem ekki eru gjörkunnugir leikreglum manntaflsins.

Í þriðja lagi áhrif hans á skákhreyfinguna sem slíka, þ.e. félagsmál skákmanna, mótahald og félagslíf.

Í fjórða lagi áhrif Friðriks á sjálfsmynd Íslendinga sem ég tel að hafi verið veruleg svo skömmu eftir stofnun lýðveldisins og síðast en ekki síst kynning hans á landi og þjóð og frægð hans erlendis. Enginn vafi er að áhrif Friðriks eru mikil á öllum þessum sviðum.

Þegar Friðrik hóf að tefla var hér á landi allsterk skákhefð. Friðrik stendur föstum fótum í íslenskri skákmenningu. Hann stendur á herðum þeirra íslensku skákmanna sem hér fóru fremstir í flokki.

Snillingar festa rætur þar sem menning og hefð eru með blóma. Rósir vaxa ekki af sjálfsdáðum upp úr engu á eyðisöndum.

Aldagömul skákmenning

Skákmenningu Íslendinga má rekja langt aftur í aldir. Af fornum bókum Íslendinga má sjá að Íslendingar tefldu talsvert fyrr á öldum og um það eru ýmsar heimildir.

Í Búalögum um 1500 er þess getið að það kosti 12 álnir að kenna að tefla. En árið 1900 er í fyrsta sinn stofnað taflfélag hérlendis, í fyrsta sinn farið að tefla hér í formlegum félögum.

Menn telja að skáklistin hafi komið til Íslands frá Bretlandi en ekki frá Norðurlöndum og taka þá mið af heitum taflmannanna á borðinu, hrókur, biskup, riddari, peð; á ensku rook, bishop, knight og pawn.

Enn er athyglisvert að Íslendingar virðast einir þjóða eiga sögnina að tefla, í öðrum löndum er talað um að spila, danskan spille skak, enskan play chess, þýskan schach spielen, franskan jouer echech o.s.frv.

Við höfum oft sagt og talið að skákin njóti almennari vinsælda á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Íslendingar eiga sér orðtak ,,að leggjast í skák” sem kann að minna á orðtakið ,,að leggjast í óreglu”.

Daniel Willard Fiske hafði ritað bókina Chess in Iceland og séð um útgáfu á okkar fyrsta skákriti, Í uppnámi, um aldamótin 1900. Nafn tímaritsins sótti hann í Sturlungu.

Sjálfur hef ég alltaf mikla ánægju af að velta fyrir mér kenningunni um að Lewis taflmennirnir, skornir út úr rostungstönnum á 12. öld  séu frá Íslandi  og því að orðið biskup í skák sem líklega er aðallega notað í tveim tungumálum, íslensku og ensku, sé upprunnið á Íslandi. Lewistaflmennirnir munu vera elstu taflmenn, sem fundist hafa, sem bera sama svipmót og taflmenn sem notaðir eru í dag.

Brautryðjandinn Baldur Möller

Áður en Friðrik hóf að tefla skák höfðu Íslendingar átt sterka skákmenn. Baldur Möller var fyrsti Íslendingurinn sem vann alþjóðleg skákmót og varð tvívegis skákmeistari Norðurlanda. Segja má að með Baldri Möller hafi hafist nýtt tímabil í íslenskri skáksögu.

Þessi hægláti og vandvirki skákmeistari talaði hægt en varð þó Íslandsmeistari í 200 m hlaupi og átti mörg verðlaun fyrir spretthlaup.

Friðrik Ólafsson orðaði það svo í minningargrein um Baldur: ,,Enginn vafi leikur á því að að afrek hans hafa átt drjúgan þátt í því að skapa þann skákáhuga sem íslenskt skáklíf býr að enn í dag.“ Friðrik hefur jafnframt látið svo um mælt að Baldur hafi verið frumkvöðull faglegra vinnubragða í skák á Íslandi.“

Erfitt er að telja upp nöfn án þess að gera einhverjum rangt til en nefna til sögunnar þá Ásmund Ásgeirsson, Guðmund S. Guðmundsson,  Guðmund Pálmason, Guðmund Arnlaugsson,  Guðjón M. Sigurðsson, Guðmund Ágústsson, Eggert Gilfer.

Ingi R. Jóhannsson var um skeið sterkasti skákmeistri okkar að Friðriki frátöldum og helsti keppinautur hans hér á landi.

Óður til skáklistarinnar

Umræða um Friðrik Ólafsson verður óhjákvæmilega öðrum þræði óður til skáklistarinnar. Til þess að ná langt í skák þarf fjölþætta hæfileika.  Það þarf einbeitni, öflugt hugarflug og hugsmíðaafl, mikinn viljastyrk og  ögun, skynjunarkraft, sterka rúmskynjun sem gerir kleift að skynja og tengja mennina á borðinu, gríðarlega greiningar- og talningarhæfileika svo nokkuð sé nefnt.

Íslenskt mál á sér orð sem lýsa sérstökum hæfileikum s.s. smiðsauga, læknishendur, tóneyra. Ekkert slíkt orð þekki ég sem lýsir snillingum skáklistarinnar. Næmleika tónsnillingsins fyrir tónum, málarans fyrir litum og línum er við brugðið.

Snilli skákmeistarans er samofin úr mörgum eiginleikum hugarflugs og rökhyggju, Skákin á sér kröfu sem er  sameiginleg öðrum listum, krafan um sköpunargáfuna, samræmi, einbeitingu, ástríðu, frumleika og viljastyrk.
Ríki skáklistarinnar er þar í ríki andans  sem saman koma landamæri vísinda, lista og keppnisíþrótta.

Snillingur við skákborðið þarf að eiga eiginleikann til að gera hverja hugsun að neista, kynda bál í huganum, varðveita þennan demantsharða loga sem stöðugt lýsir allt upp með athugun,  undrun og aðdáun.

Glæsilegur ferill

Skýrustu einkennin á skákstíl Friðriks eru sókndirfska og leiftrandi fléttur og ekki má gleyma tímahrakinu sem einkenndi skákstíl Friðriks. Margir sögðu að Friðrik hefði verið ofurstórmeistari í tímahraki.  Í því sambandi eru athyglisverð orð  Reshevskys: ,,Friðrik leikur  aldrei  af sér!“

Það þýðir:  Ef menn ætla að vinna hann verður það að gerast á borðinu. Þessi umsögn verður enn merkilegri þegar haft er í huga að margar skákir Friðriks enduðu í ævintýralegu tímahraki og hinu að nær allir sterkustu skákmeistarar heims hafa gert sig seka um fingurbrjóta. Tímahrak Friðriks vakti oft upp gríðarlega spennu í hópi áhorfenda og það svo að helst verður jafnað til áhrifa magnþrunginna spennumynda nú á dögum.

Friðrik er fæddur 26. janúar 1935 og lærði að tefla 8 ára, líklega af því að fylgjast með föður sínum tefla sem minnir á fyrstu kynni sumra sterkustu meistara sögunnar af skákinni, t.d. Capablanca.

Friðrik varð Íslandsmeistari 1952, 17 ára gamall,  eftir einvígi við Lárus Johnsen. Fræg er tilvitnun Lárusar eftir einvígið þegar hann sagði þungt hugsi: ,,Nú verður  Frikki ekki stöðvaður úr þessu.“ Lárus gerði sér grein fyrir að hér eftir yrði við ofurefli að etja.

Skákmeistri Norðurlanda varð hann 1953 og þá sá yngsti sem því marki hafði náð.  Einvígið við Larsen 1956 um Norðurlandameistaratitilinn er minnisstætt. Þessir tveir áttu eftir að verða öflugustu skákmeisarar Norðurlanda.

Larsen nam verkfræði við verkfræðiháskólann í Kaupmannahöfn. Honum gekk vel og hann átti aðeins rúmt ár þegar hann hvarf frá námi og helgaði sig skákinni. Hann gaf þá skýringu í útvarpi að Danir ættu  marga góða verkfræðinga en engan góðan skákmeistara.

Einvígi Friðriks og Larsens vakti slíka athygli hér að dæmi voru ekki um slíkt áður.  Áhorfendasalur fylltist, fólk stóð utan dyra, jafnvel lá á gluggum til þess að reyna að fylgjast með, útvarp og blöð voru undirlögð af þessum atburði. Hér á landi höfum við varla nokkurn atburð sem stendst samanburð varðandi almennan áhuga nema ef vera kynni heimsmeistaraeinvígið 1972.

Skömmu fyrir hólmgönguna  við Larsen háði Friðrik einvígi við argentíska stórmeistarann Pilnik. Friðrik sigraði með yfirburðum og líkaði Pilnik miður.

Eitt kunnasta afrek Friðriks er þegar hann náði efsta sæti í Hastings ásamt Kortsnoj 1955-56.

Atlögur gerði Friðrik nokkrar  að heimsmeistaratitlinum. Of langt mál er að telja hér upp öll mót Friðriks. Geta verður þó þess að hann vann sér rétt til að tefla á  kandidatamóti í Júgóslavíu 1959 þar sem hann hafnaði í  7. sæti. Þar var tekist á um réttinn til að tefla við Botvinnik um heimsmeistaratitilinn.

Friðrik var útnefndur stórmeistari í skák 1958, fyrsti Íslendingurinn sem náði þeim titli. Þá fór mikil hrifningaralda um íslenskt þjóðfélag. Það var engu líkara en Íslendingum þætti sem þeir væru allir orðnir stórmeistarar.  Síðan komu fjölmörg mót.

Friðrik tefldi á 8 Ólympíumótum fyrir Ísland, öll skiptin nema eitt á fyrsta borð og í Búlgaríu 1962 náði hann  besta árangri á 1. borði ásamt Najdorf, hlaut 14v af 18v mögulegum.

Hann tefldi á þrem heimsmeistaramótum stúdenta; Í Uppsölum hlaut hann 9 vinninga af 10 mögulegum.

Íslandsmeistari varð hann 6 sinnum.

Hraðskákmeistari Íslands 7 sinnum.

Skákmeistari Reykjavíkur þrisvar.

Skákmeistari TR. Skákmeistari Norðurlanda tvisvar 1953 og 1971.

Hann tefldi á 10 alþjóðlegum  Reykjavíkurmótum, þar af efstur þrisvar.

Auk þess fjölmörgum alþjóðlegum skákmótum, og sigraði í mörgum.

Hefur lagt fjóra heimsmeistara

Friðrik hefur ritað bækur um skák, Lærið að tefla ásamt Ingvari Ásmundssyni, Heimsmeistaraeinvígið 1972 með Freysteini Jóhannssyni. Haft er eftir Bobby Fischer að skýringar Friðriks við skákirnar frá einvíginu 1972 séu þær bestu sem gerðar hafa verið.  Við skákborðið í aldarfjórðung er bók um bestu skákir Friðriks. Fjölmargar greinar hefur hann ritað í dagblöð og tímarit, komið fram í sjónvarpi og útvarpi við skákskýringar.

Skáksamband Íslands hélt Friðriki sérstakt afmælismót á 60 ára afmæli hans í þjóðarbókhlöðunni. Þar fór þá fram jafnhliða sýning á ýmsum þáttum frá skákferli Friðriks, myndir, greinar og bækur. Þá fór jafnhliða fram kynning á öðrum miklum áhrifavaldi í íslensku skáklífi, Daniel Willard Fiske.

Gaman er að rifja upp að  Friðrik hefur  á sínum ferli unnið flesta frægustu skákmeistara heims. Ég nefni bara heimsmeistarana Tal, Petrosjan, Fischer, Karpov. Athyglisvert er að Friðrik var forseti FIDE þegar hann vann Karpov. Líklega eina dæmið úr skáksögunni um að sitjandi forseti FIDE, bundinn félagsstörfum vinni sitjandi heimsmeistarann í kappskák.

Ég nefni sigra yfir stórmeisturunum  Keres, Korchnoi, Geller, Stein, Tajmanov, Gligoric, Larsen, Reshevsky, Najdorf, Pilnik, Panno, Benkö, Robert Byrne, Uhlmann, Unziker, Szabo, Portisch, Hort, Hübner,Andersson, Timman, Seirawan, og Browne.

Þessi upptalning sýnir svart á hvítu stöðu Friðriks Ólafssonar í skákheiminum.

Fórnin

Friðrik lagði skákina að mestu á hilluna um tíma og nam lögfræði við Háskóla Íslands. Þar fór  Larsen aðra leið. Ekki verður fram hjá því horft að þar fórnaði Friðrik  mörgum frjóum árum frá skákinni og freistandi að velta fyrir sér hvað hefði getað gerst ef hann hefði helgað sig skákinni að fullu. Til þess voru hins vegar ekki aðstæður.

Til þess að helga sig skákinni hefði Friðrik einfaldlega orðið að leggja sjálfan sig undir. Husunarhátturinn í þjóðfélaginu var annar þá, menn urðu að sjá fyrir sér, afla sér menntunar til þess að mæta framtíðinni. Ekki skipti máli þó fórnað væri snilligáfu.

Á þessum árum  fékkst skáksnillingurinn við að læra þurrar lagagreinar utanað. Nú koma orð Larsens aftur í hugann. Íslendingar áttu á þessum tíma marga góða lögræðinga en aðeins einn stórmeistara í skák. Mér finnst þegar ég hugsa til þessa sem tjóðurhæll skyldunnar, dýflissumúrar vanans, hömlur þjóðfélagsins hafi verið sem óvinnandi vígi.

Forseti FIDE

Íslendingurinn Friðrik Ólafsson var kosinn forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE og Ísland  varð þannig  áhrifaland í skáklífi heimsins.  Friðrik var kjörinn 4. forseti FIDE en áður höfðu verið forsetar  Hollendingurinn dr. Alexandre Rueb 1924-1949, Svíinn Folke Rogard 1949-1970 og Hollendingurinn Max Euwe 1970-1978.

Viðbrögð skákheimsins við kjöri Friðriks voru almenn ánægja. Fyrst og fremst var kjörið viðurkenning á einstaklingnum Friðriki Ólafssyni og lýsti trausti á honum og sýndi vinsældir hans. Í annan stað var kjörið viðurkenning á skákhefð Íslendinga. Ísland var orðið þungamiðja í skáklífi heimsins.

Með kjöri Friðriks má segja að nýr kafli hefjist í sögu FIDE. Að ýmsu leyti varð nú meiri festa í starfsemi FIDE. Friðrik var farsæll. Skipulagsmál og þinghald færðist allt til hins betra.

Deilur risu hins vegar vegna fjölskyldumála Kortsnois, sem tengdust síðan framkvæmd heimsmeistaraeinvígis Korchnoi og Karpovs í Merano á Ítalíu. Til að Sovétmenn gætu leyst það mál ákvað Friðrik að fresta einvíginu um heilan mánuð.

Niðurstaðan varð sú að eftir heilmikið stapp  mótmæli lofuðu Sovétmenn að leyfa fjölskyldu Korchnoi  að yfirgefa Sovétríkin vorið 1982.  Sú ákvörðun Friðriks að fresta einvíginu kostaði  hann ófá atkvæði á næsti þingi FIDE Þetta fullyrti Baturinskij í bók sinni um einvígi Karpov og Korchnoi í Merano.

Í forsetatíð Friðriks Ólafssonar var FIDE virt alþjóðasamband. Forsetastarf hans var bæði honum og íslensku þjóðinni til sóma.

Árangur Friðriks við skákborðið varð aflvaki skáklífs á Íslandi. Enginn vafi er að skákferill Friðriks varð til þess að Ísland kom yfirhöfuð til greina við ákvörðun um að halda heimsmeistaraeinvígið í skák hér 1972. Um það mætti skrifa heila grein.

Áhrifin á skákhreyfinguna voru mikil og skákmótahald jókst sem og áhugi erlendra skákmeistara á Íslandi. Íslendingar hófu að halda skákmót sem vöktu athygli um allan heim.

Sagan sýnir okkur að tiltölulega stutt tímabil í sögu þjóða geta haft áhrif sem leiftra langt fram á ógengnar slóðir. Þannig geta einstök afmörkuð atvik eða líf og afrek einstaklinga eflt með þjóðum sjálfstraust og styrkt trú þeirra á tilverurétt sinn á erfiðum tímum.

Íslendingar voru og eru örþjóð á eyju í miðju Atlantshafi fjarri öðrum löndum. Samstaða þeirra og styrkur byggðist einkum á fornri menningu, handritum, sögum og kvæðum ásamt með íslenskri tungu sem nær engir skylja nema þeir sjálfir.

Strákurinn okkar

Uberall gibt es Menschen, ja hérna, alls staðar  býr fólk,  sagði þýski þjónninn þegar honum var sagt að gestirnir væru frá Íslandi. En Íslendingar hafa eignast einstaklinga sem vakið hafa athygli með hæfni sinni og snilli um víðan heim, einstaklinga sem með starfi sínu og afrekum hafa vísað veginn og orðið fyrirmynd í amstri þessarar smáþjóðar í hafi þjóðanna. Friðrik Ólafsson er einn þeirra.

Áhrif Friðriks Ólafssonar og ímynd hans í íslensku þjóðlífi verða ekki metin eingöngu út frá þröngu mati á afrekum hans við skákborðið. Það verður líka að líta á þau út frá stöðu hans meðal fámennrar einangraðrar þjóðar, einstaklings sem stígur fram meðal þeirra allra fremstu í heiminum á sínu sviði. Íslendingum fannst þeir allir eiga þátt í afrekum hans. Hann var strákurinn okkar.

Það er alkunna að afrek og árangur verða ekki einvörðungu metin eftir mælikvörðum metrakerfisins. Aðstæður og erfiðleikar vega þungt þegar snilli og afrek eru metin. Smíðar Robinsons Krúsó á eyðieyjunni voru ekki nýjar merkilegar uppgötvanir en vekja undrun og aðdáun lesenda þegar horft er með berum augum á þær fjallháu hindranir sem  við var að etja.

Nú er það svo að Friðrik og afrek hans við skákborðið þurfa ekki þessara skýringa eða afsakana við. Þau hefðu verið meðal þess besta í skákheiminum þó allar aðstæður hefðu verið sem ákjósanlegastar.

Afrek hans verða enn glæsilegri þegar þetta er haft í huga. Hér voru aðrar aðstæður en nú á tölvuöld þegar upplýsingar berast með ljóshraða milli landa. Aðstæður Friðriks til þess að fylgjast með þróun og nýjungum skáklistarinnar í heiminum voru erfiðar.

Úti í heimi vöktu afrek Friðriks framan af ekki síst athygli vegna þeirra aðstæðna sem hann bjó við. Hugsið ykkur þegar stóra sýningarborðið var sett upp á torgi í Belgrad til þess að sýna hvernig piltur frá lítilli fjarlægri eyju var að yfirbuga Petrosian, skákmeistarann ósigrandi.

Skákþjóðin Júgoslavar gerði sér grein fyrir því hvað var að gerast. Þeir vissu og skildu hvað til þurfti. Atvinnumenn stórþjóðanna stóðu undrandi. Íslendingur sem sætti lagi að komast til Bretlands með togara sem sigldi með fisk, sigraði á stórmótum heimskunna atvinnumenn.

Hér heima fannst okkur við eiga Friðrik hann var einn af okkur, hann vakti athygli og aðdáun á landi okkar. Ólíklegustu menn fengu áhuga á skák.    Ferill hans og afrek vöktu  skákahuga á Íslandi  umfram allt sem Íslendingar höfððu áður þekkt.

Unga kynsloðin og raunar þjóðin öll hreifst með. Minnisstæðustu augnablikin eru þegar hann á  broti úr sekúndu töfraði hann fram í ævintýralegu tímahraki listaverk þannig að frægustu skákmeistarar sátu ráðþrota og ringlaðir yfir rjúkandi rústunum. Hvernig var hægt að seiða fram slík listaverk úr engum stöðuyfirburðum með ljóshraða? Okkur meðalmennina sundlar. Við tilhugsunina koma helst í hugann hugtök eins og ferhyrndur hringur og n-vítt rúm.

Goðsögnin lifir

Ég held að það sé sama hversu marga og sterka skákmeistara Íslendingar eignast, Friðrik verður alltaf Friðrik. Yfir nafni hans og ferli verður alltaf einhver ævintýrablær. Ekki ólíkt og með Fischer þó þessir menn geti varla verið ólíkari.

Þjóðverjar eiga sér hugtakið die Vergaanglichkeit.  Sagt er að allt sé heiminum hverfult. Skáldið sagði: Bókfellið velkist, stafirnir fyrnast og fúna, fellur í gleymsku það orð sem er lifandi núna…

Steinn Steinar orti á sínum tíma undir áhrifu frá öðru skáldi,  ljóðið: Ég er gras og ég græ yfir sporin þín, byggið hallir og musteri, leggið götur og stræti úr gulum og rauðum sandsteini.   Ég er gras og ég græ yfir sporin ykkar.

En sums staðar vex ekki gras.

Þó Friðrik tefldi 1000 skákir á næstu árum og tapaði þeim öllum, hefur það ekkert að segja.

Goðsögnin lifir. Hún mun lifa svo lengi sem Íslendingar hirða um að muna sögu sína. Meira að segja guð getur ekki breytt því sem liðið er.

Langt fram á ógengna vegi mun slá glampa af lífi og starfi Friðriks Ólafssonar.

1978: ,,Í dag unnum við FIDE“

Buenos Aires, 8. nóvember Frá Högna Torfasyni fréttaritara Morgunblaðsins.

Friðrik Ólafsson er orðinn forseti Alþjóðaskáksambandsins. Þetta er dagur Íslands í Argentínu. Annar sigur Íslands í Buenos Aires. Árið 1939 vann Ísland Copa Argentina, Argentínubikarinn. Í dag unnum við Fide.

Þegar þingið kom saman í morgun voru mættir rúmlega 90 fulltrúar eða umboð fjarverandi landa. Loft var lævi blandið, allir frambjóðendurnir voru vongóðir og bjartsýnir um sinn hlut og þrátt fyrir endalausan áróður og ráð og leiðir til að afla einum eða öðrum fylgis, vissi enginn hver staðan var. Almennt var því trúað að Friðrik og Gligoric næðu hærri atkvæðatölu en Rabell-Mendes og því yrði baráttan háð milli þeirra tveggja fyrstnefndu. En margt fer öðruvísi en ætlað er.

Eftir mikið málþóf og eftir lélega fundarstjórn fráfarandi forseta, var loks búið að velja þrjá menn, sem skyldu annast talningu atkvæða. Einn þeirra var Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrum forseti. Skáksambands Íslands, og einn af samverkamönnum Friðriks hér á þinginu. Á milli þess sem kosið var voru umræður um ýmis dagskráratriði en loks komu teljendur fram á sviðið og Harry Golombek, framsögumaður teljenda, las upp úrslitin úr fyrstu atkvæðagreiðslu.

Þau úrslit komu eins og reiðarslag yfir þingheim allan: Rabell Mendes 31 atkvæði, Friðrik Ólafsson 30, Svetozar Gligoric 29 atkvæði og einn seðill ógildur. Menn trúðu vart sínum eyrum, að Gligoric skyldi falla út í fyrstu umferð. Því hafði enginn spáð og menn höfðu almennt búizt við því, að baráttan mundi standa á milli hans og Friðriks.

Ef til vill var það þetta eina atkvæði, sem var ógilt, sem réði þeim örlögum að Friðrik Ólafsson er í dag forseti FIDE því að í raun og sannleika hefði enginn vitað hvor þeirra ætti að falla út á jöfnum atkvæðum, 30 fyrir hvorn. Um það eru reglur FIDE alls ekki nógu ljósar og um þetta atriði var spurt áður en atkvæðagreiðsla hófst, en engin skýr svör fengust og var það vafalaust vegna þess að enginn hafði trú á að þessi staða kæmi upp.

Loftið var rafmagnað í þingsalnum hér á Sheraton. Það tók menn nokkra stund að átta sig á því að Gligoric, sem hafði verið talinn sterkur frambjóðandi, var búinn að vera og í skyndingi urðu menn að söðla um og gera sér grein fyrir því, hvort Rabell Mendes eða Friðrik Ólafsson ætti að verða næsti forseti FIDE.

Nú kom í haginn að fulltrúar Íslendinga höfðu undirbúið jarðveginn. Eins og fram kom í viðtali Mbl. við Gligoric fyrir fáum dögum var hann spurður hvort hann myndi styðja Friðrik ef svo ólíklega tækist til að Gligoric sjálfur félli út við fyrstu atkvæðagreiðslu.

Gligoric sagði þá fullur sjálfstrausts og öryggis að slíkt gæti aldrei skeð. Þýfgaður um það kvaðst Gligoric persónulega myndu styðja Friðrik ef þessi staða kæmi upp, þar sem hann teldi heppilegra að stórmeistari skipaði forsetaembættið. Við þessi orð hefur Gligoric staðið í dag. Hann hefur reynzt heiðursmaður, sem vill standa við orð sín.

Og enda þótt hann segist ekki geta talað fyrir munn stuðningsmanna sinna voru það einmitt þeir, sem færðu okkur sigurinn í dag. Í rauninni er þetta aðeins framhald af þeim viðræðum, sem forystumenn Skáksambands Íslands, Einar S. Einarsson forseti og Högni Torfason varaforseti áttu í fyrrasumar úti í Evien í Frakklandi eftir aukaþing FIDE í Lauzerne í Sviss.

Þá ræddum við við Baturinsky, helzta ráðamann sovézka skáksambandsins og voru Boris Spassky og Marina kona hans túlkar okkar Íslendinganna. Á þessum fundi stungum við upp á því, að Sovétríkin og þeirra menn styddu Friðrik Ólafsson svo fremi Gligoric félli út í fyrstu atkvæðagreiðslu en á móti kváðumst við mymtu bcita okkar áhrifum til þess að stuðningsmenn Friðriks styddu Gligoric, ef báran skvettist á annan veg.

Baturinsky sýndi þessu mikinn áhuga, en vildi ekki segja neitt ákveðið. Í dag bar þetta útsæði ávöxt. Sovézka sendinefndin studdi Friðrik í annarri atkvæðagreiðslu og einnig fleiri stuðningsmenn Sovétríkjanna en við höfðum nokkurn tíman þorað að vona. Sannaðist þar sú vissa okkar að Sovétmenn myndu ekki geta hugsað sér að höfuðstöðvar Alþjóðaskáksambandsins hyrfu úr Evrópu.

Nokkur mál voru tekin til umræðu meðan atkvæði annarrar atkvæðagreiðslunnar voru talin. Menn biðu spenntir í sætum sínum og satt að segja var hugurinn alls ekki við þau mál, sem til umræðu voru. Loks komu teljendurnir þrír fram á sviðið og um leið og við sáum glaðlegt bros og hýran svip Guðmundar vissum við hvernig farið hafði.

Harry Golombek settist niður, tók hljóðnemann og sagði: „Rabell Mendez 34 atkvæði, Friðrik Ólafsson 57.“

Brast þá á langvinnt lófatak og fagnaðarhróp gullu um salinn. Að okkur Íslendingum flykktust menn til að óska okkur til hamingju og einn þeirra fyrstu var heimsmeistarinn í skák, Anatoly Karpov.

Dr.  Dorazil, forseti Skáksambands Austurríkis og forseti þess FIDE-svæðis sem Ísland tilheyrir, færði Einari S. Einarssyni kampavínsflösku, sem hann sagði framlag Austurríkis og V-Þýzkalands til fagnaðarhófsins, en með honum var dr. Kinzel, forseti v-þýzka sambandsins.

Þessi mikli sigur er ekki aðeins sigur okkar vinsæla stórmeistara, heldur og sigur íslenzkrar skákhefðar og viðurkenning þess álits sem Ísland hefur unnið sér í skákheiminum. Mönnum er í fersku minni heimsmeistaraeinvígið í Reykjavík 1972. Hér er fjöldi skákmanna og blaðamanna, sem þar var, og menn minnast einnig Reykjavíkurskákmótsins á sl. vetri. Það kemur greinilega fram í samtölum við menn að Íslandi er treyst til forystu í skákmálum eins og nú hefur bezt sannast í kjöri Friðriks Ólafssonar.

Úrslit forsetakjörsins lágu fyrir klukkan 12:30 í dag að argentínskum tíma (15:30 að íslenzkum tíma) og var þá gert fundarhlé, en frambjóðendurnir höfðu yfirgefið salinn eftir að þeir höfðu flutt stutt ávörp í fundarbyrjun. Um miðjan dag var svo haldið áfram og kom þá Friðrik á fundinn.

Hann flutti þá ræðu og þakkaði það traust og þá sæmd sem sér hefði verið sýnd. Hann kvað sér ljóst að hann hefði axlað þunga byrði og mikla ábyrgð, en með góðum stuðningi og hjálp þeirra sem vildu Alþjóðaskáksambandinu vel, yrði ok hans létt. Var máli hans tekið með langvinnu lófataki.

Einar S. Einarsson forseti SÍ sagði eftir kjör Friðriks: „Þetta er mikill fagnaðardagur fyrir okkur Íslendinga. Við í skáksambandinu höfum unnið sleitulaust í hálft annað ár að því að ná þessum árangri. Skáksambandið studdi framboð Friðriks Ólafssonar af heilum hug og lagði sig allt fram um að ná sigri. Í dag er þessum sigri náð og honum skulum við öll fagna. Fyrir Ísland sem skákland og menningarland er þetta stór dagur. Okkar framlag í skákheiminum hefur hlotið alheims viðurkenningu og fyrir það erum við þakklátir og vegna þess snortnir. Ég óska Friðriki Ólafssyni alls velfarnaðar í hans nýja og vandasama embætti og Skáksamband Íslands fagnar því að þungamiðja skáklífsins í heiminum hefur nú færzt til Íslands.“

1978: Sigur Friðriks – sigur Íslands

Jóhann Þórir Jónsson, DV 14. nóvember 1978.

Sá einstæði atburður hefur nú gerst að Íslendingur hefur hlotið kjör sem forseti Alþjóðasambands, sem telur milljónatugi innan sinna vébánda.

Þrátt fyrir þrotlausa vinnu margra manna að undirbúningi þessa máls, standa menn nú kannski örlítið reikandi, sem vonlegt er. Sigurinn kom nokkuð óvænt, þótt vonir væru heitar. Nú dynja spurningarnar. „Hvernig gat þetta eiginlega skeð, hvernig standa málin og hvers virði er þetta landi og þjóð?“

Eflaust eru syörin mörg og margvísleg, en þegar Dagblaðið bað mig að svara þessum spurningum varð ég reyndar tregur til. Ástæðan er augljós. Að mínu mati ættu þeir að svara, sem við eldana sitja. En hvað um það, þrautseigja þeirra Dagblaðsmanna bar mig ofurliði.

Í mínum huga á þetta langan aðdraganda, sem hægt og bítandi þéttist að þessum glæsisigri. Í því sambandi langar mig að taka spyrjandann með mér í snögga ferð um íslenzka skáksögu og svara þannig, á þann eina hátt sem ég kann.

Skáklistin hefur verið landlæg hér á landi frá ómunatíð og í gullaldarbókmenntum okkar er víða getið gjörvilegra skákmeistara, þótt lítið sé um það vitað í dag, hvernig manntafl var þá leikið.

Hin eiginlega eiginlega skáksaga okkar getur þó varla talist hefjast fyrr en um síðustu aldamót. Um það leyti voru stofnuð fjölmörg taflfélög í landinu og fyrsta tímaritið um skák hóf göngu sína. Á þessum árum kom hingað fyrsti alþjóðlegi skákmeistarinn, blaðamaðurinn W. Napier. Hann hafði náð góðum árangri við skákborðið, meðal annars hlotið annað sætið á alþjóðlegu skákmóti sem háð var í Buffalo, en Pillsbury sigraði.

Á þeim árum vorum við þegar farnir að vekja athygli. Nægir þar að geta Magnúsar Magnússonar Smith, sem fluttist til Kanada og vann marga glæsta sigra við skákborðið, og Björn Kalman fluttist einnig út og tefldi talsvert, en hann er af mörgum talinn fyrirmynd og hvati Stefáns Zweigs, er hann hugsaði upp smásöguna Manntafl.

Hin eiginlegu millilandaskipti okkar við skákborðið hefjast ekki fyrr en 1925, sama ár og Skáksamband Íslands var stofnað. Þá tefldum við radioskák við Noreg og skömmu síðar við Dani. Fyrri keppnina unnu Íslendingar með 1,5-0,5 og sömuleiðis fór seinni keppnin.

Við þessa sigra óx okkur ásmegin og nú var farið að horfa til framandi landa með frekari dáðir í huga. 1930 tökum við fyrst þátt í ólympíuskákmóti, og árið eftir kom A. Aljekín hingað og tefldi við okkur fjöltefli.

Nú, fram streymir tíminn, en það varð ekki fyrr en 1939 að við vinnum til verðlauna á erlendri grund. Þá hrepptum við forsetabikarinn fagra á ólympíumótinu í Buenos Aires, þar sem hin miklu tíðindi gerast nú.

Erlendur frami

Til gamans væri að geta þess að einn af keppendum Íslendinga á þessu móti, Guðmundur Arnlaugsson rektor, er eini Íslendingurinn, sem komizt hefur í landslið erlendra þjóða, mér vitanlega. Honum var boðið að tefla með landsliði Dana á þessu sama móti.

Áratugurinn 1940-50 er um margt merkilegur, þá koma fram einstaklingar, sem kveða sér hljóðs á erlendum vettvangi. Fyrstur í röðinni var Guðmundur S. Guðmundsson, en hann tefldi í Hastings 1946 og hlaut þriðja sæti með sex vinninga af níu mögulegum. Vakti þetta að vonum talsverða athygli.

Baldur Möller gerði sér lítið fyrir og varð fyrstur til sigurs á fjölþjóðamóti, er hann varð skákmeistari Norðurlanda 1948. Þetta afrek endurtók hann 1950 er hann vann Norðurlandamótið sem haldið var í Reykjavík og var þá jafnframt fyrsta fjölþjóðamótið sem haldið var hér á landi.

Fer nú atburðarásin að þéttast verulega. Friðrik Ólafsson er kominn til sögunnar og sigraði á Norðurlandamótinu 1953.

1954 komast Íslendingar í fyrsta sinn í röð fremstu skákþjóða heims er þeir tefla í A-riðli ólympíumótsins í Amsterdam. Árið 1955 sigraði Friðrik argentínska skákmeistarann Hermann Pilnik glæsilega í einvígi, 5-1, og um áramótin 1954-55 verður hann ásamt V. Korchnoi sigurvegari í Hastings á mjög sterku þingi. Með Friðrik eignumst við okkar fyrsta stórmeistara, og hann er sá eini okkar, sem komizt hefur í kandídatakeppni, en þar eru lokaátökin fyrir heimsmeistaraeinvígið.

1957 komu hingað tveir sovézkir skákmeistarar og árið 1960 var haldið stórmót með erlendri þátttöku. Í lok þessa móts kom Bobby Fischer hér fyrsta sinni en honum hafði verið boðið á stórmótið en kom of seint. Ekki fór þó svo að hann tefldi ekki. Var slegið upp fjögurra manna móti, sem Fischer vann auðvitað.

Það er þó ekki fyrr en 1964 að fyrsta eiginlega alþjóðlega skákmótið er haldið hér og þegar við vorum komnir á bragðið var ákveðið að halda alþjóðlegt skákmót annað hvert ár. Hefur svo verið síðan. Þetta sama ár eignuðumst við okkur annan titilbera, er Ingi R. Jóhannsson hlaut nafngiftina alþjóðlegur meistari í skák. Margir eru þeirrar skoðunar að hann hefði hæglega getað bætt þeim stóra við, en hann lagði skákiðkun að mestu á hilluna eftir þetta, enda aðrir tímar en nú.

1970 eignuðumst við einn enn alþjóðlegan meistara, Guðmund Sigurjónsson, en síðar eftir langt hlé frá skákinni tók hann sig til og krækti í stórmeistaratitil.

Mesti viðburður FIDE

Árið 1972 verður hins vegar okkar stærsti skákviðburður og ef vitnað er í orð Gligoric þá segir hann á einum stað í framboðsbæklingi sínum, að heimsmeistaraeinvígið i Reykjavík 1972 hafi verið mesti viðburður í sögu FIDE.

Skipulagning þessa einvígis þótti með slíkum hætti, að aðrar þjóðir fylltust lotningu. Þessi atburður varð til þess, að við vorum loks teknir í úrvalssveitir skákheimsins og af mörgum álitnir fremstir á þessu sviði, þ.e.a.s. að skipuleggja og halda mikla skákviðburði.

Alþjóðlegu mótin sem hófust 1964 voru forgrunnurinn að þessu áliti. Skákmeistarar heimsins sóttust eftir þátttöku hér og voru erlendis ósparir á lofið Íslendinga fyrir mótshaldið. Heimsmeistaraeinvígið 1972 var loka-hápunkturinn.

Á þessu augnabliki vorum við líka orðin óumdeilanlega sterk skákþjóð og höfðum fram til þessa unnið Norðurlandameistaratitilinn oftar en nokkur frændþjóð okkar frá 1948 og reyndar jafnoft og þær allar til samans.

Viðmiðun við Ísland

Það er þvi eðlilegt að á þessu augnabliki hefjist ákveðin viðmiðun erlendra þjóða við Ísland hvað skák snertir. Við þetta bætist síðan að nú eigum við tvo stórmeistara, þrjá alþjóðameistara og síðast en ekki sízt heimsmeistara. Það er alveg ótrúlegt, hve jafn fámenn þjóð og einangruð hefur náð langt í þessari andans íþrótt.

„Frábær maður og frábær þjóð“

Þegar við horfum á kjör Friðriks Ólafssonar með hliðsjón af skáksögu okkar, stígandinni sem þar hefur átt sér stað og síðan frábærs árangurs hans sjálfs við skákborðið, fer vafalítið að skýrast hvers vegna slíkur heiður fellur okkur í skaut. Hér sameinast frábær maður og frábær þjóð. Hvað er hægt að hugsa sér betra?

Eftir Friðrik bíða mörg vandamál úrlausnar, vandamál sem erfitt er að leysa. Þar treystir hann á landa sína og ríkisstjórn til aðstoðar.

Á undanfömum árum hafa pólitísk áhrif og afskipti aukizt til mikilla muna innan FIDE. Er svo komið, að á stundum eru það ekki skákmennirnir sem ráða ferðinni. Af mörgu ástæðum er þetta skiljanlegt, þótt það sé óviðunandi.

Í mörgum fjölmennustu aðildarlöndum FIDE ríkir stjórnarskipulag, sem kallar á bein afskipti og skipulagningu æðstu stjórnvalda um skákmálefni jafnt og önnur. Þessar þjóðir eiga það til að senda pólitíska fulltrúa til fundarsetu FIDE fremur en skákáhugafólk. Það vill þvi tíðar brenna við, að önnur málefni og aðrar hliðar málanna lendi í brennidepli, fremur en þau sem eiga að vera til umræðu.

Burt með pólitísk afskipti

Viðhorfin mótast þá fremur af stefnu stjórnvalda viðkomandi þjóða en af hagsmunum skákhreyfingarinnar. Því miður er FIDE ekki einu samtökin, sem svona er ástatt fyrir, en hér ætlar Friðrik að freista gæfunnar. Hann vill FIDE fyrir skákmálefni eingöngu. Burt með pólitisk afskipti.

Hvernig til tekst við þetta mikilvæga verkefni getur framtíðin ein sagt um. Lausnin liggur ekki á einni hendi. Hér þarf samstöðu til.

Nú, en mörg önnur viðfangsefni bíða. Fyrirkomulagið um heimsmeistaraeinvígið hefur verið á tilraunastigi, og breytinga er þörf. Hvað um Fischer? Vafalítið fær Friðrik þar gnægð verkefna, þótt annað væri ekki um að ræða. En við skulum bíða með frekari vangaveltur í þessu sambandi, eftir Friðriki heim.

Eitt er vist, að hér er um skemmtilegt en viðsjált verkefni að ræða, sannkallað stórmeistaraverkefni.

„Hvað höfum við upp úr?“

Nú, hvað höfum við svo upp úr krafsinu? Þurfum við í raun að hafa eitthvað upp úr krafsinu? Verður mér á að spyrja til baka.

Með kjöri Friðriks höfum við fengið einhverja mestu viðurkenningu, sem hægt er að hugsa sér, og það er ekki svo lítið. Nú er aðeins að standa sig og þá koma kannski nýir sigrar í kjölfarið. Þetta gæti verið fyrsta skrefið í þá átt að verða forystuþjóð í víðari skilningi.

Okkur hefur verið talin trú um, að fyrir fámennt eyland eins og Ísland, sem þó hefur yfir slíkum auðæfum að ráða, sé það lífsspursmál að vera til í umheimsvitundinni. Þannig telja margir, að landhelgissigrarnir hafi fengið gott veganesti með einvíginu 1972.

Einvígið færði Ísland inn í alla stærstu fjölmiðla heims, og í kjölfar frétta af þvf komu svo fréttir af landhelgisdeilunni. Bretar áttu því erfitt með að brjóta okkur á bak aftur með þvingunum og því síður að þeir gætu tekið okkur herskildi.

Augljöst er því mikilvægi þeirra atburða, er Friðrik náði kjöri sem forseti FIDE. Hann verður boðberi íslenzkrar menningar um heim allan, og Ísland sem höfuðstöðvar FIDE verður í auknum mæli í heimsfréttum.

Með þessum frábæra sigri höfum við jafnt og Friðrik fengið tækifæri. Tækifæri sem verður að nota. Við eigum að hlúa að þessum vaxtarbroddi eins og framast er unnt og þá er afraksturinn vís.

Við skulum hafa í huga, að fjölmargir ef ekki flestir forsetar framandi skáksambanda eru auðmenn og/eða miklir höfðingjar. Þetta eru menn er eiga í umtalsverðum viðskiptum. Það væri því ekki úr vegi að gera þeim „íslenzka veizlu“ á góðum degi. Hver veit, hvað af því kynni að leiða, hver veit?

Íslenzkir skákmenn hafa nú svarað áfrýjunarorðum Einars Benediktssonar í Íslandsljóði:

Reisn í verki

viljans merki, —

vilji er allt, sem þarf.

Þeim, sem vilja

vaka og skilja,

vaxa þúsund ráð.

 

 

Botvinnik telur Friðrik meðal 5 efnilegustu skákmanna heims

Botvinnik
Botvinnik varð þrisvar heimsmeistari, oftar en nokkur annar. Hann sagði 1958 að í framtíðinni myndu vélar geta leikið betur en stórmeistarar.

Sovézka blað.ð Literaturnaja Gazeta hefur spurt Botvinnik, heimsmeistaramót í skák, hverja hann telji mesta hæfileikamenn í skákíþróttinni meðal hinna yngri skákkappa heimsins.

Botvinnik svaraði blaðinu með því að telja upp sex efnilegustu skákmennina, og nefndi þá í þessari röð: sovézku stórmeistararnir Mikael Tal og Boris Spasskí, hinn 15 ára gamli Bandaríkjameistari R. Fischer, danski stórmeistarinn Bent Larsen, Íslendingurinn Friðrik Ólafsson og Júgóslavinn A. Matanovic.

Þá spurði blaðið Botvinnik líka, hvort hann áliti að hægt væri að smíða vélar, sem gætu leikið skák.

Botvinnik, sem er orkuverkfræðingur að mennt, svaraði:

Ég vinn ætíð mín daglegu störf í rannsóknarstofum raforkumálaráðuneytisins og hef ekki mikla þekkingu í vélheilafræði, en held þó að í framtíðinni muni vélar geta leikið betur en stórmeistararnir. Þegar svo er komið, er greinilega ekki nema um tvennt að velja. Það verður að heyja tvenns konar heimsmeistarakeppni — aðra fyrir heimsmeistara og hina fyrir skákvélar.“

Þjóðviljinn, 20. júní 1958.

Tal sigurvegari í svæðakeppninni í Portoroz – Friðrik Ólafsson kandidat til heimsmeistarakeppni

Portoroz 12. september.

Langri og harðri keppni er lokið.

Með úrslitum biðskáka í gær fékkst úr því skorið hverjir skákmeistaranna, er þátt tóku í alþjóðasvæðakeppninni hér, halda áfram á næsta ári hinu erfiða klifi á Himalaja skákarinnar. Þeim mönnum sem geta komið til með að ná toppnum á næsta ári og heyja hina erfiðu glímu við Botvinnik árið 1960 hefir nú fækkað úr þeim milljónum, sem þreyta keppnisskák víðsvegar um heim, niður í þá átta, sem nú hafast við í efstu birgðastöð fjallsins mikla. Þeir eru: Vassily Smisloff, fyrrverandi heimsmeistari, Paul Keres, er varð annar í síðasta kandidatamóti, og svo sex efstu frá Portoroz, þeir Mikail Tal, Svetosar Gligoric, Tigran Petrosjan, Paul Benkö, Friðrik Olafsson og síðast en ekki sízt, undrabarnið Robert (Bobby) Fischer.

Hversu keppnin var hörð sýnir bezt fall Bronsteins, Szabós, Filips, Pannos, Averbachs og annarra. Skákmenn um allan heim harma að enginn Bronstein, sem teflir meira fyrir listina en vinningana, mun skapa ný meistaraverk í næsta kandidatamóti, en gleðjast yfir framgangi hinna ungu meistara Fischers, Friðriks og Tals, sem án efa munu halda uppi merki Bronsteins.

Gengi Friðriks í mótinu.

Það sem einkum vakti athygli í upphafi keppninnar var velgengi Friðriks, Benkös, Petrosjans og Matanovics, ásamt hinni slæmu byrjun Szabós og friðsemd Bronsteins.

Blöðin hér skrifuðu frá upphafi einna mest um Friðrik, ef þeir heimamenn Gligoric og Matanovic eru frátaldir. Glæsilegur sigur yfir Szabó í fyrstu umferð, síðan þrjú stórmeistarajafntefli, vinningur yfir Cardoso og æfintýraleg björgun úr tapstöðu á móti Gligoric, sem jafnvel reyndist vinnandi sókn, er árangur, sem jafnvel Botvinnik gæti verið fullsæmdur af, enda hafði Friðrik forustuna eftir sex umferðir ásamt Petrosjan, hálfum vinning ofan við sjálfan Rúslandsmeistarann, sem hafði tapað fyrir Matanovic í fjórðu umferð.

Síðan kom erfiðasti hjallinn hjá Friðriki, töp á móti tveimur af minni spámönnunum í sjöundu og níundu umferð. Um þetta leyti var velgengi Petrosjans hvað mest. Vera má að Friðrik hafi teflt of stíft upp á efsta sætið í mótinu! Öruggasta leiðin til þess að komast upp, er sú að vinna mótið, var orðtak, sem átti nokkurn hljómgrunn hér, þótt hitt væri viðurkennt að betra er hálfur hlutur en enginn. Skákirnar voru lærdómsríkar fyrir Friðrik að því leyti, að ekki er æskilegt að komast alltaf í timaþröng. Þótt heppnin kunni að vera viðlátin á stundum, kann hún að þurfa öðrum að sinna í annað skipti.

Ef sigurinn yfir Szabó hefir minnt á Aljekín og sigurinn yfir Gligoric á Reshevsky, þegar hann var upp á sitt bezta, þá minntu nú næstu sigrar á Dr. Lasker, sem oft gaf andstæðingnum eitthvað til þess að þeir héldu að þeir væru að vinna og gættu sín miður. Peð eða tvö, skiptamunur, eða sóknarkorn, getur hentað í þessu augnamiði. Friðrik gaf Fischer og Larsen skiptamun. Báðir „áttu“ að ná á. m. k. jafntefli eftir byrjunina, en skákin hefir sem kunnugt er þrjú stig. Forgjöf á fyrsta stigi þýðir ekki ætíð velgengni á því næsta. Sigurinn yfir Averbach var hins vegar eins vel verðskuldaður eins og ósigurinn á móti Bronstein. Telur Friðrik skákina við Averbach hans beztu í mótinu. Fer vel á því, þar eð sú skák var fyrsta skák stórmeistarans Friðriks Ólafssonar.

Eftir sigurinn yfir „erfðafjandanum“ Larsen í 14. umferð hafði Friðrik aftur nálgast mjög efstu Rússana. Brautin upp virtist því næsta greið, en ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Einn rangur varnarleikur gegn örvæntingarsókn Sanguinettis kostaði hálfan vinning, og með svörtu gegn hinum örugga Panno var aldrei að búast við meiru en jöfnum hlut. 10 vinningar og hjáseta eftir 17 umferðir var þó fyllilega „samkvæmt áætlun“. Þóttumst við nú þurfa 2 1/2 vinning úr síðustu fjórum skákunum til þess að vera öruggir, en framundan voru tveir slavneskir berserkir. Ákveðið var að tefla til vinnings með hvítu gegn Tal. Vinningur gegn honum gat þýtt sigur í mótinu. Tókst rússneska meistaranum ekki að jafna taflið og hafnaði Friðrik jafnteflistilboði í 19. leik. Tal tefldi jafnt upp á tímann sem stöðuna, eins og hann á vanda til. Fór staða hans síversnandi eins og timaþröng Friðriks. Skömmu áður en skákin fór i bið, sást Friðriki yfir greinilega vinningsleið, og vegna þreytu og vandasamrar stöðu notaði hann þrjú kortér til undirbúnings biðleiksins. Við rannsókn biðskákarinnar fannst engin vörn hjá Tal, en hætta var á, að hann gæti villt Friðriki sýn með óvæntum leikjum, þar eð aðeins kortér var eftir af biðskákartima. Sá ótti okkar reyndist ekki ástæðulaus eins og á daginn kom.

Skákin við Petrosjan varð annað æfintýri, en í öðrum dúr. Hér var það Friðrik, sem þurfti að klóra í bakkann. Eftir aðeins 15 leiki hafði hinn nýi stórmeistari notað tvær stundir til þess að fá eina af ljótustu stöðum, sem sáust í mótinu, en þá kom íslenzki víkingurinn fram í Friðriki og ný peðsfórn setti „Tígrisdýrið“ í vanda. Var það sérstök sýning fyrir okkur, sem þekkjum Petrosjan sem einn snjallasta hraðskákmann heimsins, að sjá hann svitna af vanda, er hans eigin sekúndur voru að renna út og andstæðingurinn hótaði skákum og hrók. Var ljóst að áhorfandanum Tal var ekki rótt. Tap landa hans fyrir íslenzka náttúrubarninu gat haft í för með sér að hann sjálfur Rússlandsmeistarinn, „yrði“ að tapa, ef landi hans átti að ná upp. Margt getur skemmtilegt skeð. Var það ekki Petrosjan, sem hafði leitt mótið lengst af í stórum stíl? En „Armeniumenn hafa nú níu líf, eins og kötturinn“, segir Mikojan, þegar hann er spurður hvers vegna hann hafi staðist allar „breytingar“ á stjórn Ráðstjórnarríkjanna. Þetta virtist nú sannast á svarta Armenanum, sem að vísu er ættaður frá Grúsíu. Hann fann rétta leikinn og hafði tvö peð yfir í hrókaendatafli, er skákin fór í bið. Annað peðið var þó feigt og jafnteflislíkur góðar. Biðskákin var ekki létt, en endaði með skiptum hlut.

Þá kom síðasta áfallið – tap fyrir Sherwin í næst síðustu umferð. Ég var upptekinn við biðskákina við Petrosjan og slapp því við að sjá þá skák. Er hér var komið voru Tal, Gligoric, Benkö og Petrosjan orðnir næsta öruggir upp, og þeir Bronstein og Fischer hálfum vinningi ofan við Friðrik. Var nú „síðasta vonin“ sú, að Friðrik ynni De Greiff, og fengi að tefla um kandídataréttinn við Fischer, og ef til vill aðra þá, er voru jafnir Friðriki fyrir síðustu umferð.

Staða efstu manna var nú þessi:

1. Tal 13 v.
2. Gligoric 12 ½
3. Petrosjan 12 ½
4. Benkö 12
5.-6. Bronstein og Fischer 11 ½
7.-10. Friðrik, Averbach, Szabó og Pachman 11 v.

En sjaldan hefir síðasta umferð í stórmóti gengið „eftir áætlun“. Engan mun þá hafa grunað, að slík stórtíðindi mundu gerast, að sigurvegarari tveggja alþjóðasvæðakeppna, Bronstein, er teflt hafði 58 skákir í þessum mótum án taps, mundi verða sleginn út af unglingi frá Asíu, með tapi í þeirri 59. Var það vissulega hvalreki fyrir Fischer, sem eftir jafntefli við Gligoric með leið, sem við höfðum rannsakað saman í Ljublana, Bandaríkjamenn og Íslendingar, var nú orðinn kandidat, 15 ára að aldri. Leið þessi á sér merka sögu; er hún endurbót á taflmennsku Argentínumannanna þriggja, Najdorfs, Pannos og Pilniks, sem samtímis töpuðu fyrir þremur Rússum í alþjóðakeppninni í Gautaborg 1955. Taldi Fischer sig hafa fundið endurbót, er nægði til vinnings fyrir svartan, en í Ljubljana komumst við að þeirri niðurstöðu, að hún leiddi til jafnteflis.

