VIÐTAL VIÐ FRIÐRIK ÓLAFSSON / ÓTTAR FELIX HAUKSSON.

Óttar Felix Hauksson skrifar í Skákblað TR 2010

FRIÐRIK ÓLAFSSON - 2012 ljósm. ESE 19.1.2013 17-32-27.2013 17-32-028 (2)Friðrik Ólafsson er það nafn sem mestum ljóma stafar frá í íslenskri skáksögu. Allt frá miðri síðustu öld hefur þjóðin fylgst með og fyllst stolti yfir afrekum hans, jafnt hérlendis sem á alþjóðavettvangi. Afrek Friðriks Ólafssonar voru í raun hluti af sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar sem, nýskriðin úr faðmi danska konungsvaldsins, var í mun að láta að sér kveða í samfélagi þjóðanna. Það er hægt að telja á fingrum annarar handar þá sem báru hróður Íslands út fyrir landssteinanna á sjötta áratug síðustu aldar þegar Friðrik hóf strandhögg á erlendri grund. Albert Guðmundsson knattspyrnuhetja og frjálsíþróttakapparnir Clausen bræður og Gunnar Huseby og svo náttúrulega skáldjöfurinn Halldór Laxness. Þetta voru útrásarvíkingarnir. Svo kom Friðrik Ólafsson og á örfáum árum var hann kominn í fremstu röð í heiminum í þeirri andans íþrótt, sem notið hefur hvað mestrar virðingar, skáklistinni. Það er engin furða að Íslendingar litu til afreka Friðriks með stolti og gleði, hann stækkaði okkur sem þjóð og fyrir það hefur hann alla tíð notið virðingar allra landsmanna.

Friðrik átti stórafmæli á árinu, varð sjötíu og fimm ára. Hann hefur frá upphafi verið félagi í Taflfélagi Reykjavíkur. Afmælisritinu fannst tilvalið, á þessum tímamótum, að fá Friðrik til að segja frá rótum sínum, upphafinu og fyrstu skrefunum á skákferlinum. Ég heimsótti þau hjónin, Friðrik Ólafsson og Auði Júlíusdóttur á fallegt heimili þeirra að Kirkjusandi í Reykjavík og bauð húsbóndinn mér inn á „kóngsvænginn“ eins og hann kallaði bjartar vistarverur sínar, þar sem einstakt útsýnið yfir sundin blá, alla leið vestur á Snæfellsjökul, lyftir svo sannarlega andanum. Ég lét fara vel um mig, þáði gosdrykk og súkkulaðikex hjá frú Auði og sagði við Friðrik að gaman væri að fá að heyra svolítið frá uppvextinum á Laugavegi 134 og upphafsárunum:

“Hverjir voru foreldrar þínir“?

Faðir minn hét Ólafur Friðriksson og var fæddur 1905. Hann var verslunarmaður, starfaði lengst af sem framkvæmdastjóri Sultu- og efnagerðar bakara í gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Skúlagötu, en hafði áður starfað hjá Agli Vilhjálmssyni, rétt fyrir neðan þar sem við bjuggum á Laugaveginum. Móðir mín hét Sigríður Ágústa Dóróthea Símonardóttir og var fædd 1908. Foreldrar mínir eru bæði látin.

„Átt þú systkini“?

Við erum þrjú systkinin. Margrét er elst fædd 1930, síðan kom Ásta 1932. Ég er yngstur fæddur 1935. Reyndar á Ásta sama afmælisdag og ég, 26. janúar, og leit svo á að hún hefði fengið mig í afmælisgjöf! Eldri systurinni líkaði það nú ekki allskostar og því var tekið til bragðs að gauka að henn einhverri gjöf og tók hún þá gleði sína á nýjan leik.

Bernskuár

„Bjóst þú Laugavegi 134 frá fæðingu“?

„Hvenær manstu fyrst eftir þér“ ?

Mínar fyrstu minningar eru tengdar Laugavegi 134 og Hlemmi sem var leiksvæði okkar barnanna í þá daga. Ég man t.d. vel eftir Bretunum eftir að þeir herrnámu landið í maí 1940 og komu sér fyrir á ýmsum stöðum í bænum. Þá var ég fimm ára. Mér er einkar minnisstætt þegar ég og leikfélagi minn tókum okkur til einn góðan veðurdag og löbbuðum okkur þar sem leið liggur niður Hverfisgötuna og alla leið út í Örfirsey sem var talsvert ferðalag fyrir smáhnokka. Í Örfirsey höfðu Bretarnir reist sér bækistöð, eina af mörgum. Þarna löbbuðum við okkur inn og var ljúflega tekið af hermönnunum sem voru barngóðir og léku sér við okkur. Okkur dvaldist þarna drjúga stund og upphófst leit að okkur þegar ekkert bólaði á okkur á heimaslóðum. Við hugsuðum að sjálfsögðu lítið út í það. En allt fór þetta vel að lokum. Einhver hafði séð til okkar á leiðinni út í Örfirsey og mig minnir að lögreglan hafi haft upp á okkur og komið okkur til skila í heimahús á Laugaveginum. Ekki man ég hvernig mótttökur við fengum en vafalaust höfum við fengið einhverjar ákúrur fyrir vikið. Kannski voru þetta fyrstu merkin um útrásarhneigðina sem síðar átti eftir að koma í ljós.

„Fórstu í Austurbæjarskólann þegar skólaganga hófs. Kynntistu skákinni í skólanum“ ?

fridrik_afmælisgjöfinÉg var í Austurbæjarskólanum fyrstu ár skólagöngunnar en skákinni kynntist ég hjá föður mínum. Hann var áhugamaður um skák, fylgdist vel með og tefldi oft við kunningja sína í stofunni heima. Ég fylgdist með þeim og lærði eiginlega mannganginn af því að horfa á þá. Þá var ég sjö eða átta ára gamall. Sérstaklega man ég eftir einum skákfélaga föður míns sem Jörundur hét. Einhvern tíman, þegar ég var að horfa á þá, þótti mér Jörundur tefla heldur illa og hafði orð á því. Faðir minn bauð mér þá að tefla sjálfur við Jörund. Ég gerði ég það og slysaðist á að vinna hann. Ég man að faðir minn hló svo mikið að þessu að hann ætlaði eiginlega aldrei að geta hætt. Ég held að þetta séu einhver fyrstu kynni mín af skák þótt ég sé ekki alveg viss í minni sök. Svo var það náttúrulega hann móðurbróðir þinn í næsta húsi, Hörður Felixson, á Laugavegi 132. Hann var tveim árum eldri en ég, fæddur 1933, og hafði lært að tefla á undan mér. Við byrjuðum að tefla saman. Ég tel því að það séu fyrst og fremst pabbi og kunningjar hans ásamt Herði sem komu þessu af stað.

Kominn í Taflfélag Reykjavíkur

„Hvenær vaknar svo leiftrandi áhugi þinn fyrir skákinni og þú ferð að tefla út fyrir þennan þrönga hóp“ ?

fridrik_1946
1946: Friðrik Ólafsson

Þetta fór nú svona rólega af stað allt saman. Ég var farinn að fylgjast vel með því sem var að gerast í skáklífinu í blöðum og útvarpi. Ég held að fyrsta skipti skipti sem ég tefldi opinberlega hafi verið á Skákþingi Íslands 1946, þá var ég ellefu ára og tefldi í öðrum flokki. Eitthvað var þátttaka mín umdeild sökum ungs aldurs míns. Sumir þátttakenda vildu meina að það gæti haft slæm áhrif á mig, ungan pilt, að verða “fallbyssufóður” eldri keppenda í mótinu og úr þessu varð heilmikil rekistefna. Það varð samt úr að ég fékk að tefla og ég hafði lúmskt gaman af því þegar mér strax í 2. umferð tókst að sigra þann sem hafði haft sig mest frammi gegn þátttöku minni i mótinu. Reyndar vann ég tvær fyrstu skákirnar og við það hljóðnuðu gagnrýnisraddirnar. Ég endaði svo í miðjum hópi með 50% vinninga. Þetta sama ár tók ég líka þátt í fjöltefli við Baldur Möller og var mín þá í fyrsta sinn getið í fjölmiðlum. Það þótti fréttnæmt að það hefði tekið Baldur sextíu og sex leiki að leggja þennan ellefu ára snáða að velli og vorum við orðnir einir eftir að tafli þegar yfir lauk. Eftir þennan atburð byrjaði ég að mæta á skákæfingar hjá Taflfélaginu.

Hvar voru æfingarnar á þessum tíma? Var ekki Taflfélagið á eilífum hrakhólum í húsnæðisleysinu?

Það vildi svo heppilega til að á þessum tíma voru æfingarnar í Þórscafé, sem þá var til húsa við Hlemmtorgið, rétt steinsnar frá æskuheimili mínu að Laugavegi 134, svo að það var stutt að fara. Annars var Taflfélagið á miklum húsnæðishrakningum á þessum árum. M.a. var teflt í braggahverfinu Kamp Knox í hriplekum herskála sem félagið fékk til umráða að stríði loknu. Hann hvorki hélt vatni né vindum og mynduðust oft pollar inni í bragganum. Þurftu menn helst að vera í regnstökkum þegar þeir sátu að tafli. Einnig voru æfingar í kjallara félagsheimilis prentara á Hverfisgötu 21, í veitingahúsinu Röðli við Laugaveg 89 og í Alþýðubrauðgerðinni á Vitastíg svo eitthvað sé nefnt af þeim stöðum, sem upp í hugann koma.

„Varstu ekki sendur í sveit eins og algengt var með börn á þessum árum“ ?

Jú, vegna stríðsástandsins í heiminum og veru hersins í landinu þótti vissara að senda börnin úr bænum. Ég var heppin, fór sex ára gamall austur í Skaftártungu og var þar í Svínadal hjá hinum kunna hagleiksbónda Eiríki Björnssyni í Svínadal, ein fjögur sumur. Eiríkur var landskunnur fyrir framlag sitt til rafvæðingar sveitanna, ferðaðist víða og virkjaði bæjarlæki, smíðaði túrbínur og setti upp rafstöðvar. Hann lærði af frumkvöðlinum Bjarna Runóllfssyni í Hólmi í Landbroti, en þeir félagarnir höfðu rafvætt Svínadalinn 1925. Það var ekki algengt, þegar ég kom í sveitina sumarið 1941, að rafmagn væri á bæjum. Það var frábært að vera hjá Eiríki og Ágústu konu hans í Svínadal. Mér leið vel þar.

„Voru ekki einhverjir skákmenn á þínu reki að koma upp í Taflfélaginu á sama tíma og þú.“ ?

fridrik_gudmundur_arinbjorn
Friðrik, Guðmundur og Arinbjörn

Ingvar Ásmundsson kom nokkuð snemma til leiks, sennilega haustið 1947. Einn daginn kom hann gangandi yfir Klambratúnið úr Drápuhlíðinni, þar sem hann bjó, bankaði upp á heima hjá mér og spurði eftir mér. Hann var ekki að tvínóna neitt með erindið og kom sér beint að efninu. Hann sagðist vera með áhuga fyrir skák og spurði hvort að ég vildi ekki verða æfingafélagi sinn! Það var auðsótt mál. Okkur varð vel til vina en keppnisandinn ríkti þó að sjálfsögðu ávallt á milli okkar á skákborðinu. Einnig verð ég að nefna þá Jón Einarsson og Arinbjörn Guðmundsson sem voru nokkrum árum eldri en við Ingvar en vissulega verðugir keppinautar. Arinbjörn varð með tímanum einn af sterkustu skákmönnum landsins og keppti fyrir Íslands hönd á mörgum Ólympíumótum en flutti til Ástralíu 1970. Jón Einarsson var líka sterkur skákmaður. Hann fór í kennaranám að loknu stúdentsprófii og réð sig síðan sem kennara við héraðskólann að Skógum, giftist heimasætu þar og hætti að mestu skákiðkun upp úr því. Ingi R. Jóhannnsson var aftur á móti tæpum tveimur árum yngri en ég en lét til sín taka í Taflfélaginu upp úr 1950 og náði skjótum frama.

Frá skákmönnum

„Áttirðu einhverja uppáhalds skákmenn meðal okkar fremstu skákmanna á þessum tíma“ ?

gudmPalma
Guðmundur Pálmason

Ég get ekki sagt það, en auðvitað voru þarna margir sterkir skákmenn, sem ég bar mikla virðingu fyrir og tók mér til fyrirmyndar, eins og Baldur Möller og Guðmund Pálmason. Baldur var oftast skákmeistari Íslands á mínum fyrstu árum í skákinni og varð fyrstur íslenskra skákmanna til að verða Norðurlandmeistari í skák. Frami Guðmundar Pálmasonar í Taflfélaginu var skjótur. Hann var rúmum sex árum eldri en ég, fæddur 1928. Hann var í menntaskólanum í Reykjavik og komst á unga aldri í fremstu röð, náði öðru sæti í landsliðsflokki 1948 á eftir Baldri Möller. Á síðasta ári hans í menntaskóla, í desember 1948, varð hann annar í Euwe-mótinu svonefnda, sem haldið var í tilefni heimsóknar Dr. Euwe, fyrrum heimsmeistara og seinna forseta FIDE. Guðmundur fór taplaus í gegnum þetta sterka mót. Ég var þá þrettán ára og fannst auðvitað mikið til þessara manna koma.

Voru ekki fleiri sterkir sem létu til sín taka í Taflfélaginu á þessum árum í kringum 1950?

Svo voru þarna „hinir Guðmundarnir“ allsterkir, þeir Guðmundur S. Guðmundsson, Guðmundur Ágústsson og Guðmundur Arnlaugsson, fyrsti rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Hann varð Íslandsmeistari 1949. Og ekki má gleyma Ásmundi Ásgeirssyni, sem varð einmitt Íslandsmeistari, sama árið og ég gekk í TR, eftir að hafa sigrað Guðmund Ágústsson í einvígi, og heldur ekki nestor íslenskra skákmanna, Eggert Gilfer, sem lét sig aldrei vanta í mót þótt árin væru farin að færast yfir. Einnig verð ég að nefna þá Árna Snævarr, Lárus Johnsen, Guðjón M. Sigurðsson og Svein Kristinsson sem allir voru skæðir skákmenn á þessum árum og oftast í baráttusætunum þegar þeir tóku þátt í skákmótum. Árni fór þó mjög að draga úr þátttöku í skákmótum þegar líða tók á sjötta áratuginn.

Hvað með eldri íslenskra skákmanna kynslóðina sem héldu merkinu á lofti fyrir stríð?

1939 Ólympíulið Íslands
1939 Ólympíulið Íslands

Ólympíufararnir sem teflt höfðu í Munchen 1936 og í Buones Aires 1939 voru enn virkir skákmenn að undanskildum þeim Einari Þorvaldssyni og Jóni Guðmundssyni sem voru hættir. Frammistaða Jóns í úrslitakeppni Ólympíuskákmótsins í Buenos Aires var í minnum höfð, en hann sigraði þar alla andstæðinga sína, tíu talsins, og varð langhæstur íslensku keppendanna með 78,6 % vinninga sem er eitthvert hæsta vinningshlutfall sem nokkur íslenskur skákmaður hefur náð á Ólympíuskákmóti fyrr og síðar. Jón er án efa einhver öflugasti skákmaður sem Íslendingar hafa eignast en því miður hætti hann alveg að tefla nokkru eftir að hann kom heim frá Buenos Aires. Einhver misklíð kom upp milli hans og félaga hans í skákhreyfingunni sem olli því að hann hætti allri þáttöku í skákmótum. Svona nokkuð kemur engum á óvart sem er kunnugur sögu íslenskrar skákhreyfingar og hefur fylgst með þeim væringum sem þar hafa átt sér stað í tímans rás, en fyrir íslenskt skáklíf var það mikill missir að fá ekki að njóta krafta Jóns lengur en raun ber vitni.

1950-1960 Eggert Gilfer
Eggert Gilfer

Helstu meistarar eldri kynslóðarinnar voru, eins og áður segir, Eggert Gilfer, sem hafði verið einna sterkastur skákmanna millistríðsáranna, og Ásmundur Ásgeirsson sem tók við af honum. Hjá þeim báðum var farið að halla á seinni hluta skákferilsins. Ásmundur var farinn að minnka taflmennskuna þegar á þessum árum og mun síðasta stóra mótið hans hafa verið Rossolimo-mótið 1951, en hann var þá hálffimmtugur. Hins vegar hélt Eggert ótrauður áfram jafnvel eftir að hann komst á sjötugs aldurinn. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði á Skákþingi Reykjavíkur 1952 og tefldi síðan á fyrsta borði fyrir Ísland á Ólympíuskákmótinu í Helsinki sama ár. Einnig mætti nefna nokkra aðra af eldri kynslóðinni, eins og þá Steingrím Guðmundsson, sem hafði verið í íslensku sveitinni á Ólympíuskákmótinu í München 1936, og var tíður þátttakandi í kappmótum á þessum árum, og Sturlu Pétursson, sem lét heldur ekki sitt eftir liggja þegar kappmótin voru annars vegar. Hann var bróðir Áka sem einnig var sterkur skákmaður en sinnti meira félagsmálum skákhreyfingarinnar og tók oft að sér að vera skákstjóri í skákmótum. Frá honum eru runnin hin frægu “Ákastig”. Það er auðvitað ekki nokkur leið að telja upp alla þá sem þarna komu við sögu undir lok 5. áratugarins, það væri þá helst Jón Þorsteinsson sem tefldi í nánast á öllum Skákþingum Íslands á þessum árum og átti raunar eftir að koma meira við sögu síðar. Hann tilheyrði hins vegar yngri kynslóð skákmanna en hér er verið að ræða um.

Hvernig var stúderingum háttað á þessum tíma? Var gott aðgengi að skákblöðum og skákbókum?

Nei, því miður, svo var nú ekki. Það háði okkur hvað við vorum einangraðir hérlendis og urðum að bíða lengi eftir því að skákir bærust frá mótum erlendis. Þær var helst að finna í erlendum skáktímaritum, sem oft bárust hingað eftir dúk og disk, því að flest var eftirá á þessum árum. Upplýsingarnar bárust sem sé ekki um leið og atburðirnir voru að gerast eins og við eigum að venjast í dag. Því má segja að það hafi stundum verið farið “að slá” í nestið sem maður hafði með sér þegar farið var utan á mót. Það sem var nýtt fyrir manni var í raun og veru orðið nokkurra mánaða gamalt og í hringiðunni í Evrópu var kannski búið að halda nokkur mót, sem umturnuðu því sem maður taldi vera nýtt! Ég minnist þess þó að einu sinni var fylgst með móti nokkurn veginn á meðan það fór fram. Þetta var hið fræga Groningen-skákmót í Hollandi 1946. Þá bárust fréttir af mótinu nokkuð samfellt og á kvöldin söfnuðust skákáhugamenn saman í Þórscafé og farið var yfir skákirnar. Skáktímarit voru sjaldgæf en ég var svo heppinn hvað þetta varðaði að móðurbróðir minn var stýrimaður á Tröllafossi, sem sigldi reglulega til Bandaríkjanna á þessum árum. Þar keypti hann tímarit bandaríska skáksambandsins “Chess Review” og færði mér þegar heim kom. Þetta tímarit var mjög vandað og aðgengilegt og opnaði fyrir mér heim skáklistarinnar sem strax heillaði mig. Fyrsta skákbókin sem ég eignaðist voru skákir Capablanca. Hana keypti ég í Bókaverslun Sigurðar Kristjánssonar sem þá hét og var í Bankastrætinu. Capablanca var minn maður og í fyrirmyndin á þessum tíma. Ég bókstaflega drakk í mig skákir hans. Sennilega hentar hinn tæri og áreynslulausi stíll hans byrjendum vel. Ég æfði mig einnig töluvert með þeim hætti að setja upp ýmsar stöður úr tefldum skákum á taflborðinu og tefla þær við sjálfan mig, ég á raunar enn bók frá unglingsárunum með uppskrifuðum skákum sem ég tefldi við sjálfan mig. Það gekk þó ekki svo langt, eins og hjá dr.B í Manntafli eftir Stefán Zveig, að ég vissi ekki hvað hvítur var að hugsa, þegar ég lék fyrir svart og svo vice versa!

Útrásin hafin

Árið 1950 er merkisár á þínum skákferli. Þú verður fimmtán ára gamall í ársbyrjun, færð þína eldskírn í hópi hinna sterkustu hér á landi í meistaraflokki á Skákþingi Reykjavíkur og í vorbyrjun ferðu í fyrsta sinn á skákmót í útlöndum. Hvernig kom það til?

fridrik_birmingham
Birmingham

Skáksambandi Íslands bauðst að senda einn keppenda á unglingameistaramót sem haldið skyldi í Birmingham á Englandi í vorbyrjun 1950. Þetta mót var nokkurs konar undanfari heimsmeistaramóts unglinga. FIDE hafði auga með þessu mótshaldi og ákvað að því loknu að mótið skyldi framvegis haldið á þess vegum og þá sem opinbert heimsmeistaramót unglinga. Þessi ferð var mjög sérstök í mínum huga og verður mér ávallt minnisstæð. Það var ekki mikið um peninga hjá Skáksambandinu á þessum árum og mönnum mun hafa fundist í full mikið lagt að senda stráklinginn utan með flugvél. Árni Snævar, þáverandi forseti skáksambansins, var að mig minnir í stjórn bæjarútgerðar Reykjavíkur og hafði milligöngu um að ég fengi að sigla með einum af nýsköpunartogurum Bæjarútgerðarinnar, Agli Skallagrímsyni, sem var á leið til Grimsby með fisk á markað. Ég leiddi að sjálfsögðu ekki að því hugann þá, en mér hefur alltaf fundist það dálítið skondið eftir á, að ég skyldi fara í fyrstu “útrásina” mína með útrásarvíkingnum Agli Skallagrímssyni. Núna í dag sækist enginn maður eftir þeirri nafngift.

Varstu ekki sjóveikur? Að velkjast þetta í fyrsta skipti á milli landa á síðutogara?

Jú. Ég hafði aldrei verið á sjó áður og við fengum afleitt veður mestan hluta ferðarinnar. Mér varð oft hugsað til hans móðurafa míns Símonar Sveinbjörnssonar togaraskipstjóra, þegar ég lá sjóveikur í lúkarnum aftast í skipinu og beið eftir að heyra hvininn í skipsskrúfuni, þegar togarinn var á leið niður í öldudalinn og skrúfan greip í tómt. En á þriðja degi, þegar við nálguðumst land, lægði veðrið, ég hressist nokkuð og hét sjálfum mér því eftir þessa lífsreynslu að ég skyldi aldrei verða sjómaður! Þegar komið var til Grimsby rann það skyndilega upp fyrir mér, að í öllum flýtinum að koma mér um borð í togarann í Reykjavík, hafði það gleymst að láta mig fá farareyri. Engum hafði dottið í hug, ekki einu sinni mínum nánustu, að ég þyrfti á einhverjum peningum að halda þarna í útlandinu!

…og hvernig tókst þér að leysa úr þeirri stöðu sem nú var komin upp?

Ég kom að máli við skipsstjórann og spurði hann hvort hann gæti lánað mér nokkra breska pundseðla. Hann tók því ljúfmannlega og leysti þar með úr vandanum. Ég þurfti að komast með lest frá Grimsby til Birmingham og skipta um lest á leiðinni og þótt ég væri orðinn slarkfær í ensku kunni ég auðvitað ekkert á lestarkerfið. Ég fékk því með mér bréf til vonar og vara. Í bréfinu var þess farið á leit að mér yrði veitt aðstoð til að komast til Birmingham ef eitthvað færi úrskeiðis. En þetta fór allt vel, ferðin gekk alveg snurðulaust og ég var komin til Birmingham í tæka tíð. Keppendur bjuggu allir á einkaheimilum meðan á mótinu stóð. Þrátt fyrir að vera lang yngstur keppenda, þeir voru flestir 18-19 ára, gekk mér ágætlega og lenti að lokum í 4. sæti aðeins einum vinningi fyrir neðan efsta mann, Häggquist frá Svíþjóð. Ári seinna fór fram heimsmeistaramót unglinga 18 ára á sama stað var það fyrsta opinbera unglingamótið á vegum FIDE. Þá gekk mér ekki eins vel, fékk 50% vinninga og varð í miðjum hópi. Skömmu eftir að ég kom heim frá þeirri keppni hitti ég þekktan skákmann á förnum vegi og hann spurði mig hvernig hefði gengið. Ég sagði honum það. Ummæli hans hafa greypst mér í minni og áreiðanlega orðið mér hvatning til að gera betur: “Já, sagði hann, við Íslendingar erum bara ekki betri en þetta!”

(viðmælandi verður að koma hér að örlítilli athugasemd: Það er engum blöðum um það að fletta að af hálfu Skáksambandsins var alls ekki nógu vel staðið að undirbúningi Friðriks fyrir þetta mót. Sökum aðgerðaleysis hafði keppni í landliðsflokki, sem heyja átti um vorið, verið slegið á frest og hafði Friðrik því ekki tekið þátt í neinni keppni síðan Rossolimo-mótið var haldið í Listamannaskálanum fyrrihluta febrúarmánaðar eða í heila fjóra mánuði! Að unglingamótnui loknu var haldið öflugt hraðskákmót sem lyktað með glæsilegum sigri Friðriks fyrir ofan þekkta kappa eins og Rossolimo, Donner, Matanovic, Tartakower og Unzicker! Á þessu móti stofnaði hann til kynna við einn jafnaldra sinn sem átti eftir að verða verðugur keppinautur hans og góður vinur allar götur síðan, Danann Bent Larsen. )

Íslandsmeistartitill og ferðin frá ólympíumótinu i Helsingfors.

Um haustið tekur þú þátt í fyrsta sinn í síðbúnum landsliðflokki á Skákþingi Íslands 1951?

Já, þetta mót er mér eftirminnilegt fyrir þær sakir að ég tapaði mjög óvænt fyrir Steingrími Guðmundssyni, sem ég hélt að ég gæti ekki tapað fyrir! Ég hafði alltaf farið létt með Steingrím fram að þessu og þetta kenndi mér að maður á aldrei að vanmeta nokkurn mann. Þegar upp var staðið varð þetta tap til þess að Lárus kom í mark hálfum vinningi á undan mér og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn. En annað sætið í fyrstu landsliðskeppninni, sem ég tók þátt í, og sæti í Ólympíuliði Íslands sumarið eftir var ekki alslæmt!

Nú var þess ekki langt að bíða að fyrsti Íslandsmeistaratitillinn liti dagsins ljós. Það var vorið 1952?

Lárus Johnsen - Friðrik Ólafsson
Lárus Johnsen – Friðrik Ólafsson

Það þurfti einvígi á milli okkar Lárusar Johnsen til að skera úr um titilinn það árið. Ég leiddi mótið lengst af en tap fyrir Sigurgeiri Gíslasyni í lokin hleypti Lárusi upp að hlið mér. Ákveðið var að einvígi skyldi fara fram til að fá úr því skorið hver yrði Íslandsmeistari 1952. En Lárus leit öðru vísi á málið. Hann taldi sig eiga að halda titlinum á jöfnu þar sem hann hafði orðið Íslandsmeistari árið áður en ekkert slíkt var í reglunum. Hann var á móti því að einvígið færi fram. Ég hefði alveg eins getað krafist titilsins með þeim rökum að ég væri hærri á mótsstigum en hann en ekkert slíkt hvarflaði að mér. En svo fór þó að fjögurra skáka einvígi var teflt og stóðum við jafnir að því loknu. Varð því ákveðið að tefldar yrðu tvær skákir til viðbótar. Hófst þá sama sagan aftur. Lárus taldi sig ekki eiga þurfa að tefla um þetta og þráðist lengi við við. Eftir mánaðar hlé var loks dagsett framhald einvígisins. Þegar fimmta skákin átti að hefjast á veitingahúsinu Röðli mætti Lárus ekki og þurftu menn frá stjórn skáksambandsins að fara heim til hans og tala hann til! Lárus mætti loks til leiks og svo fór í þessari lotu að ég hafði betur og sigraði í einvíginu 3½-2½. Þegar úrslitin lágu fyrir lét Lárus þau orð falla “að héðan í frá mun engin stöðva Friðrik.“ Þetta reyndust orð að sönnu.

Segðu mér frá ferð þinni á Ólympíuskákmótið í Helsingfors sumarið 1952. Hvernig var liðið og hvernig gekk?

1952 ÓlympíumótÞað var all skrautleg blanda af karakterum í þessari fyrstu ferð minni ólympíuskákmót. Ákveðið hafi verið að efstu menn í landsliðskeppninni 1952 skyldu valdir til að í mótinu en einn þeirra, Árni Snævar, átti ekki heimagengt. Ég tefldi á 2. borði þótt ég væri nýorðinn Íslandsmeistari og hefði átt rétt á að tefla á 1. borði. Ástæðan var sú að Eggert Gilfer hafði orðið sextugur þetta sama ár og auk þess borið sigur úr býtum á Skákþingi Reykjavíkur 1952. Þótti tilhlýðilegt að sýna þessum heiðursmanni og nestor íslenskra skákmanna þá virðingu að bjóða honum að tefla á 1. borði. Ég hafði ekkert við þetta að athuga, síður en svo. Í raun tefldi ég þó flestar mínar skákir á 1. borði, því að það var aldrei ætlunin að leggja of mikið á Eggert, sem var dálítið farinn að reskjast, þótt hann væri enn sami eldhuginn og áður. Lárus Johnsen tefldi á 3. borði, Sigurgeir Gíslason á 4. borði en varamenn voru þeir Guðjón M. Sigurðsson og Guðmundur Arnlaugsson, sem jafnframt var fararsjóri hópsins og liðsstjóri. Hann tefldi u.þ.b. helming umferðanna og stóð sig best allra liðsmanna. Einstaklingarnir í hópnum náðu ekki vel saman og lítið fór fyrir liðsandanum. Það kom því ekki á óvart að sveitinni vegnaði ekki vel, við enduðum með þeim neðstu í mótinu.
Heimferðin varð hálf ævintýraleg. Þegar komið var til Kaupmannahafnar varð Guðmundur þar eftir og gerði Eggert Gilfer að fararstjóra í sinn stað. Við áttum að taka járnbrautalest frá Kaupmannahöfn að morgni dags til Esbjerg á vesturströnd Jótlands og sigla þaðan um miðjan dag með togara heim til Íslands. Eggert var kannski ekki alveg með á nótunum í fararstjórninni þótt ekki geti það alfarið skrifast á hans reikning hversu endaslepp ferðin varð. Svo háttaði til, þegar komið var til bæjarins Fredricia á Jótlandi, að lestinni var skipt í tvo hluta. Aftari lestarhlutinn var settur á spor norður til Álaborgar en fremri hlutinn á spor vestur til Esjberg. Svo vildi til að einmitt þegar verið var að skipta lestinni í Fredricia sátum við að snæðingi í matvagninum í aftari hluta lestarinnar og nutum góðrar máltíðar, algerlega grunlausir um hvað beið okkar á næsta leiti.

Misstuð þið þá ekki af skiptingunni og þar af leiðandi af lestinni til Esbjerg?

1952 Ólympíumótið - kápumynd af Skákritinu
1952 Ólympíumótið – kápumynd af Skákritinu

Þegar við stóðum upp frá borðum og ætluðum að ganga til klefa okkar komumst við að því hvernig málum var háttað. Allur farangur okkar var nefnilega á leið til Esbjerg en við aftur á móti á norðurleið til Álaborgar! Loksins, þegar lestin náði leiðarenda, könnuðum við hvaða möguleikar væru í stöðunni, hvernig við kæmumst til Esbjerg í tæka tíð. Nú voru góð ráð dýr! Ekki var um annað að ræða fyrir okkur en að taka leigubíl til Esbjerg og freista þess að ná skipinu. Bíllinn brunaði þarna suður Jótland eins hratt og aðstæður leyfðu. Þegar til Esbjerg var komið var fyrst farið á járnbrautarstöðina til ná í farangurinn en að því búnu var ekið í hendingskasti niður á höfnina. Við urðum aðeins of seinir. Við gátum bara horft á eftir togaranum sem kominn var langleiðina út í hafsauga. Við fréttum þó síðar að skipstjórinn hafi frestað brottför um hálftíma en þegar ekkert bólaði á okkur hafi hann siglt af stað.

Hvað var nú til bragðs að taka, þegar svona staða var óvænt komin upp?

Þarna stóðum við, íslenska skáklandsliðið, strandaglópar á kajanum í Esbjerg og peningalitlir. Við fundum gistiheimili, „pensjónat“, eins og það heitir í Danmörku, til að gista á og þaðan hringdi Eggert í Guðmund Arnlaugsson í Kaupmannahöfn og sagði honum farir okkar ekki sléttar. Guðmundur brást skjótt við og sendi okkur peninga símmleiðis, sem við fengum strax næsta dag. Þarna vorum við innlyksa í Esbjerg í heila viku, en þá var næsti togari væntanlegur. Á pensjónatinu fengum við á hverju kvöldi biximat á stóru fati og lítið við að vera annað en að tefla hraðskákir, lesa og spássera um bæinn. Ég held að við höfum ekki haft efni á því að fara á bíó eða leyfa okkur neinar slíkar lystisemdir. Annað slagið skrapp svo Eggert út í búð til að kaupa inn fyrir “félagsbúið” ýmsar vistir svo sem mjólk, brauð og smjör, svo að við hefðum eitthvað til að næra okkur á yfir daginn áður en sest var að biximatnum um kvöldið. Biximaturinn var vel útilátinn og þegar menn höfðu fengið nægju sína, þ.e.a.s. flestir, varð það fastur liður að einn úr liðinu – snaggaralegur náungi – sagði: “Eruð þið orðnir saddir strákar?” Ég ætla þá að klára restina!”
Ekki hafði ég hugmynd um það að á meðan á dvöl okkar þarna stóð, á þessum hálf óyndislega stað að okkur fannst, var einmitt verið að leggja drög að því að næsta Skákþing Norðurlanda yrði haldið í Esbjerg. Og enn síður hafði ég hugboð um að ég ætti eftir að verða Skákmeistari Norðurlanda á þessum stað!

(Innskot viðtalanda: Sigur Friðriks Ólafssonar á Skákþingi Norðurlanda í Esbjeg ári seinna var óvenju glæsilegur. Hann fékk 9 vinninga af 11 í landsliðflokki og var einum og hálfum vinningi fyrir ofan næsta mann. Þessi frábæri árangur Friðriks sem þá var aðeins átján ára gamall og sá yngsti sem hafði sigrað á þessu móti vakti mikla athygli. Fóru Norðurglandablöðin mjög lofsamlegum orðum um skákstyrkleika hans og báru afrek hans m.a. saman við sigra Aljekíns í San Remo og Bled, árið 1931, og sigur Kotov í Saltsjöbaden 1953. )

Og skákævintýri hins unga Friðriks Ólafssonar héldu áfram,hann styrktist og þroskaðist með hverri raun. Um áramótin ´53/´54 tók hann í fyrsta skipti þátt í hinu fræga árlega skákþingi í Hastings og deildi þar fjórða sætinu með Júgóslavanum Matanovic, Rússanum Tolush og Vestur-Þjóðverjanum Teschner. Nítján ára gamall nái hann frábærum árangri á Svæðamótinu í Prag og Marianske Lazne 1954 í tuttugu manna sterku móti náði hann 6. sæti og var fyrir framan sterka meistara eins og Svíann Lundin, Ungverjann Barcza, Rúmenann Ciocaltea og Austur-Þjóðverjann Uhlmann. Friðrik var aðeins feti frá að komast áfram á millisvæðamót en fimm efstu öðluðust réttindin. Menn voru farnir að vera allverulega varir við ljóshærða skákvíkinginn frá Íslandi. Um haustið var 11. Ólympíumótið haldið í Amsterdam og fór Friðrik fyrir ólympíuliði Íslendinga á fyrsta borði. Auk Friðriks, 19 ára, var liðið skipað hinum 17 ára gamla Reykjavíkurmeistara, Inga R. Jóhannssyni, svo og „Guðmundunum fjórum“ Guðmundi Pálmasyni, Guðmundi S. Gumundssyni, Guðmundi Ágústssyni og Guðmundi Arnlaugssyni, sem auk taflmennskunnar var að venju fararstjóri og sendi auk þess daglega skemmtilega fréttapistla heim til Íslands . Frammistaða liðsins var betri en áður og Ísland komst í fyrsta sinn í A-úrslit.

Í fangelsinu með Inga R. !

Friðrik, í lokin væri gaman að fá eina góða sögu úr skákferðum þínum frá þessum upphafsárum.

Það væri þá helst sagan af því þegar við Ingi R. gistum fangageymslur lögreglunnar í Hastings.

Fangageymslur lögreglunnar! Því á ég nú bágt með að trúa. En lát oss fá meira að heyra.

1955 Hastings
1955: Hastings

Þetta var á jólunum 1955. Ég var nú kominn á þann stall að það þótti tilhlýðilegt að ég fengi að hafa með mér aðstoðarmann og ég var svo heppinn að Ingi R. Jóhannson gaf kost á sér til fararinnar. Hann reyndist mér ómetanlegur styrkur í mótinu og góður félagi. Mótið átti að hefjast 27. desember og flogið var til Lundúna á jóladag. Þar gistum við eina nótt og héldum síðan til Hastings með lest á öðrum degi jóla. Ekki höfðum við Ingi hugmynd um að annar dagur jóla væri sérstakur hátíðar- og tyllidagur í Englandi , en þar er hann nefndur Boxing day og byggir á alda gamalli hefð. Lestin var þéttsetin fólki, allir voru á suðurleið, og þegar til Hastings var komið síðla dags sáum við að þar var mikið um dýrðir, strætin skreytt alls konar borðum og veifum og byggingar allar uppljómaðar hvert sem augum var litið. Næstum því öll hús þarna í miðbænum eru annað hvort hótel eða gistiheimili (guesthouse) enda hefur Hastings í gegnum tíðina verið einn af vinsælli sumardvalarstöðum Englendinga á suðurströndinni. Þarna var greinilega mikill gleðskapur í gangi og hvarvetna dansandi fólk í grímubúningum á veitingastöðum og hótelum út um allan bæ. Ekki var laust við að við Ingi værum svolítið hissa á öllu þessu tilstandi, en létum það ekki trufla okkur og héldum rakleitt til hótelsins, þar sem við áttum að gista.

„Allir dansa Conga“ var nú sungið á Íslandi líka í eina tíð!

Við fundum hótelið von bráðar en þá kom í ljós að ekki hafði verið gert ráð fyrir okkur fyrr en daginn eftir, þ.e. 27. desember, sama dag og mótið átti að hefjast. Við áttum því ekki bókað herbergi fyrr en daginn eftir og ekkert herbergi var að fá, allt var uppbókað þennan dag, að sjálfsögðu út af Boxing day. Engu var hægt að hnika en við tókum þessu með jafnaðargeði, einhvers staðar hlyti að vera hægt að fá inni – eina nótt – í öllum þeim aragrúa gististaða sem var að finna í bænum. Við höfðum því ekki ýkja miklar áhyggjur af þessu þegar við yfirgáfum hótelið og hófum að kynna okkur hótelin í næsta nágrenni. Við komumst fljótlega að raun um að málið var snúnara en við höfðum talið, allt var þar bókað í bak og fyrir. Við héldum engu að síður ótrauðir áfram leitinni. Hófst nú mikil þrautaganga okkar út um allan bæ að finna hótel. En það var sama hvar niður var borið, allstaðar var yfirfullt. Við mættum þó hvarvetna skilningi og vinsamlegu viðmóti. Ekki fór hjá því, þegar við vorum að spyrjast fyrir í móttöku hótelanna, að glaðværir gestirnir veittu okkur athygli og vildu fá að taka þátt í að leysa vanda okkar. Brátt snerist þetta upp í einhvers konar leik hjá þeim – ekki mátti fara á mis við alla skemmtun þótt verið væri að hjálpa náunganum! Ég minnist þess að eitt sinn varð mér litið til baka og við mér blasti “surrealistisk” mynd af halarófu dansandi fólks sem bylgjaðist á eftir okkur syngjandi “la Conga razia.” Eitthvað sem ég sé alltaf fyrir mér en trúi varla að hafi gerst. Fljótlega fór þó halarófan að riðlast, þegar hvorki gekk né rak að finna herbergi, og að lokum hvarf hún með öllu.

FRIÐRIK VS. KORCHNOI í Hastings 1955-56.2014 151957
Friðrik mætir Kortsnoj í Hastings 1955-1956

Nú var komið kvöld og farið að kólna og þegar við áttum leið framhjá lögreglustöðinni í Hastings ákváðum við að líta þar inn og láta á það reyna hvort þar væri aðstoð að fá. Ég bað varðstjórann um að fá að hringja í framkvæmdastjóra skákmótsins, Frank Rhoden. Varðstjórinn fann númerið og ég náði sambandi við Rhoden og tjáði honum vandræði okkar. Hann virtist ekki sérlega uppnæmur og taldi sig lítið geta gert svo síðla kvölds. Eftir að við höfðum rætt saman nokkra stund bað hann um að fá að tala við varðstjórann og spurði hann vafningalaust hvort við gætum ekki fengið að gista á lögreglustöðinni um nóttina! Ég held að varðstjóranum hafi fundist þetta undarleg beiðni en það varð úr að okkur var fenginn til afnota klefi með tveimur beddum og teppum, kaldur og rakur án upphitunar. Sem betur fer gat varðstjórinn útvegað okkur rafmagnsofn til að hafa um nóttina sem gerði okkur lífið bærilegra þótt hann dygði skammt gegn sagganum og kuldanum. Þótt við færum í allar þær skjólflíkur sem sem við höfðum meðferðis held ég að hvorugum okkar hafi orðið mikið úr svefni um nóttina. Við vorum svo ræstir snemma morguns, fengum einn kaffibolla og þurftum svo að vera farnir út klukkan átta um morguninn fyrir vaktaskiptin! Ekki komumst við inn á hótel fyrr en á hádegi og tókum það til bragðs að bíða í veitigasalnum á járnbrautastöðinni. Eins og vonlegt er kvefuðumst við báðir og vorum farnir að hósta þegar leið á daginn.

„Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott!“

Já, það er ekki loku fyrir það skotið að þetta hafi haft áhrif á gengi mitt í mótinu til hins betra. Þessar “móttökur” hleypti í mig hörku, ég varð ákveðinn og einbeittur og erfiður viðureignar. Vann flestar af skákunum í upphafi mótsins og deildi að lokum efsta sætinu með sovéska stórmeistaranum Viktori Kortsnoj. Þegar enski skákmeistarinn B.H. Woods frétti af þessari meðferð á okkur Inga gagnrýndi hann hana harðlega í tímaritinu Chess og sagði hana vera í hrópandi mótssögn við þá frægu gestrisni sem hann og aðrir skákmeistarar hefðu notið á Íslandi.

Lokaorð

Hér sláum við botninn í viðtalið að þessu sinni. Ýmislegt fleira bar á góma sem geymt er. Það yrði öllum skákunnendum kærkomið ef Friðrik myndi skrá æfisögu sína alla. Frásagnirnar af skákferðunum, samferðafólkinu,og málefnum skáklistarinnar fylla djúpan sagnabrunn sem svo sannarlega mætti bergja betur af. Taflfélag Reykjavíkur þakkar Friðriki Ólafssyni samfylgdina og trygglyndið sem hann hefur sýnt félaginu alla tíð. Hann er vaskasti sveinninn á vegferð félagsins frá upphafi til þessa dags, í hundrað og tíu ár. Við óskum Friðriki Ólafssyni og Auði Júlíusdóttur alls hins besta á komandi árum.

Merki: