1964: Opna Kaupmannahafnarmeistaramótið

Friðrik-Ólafsson_Opna-KaupmannahafnarmeistaramótiðDagana 22. til 30. ágúst sl. tók ég þátt í skákmóti í Höfn, sem Danir nefna „opna“ Kaupmannahafnarmeistaramótið, en sú nafngift felur það í sér, að öllum er heimil þátttaka, jafnt erlendum skákmönnum sem dönskum.

Mótið fór fram í Kirsebærhavens skóla í Valby og voru þátttakendur alls 156, þar af 32 í efsta flokki (Eliteklassen).

Í efsta flokknum var notast við Monradkerfi og tefldar átta umferðir, en það er að sjálfsögðu alltof lítið, þegar svo margir þátttakendur eru annars vegar. Níu umferðir hefðu strax gefið betri raun, en sennilega hefði þurft ellefu umferðir til að fá fram fyllilega viðunandi heildarmynd í mótslok, a. m. k. hefðu þá flestir forystusauðirnir náð að tefla innbyrðis.

Áður en mótið hófst var það almennt álit manna, að stórmeistararnir tveir, þ. e. Larsen og undirritaður, mundu fljótlega stinga aðra keppinauta sína af og sigra með yfirburðum í mótinu. Þessir Spádómar brugðust hrapalega þegar í fyrstu umferðunum. Larsen byrjaði á því að gera jafntefli í tveim fyrstu skákunum – mátti jafnvel prísa sig sælan, að ekki fór verr og í 3. umferð tapaði hann fyrir hinum unga og efnilega landa sínum, Svend Haman. Þar með var útséð um möguleika Larsens, og enda þótt hann tæki sig gífurlega á undir lokin, náði hann aldrei að komast í snerting við efsta sætið.

Margir hafa furðað sig á þessari frammistöðu Larsens og telja, að öryggi hans sé mjög ábótavant. Þetta er að vissu leyti rétt, en ég held, að aðal orsökin sé sú, að Larsen hefur teflt of mikið að undanförnu og hefur auk þess ekki haft neinn sérstakan áhuga fyrir skákmótinu. Hugurinn stefnir hátt um þessar mundir, það er sjálf heimsmeistarakórónan, sem hann hefur í sigti.

Slæleg frammistað í minniháttar móti dregur engan dilk á eftir sér, það er aðalatriðið að vera vel undirbúinn, þegar Áskorendamótið hefst á næsta ári..

Kaupmannahafnarmeistaramótið hefur því ekki haft mikla þýðingu í augum Larsens, það bera skákir hans ljóslega með sér. Ég get tekið sem dæmi skák hans við Söby úr 4. umferð:

Hvítt: Larsen. Svart: Söby.

Fromsgambítur.

Svartur er nú með unnið tafl, en á einhvern furðulegan hátt tókst honum að tapa skákinni!

Í lok þessa mánaðar tekur Larsen þátt í geysisterku skákmóti í Júgóslafíu og þá fáum við að sjá, hvort hann fær uppfyllt þær kröfur, sem til hans eru gerðar eftir árangur hans í millisvæðamótinu í sumar. Í móti þessu munu taka þátt m. a. núverandi heimsmeistari, Petrosjan, ennfremur Botvinnik, Tal, Fischer, Ivkov og Gligoric, svo að andstæðingarnir verða ekki af lakari endanum. Larsen verður greinilega að taka á honum stóra sínum í þessu móti, en sýni hann svipaða taflmennsku og í Amsterdam, ætti hann ekki að þurfa að kvíða neinu.

Um mína frammistöðu er þetta að segja: Ég komst aldrei í taphættu í mótinu og stóð yfirleitt betur í öllum skákum mínum. Hins vegar háði æfingarleysið mér nokkuð og þegar gamli óvinur minn, tímahrakið, kom jafnframt til sögunnar, var ekki að sökum að spyrja. Tvær vinningsstöður hurfu úr höndum mér sem dögg fyrir sölu og ég varð að sætta mig við jafntefli í báðum skákunum. Þetta var sérstaklega bagalegt í annarri skákinni, því að þar var andstæðingur minn Hvenekilde, sá er að lokum sigraði í mótinu. Í hinni skákinni lá vinningurinn ekki eins beint við, en það er sannast sagna ótrúlegt, að andstæðingur minn skyldi sleppa lifandi úr þeirri klípu, sem hann var kominn í:

Skák nr. 1425.
Hvítt: Friðrik Ólafsson.
Svart: B. Andersen.

Ensk byrjun.

Sigur Bent Hvenekilde kom öllum áóvart, ekki sízt honum sjálfum. síðustu umferð átti hann við Bent Sörensen, efnilegan skákmann frá Árósum og það leit síður en svo gæfulega út fyrir Hvenekilde. Sörensen virtist geta leitt skákina til sigurs hvenær sem var, en hann hikaði í sífellu og þegar hann að lokum lét til skarar skríða var um hreint frumhlaup að ræða. Hvenekilde rétti úr kútnum, náði hættulegri kóngssókn og vann. Þar með var efsta sætið hans. – Röð efstu manna varð annars sem hér segir:

  1. Bent Hvenekilde 6 v.
  2. Björn Brinck-Ciausen 5 1/2 v.
  3. Friðrik Ólafsson 5 1/2 v.
  4. Börge Andersen 5 1/21 v.
  5. Ole Jakobsen 5 1/2 v.
  6. Bent Larsen 5 v.
  7. Norman-Hansen 5 v.

Þess má geta hér til gamans, að Bent Sörensen, sem hlaut alls 4 1/2 vinning, hefði orðið efstur í mótinu sökum hagstæðrar stigatölu sinnar, hefði hann náð að sigra Hvenekilde. Þetta er furðulegt þegar þess er gætt, að Sörensen tefldi einungis við tvo af þeim mönnum, sem hér eru taldir upp að framan, þ. e. þá Hvenekilde og Jakobsen. En eins og ég gat um áðan, þá var mótið alltof stutt til að eðlileg heildarmynd fengist og framangreindur möguleiki hefði als ekki verið fyrir hendi, ef mótið hefði verið lengt um 2-3 umferðir.

Bent Hvenekilde átti sjálfsagt skilið að sigra í mótinu sökum hörku sinnar, seiglu og útsjónarsemi, en hefði ég mátt ráða, hefði ég hiklaust látið hann víkja sæti fyrir Brinck-Clausen, sem um þessar mundir er einhver skærasta stjarna Dana. – Brinck-Clausen tefldi flestar skákir sínar mjög vel og var m. a. sá eini, sem lagði Hvenekilde að velli. Hann var efstur fyrir síðustu umferð, en þá brugðust taugarnar og hann tapaði heldur illilega fyrir Ole Jakobsen. Þar með var draumurinn búinn um efsta sætið, en Brinck Clausen hélt 2. sæti sökum hagstæðrar stigatölu. Brinck-Clausen er sem kunnugt er skákmeistari Norðurlanda um þessar mundir.

Börge Andersen, Kaupmannahafnarmeistarinn í ár, tefldi nokkuð skrykkjótt framan af, en tók svo góðan endasprett og hafnaði í 4. sæti. Danmörku er hann talinn ganga Bent Larsen næstur að styrkleika og teflir hann væntanlega á efsta borði fyrir Dani á Ólympíuskákmótinu í Ísrael í vetur, þar eð Bent Larsen mun ekki sjá sér fært að vera með.

Sérstök ástæða er til að veita athygli frammistöðu Norman-Hansen, er hafnaði í 7. sæti. Norman-Hansen er orðinn 72 ára gamall, en ekki ber taflmennska hans keim af því nema síður sé. Hann hafði forystu í mótinu lengst framan af, en tapaði þá fyrir Hvenekilde og dróst við það nokkuð aftur úr. Bezta árangri á skákferli sínum mun Norman Hansen hafa náð á Ólympiuskákmótinu í London 1927 (!), en þá varð hann efstur allra fyrstaborðsmanna.

Það vakti mjög athygli mína í sambandi við mót þetta, hversu Danir eiga nú á að skipa miklum fjölda efnilegra nýliða. Ekki var það fyrst og fremst fjöldinn, sem dró að sér athygli mína, heldur kunnátta þessara ungu manna og styrkleiki. Þeir virðast stunda íþrótt sina af mikilli alvöru og kostgæfni og gera sér greinilega ljóst, að árangur næst ekki nema eitthvað sé lagt í sölurnar í staðinn. Hygg ég að jafnaldrar þeirra hér á Íslandi gætu margt af þeim lært í þessum efnum, a. m. k. væri æskilegt, að þeir reyndu að temja sér svipað hugarfar.

Að síðustu vil ég geta þess, þótt það heyri ekki beint til þessari grein, að litlar líkur eru fyrir því, að einvígi það, sem Skáksamband Íslands hyggst koma á milli Larsens og undirritaðs, eigi sér stað. Ráðgert hafði verið að halda einvígið í febrúar og marz á næsta ári, en þann tíma ætlar Larsen einmitt að nota til að búa sig undir Áskorendamótið. Virðist ósennilegt, að hann geri nokkra breytingu á þeirri ákvörðun sinni.

 

Óþekktur Dani skákaði stórmeisturunum

 

Morgunblaðið 1. september 1964.

Á sunnudaginn lauk í Kaupmannahöfn Opna Kaupmannahafnarmeistaramótinu í skák en meðal keppenda þar var Friðrik Ólafsson, stórmeistari. Öllum á óvart bar ungur danskur skákmaður og tiltölulega óþekktur, Hvene- kilde að nafni, sigur úr býtum.

Teflt var eftir svokölluðu Monrad-kerfi, þar sem útkoman er reiknuð í stigum, og hlaut hinn ungi sigurvegari 6 stig. Í öðru sæti var Daninn Brinck Clausen með 5,5 stig og í þriðja sæti Friðrik Ólafsson með jafn mörg stig.

Blaðið ræddi við Friðrik Ólafsson í gær og innti hann tíðinda af mótinu. Hann sagði, að mót þetta væri annað tveggja Kaupmannahafnarmeistaramóta, en sá væri munurinn, að til þessa móts væri útlendingum og boðið til keppni. Auk Friðriks tóku þátt í mótinu tveir Hollendingar en þeir stóðu sig ekki sérlega vel, að því er Friðrik sagði.

Aðspurður um skákstíl hins unga sigurvegara, Hvenekilde, sagði Friðrik, að erfitt væri að skilgreina hann.

,,Hann virðist ekki tefla neitt sérstaklega vel,“ sagði Friðrik, ,,en hann er ákaflega seigur. Í síðustu umferðinni var hann t.d. með gjörtapað tafl, en andstæðingur hans var mjög taugaóstyrkur. Hvenekilde virtist kunna að notfæra sér það og tókst að sigra að lokum. Ef andstæðingur hans, Bent Sörensen, hefði unnið skákina, hefði sá orðið efstur á mótinu.“

Hver var árangur þinn í mótinu, Friðrik?

,,Þrjá skákir unnar og 5 jafntefli.“

Hvernig gekk þér á móti sigurvegaranum?

,,Það varð jafntefli.“

Friðrik sagði, að léleg frammistaða Bent Larsens hefði komið mjög á óvart. Öllum til mikillar furðu var hann ekki meðal efstu manna.

,,Hann segir líka sjálfur,“ sagði Friðrik, ,,að hann geti ekki alltaf teflt vel.“

Mótið var haldið í Valby, úthverfi Kaupmannahafnar, og var mjög vel sótt af áhorfendum og sagði Friðrik, að Larsen hefði átt mikinn þátt í því að draga að áhorfendur.

,,Annars var ég óánægður með Monrad-kerfið,“ sagði Friðrik. Því er þannig hagað, að þeir, sem eru svipaðir að vinningum, tefla saman. Þeir, sem vinna t. d. í fyrstu umferð eru látnir tefla saman í annarri umferð. Þetta finnst mér vafasamt fyrirkomulag. Það má geta þess, að þetta kerfi gerði það að verkum, að Larsen tefldi aldrei við sigurvegarann.

Í þessu móti tóku þátt 150 skákmenn og var teflt í nokkrum flokkum. Í flokki Friðriks tefldu 36 skákmenn og hlaut Friðrik 3. sæti sem fyrr segir.

1964: Alþjóðlegt skákmót í Kaupmannahöfn

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1964_motstafla_kaupmannahofn-page-001

Vinningshlutall 69%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu