Tal sigurvegari í svæðakeppninni í Portoroz – Friðrik Ólafsson kandidat til heimsmeistarakeppni

Portoroz 12. september.

Langri og harðri keppni er lokið.

Með úrslitum biðskáka í gær fékkst úr því skorið hverjir skákmeistaranna, er þátt tóku í alþjóðasvæðakeppninni hér, halda áfram á næsta ári hinu erfiða klifi á Himalaja skákarinnar. Þeim mönnum sem geta komið til með að ná toppnum á næsta ári og heyja hina erfiðu glímu við Botvinnik árið 1960 hefir nú fækkað úr þeim milljónum, sem þreyta keppnisskák víðsvegar um heim, niður í þá átta, sem nú hafast við í efstu birgðastöð fjallsins mikla. Þeir eru: Vassily Smisloff, fyrrverandi heimsmeistari, Paul Keres, er varð annar í síðasta kandidatamóti, og svo sex efstu frá Portoroz, þeir Mikail Tal, Svetosar Gligoric, Tigran Petrosjan, Paul Benkö, Friðrik Olafsson og síðast en ekki sízt, undrabarnið Robert (Bobby) Fischer.

Hversu keppnin var hörð sýnir bezt fall Bronsteins, Szabós, Filips, Pannos, Averbachs og annarra. Skákmenn um allan heim harma að enginn Bronstein, sem teflir meira fyrir listina en vinningana, mun skapa ný meistaraverk í næsta kandidatamóti, en gleðjast yfir framgangi hinna ungu meistara Fischers, Friðriks og Tals, sem án efa munu halda uppi merki Bronsteins.

Gengi Friðriks í mótinu.

Það sem einkum vakti athygli í upphafi keppninnar var velgengi Friðriks, Benkös, Petrosjans og Matanovics, ásamt hinni slæmu byrjun Szabós og friðsemd Bronsteins.

Blöðin hér skrifuðu frá upphafi einna mest um Friðrik, ef þeir heimamenn Gligoric og Matanovic eru frátaldir. Glæsilegur sigur yfir Szabó í fyrstu umferð, síðan þrjú stórmeistarajafntefli, vinningur yfir Cardoso og æfintýraleg björgun úr tapstöðu á móti Gligoric, sem jafnvel reyndist vinnandi sókn, er árangur, sem jafnvel Botvinnik gæti verið fullsæmdur af, enda hafði Friðrik forustuna eftir sex umferðir ásamt Petrosjan, hálfum vinning ofan við sjálfan Rúslandsmeistarann, sem hafði tapað fyrir Matanovic í fjórðu umferð.

Síðan kom erfiðasti hjallinn hjá Friðriki, töp á móti tveimur af minni spámönnunum í sjöundu og níundu umferð. Um þetta leyti var velgengi Petrosjans hvað mest. Vera má að Friðrik hafi teflt of stíft upp á efsta sætið í mótinu! Öruggasta leiðin til þess að komast upp, er sú að vinna mótið, var orðtak, sem átti nokkurn hljómgrunn hér, þótt hitt væri viðurkennt að betra er hálfur hlutur en enginn. Skákirnar voru lærdómsríkar fyrir Friðrik að því leyti, að ekki er æskilegt að komast alltaf í timaþröng. Þótt heppnin kunni að vera viðlátin á stundum, kann hún að þurfa öðrum að sinna í annað skipti.

Ef sigurinn yfir Szabó hefir minnt á Aljekín og sigurinn yfir Gligoric á Reshevsky, þegar hann var upp á sitt bezta, þá minntu nú næstu sigrar á Dr. Lasker, sem oft gaf andstæðingnum eitthvað til þess að þeir héldu að þeir væru að vinna og gættu sín miður. Peð eða tvö, skiptamunur, eða sóknarkorn, getur hentað í þessu augnamiði. Friðrik gaf Fischer og Larsen skiptamun. Báðir „áttu“ að ná á. m. k. jafntefli eftir byrjunina, en skákin hefir sem kunnugt er þrjú stig. Forgjöf á fyrsta stigi þýðir ekki ætíð velgengni á því næsta. Sigurinn yfir Averbach var hins vegar eins vel verðskuldaður eins og ósigurinn á móti Bronstein. Telur Friðrik skákina við Averbach hans beztu í mótinu. Fer vel á því, þar eð sú skák var fyrsta skák stórmeistarans Friðriks Ólafssonar.

Eftir sigurinn yfir „erfðafjandanum“ Larsen í 14. umferð hafði Friðrik aftur nálgast mjög efstu Rússana. Brautin upp virtist því næsta greið, en ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Einn rangur varnarleikur gegn örvæntingarsókn Sanguinettis kostaði hálfan vinning, og með svörtu gegn hinum örugga Panno var aldrei að búast við meiru en jöfnum hlut. 10 vinningar og hjáseta eftir 17 umferðir var þó fyllilega „samkvæmt áætlun“. Þóttumst við nú þurfa 2 1/2 vinning úr síðustu fjórum skákunum til þess að vera öruggir, en framundan voru tveir slavneskir berserkir. Ákveðið var að tefla til vinnings með hvítu gegn Tal. Vinningur gegn honum gat þýtt sigur í mótinu. Tókst rússneska meistaranum ekki að jafna taflið og hafnaði Friðrik jafnteflistilboði í 19. leik. Tal tefldi jafnt upp á tímann sem stöðuna, eins og hann á vanda til. Fór staða hans síversnandi eins og timaþröng Friðriks. Skömmu áður en skákin fór i bið, sást Friðriki yfir greinilega vinningsleið, og vegna þreytu og vandasamrar stöðu notaði hann þrjú kortér til undirbúnings biðleiksins. Við rannsókn biðskákarinnar fannst engin vörn hjá Tal, en hætta var á, að hann gæti villt Friðriki sýn með óvæntum leikjum, þar eð aðeins kortér var eftir af biðskákartima. Sá ótti okkar reyndist ekki ástæðulaus eins og á daginn kom.

