1982: X. Reykjavíkurskákmótið

Lev Alburt frá Bandaríkjunum sigraði á Reykjavíkurskákmótinu, sem nú var opið í fyrsta skipti, hlaut 8,5 vinning af 11 mögulegum. Bosko Abramovic frá Júgóslavíu hlaut 8 vinninga og Dmitry Gurevic frá Bandaríkjunum 7,5. Guðmundur Sigurjónsson varð efstur Íslendinga, hlaut 7 vinninga og varð í 4.-11. sæti. Friðrik tefldi nú í fyrsta sinn á stórmóti í þrjú ár og varð að gera sér 5 vinninga að góðu og hafnaði í 33.-39. sæti af  54 keppendum. Hér á eftir fer viðtal Morgunblaðsins við Friðrik í mótslok, 23. febrúar. Viðtalið tók Hallur Hallsson.

,,Það var skemmtileg nýbreytni að hafa Reykjavíkurmótið opið og ég hef trú á, að svo verði í framtíðinni,“ sagði Friðrik Ólafsson forseti FIDE í samtali við Morgunblaðið. ,,Opin mót ná til fleiri, gefa ungum skákmönnum, sem eiga framtíðina fyrir sér, tækifæri til að tefla við sér eldri og reyndari menn. Þannig ná opin mót til fleiri og mér fannst Reykjavíkurmótið takast í alla staði vel. Hitt er svo að Kjarvalstaðir eru ekki í alla staði heppilegir til keppnishalds af þessu tagi, þar sem samankomnir eru svo margir keppendur.“

Hvað viltu segja um taflmennskuna í mótinu?

,,Það er ljóst, að menn riðu misjafnlega feitum hesti frá mótinu. Þeir Alburt, Abramovic og Gurevic tefldu að mínu mati skarpast og best og uppskáru laun erfiðis síns.“

Hvað um frammistöðu Íslendinganna?

,,Okkur tókst ekki að láta verulega að okkur kveða. Guðmundur Sigurjónsson stóð fyrir því að verja heiður landans og er greinilegt að hann er að komast í sitt gamla form og það er ánægjulegt, eftir þá lægð sem hann hefur verið í. Þá stóðu þeir Sævar Bjarnason og Jóhann Hjartarson sig nokkuð vel.“

Alþjóðlegu meistararnir okkar stóðu sig ekki eins og vonir stóðu til.

,,Já, menn bundu vonir sínar við að þeir yrðu ofar. En ekki má líta framhjá þeirri staðreynd, að mótið var vel skipað og mikið þurfti til að skila þokkalegum árangri. Að tefla á svona móti krefst jafnaðargeðs og að menn séu vel undirbúnir, líkamlega og andlega og síst fræðilega. Menn verða að halda jafnaðargeði sínu, þó á móti blási. Þeir verða að vera fastir fyrir og taka ekki of mikla áhættu. Mótið var vel skipað og munur á efstu og neðstu mönnum nú er ekki eins mikill og á árum áður. Þess vegna er erfitt að fara áfallalaust í gegnum svona mót og því ríður á að halda striki þó móti blási. Til að slíkt megi verða, verður undirbúningur að vera í góðu lagi.“

Frammistaða þín olli miklum vonbrigðum.

,,Út frá skynsemissjónarmiði þá er það stór spurning, hvort menn gera sjálfum sér og öðrum greiða með því að mæta til leiks undirbúningslausir, þá á ég við þessa þrjá þætti, líkamlegan, andlegan og fræðilegan undirbúning. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Ég hef ekki teflt á nema einu stóru móti síðan 1978, þá í  Buenos Aires 1980. Þetta veldur öryggisleysi við skákborðið; það er svipað og að fara ólesinn í próf.“

1982: X. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1982 Reykjavíkurmót - tafla - fyrri hluti

Vinningshlutall 45%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu