1950: Leiðari Morgunblaðsins: Glæsilegur sigur Íslands

Glæsilegur sigur Íslands

Forystugrein Morgunblaðsins 11. ágúst 1950.

Það hefir margur erlendur maður og óviðkomandi furðað sig á hinni sjálfstæðu tilveru íslensku þjóðarinnar, vegna þess hversu örsmá hún er á mælikvarða milljónaþjóðanna. En saga íslensku þjóðarinnar sannar áþreifanlega tilverurrétt hennar, — barátta hennar og sigrar við harðræði og pólitíska áþján, — tunga hennar og þjóðleg menning.

Það er e. t. v. fátt, sem í dag er betur til þess fallið að vekja athygli alls almennings annarra landa og skilning á Íslandi en þegar einstaklingar íslensku þjóðarinnar og einstaklingar stóru þjóðanna leiða saman hesta sína á milliríkjavettvangi, þannig að ráða má af viðureigninni mannþroska keppendanna.

Hjer í höfuðstaðnum hefir undanfarið verið háð skákkeppni milli Norðurlandanna. Hjer hefir setið við skákbbrðin 15 manna lið frá hinum Norðurlöndunum og þreytt keppni við Íslendinga og innbyrðis sín á milli í fjórum flokkum. Keppt hefir verið í landsliðsflokki, meistarafJokki og fyrsta flokki, tvískiptum.

Úrslit þessarar keppni liggja nú fyrir með þeim árangri að Íslendingar eiga tvo efstu menn í öllum flokkunum. Þetta er mikill og merkur sigur fyrir Íslendinga, sem hafa þreytt keppni við harða mótstöðumenn. Méð sigri sínum í landsliðsflokki hefir Baldur Möller í annað sinn fært Íslandi meistaratitil Norðurlanda í skák, en hann vann þennan sama heiðurssess áður í keppni í Svíþjóð árið 1948.

Guðjón Sigurðsson tryggði Íslandi annan sess í landsliðskeppninni með miklum sóma. Í meistaraflokki sigraði hinn ungi 15 ára skákmaður, Friðrik Ólafsson, án þess að tapa nokkurri skák.

Það vekur eftirtekt við þessa keppni, að margir þeirra skákmanna okkar, sem áður hafa verið taldir með þeim bestu, kepptu ekki, en ungu mennirnir hafa tekið við og borið merkið með sóma. Það mun vera staðreynd, að hinir erlendu gestir hjer hafi látið í Ijósi undrun yfir þeim skákáhuga, sem hjer er ríkjandi og sem m. a. mátti vel marka af því, hversu margir áhorfendur voru að þessari keppni.

Það er gleðilegt þroskamerki, að hin göfuga íþrótt, skákin, er í framförum hjer, og sjest það vel afframmistöðu ungu mannanna. Skáksamband íslands hefir staðið fyrir þessu móti Norðurlandanna hjer og á heiður skilið fyrir. Þess er að vænta, að hinir góðu skákgestir frá hinum Norðurlöndunum hafi haft hjer góða dvöl og góða viðkynningu við land og þjóð. Ber að þakka þeim heimsóknina og þeim fylgja hjeðan góðar óskir.

Við getum glaðst yfir fleiri svipuðum sigrum okkar manna í millilandakeppni á þessu ári. Má þar meðal annars minna á millilandakeppnina við Dani í frjálsum íþróttum nýlega, þar sem Íslendingar báru sigur af hólmi, og einnig má nefna ágæta frammistöðu Íslendinga í Evrópukeppninni í bridge í vor.

Menn mega ómögulega halda, að allt þetta sje bara hjegómi. Það er það ekki. Þvert á móti vitnisburður gagnvart umheiminum um manngildi minnstu þjóðarinnar, sem ótrauð vill berjast sinni hörðu, sjálfstæðu lífsbaráttu og leyfir sjer að mæla einstaklinga sína við úrvalið úr miljónaþjóðunum án þess að þurfa að bera minnsta kinnroða — nemá síður sje.

Þessar línur hjer eru síður en svo ritaðar til þess að miklast yfir sigri. Hins vegar verðskulda okkar ungu ágætu menn að þeirra sje getið að verðleikum, þegar þeir eru landi og þjóð til sóma. Engin þjóð á meira undir því en sú minnsta, að hver einstaklingur hennar sje mannkostamaður. Við það ber aðmiða allt uppeldi, allan lærdóm, alla lífsþjálfun hinnar ungu kynslóðar.

Æskan fær oft skömm í hattinn frá hinum og þessum fyrir allskyns ómyndarskap og ræfildóm. En hvorki slíkum siðapostulum eða öðrum ætti að gleymast það, sem vel er gert.

Merki: