1976: VII. Reykjavíkurskákmótið

Friðrik Ólafsson og Jan Timman urðu efstir og jafnir á Reykjavíkurskákmótinu, en íslenski stórmeistarinn var hærri á stigum. Dagblaðið Tíminn fjallaði um mótið 16. september 1976 og ræddi stuttlega við sigurvegarana. Umfjöllun Tímans fer hér á eftir.

Stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Jan Timman urðu efstir og jafnir á VII. alþjóðlega Reykjavíkurmótinu, sem lauk í gærmorgun, þegar biðskákir 15. og síðustu umferðar voru tefldar. Þá vann Friðrik biðskák sína móti Inga [R. Jóhannssyni] og kom það nokkuð á óvart. Biðleikur Friðriks mun þó hafa verið mjög góður. Með þessum árangri hefur hann enn einu sinni sýnt snilli sína við skákborðið og óskar Tíminn honum til hamingju með árangurinn.

Öðrum biðskákum lauk þannig, að Tukmakov tókst að halda jafntefli móti Helga [Ólafssyni] með þráskák. Þar með hafnaði Tukmakov í 3.-4. sæti ásamt Najdorf og rættist því spá Tímans um úrslit mótsins, en fyrir nokkru var búið að spá þessum úrslitum á síðum blaðsins.

Þá tókst Westerinen að halda jafntefli á móti Birni Þorsteinssyni, en Björn hafði betri stöðu áður en skákin var sett í boð.

Eins og sést á töflunni á þessari síðu, eru þeir Friðrik og Timman efstir og jafnir með 11 vinninga. Friðrik hefur hins vegar mun hærri stigatölu.

Árangur Guðmundar [Sigurjónssonar] var ekki eins góður og margir höfðu búist við áður en mótið hofst. Þess ber þó að gæta, Guðmundur reyndi sitt besta með því að tefla til vinnings móti Timman, en hætti sér of langt og tapaði.

Árangur Inga R. er honum og öllum til mikils sóma. Ingi hefur teflt mjög lítið að undanförnu og er því árangur hans enn betri fyrir vikið.

Björn Þorsteinsson varð hæstur af titilslausu Íslendingunum. Hann byrjaði mótið illa, enda tefldi hann við erfiða menn í fyrstu umferðunum. Þá hefur það ekki svo lítið að segja, að hann fékk mjög margar biðskákir til að byrja með, og það hefur sennilega komið niður á taflmennskunni, því að Björn mun hafa unnið fulla vinnu með mótinu. Það má því segja að árangur hans sé til mikils sóma. Athyglisvert er að hann gerir jafntefli við Timman, Najdorf, Antoshin og Westerinen, sem allir eru stórmeistarar. Auk þess vann hann svo Vukevich.

Helgi brást vonum margra, en hann stóð sig samt með prýði og hefði vel getað unnið bæði Najdorf og Tukmakov. Auk þess átti hann vinningstöðu gegn Gunnari Gunnarssyni, en missti hana niður í jafntefli. Það hefur örugglega haft sín áhrif á taflmennskuna síðar í mótinu.

Margeir má vera ánægður með sinn hlut, eins og reyndar kemur fram í viðtalinu við Timman, en það er annars staðar hér á blaðsíðunni.

Af útlendu keppendunum er að helst að segja, að góð frammistaða Najdorfs er öllum til ánægju. Keene fékk svipaða vinningatölu og menn höfðu búist við, en Westerinen hefur oft staðið sig betur. Salvatore Matera vann alþjóðlegan meistaratitil á mótinu, eins og kom fram í Tímanum í gær.

Jan Timman: Ég kvarta ekki!

Jú, þetta var mjög erfitt mót, sagði Jan Timman í stuttu samtali við blaðamann Tímans í gærdag, og ég get ekki sagt annað en ég sé ánægður með úrslitin. Ég kvarta að minnsta kosti ekki.
Eins og fram hefur komið í fréttum, var Timman annar hinna tveggja sigurvegara mótsins. Um leið og Tíminn óskaði hinum unga hollenska stórmeistara til hamingju með árangurinn, spurðum við hann um álit hans á íslensku keppendunum.

,,Ólafsson (Friðrik) og Sigurjónsson (Guðmundur) eru auðvitað skákmenn á heimsmælikvarða og Jóhannsson (Ingi R.) er mjög öruggur skákmaður og alveg ótrúlega góður, ef tillit er tekið til, hve lítið hann hefur teflt að undanförnu. Margeir Pétursson á framtíðina fyrir sér. Hann er mög þolinmóður og gefst aldrei upp þótt á móti blási, sem er sjaldgæft meðal svo ungra skákmanna. Og hann þarf ekki að kvarta undan árangri sínum í  þessu móti — fyrsta sterka mótinu, sem hann tekur þátt í.“

Hvaða skák fannst þér þú tefla best í mótinu?

,,Því er erfitt að svara. Þær voru nokkrar athyglisverðar, eins og t.d. skákin við Margeir.“

Frá Íslandi heldur Timman á laugardaginn, en næsta mót, sem hann tekur þátt í, er Ólympíuskákmótið í Ísrael, en þar teflir Timman á fyrsta borði fyrir hollensku sveitina.

Friðrik: Mjög ánægður með þetta mót

,,Jú, því er ekki að neita, að ég er mjög ánægður með þetta mót,“ sagði Friðrik Ólafsson, stórmeistari, í gærkvöldi við blaðamann Tímans skömmu áður en verðlaunaafhending fór fram í hófi, sem Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra hélt fyrir keppendur og aðstandendur mótsins í Ráðherrabústaðnum.

,,Þetta var erfitt mót og þá sérstaklega lokaspretturinn, en í honum var Vukevich svo vinsamlegur að taka hálfan vinning af Timman.“

Hvaða skák telur þú vera þá best tefldu af þinni hálfu í þessu móti?

,,Þær voru nokkrar, sem voru ágætar, en mér dettur fyrst og fremst í hug skákirnar við þá Keene og Najdorf, sem báðar voru skemmtilegar.

Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

,,Ég tek þátt í móti í Júgóslavíu, sem hefst 29. september, svo ég verð varla búinn að ná mér eftir þetta, þegar það hefst,“ sagði Friðrik að lokum.

1976: VII. Reykjavíkurskákmótið

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1976 Reykjavíkurmótið - tafla

Vinningshlutall 73%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu