1995: Friðrik ruddi brautina

Friðrik ruddi brautina

 

Grein Jóns L. Árnasonar í DV 4. febrúar 1995 í tilefni sextugsafmælis Friðriks.

Skýringin á almennum skákáhuga á Íslandi umfram mörg önnur lönd er varla einhlít en þrennt vilja spekingar nefna öðru fremur:

Í fyrsta lagi hefði þjóðin frá því land byggðist ornað sér við tafl og spil á köldum, dimmum vetrarkvöldum; í annan stað hefði heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöllinni 1972 kveikt skákelda, sem enn loga; og í þriðja lagi – Friðrik Ólafsson.

Þessar línur eru ritaðar í tilefni þess að Friðrik varð sextugur 26. janúar sl. Líklega hefur framganga hans á sjötta og sjöunda áratugnum öðru fremur orðið kveikjan að svo almennum skákáhuga hérlendis sem raun ber vitni.

Einhvern tímann sagði efasemdarmaður að álíka skemmtilegt væri að horfa á skák teflda, eins og gras grænka eða málningu þorna. Hvað sem því líður er víst að þegar Friðrik var upp á sitt besta var aldrei nein lognmolla á skákborðinu.

Trúlega hefur skákklukkan átt drjúgan þátt í því. Friðrik var frægur fyrir að lenda í tímahraki en var þá háll sem áll, jafnvel þótt tíminn væri að renna út. Margar skákir hans eru frægar hvað þetta varðar, eins og t.d. þegar hann sneri á Gligoric í Portoroz ’58.

Á skákmótum var ekki óalgengt að þegar aðrar skákir væru að nálgast endatafl, væru Friðrik og mótherji hans enn að klóra sig fram úr byrjuninni. Þannig magnaðist spenna í salnum kringum skák Friðriks og ekki spillti leiftrandi sóknarstíllinn.

Friðrik vakti fyrst verulega athygli á alþjóðlegum vetvangi er hann sigraði ásamt Kortsnoj á Hastingsmótinu fræga um áramótin 1955/56. Landsmenn sátu síðan sem límdir við viðtækin er hann tefldi á millisvæðamótinu í Portoroz ’58 og vann sér rétt til þess að tefla í áskorendakeppninni árið eftir. Þar var Friðrik kominn í hóp átta snjöllustu stórmeistara heims, sem tefldu um réttinn til þess að skora á heimsmeistarann Botvinnik.

Friðrik sinnti skákinni í hjáverkum næstu árin, samhliða öðrum störfum en safnaði þó mörgum glæstum sigrum. Hann varð atvinnuskákmaður frá 1974 og kjörinn forseti FIDE, Alþjóðaskáksambandsins 1978-1982.

Síðustu ár hefur Friðrik verið skrifstofustjóri Alþingis og landsmenn hafa ekki átt þess kost að sjá hann við skákborðið. Í haust kann að verða breyting á, því að fyrirhugað er sérstakt afmælismót Friðriks þar sem þekktum kempum verður boðið til leiks.

Þegar Friðrik óx úr grasi voru skákbækur ekki á hverju strái eins og nú er og þaðan af síður disklingar. Því varð fyrst og fremst að treysta á hyggjuvitið. Friðrik sýndi skáklistinni þó meiri ræktarsemi en þá tíðkaðist og tókst að þroska ótvíræða hæfileikana.

Hann var útnefndur stórmeistari 1958, fyrstur Íslendinga. Hann var ungum skákmönnum góð fyrirmynd og ruddi brautina fyrir atvinnumennsku í skák á íslandi – nú eru stórmeistararnir orðnir átta.

Rétt er að líta á eina af skákum Friðriks en vandi er að velja. Mig langar að rifja upp fertuga skák Friðriks úr einvíginu við Hermann Pilnik 1955 sem einnig er að finna í bók Friðriks, Við skákborðið í aldarfjórðung, sem tímaritið Skák gaf út 1976.

Það er lærdómsríkt að sjá hvernig Friðrik byggir stöðu sína markvisst upp og tekst að nýta sér þunglamalega taflmennsku hvíts. Þegar undirbúningi er lokið hristir hann fram úr erminni leikfléttu sem fór sigurför um heiminn – handbragði Friðriks var líkt við sjálfan Alekhine.

Ekki skal lagður dómur á það nú hvort fléttan stenst ströngustu kröfur. Þeir sem eiga öflug tölvuforrit geta kannað hvort tölvan finnur vörn í stöðunni eftir 30. leik Friðriks.

Hvítt: Hermann Pilnik
Svart: Friðrik Ólafsson

Petroffs-vörn.

 

Merki: