Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar. Vísir 22. júní.
Fiske-skákmótinu, sterkasta skákmóti sem hér hefur verið haldið, er lokið. Rússunum tókst nú að sigra Friðrik á heimavelli en það hefur ekki skeð síðan Tal sigraði á Reykjavíkurmótinu 1964. Taimanov virtist taka mótið nokkuð létt og komst aðeins einu sinni í vandræði. Var það gegn Freysteini, sem fann þó ekkert afgerandi í tímahrakinu.
Vasiukov lagði mun meiri vinnu í skákir sínar og teflir þyngri stíl. Í síðustu umferð virtist Vasiukov einna næstur sigri í mótinu, en hann lét sér nægja jafntefli í skák sinni gegn Braga, lítt tefldri.
Friðrik byrjaði fremur illa. Æfingaleysi hans kom fram í mikilli tímaeyðslu á fyrri helming skákanna og gegn Vasiukov kostaði þetta heilan vinning og efsta sætið í mótinu.
Byrne tefldi léttan og lipran skákstíl, þótt hann virtist skorta styrkleika á við Rússsana og Friðrik. Byrne er sagður vinsælasti skákmeistari Bandaríkjanna og vissulega var hann ánægjulegur fulltrúi lands síns á móti þessu.
Uhlmann virkar skákþreyttur enda hefur hann kvartað undan miklu álagi sem eini stórmeistari Austur-Þýskalands.
Þáttur Guðmundar Sigurjónssonar er vissulega ánægjulegasti hluti mótsins. Til að ná titli alþjóðlegs skákmeistara þarf mikinn skákstyrkleika, styrkleika sem Guðmundur hefur og virðist sífellt vera að bæta við.
Freysteinn tefldi einnig mjög vel og vantaði aðeins hálfan vinning til að ná sama árangri og Guðmundur. Freysteinn tefldi sérlega vel gegn Rússunum og hafnaði reyndar jafnteflisboði frá báðum, þótt hann yrði að sætta sig við skiptan hlut í lokin.