Valt nú á biðskákum Friðriks og Szabós um síðasta kandidatinn. Hafði Szabó engu betra á móti Panno og samdist brátt um jafntefli. Aður höfðu þeir Averbach og Pachman orðið að láta sér nægja jafntefli. Rannsóknir á biðstöðu Friðriks Við De Greiff höfðu gefið til kynna að jafntefli væru rökrétt úrslit, en De Greiff lék veikum biðleik og Friðrik náði sókn. Var það von margra að hún nægði til vinnings, svo komizt yrði hjá nýju sex manna móti um sjötta sætið. Íslenzka „nýlendan“ í Portoroz horfði á endirinn. Þeir Ingimar Jónsson og Reimar Sigurðsson höfðu nú bætzt í hópinn, eftir að hafa leigt sér bifreið í Þýzkalandi og skroppið suður. – Sífellt hallaði á De Greiff og var staða hans orðin vonlaus er hann lék ljótum leik. Óverjandi mát – og Friðrik var kandidat.

Freysteinn Þorbergsson.

2015: Friðrik heiðursborgari í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæmdi Friðrik Ólafsson stórmeistara í skák, heiðursborgaranafnbót við hátíðlega athöfn í Höfða, 28. janúar, tveimur dögum eftir að meistarinn fagnaði áttræðisafmæli sínu. Friðrik Ólafsson er aðeins sjötti einstaklingurinn sem gerður er að heiðursborgara Reykjavíkurborgar. Þeir sem hlotið hafa þessa nafnbót áður eru; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010, Erró árið 2012 og Yoko Ono árið 2013.

Í frétt frá Reykjavíkurborg um hinn nýja heiðursborgara sagði meðal annars:

2

Með því að sæma Friðrik Ólafsson heiðursborgaratitli vill Reykjavikurborg þakka Friðriki fyrir árangur hans og afrek á sviði skáklistarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði það vel við hæfi að heiðra Friðrik á áttræðisafmælinu, en hann átti afmæli þann 26. janúar sl. Dagur sagði að áhugi á skák væri óvíða meiri en á Íslandi og líklega hefði enginn Íslendingur haft jafn mikil áhrif á skákíþróttina hérlendis og Friðrik Ólafsson. Hans dýrmæta framlag til íslenskrar menningar væri þakkarvert.

Í ræðu borgarstjóra kom fram að Friðrik hafi ungur að árum sýnt óvenjulega dirfsku og hugkvæmni og í skákum hans hafi hann sýnt meiri tilþrif en menn áttu að venjast. Hann var ungur að árum eða aðeins 17 ára gamall þegar hann varð Íslandsmeistari, 18 ára Norðurlandameistari og stórmeistari í skák árið 1958 fyrstur íslenskra skákmanna.

Friðrik lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands og starfaði hjá dómsmálaráðuneytinu áður en hann varð atvinnumaður í skákíþróttinni árið 1974. Friðrik var forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE á árunum 1978-1982 og að því loknu starfaði hann sem skrifstofustjóri Alþingis. Á sínum skákferli vann Friðrik allmörg alþjóðleg skákmót, varð skákmeistari Norðurlanda og sex sinnum varð hann Íslandsmeistari.

3

Friðrik þakkaði fyrir heiðursnafnbótina og sagði að sér þætti vænt um titilinn því honum þætti vænt um Reykjavík. Hann sagðist oft hafa gengið fram hjá Höfða þegar hann var ungur að árum á leið í og úr skóla og aldrei hefði honum dottið í hug að 70 árum seinna stæði hann einmitt í Höfða og tæki við heiðursnafnbót.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, tilkynnti að Skáksambandið hefði stofnað sjóð, Friðrikssjóð, sem yrði varið til að styrkja unga skákmenn. Þá færði hann Friðriki einnig heiðursskjal frá alþjóðaskáksambandinu FIDE þar sem hann er gerður að heiðursfélaga sambandsins.

Það er Reykjavíkurborg mikill heiður að Friðrik Ólafsson sé heiðursborgari Reykjavíkur.

1959: Ástin kostaði hann tvær skákir

Ástin kostaði hann tvær skákir

Morgunblaðið 16. ágúst 1959.

Ekki verður langt þangað til skákmeistarinn okkar, hann Friðrik, verður enn einu sinni á dagskrá. Nú fer hann til Júgóslavíu til tveggja mánaða baráttu við sjö aðra snillinga um það, hverjum falli sá heiður í skaut að fá að skora á sjálfan heimsmeistarann til annarrar enn harðari baráttu.

Það er búið að segja svo mikið og skrifa um Friðrik, að við það er sennilega engu að bæta, nema þá, að hann er ári eldri en hann var í fyrra, sem sagt 24 ára — og ólofaður, a. m. k. opinberlega. — En eru þær fallegar í Júgóslavíu? spyrjum við, því að í rauninni átti þetta að verða viðtal og á einhverju verður að byrja.

Það er misjafnt, segir hann — fallegri eftir því sem sunnar dregur, en ég hef enn ekki komizt í syðsta hluta landsins. Nú verður teflt í þremur borgum og byrjað nyrzt, enda eins gott. Og svo hlær hann, og við líka.

— Já, þið grúfið yfir taflborðinu dag og nótt — ekkert kvíðinn eða taugaspenntur?

1959 Sarpur - Astin kostaði hann 2 skákirÞví neita ég ekki, þetta er ekkert tilhlökkunarefni. — Menn eru líka alltaf taugaspenntir fyrstu umferðirnar. Og það þýðir aldrei að slappa af. Um að gera að belgja sig út í upphafi og gefa aldrei eftir, þá hjaðnar maður niður og nær sér ekki á strik aftur. Annars eru biðskákirnar erfiðastar, þó að hitt geti verið nógu erfitt.

— Geta skákmenn nokkuð undirbúið sig fyrir keppnisdag, kemur þetta ekki allt af sjálfu sér?

Yfirleitt reynir maður að gera einhverja áætlun, athuga skákir mótherjanna, reyna að átta sig á skákstílnum, finna veilur — og notfæra sér þær.

— Það er þá heilt bókasafn í ferðatöskunni?

Ég segi ekki bókasafn, en nokkrar bækur. Annars gildir sama um skákina og allt annað. Það er sama hvern fjandann maður sökkvir sér niður í. Ævin endist ekki til að kafa til botns í neinu, því meira sem menn lesa og velta vöngum yfir einhverju efni — þeim mun Ijósari verður þeim fákunnáttan. Skákin hefur engin endamörk a. m. k. komast menn aldrei í sjónfæri við þau.

— En er ekki góð vinátta með ykkur skákmönnunum samt sem áður — enda þótt baráttan sé svona hörð?

Já og nei. Við erum kurteisir og tillitssamir hver við annan. En það er alltaf eitthvað, sem við dyljum — alltaf eitthvað á milli okkar, sem ekki er hægt að brjóta. Keppendur, sem koma oft saman á svona mót, verða aldrei vinir. Við gætum aldrei rabbað saman í hóp eins og gamlir kunningjar.

Samræður færu alltaf út í skák, þar eiga allir sín leynivopn, þá yrðu menn þvingaðir eða lygnir — eða þá, að farið væri út í algerar saumaklúbbsaðferðir — baknaga einhverja, sem ekki eru viðstaddir.

Og Friðrik brosir. En hann heldur áfram: Ég varð þess vegna ekki fyrir svo geysilegum vonbrigðum, þegar ég vissi, að Bent Larsen hafði brugðizt [sem aðstoðarmaður]. Ég er ekki að segja, að hann sé slæmur. En við erum keppinautar engu að síður og milli okkar er alltaf sami veggur, sem er á milli allra keppinauta.

Ég held, að mig langi frekar til þess að Ingi R. verði með mér. Það er ekki aðeins gott að hafa mann, sem getur sökkt sér niður í skákirnar með mér, því að jafn nauðsynlegt er að hafa einhvern, sem hægt er að rabba við um allt annað en skák og gleyma skákinni stund og stund.

Annars væri ég eins og einangraður fangi í skákþrautum allan tímann.

— Hafa þá ekki margir skákmenn eiginkonurnar með á svona mót?

Það er nú upp og ofan, en reynzlan er víst sú, að betra sé að skilja konurnar eft ir heima, a. m. k. fyrir nýgifta. Zsabo kom t. d. einu sinni nýgiftur til móts. Hann var fertugur, hún 17 ára — svo að ekki vantaði sæluna. Hann tapaði líka tveimur fyrstu skákunum, segir Friðrik og hlær. — Það er ekki hægt að hugsa um allt í einu.

— En hvað hefur þú þá meðferðis auk bókanna?

Ég hef stundum harðfisk.

1959: Friðrik í viðtali um Áskorendamótið: Töpin fá óeðlilega lítið á mig

Töpin fá óeðlilega lítið á mig

Birtist í Morgunblaðinu 13. október 1959. Þá var Áskorendamótið mikla í Júgóslavíu hálfnað.

MARGT hefur verið skrifað og skrafað um [Áskorenda]mótið hér í Júgóslavíu. Flestir fréttamenn hafa reynt að ná víðtölum af keppendum sjálfum,en undirritaður hefur til þessa komið sér hjá að kvabba á kunningjum sínum. Mörgum á Íslandi mun þó leika hugur á að heyra álit keppenda sjálfra á andstæðingum sínum og frétta, hvernig júgóslavnesk blöð skrifa um mótið.

Skal þvi reynt að verða eitthvað við þessum óskum í síðari helmingi mótsins. Fyrst af öllu mun menn fýsa að frétta eitthvað eftir Friðrik sjálfum. Nú er það svo, að ef spyrja ætti Friðrik eitthvað um mótið, væri það líkt og að leita í eigin barm, svo kunnugir erum við orðnir.

Það var því ætlunin að birta hér viðtal, sem fréttamaður blaðsins Nýja Makedónía átti við Friðrik 29. september, en þar sem blað þetta er gefið út í fjarlægum landshluta, og greinin hefur enn ekki borizt, er þetta er ritað, en skákirnar komnar, sem töfðu þessa grein, þá skal viðtalið rakið eftir minni.

Ætti það að vera hægt, þar sem fréttamaður talaði rússnesku, og undirritaður varð að vera túlkur.

Fréttamaður: „Hefur sá orðrómur við rök að styðjast, að þú gangir ekki heill til leiks að þessu sinni? Vitað er að þú ert ekki sterkur líkamlega, en er einnig um einhvern lasleika að ræða? Og ef svo er ekki, getur þú þá gefið einhverja skýringu á þinni slælegu frammistöðu til þessa?“

Friðrik: „Nei, ég er alveg heill heilsu, en það hefur verið einhver undarlegur sljóleiki yfir mér hér i Bled. Það er eins og mig skorti hörkuna eða sigurviljann, sem ég hafði áður. Mér finnst, að töpin núna fái eitthvað svo lítið á mig, óeðlilega lítið.“

Fréttamaður: „Finnst þér þú hafa minna úthald en áður, ekki hafa nóg úthald fyrir heila skák? Eða hvaða skýringu getur þú gefið á því, sem gerðist í gær þegar þú lékst niður góðu tafli á móti Smyslov?“

Friðrik: „Allir menn þreytast í fimm tíma kappskák, ég held að ég þreytist hvorki meira en aðrir eða meira en áður, en auk þessa sem ég ságði áðan um skort á skýrri hugsun og sigurvilja, þá kom hávaðinn í áhorfendum sérlega illa við mig í gær, við erum ekki vanir slíku á Íslandi en auk þess held ég, að ég hafi ekki vel áttað mig á stöðunni.“

Fréttamaður: „Já, þetta með áhorfendur er atriði sem ekki einungis má komast á prent, heldur á að gera það. Fleiri hafa kvartað yfir þessu sama, það er vitanlega mjög óþægilegt í mikilli tímaþröng, og vonandi að áhorfendur í Zagreb og Belgrad láti sér segjast og verði eitthvað skárri. En hvað getur þú sagt mér um álit þitt á öðrum keppendum, og hvað álitur þú um horf ur þeirra í mótinu? Og loks, hvern telur þú sigurstranglegastan?“

Friðrik: „Mér finnst Keres tefla bezt og vera líklegastur til sigurs. Hann teflir mjög stíft til vinnings, og það ber oftast góðan árangur. Tal teflir einnig mjög hvasst og hefur líka sigurlíkur, en hann skortir þolinmæði, vill vinna of fljótt, þegar hann er kominn með betra, og öryggið því minna.

Petrosjan getur einnig orðið hættulegur, en mér finnst hann vera of ragur, tefla of varlega. Gligoric hefur verið heppinn, mjög heppirin til þessa, en hann hefur ekki teflt vel, sérstaklega tefldi hann illa í byrjun mótsins, en trúað gæti ég, að hann yrði skæður í lokin. Um Smyslov er erfitt að segja hvers vegna hann stendur sig svona illa. Hann virðist taka töpunum jafn létt eins og ég.“

„Nei, mér finnst einmitt alls ekki erfitt að tilnefna ástæðu fyrir frammistöðu Smyslovs,“ grípur fréttamaðurinn inn i brosandi um leið og hann lækkar róminn og lítur að næsta borði. En við borðið er enginn Smyslov, aðeíns rauðhærð stúlka situr á tali við fréttamann.

„Já'“ segir Friðrik. „Ég hugsa að hann sæki sig nú samt, þegar líður á mótið.“

„En hvað um Benkö og Fischer?“ spyr fréttamaður.

„Það hafði nú víst enginn búizt við miklu af þeim, nema kannske Fischer,“ segir Friðrik. „Ég held að Fischer hafi, gert þá skyssu að halda að mótið væri létt. Halda að hann næði háu sæti án fyrirhafnar. Ef til vill er ég hér á sama bát og Fischer, ég mun þó ekki hafa gert mér jafn háar vonir og hann.

Um Benkö er ekkert sérstakt að segja, nema það, að hann er mjög misjafn, það er aldrei að vita við hverju má af honum búast. Stundurn getur hann seiglast, en stundum tapar hann fljótt.“

Þá er röðin komin að þér sjálfum,“ segir fréttamaður, „Hvaða vonir eða áætlanir nefur þú um seinni hluta mótsins?“

„Það er aldrei að vita hvað gerist, fyrr en á hólminn er komið,“segir Friðrik,“ en ég mun verða óánægður með frammistöðu mína, ef ég næ ekki sjötta eða sjöunda sæti.“

Eitthvað meira spjallaði Friðrik og fréttamaður, en þetta mun vera það helzta. Svo kemur annar og fær nýtt viðtal í gegn um tvo túlka, en við látum þetta gott heita að sinni. Eitthvert rúm munu blöðin þurfa fyrir bróðurlegar athugasemdir í tilefni nýrra kosninga.

1950: Leiðari Morgunblaðsins: Glæsilegur sigur Íslands

Glæsilegur sigur Íslands

Forystugrein Morgunblaðsins 11. ágúst 1950.

Það hefir margur erlendur maður og óviðkomandi furðað sig á hinni sjálfstæðu tilveru íslensku þjóðarinnar, vegna þess hversu örsmá hún er á mælikvarða milljónaþjóðanna. En saga íslensku þjóðarinnar sannar áþreifanlega tilverurrétt hennar, — barátta hennar og sigrar við harðræði og pólitíska áþján, — tunga hennar og þjóðleg menning.

Það er e. t. v. fátt, sem í dag er betur til þess fallið að vekja athygli alls almennings annarra landa og skilning á Íslandi en þegar einstaklingar íslensku þjóðarinnar og einstaklingar stóru þjóðanna leiða saman hesta sína á milliríkjavettvangi, þannig að ráða má af viðureigninni mannþroska keppendanna.

Hjer í höfuðstaðnum hefir undanfarið verið háð skákkeppni milli Norðurlandanna. Hjer hefir setið við skákbbrðin 15 manna lið frá hinum Norðurlöndunum og þreytt keppni við Íslendinga og innbyrðis sín á milli í fjórum flokkum. Keppt hefir verið í landsliðsflokki, meistarafJokki og fyrsta flokki, tvískiptum.

Úrslit þessarar keppni liggja nú fyrir með þeim árangri að Íslendingar eiga tvo efstu menn í öllum flokkunum. Þetta er mikill og merkur sigur fyrir Íslendinga, sem hafa þreytt keppni við harða mótstöðumenn. Méð sigri sínum í landsliðsflokki hefir Baldur Möller í annað sinn fært Íslandi meistaratitil Norðurlanda í skák, en hann vann þennan sama heiðurssess áður í keppni í Svíþjóð árið 1948.

Guðjón Sigurðsson tryggði Íslandi annan sess í landsliðskeppninni með miklum sóma. Í meistaraflokki sigraði hinn ungi 15 ára skákmaður, Friðrik Ólafsson, án þess að tapa nokkurri skák.

Það vekur eftirtekt við þessa keppni, að margir þeirra skákmanna okkar, sem áður hafa verið taldir með þeim bestu, kepptu ekki, en ungu mennirnir hafa tekið við og borið merkið með sóma. Það mun vera staðreynd, að hinir erlendu gestir hjer hafi látið í Ijósi undrun yfir þeim skákáhuga, sem hjer er ríkjandi og sem m. a. mátti vel marka af því, hversu margir áhorfendur voru að þessari keppni.

Það er gleðilegt þroskamerki, að hin göfuga íþrótt, skákin, er í framförum hjer, og sjest það vel afframmistöðu ungu mannanna. Skáksamband íslands hefir staðið fyrir þessu móti Norðurlandanna hjer og á heiður skilið fyrir. Þess er að vænta, að hinir góðu skákgestir frá hinum Norðurlöndunum hafi haft hjer góða dvöl og góða viðkynningu við land og þjóð. Ber að þakka þeim heimsóknina og þeim fylgja hjeðan góðar óskir.

Við getum glaðst yfir fleiri svipuðum sigrum okkar manna í millilandakeppni á þessu ári. Má þar meðal annars minna á millilandakeppnina við Dani í frjálsum íþróttum nýlega, þar sem Íslendingar báru sigur af hólmi, og einnig má nefna ágæta frammistöðu Íslendinga í Evrópukeppninni í bridge í vor.

Menn mega ómögulega halda, að allt þetta sje bara hjegómi. Það er það ekki. Þvert á móti vitnisburður gagnvart umheiminum um manngildi minnstu þjóðarinnar, sem ótrauð vill berjast sinni hörðu, sjálfstæðu lífsbaráttu og leyfir sjer að mæla einstaklinga sína við úrvalið úr miljónaþjóðunum án þess að þurfa að bera minnsta kinnroða — nemá síður sje.

Þessar línur hjer eru síður en svo ritaðar til þess að miklast yfir sigri. Hins vegar verðskulda okkar ungu ágætu menn að þeirra sje getið að verðleikum, þegar þeir eru landi og þjóð til sóma. Engin þjóð á meira undir því en sú minnsta, að hver einstaklingur hennar sje mannkostamaður. Við það ber aðmiða allt uppeldi, allan lærdóm, alla lífsþjálfun hinnar ungu kynslóðar.

Æskan fær oft skömm í hattinn frá hinum og þessum fyrir allskyns ómyndarskap og ræfildóm. En hvorki slíkum siðapostulum eða öðrum ætti að gleymast það, sem vel er gert.

1978: Grein eftir Arinbjörn – „Afmæliskveðja frá Ástralíu“

Afmæliskveðja frá Ástralíu

Arinbjörn Guðmundsson:

1978_arinbjorn_gudmundssonÞegar ég áttaði mig á því fyrir nokkrum dögum síðan að nú er vinur minn Friðrik Ólafsson í þann veginn að ná merkilegum aldursáfanga þá fór eins og oft vill verða við slík tækifæri að hugurinn leitar til löngu liðinna daga og skemmtilegra samverustunda. Minningar af mörgum sniðugum atvikum skutu þá upp  kollinum eins og vænta má og um leið og ég – og við hérna megin á hnettinum – óskum Friðriki innilega til hamingju með 70 árin þann 26. janúar og honum og fjölskyldunni alls hins besta í framtíðinni þá læt ég  nokkrar af þessum gömlu minningum fljóta með í þeirri von að hann og aðrir hafi gaman af.

Þá er nú fyrst að nefna okkar fyrstu ferð á skákmót erlendis, til Kaupmannahafnar á Heimsmeistaramót unglinga 1953. Friðrik bjó hjá manni af íslenskum ættum, Gunnari Hallsyni, en ég hjá frænku minni þari skammt frá. Mér var stundum boðið í mat með Friðriki hjá Gunnari og í hvert skipti sem sest var til borðs sagði húsbóndinn „Borðið þið nú drengir mínir, þetta er góður matur og hann er dýr“.

Við vorum aldrei alveg vissir um hvernig ætti að taka þessari ábendingu. Við Friðrik spiluðum oft badminton í garðinum hjá Gunnari, Friðrik var lélegur í þeirri íþrótt en það kom ekki að sök því ég var ekkert betri.

1964_fridrik_olafsson-Arinbjorn_gudmundssonÞegar mótinu var lokið var matarboð fyrir okkur hjá Dr. Sigurði Nordal sem var þá sendiherra í Danmörku. Móðir mín var alin upp á heimili Sigurðar svo ég var honum ekki alveg ókunnur. Hann þúaði mig allt kvöldið en þéraði Friðrik. Hann kom út til að kveðja okkur og þegar við vorum að fara þá lyfti hann allt í einu öðrum fætinum og sagði við Friðrik „Ég kann nú ekki beint við að sparka í endann á yður„ en það átti að vera fararheill á næsta mót sem byrjaði skömmu seinna í Esbjerg, Norðurlandamótið sem Friðrik vann og það án þess að fá sparkið í rassinn.

Eftir það mót hittum við Sigurð og fjölskyldu hans aftur og var farið með okkur í útsýnisferð til Helsingör kastala. Á leiðinni þangað spyr frúin Friðrik hvort honum finnist nú ekki fallegt hérna og hann eitthvað annars hugar segir „Ja það er nú ekki beint hægt að segja að það sé ljótt.“ Það svar átti ekki sérlega vel við frúna en Sigurður skellti upp úr og hló mikið.

Eftir að ég var valinn í liðið fyrir Ólympíumótið í Moskvu 1956 þá var ég eitthvað efins um að ég myndi geta staðið mig nógu vel og barst það í tal við Friðrik. Ég spurði hann hvort hann héldi að ég ætti nokkuð erindi og sennilega vonaðist eftir uppörvandi svari en það sem kom var „Jú ætli það ekki“.

Í Moskvu 1959 átti Friðrik biðskák við Bent Larsen sem leit illa út fyrir Bent. Við Bent vorum góðir kunningjar og oft að grínast. Ég bauð honum hjálp við skákina en hann var fljótur að svara og hróaði upp “Nei nei, ég ætla að vinna hana“.

Hann tapaði samt.

Eitt sinn sem oftar var verið við skák á Vesturgötu 46 – „Hótel Skák“ – og var Jón Þorsteinsson þar og Friðrik ásamt fleirum. Jón stakk þá upp á því við Friðrik að þeir skyldu bara opna lögfræðiskrifstofu saman þegar Friðrik lyki námi. Friðrik var fljótur til svars og sagði

„Ætlarðu að nota nafnið helvískur?“

Fyrsta kappskák Friðriks

Laugardaginn 9. nóvember 1946 settust tæplega fimmtíu skákmenn að tafli á Skákþingi Íslendinga. Teflt var í þremur flokkum í Þórskaffi í Reykjavík: Meistaraflokki, 1. flokki og 2. flokki. Einn keppandinn var langyngstur, 11 ára glókollur, og ráku margir upp stóru augu enda fáheyrt að barn tæki þátt í svo virðulegu móti.

Enda komu fram mótmæli: Það mætti hreinlega ekki leyfa piltinum að vera með, því það gæti haft óbætanleg áhrif á hnokkann að tapa öllum skákunum!

Eftir mikla rekistefnu var ákveðið að keppendur í 2. flokki myndu greiða atkvæði um hvort barnið fengi að vera með. Við kunnum ekki skil á atkvæðatölum, en svo mikið er víst að Friðrik Ólafsson fékk að setjast að tafli í Þórskaffi, og snaraði fram kóngspeðinu gegn Hjalta Elíassyni. Friðrik tefldi einsog sá sem valdið hefur, tíndi upp hvert peðið á fætur öðru og þegar Hjalti gafst upp í 50. leik var staða hans ein rjúkandi rúst.

1960: Einvígi Freysteins og Friðriks

,,Rósemdin eitthvað farin að raskast…“

Grein í Þjóðviljanum 14. ágúst 1960 um einvígi Friðriks Ólafssonar og Freysteins Þorbergssonar um réttinn til að tefla á millisvæðamóti FIDE.

Síðastliðið miðvikudagskvöld hófst í Sjálfstæðishúsinu skákeinvígi milli þeirra Friðriks Ólafssonar stórmeistara og Freysteins Þorbergssonar núverandi Íslandsmeistara í skák um réttinn til þess að keppa fyrir Íslands hönd á næsta svæðamóti í skák, er haldið verður í haust.

Friðrik hefur um árabil borið höfuð og herðar yfir aðra íslenzka skákmenn og borið hróður íslenzkrar skáklistar vítt. Fleiri ungir, íslenzkir skákmenn hafa þó sýnt, að þeir eru verðugir fulltrúar Íslands á erlendum vettvangi, t.d. Ingi R. Jóihannsson, Guðmundur Pálmason og Freysteinn Þorbergsson, og er það vel, að þeim þeirra, sern nú ber Íslandsmeistaratitilinn, gefst færi á að reyna skáksnilli sína við stórmeistarann.

Slíkt einvígi getur orðið til örvunar íslensku skáklífi, ef vel tekst til. Fréttamaður frá Þjóðviljanum lagði leið sina í Sjálfstæðishúsið á miðvikudagskvöldið kl. 7.30, þegar einvígið hófst. Er hann kom á vettvang voru keppendur seztir að taflborðinu uppi á sviðinu og Friðrik, er lék hvítu mönnunum að því sinni, hafði leikið fyrsta leikum.

Áhorfendur voru fremur fáir, er einvígið hófst, aðeins nokkrir kunnir skákmenn og skákáihugamenn. Það gerast sjaldan neinir stórviðburðir í upphafi langrar kappskákar, sem spennandi sé að fylgjast með, svo að áhorfendunum fer ekki að fjölga fyrr en byrjunin er afstaðin og átökin fara að hefjast fyrir alvöru á skákborðinu. Í upphafi fóru keppendurnir troðnar slóðir.

Friðrik var þaulsætinn við borðið og hugsaði vel um hvern leik en Freysteinn lék hratt og örugglega, stóð síðan á fætur og gekk rólega um gólf á sviðinu. Ingvar Ásmundsson sagði, að þetta væri uppáhaldsvörn Freysteins og sagði fyrir um nokkra næstu leiki og gekk það allt eftir.

Eftir nokkra leiki kom Freysteinn með nýjung, sem skákfróðir menn sögðu að ekki væri að finna í bókum. Sumir héldu, að þessi leikur væri heimagerður en aðrir töldu hann vera uprunninn austur í Moskvu, þar sem Freysteinn hefði lært hann af gerzkum.

Það má glöggt sjá, hvor heirra félaga uppi á sviðinu á leikinn í hvert sinn, því að sá grúfist yfir taflið íhugandi á svip meðan hinn hallast makindalega afturábak í sætinu og virðir fyrir sér stöðuna. Frammi í litla salnum eru þeir Jón Pálsson og Ingvar farnir að skýra út skákina fyrir áhorfendum og leggja ýmsir þeirra einnig orð í belg.

Einn leikurinn hjá Freysteini hlýtur ekki náð fyrir augum skýrendanna, er telja hann hafa átt völ á öðrum sniallari. Áki Pétursson, er stendur með vasatafl frammi í sal og ræðir skákina af kappi við nokkra skákmenn, fullyrðir að hefði Frevsteinn valið réttan leik hefði það aðeins verið tæknilegt atriði að ná vinningi með svo góða stöðu.

Áhorfendum er nú farið að fjölga. Flest eru þeita kunnir skákmenn, þótt sumir séu þekktari fyrir aðra iðiu en leik að taflmönnum, t d. Helgi Sæmundsson, er fylgist vökulum augum með því, er fram fer uppi á sviðinu og ræðir skákina af miklum áhuga.

Þegar kemur út í miðtaflið fer heldur að halla á Freystein og hann eyðir stöðugt lengri tíma á hvern leik. Hann er hættur að ganga um gólf en situr álútur yfir taflborðinu íhugull mjög og tekur hvað eftir annað ofan gleraugun og fægir í ákafa. Rósemdin er eitthvað farin að raskast. Keppendur eru nú báðir komnir í allmikla tímaþröng og farnir að leika hratt.

Þeir eru komnir yfir í endatafl, þar sem Freysteinn á peði minna, en hann teflir vel og tekst að koma sér upp allhættulegu frípeði nokkru áður en skákin fer í bið. Það er alls ekki vonlaust, að honum takist að halda jafntefli segja skákfróðir menn, þegar 40 leikjum er lokið og skákin fer í bið. Annars vilja þeir sem minnst láta eftir sér hafa að órannsökuðu máli, því að margt getur leynzt í stöðunni, sem ekki er gott að sjá í fljótu bragði. Þannig lýkur fyrstu einvígisskákirni.

Þegar fréttamaður kemur á vettvang á fimmtudagskvöldið eru keppinautarnir búnir að tefla í röskan klukkutíma. Friðrik hefur eins og fyrri daginn eytt nokkru meiri tíma á byrjunarleikina og það er sameiginlegt álit skákskýrendanna í litla salnum, að Freysteinn standi öllu betur að vígi.

Í litla sa’num er enn ekki farið að skýra út skákina fyrir áhorfendum. Þar eru aðeins Ingvar Ásmundsson, Jón Pálsson, Benóný Benediktsson, Gunnar Gunnarsson og nokkrir aðrir skákmenn að kryfja stöðuna í ró og næði. Þegar skákstjórinn Gísli Ísleifsson talar um að beina áhorfendum inn til að hlýða á skýringar þeirra segir Ingvar að það sé skemmtilegra að þeir hafi sjálfir einhvern skilning á stöðunni.

Friðrik leikur nú leik sem þeir skákmennirnir finna hvergi í bókinni, en þeir sitja með Pachmann fyrir framan sig og fylgjast með því, hvað leikjum hann mælir með í stöðunni. Síðan leikur Friðrik fram peði á drottningarvæng. Er það leikur, sem enginn hafði séð fyrir, þótt búið væri að koma með margar tillögur.

Hann virðist leyna á sér þessi peðsleikur, því aö skyndilega hefur sókn Freysteins snúizt í vörn og hann virðist eiga fáa góða leiki. Hann hugsar sig mjög lengi um leikinn. Ingi R. Jóhannsson hefur nú tekið að sér að skýra skákina fyrir áhorfendum með aðstoð fleiri góðra manna, m.a. hefur nú Guðmundur Pálmason bæzt í hópinn. Þegar Freysteinn loks leikur velur hann þá leið, er sízt skyldi, að dómi þessara ágætu skákmanna allra saman og leggur út í ævintýri, er hlýtur að enda með skelfingu.

Ingi segir að það sé einsýnt, hvernig þetta fari og hættir skýringunum og allir ganga fram í aðalsalinn til þess að sjá lokin. Allt fer eins og Ingi hefur sagt fyrir og Freysteinn gefst upp og réttir Friðriki höndina yfir borðið. Hann hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir stórmeistaranum í þetta skipti en kannske hann rétti hlut sinn í næstu skák.

Hver veit? Það fá menn að sjá annað kvöld…

[Friðrik vann einvígið 5-1]

1988: Tel mig búinn að leggja fram minn skerf til skákgyðjunnar

Viðtal Morgunblaðsins við Friðrik Ólafsson 6. mars 1988.

Skákáhugi Íslendinga hefur lengi verið skákmönnum annara þjóða undrunar- og jafnvel öfundarefni. Eftir einvígið við Viktor Kortsjnoj í St. John í Kanada á dögunum er Jóhann Hjartarson orðinn óskabarn íslensku þjóðarinnar og skákáhuginn tók enn eitt stökk upp á við og var hann þó ærinn fyrir.

Afrek Jóhanns er óumdeilt en um leið aðeins einn áfanginn á sigurgöngu íslenskra skákmanna. Og sá skákmaður sem helst hefur rutt brautina er Friðrik Ólafsson, skrifstofustíóri Alþingis, og á sínum tíma áttu Islendingar í honum hvert bein, ekki síður en Jóhanni nú.

Morgunblaðinu þótti vel við hæfi að ræða við Friðrik á þessum tímamótum í skáksögu Íslendinga og rifja upp viðburðaríkan feril hans. Ekki hvað síst vegna þess að margt er líkt með skákferli Friðriks og Jóhanns. Þeir voru á svipuðum aldri þegar þeir unnu sín fyrstu alþjóðamót, urðu stórmeistarar og komust loks áfram í áskorendakeppni eftir millisvæðamót auk þess hefur Viktor Kortsjnoj komið mjög við sögu beggja. Báðir völdu síðan lögfræði sem námsgrein í háskóla.

Friðrik er fæddur í Reykjavík 27. janúar 1935, sonur Ólafs Friðrikssonar verslunarmanns og Sigríðar Símonardóttur húsmóður. Hann segist hafa fengið skákbakteríuna ungur, og hafa smitast af föður sínum sem var prýðilegur skákmaður.

„Ég er sjálfmenntaður skákmaður þótt mér hafi verið kenndur manngangurinn,“ sagði Friðrik, „og þegar ég var að alast upp sem skákmaður gat það tekið marga mánuði að fá upplýsingar og efni frá skákmótum erlendis. Bækur um skák fyrirfundust varla. Það komu stundum enskar skákbækur í Bókabúð Sigurðar Kristjánssonar og ég var þar eins og grár köttur og vaktaði bókstaflega búðina.

Ég var svo heppinn, að frændi minn einn var á millilandaskipi sem var á stöðugum ferðum til Bandaríkjanna. Hann keypti fyrir mig allt um skák sem hann kom höndum yfír. Þetta var samt engan veginn tæmandi og það henti iðulega að ég var búinn að undirbúa mig lengi fyrir eitthvert mótið erlendis en svo komu andstæðingarnir með allskonar nýja leiki sem ég vissi ekkert um. Eftir skákirnar spurðu þeir hvort ég þekkti ekki þessa skák eða hitt afbrigðið? Svona var nú einangrunin.“

Þótti of ungur

Friðrik var ekki hár í loftinu þegar hann fór að reyna sig við aðra skákmenn og 11 ára gamall skráði hann sig í mót hjá Taflfélagi Reykjavíkur.

„Það varð. heilmikil reikistefna um hvort ég ætti að fá að vera með, vegna þess að ég var svo mikið yngri en allir aðrir og sumir töldu að ég hefði alls ekki gott af því. Þeir yngstu semþá tefldu í mótum voru á menntaskólaaldri. Það var til dæmis nokkuð sterkur árgangur sem útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1949.

Steingrímur Hermannsson núverandi utanríkisráðherra var einn þeirra. Hann var formaður taflfélagsins í skólanum og sagði mér reyndar frá því nú á dögunum að hann hefði orðið efstur í 2. flokki hjá Taflfélagi Reykjavíkur 1947 og sagðist oft státa sig af því að hafa orðið fyrir ofan mig í móti.

Í sama bekk voru Guðmundur Pálmason og fleiri ágætir skákmenn. Hér var talsverð gróska í skáklífi þegar ég var að byrja. Ég fann fyrir stuttu blaðaúrklippur sem faðir minn safnaði á þessum tíma og þar er til dæmis ein sem segir frá því að Baldur Möller hafi teflt fjöltefli og síðasta skákin hafi verið við 11 ára dreng, Friðrik Ólafsson. Þeir hafi verið orðnir einir eftir og skákin stóð í 66 leiki áður en Baldur vann loks.

Baldur var virkur lengi og sterkur skákmaður eins og Ásmundur Ásgeirsson, Guðmundur S. Guðmundsson og fleiri. Hinsvegar var ekki mikið um að menn tækju þátt í mótum erlendis, það komu engin boð um slíkt. Þó voru frá þessu vissar undantekningar. Guðmundur S. Guðmundsson hafði náð góðum árangri í Hastings 1947 og Baldur Möller varð Norðurlandameistari 1948.

Úr því að ég minnist á Baldur get ég sagt frá hans skoðun í þessum efnum. Hann telur að seinni heimsstyrjöldin marki tímamót í íslenskri skáksögu og með lýðveldisstofnuninni vakni Íslendingar til athafna og dáða, þar með einnig í skákinni. Þetta er athyglisverð kenning og við nánari athugun held ég að Baldur hafi mikið til síns máls.

Ólympíuskákmótin voru þó í rauninni einu mótin sem Íslendingar gátu teflt í erlendis og þar stóðu þeir sig stundum vel, eins og í Buenos Aires 1939. En það má segja að íslenskir skákmenn hafi haft vissa minnimáttarkennd, sem var kannski eðlileg. Þeir trúðu því ekki að Íslendingur gæti látið að sér kveða og ég heyrði ýmsa skákmenn segja sem svo: þeir eru svo góðir þessir útlendingar að það þýðir ekki að tefla við þá! Þvi kom það svolítið á óvart þegar ég fór að sýna fram á annað.“

Með togara á skákmót

Fyrsta mótið sem ég tók þátt í erlendis var í Englandi árið 1950. Þetta var alþjóðlegt unglingamót, það fyrsta sinnar tegundar, og það voru engir peningar til fararinnar svo ég var sendur út með togaranum Agli Skallagrímssyni Ég var nær dauða en lífi vegna sjóveiki á leiðinni þótt ég hresstist fljótt þegar ég kom í land.

Við tókum land í Grimsby og þaðan þurfti ég að fara með lest til Birmingham þar sem mótið var. Ég hafði aldrei farið utan áður, enskukunnáttan var ekki upp á márga fiska á þessum tíma og ég kunni auðvitað ekkert á lestarkerfið. Ég fékk því bréf með mér til vonar og vara, þar sem beðið var um að veita mér aðstoð til að komast til Birmingham.

Ég var, minnir mig, lang yngstur keppendanna en miðað var við 20 ár. Ég varð í 4. sæti á mótinu en sá sem sigraði var 19 ára. Ég veit ekki til að aðrir skákmenn, sem tóku þátt í þessu móti, hafi orðið þekktir en fyrir mér var þetta opinberun. Þetta sýnir nokkuð hvernig aðstæður voru á þessum árum. Það þótti nýnæmi að senda menn út til keppni, sérstaklega svona unga.“

Ekki mátti orða peninga við skák

Friðrik sjóaðist fljótlega í skákferðum og árið 1955 sló hann fyrst í gegn, efsvo má segja, þegar hann vann öflugt skákmót í Hastings á Englandi ásamt öðrum ungum manni, Viktor Kortsjnoj, en þá lágu leiðir þeirra fyrst saman. Friðrik varð síðan atvinnumaður í skák rúmlega tvítugur en hann viðurkennir að það hafi ekki verið dans á rósum, þegar hann var að vinna sér frama og frægð, þótt hann hafi fengið mörg boð á skákmót, ekki síst eftir að hann fékk stórmeistaratitilinn 1958.

„Þá voru viðhorfm þannig að skákin væri fyrst og fremst tómstundaíþrótt, að vísu göfug íþrótt og nánast hugsjón sem ekki ætti að orða við peninga og menn ættu ekki að gera að atvinnu sinni. Ég man að stundum þegar ég óskaði eftir greiðslu fyrir að tefla fjöltefli urðu menn undrandi. Skákmenn áttu aðeins að lifa á hugsjóninni og loftinu.

Annað sem gerði manni erfitt fyrir var ónæðið í kringum skákina í þá daga. Menn gerðu sér ekki næga grein fyrir að á sterkum mótum var nauðsynlegt að fá að hafa næði og vera laus við ágang. Ég get tekið sem dæmi einvígi mitt í Reykjavík við Bent Larsen um Norðurlandameistaratitilinn árið 1956.

Þar var ég fulltrúi íslensku þjóðarinnar sem var að gera upp sakir við Dani fyrir allt misréttið sem hún þurfti að þola gegnum aldirnar og þá var enginn friður fyrir velviljuðum mönnum sem hringdu og hvöttu mig til dáða. Ég man að ég flúði einu sinni upp í skíðaskála til að losna undan ásókninni; ég átti afmæli þann dag og stakk af.

Einvígið fór fram í Sjómannaskólanum og þangað komust ekki nándar nærri allir inn sem vildu, heldur stóð múgur og margmenni fyrir utan húsið og reyndi að kíkja á gluggana. Larsen vann mig naumlega en ég hygg að öðru vísi hefði getað farið ef ég hefði búið við sömu aðstöðu og skákmeistarar í dag.“

Í nánd við heimsmeistaratitilinn

Ári síðar, eða 1957, tók Friðrik þátt í svæðamóti í Hollandi, fyrsta áfanganum í keppninni um heimsmeistaratitilinn. Kerfið var ekki ósvipað og nú er, nema hvað svæðamótin voru mun færri en nú og svæðin stærri og síðan var aðeins eitt millisvæðamót í stað þriggja nú.

Sex efstu keppendur á millisvæðamótinu, tefldu loks sérstakt áskorendamót ásamt þeim sem tapað hafði síðasta heimsmeistaraeinvígi og þeim sem varð í 2. sæti á síðasta áskorendamóti. Sigurvegarinn í áskorendamótinu fékk svo rétt til að skora á ríkjandi heimsmeistara í einvígi.

Skákmenn frá allri Evrópu nema Sovétríkjunum kepptu í svæðamótinu í Hollandi sem var geysilega sterkt, að minnsta kosti 10 stórmeistarar voru meðal keppenda. Þrír efstu komust á millisvæðamótið og úrslitin urðu þau að Ungverjinn Szabo varð í fyrsta sæti, Friðrik varð í öðru sæti og Bent Larsen í því þriðja.

Á millisvæðamótinu árið eftir voru 20 keppendur og 6 efstu komust áfram í áskorendakeppnina ásamt Smyslov og Keres sem unnu sér rétt í síðustu áskorendakeppni. Millisvæðamótið var haldið í Portoroz í Júgóslavíu og úrslitin urðu þau að Míkhaíl Tal varð efstur, síðan Tigran Petrojsan, Benkö, Svetozar Gligoric, og Friðrik og Bobby Fischer, sem þá var að koma fram á sjónarsviðið, urðu jafnir í 5.-6. sæti.

Sterkir skákmenn eins og David Bronstein, sem sennilega var einn besti skákmaður heims á þessum tíma, Averbak, Szabo, Larsen og fleiri urðu að láta sér lynda lægri sæti. Í áskorendakeppninni, sem þá tók við, tefldu þessir átta skákmenn fjórar umferðir, eða fjórar skákir við hvern andstæðing.

Mótið var haldið árið 1959 í þremur borgum í Júgóslavíu og tók tæpa þrjá mánuði. Tvær fyrstu umferðirnar voru í Bled, þriðja umferðin var í Zagreb og lokaumferðin í Belgrad.

Viðbrögð Ólafs Thors

„Skáksambandið átti enga peninga til að standa straum af þátttöku minni í mótinu, og hvað þá að kosta aðstoðarmann,“ sagði Friðrik. „En þá tók einhver sig til og hringdi í Ólaf Thors og sagði að það væri engin hemja að íslenskur skákmaður væri kominn í námunda við heimsmeistaratitilinn en engir peningar væru til að senda hann utan til keppni.

Ólafur var sjálfur skákáhugamaður, var m.a. eitt sinn formaður Taflfélags Reykjavíkur. Honum brá svolítið við þessar fréttir og hringdi í mig og spurði hvernig best væri að haga þessu. Ég sagðist vera orðinn þreyttur á snöpum hjá almenningi og því kæmi mér mun betur að fá fjárveitingu eða styrk frá ríkinu.

Ólafur sló þessu upp í grín og mér er alltaf minnisstætt, hvað hann sagði: Ef það er hægt að senda mann og kosta undir hann alla leið til Ástralíu, til þess eins að hoppa þar eins og kengúra þá hlýtur að vera hægt að bjarga þessu máli. Þarna var Ólafur vitanlega með sínum græskulausa hætti að vitna til Vilhjálms Einarssonar, sem vann sitt mesta afrek á Ólympíuleikunum í Melbourne.

Þessir peningar komu svo og ég fékk Inga R. Jóhannsson með mér. Hann var góður aðstoðarmaður en tíminn var orðinn of skammur og ég hafði enga aðstöðu haft til að ráða mér mann til að vinna með mér fyrir mótið. Ég gerði mér einnig grein fyrir því, þegar ég mætti þarna til leiks, að ég var alls ekki nægilega vel undirbúinn.

Ég hafði ekki haft aðstöðu til að fylgjast með því sem var að gerast í skákheiminum og afla mér nýlegra gagna. Það háði mér mikið að geta ekki fengið tímarit eða mótsblöð og aflað mér þannig nýjustu upplýsinga um þróun skákbyrjana og rannsókna. Í einni skákinni við Tal, hélt ég að ég væri að tefla viðurkennda teoríu, en í skákmóti fáum vikum fyrr hafði komið í ljós veikleiki.

Því var búið að endurbæta byrjunina og þetta vissi Tal auðvitað. Ég var alltaf dálítið slæmur með að lenda í tímahraki og það batnaði ekki við að vera óöruggur í byrjununum. Á mótinu reyndi ég frekar að sveigja frá þekktum leið-um en það beit lítið á andstæðingana, sem voru sterkustu skákmenn heims.

Ég náði mér raunar aldrei á strik fyrr en í síðustu lotunni og endaði loks í 7. sæti en Tal vann keppnina og vann síðan Botvinnik árið eftir í einvígi um heimsmeistaratitilinn. Tímahrakið var gamall fylgifiskur sem kom held ég upp vegna þess að í byrjun hafði ég fáar bækur til að lesa mér til í.

Ég þurfti alltaf að vinna byrjanirnar upp sjálfur og síðan komst það upp í vana að hugsa mikið í byrjunininni.“

Vonlaus undirbúningur

„Ég varð auðvitað fyrir nokkrum vonbrigðum með frammistöðuna á áskorendamótinu en ég lærði gríðarlega mikið sem kom mér að haldi síðar,“ sagði Friðrik. „Ég gerði mér fyllilega ljóst að minn undirbúningur var alveg vonlaus; ég hefði í raun þurft að undirbúa mig með þjálfara í hálft ár fyrir mótið. En aðalókosturinn var þó þetta sambandsleysi og þar var greinilegastur aðstöðumunurinn á milli mín og til dæmis Rússanna.

Ég held að að menn nú á dögum skilji varla hvílíka yfirburði Sovétmenn höfðu með allt sem til þurfti, aðstöðu, æfingar, bækur og gögn og hersveitir aðstoðarmanna. Nú er þetta orðið svo almennt að Sovétmenn hafa misst mikið af þessum yfirburðum.“

Vann sama mótið tvisvar!

Friðrik tók aftur þátt í svæðamóti í árið 1960 og vann það, raunar tvisvar því fyrra mótið, sem var í Hollandi, var dæmt ógilt. Þá var kalda stríðið í algleymingi. Austur-þýski skákmeistarinn Uhlmann átti að keppa á svæðamótinu en þegar til kom var honum ekki hleypt inn í landið vegna þess að hann hafði ekki tilskylda áritun.

Keppendur frá Austur-Evrópu hættu þá þátttöku í mótmælaskyni en mótið var samt haldið og Friðrik vann örugglega. Eftir þrýsting frá austurblokkinni var mótið dæmt ógilt og það haldið aftur í Tékkóslóvakíu og þá vann Friðrik aftur.

Honum gekk ekki eins vel á millisvæðamótinu árið eftir og sagði þá skýringu ekki óhugsandi að mótið hafi verið haldið rétt áður en hann gifti sig, og því hafi hugurinn sennilega verið annars staðar.

Friðrik hóf nám í lögfræði 1962 og þá fór þátttaka í skákmótum að verða stopulli. Hann keppti þó t.d. á mjög sterku stórmeistaramóti í Los Angeles 1963 þar sem hann varð í 3. sæti á eftir Keres og Petrojsan. Einnig tók hann þátt í Reykjavíkurskákmótunum og gekk vel, varð í 3. sæti 1964 eftir Tal og Gligoric og vann 1966.

Og daginn eftir að Friðrik lauk lögfræðináminu var hann sestur við skákborðið í Reykjavíkurskákmótinu 1968 þar sem hann varð i 3. sæti eftir sovésku stórmeisturunum Vasjukov og Tæmanov.

Egnt fyrir Spasskíj

Á þessum árum voru Íslendingar óðum að festa sig í sessi sem mikil skákþjóð og voru orðnir svo stöndugir að þeir töldu sig geta haldið heimsmeistaraeinvígi hér á landi. Friðrik minntist þess að árið 1971 var hann sendur út af örkinni og látinn tefla í skákmóti í Moskvu, aðallega til að „egna“ fyrir heimsmeistarann Boris Spasskíj.

„Ég var búinn að þekkjast boð um að tefla á sterku móti á Mallorka þegar þetta kom upp, og Mallorkabúar urðu mjög reiðir yfir að ég skyldi hætta svona við. Mig langaði í rauninni ekki til Moskvu, sérstaklega ekki á þessum tíma rétt fyrir jólin. En ég átti þarna gagnlegar viðræður við Spasskíj sem ég held að hafi ekki skaðað, að minnsta kosti var Spasskíj mjög stífur á að einvígið við Fischser yrði í Reykjavík þegar þar að kom.“

Friðrik fór smátt og smátt að auka taflmennskuna og nokkrum árum seinna gerði hann skákina aftur að aðalatvinnu sinni þar til hann var kjörinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, árið 1978. Þegar hann var spurður um ástæður þess að hann bauð sig fram í embættið sagði hann að sterkari skákmennirnir hefðu verið að bræða það með sér að breyta og betrumbæta aðstöðu skákmanna, bæði varðandi kjör og aðbúnað á mótum.

„Dr. Max Euwe þáverandi forseti nefndi þetta við mig og spurði hvort ég vildi gefa kost á mér í embættið. Hann spurði reyndar Svetozar Gligoric sömu spurningar en ég vissi það ekki fyrr en seinna. Mér fannst að ég gæti komið einhverju góðu til leiðar í forsetaembættinu og það hefur sennilega gert útslagið.“

Friðrik tók við forsetaembættinu mánuði eftir að „einvígi hatursins“, heimsmeistaraeinvígi Anatolíjs Karpovs og Viktors Kortsjnojs fór fram í Baguio á Filippseyjum. Kortsjnoj flúði land tveimur árum áður, eftir að hafa teflt á móti í Amsterdam þar sem Friðrik var einnig meðal þátttakenda.

Fjölskylda Kortsjnojs varð eftir í Sov- étríkjunum og heimsmeistaraeinvígið í Baguio snérist öðrum þræði upp í baráttu hans fyrir að fá Bellu konu sína og Igor son sinn til Vesturlanda. Friðrik blandaðist fljótt inn í þessa baráttu sem forseti FIDE.

Óvæntur arfur

„Ég fékk í arf í embættinu ýmsa hluti sem mig óraði ekki fyrir og þurfti að vinna að öllum tímum, í stað þess að vinna að verðugri málum. Kortsjnoj hafði fengið nánast allan hinn vestræna heim á sveif með sér og málið var þannig fram sett að það hlaut að falla á herðar FIDE að fínna lausn.

Ég reyndi mikið að fá fararleyfi fyrir fólkið fyrir næsta heimsmeistaraeinvígi milli Kortsjnojs og Karpovs, sem átti að fara fram í Merano á ítalíu 1981. Ég fór þannig til Moskvu snemma á því ári til að láta Sovétmenn vita að afstaða þeirra væri mjög óskynsamleg og ég gaf í skyn að ef ekki fengist frá þeim einhver viðbrög yrði ég að grípa til ráðstafana.

Sovéska skáksambandið bar því við að það gæti ekkert gert, það hefði enga lögsögu í þessu máli. Yfirmaður þessara mála í Sovétríkjunum sagði mér að Kortsjnoj væri landráðamaður og slíkir menn fengju ekki fjölskyldu sína út úr Sovétríkjunum. Sovétmenn sögðust að vísu ekkert gagn hafa af þessu fólki en með því að hleypa því út úr landinu væru þeir að gefa ákveðið fordæmi.

Menn þarna höfðu það iíka í flimtingum að það versta sem þeir gætu gert Kortsjnoj væri að sleppa konu hans og syni. Ég spurði á móti hvers vegna í ósköpunum þeir gerðu það þá ekki. Ég benti einnig á að það væri mjög óþægilegt fyrir Karpov að tefla við þessar aðstæður.

Það væri vísvitandi verið að leggja á hann mjög óþægilegan klafa og honum væri legið það á hálsi að reyna ekki að leysa þessi mál. Til að gera málið enn erfiðara voru Sovétmenn ekki sáttir við Merano sem einvígisstað og það gekk því á ýmsu. En þegar ljóst var að ekkert myndi gerast greip ég til þess ráðs að fresta einvíginu um óákveðinn tíma, á þeim forsendum að keppendur sætu ekki við sama borð.

Fjölskyldu annars þeirra væri haldið og stjórnvöld í Sovétríkjunum hefðu í hendi sér að leysa málið. Þetta var mikil ögrun við Sovétmenn og þeir sýndu harkaleg viðbrögð. Florencio Campomanes, sem var þá varaforseti FIDE, gaf einnig út yfirlýsingu þar sem hann lýsti yfir undrun sinni vegna frestunarinnar.

Ég gerði mér ljóst að þetta gat orðið mér að falli en ég var búinn að bíta það í mig að leysa málið. Sovétmenn gáfu sig reyndar við þetta og sendu mér hátíðlega yfirlýsingu þess efnis að Bella og Igor fengu að fara úr landi. Einvígið var því haldið í Merano á tilsettum tíma og Kortsjnoj tapaði með talsverðum mun.

Mæðginunum var þó ekki sleppt fyrr en einvíginu var lokið en Kortsjnoj tók svo ekki einu sinni á móti þeim þegar þau komu vestur; hann var að tefla fjöltefli í Frakklandi og sagðist bundinn samningi þar um. Stuttu síðar voru þau skilin, en það kom mér ekki á óvart. Bella Kortsjnoj hafði sjálf sagt mér í Moskvu að hún vissi að hverju hún gengi, sem sagt ekki að manni sínum. Hún vildi samt komast úr landi með son sinn, því fjölskyldur þeirra sem flýja land eiga ekki sjö dagana sæla.“

Þegar Friðrik var spurður hvort eitthvað væri til í þeirri staðhæfingu að það versta sem hægt hefði verið að gera Kortjsnoj var að sleppa fólki hans, sagðist hann ekkert vilja um það fullyrða.

„Ég fékk þó oft á tilfinninguna á meðan ég var að vasast í þessu, að honum væri ekkert um það gefið þrátt fyrir allt og oft gaf hann út yfirlýsingar um að ég væri ekkert að vinna í málinu, nennti ekkert að gera og gæti ekkert. Yfirleitt valdi hann viðkvæm augnablik til að skella svona á mig. Einu sinni kom hann t. d. til Íslands og lét gamminn geysa um hvað ég væri lítils nýtur. Á sama tíma var ég í Moskvu að reyna til þrautar.

Mér fannst þetta lúalegt, en skil samt að hann notaði ástandið sér til framdráttar, þreifst á því að vera hinn píndi. En þetta mál var Sovétmönnum einnig mjög erfitt því að þeir þurftu að fara eftir lögum, sem eru ómannúðleg og ósveigjanleg.“

Ferðin til St. John með ráðum gerð

Friðrik og Kortsjnoj háðu aðra viðureign, ef svo má segja, meðan á einvígi Jóhanns Hjartarsonar og Kortsjnojs stóð. Friðrik var formaður íslensku sendinefndarinnar í St. John og hann viðurkenndi að vera hans í St. John hafi verip með ráðum gerð, vegna þess að Íslendingar vissu að þeir gætu átt von á ýmsu og Friðrik var talinn hafa besta reynslu til að eiga við Kortsjnoj utan borðsins ef til þess kæmi.

„Ég býst við að Kortsjnoj hafi orðið frekar undrandi þegar hann sá mig í St. John þar sem lítið hefur farið fyrir mér í skákheiminum síðustu árin. En framan af var í alla staði fyllstu kurteisi gætt, hann bauð góðan daginn og ræddi jafnvel lítillega við okkur. En um leið og fór að halla undan hjá honum varð andrúmsloftið nístingskalt.

Yfirlýsingar hans eftir einvígið, að ég hefði unnið það, að Jóhann ætti margt eftir ólært og sigur hans hefði nánast verið heppni, einnig að sér hefði verið bannað að reykja, eiga ekkert skylt við raunveruleikann og sýna bara að úrslitin urðu mikið áfall fyrir Kortsjnoj.

Vissulega á Jóhann ýmislegt ólært enda ungur og á uppleið, en hann sigraði að verðleikum. Svo var Kortsjnoj alls ekki bannað að reykja, hann var einfaldlega beðinn um að gera það annars staðar en uppi í vitum mótherja síns.

Skákeinvígi bjóða upþ á taugastríð og einstakir skákmenn hafa oft verið mótherjum sínir erfiðir af því að þeir hafa ekki sýnt tillitssemi. Það hefur alltaf verið tilhneiging til að láta svona lagað átölulaust því að það hefur ekki þótt verjandi að gera athugasemdir við eðli viðkomandi keppanda á þeim forsendum að þeir ráði sennilega ekkert við þetta.

En það er ekki sanngjarnt gagnvart hinum, og þeir eru miklu fleiri, sem haga sér af tillitsemi og kurteisi gagnvart mótherjum sínum. Kröfur okkar Íslendinganna í St. John voru raunhæfar og sanngjarnar og ástæðan fyrir því að Gligoric, sem var yfirdómari, var tvístígandi er það viðhorf að það sé ekki heppilegt að ávíta menn fyrir eitthvað sem er þeim eðlislægt.

Aftur á móti var það Campomanes örugglega sársaukalaust að standa með okkur í þessu máli, því hann var mótshaldarinn i Baguio um árið og þar af leiðandi sá maður sem mátti þola stóran hluta árása og ásakana Kortsnois í því fræga einvígi. Það að við skyldum gerast svona samhentir á sér því sínar skýringar og það má segja að hvorugur okkar hafi haft neitt samviskubit út af því.“

Campomanes á atkvæðaveiðum

Friðrik og Campomanes elduðu lengi saman grátt silfur á meðan þeir voru saman í stjórn FIDE og einnig þegar Campomanes bauð sig fram gegn Friðrik til forseta árið 1982. Friðrik sagði að mikið hafi gengið á þegar Campomanes var að afla sér stuðnings í forsetaembættið.

„Þau atkvæði sem hann gat keypt, keypti hann og þau atkvæði sem hann gat nælt í með öðrum leiðum, nældi hann í með öðrum leiðum. Hann þurfti ekki endilega að vera með svo mikið peningaveldi á bak við sig. Hann gat náð fjölda atkvæða með því t. d. að lofa einhverju fögru, eins og t. d. að einangra Ísrael, sem ég var alltaf á móti. En þannig voru atkvæði líklegra flestra þjóða Araba og Afríku tryggð. Og þegar hann var að sverma fyrir fulltrúum þriðja heimsins gerði hann Evrópumenn óspart að grýlum.

Það kom síðan í ljós að einvígisfrestunin árið áður var of stór biti fyrir Sovétríkin að kyngja. Þeir gátu ekki fyrirgefið mér þetta og austurblokkin snérist á móti mér við forsetakjörið í Luzern 1982 sem varð svo endanlega til þess að Campomanes var kjörinn.“

Á þessum tíma var talið að Marcos forseti Filipseyja stæði á bakvið Campomanes og Friðrik sagði að samband þeirra hefði að minnsta kosti verið meira heldur en Campomanes vildi vera láta.

„Campomanes var forseti Skáksambands Filipseyja og svæðisforseti FIDE í Asíu og Marcos hlúði vel að honum. Ég held að það hafí ekki endilega verið með þeim hætti að Marcos hafi sent honum óslitinn straum ávísana, heldur miklu fremur hafi stuðningur hans verið með þeim hætti að ef Campomanes skorti eitthvað, þá lét hann þess getið við Marcos, eða lét það berast til hans. Síðan hafi Marcos látið þess getið við eitthvert risafyrirtækið að sér væri það ekki á móti skapi að það veitti Campomanes stuðning.“

Þegar Friðrik var spurður hvort þetta hefði stapp hefði ekki verið spennandi og skemmtilegt á köflum, þrátt fyrir allt, sagðist hann stundum hugsa til þess að hann hefði getað varið tímanum betur. Hinu væri ekki að leyna að þetta hefði auðvitað verið ómetanleg lífsreynsla og margs skemmtilegs væri að minnast.

Vænn skerfur til skákgyðjunnar

Þótt Friðrik tefli varla opinberlega lengur, nema á Útvegsbankamótunum um jólin þar sem hann er ávallt í verðlaunasæti, fylgist hann vel með skáknýjungum og þeir sem til þekkja segja að hann hafi litlu gleymt. Vaknar ekki oft löngunin til að tefla aftur,
sérstaklega nú eftir veruna í Kanada þar sem hann andaði að sér skákandrúmsloftinu í tæpan mánuð?

„Auðvitað klæjar mig stundum í lófana eftir að tefla en ég verð að vera raunsær; það þýðir ekkert að blekkja sjálfan sig. Ég tel mig búinn að leggja fram vænan skerf til skákgyðjunnar og þótt ég gæti sjálfsagt náð sæmilegum styrkleika með markvissri þjálfun í einhverja mánuði er spurningin: að hvaða markmiði væri ég að sækja.

En það er aftur á móti ánægjulegt að geta veitt ungu mönnunum liðveislu eins og ég hef þekkingu og reynslu til. Það er allt annað mál,“ sagði Friðrik Ólafsson.

1960: Tel mig ekki þjóðnýttan

Tel mig ekki þjóðnýttan

 

Morgunblaðið 2. nóvember 1960.

„Baráttan um heimsmeistaratitilinn er vitanlega efst í huga allra skákmanna — og úr því að ég á kost á að taka þátt í þeim leik finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að mæta þar,“ sagði Friðrik Ólafsson, skákmeistari, í gær, er fréttamaður Mbl. átti tal við hann vegna harkalegrar árásar, sem hann varð fyrir í Þjóðviljanum.

Ummæli Þjóðviljans

Þar var m.a. haft eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, forseta Skáksambands Íslands, að Friðrik teldi sér ekki samboðið að tefla á Ólympíumótinu í A-Þýzkalandi vegna þess hve lið Íslands á mótinu væri veikt. Þetta var í fréttabréfi frá Ingimar nokkrum Jónssyni í Leipzig.

Undir fyrirsögninni „Hvers vegna tefla beztu skákmennirnir ekki á Ólympíuskákmótinu í Leipzig?“ spyr fyrrnefndur Ingimar Ásgeir Þór: — Hvað veldur því að Friðrik skoraðist undan þátttöku? — Það mætti ætla að Friðrik teldi sér skylt að vera fulltrúi Íslands á Ólympíuskákmótinu eftir allt það, sem búið er að gera fyrir hann, en því miður er ekki svo. Skáksambandið reyndi allt til þess að fá hann með, við buðum honum m.a. að tefla aðallega í undanrásum til þess að tryggja sveitina í B-úrslitariðil. Eftir það hefði hann getað haft það ósköp rólegt og undirbúið sig fyrir svæðamótið í Hollandi, sem hefst 19. nóvember n.k., en ekkert dugði.

Mitt álit er það, að hann telji sig of góðan tiþess að tefla með svona liði eins og keppir hér. veiku Mér skilst, að hann telji það engan persónulegan ávinning að taka þátt í Ólympíuskákmótum,“ sagði forseti Skáksambandsins.

„Skákmaskína“

Mbl. leitaði í gær álits Friðriks á þessum ummælum Ásgeirs, en hann var tregur til. Fannst miður, að menn „færu svona aftan að sér“, en sagði þó:

Ég verð að segja eins og er, að forráðamenn Skáksambandsins hafa litið á mig sem einhverja skákmaskínu. Svo hefur mér fundizt a.m. k., sagði Friðrik, og ég hef átt bágt með að sætta mig við það. — Það, sem einkum veldur, er sá styrkur, sem ríki og bær veitir mér nú til þess að ég geti helgað mig skákinni óskiptur. Ég er ekki að vanþakka þann styrk þó ég segi, að ég geti ekki fallizt á að forráðamenn Skáksambandsins hafi rétt til að beita mér eins og skurðgröfu í mýrlendi.

Efst í huga skákmanna

— Þar eð ég nýt hins umrædda styrks lít ég á það sem hlutverk mitt að vinna að eflingu skákíþróttarinar hér hjá okkur og standa mig eins vel á erlendum vettvangi og ég framast get, ef það mætti verða til þess að nafns Íslands yrði getið meira í skákheiminum.

Þess vegna legg ég mest upp úr því að búa mig vel undir stærstu mótin. Baráttan um heimsmeistaratitilinn er vitanlega efst í huga allra skákmanna — og úr því að ég á kost á að taka þátt í þeim leik finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að mæta þar. Fyrir mig persónulega er heimsmeistarakeppnin líka mun eftirsóknarverðari en Ólympiumótið.

Erfitt sumar

— Undanfarnar vikur hef ég tekið þátt í þremur mótum hér í Reykjavík á vegum Skáksambandsins — og skömmu áður á tveimur mjög erfiðum mótum í Argentínu. Annað þeirra vart. d. eitt það sterkasta, sem haldið hefur verið fram til þessa. Lagt var mjög hart að mér að taka þátt í mótunum hér heima eftir að ég kom að utan og hef ég því ekki fengið þá hvíld frá skákinni sem ég þarfnaðist fyrir svæðamótið.

Afleiðingin er sú—og ég geri mér það fullkomlega ljóst — að ég er haldinn skákleiða, þessa stundina. Þetta er það, sem komið getur fyrir alla skákmenn, ef þeir „keyra of hratt“. Og þetta er aðeins hægt að yfirstíga með því að „veita sér þann munað“ að gleyma henni um stund.

Andleg endurnæring

Ég fann það á síðasta mótinu hér í Reykjavík, að ég var ekki í essinu mínu. Ég þarf að hvíla mig algerlega frá skákinni áður en ég fer á svæðamótið í Hollandi. Leggja skákina frá mér, snúa mér að einhverju öðru meðan ég væri að gleyma skákinni og jafna mig.

Ásgeir lætur hafa eftir sér að ég hefði getað haft það „ósköp rólegt“ í Leipzig með því að tefla aðeins fyrst í stað. Það er ekki sú hvíld, sem ég er að leita eftir. Þar hefði ég hvort sem er verið í hringiðunni allan tímann. Annað hvort hefði ég farið og teflt, eða farið hvergi.

Það, sem mér finnst mig vanti, er ekki að liggja upp í dívan. Ég er kominn með skákina á heilann og þarf að dreifa huganum og endurnæra mig andlega áður en ég legg í stórátök á ný. Að öðrum kosti get ég ekki vænzt árangurs.

Ekki þjóðnýttur

Að lokum vil ég aðeins segja það, að ég lít ekki á sjálfan mig sem þjóðnýttan, enda þótt ég njóti styrks stjórnarvaldanna. Hins vegar hafa sumir framámenn Skáksambandsins talið mig eitthvert verkfæri, sem keypt hafi verið og lagt í hendur þeirra — og það sé hin mesta óhæfa, að ég skuli ekki láta algerlega að stjórn.

En ég er staðráðinn í því að gera mitt bezta eins og hingað til. Ef ég veiti mér ekki nægilega hvíld get ég ekki vænzt þess að ná mér á strik — og hefði ég farið á Ólympíumótið kæmi ég þreyttur á svæðamótið, því á milli mótanna er aðeins liðlega víka.

Að ég líti of stórt á mig til að fara með íslenzku sveitinni til Ólympíumótsins, það tel ég ekki svaravert. Þau ummæli lýsa aðeins hugarfari viðkomandi aðila og skaða mig á engan hátt.

1967: Hugmyndaflugið skiptir mestu máli

Hugmyndaflugið skiptir mestu máli

 

Viðtal í Vísi 14. desemer 1967.

Menn eru tilneyddir að leita einhverra andlegra afdrepa þessa snjóþungu vetrardaga til þess að verjast þunglyndi. Þá taka sumir upp á því að tefla skák, til þess að stöðva eirðarleysið. Þessa dagana verður skáklíf hér á landi hvað blómlegast. Menn gera þetta sér til dundurs hvarvetna á landinu. En ævintýri íslenzkrar skáklistar, Friðrik Ólafsson, situr heima og les lög undir lokapróf í vor.

Mörgum leikur forvitni á að vita hvað Friðrik hyggst fyrir að loknu námi, ætlar hann að fara að „praktísera“ í lögfræðinni? Eða ætlar hann að snúa sér meira að skákinni? Það var meðal annars með þessar spurningar í huga að blaðamaður Vísis öslaði snjóinn vestur í bæ til þess að ræða við stórmeistarann.

Annars ber Friðrik ekki stórmeistarann utan á sér, þegar hann vísar mér til stofu og býður upp á kaffisopa. Þvert á móti brosir hann af hinni mestu hógværð. Þannig þekkja hann víst flestir. Hann hefur lagt undir sig stofuborðið við júristanámið. Þar hefur verið raöaö bunkum af vélrituðum blöðum, sem ég gizka á að eigi eitthvað skylt við lögfræði.

Hins vegar dylst engum að þarna býr skákmaður. Þar stendur meðal annars vegleg „mubla“ skákborð frá Kúbu, sérstök heiðursgjöf frá einræðisherranum Kastro og á því standa tafl menn af sama þjóðerni — einnig gjöf frá Kastro eftir Ólympíumótið fræga í fyrra. Þrjár hillur á bakvegg fylla sjaldséðir skrautskákmenn — amerískir. Talið berst fyrst að alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu að vori.

— Þeir hafa komið þessu móti þannig fyrir að ég geti tekið þátt í því, segir Friðrik, ég verð þá búinn í prófum — það þýða engin undanbrögð. En ég býst ekki við neinu sérstöku. Ég kem til mótsins eins og vofa úr prófunum.

Hefurðu eitthvað sinnt skákinni að undanförnu?

— Lítið síðan á Ólympíumótinu — svo tók ég jú þátt í skákmóti í Dundee í júlí í sumar, en ég reyni að fylgjast með eftir því sem kostur er. Fletti skáktímaritum og því um líkt, þegar tími vinnst til.

Ætlarðu að snúa þér að lögfræðinni, þegar þú ert búinn með prófið í vor eða taka til við skákina af krafti?

— Ég býst við að ég starfi eitthvað við lögfræði, ef ég næ þessu prófi, segir hann og hlær við. Þetta próf er unnið fyrir gýg ef maður aflar sér ekki reynslu að því loknu. Hitt er svo nokkuð sem maður hefur alltaf á bak við eyrað. Alla vega býst ég við að tefla á Ólympíumótum og öðrum slíkum fyrir landsins hönd og á einhverjum mótum hér heima.

Það er að sjálfsögðu freistandi að reyna sig aftur í heimsmeistarakeppni. En ég myndi taka það allt öðrum tökum ef út í það færi heldur en áður. Ég er orðinn reynslunni ríkari og veit betur hvernig ég myndi haga mér gagnvart slíku móti. Ég mundi ekki leggja út í það nema með tveggja ára undirbúning að minnsta kosti.

Hvernig fara skákmenn að því að halda sér í þjálfun utan keppni?

— Fyrst og fremst meö því að athuga sinn eigin skákstíl og reyna að endurbæta hann, athuga skákstíl annarra, sjá hvernig aðrir tefla.

Hefur ekki orðið gífurleg þróun í skáklistinni seinustu árin — nýjar leiðir, byltingar?

— Ekki kannski byltingar, en það eru sífellt að koma fram endurbætur til dæmis í byrjunum. Menn fara að tefla byrjanir, sem ekki voru í náðinni áður og með góðum árangri, endurbæta þær, það þarf ekki alltaf mikið til.

Hvaða skákmann myndirðu telja nýstárlegastan í dag?

— Það er ekki gott að meta. Larsen fer til dæmis mikið sínar eigin leiðir. Hann hefur viðað sér geysimiklum fróðleik, og auk þess fundið upp á ýmsu sjálfur. Hann fer ekki mikið eftir teoríum. Enda er það nú svo að þeir skákmenn, sem komnir eru á toppinn núna tefla af það mikilli þekkingu að það borgar sig ekki að þræða þekktar leiðir. Það skiptir miklu að átta sig á sjálfum sér — þekkja sjálfan sig, eins og segir þar, þekkja veikleika sína og sínar sterku hliðar. Maður reynir alltaf ósjálfrátt að beina skákinni inn á vissar brautir, þó að maður viti ekki í hverju það liggur.

Heldurðu að skákmenn hafi gott af því að taka sér svona hlé eins og þú gerir?

— Það fer sjálfsagt eftir því hvernig menn eru gerðir. Ef menn elska þetta út af lífinu geta þeir haldið áfram að tefla hvíldarlaust.

Áttu bágt með að slíta þig frá því?

— Þetta er alltaf meira og minna í kollinum á manni, því skýtur upp þegar minnst varir.

Heldurðu að lögfræðin eigi ekki eftir að hafa áhrif á skákina?

— Ef ég fer aftur út í skákina býzt ég við að ég tefli með annarri tilfinningu, eftir að ég er búnn með þetta próf. Það veitir manni vissa öryggistilfinningu. Það verður gott að geta haft þetta embættspróf að bakhjarli ef miður skyldi fara í skákinni.

Komið þið ekkert saman til þess að tefla — reglulega — þessir sterkustu skákmenn hér á landi?

— Það hafa allir svo mikið að gera í þessu landi eins og þú veizt. Skákmennirnir, ekki síður en aðrir. Ingi er að ljúka námi, Guðmundur Pálmason er mjög upptekinn í sínu starfi og þannig er um fleiri.

Kemur landsliðið ekki saman til æfinga á næstunni?

— Það stendur til að byrja æfingar eftir áramótin eða einhverntíma í vetur. Væntanlega verða þá valdir menn, sem koma til greina við næsta Ólympíumót, sem haldið verður í Sviss næsta haust í október — nóvember. Það væri æskilegt að byrja þær æfingar sem fyrst, því fyrr sem byrjað er þeim mun betri árangurs má vænta.

Kemur þú ekki með að tefla eitthvað í vetur þrátt fyrir námið?

— Ég reikna alla vega með að tefla fáein fjöltefli.

Er erfiðara að tefla fjöltefli en þreyta venjulega kappskák óæfður?

— Það gengur miklu fljótar fyrir sig, ef maður er í æfingu og það kostar ekki eins mikla áreynslu. Það er sama lögmál, sem gildir og hjá píanóleikaranum — það verður að stunda fingraæfingarnar reglulega. Hins vegar er miklu erfiðara að tefla kappskák en fjöltefli. Þar kemur keppnin líka til. Það er miklu minni spenna í fjölteflinu og það er ekki eins mikið atriði að vinna, ekki eins mikið, sem liggur undir.

Finnst þér skákáhuginn meiri hér á landi núna en þegar þú varst að byrja?

— Það hefur alltaf verið áhugi á skák hérna. Það var mjög mikið skáklíf hér um það leyti sem ég byrjaði að tefla. Ég hreyfst einmitt með þeirri öldu sem þá gekk yfir. Þetta var um það leyti, sem Yanofsky-mótið var haldið hérna, ’47 minnir mig. Þá voru upp á sitt bezta menn eins og Baldur Möller, Guðmundur S. Guðmundsson, Eggert Gilfer, Ásmundur Ásgeirssonog fleiri.

Ég held að þegar á heildina er litið sé styrkleiki skákmannanna okkar nú ekkert meiri en þá var, þegar frá eru taldir þeir allra beztu núna. Það hefur alltaf háð mikið íslenzku skáklífi, hvað Iítið hefur komið út af skákbókum fyrir reynda skákmenn. Þær bækur, sem gefnar hafa verið út um skák hér eru flestar fyrir byrjendur.

En hins vegar vantar alveg bækur, sem gætu komið að gagni fyrir menn sem eru langt komnir. Skákmenn eru ekki allir færir um að tileinka sér erlendar bækur. Auk þess eru beztu blöðin um þetta efni á málum, sem eru ekki aðgengileg fyrir okkur Íslendinga. Það er þess vegna hætt við, þegar menn eru búnir að ná vissum styrkleika, að þeir staðni, vegna þess að þeir geta ekki aflað sér meiri þekkingar. Það þyrfti að gefa út fræðirit um skák á íslenzku ef einhvers árangurs á að vænta.

Nú um jólin kemur út á vegum tímaritsins Skákar bók, sem fjallar um miðtaflið á fræðilegan hátt, og er hún ætluð mönnum, sem komnir eru langt í skákinni, þessi bók er eftir þekktan rússneskan skákmann. Það mætti einnig taka fyrir endataflið og vissa þætti taflsins — strangfræðilega. Slík rit nálgast hrein vísindi að segja má, þar sem hvert atriði taflsins er skilgreint útaf fyrir sig og reynt að raða hlutunum í ákveðin kerfi.

Það er furðulegt hve hægt er að ganga langt í því að skilgreina hluti, sem eru óáþreifanlegir. Hins vegar hlýtur hugmyndaflugið alltaf að vera það sem mestu máli skiptir í skák, þegar allt kemur til alls, en lærdómur og úthald gegna þar stóru hlutverki. Skákmaður getur litlu áorkað hversu hugmyndaríkur sem hann er, og hæfileikamikill, ef hann hefur ekki „energi.“ Margir góðir skákmenn hafa lýst þyí yfir að það sem lægi að baki því að ná góðum árangri í skák væri 10% hugvit og 90% vinna.

Það hefur að sjálfsögðu orðið mikil þróun í skák seinustu árin, eins og við vorum að tala um hér á undan. Það er hægt að ná æðilangt með því að stúdera skák og lesa sér til. Menn geta jafnvel staðið í hinum beztu skákmönnum, þó að þeir fljóti ekki á öðru en þekkingunni. Þetta stafar af því, hve mikjð hefur verið gefið út af skákritum á seinustu áratugum — hreinum vísindaritum.

Keres, sem nú er búinn að tefla í ein fjörutíu ár, sagði það einhverntíma nýlega að það væri orðið erfiðara að vinna miðlungsskákmenn en hér áður fyrr. Þetta stafar af þessari miklu skákþekkingu manna.

Svo við snúum okkur aftur að íslenzku skáklífi…

— Já, ég er ekki í neinum vafa um að hér er miklu öflugri skákstarfsemi en áður, einkum meðal æskunnar og árangurinn hefur þegar sýnt sig. Það er stórum áfanga náð með félagsheimilinu, sem skákmenn hafa nú eignazt við Grensásveg. Það er mikill munur að hafa vissan stað til að leita til þegar á þarf að halda Þar myndast grundvöllur fyrir fasta, skipulagða skákstarfsemi.

Svo að lokum Friðrik, er er nokkur „praktískur“ ávinningur af því að stunda skák?

— Ég veit það ekki. Það er sagt að skák skerpi hugsunina og einbeitinguna. Hins vegar er hætt við því að skák komi niður á öðru, sem maður tekur sér fyrir hendur. Hún vill kannski verða ríkjandi í hugum þeirra, sem gefa sig mikið að henni. Hins vegar held ég að krakkarnir geri margt verra en tefla skák og sú starfsemi, sem nú er unnin á vegum taflfélaganna með unglingum ætti að gera sitt til þess að leysa „vandamál“ unga fólksins.

1960: Túlipaninn Friðrik Ólafsson

Túlipaninn Friðrik Ólafsson

 

Birtist í Morgunblaðinu 11. desember 1960.

Friðrik var í jólaskapi þegar við hittum hann í gær. Nýkominn heim, mamma hans að byrja jólabaksturinn og jafnvel farin að hugsa fyrir hangikjötinu. Sjálfur ætlaði hann að gera sitt — og var einmitt á leið til rakarans. Hafði ekki látið klippa sig síðan hann var heima síðast.

„Annars er ég enginn sérstakur matmaður, eins og e. t. v. má sjá á mér“, sagði hann og brosti. „Samt þykir mér jólahangikjötið alltaf gott — og auðvitað steikin líka, ef rauðkálið er gott. Verst er, að hér er sjaldan hægt að fá góða kjúklinga. Yfirleitt eru þeir seigir og erfiðir viðureignar, enda þótt dauðir séu.“

En hvað um fiskinn?

„Ég er ósköp lítið fyrir fisk, nema þá helzt harðfisk. Ekki neita ég því samt, að smálúða og koli geta bragðazt mjög vel — a. m. k. hjá mömmu. — En úr því að þú minnist á matinn. Ég vildi gjarnan fá sterkan bjór með jólahangikjötinu. Deilurnar um bjórinn virðast enn orðnar heitar. Væri ekki hægt að selja hann í áfengisverzluninni, eins og önnur vínföng. Þá ættu unglingarnir ekki að ná í hann, ef menn óttast það helzt. Því skyldi fullorðnum Íslendingum vera bjórinn hættulegri en nágrannaþjóðum okkar?“

„Annars getur svo sem vel verið, að ég missi af hangikjötinu að þessu sinni. Það er í ráði, að ég fari til Hollands fyrir jólin og verði þar tvær til þrjár vikur, tefli fjöltefli á vegum hollenzka skáksambandsins — víðsvegar um landið. Þetta er ekki endanlega ákveðið, en ekki ólíklegt.“

Þú kannt vel við þig í Hollandi?

„Já, ég felli mig vel við Hollendinga — og mér hefur líka alltaf gengið vel þar. Ég á þar marga góða kunningja, sem gaman er að heimsækja.“

Einhver sagði okkur að mikill túlipanaframleiðandi, hefði skýrt eina túlipanategund í höfuðið á þér!

„Já, það er víst alveg rétt“, svaraði Friðrik og hló. „Það var í fyrra — og hann hefur einu sinni sent mér „Friðrik Ólafsson“, eins og hann kallar þessa tegund túlipana“ — og Friðrik hló enn.

„Þeir eru dimmrauðir, ákaflega fallegir, eins og þú getur ímyndað þér. Annars er ég enginn sérstakur blómakarl, svo að ég held að þetta stigi mér ekkert til höfuðs.“

En þetta auðveldar þér valið, þegar þú þarft að gefa ungmeyjunum blóm.

„Ha?“

1961: Friðrik í nærmynd

Friðrik í nærmynd

 

Vísir 6. desember 1961.

Við sátum inni á Skála fyrir fáum vikum, ég og Helgi Sæm, og sötruðum tevatn og maltöl, en hið andlega stríðsölið freyddi á könnum beggja. Sem við nú sitjum þarna í allgóðu yfirlæti, gengur í salinn ungur maður, hár og ófeitur, með ljóst höfuð á löngum hálsi; lét Iítið yfir sér. Hér var kominn Friðrik Ólafsson stórmeistari, nýkominn frá Júgóslövum og Tító.

Formaður Menntamálaráðs [Helgi Sæmundsson] þarf eðliIega að ræða við Stórmeistarann og rekur upp óp mikið og bendir honum að setjast hið næsta sér. Og þar eð meistarinn er maður af hjarta lítillátur, þá þekkist hann þetta boð, og sit ég nú um stund andspænis þessum tveimur renglulegu mönnum og hlýði á merkilegt skraf þeirra.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég talaði við Friðrik Ólafsson, og það skal sagt strax, að ég hreifst þegar í stað af persónutöfrum þessa unga skákmeistara sem borið hefir nafn Íslands svo víða. Áberandi eiginleiki í fari hans er yfirlætisleysið. Of mikið er að segja, að hann sé feiminn, en hlédrægnin í framkomunni er áreiðanlega ósvikin.

Það hefir verið sagt um suma illgjarna menn, að það sljákki í þeim, þegar farið er að tala vel um einhvern í návist þeirra. Friðrik Ólafsson er maður góðgjarn, en það sljákkar í honum samt, ef á að fara að upphefja eitthvert skjall um sjálfan hann í návist hans. Ef honum finnst eitthvað ofmælt í því sambandi, þá leiðréttir hann eða dregur úr. Maðurinn er hákúltíveraður, hóglát háttprýði er honum eðlileg, — „sú, sem siðdekri öllu er efri“.

Víkingar fóru hér áður fyrr í stórhópum og gerðu strandhögg. Frægasti víkingur vor Íslendinga nú fer vítt um lönd og álfur og heyr einvígi, og varpar með því meiri birtu á þjóð sína og hagi hennar en þótt hann færi með stórum flokki „Vort heimslíf er tafl fyrir glöggeygan gest / þar sem gátan er ráðin, ef leikurinn sést —“ (E. Ben.). En slíku stríði, slíku lífi, hlýtur að fylgja, mitt í allri hringiðunni — viss einsemd.

Mörg okkar, sem heima sitjum, sjáum glæsileg skákmót úti í hinum stóra heimi í einhverri rómantískri móðu. Framandi nöfn hljóma í eyrum, lýst er fögrum og laðandi stöðum þar sem mótin eru haldin. Vér sjáum í anda skákmeistara vora, að lokinni dagshríð, reikandi um skuggsæla trjálundi á bökkum lognsælla og broshýrra vatna eða svamlandi alsæla í ævintýraríku samkvæmislífi milljónaborganna.

Sú mynd er ekki rétt. Að vísu eru mótstaðirnir oft glæsilegir. En skákmeistararnir hafa litla möguIeika á að njóta þeirrar paradísar. Starfið, keppnin, tekur mestallan tíma þeirra og allan hugann. Það verður því minna um spásséringar og Iystiróðra á bláum vötnum. Eins verður um félagslífið. Stórmeistarinn er einfari á slíku móti. Hann kynnist, að vísu, andstæðingum sínum nokkuð, en til vináttu kemur ekki. Einhver múr verður ætíð í milli.

Eg hefi spurt Friðrik hvers hann leiti helzt til að hvíla hugann, þegar einhver stund gefst milli stríða á svona stórmótum, því að hin flóknu viðfagsefni, skákirnar, sækja stöðugt á. Auðvitað er nauðsynlegt að hugsa þær vel, en jafnvel hraustustu heilsu má ofbjóða, og þá verður minna úr sókninni og eftir það lítils barizt. Ekki gefast gönguferðir í einveru vel, þegar svona stendur á, því að við slíkar kringumstæður, hugsa menn hvað dýpst og lengst, eins og allir þekkja. Gönguferðir verða því ekki til hvíldar frá því að hugsa um skákina.

Friðrik er músikalskur og hneigður til bókmennta, en hvorugt kemur að haldi til svona hvíldar. Tækifæri gefast ekki til að sækja tónleika, og huganum verður ekki einbeitt að vönduðum bókum. Bezt segist hann þá hvílast á því að skjótast í bíó eða taka sér í hönd góða leynilögreglusögu. (Honum þykir vænt um hana Agötu okkar hérna gömlu Christie).

Friðrik Ólafsson stendur nú andspænis örlagaríku vali. Hann gæti því vafalaust sagt eitthvað svipað og Sigurður gamli Breiðfjörð:

„Á ég að halda áfram lengra eða hætta?
Milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?“

Hann er orðinn 26 ára og hlýtur að velja sér lífsstarf. Hann hefir lokið stúdentsprófi fyrir löngu og slíkum manni virðast standa allar leiðir opnar utan lands og innan. Og áhugamál þessa unga manns eru svo margfalt fleiri en skákin, tónlist, bókmenntir, tækni…

Fram að þessu hefur hann helgað skáklistinni mestalla krafta sína og hefir komizt langt, undra langt. Sú leið hlýtur líka að vera honum mikið umhugsunarefni, hvort ekki skuli áfram stefna til nýrra sigurvinninga. En skákin er heimtufrek, atvinnutaflmaður verður að gefa sig allan við list sinni.

En hvort sem Friðrik Ólafsson kýs að halda áfram á glæsibraut stórmeistarans, í áhættu og einsemd frægðarinnar, eða kýs að stinga við fótum og gefa sig að öðrum hugðarefnum, þá er eitt víst:

Búast má við, að manni með hans hæfileikum skjóti upp á áberandi hátt á einhverju öðru sviði — og verði þar enginn hlöðukálfur — fremur en í skákinni.

—RJÓH.

2005: Stórmeistari á tímamótum

Stórmeistari á tímamótum

 

Viðtal Þórdísar Lilju Gunnarsdóttur við Friðrik birtist í Fréttatímanum í tilefni af sjötugsafmæli hans, 26. janúar 2005.

Það er sérstaklega bjart yfir alþjóðlega stórmeistaranum og lögfræðingnum Friðriki Ólafssyni. Hann er yfirvegaður hugsuður; eldklár og glæsilegur; fágætur heimsmaður og herramaður í senn. Seinna í janúar ætlar hann í afmælissiglingu um heimshöfin í tilefni sjötugsafmælisins. Hann stendur á tímamótum í mörgum skilningi; er hættur sem skrifstofustjóri Alþingis og stefnir allt eins á endurkomu í skákheiminum. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir naut samvista við Friðrik á síðasta degi jóla.

Hann situr við veglegt taflborð – sem hann fékk í kveðjugjöf eftir stórmót á Kúbu – á kóngsvængnum, eins og hann kallar húsbóndaherbergið með stórfenglegu útsýni yfir Esjuna og flóann. Á öðrum stað heimilisins er drottningarvængurinn þar sem eiginkonan nýtur fagurs samspils borgar og náttúru.

Í loftinu dansa klassískir tónar og alls staðar má sjá forvitnilega gripi úr veröldinni og skákverðlaun í formi útskorinna kistla, risatré- hróka og alls hins óhefðbundna. Óskabarn þjóðarinnar Friðrik Ólafsson stórmeistari sýndi barnungur undraverða takta við taflborðið.

Hann varð Norðurlandameistari aðeins sautján ára gamall og sigraði á hverju stórmótinu á fætur öðru í kjölfarið. „Þá fór eiginlega allt á hvolf og áhugi á skák reis upp úr öllu valdi,“ segir hann og hlær við. „Ég efast um að meiri skákáhugi hafi vaknað síðar; jafnvel ekki eftir heimsmeistaraeinvígi Spasskís og Fischers 1972.“

Hann viðurkennir að hafa orðið stjarna á þeirra ára mælikvarða. „Það var svosem ekki mikið að gerast og þótti merkilegt að strákur frá lítilli eyju skytist upp á stjörnuhimininn með þessum árangri. Ég fékk heillaóskaskeyti frá Íslendingum alls staðar að og fannst það mikill styrkur; mér þótti gott að finna stuðninginn og fékk byr undir báða vængi. Sem dæmi voru þetta skeyti frá áhöfnum togara, saumaklúbbum, húsmæðraskólum og kvennaskólum,“ minnist Friðrik eilítið feimnislega og játar að trúlega hefði ekki verið vandkvæðum bundið að finna kvonfang á þeim tíma, þótt hann hafi síst mælt velgengni í kvenhylli og rómantískri athygli.

Sókndjarfur og aggressívur

Árið 1958 hlaut Friðrik fyrstur Íslendinga nafnbótina stórmeistari, en næsti íslenski stórmeistarinn varð Guðmundur Sigurjónsson 1975. Síðan hefur þeim fjölgað um átta. Af ótal viðurkenningum og verðlaunum; sem og riddarakrossi og stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, segir Friðrik stórmeistaratitilinn hafa snortið sig mest.

„Ég var hreykinn af því að verða stórmeistari enda gífurlegt stökk upp á við. Þetta var svo mikil viðurkenning á þeim tíma og stór áfangi í skákheiminum. Ég hef sjaldan lifað ánægjulegri dag en þegar ég vissi að ég var kominn í hóp stórmeistara svo tilfinningalega stendur sú viðurkenning upp úr.“

Þegar Friðrik er spurður hverjum var skemmtilegast að mæta á taflborðinu nefnir hann heimsmeistarann Mikail Tal.

„Hann var geysilega skemmtilegur skákmaður sem sjaldan gat setið á sér og setti allt upp í loft. Djarfur og ótrúlega hugkvæmur. Það var alltaf eins og maður sæti á eldjalli en maður gat ekki annað en tekið þátt í leiknum. Ég bæði tapaði fyrir honum og vann. Var sjálfur sókndjarfur og aggressívur skákmaður því lognmolla er ekki minn stíll. Maður hefur þannig gengið of langt í sókndirfskunni á stundum og tapað, en þá er bara að vinna næstu skák í staðinn.“

Sönn vinátta sjaldgæf í skákheimi

Friðrik kynntist vel fyrrverandi heimsmeistara Bobby Fisher gegnum skákina, en þeir urðu jafnir að vinningum þegar þeir tefldu á millisvæðamótinu í Portoroz 1958 og fengu réttinn til að taka þátt í áskorendamótinu í skák, sem haldið var í Júgóslavíu ári síðar.

Sigurvegarinn í því móti öðlaðist rétt til að tefla við heimsmeistarann um heimsmeistaratitilinn, en Tal varð efstur í Portoroz og einnig á áskorendamótinu 1959. Varð svo heimsmeistari 1960.

„Sami hópurinn keppti á þessum stórmótum og yfirleitt gott samband okkar á milli. Fischer opnaði sig ef hann fann að maður var ekki með neinn derring. Vitaskuld vorum við allir keppinautar og fágætt að maður hleypti öðrum inn á sig, nema treysta þeim fullkomnlega. Slík vinátta er sjaldgæf innan skákheimsins.“

Hann segir nokkra einhæfni einkenna líf skákmanna.

„Þannig er með alla afreksmenn sem ná langt. Maður er vakinn og sofinn að hugsa um skákina, og dreymir stundum lausnirnar ef maður er ekki búinn að finna þær áður en maður sofnar. Utanaðkomandi finnast þeir kannski vera fagídjótar en menn verða nánast að vera það ef þeir ætla að ná árangri. Mönnum tekst svo misvel að leyna því. Þá er alltaf hætta á að menn einangrist inni í sjálfum sér því þeir eru svo agaðir og gera lítið í því að útvíkka sjóndeildarhringinn að öðru leyti.

Maður verður að treysta á sig sjálfan og engan annan. Berja í sjálfan sig stálinu og sannfæra sig um að maður geti komist alla leið og borið sigur úr býtum. Það hlýtur að skína í gegn að miklir skákmenn hafa mikið sjálfstraust en fyrir bragðið verða þeir kannski eitthvað hrjúfari og þola síður að þeim sé mótmælt.“

Hamingjan valin

Friðrik hætti að tefla þegar hann tók við starfi forseta Alþjóðaskáksambandsins FIDE, sem hann gegndi frá árinu 1978 til 1982. Áður hafði hann lagt skákina á hilluna þegar hann gerðist fjölskyldumaður og nam lögfræði við Háskóla Íslands.

„Ég vildi ekki gera skákina að lifibrauði. Það kostar óhemju sjálfsaga og maður verður að gefa sig allan í það – af lífi og sál. Ég velti fyrir mér hamingjunni; hvort ég fyndi hana í skákinni. Ég er ekki viss um að afreksmenn í íþróttum, seldir og keyptir milli félaga séu endilega hamingjusamir í því rótleysi sem því fylgir og oft án fjölskyldu.

Þeir sem ná langt verða oft einrænir og skortir fyllingu, og því jákvætt að hafa eitthvað annað með. Að kvænast hafði sínar breytingar í för með sér. Ég gerði upp við mig að kjósa fjölskyldulífið, sem þýddi að skákin hafði engan sérstakan forgang lengur.“

Þegar Friðrik hugsar um kostnaðinn í persónulegum fórnum segist hann ekki sjá eftir því að taka þessa ákvörðun.

„Hefði ég brotið allar brýr að baki mér hefði ég trúlega komist langleiðina á toppinn. Það var líka veruleg forsenda fyrir þessari ákvörðun að litlir peningar voru í skákinni á þessum tíma. Hefðu þeir verið í líkingu við þær upphæðir sem sjást í skákheiminum í dag hefði maður kannski hugsað sig svolítið um og verið sæmilega öruggur um að hafa ofan í sig og sína.

Sovétmenn höfðu mikla yfirburði á skáksviðinu á þessu tímabili en héldu í rauninni atvinnumennsku í skákinni niðri. Skákin var þjóðaríþrótt hjá þeim – og er reyndar enn – og allir sovéskir skákmeistarar sem eitthvað kvað að þáðu laun hjá ríkinu – voru í rauninni opinberir starfsmenn. Það mætti því kalla þetta dulbúna atvinnumennsku.

Sovétmenn lögðust gegn því leynt og ljóst að miklir peningar kæmu í skákina og há verðlaun – og þóknun til skákmeistara fyrir þátttöku í skákmótum var þeim lítið áhugamál. Skákin var víst of göfug fyrir slíkt. Þegar sovémeistarar tefldu utan landssteinanna var engin áhersla lögð á það af þeirra hálfu að há verðlaun væru í boði. Þetta hét að þeir væru að útbreiða gospelið um yfirburði kommúnismans. Þeir voru góðir í skák vegna þess að það var kommúnisminn sem ól upp þessa snillinga.“

Fischer breytti skákinni

Atvinnumennska og peningaflæði í skákheiminum gerbreyttist eftir að Bandaríkjamaðurinn Bobby Fischer rauf einokun Sov- étríkjanna og vann Rússann Boris Spasskí í heimsmeistaraeinvíginu á Íslandi 1972.

„Fischer gerði kröfur um stórar fjárupphæðir í verðlaun og þátttökuþóknun og fékk. Við þetta dofnuðu áhrif Sovétríkjanna, en því miður fékkst Fischer ekki til að tefla meira þó miklar fjárfúlgur væru í boði. Í einvíginu við Karpov 1975 um heimsmeistaratitilinn gerði hann kröfu um að áskorandinn yrði að sanna yfirburði sína með tveggja vinninga mun í stað eins.

Auðvitað er réttlátt að heimsmeistari njóti vissra forréttinda þegar hann ver titil sinn en Alþjóðaskáksambandið féllst ekki á þessar kröfur. Karpov varð því heimsmeistari án þess að tefla við Fischer og við það dró heldur úr peningaflæðinu í skákheiminum.

Margar tilraunir voru gerðar til að fá Fischer til að tefla á nýjan leik en allt kom fyrir ekki þótt milljónir dala væru í boði og smám saman festist hann í þessu fari. Þegar maður er kominn á toppinn kemst maður ekki lengra, nema reyna að ná sambandi við Guð. Fischer gekk í sértrúarsöfnuð sem mér skilst að hafi tekið drjúga prósentu af tekjum hans.“

Þeim Fischer og Friðrik varð vel til vina en Friðrik er átta árum eldri.

„Ég hitti hann fyrst þegar hann var fimmtán ára í Portoroz og fannst hann nokkuð ungæðislegur. Hjá honum eru hlutirnir annað hvort hvítir eða svartir. Annað hvort ertu góður eða slæmur, eins og hann talar nú um gyðinga og síonista, en sjálfur er hann gyðingur.

Þetta er einhver sjálfseyðingarhvöt. Ég varð þess var að Fischer var haldinn djúpum ótta við að tapa og það virtist oft valda honum miklum kvíða. Ég man að ég sagði einhvern tímann við hann: „Bobby, það getur nú varla verið svona slæmt þótt þér yrði á að tapa einni skák!“ En þá sagði Fischer: „Ja, þú getur talað svona, en ég get ekki leyft mér það!“

Fischer í nauðum staddur

Í aðdraganda þess að íslensk stjórnvöld hafa boðið Bobby Fischer landvistarleyfi á Íslandi, segist Friðrik ekki hafa beitt sér sérstaklega í því máli.

„Það varð einhver að brjóta ísinn og mér fannst það mjög gott hjá Davíð Oddssyni að bjóða honum dvalarleyfi hér, enda Fischer hluti af okkar sögu. Hann varð heimsmeistari hérna á Íslandi og segja má að hann hafi komið Íslandi á heimskortið. Maðurinn er í nauðum staddur og honum virðast allar bjargir bannaðar. Af mannúðarástæðum er þetta fyllilega réttlætanlegt og vonandi tekst að koma honum úr þessum vanda.“

Aðspurður segir Friðrik vel koma til greina að taka skák við Fischer ef Japanar sleppa honum einhvern tímann úr prísundinni.

„Fischer er reyndar orðinn leiður á venjulegri skák og talar mest handahófsskák eða random chess. Þá er taflmönnum í aftari röð raðað upp af handahófi og skákin teflist þá með nokkuð öðrum hætti en venjuleg skák þótt manngangurinn sé sá sami. Hins vegar kemur þetta í veg fyrir að menn geti fært sér í nyt alla teóríuþekkinguna sem er að verða nánast yfirþyrmandi, og það er helsti kosturinn við þessa nýju tegund skákar.

Ég er lítt spenntur fyrir þessari skák, enda skákin mjög gamalt fyrirbæri sem hefur verið að þróast í um 1500 ár. Mönnum hefur líka stundum þótt skákin vera orðin of einföld fyrir sig og frægt dæmi um það er þegar Capablanca, sem var heimsmeistari á árunum 1921 til 1927, stakk upp á að mönnunum yrði fjölgað upp í 40 í stað 32 og reitunum upp í hundrað í stað 64. Árið eftir tapaði hann heimsmeistaratitli sínum í hinni hefðbundnu skák, og eftir það heyrðist ekkert meira af tillögum hans um að breyta taflinu.“

FIDE míní-útgáfa Sameinuðu þjóðanna

Eftir lögfræðipróf hóf Friðrik störf í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en síðan gerðist hann forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE), sem var gott meira en fullt starf.

„Það var vissulega tvíbent að takast þetta starf á hendur. Það þýddi að ég varð að hætta að tefla en þá var ég kominn á talsvert flug í skákinni og átti ágætis tímabil sem ég kalla annan kapítula, frá 1975 til 1978. Sá fyrri var milli tvítugs og þrítugs. En ég sé ekki eftir neinu og starf forsetans víkkaði sjóndeildarhringinn.

Hins vegar var erfitt að hætta og auðvitað alltaf spurning hvort ég átti að fallast á að gegna þessu embætti, sem ég þó gerði. Það var gaman en líka erfitt. Þetta var eins og míní-útgáfa af Sameinuðu þjóðunum; alveg sömu blokkirnar og mikil pólitík.“

Haustið 1984 tók Friðrik við starfi skrifstofustjóra Alþingis, en um þessar mundir lýkur starfsdögum hans þar. Sjálfur segist hann ekki hafa íhugað þann möguleika að setjast á þing.

„Ég tel ekki að það sé starf sem ég sé beinlínis lagaður fyrir. Ég hef auðvitað verið í góðri aðstöðu til að fylgjast með störfum þingmanna og geri mér ljósa grein fyrir hvað það útheimtir. Þetta er mjög krefjandi starf og ég held að almennt geri menn sér ekki fulla grein fyrir því hve gífurleg vinna felst í því að vera þingmaður. Þeir eru undir smásjánni og geta sjaldnast ráðið sínum tíma á þann hátt sem þeir helst kysu sjálfir.“

Þegar hann er spurður hvar hann er staddur í pólitík, segist hann lítt hafa flíkað því enda Alþingi ekki heppilegur starfsvettvangur til að flíka slíku af augljósum ástæðum.

EES og fjölmiðlalögin eftirminnilegust

Eftirminnilegast frá Alþingisárunum segir Friðrik vera ýmsar snarpar innanhússorrustur eins og til dæmis EES-málið og fjölmiðlafrumvarpið.

„EES-málið var mikill bardagi á sínum tíma og gekk svo langt að forseti Íslands stóð frammi fyrir áskorunum um það að skrifa ekki undir lögin. Og núna síðastliðið sumar gerðist það, sem er líka mjög eftirminnilegt, að forsetinn hafnaði því að staðfesta fjölmiðlalögin, sem auðvitað skapa alveg nýjar aðstæður á vettvangi stjórnmálanna. Það er yfirleitt alltaf eitthvað að gerast á Alþingi og þar finnast virkilega mælskir og skemmtilegir menn sem gaman er að hlusta á,“ segir Friðrik og bætir við að margir séu glettilega góðir skákmenn líka.

Gæfumaður á tímamótum

Stórmeistarinn stendur á tímamótum. Hann verður sjötugur 26. janúar og ætlar í tilefni afmælisins í skemmtisiglingu um heimshöfin.

„Ég hef yndi af ferðalögum, sem og af lestri góðra bóka, klassískri tónlist og mýmörgu öðru. Ég verð ekki í neinum vandræðum að finna eitthvað að dútla við. Þar verður af nógu að taka. Ég er mikið hvattur til að koma aftur í skákina og tefla á mótum. Það væri nokkurt átak en gæti vel farið svo að ég tefldi opinberlega á ný.

Nú svo er það náttúrlega fjölskyldan; barnabörnin eru orðin fimm. Og lögfræðin mun halda áfram að verða mér uppspretta fróðleiks og ánægju. Friðrik telur sig hafa verið gæfusaman í lífinu.

„Þegar á heildina er litið get ég vel við unað, en maður má ekki vera heimtufrekur. Maður getur alltaf sagt að maður hefði átt að haga sér öðruvísi eða taka á málum á annan hátt, því auðvitað er maður alltaf að þroskast. Ég hef lifað tiltölulega viðburðaríku lífi; á yndislega fjölskyldu og marga góða vini. Meira verður ekki farið fram á.“

1955: Friðrik í stofufangelsi í Prag

För til Prag:

„Við skulum bara skella okkur með flugvélinni, við verðum þó aldrei drepnir!“

 

Vikublaðið Gestur, 5. tbl. 1955. Friðrik Ólafsson skrifar.

Ritstjóri GESTS kom að máli við mig um daginn og bað mig þeirrar bónar, að skrifa grein um eitthvert hinna fjölmörgu „ævintýra“ sem ég hefði ratað í um dagana. Skildist mér helzt, að sú frásögn yrði að vera allhrollkennd og svakaleg, svo gaman væri að.

Þar sem ég taldi „ævintýri“ mín lítt til þess fallin að vekja slíkan hroll hjá mönnum, reyndi ég að malda í móinn, en hefði eins mátt stökkva vatni á gæs, slík voru áhrifin. Ég afréð því að lokum að skrifa um eitt af þeim allra „viðburðaríkustu“, sem átti sér stað í sambandi við zonalmótið í Prag sumarið 1953. Hér kemur frásögnin, og bið ég menn að meta viljann fyrir verkið:

Það er upphaf þessa máls, að Ísland hafði réttindi til þess að senda einn keppanda á mót þetta, og var ég valinn til þeirrar farar, en mér til fylgdar þeir Einar Þ. Mathiesen og Guðmundur Pálmason.

Einari var falið að vera fulltrúi íslenzka skáksambandsins í för þessari og átti jafnframt að hafa fréttaþjónustu með höndum. Guðmundur átti aftur á móti að aðstoða mig við biðskákirnar, eða á annan hátt. (Við Íslendingar höfum ekkert nafn á slíkan aðstoðarmann, Englendingar nefna hann „second“).

Við félagarnir, Einar og ég, lögðum af stað með flugvél að morgni hins 22. maí, og var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar. Þar var ætlunin að hitta félaga okkar, Guðmund, en hann var þangað kominn frá námi sínu í Svíþjóð. Jæja! Ferðin gekk stórslysalaust, við náðum Kaupmannahöfn heilu og höldnu og hittum Guðmund, eins og ráðgert hafði verið.

Í Höfn ætluðum við að dveljast í þrjá daga og nota tímann til þess að fá vegabréfsáritun til landvistarleyfis í Tékkóslóvakíu. Við höfðum reyndar ekki miklar áhyggjur af þessari hlið málanna, því að heima á Íslandi átti að vera búið að ganga , frá öllu varðandi þessar áritanir, þetta var aðeins formsatriði álitum við. (Ég vil skjóta því hér inn, að Guðmundur átti hér ekki hlut að máli, hann hafði þegar fengið sína áritun í Svíþjóð).

Við vorum því algjörlega grunlausir um það, sem í vændum var, þegar við á öðrum degi löbbuðum okkur út í tékkneska sendiráðið til þess að Ijúka þessum smámunum. Við stikuðum upplitsdjarfir inn á skrifstofuna og gerðum grein fyrir ferðum okkar og málefnum.

En eitthvað virtist bogið við þetta allt saman, því að blessuð konan, sem var þarna sendiráðsritari, bar ekki hin minnstu kennsl á okkur. Við spurðum, hvort eigi hefði borizt greinargerð frá Íslandi, ásamt umsókn um áritanir, en hún kvað nei við.

Það fóru heldur en ekki að renna á okkui tvær grímur og við báðum hana blessaða að leita betur, hvað hún og gerði. En allt bar að sama brunni, ekkert fannst. Við íhuguðum málið um stund og sáum, að einhverra orsaka vegna hefði engin tilkynning frá Íslandi borizt.

En það sem verra var, ef við vildum fá áritun, tók það minnst þrjár vikur að fá hana. Þetta voru ekki sérlega kærkomnar fréttir, þegar þess var gætt, að mótið átti að hefjast innan fjögurra daga og flugvélin okkar átti að fara næsta dag. En við vorum ekki í skapi til að gefast upp, að svo komnu máli.

Næstu tímana vorum við önnum kafnir við að finna einhverja lausn á málinu, sem gæti flýtt fyrir. Við fengum tékkneska sendiráðið, sem annars var mjög vingjarnlegt í okkar garð, til þess að senda skeyti til Prag, og fá staðfestingu á því, að okkar væri von þangað.

En allt virtist bera að sama brunni. Staðfestingin kom að vísu, en hún flýtti ekki það mikið fyrir, að okkur kæmi það að nokkru gagni. Að síðustu höfnuðum við svo á íslenzka sendiráðinu, ef ske kynni, að það gæti veitt okkur einhverja aðstoð, en við fengum heldur kaldar kveðjur.

Þeir þóttust vera farnir að þekkja þessa villuráfandi og hjálparþurfi Íslendinga, sem skytu þarna upp kollinum öðru hverju. Þeir vildu ekkert hafa saman við okkur að sælda.

Að lokum, eftir mikið basl og umtölur, fengum við þá þó til þess að hringja í tékkneska sendiráðið og staðfesta, að við værum þeir, sem við þóttumst vera. Það var allt og sumt!

Að svo komnu máli gáfum við okkur loksins tíma til að anda og íhuga málið, enda voru horfurnar ekki rétt vænlegar. En þegar neyðin er stærst, þá er hjálpin næst, hljóðar gamalt máltæki. Okkar ágæti Guðmundur datt ofan á snjalla en þó vafasama hugmynd, sem okkur Einari leizt ekki rétt vel á í fljótu bragði.

„Við skulum bara skella okkur með flugvélinni, við verðum þó aldrei drepnir!“

„Ja, það var nú einmitt það!“ Við Einar höfðum heyrt afskaplegar sögur um grimmd þeirra þarna fyrir austan járntjaldið, og víst máttum við vera fegnir að sleppa lifandi úr slíkri svaðilför. Um Guðmund skipti náttúrlega öðru máli. Hann hafði fengið sína áritun, og honum gátu þeir ekkert mein gert.

Eftir miklar og langar bollaleggingar, ákváðum við þó að leggja í tvísýnu þessa, og mynduðum okkur ráðagerð, sem var í stuttu máli þannig: Guðmundur skyldi strax og komið væri til Prag, skunda á fund helztu ráðamanna skákmála þar í borg og fá þá til að ljá okkur lið undir eins og hægt væri, og með þessa ráðagerð í huga sofnuðum við, ef svefn skyldi kalla.

Næsta morgun vorum við árla á fótum, pökkuðum saman pjönkum okkar og skunduðum niður á flugvöll, út í óvissuna. Út í flugvélina komumst við eftir talsverða hrakninga, og það var eins og þungum steini væri létt af hjarta okkar, þegar blessuð flugvélin hóf sig til flugs, hnitaði nokkra hringi yfir flugvellinum og renndi sér síðan í stórum sveig til suðurs.

Við vorum þó alltaf komnir af stað, hvað sem verða vildi. Eftir um það bil klukkutíma flug komum við til Austur-Berlínar, sem var eini viðkomustaðurinn á þessari leið. Við vorum vitaskuld mjög spenntir, því að við bjuggumst við að þurfa að sýna passana. Ef svo var, þá var úti um okkur.

En sem betur fór, kom aldrei til þess, og eftir nokkra dvöl vorum við aftur komnir á loft, og stefndum nú til austurs. Eftir klukkutíma flug vorum við yfir Prag, og nú fór hjartað að slá hraðar, eins og vænta mátti. Nú snart flugvélin jörðina, og brátt stóð hún kyr — flugvélin.

Við gengum þögulir út og reyndum að bera okkur mannalega. Kannske var þetta ekki eins slæmt og við héldum, — og áfram héldum við inn í flugstöðina. Og það var ekki eins slæmt og við héldum. Guðmundur hélt strax af stað í sinn leiðangur, en við Einar sátum eftir eins og fangar á sakabekk.

Brátt urðum við varir við, að starfsmennirnir voru farnir að gjóta til okkar hornauga með meðaumkunarbros á vör, eins og þeir vildu segja: „Vesalingarnir, þeir halda, að þeir komist upp með þetta?“

Og áfram sniglaðist tíminn, og þar kom, eftir mikla skriffinnsku, að við vorum reknir út í bíl, og ekið áleiðis til höfuðborgarinnar. En hversu mikil var ekki undrun okkar, þegar bíllinn að lokum staðnæmdist fyrir utan mikið og veglegt hótel!

Þetta var eitthvað annað en við höfðum búizt við. Það var ekki á öðru að búast en við ættum að dveljast þarna. Þarna fengum við prýðis herbergi til afnota, ljúffengar máltíðir, meira að segja allt á kostnað tékkneska ríkisins.

Ég þarf ekki að orðlengja, að þarna vorum við hafðir til geymslu meðan verið var að útvega okkur áritanir, en það gekk allt vel, eins og vænta mátti. Um dvöl okkar þarna er annars ekkert markvert að segja. Það eina, sem okkur var bannað að gera, var að fara út fyrir húsdyr.

Á öðrum degi komu svo tveir góðlátlegir herramenn til að sækja okkur, og við kvöddum húsráðendur með virktum. Áritanirnar voru fengnar og við vorum frjálsir menn. Þannig lauk okkar fyrstu, og ég vona, síðustu fangelsisdvöl í erlendu ríki.

Daginn eftir hófst svo mótið, og það verð ég að segja, að þessi fangelsisvist virtist ekki hafa hin minnstu áhrif á getu mína í mótinu, fremur hið gagnstæða. Á mótið sjálft ætla ég ekki að minnast, því hafa verið gerð góð skil í blöðum hér. Að mótinu loknu gekk okkur mjög greiðlega að komast úr landi.

Við fórum aftur til Kaupmannahafnar og dvöldumst þar í rúma viku, okkur til hressingar og heilsubótar, enda veitti víst ekki af. Síðan héldum við einn fagran sumardag heim, til okkar kæru ættjarðar, Íslands. Það er erfitt að lýsa þeirri gleðitilfinningu, sem gagntekur mann allan, þegar maður að loknu löngu ferðalagi sér loks grilla í vogskorna strönd Íslands og sér fannhvíta jöklana rísa úr sæ.

Slíkar tilfinningar eru of djúpstæðar til þess að. verða með orðum lýst. þá hvarflar aðeins að þér ein hugsun:

„Ég er kominn heim.“

1956: Fékk ekki harmónikku og sneri sér að skákinni

Fékk ekki harmónikku og sneri sér að skákinni

 

Vikublaðið Gestur 1. tbl. 1956

Hastings er lítil borg í Englandi, vinsæl meðal ferðamanna, og kemst í heimsfréttirnar um jólaleytið ár hvert, er snjallir menn úr heimi skáklistarinnar leiða þar saman hesta sína. Nú nýverið hefur nafn þessarar borgar verið á vörum allra Íslendinga, hvort heldur þeir hafa mætzt og tekið hvorn annan tali í norðangjóstinum, eða setið í hlýjum híbýlum kunningj anna.

Því að — eins og sænska útvarpið ku hafa tekið til orða — í Hastings áttust við frægir meistarar frá Rússlandi og Þýzkalandi með fríðu föruneyti efldra aðstoðarmanna, en einnig kom á vettvang unglingur norðan af Íslandi, með annan ungling sér til halds og trausts — og vann frækilegan sigur!

Friðrik Ólafsson verður tuttugu og eins árs þ. 26. þ. m., og um þessar mundir eru einmitt liðin tíu ár frá því að hann tefldi fyrst á skákmóti.

Kominn í fremstu röð

Átta ára gamall lærði Friðrik mannganginn af föður sínum, Ólafi Friðrikssyni. Ekki segir hann hafa haft neinn sérstakan áhuga fyrir þessari íþrótt í þann tíð, en þrem árum síðar tekur hann aftur til við taflið af auknum áhuga, og mun ástæðan til þess hafa verið sú, að hann fékk ekki harmóniku, sem honum lék mikill hugur á að eignazt.

En eitthvað þurfti að hafa fyrir stafni, og þá var taflið alveg tilvalið. Einhverja getu mun hann fljótt hafa fundið hjá sér, því að skömmu síðar tefldi hann við Baldur Möller í fjöltefli. Friðrik tapaði þeirri skák, en hefur líklega hugsað með sér, að fall væri fararheill, því að árið eftir tekur hann þátt í móti Taflfélags Reykjavíkur, og verður efstur í öðrum flokki.

Þannig er byrjunin á ferli hins glæsilegasta skákmanns, sem við Íslendingar höfum eignazt. Árangur hans á skákmótinu í Hastings hefur skipað honum í röð fremstu skáksnillinga heims, er hann bar sigurorð af stórmeisturum í skáklistinni.

Innilegt þakklæti allra landsmanna

Naumast hefur annars eins gestagangur verið á nokkru heimili í Reykjavik undanfarið eins og heima hjá foreldrum Friðriks, Ólafi Friðrikssyni og Sigríði Símonardóttur. Og hverjum gesti hefur verið tekið opnum örmum og þeim hlýhug, sem sæmdarfólk á til að bera.

Friðrik hefur líka á ýmsan hátt fundið innilegt þakklæti og virðingu allra landsmanna, sem í verki hafa sýnt hug sinn til hans. Strax og úrslitin urðu kunn á mótinu, rigndi yfir hann heillaóskaskeytum héðan að heiman og stórar fégjafir bárust sjóðnum, sem stofnaður hefur verið að tilhlutan stúdentaráðs honum til styrktar.

Og eftir heimkomuna var honum sýndur margvíslegur sómi. Meðal gjafanna, sem Friðrik bárust, er glæsileg marsípanterta, sem nemendur Húsmæðraskólans í Reykjavík bjuggu til fyrir hann, og er skákborð með skákmönnum. — Frændi hans, Magnús Guðbjörnsson, færði honum innbundið eintak af skákblaðinu gamla, Í uppnámi, sem nú er með öllu ófáanlegt. Og er þá fátt eitt talið.

Fósturjörðinni til sóma

Friðrikssjóður hefur, eins og áður er getið, vaxið allmjög eftir afrek Friðriks, og er það vel, því að öllum ber oss skylda til að búa svo um hnútana, að skáksnillingurinn ungi fái gefið sig að list sinni, við þær aðstæður, sem honum sæmjr, er hann hefur gert fósturjörð sinni slíkan sóma.

Það þótti tíðindum sæta, þegar rakinn var skyldleiki þeirra Friðriks og frægasta íslenzks skákmanns fyrri tíma, Magnúsar Magnússonar Smith, en hins hefur ekki verið minnzt, að íslenzku „unglingarnir“ á Hastingsmótinu, Friðrik og Ingi, eru náfrændur, þótt vér kunnum ekki ætt þeirra að rekja.

1955: Viðtal – Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni

Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni

 

Viðtal Guðrúnar Helgadóttur við Friðrik Ólafsson. Birtist í Æskunni 1955, þegar Friðrik var tvítugur.

img284Við ætlum að segja ykkur að ofurlítið frá þeim Íslendingi, sem mestan orðstír hefur getið sér á alþjóðavettvangi skákíþróttarinnar — Friðriki Ólafssyni, skákmeistara. Friðrik er kornungur maður, aðeins 20 ára að aldri.

Við, sem höfum verið með honum í skóla í fjögur ár, höfum oft verið spurð, hvers konar maður Friðrik sé — menn hafa vafalaust hugsað sér hann undarlegan og viðutan eða voðalega gáfulegan á svipinn og vart við mælandi — og þá höfum við ekkert annað að segja um hann en að hann sé „ágætis strákur“.

Auðvitað höfum við oft verið — svona undir niðri — talsvert stolt af honum, enda sýndum við honum það í verki, er við sæmdum hann nafnbótinni „heiðursskólabróðir“ með tilheyrandi skjali, þegar hann kom heim frá Hastings 1954.

Annars er Friðrik ósköp venjulegur ungur maður, geðþekkur í framkomu, hæglátur og góður félagi, sem var fús til þess að taka eina skák með stráknum á næsta borði í „löngu frímínútunum“. En óttalega hlýtur honum að hafa þótt það lítið spennandi skákir, og sigrinum tók hann með hæversku brosi!

Skólaleikrit í Laugarnesskóla 2
Skólaleikrit í Laugarnesskóla

Friðrik er nú nýkominn heim frá Ósló, þar sem hann tók þátt i Norðurlandameistaramótinu i skák, eins og þið hafið eflaust heyrt um. Ég var svo heppin að rekast á hann á götu um daginn og sagðist þurfa að hafa við hann viðtal og láta hann segja mér eitthvað um sjálfan sig.

Friðrik glotti við, en tók því með sömu þolinmæðinni og öllu öðru, og svo ákváðum við stað og stund til þess að rabba saman yfir kaffibolla. Móð og másandi kom ég klukkutíma of seint og hélt, að nú hefði ég tapað af samtalinu. Ég skammaðist mín heil ósköp fyrir að láta svona frægan mann bíða og hóf upp afsakanir miklar, en „hinn frægi maður“ vildi ekkert á mig hlusta og fór að segja mér sitthvað um sjálfan sig.

Skólaleikrit í Laugarnesskóla
Skólaleikrit í Laugarnesskóla

„Fæddur?“ spurði ég. „Hinn 26. janúar 1935 í Reykjavík, sonur hjónanna Ólafs Friðrikssonar, bókhaldara, og Sigríðar Símonardóttur.“ Annars sagðist hann vera Akurnesingur í aðra ætt, og þegar ég fann að því, að þessir Akurnesingar þyrftu allar íþróttir að leggja undir sig, afsakaði hann sig með því, að hann væri nú reyndar fæddur og alinn upp í Reykjavík.

„Ég fór fyrst að tefla, þegar ég var 8 ára, og þá aðallega til þess að geta tekið skák með pabba, sem er ágætur skákmaður. Í fyrstu hafði ég ekkert sérstaklega gaman af þessu, en smám saman óx áhuginn. Þegar ég var 11 ára, tefldi ég fyrst opinberlega á skákmóti í Reykjavík og varð einhvers staðar í miðju hvað röð snerti. Síðan keppti ég oft á ýmsum mótum, meðal annars varð ég sigurvegari i 2. flokki árið eftir, þá 12 ára. 13 ára gamall vann ég i 1. flokki og komst þannig i meistaraflokk. Auk þess keppti ég oft á ýmsum smærri mótum. Þegar ég var 15 ára, tók ég þátt i Norðurhandamóti í meistaraflokki og stóð mig það vel, að ég hlaut réttindi til þess að keppa í landsliði. Árið 1951 keppti ég svo í landsliði og varð nr. 2-3.“

1953 Verðlaunaafhending á Norðurlandamóti
1953 Verðlaunaafhending á Norðurlandamóti

Stjarna Friðriks hækkar nú óðfluga, og árið 1952 verður hann Íslandsmeistari í skák — þá aðeins 17 ára að aldri. Árið eftir — 1953 — ver hann Íslandsmeistaratitilinn og hlýtur auk þess annan ekki lakari — Norðurlandameistari í skák.

Veturinn 1953-54 keppir Friðrik minna. Þá er hann í 5. bekk Menntaskólans, og námið verður nú að ganga fyrir. Þó tók hann þátt í skákmóti í Hastings í Englandi í jólaleyfinu og stóð sig af sömu prýði og áður.

Um sumarið keppti hann svo í Tékkóslóvakíu og á Ólympíuleikunum i Hollandi. Og allir vita, hversu glæsilega hann stóð sig á hinu nýafstaðna Norðurlandamóti.

„Þú hefur ferðazt heilmikið um í heiminum vegna þessara skákmóta.“

Friðrik á Gullfossi
Friðrik á Gullfossi

„Jæja, ekki er nú mikill timi til þess. Hann fer allur i að tefla. Að aflokinni skák er maður þreyttur og fer að sofa, svo að ekkert verður úr ferðalögum. Það er mjög þreytandi að leika hverja skákina eftir aðra án þess að hafa dag á milli. Taugarnar segka líka oftast til sín, a. m. k. rétt fyrir Ieik. Ég finn aldrei til taugaóstyrks, þegar ég er setztur að borðinu.“

Friðrik segir, að verst sé, þegar mótleikarinn hefji leik með byrjun, sem hann hefur ekki séð áður.

„Þá eyðir maður allt of miklum tíma til umhugsunar og lendir svo í timahraki, og þá er voðinn vís. Til dæmis kom þetta fyrir þegar ég tapaði síðustu skákinni á Norðurlandamótinu fyrir Bent Larsen. Við verðum að tefla 40 leiki á 2 klukkustundum, annars er skákin töpuð, og hann byriaði skákina með byrjun, sem ég hafði aldrei séð. Þess vegna eyddi ég 70 mínútum í að huasa um einn leik. svo lítill tími vannst fyrir hina 39. Að vísu hafði ég það af að tefla 40 leiki en flýtirinn var svo mikill að þá var skákin töpuð. Svo er lika erfitt,“ bætir Friðrik við, „þegar allir eru búnir að segja, að maður vinni, þá verður maður taugaóstyrkari.“

„Hefur ekki verið erfitt að stunda nám jafnframt skákinni?“

Flakkararnir í MR„Jú, enda hafa einkunnirnar farið síversnandi með hverju ári.“ Þetta eru reyndar ýkjur, þvi að Friðrik lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans siðastliðið vor með ágætri einkunn.

Fjármálin hafa vafalaust verið Friðriki erfiðust. Utanferðirnar hafa kostað hann mikið fé, sumarvinnan orðið lítil sem engin. Að vísu hafa skáksamböndin kostað hann að einhverju leyti, en slíkar ferðir kosta alltaf mikið fé úr eigin vasa.

Nú verður úr þessu bætt. Friðrik mun nú halda utan eftir áramótin til náms i Bonn i Þýzkalandi og fær vissa fjárupphæð til þess. Hann hefur í hyggju að leggja stund á þýzku við háskólann þar. Hann segist ekki geta hafið langt háskólanám að svo stöddu, nema að hætta að tefla, en það vilja nú fæstir samþykkja.

„Ég ætla að sjá, hvað ég get. Ef mér fer að hraka, hætti ég að tefla og fer að læra einhverja grein háskólanáms, en um það er allt óvíst. Enn þá veit ég ekkert, hvað ég get í skákinni,“ segir hann.

„Að lokum Friðrik, hvað þarf maður fyrst og fremst að gera til að geta orðið góður skákmaður?“

1956 Friðrik og Bent Larsen
1956 Friðrik og Bent Larsen

„Byrja nógu snemma og tefla nógu mikið. Einnig þarf hann að lesa mikið um skák. Maður getur aldrei lesið nógu mikið af bókum um skák, hún býr yfir óendanlega mörgum möguleikum.“

Og svo ætla ég ekki að tefja Friðrik lengur. Eftir áramót fer Friðrik utan og leggur til nýrra sigra — eða ósigra. Við óskum honum öll góðs gengis oa margra sigra. En þeir eru þó ekkert aðalatriði. Aðalafriðið er, að Friðrik haldi áfram að vera sá maður, sem hann hefur verið hingað til, maður, sem veldur hvort sem er sigri eða ósigri í drengilegum leik og lærir af reynslunni.

Og einmitt að þessu leyti er hann íslenzku æskufólki til eftirbreytni, miklu fremur en vegna frægðar sinnar og afreka.

1960: Friðrik skrifar frá Argentínu

,,Horfi í augu bola“

 

Birtist í Morgunblaðinu 2. júní 1960.

Ekkert hefur heyrzt um Friðrik Ólafsson, stórmeistara, á opinberum vettvangi, síðan skákmótinu í Argentínu lauk. Nýlega barst kunningja Friðriks hér heima bréf frá honum, dagsett 17. maí ´60 í Argentínu. Birtir Morgunblaðið hér glefsur úr bréfinu til fróðleiks og gamans.

„Stúderar“ sveitalífið

Bréfið hefst á þessum orðum: Þegar ég skrifa þessar lníur, er ég staddur á búgarði um það bil 300 km norðvestur af Buenos Aires (ekki fjarri borginni Pergamim) og „stúdera“ sveitalífið, eins og það gerist hérna megin hafs.

Kunningi minn á búgarðinn, og bauð hann mér hingað, gagngert í þeim tilgangi, að ég gæti af eigin raun kynnzt þeim atvinnuvegi, sem Argentínumenn eru frægastir fyrir, nautgriparækt. Kunningi minn elur upp svonefnd verðlaunanaut (kynbótanaut) og spígspora ég því um, þessa dagana, meðal nauta af öllum stærðum og gerðum, og virði þau fyrir mér spekingslegur á svip.

Örðugt finnst mér að sjá gæðamun á einu nauti og öðru, en mér er tjáð, að hausinn sé það mikilvægasta í þessu sambandi, og geri ég mér því jafnan far um að horfa í augu bola til að sjá, hversu greindarlegur hann sé. Að sjálfsögðu gæti ég þess, að láta þessar rannsóknir fara fram í hæfilegri fjarlægð.

Teflir fjöltefli

Vera mín hérna í Argentínu hefur gengið alveg hljóðalaust fyrir sig enn sem komið er, og hef ég ekki í hyggju að taka þátt í neinni þeirra uppreisna, sem hér dynja yfir annað slagið.

Ég hef að mestu leyti haldið kyrru fyrir í Buenos Aires, síðan ég kom frá Mar del Plata, og stúdera skák og spönsku, eins og kostur er. Annað slagið tefli ég svo fjöltefli til að auka peningaráð mín, og tefli ég þá einkum á stöðum fyrir utan borgina sjálfa.

„Cha-cha-ca“

Í þessum mánuði hefjast í Argentínu allsherjarhátíðahöld vegna 150 ára byltingarafmælisins, og má gera ráð fyrir að þau verði stórkostleg. Þá fær maður vist tækifæri til að kynnast Cha-cha-ca í allri sinní dýrð, og er ég síður en svo mótfallinn þeim kynnum.

Um „skvísurnar“ hérna er ekki margt að segja, þær eru flestar dökkar yfirlitum, en ekki beinlínis af þeirri gerðinni, að maður gleymi að anda, þegar maður sér þær. Þó má sjá margar snotrar hnátur innan um, en þær eru ekki mjög margar.

Handapat

Hérna í Argentínu ægir saman öllum þjóðarbrotum, sem nöfnum tjáir að nefna, svo sem Ítölum, sem eru í miklum meirihluta, Spánverjum, Frökkum, Þjóðverjum, Rússum, Englendingum o. fl., og er því fólkið, sem maður sér á götunum í dag, ein allsherjar „mixtúra“, líkt og bandaríska þjóðin.

Af þessum ástæðum er erfitt að draga upp ákveðna heildarmynd af skapgerð Argentínumanna, því hún er jafn margslungin og uppruni þeirra, en þó er geinilegt, að þeir hafa tileinkað sér þann skaphita, sem ríkir í hinum suðlægari Evrópulöndum.

Allt það handapat og hávaði, sem er samfara samræðum þeirra, verkaði fremur illa á mig til að byrja með, en ég er orðinn ónæmur fyrir þessu nú orðið og hef sjálfur hávaða í frammi, ef svo ber undir.

Biður að heilsa

Ég veit, að ykkur líður vel þarna upp við Norðurpólinn, því sumarið er að koma til ykkar, um leið og Vetur konungur kveður dyra hér niðurfrá. Ég bið að heilsa og vona að öllum líði vel.

1995: Friðrik ruddi brautina

Friðrik ruddi brautina

 

Grein Jóns L. Árnasonar í DV 4. febrúar 1995 í tilefni sextugsafmælis Friðriks.

Skýringin á almennum skákáhuga á Íslandi umfram mörg önnur lönd er varla einhlít en þrennt vilja spekingar nefna öðru fremur:

Í fyrsta lagi hefði þjóðin frá því land byggðist ornað sér við tafl og spil á köldum, dimmum vetrarkvöldum; í annan stað hefði heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöllinni 1972 kveikt skákelda, sem enn loga; og í þriðja lagi – Friðrik Ólafsson.

Þessar línur eru ritaðar í tilefni þess að Friðrik varð sextugur 26. janúar sl. Líklega hefur framganga hans á sjötta og sjöunda áratugnum öðru fremur orðið kveikjan að svo almennum skákáhuga hérlendis sem raun ber vitni.

Einhvern tímann sagði efasemdarmaður að álíka skemmtilegt væri að horfa á skák teflda, eins og gras grænka eða málningu þorna. Hvað sem því líður er víst að þegar Friðrik var upp á sitt besta var aldrei nein lognmolla á skákborðinu.

Trúlega hefur skákklukkan átt drjúgan þátt í því. Friðrik var frægur fyrir að lenda í tímahraki en var þá háll sem áll, jafnvel þótt tíminn væri að renna út. Margar skákir hans eru frægar hvað þetta varðar, eins og t.d. þegar hann sneri á Gligoric í Portoroz ’58.

Á skákmótum var ekki óalgengt að þegar aðrar skákir væru að nálgast endatafl, væru Friðrik og mótherji hans enn að klóra sig fram úr byrjuninni. Þannig magnaðist spenna í salnum kringum skák Friðriks og ekki spillti leiftrandi sóknarstíllinn.

Friðrik vakti fyrst verulega athygli á alþjóðlegum vetvangi er hann sigraði ásamt Kortsnoj á Hastingsmótinu fræga um áramótin 1955/56. Landsmenn sátu síðan sem límdir við viðtækin er hann tefldi á millisvæðamótinu í Portoroz ’58 og vann sér rétt til þess að tefla í áskorendakeppninni árið eftir. Þar var Friðrik kominn í hóp átta snjöllustu stórmeistara heims, sem tefldu um réttinn til þess að skora á heimsmeistarann Botvinnik.

Friðrik sinnti skákinni í hjáverkum næstu árin, samhliða öðrum störfum en safnaði þó mörgum glæstum sigrum. Hann varð atvinnuskákmaður frá 1974 og kjörinn forseti FIDE, Alþjóðaskáksambandsins 1978-1982.

Síðustu ár hefur Friðrik verið skrifstofustjóri Alþingis og landsmenn hafa ekki átt þess kost að sjá hann við skákborðið. Í haust kann að verða breyting á, því að fyrirhugað er sérstakt afmælismót Friðriks þar sem þekktum kempum verður boðið til leiks.

Þegar Friðrik óx úr grasi voru skákbækur ekki á hverju strái eins og nú er og þaðan af síður disklingar. Því varð fyrst og fremst að treysta á hyggjuvitið. Friðrik sýndi skáklistinni þó meiri ræktarsemi en þá tíðkaðist og tókst að þroska ótvíræða hæfileikana.

Hann var útnefndur stórmeistari 1958, fyrstur Íslendinga. Hann var ungum skákmönnum góð fyrirmynd og ruddi brautina fyrir atvinnumennsku í skák á íslandi – nú eru stórmeistararnir orðnir átta.

Rétt er að líta á eina af skákum Friðriks en vandi er að velja. Mig langar að rifja upp fertuga skák Friðriks úr einvíginu við Hermann Pilnik 1955 sem einnig er að finna í bók Friðriks, Við skákborðið í aldarfjórðung, sem tímaritið Skák gaf út 1976.

Það er lærdómsríkt að sjá hvernig Friðrik byggir stöðu sína markvisst upp og tekst að nýta sér þunglamalega taflmennsku hvíts. Þegar undirbúningi er lokið hristir hann fram úr erminni leikfléttu sem fór sigurför um heiminn – handbragði Friðriks var líkt við sjálfan Alekhine.

Ekki skal lagður dómur á það nú hvort fléttan stenst ströngustu kröfur. Þeir sem eiga öflug tölvuforrit geta kannað hvort tölvan finnur vörn í stöðunni eftir 30. leik Friðriks.

Hvítt: Hermann Pilnik
Svart: Friðrik Ólafsson

Petroffs-vörn.

 

1963: Skákin er skapandi máttur, ekki stærðfræðiþraut

Skákin er skapandi máttur, ekki stærðfræðiþraut

 

Viðtal við Friðrik Ólafsson í Sunnudagsblaði Tímans, 24. febrúar 1963

Hefurðu lesið ,,Manntafl“, Friðrik?

Fólk var alltaf að spyrja mig, hvort ég hefði lesið þessa sögu hans Stefans Zweig. Ég varð að geta sagt já.

Hefurðu nokkurn tíma kynnzt skákmeistara, sem er jafnmikill hálfviti og skákmeistarinn í sögunni?

Nei, og það er mjög hæpið, að góður skákmaður geti verið hálfviti að öðru leyti. Þó ekki væri nema fyrir það eitt, að maður verður alltaf að haga taflmennsku sinni í samræmi við taflmennsku mótherjans, og það getur enginn gert, sem ekki hefur almenna greind.

Það sagði einhver, að skákin hefði heila, en ekki hjarta.

Skákin flytur engan boðskap, og hún hefur ekkert, sem heitir siðferðistilfinning, það er rétt. En hún er skapandi máttur, ekki stærðfræðiþraut, heldur tjáning skákmannsins. Maður fær útrás fyrir tilfinningar og hvatir, sem búa með manni, og persónuleiki skákmannsins speglast í stíl hans, þótt hann sé stundum það gagnstæða við, sem maður annars álítur hann vera — það, sem maður leynir í lífinu, kemur kannski fram á skákborðinu.

Reyna skákmenn stundum að hafa truflandi áhrif hver á annan?

Það eru yfirleitt ekki nema einhverjir smápollar, sem gera það. Með því að reyna að trufla andstæðinginn utan við skákborðið gefur maður nefnilega höggfæri á sér og lætur í ljós, að maður geti ekki unnið skákina með eðlilegum hætti, og það er hætt við, að maður vilji gleyma því, sem fram fer á borðinu, ef maður jafnframt er að reyna að trufla mótherjann.

En náttúrlega geta skákmenn haft truflandi áhrif hver á annan ósjálfrátt. Það kvarta til dæmis margir undan Tal. Hann á það til að gjóa allt í einu á mann augunum, eins og hann sé að lesa hugsanir manns. Og þegar hann á ekki Ieikinn, gengur hann fram og aftur við borðið eins og ljón í búri. Hann gerir þetta ekki af ásettu ráði, er bara svona bundinn við borðið, að hann getur ekíki slitið sig frá því.

En geta áhorfendur ekki haft truflandi áhrif?

Þeir verða bara að andlitslausri þúst fyrir augunum á manni. Ég sá stöku sinnum andlit í þústinni hér áður fyrr, eins og til dæmis í einvíginu við Larsen. Þá sá ég einstaka vondauft andlit, og það var auðséð á þessum andlitum, að eigendur þeirra liðu miklu meira en maður sjálfur, og um leið varð mér ljóst, að þar kom meira til en skákin sjálf.

Það var að minnsta kosti óspart um ykkur Larsen, og sumir sögðu, að þig væruð örgustu óvinir.

Það var að minnsta kosti óspart reynt að gera okkur að óvinum. — Hérna heima féll líka fólki illa við ýmis ummæli, sem hann lét hafa eftir sér í dönskum blöðum, svo sem að hann ætlaði að sækja titilinn í ísskápinn og annað því líkt. Danir sjálfir tóku þetta ekki alvarlega, en höfðu gaman af þessu. Annars eru þeir allra manna harðastir að gagnrýna sína menn, ef illa gengur.

Finnst þér þú vera að tefla fyrir þjóðina, þegar þú teflir á alþjóðlegum mótum?

Það er bezt að varpa þeirri tilfinningu, að maður sé að tefla fyrir fólk, fyrir borð eins fljótt og maður getur og reyna heldur að tefla fyrir sjálfan sig. Það getur að vísu gefið manni sjálfstraust og verið aðhald, að finna, að maður er fulltrúi þjóðar, en það verður til þess, að maður tekur ekki eins miklar áhættur — og þess vegna á maður að losa sig við þessa tilfinningu. Fólk á það heldur ekki skilið, að maður sé alltaf að hugsa um það, því að ef eitthvað ber út af, kveður við annan tón.

Hvaða skák hefur þér þótt skemmtilegast að tefla?

Þegar maður er kominn þetta langt, er skákin ekki skemmtun, heldur miklu fremur vinna og harka. — Skákástríðan — þessi misnotkun á sjálfum sér — er fólgin í taugaá- reynslunni og spenningum. En mér er eftirminnilegust síðasta skákin í Portoroz, ekki vegna skákarinnar sjálfrar, heldur vegna þess, að það valt allt á henni, að ég kæmist upp.

Ég tefldi þá við De Greiff frá Columbíu, og skákin fór í bið. Skákstaðan var óljós, og við Ingvar, Freysteinn og ég grandskoðuðum hana, en fundum ekki beina vinningsleið. Það varð þess vegna ekki lítill fögnuður í herbúðunum, þegar mér tókst að vinna hana.

En er þá ekki til einhver skákmaður, sem þér finnst skemmtilegri en aðrir?

Þá koma margir stílar til greina. Einn er skemmtilegur sóknarskákmaður, annar varnarmaður og sá þriðji skemmtilegur „position“-skákmaður. — Ég kann enga nógu góða þýðingu á „position“ í þessu tilfelli, en taflmennsku „position“-skákmannsins mætti líkja við það, sem kallað hefur verið herstjómarkænska. Hjá honum skeður ekki mikið á yfirborðinu, en það er sifelld undiralda.

En náttúrlega getur enginn góður skákmaður bara verið eitt af þessu. Hann verður að sameina þetta allt, því að hann fær ekki alltaf það fram i taflinu, sem hæfir honum bezt. En það kemur oft greinilega fram, hvað af þessu lætur honum bezt.

Sumir eru þannig gerðir, að þeir fara aldrei í sókn, jafnvel þótt þeir eigi kost á því, aðrir setja sig aldrei úr færi að hefja sókn. Ég held til dæmis, að Tal hiki aldrei við sókn, ef hann á kost á henni.

Undir hvaða flokk fellur þú?

Ég myndi telja mig „position“- skákmann, en frekar ágengan.

Hvaða skákmann ertu smeykastur við?

Ég hef alltaf verið órólegur gagnvart Tal. Við teflum líka svo ólíkan stíl. Það eru vissir skákmenn, sem maður er alltaf smeykur við, og gegn þeim nær maður aldrei sínu bezta. Tal sjálfum virðist til dæmis vera fyrirmunað að ná tökum á Kortsnoj. Tal teflir dálítið glæfralega, þó ekki þannig, að maður beinlínis geti fundið, hvar brestirnir liggja, en Kortsnoj finnur alltaf veilurnar og notfærir sér þær.

Það getur verið svo, að bezti skákmaður í heimi lúti alltaf í lægra haldi fyrir ákveðnum skákmanni, þótt sá sé ekki nærri eins góður. Þetta er dálítið einkennilegt og ekki gott að skýra það, en svona er það í sumum tilfellum.

Hefur það slæm áhrif á þig, ef þú tapar í byrjun móts?

Það getur haft það. En yfirleitt kemst ég yfir það; ég brotna að minnsta kosti ekki. Það getur aftur á móti farið í taugarnar á manni, ef tapið er andskoti svívirðilegt, eins og þegar ég tapaði fyrir Petrosjan í fyrstu umferð á síðasta millisvæðamóti. Ég átti snarunna skák, en tapaði henni fyrir klaufaskap.

Varð Petrosjan glaður?

Hann hristi bara hausinn.

Er ekki mjög misjafnt, hvernig menn taka tapi?

Jú, menn eiga misjafnlega erfitt með að leyna, að þeim fellur miður ag tapa. Sumir geta aldrei viðurkennt, að þeir hafi haft verri stöðu, vilja sem sagt ekki viðurkenna, að til séu betri skákmenn en þeir. Þeir benda oft á vendipunkt skákarinnar, og þegar þeim hefur verið sýnt fram á, að hann er ekki fyrir hendi, þar sem þeir segja hann vera, fara þeir bara framar í skákina og þannig koll af kolli, þar til komið er að byrjunarleikjunum.

En þegar menn eru komnir langt, hætta þeir þessu, og hjá góðum skákmönnum tíðkast þetta alls ekki.

Hvað sérðu marga leiki fram, þegar þú teflir?

Það fer mikið eftir stöðunni. Manni nægir kannski að sjá tvo eða þrjá leiki, stundum verður maður að íhuga marga möguleika og sjá 6-7 leiki í margar áttir. Og þegar maður sér ekki lengur fram, verður maður að meta möguleikana hvern fyrir sig, og þá kemur til kasta ýmislegs, sem erfitt er að skýra:

Maður skynjar eitthvað eða greinir í stöðunni, en ekki til fulls, og um leið vegur maður og metur þessa skynjun. Kannski sér maður líka fyrir sér svipaða stöðu, sem maður þá veit, hvernig hefur reynzt, það er þess vegna þýðingarmikið fyrir skákmann að hafa teflt mikið.

Teflirðu varlegar nú en áður?

Ég tefldi eiginlega varlegast á mínum yngri árum, 15-20 ára. Það hefur alltaf verið talinn ljóður á ungum skákmönnum, ef þeir byrja að tefla eins og gamlir skákmenn, svo að ég þótti ekkert sérstaklega efnilegur.

En þegar ég var kominn yfir tvítugt, sneri ég svo algerlega við blaðinu, að ýmsum fannst nóg um. Þetta kom til dæmis fram í einvíginu við Pilnik. Hann sagði í blaðaviðtali, að þessi taflmennska mín myndi ekki duga mér alltaf, þótt hún hefði dugað gegn sér í þetta sinn. Og ég sá náttúrlega síðar, að hún var ekki til frambúðar.

Heldurðu, að skákmenn nútímans séu betri en þeir gömlu?

Þeir eru ekki hæfileikameiri, en þeir ráða yfir meiri tækni. Skákin er orðin fastmótaðri nú en í gamla daga, og það er gömlu skákmönnunum að þakka, því að þekking skákmanna nútímans byggist á þeim. Menn vita betur nú en áður, hvernig á ekki að tefla.

Eru möguleikarnir i skák ótæmandi?

Mér finnst ekkert benda til þess eins og er, að skákin sé tæmandi eða verði það í náinni framtíð. En ef svo ólíklega færi, má náttúrlega stækka skákborðið og bæta við mönnum. Árið 1926 bar Capablanca, sem þá hafði verið heimsméistari í mörg ár, fram tillögu um að stækka borðið upp í tíu reiti á kant og bæta við átta mönnum.

Hann hélt því fram, að skákin væri orðin of einföld. En árið eftir missti hann heimsmeistaratitilinn.

Bobby Fischer sagði, að vestantjaldsmenn gætu ekki unnið á áskorendamóti vegna samvinnu rússnesku skákmannanna, er þetta rétt hjá honum?

Hann staðhæfir nú svo margt, sem hann á erfitt með að rökstyðja, en þó er dálítið til í því, að skákmenn frá sama landi vinni saman á mótum, það er ekki nema eðlilegt. Myndum við ekki gera það sama, ef við ættum kost á því?

Rússar kæra sig í rauninni ekkert um þetta, enda er búið að breyta fyrirkomulagi áskorendamótanna þannig, að slík samvinna er útilokuð í framtíðinni. Í framtíðinni munu þeir átta skákmenn, sem tefla á þessum mótum, heyja einvígi fyrst. Segjum til dæmis, að á slíku móti séu fimm Rússar og 3 menn annarra þjóða. Eftir fyrstu einvígisumferðina verða fjórir sigurvegarar; þeir heyja síðan einvígi, og þá eru eftir tveir, sem tefla um, hver á að fá áskorendaréttinn.

Einvígi er sennilega erfiðara en venjulegt mót; maður er alltaf að kljást við sama andstæðinginn og getur ekki hvílt sig á nýjum og nýjum mönnum. Í einvígi getur mikið oltið á því, hvernig maður vinnur skák. Ef maður til dæmis vinnur skák upp úr verri stöðu, getur það haft mjög slæm áhrif á andstæðinginn og lamað hann.

Þetta kom greinilega fyrir í einvígi þeirra Botvinniks og Tal. Tal tókst hvað eftir annað að klóra sig út úr erfiðri stöðu og vinna eða ná jafntefldi. Botvinnik byggði yfirleitt upp hetri stöðu en Tal, sem notaði minni tíma.

Svo þegar Botvinnik ætlaði að fara að vinna úr stöðunni, hafði hann ekki nógan tíma, og Tal var honum fremri í að skapa flækjur og gerði honum erfitt fyrir. Þrátt fyrir betri stöðu Botvinniks, tókst Tal að vinna, og þetta hafði þau áhrif á Botvinnik, að hann brotnaði, þegar líða tók á einvígið.

Hvernig fellur þér að tefla við Fischer?

Mér hefur gengið illa við hann upp á síðkastið, en ég er víst ekki einn um það.

Er hann eins grobbinn og af er látið?

Það er ekki hægt að kalla þetta grobb í honum. Þessi framkoma er honum eðlileg. Þegar hann slær fram fullyrðingum sínum, veit hann ekki annað en hann sé að segja það. sem hann hafi leyfi til. En það er óhætt að segja, að hann er enginn diplómat.

Þú ert í lögfræðinni Heldurðu ekki, að hún taki þig eitthvað frá skákinni?

Jú, ég býst við því.

Það ætti eiginlega að banna þér að gera annað en tefla.

Það mætti kannski banna mér að fara i lögfræðina, ef ég vildi það ekki sjálfur, en ég er ekki svo eldheitur skákmaður, að ég láti allt annað sigla sína leið, líkt og Fischer gerir. Hjá honum kemst engin hliðarhugsun að.

Hann er eins og hestur með augnskjól, horfir beint fram. Það segja sumir, að í þessu sé mismunurinn fólginn á venjulegum manni og snillingi — og ég verð víst að sætta mig við það að vera bara venjulegur maður, úr því sem komið er.

— Birgir.

1974: Friðrik gerist atvinnumaður

Friðrik gerist atvinnumaður:

,,Þessi baktería hefur alltaf nagað mig“

 

Eftir Jón Þ. Þór. Morgunblaðið 1. mars 1974.

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Friðrik Ólafsson stórmeistari nú ákveðið að gerast atvinnumaður í skák, í bili a.m.k. Af þessu tilefni þótti tilvalið að eiga stutt samtal við Friðrik og spyrja hann um helztu framtíðaráætlanir hans. Fer samtalið hér á eftir:

Friðrik, hvers vegna tókstu þá ákvörðun að gerast atvinnumaður í skák?

„Það er kannski erfitt að gefa viðhlítandi skýringu á því. Ég held að það sé hverjum manni hollt að breyta til öðru hvoru og einhvern veginn hefur þessi baktería alltaf nagað mig. Mig langaði til að reyna og freista þess að sjá hvernig ég stæði að vígi. Maður getur þá ekki nagað sig í handarbökin síðar fyrir að hafa ekki lagt á brattann þegar tækifæri bauðst.“

Reykjavíkurskákmótið var fyrsta mótið, sem þú tókst þátt í eftir að hafa tekið þessa ákvörðun, ertu ánægður með frammistöðuna?

„Ég get nú varla sagt að ég sé ánægður, en þetta mót kom eiginlega hálfilla inn í mínar áætlanir. Eg hefði helzt kosið að fást við rannsóknir og að byggja mig upp fyrri hluta ársins, áður en ég færi að tefla. Ég hef verið að reyna að rannsaka byrjanir, en það tekur langan tíma og sem dæmi má nefna, að það, sem ég hafði kynnt mér þannig kom aðeins að notum í einni skák í þessu móti. Í þeirri skák fann ég til öryggis, sem ég fann ekki í öðrum skákum. Ég reyndi að nota þetta mót til þess að komast í snertingu við skákina aftur og reyndi þess vegna að tefla hverja skák í botn. Auðvitað er ég ekki fyllilega ánægður með taflmennskuna í öllum skákunum, en það verður víst aldrei á allt kosið.“

Hver er staða skákarinnar á íslandi í dag, finnst þér vera um framfarir að ræða?

„Ég veit ekki hvort við getum talað um framfarir. Mér finnst stundum eins og stöðnun sé að gera vart við sig, þetta eru alltaf sömu mennirnir og þeir, sem bætast i hóp þeirra sterkustu standa líka í stað þegar þeir hafa náð ákveðnu marki. Menn þurfa að fá meiri reynslu á alþjóðlegum vettvangi, gallinn er bara sá, að það er erfitt að koma mönnum inn í alþjóðleg mót, ekki sizt eftir að Elo-stigakerfið var tekið upp.“

Nú er búið að stofna til vísis að skákskóla hér, heldurðu að hann geti bætt eitthvað úr?

„Við skulum nú fara varlega í að kalla þetta skákskóla, þetta er hópur manna, sem hefur verið valinn til æfinga og svo á að heita að við Guðmundur Sigurjónsson eigum að veita þeim forystu. Vonandi getur þetta bætt eitthvað úr, en menn verða að gæta þess, að það er alls ekki víst að við séum réttu mennirnir til að kenna öðrum. Ég segi fyrir sjálfan mig, að ég hef orðið að prófa mig áfram með flest, en er enginn útlærður þjálfari. Ég gæti vel hugsað mér að affarasælla yrði að fá hingað lærðan þjálfara þó ekki væri nema tvo til þrjá mánuði til að byrja með.“

Guðmundur Arnlaugsson: ,,Skák hef ég teflt bæði ungur og gamall“

1980: XXIV. Ólympíuskákmótið á Möltu

I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

1980: XXIV. Ólympíuskákmótið á Möltu

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Vinningshlutall 0%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

1974: Skákkeppni stofnana

Skákkeppni stofnana og fyrirtækja 1974

Árleg skákkeppni stofnana og fyrirtækja 1974 var haldin í félagsheimili T. R. og S. Í. febrúarmánuði síðastl. Þátttaka var að venju mjög góð, eða alls 54 sveitir, og tefldu 24 í A-aflokki en 30 í B-flokki.

A-flokkur

Úrslit í A-flokki urðu þau, að sveit Stjórnarráðsins bar sigur úr býtum eftir harða keppni. Sveitin hlaut 19 vinninga, tapaði engri keppni. Það var ekki fyrr en eftir fjórðu umferð sem Stjórnarráðið náði hreinni forustu, hafði hlotið 12 vinninga. – Fast á hæla þess kom Borgarverkfræðingur A með 11 ½ vinning, en Menntaskólinni við Hamrahlíð og Landsbankinn A fylgdu á eftir með 11 v. hvor.

Eftir 5. umferð komst Hamrahlíðarskólinn upp að hlið Stjórnarráðsins, og höfðu hvor um sig 14 v., en á hæla þeim var Búnaðarbankinn með 13 ½ v.

Í næstsíðustu umferð mættust sveitir Stjórnarráðsins og Hamrahlíðarskólans og sigraði Stjórnarráðið örugglega, en Búnaðarbankinn og Landsbankinn skildu jafnir.  Sveit Útvegsbankans marði hins vegar sigur yfir Borgarverkfræðingi.

Þegar síðasta umferð hófst var staða efstu sveita þessi: Stjórnarráðið 17 v., Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn 15 ½ v.

Stjórnarráðið og Búnaðarbankinn tefldu saman og skildu jöfn, og sömuleiðis Útvegsbankinn og Hamrahlíðarskólinn. Þar með var sigur Stjórnarráðsins orðin staðreynd.

Sveit Stjórnarráðsins skipuðu þeir Friðrik Ólafsson, stórmeistari, Baldur Möller, Arni Snævarr, Högni Ísleifsson, Hrólfur og Grétar Ársælssynir.

Um önnur úrslit vísast til meðfylgjandi töflu.

B-flokkur

1. Skattstofan 21 ½ v.
2. Borgarskrifstof’ur 19 ½ v.
3. Félag náttúrufræðinema 18 v.
4. Orator B 17 ½ v.
5. Gagnfræðaskólinn í Keflavík 16 ½ v.
6. Virkir hf. 16 ½ v.

2015: XX. EM Landsliða í Reykjavík

I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

2015: XX. EM Landsliða í Reykjavík

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Etcc 2015 – Open section
Friðrik Ólafsson
Árangur Friðriks
Umf Nafn Stig Þjóð Vinn Úrslit
2 IM Sadiku Bedri 2197 KOS 2,5 w ½
3 GM Esen Baris 2565 TUR 3,5 w 0
4 GM Miezis Normunds 2496 LAT 2 s 0
7 FM Vedrickas Tautvydas 2320 LTU 5,5 w 0
Vinningshlutall 13%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu