1963: Skákþing Reykjavíkur

Friðrik og Ingi R. efstir: Þurfa að tefla einvígi um titilinn!

 

Sveinn Kristinsson skrifar.

Þau urðu úrslit Reykjavíkurmótsins, sem kunnugt er, að Friðrik og Ingi R. Jóhannsson urðu þar jafnir efstir með 5 vinninga hvor. Friðrik tapaði einni skák, fyrir Jónasi Þorvaldssyni, en Ingi tapaði engri. Munu þeir kappar verða að heyja einvígi um meistaratignina, og hefst það væntanlega bráðlega. Jónas Þorvaldsson, sem náði þriðja sæti og hlaut 1,5 vinning gegn þeim Friðrik og Inga, var þó líklega sá keppandinn sem mesta athygli vakti. Er Jónas greinilega í mikilli framför og hefur aukizt öryggi.

Annars sýndi mótið í heild aðð þeir Friðrik og Ingi verða að fara að gæta sín alvarlega gegn hinum yngri meisturum. Stórmeistarinn hefur ekki lengur jafneinsýna yfirburði og hann hafði yfir helztu andstæðinga sína um árabil. Slíkt væri líka óeðlilegt, því framför manna verður yfirleitt hægari eftir því sem menn ná meiri styrkleika.

Bilið milli sterkra manna og veikari hefur því að jafnaði tilhneigingu til styttingar og því meiri því blómlegra sem skáklíf er og meira teflt. Nú er t.d. ljóst orðið, að styrkleikamunur þeirra Friðriks og Inga er ekki ýkja mikill, og má þó telja þvínær öruggt, að stórmeistarinn muni sigra í væntanlegu einvígi þeirra. En ekki er líklegt, að vinningsmunur verði mikill.

Skákþing Reykjavíkur í ár fór vel fram og var með köflum allvel sótt af áhorfendum. Þar voru tefldar ýmsar skemmtilegar skákir og fjörugar, en talsvert var um afleiki, eins og vill oft verða svo, þegar harkalega er barizt.

Þjóðviljinn 24. febrúar 1963.

1963: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 71%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu