..Ég sé ekki eftir þeim tíma, sem ég hef eytt í skákina“

VIKAN heimsækir Friðrik Ólafsson, stórmeistara, og konu hans, Auði Júlíusdóttur. Texti Kristín Halldórsdóttir. Myndir: Sigurgeir Sigurjónsson.

Það gæti verið nógu gaman að kanna, hver er þekktastur núlifandi Íslendinga: Kristján Eldjárn? Halldór Laxness? Eða er það kannski Friðrik Ólafsson? Okkur kæmi ekki á óvart, þótt hann kæmi sem sigurvegari úr þeirri keppni. Hitt er annað mál, hvort hann væri nokkuð yfir sig hrifinn af slíkri auglýsingu. Stórmeistarinn okkar þjáist nefnilega af öllu öðru frekar en mikilmennskuórum.

Friðrik og AuðurVið heimsóttum þau hjónin Auði Júliusdóttur og Friðrik Ólafsson að Hjarðarhaga 15, þar sem þau hafa búið sér notalegt heimili með dætrum sínum tveimur, Bergljótu 10 ára og Áslaugu 3 ára. Það er aldrei auðvelt að lýsa andrúmslofti staða, en hugsið ykkur bara litla stofu, sem þó virðist stór, einföld en þægileg húsgögn, notalega birtu og létta klassíska tónlist, og þá eruð þið komin með okkur heim til Auðar og Friðriks.

Eflaust er það smekkvísi hús móðurinnar, sem ræður heimilisbragnum, en áhugamál húsbóndans setur lika sinn sérstaka svip á heimilið. Það fyrsta sem við rákum augun i inni i stofunni, var forláta skákborð úr mahogny með marmarareitum, og það stóð þar ekki bara upp á punt, þvi Friðrik var i miðri skák. Og borðið á sér sögu:

— Þetta er gjöf frá Fidel Castro, segir Friðrik okkur, og mér finnst mjög gaman að eiga þetta til minningar um ólympíumótið sem haldið var á Kúbu 1966. Okkur gekk vel þar, Íslendingunum, urðum i 11. sæti i A-flokki. Við þurfum ekki einu sinni að bregða fyrir okkur höfðatölureglunni margfrægu til að sanna það. Eftir mótið fengum við 1. borðs mennirnir allir að gjöf þessi borð, sem notuð voru á mótinu og m.a.s. stólana lika.

— En mennirnir?

— Ég tími ekki að nota þá, segir Friðrik og dregur fram forkunnar finan kassa, sem er  eins og hús i laginu. Hann lyftir þakinu og dregur út hliðarnar, og við fáum að sjá þessa forláta taflmenn á þremur hæðum, og á botninum er nafnspjald Fidels Castros.

— Ég hef nú afdrep annars staðar í íbúðinni til skákiðkana, það er svo mikið drasl i kringum þetta, bækur og rit. En ég sit þó oft hér að tafli, segir Friðrik.

— Krakkar eru spenntir fyrir  þessu tafli, segir Auður. Systurdóttir mín kallaði taflmennina voffa, þegar hún var lítil, og sagði, að Friðrik væri að leika sér að voffunum sinum, þegar hann var að tefla.

— Teflir þú, Auður?

— Ég kann mannganginn, en meira er það nú ekki. Friðrik er of góður til að nokkur annar i fjölskyldunni geti lagt þetta fyrir sig.

— Ferðu með manninum þinum á skákmót erlendis?

—Ég hef  farið þrisvar sinnum, að ég held, maður á ekki alltaf heimangegnt, þegar börnin eru lítil.— Ertu nokkuð afbrýðisöm út í skákina?

— Nei, drottinn minn dýri! Það var þá spurning! Ég hafði mjög gaman af því að vinna hjá skáksambandinu í sumar í sambandi við heimsmeistaraeinvígið og fylgjast með því inni í Laugardalshöll.

— Hvenær byrjaðirðu að tefla, Friðrik?

— Ég var víst 10 ára.

— Og hvað kom þér á sporið?

— Ætli það hafi ekki bara verið  rigning og lítið við að vera. Nei, annars, þetta er víst það sem Larsen er vanur að segja. Minn áhugi vaknaði fyrir alvöru, þegar enski skákmeistarinn Wood kom hingað og tefldi við Ásmund Ásgeirsson, þáverandi Íslandsmeistara. Þá greip um sig mikið skákæði.

— Og frami þinn varð skjótur á þessu sviði.

— Það má kannski segja það, ég var kominn i landsliðið 15 ára.

Friðrik er ósköp hógvær og erfitt að toga upp úr honum afrekaskrána. Hann er mjög rólegur í fasi, tottar pípu sina og hlær afsakandi, þegar honum finnst orð sín bera vitni um sjálfshól.

Við flettum upp í íslenzkum samtíðarmönnum og sáum þar, að Íslandsmeistan hefur Friðrik orðið 6 sinnum, i fyrsta skipti aðeins 17 ára, og árið eftir varð hann Norðurlandameistari.

Mörgum er enn i fersku minni, þegar Friðrik sigraði ásamt V. Kortsnoj á skákmóti i Hastings 1955-56, þá nýútskrifaður stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík. Menn fylgdust með fréttum frá Hastings í miklum spenningi og fögnuðu innilega með meistaranum unga.

Alþjóðlegur skákmeistari varð Friðrik árið 1956 og stórmeistari 1958, sigurvegari á alþjóða skákmótinu í Beverwijk i Hollandi 1959 og á svæðamótinu i Marianske Lasne i Tékkóslóvakíu 1961. Svona mætti lengi telja.

— Þetta hlýtur að vera ákaflega timafrekt áhugamál, Friðrik. Hefurðu nokkurn tíma séð eftir þvi að hafa eytt svona miklum tíma i skákina?

— Það er rétt, skákin er mjög krefjandi um tíma  og fleira, og auðvitað kom þetta mjög mikið niður á náminu. En ég sé ekki  eftir þeim tima, sem ég hef eytt í skákina, síður en svo.

— Kom aldrei til greina, að þú gerðist atvinnumaður í  skák?

— Oft er ég spurður að þessu, og svo virðist, sem flestir haldi, að mig hafi skort skilning og aðstoð til að gerast atvinnumaður í skák.  Staðreyndin er sú, að ég kærði mig ekki um það.

— Hvers vegna ekki?

— Til þess liggja einkum tvær ástæður. Skákmót eru yfirleitt mjög löng og þreytandi, og það er erfitt að samræma atvinnumennsku í skák venjulegu fjölskyldulífi. Það má nú eiginlega segja, að ég hafi verið atvinnumaður fyrstu árin eftir stúdentspróf, og það var spennandi tímabil, en svo sneri ég mér að lögfræðináminu fyrir alvöru.

— Guðmundur Sigurjónsson er líka í lögfræði. Er kannski eitthvað skylt með lögfræði og skák?

— Það er ekki alveg fráleitt. Báðar greinar krefjast mikillar umhugsunar, það þarf að vega og meta ýmsa möguleika.

— Og nú starfarðu í dómsmálaráðuneytinu.

— Já, ég fór til Baldurs Möllers í dómsmálaráðuneytinu að loknu prófi til að spyrjast fyrir um atvinnumöguleika og var jafnvel að hugsa um að fara út á land. En þá benti hann mér á, að hann hefði þarna lausa stöðu. Nei, þú þarft ekki að líta á mig neinum grunsemdaraugum: við Baldur minnumst ekki á skák í vinnunni, hvað þá að við tökum upp taflið!

— Er atvinnumennska í skák ábatasöm?

— Hún hefur ekki verið það. Þátttakendur fá fríar ferðir og uppihald, en verðlaunaféð fá aðeins þeir beztu, og það eru ekki háar upphæðir, jafnvel ekki á okkar mælikvarða. En þetta fer að líkindum að lagast, og við getum vafalaust þakkað Fischer það.

— Nú hefur þú teflt víða um heim. Hvar hefur þér fundizt bezt að tefla?

— Liklega i Hollandi. Aðstæður eru þar líkar og hér heima, bæði loftslag og matur. Það er nefnilega alls ekki út í bláinn, þegar aðstæðum er kennt um lélegan árangur, hvort sem um skák eða annað er að ræða. Manni verður að líða vel líkamlega til þess að ná einhverjum árangri.

— Nú, og svo hefur afstaða fólksins lika mikil áhrif. Það er t.d. engin furða, þótt Fischer þyki gott að tefla í Júgóslaviu, því að Júgóslavar hafa horní síðu Rússa og eru þar af leiðandi afskaplega hlynntir Fischer.

— Ég á eina bráðskemmtilega minningu frá skákmóti í Zagreb 1958. Við tefldum í húsi við aðaltorg borgarinnar, sem er geysilega stórt, og þar var alltaf mikill mannfjöldi að fylgjast með mótinu á stórri sýningartöflu. Svo var það eitt kvöldið, að júgóslavneski meistarinn Gligoric tapaði sinni skák fyrir Tal, og það vakti ólgu og vonbrigði meðal Júgóslavanna á torginu.

Rétt á eftir vann ég mína skák við Petrosjan, og þá fannst Júgóslövum sem ég hefði hefnt nokkuð ófara landa þeirra og upphófu mikil fagnaðarlæti, heimtuðu að ég kæmi fram á svalimar og veifaði til mannfjöldans og allt eftir því. Þegar ég svo kom út úr húsinu, vissi ég ekki fyrri til en ég var þrifinn og borinn á gullstól fram og aftur um torgið og allir vildu snerta og þrífa í mig. Ég var eiginlega orðinn dauðrædur, og þegar mér loks tókst að slíta mig lausan, tók ég til fótanna og hljóp sem mest ég mátti alla leið heim á hótel með skarann á hælunum.

—Þú hefur líka eitthvað gert af því að fara um hér innanlands og tefla fjöltefli.

Friðrik við taflborðið— Ég gerði dálítið af því einu sinni, en ekkert núna lengi. Skákáhuginn nær um allt landið og fólk úti á landi hefur mjög gaman af að fá svona heimsóknir. Ég man t.d. eftir einum bónda, sem kom gangandi með taflið sitt undir hendinni alla leið innan úr Fljótum til Sauðárkróks, þar sem ég tefldi þá fjöltefli við 76 manns.

— Er nóg gert fyrir skák hér á Íslandi?

Skáksambandið fær nokkuð góðan ríkisstyrk, miðað við t.d. nágrannalöndin.

— Hvernig hagarðu þjálfun þinni? Teflirðu eitthvað á hverjum degi?

— Það er nú misjafnt. Ég les talsvert um skák, reyni að fylgjast með því, sem er að gerast og geri sjálfstæðar athuganir.

— Margir skákmenn leggja mikið kapp á þjálfun líkamans, eins og við  kynntumst t.d. meðFischer og Spasskí. Stundar þú einhverja líkamsrækt?

— Þetta er áreiðanlega talsvert mikilvægt atriði. En ég hef aldrei farið út í það.

— Fyrir fávísa á þessu sviði er  alveg furðulegt að sjá til þín í sjónvarpinu, þegar þú rekur skákirnar í allar áttir og drepur og færir sitt á hvað, án þess að ruglast i réttu stöðunni. Hvernig ferðu að þessu þessu?

Og nú hlær Friðrik þessum afsakandi hlátri, sem heyrist svo oft, þegar honum finnst sér hælt um of.

— Þetta er bara æfing, maður þekkir yfirleitt þessar leiðir, sem hægt er að fara.

— Er einhver ein skák þér minnisstæðust af þeim, sem þú hefur teflt um ævina?

— Ekki get ég sagt það. Mér finnst alltaf sú skák athyglisverðustu, sem ég  er að tefla þá stundina.

— Hefurðu einhver áhugamál önnur en skákina?

— Þetta. segir Friðrik og kinkar kolli í áttina til plötuspilarans.

— Tónlistin er okkar sameiginlega  áhugamál, segir Auður. Við sækjum oft tónleika og eigum sæmilegt plötusafn. Við erum mest fyrir klassík, en höfum ekkert á móti James Last, eins og þú heyrir, enda ef ég viss um, að Beethoven væri ekki óánægður með útsetningar hans.

— Leiðist þér ekki að heyra okkur ekki tala um annað en eitthvað viðkomandi skák?

— Nei, mér finnst það einmitt ágætt, segir Auður. Ég hef nú eiginlega ekki heyrt minnzt á skák, síðan heimsmeistaraeinvíginu lauk. Ég held, að allir hafi bara verið búnir að fá nóg þá.

— Það getur óneitanlega verið dálítið þreytandi stundum, segir Friðrik, en sumir virðast álíta, að ég vilji ekki tala um neitt annað en skák. Ég tel mig hins vegar viðræðuhæfan á fleiri sviðum.

Við látum okkur þetta að kenningu verða, og það sem eftir er kvöldsins ræðum við um ferðalög og fjarlæg lönd. Einsog gefur að skilja, hefur Friðrik farið víða til þess að taka þátt í skákmótum, en skákin setur honum lfka nokkrar skorður, hann getur yfirleitt lítið séð sig um, meðan á mótum stendur. Skákin heimtar alltaf sitt.

Í september s.l. fóru þó hjónin með báðar dæturnar í sumarfrí til Júgóslavíu og dvöldust þar í hálfan mánuð, og þó þau teldu sig ekki hafa verið nógu heppin með veður, var augljóst, að eitthvað hafði sólin skinið

En siðasta spurningin hlýtur að snerta skák.

— Larsen hefur látið hafa það eftir sér, Friðrik, að þú sért bezti áhugamaður í skák í öllum heiminum. Hvað viltu segja um það?

Og svarið er dæmigert fyrir okkar ágæta Friðrik:

— Hann neyðist náttúrlega til að segja það. Ég hef svo oft unnið hann!

Merki: