Afmæliskveðja frá Ástralíu
Arinbjörn Guðmundsson:
Þegar ég áttaði mig á því fyrir nokkrum dögum síðan að nú er vinur minn Friðrik Ólafsson í þann veginn að ná merkilegum aldursáfanga þá fór eins og oft vill verða við slík tækifæri að hugurinn leitar til löngu liðinna daga og skemmtilegra samverustunda. Minningar af mörgum sniðugum atvikum skutu þá upp kollinum eins og vænta má og um leið og ég – og við hérna megin á hnettinum – óskum Friðriki innilega til hamingju með 70 árin þann 26. janúar og honum og fjölskyldunni alls hins besta í framtíðinni þá læt ég nokkrar af þessum gömlu minningum fljóta með í þeirri von að hann og aðrir hafi gaman af.
Þá er nú fyrst að nefna okkar fyrstu ferð á skákmót erlendis, til Kaupmannahafnar á Heimsmeistaramót unglinga 1953. Friðrik bjó hjá manni af íslenskum ættum, Gunnari Hallsyni, en ég hjá frænku minni þari skammt frá. Mér var stundum boðið í mat með Friðriki hjá Gunnari og í hvert skipti sem sest var til borðs sagði húsbóndinn „Borðið þið nú drengir mínir, þetta er góður matur og hann er dýr“.
Við vorum aldrei alveg vissir um hvernig ætti að taka þessari ábendingu. Við Friðrik spiluðum oft badminton í garðinum hjá Gunnari, Friðrik var lélegur í þeirri íþrótt en það kom ekki að sök því ég var ekkert betri.
Þegar mótinu var lokið var matarboð fyrir okkur hjá Dr. Sigurði Nordal sem var þá sendiherra í Danmörku. Móðir mín var alin upp á heimili Sigurðar svo ég var honum ekki alveg ókunnur. Hann þúaði mig allt kvöldið en þéraði Friðrik. Hann kom út til að kveðja okkur og þegar við vorum að fara þá lyfti hann allt í einu öðrum fætinum og sagði við Friðrik „Ég kann nú ekki beint við að sparka í endann á yður„ en það átti að vera fararheill á næsta mót sem byrjaði skömmu seinna í Esbjerg, Norðurlandamótið sem Friðrik vann og það án þess að fá sparkið í rassinn.
Eftir það mót hittum við Sigurð og fjölskyldu hans aftur og var farið með okkur í útsýnisferð til Helsingör kastala. Á leiðinni þangað spyr frúin Friðrik hvort honum finnist nú ekki fallegt hérna og hann eitthvað annars hugar segir „Ja það er nú ekki beint hægt að segja að það sé ljótt.“ Það svar átti ekki sérlega vel við frúna en Sigurður skellti upp úr og hló mikið.
Eftir að ég var valinn í liðið fyrir Ólympíumótið í Moskvu 1956 þá var ég eitthvað efins um að ég myndi geta staðið mig nógu vel og barst það í tal við Friðrik. Ég spurði hann hvort hann héldi að ég ætti nokkuð erindi og sennilega vonaðist eftir uppörvandi svari en það sem kom var „Jú ætli það ekki“.
Í Moskvu 1959 átti Friðrik biðskák við Bent Larsen sem leit illa út fyrir Bent. Við Bent vorum góðir kunningjar og oft að grínast. Ég bauð honum hjálp við skákina en hann var fljótur að svara og hróaði upp “Nei nei, ég ætla að vinna hana“.
Hann tapaði samt.
Eitt sinn sem oftar var verið við skák á Vesturgötu 46 – „Hótel Skák“ – og var Jón Þorsteinsson þar og Friðrik ásamt fleirum. Jón stakk þá upp á því við Friðrik að þeir skyldu bara opna lögfræðiskrifstofu saman þegar Friðrik lyki námi. Friðrik var fljótur til svars og sagði
„Ætlarðu að nota nafnið helvískur?“