Karpov og Stein sigruðu í Moskvu: Friðrik lagði Tal í 22 leikjum!
Hinn tvítugi Anatoly Karpov og kempan gamalreynda, Leonid Stein, sigruðu á sterkasta skákmóti ársins, sem fram fór í Mosvku 24. nóvember til 18. desember 1971. Heimsmeistarinn Spassky varð að gera sér 6.-7. sætið að góðu, en á mótinu tefldu hvorki fleiri né færri en fimm fyrrverandi og verðandi heimsmeistarar: Karpov, Smyslov, Petrosian, Tal og Spassky.
Keppendur voru 18, og sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Friðrik Ólafsson deildi 12. sætinu með rúmenska stórmeistaranum Gheorghiu með 7,5 af 17 mögulegum. Hann vann Mikail Tal í aðeins 22 leikjum með laglegri drottningarfórn. Skákin, og endalokin, vöktu mikla athygli, og sagði Tal síðar að næstu 10 árin hefði hann eytt að minnsta kosti sekúndu(!) á hvern leik í miðtaflinu til að passa upp á 8. reitaröðina.
Friðrik gerði jafntefli við báða sigurvegarana. Þetta var í fyrsta sinn sem hann tefldi við Karpov, sem var á hraðferð upp á stjörnuhimininn.
Leonid Stein var af kynslóð Friðriks, fæddur 1934, og meðal allra sterkustu skákmeistara heims á sjöunda áratugnum. Hann varð skákmeistari Sovétríkjanna í þrígang á árunum 1963 til 1966, og í hávegum hafður fyrir leiftrandi sóknarstíl. Þeir Friðrik mættust alls þrisvar sinnum við skákborðið, Friðrik vann eina skák og tveimur lauk með jafntefli. Stein lést í blóma lífsins, árið 1973.
Árangur Friðriks á þessu ofurmóti verður að teljast góður, enda fór hann til Moskvu með litlum fyrirvara og var einn af sárafáum keppendum sem ekki voru atvinnumenn. Tilgangur hans með ferðinni var ekki síst að telja Sovétmenn á að heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskys færi fram í Reykjavík.
Skákirnar
Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu