Töpin fá óeðlilega lítið á mig
Birtist í Morgunblaðinu 13. október 1959. Þá var Áskorendamótið mikla í Júgóslavíu hálfnað.
MARGT hefur verið skrifað og skrafað um [Áskorenda]mótið hér í Júgóslavíu. Flestir fréttamenn hafa reynt að ná víðtölum af keppendum sjálfum,en undirritaður hefur til þessa komið sér hjá að kvabba á kunningjum sínum. Mörgum á Íslandi mun þó leika hugur á að heyra álit keppenda sjálfra á andstæðingum sínum og frétta, hvernig júgóslavnesk blöð skrifa um mótið.
Skal þvi reynt að verða eitthvað við þessum óskum í síðari helmingi mótsins. Fyrst af öllu mun menn fýsa að frétta eitthvað eftir Friðrik sjálfum. Nú er það svo, að ef spyrja ætti Friðrik eitthvað um mótið, væri það líkt og að leita í eigin barm, svo kunnugir erum við orðnir.
Það var því ætlunin að birta hér viðtal, sem fréttamaður blaðsins Nýja Makedónía átti við Friðrik 29. september, en þar sem blað þetta er gefið út í fjarlægum landshluta, og greinin hefur enn ekki borizt, er þetta er ritað, en skákirnar komnar, sem töfðu þessa grein, þá skal viðtalið rakið eftir minni.
Ætti það að vera hægt, þar sem fréttamaður talaði rússnesku, og undirritaður varð að vera túlkur.
Fréttamaður: „Hefur sá orðrómur við rök að styðjast, að þú gangir ekki heill til leiks að þessu sinni? Vitað er að þú ert ekki sterkur líkamlega, en er einnig um einhvern lasleika að ræða? Og ef svo er ekki, getur þú þá gefið einhverja skýringu á þinni slælegu frammistöðu til þessa?“
Friðrik: „Nei, ég er alveg heill heilsu, en það hefur verið einhver undarlegur sljóleiki yfir mér hér i Bled. Það er eins og mig skorti hörkuna eða sigurviljann, sem ég hafði áður. Mér finnst, að töpin núna fái eitthvað svo lítið á mig, óeðlilega lítið.“
Fréttamaður: „Finnst þér þú hafa minna úthald en áður, ekki hafa nóg úthald fyrir heila skák? Eða hvaða skýringu getur þú gefið á því, sem gerðist í gær þegar þú lékst niður góðu tafli á móti Smyslov?“
Friðrik: „Allir menn þreytast í fimm tíma kappskák, ég held að ég þreytist hvorki meira en aðrir eða meira en áður, en auk þessa sem ég ságði áðan um skort á skýrri hugsun og sigurvilja, þá kom hávaðinn í áhorfendum sérlega illa við mig í gær, við erum ekki vanir slíku á Íslandi en auk þess held ég, að ég hafi ekki vel áttað mig á stöðunni.“
Fréttamaður: „Já, þetta með áhorfendur er atriði sem ekki einungis má komast á prent, heldur á að gera það. Fleiri hafa kvartað yfir þessu sama, það er vitanlega mjög óþægilegt í mikilli tímaþröng, og vonandi að áhorfendur í Zagreb og Belgrad láti sér segjast og verði eitthvað skárri. En hvað getur þú sagt mér um álit þitt á öðrum keppendum, og hvað álitur þú um horf ur þeirra í mótinu? Og loks, hvern telur þú sigurstranglegastan?“
Friðrik: „Mér finnst Keres tefla bezt og vera líklegastur til sigurs. Hann teflir mjög stíft til vinnings, og það ber oftast góðan árangur. Tal teflir einnig mjög hvasst og hefur líka sigurlíkur, en hann skortir þolinmæði, vill vinna of fljótt, þegar hann er kominn með betra, og öryggið því minna.
Petrosjan getur einnig orðið hættulegur, en mér finnst hann vera of ragur, tefla of varlega. Gligoric hefur verið heppinn, mjög heppirin til þessa, en hann hefur ekki teflt vel, sérstaklega tefldi hann illa í byrjun mótsins, en trúað gæti ég, að hann yrði skæður í lokin. Um Smyslov er erfitt að segja hvers vegna hann stendur sig svona illa. Hann virðist taka töpunum jafn létt eins og ég.“
„Nei, mér finnst einmitt alls ekki erfitt að tilnefna ástæðu fyrir frammistöðu Smyslovs,“ grípur fréttamaðurinn inn i brosandi um leið og hann lækkar róminn og lítur að næsta borði. En við borðið er enginn Smyslov, aðeíns rauðhærð stúlka situr á tali við fréttamann.
„Já'“ segir Friðrik. „Ég hugsa að hann sæki sig nú samt, þegar líður á mótið.“
„En hvað um Benkö og Fischer?“ spyr fréttamaður.
„Það hafði nú víst enginn búizt við miklu af þeim, nema kannske Fischer,“ segir Friðrik. „Ég held að Fischer hafi, gert þá skyssu að halda að mótið væri létt. Halda að hann næði háu sæti án fyrirhafnar. Ef til vill er ég hér á sama bát og Fischer, ég mun þó ekki hafa gert mér jafn háar vonir og hann.
Um Benkö er ekkert sérstakt að segja, nema það, að hann er mjög misjafn, það er aldrei að vita við hverju má af honum búast. Stundurn getur hann seiglast, en stundum tapar hann fljótt.“
Þá er röðin komin að þér sjálfum,“ segir fréttamaður, „Hvaða vonir eða áætlanir nefur þú um seinni hluta mótsins?“
„Það er aldrei að vita hvað gerist, fyrr en á hólminn er komið,“segir Friðrik,“ en ég mun verða óánægður með frammistöðu mína, ef ég næ ekki sjötta eða sjöunda sæti.“
Eitthvað meira spjallaði Friðrik og fréttamaður, en þetta mun vera það helzta. Svo kemur annar og fær nýtt viðtal í gegn um tvo túlka, en við látum þetta gott heita að sinni. Eitthvert rúm munu blöðin þurfa fyrir bróðurlegar athugasemdir í tilefni nýrra kosninga.