1966: II. Reykjavíkurskákmótið

Friðrik sigurvegari í Reykjavíkurmótinu

 

Jóhann Þórir Jónsson skrifar.

Fyrir nokkru síðan lauk í Reykjavík hinu öðru alþjóðlega stórmóti, sem haldið hefur verið. Hið fyrra var haldið 1964. Að þessu sinni var það Skáksamband Íslands sem stóð fyrir mótinu og var það helgað 40 ára afmæli sambandsins og einnig fyrstu stjórn þess.

Skáksamband Íslands var stofnað á Blönduósi 1925. Fyrsti forseti sambandsins var Ari Guðmundsson, Akureyri, en aðrir í stjórn þess voru Kristján Arinbjarnar, Blönduósi, og Jóhann Havsteen, Akureyri.

Það kemur ef til vill mörgum spánskt fyrir sjónir að Skáksamband Íslands skuli nú standa eitt að mótinu, ekki sízt er þess er gætt að 1964 voru það Taflfélag Reykjavíkur og Skáksamband Íslands sem héldu mótið og meira að segja var það T. R. sem átti frumdrögin að mótinu. Skapast þetta af deilum sem ekki mun farið nánar út í hér að svo stöddu, en endanlega tókust þó samningar milli þessara aðila þannig að T. R. stendur fyrir mótinu 1968.

Mótið í ár var að vísu ekki jafn svipmikið og það sem haldið var 1964, sem verður að teljast með því bezta sem gerist í þessum efnum. En það er heldur ekki aðalatriðið að hafa eintómar „kanónur“ í hverju móti, heldur að halda það reglulega. Enginn efi er á því að þessi mót eiga miklum vinsældum að fagna, enda má segja að áhuga fyrir skák rísi hvað hæzt meðan þau standa yfir. Undirbúningurinn að mótinu hófst snemma s.l. sumar og má segja að nokkuð samfellt hafi verið starfað síðan og þar til mótið hófst. Þrátt fyrir þetta lentu undirbúningsmenn í gegivænlegu tímahraki undir lokin og stóð jafnvel svo um tíma, að ekki tækist að fylla tölu keppenda. Kom þar margt til, m. a. það að ameríski stórmeistarinn Bisguier forfallaðist á síðustu stundu, svo og stóð til að Boris Spassky kæmi, en þar eð hann vann einvígið um áskorunarréttinn af Tal, þá brast það. Sovézka skáksambandið mun þá hafa boðið að senda annan mann, en á kostnað Skáksambandsins, og var því hafnað. Má telja það vafasamt, þar eð reikna má með að komið hefði nægilega sterkur skákmaður til að fylla skarð Spasskys. Í þess stað var farin sú leiðin að reyna við ýmsa menn úr nágrenninu, svo sem Larsen og Uhlmann, en báðir höfnuðu. Larsen vegna of stutts fyrirvara. En hvað um það, mótið komst á stað með fulla tölu og getum við gert okkur ánægða með það, því ekki má eingöngu vanþakka þau störf sem unnin eru í góðri trú og af mikilli fórnfýsi. Hvað sem annars verður sagt kostar það mikla vinnu að halda slíkt mót sem þetta og ekki hefur það þekkst hér enn að greiða mönnum neinar miskabætur, enda um áhuga- og tómstundastarf að ræða.

1966_Reykjavikurmotid_Fridrik-OlafssonMótið fór fram í Lídó, hófst 12. janúar og var teflt út mánuðinn.
Strax í upphafi hófst æðisgengið kapphlaup milli Friðriks og Vasjukoffs. Friðrik tók þó forystuna í annarri umferð, er Freysteinn gerði jafntefli við Vasjukoff. Má segja að Friðrik hafi haldið forystunni óslitið eftir það. Vasjukoff komst þó tvisvar upp að hliðinni á honum og fyrir síðustu umferð voru þeir jafnir, en Vasjukoff átti að tefla við Guðmund Pálmason og varð að sætta sig við jafntefli, meðan Friðrik vann Jón Kristinsson í skemmtilegri skák.

Friðrik varð því sigurvegari í mótinu með 9 vinninga af 11 mögulegum. Hann átti það vel skilið, enda tvímælalaust bezti skákmaðurinn í hópnum, þó æfingarlítill sé. Má segja að hann hafi stolizt frá prófsundirbúningnum til keppninnar. Friðrik komst aldrei í taphættu, en hætti sér heldur ekki út í nein stórævintýri.

Vasjukoff varð annar með 8 1/2 vinning. Hann tefldi of „passívt“ og komst a. m. k. einu sinni í verulega taphættu, gegn Kieninger, en hann lék þá svo herfilega af sér að unnin skák snerist í tap. Stíll Vasjukoffs er mjög öruggur, þrátt fyrir þetta, en jafnframt þannig að flestum ætti að takast að tefla af fullum styrkleika gegn honum og er það eftir atvikum slæmt.

Þriðji varð O,Kelly með 8 v. Hann teflir einnig traust og hættir yfirleitt ekki á að tefla fyrir augað að neinu ráði. Hann komst þó ef til vill einu sinni í taphættu, gegn Guðm. Pálmasyni, en náði jafntefli.

Í fjórða sæti kemur Guðmundur Pálmason með 7 vinninga. Hann sýndi hér með enn einu sinni að hann er, þrátt fyrir enga æfingu, okkar annar eða þriðji sterkasti skákmaður. Hann teflir ákaflega þungan stíl, en hefur frábært vald á taflmennsku sinni. Guðmundur fékk ákaflega athyglisverða útkomu úr mótinu, ekki sízt vegna þess að hann hann fékk beztu útkomuna á titilbera mótsins. Hann gerði jafntefli við alla stórmeistarana og vann alla alþjóðlegu meistarana, en gerði svo jafntefli við hina. Má þar ef til vill kenna um æfingaleysinu. Mikill skaði er það skáklífi okkar að Guðm. getur ekki sinnt skákinni meira og teflt fyrir þjóðina erlendis. Því ætla má að fáir sæki gull í greipar hans.

Freysteinn Þorbergsson kom næstur, aðeins hálfum vinningi á eftir Guðm. Freysteinn virðist í örum vexti sem skákmaður og gæti svo farið að aðeins, sé um tímaspursmál að ræða þar til hann nær alþjóðlegum titli, ef hann heldur áfram að tefla. Freysteinn tapaði aðeins einni skák í mótinu, þ.e.a.s. fyrir Friðriki, og má það teljast mjög gott.

Næstir koma þeir R. Wade og E. Böök með 5 vinninga. Böök var fremur óheppinn í mótinu, einkanlega gegn Wade í síðustu umferð, er hann tapaði á mjög dramatískan hátt. Tap Bööks gegn Guðm. Pálmasyni var hið fyrsta gegn Íslendingi. Kemur þar máske aðallega tvennt til: í fyrsta lagi er hann sjálfsagt farinn að tapa þreki og því samfara lítið teflt undanfarið, og í öðru lagi hefur hann ekki teflt við svo marga landa í einu. – Wade má einnig muna sinn fífil fegri er hann tefldi hér síðastl 1964. Þá sigraði hann bæði Friðrik og Inga R. (Ingi gat ekki verið með nú sakir anna, og var það mikill skaði) og hafnaði í 5. sæti af 14 þátttakendum. Hann tefldi nú fremur illa á köflum og virtist vanta ferskleikann.

Jón Kristinsson var næstur með 4 1/2 vinning. Hann gekk ekki heill til skógar meðan mótið stóð yfir og verður því hlutfall hans að teljast þokkalegt og hefði vel getað orðið betra.

Björn Þorsteinsson hafnaði í 9. sæti með 4 vinninga. – Hann tefldi undir styrkleika, enda hlutfall hans eftir því. Virðist hann mega taka tafllokafræðina betur í gegn, ef hann ætlar sér að þreyta þau sem nokkru nemur.

Í 10. sæti kemur Kieninger með 3 1/2 vinning. Hann fór þokkalega af stað, en breyttist er á leið og fór að tapa. Má segja að hann hafi „brotnað“ við tapið gegn Vasjukoff, enda náði hann sér ekki á strik eftir það.

Þeir Guðm. Sigurjónsson og Jón Hálfdánarson ráku svo lestina, Guðm. með 3 v., en Jón með 2 v. Þeir höfðu báðir þá afsökun að standa í prófum á sama tíma og þeir voru að tefla, en það getur aldrei farið saman. Útkoman varð því slæm og mjög slæm hjá Guðmundi.

Við skulum samt vona að þessir ungu menn sem jafnframt voru yngstu menn mótsins, láti þetta ekki á sig fá, en vinni nýja sigra og glæsta í komandi framtíð.

Grein úr SKÁK, 1.-2. tbl. 1966

1966: II. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1966_Reykjavikurmotid_tafla

Vinningshlutall 82%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu