Laugardaginn 9. nóvember 1946 settust tæplega fimmtíu skákmenn að tafli á Skákþingi Íslendinga. Teflt var í þremur flokkum í Þórskaffi í Reykjavík: Meistaraflokki, 1. flokki og 2. flokki. Einn keppandinn var langyngstur, 11 ára glókollur, og ráku margir upp stóru augu enda fáheyrt að barn tæki þátt í svo virðulegu móti.
Enda komu fram mótmæli: Það mætti hreinlega ekki leyfa piltinum að vera með, því það gæti haft óbætanleg áhrif á hnokkann að tapa öllum skákunum!
Eftir mikla rekistefnu var ákveðið að keppendur í 2. flokki myndu greiða atkvæði um hvort barnið fengi að vera með. Við kunnum ekki skil á atkvæðatölum, en svo mikið er víst að Friðrik Ólafsson fékk að setjast að tafli í Þórskaffi, og snaraði fram kóngspeðinu gegn Hjalta Elíassyni. Friðrik tefldi einsog sá sem valdið hefur, tíndi upp hvert peðið á fætur öðru og þegar Hjalti gafst upp í 50. leik var staða hans ein rjúkandi rúst.