1981: X. Helgarskákmótið í Grímsey

Jóhann Örn Sigurjónsson skrifar. Vísir 2. júlí 1981.

Sú var tíðin, að teflt var í Grímsey linnulaust á dimmum löngum vetrarkvöldum. Lengi vel mátti heita, að einasta skemmtan eyjaskeggja væri manntaflið. Um 1900 voru Grímseyingar 76 talsins og 19 þeirra taldir góðir skákmenn, eða 25% af íbúatölunni. Á þeim tíma var þetta talið hæsta hlutfall í heiminum.

Einkenni á skákmönnum í Grímsey var hversu fljótir þeir voru að leika, og jafnan þóttu skákmenn ofan af landi fara halloka í samskiptum við Grímseyinga á skáksviðinu.

En nú er öldin önnur. Einu merki um skákstyrk eyjaskeggja eru að finna á safninu í Grímsey, þar sem gamlar skákbækur og skákrit vitna um forna frægð. Fremstu skákmenn þjóðarinnar koma ekki lengur frá  Grímsey. Dæmið hefur snúist við og um síðustu helgi voru það fremstu skákmenn þjóðarinnar sem fóru til Grímseyjar.

10. helgarskákmótið var haldið í þessu forna höfuðbóli skáklistarinnar og þótti vel við hæfi. 44 skákmenn sóttu Grímseyinga heim og áttu einstæða helgi norður við heimskautsbaug.

En lítum á röð efstu manna:

1. Friðrik Ólafsson 5 vinningar af 6

2. Jón L. Árnason 5

3. Helgi Ólafsson 4,5

4. Gunnar Gunnarsson 4,5

5. Guðmundur Sigurjónsson 4,5

6. GuðmundurPálmason 4,5

Friðrik vann 3 fyrstu skákir sínar, gegn Heimi Bessasyni, Ásmundi Ásgeirssyni og Hilmari Karlssyni. Í 4. umferð gerði hann jafntefli við Jóhann Hjartarson, vann Helga Ólafsson í  5. umferð og gerði jafntefli við Jón L. í síðustu umferðinni.

Jón L. vann Jóhann Snorrason í l. umferð, gerði jafntefli við Óla Valdimarsson í 2. umferð, vann síðan Birgi Örn Steingrímsson, Ásgeir Þ . Árnason og Jóhann Hjartarson, en gerði síðan jafntefli við Friðrik eins og fyrr sagði.

Helgi Ólafsson vann f jórar fyrstu skákir sínar, gegn Hrannari Jónssyni, Sigurlaugu Friðþjófsdóttur, Jóhanni Ragnarssyni og Gunnari Gunnarssyni, tapaði síðan fyrir Friðriki og gerði jafntefli við Guðmund Sigurjónsson i 6. umferð.

Gunnar Gunnarsson vann Jón Úlfljótsson í l. umferð, Einar Karlsson í 2. umferð og Guðmund Sigurjónsson í þeirri 3. Þá kom tapið gegn Helga í 4. umferð, vinningur gegn Ólöfu Þráinsdóttur í 5 . umferð og jafntefli gegn Jóhanni Hjartarsyni í 6. umferð.

Guðmundur Pálmason hefur ekki sést á opinberum mótum lengi. Hann tapaði aðeins 1 skák og þótti sýna sitthvað af þeim eiginleikum, sem gerðu hann einn fremsta skákmann þjóðarinnar hér áður fyrr.

Gamall vopnabróðir, Jón Einarsson, kom nú aftur fram á sjónarsviðið eftir 25 ára hlé og slapp taplaus í gegn.

Árangur Ásmundar Ásgeirssonar, sem nú er 75 ára gamall, er stórkostlegur. Ásmundur tapaði aðeins 1 skák, gegn Friðriki.

Gunnar Gunnarsson var sekúndubrotum frá því að deila efsta sætinu með Friðriki og Jóni L. Í lokaumferðinni hafði Jóhann Hjartarson kónginn einan eftir og mát í aðsigi, er fallvísirinn breytti vinning í jafntefli.

Í stigakeppni síðustu 5 móta varð Helgi Ólafsson stigahæstur með 69 stig, rétt á undan Jóni L. sem hafði 67.

Menntamálaráðuneytið styrkti mótið með kr.10.000  framlagi og veðurguðirnir skörtuðu sínu fegursta. Einstök veðurblíða hefur reyndar sett mark sitt á öll helgarskákmótin til þessa og hefur verið haft að orði, að vilji bæjarfélög tryggja sér gott veður, sé ekki annað en halda helgarskákmót.

Í mótslok voru haldnar margar ræður. Friðrik Ólafsson gaf Grímseyingum skákklukku og fylgir henni sú kvöð, að hún verði notuð, en ekki látin rykfalla á safni.

Þáttur Jóhanns Þ. Jónssonar var mjög rómaður, og sögðu sumir að hér hefðum við eignast okkar Fiske, slíku Grettistaki hefði Jóhann lyft í skákmálum þjóðarinnar.

 

1981: 10. Helgarskákmótið í Grímsey

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1980_Helgarskakmotid-Borgarnesi_tafla

Vinningshlutall 83%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu