Skákin er skapandi máttur, ekki stærðfræðiþraut
Viðtal við Friðrik Ólafsson í Sunnudagsblaði Tímans, 24. febrúar 1963
Hefurðu lesið ,,Manntafl“, Friðrik?
Fólk var alltaf að spyrja mig, hvort ég hefði lesið þessa sögu hans Stefans Zweig. Ég varð að geta sagt já.
Hefurðu nokkurn tíma kynnzt skákmeistara, sem er jafnmikill hálfviti og skákmeistarinn í sögunni?
Nei, og það er mjög hæpið, að góður skákmaður geti verið hálfviti að öðru leyti. Þó ekki væri nema fyrir það eitt, að maður verður alltaf að haga taflmennsku sinni í samræmi við taflmennsku mótherjans, og það getur enginn gert, sem ekki hefur almenna greind.
Það sagði einhver, að skákin hefði heila, en ekki hjarta.
Skákin flytur engan boðskap, og hún hefur ekkert, sem heitir siðferðistilfinning, það er rétt. En hún er skapandi máttur, ekki stærðfræðiþraut, heldur tjáning skákmannsins. Maður fær útrás fyrir tilfinningar og hvatir, sem búa með manni, og persónuleiki skákmannsins speglast í stíl hans, þótt hann sé stundum það gagnstæða við, sem maður annars álítur hann vera — það, sem maður leynir í lífinu, kemur kannski fram á skákborðinu.
Reyna skákmenn stundum að hafa truflandi áhrif hver á annan?
Það eru yfirleitt ekki nema einhverjir smápollar, sem gera það. Með því að reyna að trufla andstæðinginn utan við skákborðið gefur maður nefnilega höggfæri á sér og lætur í ljós, að maður geti ekki unnið skákina með eðlilegum hætti, og það er hætt við, að maður vilji gleyma því, sem fram fer á borðinu, ef maður jafnframt er að reyna að trufla mótherjann.
En náttúrlega geta skákmenn haft truflandi áhrif hver á annan ósjálfrátt. Það kvarta til dæmis margir undan Tal. Hann á það til að gjóa allt í einu á mann augunum, eins og hann sé að lesa hugsanir manns. Og þegar hann á ekki Ieikinn, gengur hann fram og aftur við borðið eins og ljón í búri. Hann gerir þetta ekki af ásettu ráði, er bara svona bundinn við borðið, að hann getur ekíki slitið sig frá því.
En geta áhorfendur ekki haft truflandi áhrif?
Þeir verða bara að andlitslausri þúst fyrir augunum á manni. Ég sá stöku sinnum andlit í þústinni hér áður fyrr, eins og til dæmis í einvíginu við Larsen. Þá sá ég einstaka vondauft andlit, og það var auðséð á þessum andlitum, að eigendur þeirra liðu miklu meira en maður sjálfur, og um leið varð mér ljóst, að þar kom meira til en skákin sjálf.
Það var að minnsta kosti óspart um ykkur Larsen, og sumir sögðu, að þig væruð örgustu óvinir.
Það var að minnsta kosti óspart reynt að gera okkur að óvinum. — Hérna heima féll líka fólki illa við ýmis ummæli, sem hann lét hafa eftir sér í dönskum blöðum, svo sem að hann ætlaði að sækja titilinn í ísskápinn og annað því líkt. Danir sjálfir tóku þetta ekki alvarlega, en höfðu gaman af þessu. Annars eru þeir allra manna harðastir að gagnrýna sína menn, ef illa gengur.
Finnst þér þú vera að tefla fyrir þjóðina, þegar þú teflir á alþjóðlegum mótum?
Það er bezt að varpa þeirri tilfinningu, að maður sé að tefla fyrir fólk, fyrir borð eins fljótt og maður getur og reyna heldur að tefla fyrir sjálfan sig. Það getur að vísu gefið manni sjálfstraust og verið aðhald, að finna, að maður er fulltrúi þjóðar, en það verður til þess, að maður tekur ekki eins miklar áhættur — og þess vegna á maður að losa sig við þessa tilfinningu. Fólk á það heldur ekki skilið, að maður sé alltaf að hugsa um það, því að ef eitthvað ber út af, kveður við annan tón.
Hvaða skák hefur þér þótt skemmtilegast að tefla?
Þegar maður er kominn þetta langt, er skákin ekki skemmtun, heldur miklu fremur vinna og harka. — Skákástríðan — þessi misnotkun á sjálfum sér — er fólgin í taugaá- reynslunni og spenningum. En mér er eftirminnilegust síðasta skákin í Portoroz, ekki vegna skákarinnar sjálfrar, heldur vegna þess, að það valt allt á henni, að ég kæmist upp.
Ég tefldi þá við De Greiff frá Columbíu, og skákin fór í bið. Skákstaðan var óljós, og við Ingvar, Freysteinn og ég grandskoðuðum hana, en fundum ekki beina vinningsleið. Það varð þess vegna ekki lítill fögnuður í herbúðunum, þegar mér tókst að vinna hana.
En er þá ekki til einhver skákmaður, sem þér finnst skemmtilegri en aðrir?
Þá koma margir stílar til greina. Einn er skemmtilegur sóknarskákmaður, annar varnarmaður og sá þriðji skemmtilegur „position“-skákmaður. — Ég kann enga nógu góða þýðingu á „position“ í þessu tilfelli, en taflmennsku „position“-skákmannsins mætti líkja við það, sem kallað hefur verið herstjómarkænska. Hjá honum skeður ekki mikið á yfirborðinu, en það er sifelld undiralda.
En náttúrlega getur enginn góður skákmaður bara verið eitt af þessu. Hann verður að sameina þetta allt, því að hann fær ekki alltaf það fram i taflinu, sem hæfir honum bezt. En það kemur oft greinilega fram, hvað af þessu lætur honum bezt.
Sumir eru þannig gerðir, að þeir fara aldrei í sókn, jafnvel þótt þeir eigi kost á því, aðrir setja sig aldrei úr færi að hefja sókn. Ég held til dæmis, að Tal hiki aldrei við sókn, ef hann á kost á henni.
Undir hvaða flokk fellur þú?
Ég myndi telja mig „position“- skákmann, en frekar ágengan.
Hvaða skákmann ertu smeykastur við?
Ég hef alltaf verið órólegur gagnvart Tal. Við teflum líka svo ólíkan stíl. Það eru vissir skákmenn, sem maður er alltaf smeykur við, og gegn þeim nær maður aldrei sínu bezta. Tal sjálfum virðist til dæmis vera fyrirmunað að ná tökum á Kortsnoj. Tal teflir dálítið glæfralega, þó ekki þannig, að maður beinlínis geti fundið, hvar brestirnir liggja, en Kortsnoj finnur alltaf veilurnar og notfærir sér þær.
Það getur verið svo, að bezti skákmaður í heimi lúti alltaf í lægra haldi fyrir ákveðnum skákmanni, þótt sá sé ekki nærri eins góður. Þetta er dálítið einkennilegt og ekki gott að skýra það, en svona er það í sumum tilfellum.
Hefur það slæm áhrif á þig, ef þú tapar í byrjun móts?
Það getur haft það. En yfirleitt kemst ég yfir það; ég brotna að minnsta kosti ekki. Það getur aftur á móti farið í taugarnar á manni, ef tapið er andskoti svívirðilegt, eins og þegar ég tapaði fyrir Petrosjan í fyrstu umferð á síðasta millisvæðamóti. Ég átti snarunna skák, en tapaði henni fyrir klaufaskap.
Varð Petrosjan glaður?
Hann hristi bara hausinn.
Er ekki mjög misjafnt, hvernig menn taka tapi?
Jú, menn eiga misjafnlega erfitt með að leyna, að þeim fellur miður ag tapa. Sumir geta aldrei viðurkennt, að þeir hafi haft verri stöðu, vilja sem sagt ekki viðurkenna, að til séu betri skákmenn en þeir. Þeir benda oft á vendipunkt skákarinnar, og þegar þeim hefur verið sýnt fram á, að hann er ekki fyrir hendi, þar sem þeir segja hann vera, fara þeir bara framar í skákina og þannig koll af kolli, þar til komið er að byrjunarleikjunum.
En þegar menn eru komnir langt, hætta þeir þessu, og hjá góðum skákmönnum tíðkast þetta alls ekki.
Hvað sérðu marga leiki fram, þegar þú teflir?
Það fer mikið eftir stöðunni. Manni nægir kannski að sjá tvo eða þrjá leiki, stundum verður maður að íhuga marga möguleika og sjá 6-7 leiki í margar áttir. Og þegar maður sér ekki lengur fram, verður maður að meta möguleikana hvern fyrir sig, og þá kemur til kasta ýmislegs, sem erfitt er að skýra:
Maður skynjar eitthvað eða greinir í stöðunni, en ekki til fulls, og um leið vegur maður og metur þessa skynjun. Kannski sér maður líka fyrir sér svipaða stöðu, sem maður þá veit, hvernig hefur reynzt, það er þess vegna þýðingarmikið fyrir skákmann að hafa teflt mikið.
Teflirðu varlegar nú en áður?
Ég tefldi eiginlega varlegast á mínum yngri árum, 15-20 ára. Það hefur alltaf verið talinn ljóður á ungum skákmönnum, ef þeir byrja að tefla eins og gamlir skákmenn, svo að ég þótti ekkert sérstaklega efnilegur.
En þegar ég var kominn yfir tvítugt, sneri ég svo algerlega við blaðinu, að ýmsum fannst nóg um. Þetta kom til dæmis fram í einvíginu við Pilnik. Hann sagði í blaðaviðtali, að þessi taflmennska mín myndi ekki duga mér alltaf, þótt hún hefði dugað gegn sér í þetta sinn. Og ég sá náttúrlega síðar, að hún var ekki til frambúðar.
Heldurðu, að skákmenn nútímans séu betri en þeir gömlu?
Þeir eru ekki hæfileikameiri, en þeir ráða yfir meiri tækni. Skákin er orðin fastmótaðri nú en í gamla daga, og það er gömlu skákmönnunum að þakka, því að þekking skákmanna nútímans byggist á þeim. Menn vita betur nú en áður, hvernig á ekki að tefla.
Eru möguleikarnir i skák ótæmandi?
Mér finnst ekkert benda til þess eins og er, að skákin sé tæmandi eða verði það í náinni framtíð. En ef svo ólíklega færi, má náttúrlega stækka skákborðið og bæta við mönnum. Árið 1926 bar Capablanca, sem þá hafði verið heimsméistari í mörg ár, fram tillögu um að stækka borðið upp í tíu reiti á kant og bæta við átta mönnum.
Hann hélt því fram, að skákin væri orðin of einföld. En árið eftir missti hann heimsmeistaratitilinn.
Bobby Fischer sagði, að vestantjaldsmenn gætu ekki unnið á áskorendamóti vegna samvinnu rússnesku skákmannanna, er þetta rétt hjá honum?
Hann staðhæfir nú svo margt, sem hann á erfitt með að rökstyðja, en þó er dálítið til í því, að skákmenn frá sama landi vinni saman á mótum, það er ekki nema eðlilegt. Myndum við ekki gera það sama, ef við ættum kost á því?
Rússar kæra sig í rauninni ekkert um þetta, enda er búið að breyta fyrirkomulagi áskorendamótanna þannig, að slík samvinna er útilokuð í framtíðinni. Í framtíðinni munu þeir átta skákmenn, sem tefla á þessum mótum, heyja einvígi fyrst. Segjum til dæmis, að á slíku móti séu fimm Rússar og 3 menn annarra þjóða. Eftir fyrstu einvígisumferðina verða fjórir sigurvegarar; þeir heyja síðan einvígi, og þá eru eftir tveir, sem tefla um, hver á að fá áskorendaréttinn.
Einvígi er sennilega erfiðara en venjulegt mót; maður er alltaf að kljást við sama andstæðinginn og getur ekki hvílt sig á nýjum og nýjum mönnum. Í einvígi getur mikið oltið á því, hvernig maður vinnur skák. Ef maður til dæmis vinnur skák upp úr verri stöðu, getur það haft mjög slæm áhrif á andstæðinginn og lamað hann.
Þetta kom greinilega fyrir í einvígi þeirra Botvinniks og Tal. Tal tókst hvað eftir annað að klóra sig út úr erfiðri stöðu og vinna eða ná jafntefldi. Botvinnik byggði yfirleitt upp hetri stöðu en Tal, sem notaði minni tíma.
Svo þegar Botvinnik ætlaði að fara að vinna úr stöðunni, hafði hann ekki nógan tíma, og Tal var honum fremri í að skapa flækjur og gerði honum erfitt fyrir. Þrátt fyrir betri stöðu Botvinniks, tókst Tal að vinna, og þetta hafði þau áhrif á Botvinnik, að hann brotnaði, þegar líða tók á einvígið.
Hvernig fellur þér að tefla við Fischer?
Mér hefur gengið illa við hann upp á síðkastið, en ég er víst ekki einn um það.
Er hann eins grobbinn og af er látið?
Það er ekki hægt að kalla þetta grobb í honum. Þessi framkoma er honum eðlileg. Þegar hann slær fram fullyrðingum sínum, veit hann ekki annað en hann sé að segja það. sem hann hafi leyfi til. En það er óhætt að segja, að hann er enginn diplómat.
Þú ert í lögfræðinni Heldurðu ekki, að hún taki þig eitthvað frá skákinni?
Jú, ég býst við því.
Það ætti eiginlega að banna þér að gera annað en tefla.
Það mætti kannski banna mér að fara i lögfræðina, ef ég vildi það ekki sjálfur, en ég er ekki svo eldheitur skákmaður, að ég láti allt annað sigla sína leið, líkt og Fischer gerir. Hjá honum kemst engin hliðarhugsun að.
Hann er eins og hestur með augnskjól, horfir beint fram. Það segja sumir, að í þessu sé mismunurinn fólginn á venjulegum manni og snillingi — og ég verð víst að sætta mig við það að vera bara venjulegur maður, úr því sem komið er.
— Birgir.