Skákin við Petrosjan varð annað æfintýri, en í öðrum dúr. Hér var það Friðrik, sem þurfti að klóra í bakkann. Eftir aðeins 15 leiki hafði hinn nýi stórmeistari notað tvær stundir til þess að fá eina af ljótustu stöðum, sem sáust í mótinu, en þá kom íslenzki víkingurinn fram í Friðriki og ný peðsfórn setti „Tígrisdýrið“ í vanda. Var það sérstök sýning fyrir okkur, sem þekkjum Petrosjan sem einn snjallasta hraðskákmann heimsins, að sjá hann svitna af vanda, er hans eigin sekúndur voru að renna út og andstæðingurinn hótaði skákum og hrók. Var ljóst að áhorfandanum Tal var ekki rótt. Tap landa hans fyrir íslenzka náttúrubarninu gat haft í för með sér að hann sjálfur Rússlandsmeistarinn, „yrði“ að tapa, ef landi hans átti að ná upp. Margt getur skemmtilegt skeð. Var það ekki Petrosjan, sem hafði leitt mótið lengst af í stórum stíl? En „Armeniumenn hafa nú níu líf, eins og kötturinn“, segir Mikojan, þegar hann er spurður hvers vegna hann hafi staðist allar „breytingar“ á stjórn Ráðstjórnarríkjanna. Þetta virtist nú sannast á svarta Armenanum, sem að vísu er ættaður frá Grúsíu. Hann fann rétta leikinn og hafði tvö peð yfir í hrókaendatafli, er skákin fór í bið. Annað peðið var þó feigt og jafnteflislíkur góðar. Biðskákin var ekki létt, en endaði með skiptum hlut.

Þá kom síðasta áfallið – tap fyrir Sherwin í næst síðustu umferð. Ég var upptekinn við biðskákina við Petrosjan og slapp því við að sjá þá skák. Er hér var komið voru Tal, Gligoric, Benkö og Petrosjan orðnir næsta öruggir upp, og þeir Bronstein og Fischer hálfum vinningi ofan við Friðrik. Var nú „síðasta vonin“ sú, að Friðrik ynni De Greiff, og fengi að tefla um kandídataréttinn við Fischer, og ef til vill aðra þá, er voru jafnir Friðriki fyrir síðustu umferð.

Staða efstu manna var nú þessi:

1. Tal 13 v.
2. Gligoric 12 ½
3. Petrosjan 12 ½
4. Benkö 12
5.-6. Bronstein og Fischer 11 ½
7.-10. Friðrik, Averbach, Szabó og Pachman 11 v.

En sjaldan hefir síðasta umferð í stórmóti gengið „eftir áætlun“. Engan mun þá hafa grunað, að slík stórtíðindi mundu gerast, að sigurvegarari tveggja alþjóðasvæðakeppna, Bronstein, er teflt hafði 58 skákir í þessum mótum án taps, mundi verða sleginn út af unglingi frá Asíu, með tapi í þeirri 59. Var það vissulega hvalreki fyrir Fischer, sem eftir jafntefli við Gligoric með leið, sem við höfðum rannsakað saman í Ljublana, Bandaríkjamenn og Íslendingar, var nú orðinn kandidat, 15 ára að aldri. Leið þessi á sér merka sögu; er hún endurbót á taflmennsku Argentínumannanna þriggja, Najdorfs, Pannos og Pilniks, sem samtímis töpuðu fyrir þremur Rússum í alþjóðakeppninni í Gautaborg 1955. Taldi Fischer sig hafa fundið endurbót, er nægði til vinnings fyrir svartan, en í Ljubljana komumst við að þeirri niðurstöðu, að hún leiddi til jafnteflis.

Valt nú á biðskákum Friðriks og Szabós um síðasta kandidatinn. Hafði Szabó engu betra á móti Panno og samdist brátt um jafntefli. Aður höfðu þeir Averbach og Pachman orðið að láta sér nægja jafntefli. Rannsóknir á biðstöðu Friðriks Við De Greiff höfðu gefið til kynna að jafntefli væru rökrétt úrslit, en De Greiff lék veikum biðleik og Friðrik náði sókn. Var það von margra að hún nægði til vinnings, svo komizt yrði hjá nýju sex manna móti um sjötta sætið. Íslenzka „nýlendan“ í Portoroz horfði á endirinn. Þeir Ingimar Jónsson og Reimar Sigurðsson höfðu nú bætzt í hópinn, eftir að hafa leigt sér bifreið í Þýzkalandi og skroppið suður. – Sífellt hallaði á De Greiff og var staða hans orðin vonlaus er hann lék ljótum leik. Óverjandi mát – og Friðrik var kandidat.

Freysteinn Þorbergsson.