1970: IV. Reykjavíkurskákmótið

Guðmundur Sigurjónsson vann glæsilegan sigur á IV. Reykjavíkurskákmótinu, sem fram fór í Hagaskóla 15. janúar til 5. febrúar 1970. Guðmundur fékk 12 vinninga af 15 og tapaði ekki skák.  Vendipunkturinn í mótinu var mögnuð baráttuskák Guðmundar og Friðriks Ólafssonar í 5. umferð. Þar hafði Guðmundur betur og var þetta í fyrsta sinn sem Friðrik tapaði fyrir Íslendingi á Reykjavíkurmóti.

Áður en mótið hófst þóttu Friðrik og júgóslavenski stórmeistarinn Milan Matulovic sigurstranglegastir. Matulovic (f. 1937) varð skákmeistari Júgóslavíu 1965 og 1967, og hafði auk þess unnið marga sigra á alþjóðlegum mótum. Hann náði sér aldrei á strik í Hagaskóla og endaði í 7.-8. sæti ásamt Jóni Kristinssyni. Jón vann það afrek á mótinu að leggja bæði Friðrik og Matulovic.

Rúmeninn Ghitescu (f. 1934) varð í 2. sæti á mótinu, hlaut 11,5 vinning, og Kanadamaðurinn Bruce Amos kom flestum á óvart með því að hreppa bronsið með 11 vinningum.

Helgi Ólafsson stórmeistari segir í hinni bráðskemmtilegu bók sinni um Reykjavíkurmótin, að af mótstöflu og skákunum sem Friðrik tefldi, mætti ráða að Friðrik hafi í einhverri lægð um þessar mundir. Lítið hafi sést af þeim glæsilegu tilþrifum sem einkenndu taflmennsku hans á á III. Reykjavíkurmótinu.

En glæsilegur sigur Guðmundar á mótinu var öllum íslenskum skákáhugamönnum fagnaðarefni, og sýndi að við vorum nú að eignast annan meistara sem var líklegur til að komast í fremstu röð. Guðmundur stóð undir þeim væntingum og varð annar stórmeistari Íslendinga, árið 1975.

1970: IV. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1970 Reykjavíkurskákmotið - tafla

Vinningshlutall 63%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu