1973: Sex landa keppni

,,Það var einhver ógæfa yfir okkur“

 

Tíminn 11. ágúst 1973.

„Þetta gekk einkennilega illa hjá okkur. Við vorum oft komin með mun betri og jafnvel unnin töfl, en einhvern veginn tókst okkur að klúðra skákunum niður i jafntefli og jafnvel tapa þeim. Það var einhver ógæfa yfir okkur,“ sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari, í viðtali við Timann um frammistöðu íslenzku skáksveitarinnar í sexlandakeppninni sem nýlokið er í Danmörku, en við náðum tali af Friðriki við heimkomu hans í gærkvöldi.

Íslenzka sveitin hafnaði í fimmta sæti keppninnar með 11,5 vinning af 30 mögulegum. Danir urðu sigurvegarar með 20,5 vinning, næstir komu Svíar með 17,5 Norðmenn þriðju með 15,5 vinning, Vestur-Þjóðverjar fjórðu með 15 vinninga, þá komu Íslendingar með 11,5 vinning og lestina ráku Finnar með 10 vinninga.

Íslenzka sveitin vann enga hinna sveitanna. Bezt gekk gegn Finnum, en þar varð jafntefli, þrír vinningar gegn þremur. Tveir og hálfur vinningur náðust af Svíum, Dönum og Þjóðverjum, en Norðmennirnir létu ekki nema einn vinning af hendi.

Friðrik sagðist sjálfur hafa fengið tvo og hálfan vinning eða fimmtíu prósent. Hann vann Finnann Saren, tapaði fyrir Þjóðverjanum Dueball, en gerði jafntefli við Larsen, Andersson og Ögaard. Ekki sagðist Friðrik vera ánægður með þessa vinningatölu, sagðist hafa náð betri stöðu í öllum skákunum, nema þeirri gegn Svíanum Andersson, en ekki tekizt að nýta sér yfirburðina til vinnings.

Nefndi hann sem dæmi skákina gegn Dueball, en þar var hann kominn með gjörunnið tafl, með mann yfir og gat reyndar gert út um skákina í einum leik, en þá lék hann svo hroðalega af sér og skákin tapaðist. Friðrik sagðist hafa fengið betra tafl út úr byrjuninni gegn Larsen og haft betri stöðu i biðskákinni, en lítill timi vannst til að rannsaka biðstöðuna, sem var flókin og áhættusöm, þannig að Friðrik sagðist ekki hafa viljað taka áhættuna af því að tefla til vinnings og hefðu þeir félagarnir því samið um jafntefli fljótlega eftir að setzt var að skákborðinu að nýju.

Annars var Larsen ákaflega heppinn á þessu móti, sagði Friðrik. Hann var t.d. með koltapaða skák gegn Svíanum, en Svíinn lék af sér og tapaði. Larsen og Dueball fengu beztu útkomu keppenda á fyrsta borði, hlutu 3,5 vinning hvor.

Um frammistöðu annarra keppenda í íslenzku sveitinni, sagði Friðrik að Ingi R. Jóhannsson hafði náð beztum árangri. Ingi fékk fjóra vinninga úr fimm skakum, gerði jafntefli við Svíann og Norðmanninn. Ingvar Ásmundsson og Júlíus Friðjónsson hlutu 1,5 vinning hvor og þau Jón Kristinsson og Guðlaug Þorsteinsdóttir fengu einn vinning.

,,Vissulega virtist kvenmaðurinn í sveitinni vera veikasti hlekkurinn, — enda er Guðlaug aðeins 12 ára, en hún spjaraði sig ágætlega og gerði tvö jafntefli. Hún tefldi oft stórvel, en skorti reynslu til þess að ná meiru út úr skákunum. Stelpan verður stórgóð í framtíðinni og miklu betri en þessar kvensur, sem hún átti í höggi við á þessu móti,“ sagði Friðrik að lokum.

1973: Sex landa keppni

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu