1986: Norðurlönd vs Bandaríkin

Hnífjafnt eftir spennandi keppni

Jón L. Árnason skrifar.

Forseti Íslands, menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík voru meðal gesta við upphaf Visa-landskeppninnar milli úrvalsliða Norðurlanda og Bandaríkjanna sem háð var í Menntaskólanum við Hamrahlíð um helgina. Eftir að kór skólans hafði sungið nokkur lög setti Einar S. Einarsson keppnina og Þröstur Árnason, nýbakaður Skákmeistari Reykjavíkur, lék fyrsta leikinn fyrir Bandaríkjamanninn Seirawan gegn Ulf Andersson frá Svíþjóð.

Teflt var á 12 borðum, tvöföld umferð og flestar skákanna voru þrungnar baráttu. Eftir fyrri keppnisdaginn hafði sveit Norðurlanda einum vinningi betur en Bandaríkjamönnum tókst að minnka muninn seinni daginn og liðin skildu að lokum hnífjöfn, 12-12.

Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína í Hamrahlíðarskóla til þess að fylgjast með meisturunum að tafli og var mál manna að keppnin hefði verið hin skemmtilegasta. Lítum nánar á úrslit á einstökum borðum og gang skákanna.

 

Fyrri umferð

1 Yasser Seirawan jafnt Ulf Anderson
2 Lubomir Kavalek jafnt Bent Larsen
3 Larry Christiansen 0-1 Helgi Ólafsson
4 Joel Benjamin 0-1 Simen Agdestein
5 Maxim Dlugy jafnt Margeir Pétursson
6 Lev Alburt jafnt Curt Hansen
7 Walter Browne 1-0 Jóhann Hjartarsson
8 Robert Byrne jafnt Jón L. Árnason
9 Ron Henley jafnt Karsten Rasmussen
10 John Fedorowicz 1-0 Guðmundur Sigurjónsson
11 Boris Kogan 0-1 Harry Schussler
12 William Lombardy jafnt Jouni Yrjöla

 

Spennandi umferð og mikil barátta í skákunum nema e.t.v. þeirri sem fyrst var lokið, milli Byrne og Jóns L. Árnasonar. Byrne, margreyndur í Sikileyjarvörninni, jafnaði taflið næsta auðveldlega og var hér um bil kominn með frumkvæðið.

Á 1. borði þjarmaði Ulf Andersson, aðstoðarmaður og þjálfari Seirawans, að lærlingnum og hafði greinilega unun af því að reyna að kreista fram vinning úr fremur lífvana stöðu. Sat við borðið sem fastast en varð þó á endanum að sættast á jafntefli.

Þá var Bent Larsen hætt kominn gegn Kavalek í „vitlausri skák“, að því er Larsen sagði sjálfur. Helgi, Agdestein hinn norski og Svíinn Schüssler lögðu grunninn að sigri norðanmanna en tveir Íslendinganna máttu sætta sig við tap. Guðmundur hafði prýðilega stöðu gegn Fedorowicz en braust fram á röngu augnabliki á kóngsvængnum í stað þess að beina spjótum sínum að hinum helmingi skákborðsins, að því er gáfumenn töldu.

Jóhann lenti hins vegar í ógöngum gegn Browne en í tímahrakinu hefði allt getað gerst – þeir höfðu hvor aðeins um 5 mínútur á síðustu 20 leikina. Browne engdist sundur og saman eins og hans er vani og vakti kátínu þeirra sem til sáu. Jóhann hafði hugann kannski fullmikið við andstæðinginn, sem oft hefur orðið honum til ama við skákborðið. Svo fór að hann lék sig beint í mát.

 

Mannsfórn Helga

Schüssler og Kogan urðu síðastir til að ljúka sinni skák. Schüssler tefldi vandað og vel og krækti sér í peð og síðan annað. Þá hefði Kogan getað gefist upp en hann þráaðist við og hætti ekki fyrr en Schüssler hafði króað drottningu hans inni í horninu.

Norðurlandameistarinn Simen Agdestein og Joel Benjamin, fyrrverandi undrabarn, tefldu þróttmikla og fjöruga skák. Agdestein stýrði beint í flækjur með því að fórna manni fyrir frelsingja tvo samstæða. Annars vakti skákin enga sérstaka athygli áhorfenda fyrr en í lokin er Norðmaðurinn reytti fjaðrirnar af mótherjanum.

En sú skák, sem mest var fylgst með í Hamrahlíðarskóla á laugardag, var milli Helga og Christiansen. Helgi hleypti taflinu upp með mannsfórn í 15. leik og fékk í staðinn dágóð færi. Bandaríkjamaðurinn gaf skiptamun til baka en Helgi hélt eftir sterkum frelsingja og eftir ónákvæmni mótherjans gerði hann laglega út um taflið.

 

Seinni umferð

1 Ulf Anderson jafnt Yasser Seirawan
2 Bent Larsen 0-1 Lubomir Kavalek
3 Helgi Ólafsson jafnt Larry Christiansen
4 Simen Agdestein jafnt Joel Benjamin
5 Margeir Pétursson 0-1 Maxim Dlugy
6 Curt Hansen jafnt Nick de Firmian
7 Jóhann Hjartarsson 0-1 Lev Alburt
8 Jón L. Árnason jafnt Walter Browne
9 Karsten Rasmussen jafnt Robert Byrne
10 Friðrik Ólafsson jafnt Ron Henley
11 Harry Schussler 1-0 John Fedorowicz
12 Jouni Yrjöla 1-0 William Lombardy

 

Nú höfðu Norðurlandabúar hvítt á oddatöluborðum en hvíti liturinn varð ekki sérlega notadrjúgur. Schüssler einum tókst að sigra eftir miklar flækjur í Benóní-vörn Bandaríkjamannsins, sem fórnaði hverjum manninum á fætur öðrumþar til hann gafst upp.

Skák Margeirs varð snemma jafnteflisleg eftir mikil uppskipti en Margeir tefldi kæruleysislega og heimsmeistari unglinga náði af honum peðum og knúði fram sigur. Og Jóhann tapaði aftur, nú fyrir Alburt. Skák þeirra var ein sú skemmtilegasta í seinni umferðinni. Alburt fórnaði liði og náði hættulegum frelsingjum sem Jóhann gætti sín ekki á sem skyldi. Eftir rúma 50 leiki lýsti Jóhann sig sigraðan.

 

Friðrik slapp fyrir horn

Bent Larsen fékk snemma erfiða stöðu gegn Kavalek og sat uppi með fjölmarga peðaveikleika í endatafli. Kavalek tefldi óaðfinnanlega og knúði Danann bjartsýna til uppgjafar. Þeir voru einir eftir uppi á sviði er Larsen lék af sér í hinsta sinn. Þar með höfðu Bandaríkjamenn snúið við blaðinu og náð að jafna metin í keppninni.

Á síðasta borði fór Yrjölá hinn finnski létt með Lombardy en öðrum skákum lauk með jafntefli. Mesta spennan var í skák Friðriks og Henleys. Friðrik lagði of mikið á stöðuna í vinningstilraun og Henley náði yfirhöndinni auk þess sem Friðrik var orðinn knappur á tíma. Á síðustu sekúndunum náði Friðrik að þráskáka og bjarga sér fyrir horn.

Þóttust áhorfendur þar greina „gömlu Friðriks-taktana“. Hann er greinilega enn fimur í fingrunum þrátt fyrir æfingaleysi.

Keppninni var slitið í gærkvöldi með boði menntamálaráðherra, Sverris Hermannssonar. Framkvæmd keppninnar var öll til fyrirmyndar undir öruggri stjórn Einars S. Einarssonar. Auk hans unnu Högni Torfason, Ólafur Ásgrímsson, Þorsteinn Þorsteinsson og Þráinn Guðmundsson að undirbúningi hennar.

DV 10. febrúar 1986

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu