1959: Ástin kostaði hann tvær skákir

Ástin kostaði hann tvær skákir

Morgunblaðið 16. ágúst 1959.

Ekki verður langt þangað til skákmeistarinn okkar, hann Friðrik, verður enn einu sinni á dagskrá. Nú fer hann til Júgóslavíu til tveggja mánaða baráttu við sjö aðra snillinga um það, hverjum falli sá heiður í skaut að fá að skora á sjálfan heimsmeistarann til annarrar enn harðari baráttu.

Það er búið að segja svo mikið og skrifa um Friðrik, að við það er sennilega engu að bæta, nema þá, að hann er ári eldri en hann var í fyrra, sem sagt 24 ára — og ólofaður, a. m. k. opinberlega. — En eru þær fallegar í Júgóslavíu? spyrjum við, því að í rauninni átti þetta að verða viðtal og á einhverju verður að byrja.

Það er misjafnt, segir hann — fallegri eftir því sem sunnar dregur, en ég hef enn ekki komizt í syðsta hluta landsins. Nú verður teflt í þremur borgum og byrjað nyrzt, enda eins gott. Og svo hlær hann, og við líka.

— Já, þið grúfið yfir taflborðinu dag og nótt — ekkert kvíðinn eða taugaspenntur?

1959 Sarpur - Astin kostaði hann 2 skákirÞví neita ég ekki, þetta er ekkert tilhlökkunarefni. — Menn eru líka alltaf taugaspenntir fyrstu umferðirnar. Og það þýðir aldrei að slappa af. Um að gera að belgja sig út í upphafi og gefa aldrei eftir, þá hjaðnar maður niður og nær sér ekki á strik aftur. Annars eru biðskákirnar erfiðastar, þó að hitt geti verið nógu erfitt.

— Geta skákmenn nokkuð undirbúið sig fyrir keppnisdag, kemur þetta ekki allt af sjálfu sér?

Yfirleitt reynir maður að gera einhverja áætlun, athuga skákir mótherjanna, reyna að átta sig á skákstílnum, finna veilur — og notfæra sér þær.

— Það er þá heilt bókasafn í ferðatöskunni?

Ég segi ekki bókasafn, en nokkrar bækur. Annars gildir sama um skákina og allt annað. Það er sama hvern fjandann maður sökkvir sér niður í. Ævin endist ekki til að kafa til botns í neinu, því meira sem menn lesa og velta vöngum yfir einhverju efni — þeim mun Ijósari verður þeim fákunnáttan. Skákin hefur engin endamörk a. m. k. komast menn aldrei í sjónfæri við þau.

— En er ekki góð vinátta með ykkur skákmönnunum samt sem áður — enda þótt baráttan sé svona hörð?

Já og nei. Við erum kurteisir og tillitssamir hver við annan. En það er alltaf eitthvað, sem við dyljum — alltaf eitthvað á milli okkar, sem ekki er hægt að brjóta. Keppendur, sem koma oft saman á svona mót, verða aldrei vinir. Við gætum aldrei rabbað saman í hóp eins og gamlir kunningjar.

Samræður færu alltaf út í skák, þar eiga allir sín leynivopn, þá yrðu menn þvingaðir eða lygnir — eða þá, að farið væri út í algerar saumaklúbbsaðferðir — baknaga einhverja, sem ekki eru viðstaddir.

Og Friðrik brosir. En hann heldur áfram: Ég varð þess vegna ekki fyrir svo geysilegum vonbrigðum, þegar ég vissi, að Bent Larsen hafði brugðizt [sem aðstoðarmaður]. Ég er ekki að segja, að hann sé slæmur. En við erum keppinautar engu að síður og milli okkar er alltaf sami veggur, sem er á milli allra keppinauta.

Ég held, að mig langi frekar til þess að Ingi R. verði með mér. Það er ekki aðeins gott að hafa mann, sem getur sökkt sér niður í skákirnar með mér, því að jafn nauðsynlegt er að hafa einhvern, sem hægt er að rabba við um allt annað en skák og gleyma skákinni stund og stund.

Annars væri ég eins og einangraður fangi í skákþrautum allan tímann.

— Hafa þá ekki margir skákmenn eiginkonurnar með á svona mót?

Það er nú upp og ofan, en reynzlan er víst sú, að betra sé að skilja konurnar eft ir heima, a. m. k. fyrir nýgifta. Zsabo kom t. d. einu sinni nýgiftur til móts. Hann var fertugur, hún 17 ára — svo að ekki vantaði sæluna. Hann tapaði líka tveimur fyrstu skákunum, segir Friðrik og hlær. — Það er ekki hægt að hugsa um allt í einu.

— En hvað hefur þú þá meðferðis auk bókanna?

Ég hef stundum harðfisk.

Merki: