1978: VIII. Reykjavíkurskákmótið

Þjóðsagnapersónan Walter Browne við gullnám á Íslandi

 

Jóhann Þórir Jónsson skrifar, SKÁK 1. tbl. 1978.

Þau eru vissulega orðin nokkur árin síðan Sverrir Vinur minn Norðfjörð fræddi mig um undramann nokkurn, sem knésetti danskinn við skákborðið á svo hrikalegan hátt, að enn skjálfa þeir suður þar, eflaust. Á sínum tíma sagði ég svo lesendum Skákar frá þessu og flestir biðu afar spenntir eftir frekari fréttum af Walter Browne. Hann var þá ungur og óþekktur víðast hvar, en framganga hans í Danmörku vakti á honum athygli, sem síðan hefur haldist. Marga fýsti að sjá snáðann og svo fór, að hann kom einnig hér, sá og sigraði.

Á margan hátt dregur þessi merkilegi maður athygli manna að sér. Hann getur aldrei verið kyrr eitt augnablik og svo virðist sem hann sé meiriháttar átakaskákmaður líkamlega jafnt sem andlega. Tilburðir Fischers, svo dæmi sé tekið, eru hreinir smámunir hjá því þegar Browne tekst upp. Áhorfendur skemmtu sér vissulega yfir háttarlaginu, en keppendur voru ekki eins ánægðir. Hann hafði truflandi áhrif á alla í kringum sig. En hvað um það, ekki var hægt að hnýta neitt á hann og hann vann mótið sannfærandi þrátt fyrir allt.

Skákstíll Brownes er fullur af lífi og ekki sakaði fyrir áhorfendur, að hann var oft í, að því er virtist, óyfirstíganlegu tímahraki. Sjálfsagt hefur það átt rót sína að rekja til fyrirkomulagsins á mótinu að þessu leyti. Það var nýjung, og að því er virtist, gafst vel.

VIII. Reykjavíkurskákmótið fór fram að hótel Loftleiðum í mjög ákjósanlegum vistarverum. Salarkynnin eru að vísu full smáriðin þegar um stærstu viðburði er að ræða, en þau eru þau langsamlega heppilegustu, sem hér er völ á. Mótið fór fram eins og allir forverar þess, með einni undantekningu. Tímatakmörkin voru frábrugðin því sem áður hefur verið. – Fyrst voru leiknir 30 leikir á 1 klst. og 30 mínútum og síðan 20 leikir á klukkustund. – Þegar hér var komið fór skákin loks í bið.

Hugmyndin að baki þessu var fyrst og fremst sú, að fækka biðskákum og þar með gera mótið eftirsóknarverðara fyrir áhorfendur. Þetta tókst og áhorfendur voru mjög ánægðir með mótið. Mótið var líka um margt meira spennandi en áður hefur verið og þetta timafyrirkomulag á áreiðanlega eftir að eignast fylgjendur víða um heim.

Ekki dró það heldur úr, að nú voru fleiri sterkir og frægir með en nokkru sinni fyrr, og það sem meira var, stórmeistararnir sóttust eftir þátttöku.

Eins og áður getur sigraði Walter Browne á VIII. Reykjavíkurskákmótinu. Í öðru sæti varð ungur breskur stórmeistari, Antony Miles. Hann var frá upphafi mótsins í toppbaráttunni, en varð að láta undan síga fyrir Browne þegar yfir lauk. Miles er ákaflega geðþekkur ungur maður með mikið ljós, hrokkið hár og minnir bara talsvert á gömlu skylminghetjurnar frægu. Skákstíll hans er rólegur á yfirborðinu og honum líkar einkar vel að feta ótroðnar slóðir, enda segist hann ekki leggja mikið upp úr byrjanafræðunum. Hvað um það, Miles sýndi áþreifanlega fram á ágæti sitt og hvers má vænta af honum í framtíðinni.
Eftir 10 umferðir var Larsen enn efstur með 8 vinninga, sem reyndar var aldeilis frábær árangur. Hann hafði tapað í 2. umferð fyrir Friðriki og gert jafntefli í 7. umferð við Ögaard og í 10. umferð við Miles. Þegar hér var komið blandaðist engum hugur um tvímælalausan sigur Larsens. Hann hafði líka eins og hálfs vinnings forskot á næstu menn, sem voru Miles, Browne, Friðrik og Hort. Þrír þeir síðastnefndu unnu allir í 10. umferð.

En ekki fer allt eins og ætlað er. Góðvinur okkar Bent Larsen varð að lúta örlögum sínum. Hann tapaði þremur síðustu skákunum og varð einum vinningi á eftir Browne! – Marga þekki ég sem hafa verið tilbúnir að veðja um hina ótrúlegustu hluti, en enginn þeirra hefði þorað að veðja á þetta niðurlag Larsens. Fram að þessu hafði hann teflt yfirburða vel og engan bilbug á honum að finna. Skákin við Friðrik var listaverk og á einskis mann færi að glíma við Friðrik í slíkum ham.

Satt að segja er ég ekki sáttur við þessa úthlutun örlaganna, en ekki tjáir að deila við yfirvaldið í þessum málum.

Jafnir Larsen að vinningum urðu þeir Friðrik, Hort og Lombardy, en Friðrik reyndar efstur á stigum og því í þriðja sæti. Friðrik tefldi af miklu öryggi í þessu móti og var sá eini, sem ekki tapaði skák.

Hitt er svo annað mál, að 10 jafntefli telja margir ótrúlega niðurstöðu hjá manni með jafn litríkan og hvassan skákstíl og Friðrik hefur. Frábær árangur samt.

Lombardy fór hægt af stað, hafði aðeins fjóra vinninga og biðskák eftir 9 umferðir, en endaspretturinn var drjúgur og sjálfsagt á endataflskennslutíminn, sem hann veitti Browne, eftir að komast í kennslubækur.

Hort tefldi af sínum alkunna þunga, en tapaði tveimur skákum, fyrir Larsen og sem honum þótti öllu lakara, Browne. Höfðu þeir kapparnir strítt sex sinnum áður og Hort ávallt sigrað. Sú prósenta hefur þó eflaust verið orðin nokkuð há og því hlaut að koma að þessu.

Polugaevsky hlaut 7 1/2 vinning, en óneitanlega bjóst maður við meiru af þessum víðfræga vígamanni, og það sem útyfir tók var þó taflmennskan. Oftast þróttlaus og steinrunnin. Þetta var leiðinlegt, því að allir sem til þekkja vita að Polu getur teflt ákaflega skemmtilega og vinnur margar skákir.

Kuzmin var nokkuð óskrifað blað. Að vísu höfðum við fregnir af ágætri frammistöðu hans undanfarið í Sovét, en flestir létu sér fátt um finnast þegar hingað var komið. Þetta er þó hinn geðþekkasti maður og minnti mig gjarnan á Jón Kristinsson í framgangi. Smejkal var ekki heldur svipur hjá sjón nema þá í skákinni við Larsen. Að jafnaði er Smejkal þó líflegur skákmaður.

Aðrir keppendur fengu minna og fór frekar lítið fyrir þeim að þessu sinni. Nú, einhverjir verða víst að fylla þennan hluta töflunnar og þótt svona færi að þessu sinni er enginn kominn til þess að segja, að sagan endurtaki sig. Helgi, Margeir og Jón L. tefldu margar skákirnar vel og fengu minna en efni stóðu til. Helgi vann að vísu enga skák, en var oft nærri því. Margeir felldi trölla sjálfan og Larsen vissi reyndar ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar upp var staðið. Eftir skákina kvisaðist það út, að Larsen hefði sagt áður í mótinu að Margeir væri sá efnilegasti hér um slóðir. Margeir var þá auðvitað ekki í vandræðum með að þakka honum hrósið. – Jón L. tefldi undir meiri pressu en hinir, nýorðinn heimsmeistari.

J. Þ.

1978: VIII. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1978_VII-Reykjavikurskakmotid-tafla

Vinningshlutall 62%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu