1950: Skákþing Norðurlanda – Meistaraflokkur

 Skákþing Norðurlanda 1950

Stórfenglegur sigur íslenzkra skákmanna

SKÁKRITIÐ 2. tbl. 1950.

Skákþing Norðurlanda fyrir árið 1950 var háð í Reykjavík 28. júlí – 11 ágúst sl. Hinir erlendu þátttakendur, alls 15 að tölu, komu til Íslands með Gullfossi um hádegisbil 27. júlí, og var tekið á móti þeim af sérstakri móttökunefnd, sem skipuð var af Skáksambandi Íslands, en í henni áttu sæti þeir Árni Snævarr, forseti Skáksambands Norðurlanda og Íslands, Elís Ó. Guðmundsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands og Guðmundur Arnlaugsson, ritari Skáksambands Norðurlanda.

Var gestunum fylgt til bústaðar síns, er þeir dvöldu á meðan mótið stóð yfir, en það var Gamli Stúdentagarðurinn (Hótel Garður) í Reykjavík. Daginn eftir, 28. júlí kl. 4 e. h., fór fram sameiginleg kaffidrykkja allra keppenda, hinna erlendu og íslenzku, á „Garði“. Var þá dregið í öllum flokkum.

Klukkan 7 e. h. var síðan mótið  sett í nýju Þjóðminjasafnsbyggingunni í Reykjavík, en þar fór allt mótið fram. Árni Snævarr setti mótið með stuttri ræðu og bauð keppendur velkomna til mótsins, sér í lagi hina erlendu.

Viðstaddir setninguna voru, auk keppenda fjöldi áhorfenda og fréttamenn útvarps og blaða. Kl. 7.30 hófst síðan keppnin. Stjórn mótsins skipuðu þeir Árni Snævarr, Guðmundur Arnlaugsson, Elís Ó. Guðmundsson og Pétur Sigurðsson, sem var skákstjóri. Tímamarkið var 40 leikir á 2 1/2 klukkustund og úr því 16 leikir á klukkustund.

Eins og áður var nefnt, voru erlendu þátttakendurnir 15 að tölu. Íslenzku þátttakendurnir voru 25 að tölu, þannig að þátttakendur í mótinu urðu alls 40, og skiptust þeir í þrjá flokka; landsliðsflokk, meistaraflokk og I. flokk.

Í landsliðsflokki voru 10 þátttakendur, 4 frá Íslandi, 2 frá Danmörku, 2 frá Noregi og 2 frá Svíþjóð. Í meistaraflokki voru keppendur einnig 10, þar af 7 frá Íslandi, 1 frá Danmörku, 1 frá Svíþjóð og 1 frá Finnlandi.

Í fyrsta flokki voru 20 þátttakendur, og var hann tvískiptur með 10 þátttakendur í hvorum flokki.  Í I. flokki A tefldu 7 Íslendingar, 1 Dani, 1 Norðmaður og 1 Svíi, og í 1. flokki B 7 íslendingar, 2 Danir  og 1 Svíi.

Miklum vonbrigðum olli það íslenzkum skákmönnum, að þeir sænski meistarinn Gösta Stoltz og finnski meistarinn Eero Böök voru þess ekki megnugir að koma hingað, sem þó hafði fastlega verið ráðgert. Hefði það gert mót þetta ennþá glæsilegra, að geta skartað slíkum snillingum sem þeim, en af þessu gat því miður eigi orðið, og er blaðinu ekki kunnugt um orsakir þess.

En hvað um það. Hingað var kominn fjöldi ágætra skákmanna frá bræðralöndum vorum, sem líklegir voru til að veita okkar snjalla liði það harða keppni, að tvísýnt yrði um úrslit, sem og varð.

Frá byrjun og til loka mótsins gætti eðlilega mikils „spennings“ meðal íslenzkra skákáhugamanna um úrslit mótsins og þá einkanlega í landsliðsflokki, þar sem Baldur Möller átti hinn glæsilega titil „Skákmeistari Norðurlanda“ að verja.

Það var metnaðarmál íslenzkra skákmanna, að sá titill yrði ekki látinn af hendi fyrr en í fulla hnefana. Í kvíðablandinni eftirvæntingu spurði maður mann: „Heldur þú, að Baldri takist að halda titlinum“. Og svörin voru margvísleg. Þeir bjartsýnustu töldu engin tormerki á því, að svo mundi verða, ef ekkert óhapp henti, aðrir töldu ýmsa hinna erlendu meistara vænlega til sigurs, en fáir munu þó hafa aftekið með öllu, að Baldur kynni að  halda velli.

 

Mótið hefst

 

Þegar í byrjun sýndi Baldur það, að hann hafði einsett sér að leggja sig allan fram og gefa ekkert eftir  án harðrar baráttu. Hann tefldi ákveðið og örugglega upp á vinning í fyrstu skákunum án þess að gefa andstæðingum sínum hættuleg færi.

Taugaspenningur sá, sem grafið hafði um sig meðal margra landa hans hafði augsýnilega látið Baldur ósnortinn. Þess báru skákir hans glöggt vitni. Árangurinn varð glæsilegur. Eftir 4 umferðir hafði hann lagt að velli fjóra andstæðinga, þá Eggert Gilfer, Palle Nielsen (D), Olov Kinmark (S) og Storm Her- seth (N). Þann síðastnefnda vann Baldur á sérstaklega glæsilegan hátt.

Baldur var þannig efstur eftir 4 umferðir með 100%, en næstir honum komu þeir Aage Vestöl (N) og Guðjón M. Sigurðsson með 2 1/2 vinning. Vonir hinna bjartsýnu virtust vera vel á vegi með að rætast.

Í 5. umferð mættust þeir Baldur Möller og Guðmundur Ágústsson. Baldur hafði hvítt og lék Birdsbyrjun, sem er nú fremur fágæt. Báðir keppendur tefldu mjög gætilega og gáfu eigi færi á sér. Er líða tók á skákina, urðu það mikil uppskipti, á mönnum, að frekara áframhald var þýðingarlaust og keppendur sömdu jafntefli.

Í þessari umferð gerði Vestöl einnig jafntefli, við Kinmark, þannig að bilið milli hans og Baldurs hélzt óbreytt, en Guðjón vann Julius Nielsen í fjörugri og viðburðaríkri skák og náði þannig Vestöl og dró 1/2 vinning á Baldur.

Í 6. umferð tapaði svo Baldur sinni fyrstu skák, fyrir Dananum Julius Nielsen. Baldur hafði svart og lék Laskersvörn gegn Drottningarbragði, sem síðar tefldist yfir í Hollenzka vörn. Baldur hóf kóngssókn, sem var engan veginn nógu vel undirbúin og var hrundið af Nielsen á einfaldan en sterkan hátt.

Snerust nú vopnin í höndum Baldurs, og Nielsen náði frumkvæðinu í sínar hendur. Baldur fékk stakt peð á e6,- sem hann lenti í örðugleikum með, staða hans varð æ vonlausari og reyndist óverjandi er á leið.

Á meðan þessu fór fram, vann Guðjón Danann P. Nielsen í viðburðaríkri hörkuskák, og Vestöl vann landa sinn Herseth, og voru þeir nú jafnir þrír, Baldur, Guðjón og Vestöl, með 4,5 vinning hver. Voru nú úrslit mjög tvísýn og „spenningur“ á hástigi.

Í 7. umferð tefldu þeir saman Baldur Möller og Guðjón M. Sigurðsson. Baldur hafði hvítt og lék drottningarpeði, en Guðjón tefldi kóngsindverska vörn.

Baldur beindi einkum liðstyrk sínum að drottningarvæng, tókst að staðsetja riddara á d5 eftir að hann hafði látið drottningarbiskup sinn fyrir svartan riddara á f6. Honum tókst þó ekki að ná neinum úrslitaávinningi, og leiddu stórfelld mannakaup brátt til jafnteflis.

Í 8. umferð mætti Baldur Svíanum Sundberg. Baldur hafði hvítt og lék drottningarpeði, en Sundberg svaraði með Nimzoindverskri vörn.  Snemma í skákinni vann Baldur peð af Sundberg á -a7. Mun Sundberg sennilega hafa talið peðið „eitrað“, en Baldri varð ekkert meint af því.

Svartur virtist hafa allgott spil á kóngsvæng um tíma, en að lokum heppnaðist hvítum að loka kóngsbiskup svarts inni á h8 með peðakeðjunni „h4, g5, f6. Urðu síðan aðalátökin á miðborðinu; svartur tapaði þar öðru peði, og síðan sprengdi hvítur upp með e6 og náði mátárás.

Guðjón hafði hvítt gegn Kinmark og lék spánska leikinn. Kinnmark hóf grimmilega kóngssókn, sem Guðjón eyddi með laglegri „kombination“ og hafði eftir það frumkvæðið. Kom upp hróks- og riddaraendatafl, þar sem Guðjón hafði tvö peð yfir, en tókst þó eigi að vinna.

Vestöl hafði svart gegn P. Nielsen og lék Sikileyjarvörn gegn kóngspeði. Hann náði snemma frumkvæðinu og óð fram með miðpeðin, sem virtust óstöðvandi. Honum tókst að koma völduðu frípeði allt til e3, vann peð og virtist eiga unna stöðu, en fórst nýting hennar óhönduglega; hvíta drottingin brauzt inn í víglínu hans, drap tvö peð, og jafnaðist nú taflið og varð brátt j aftefli.

Eftir 8. umferð hafði Baldur því aftur einn, forustuna með 6 vinninga, en í 2. og 3. sæti komu þeir Vestöl og Guðjón með 5,5  vinning hvor. Þriðji Íslendingurinn, Guðmundur Ágússtsson, var nú kominn í 4. sæti með 4,5 v. Guðmundur fór illa af stað, var með 1,5 vinning eftir. 4 umferðir, en fór síðan að síga á. Slíkur háttur er Guðmundi ekki ótamur í skákmótum.

 

Dregur til úrslita

 

Þannig var þá staðan, er síðasta umferð hófst. Af hinum þremur efstu höfðu allir möguleika til sigurs, þótt Baldur stæði bezt að vígi, þar eð hann var ½ vinning ofar en hinir tveir.

Hinsvegar átti hann Vestöl eftir, og var því sú skák raunverulega úrslitaskák um efsta sætið, að því tilskildu, að Guðjón hafði einnig möguleika á efsta sæti, nema því aðeins, að Baldur ynni.

1950_Aage-VestolÍ síðustu umferð hafði Baldur svart gegn Vestöl og tefldi franska vörn gegn kóngspeðsbyrjun (Mac-Cutheon afbrigðið).

Í þessu afbrigði er aðalgangur átakanna venjulegast sá, að hvítur sækir á kóngsvæng, en svartur á drottningarvæng. Sú varð og raunin í þessari skák. Vestöl hóf skjótt kóngssókn, lék kóngshrók sínum til h3 og fórnaði kóngsbiskup sínum á g6.

Baldur rasaði að sjálfsögðu ekki um ráð fram og hafnaði fórninni, enda hefði hann á annan hátt tapað hrók og staða hans molast. Vestöl hélt enn frumkvæðinu um tíma, lagði kænlegar gildrur, sem Baldur vippaði sér fimlega yfir, og kom að lokum fram  hróksendatafl, sem var heldur betra hjá Baldri.

Með nákvæmri taflmennsku hefði þó Vestöl sennilega haldið skákinni, en Baldur tefldi sterkt, enda ræður hann yfir mikilli leikni í endatafli.

Fór svo að lokum, að síga tók á ógæfuhlið fyrir Vestöl, en einmitt þegar staða Baldurs var auðunnin, gaf hann Vestöl færi á að ná jafntefli vegna pattstöðu kóngs síns, en Vestöl láðist að notfæra sér þetta síðasta tækifæri og varð brátt að gefast upp. – Baldur Möller var enn skákmeistari Norðurlanda.

Guðjón hafði svart gegn Súndberg í síðustu umferð, og lék Sundberg Collebyrjun. Guðjóni tókst að sundra peðastöðu hans á kóngsvæng með Bxf3 í  stöðu, þar sem Sundberg var neyddur til að drepa með g-peðinu.

Eftir það fór að síga á ógæfuhlið fyrir Sundberg. Kom loks fram endatafl, þar sem Guðjón hafði hrók og riddara gegn hrók og biskup. Guðjón gat komið hrók sínum upp á aðra reitalínuna og setti á biskup á c2, en svo ólánleg var staða Sundbergs, að ef hann hreyfði biskupinn, þá skákaði Guðjón hrókinn af með riddara og vann skiptamun.

Sundberg kjöri að gefa manninn, en eftir það var áframhaldið auðvitað vonlaust. – Guðmundur Ágústsson tapaði gegn P. Nielsen, en varð þó nr. 4.

Endanleg vinningatala fjögurra efstu manna varð því þessi:

1950_nordurlandamot_landslidsflokkur

 

Baldur Möller Skákmeistari Norðurlanda

 

1950_Gudjon-M-SigurdssonBalduri Möller hefur með þessum glæsilega sigri sínum undirstrikað það álit velflestra þeirra, er málum eru kunnugir, að hann sé nú jafnsterkasti skákmaður hérlendis.

Stíll hans er fjölbreytilegur og margþættur og erfitt að draga upp heildarmynd af honum. Baldur er fyrst og fremst hinn rökvísi skákmaður, sem leggur ekki út í annað en það, sem skynsamleg og róleg yfirvegun segir honum, að sé vænlegast til árangurs.

Hann býr yfir næmum og þrautþjálfuðum stöðumatshæfileikum samfara glöggri yfirsýn yfir „kombinationiska“ möguleika. Opnar og lífmiklar árásarstöður eru ef til vill bezti vettvangur Baldurs á skákborðinu, en lokaðar „þumbara- stöður“ teflir hann einnig að jafnaði ágæta vel.

Það verður að teljast ónauðsýnlegt að rekja hér ævi og afrekaferil Baldurs, því að hann mun flestum þeim kunnur, sem fylgzt hafa ,með skák að undanförnu. Skákferill hans má heita ein sigraröð á innlendum sem erlendum vettvangi.

Að vísu hefur hann stundum orðið að lúta í lægra haldi og mætt sér snjallari keppinautum. En Baldur býr yfir þeim eiginleika í ríkum mæli, að viðurkenna ósigra sína og draga af þeim þann lærdóm, sem dreginn verður. Slíkt hefur verið og er aðalsmerki sterkustu skákmanna.

Þeim, sem kunnugir eru Baldri, ber þó saman um, að hæfileikar hans sem skákmanns hverfi í skuggann fyrir persónulegum mannkostum hans. En þá hlið málsins telur SKÁKRITID eigi hlutverk sitt að fjölyrða um. SKÁKRITID óskar Baldri til hamingju með þann heiður, er hann hefur unnið sér og þjóð sinni með þessum sigri.

Hver Íslendingur stendur í þakkarskuld við hann sem og aðra þá íslenzku skákmenn, sem unnu að hinum glæsilega sigri Íslendinga.

Óhætt er að færa Guðjóni M. Sigurðssyni hamingjuóskir í tilefni af frammistöðu hans á þessu móti. Margir töldu Guðjón fullungan og reynslulítinn til að verða verulega liðtækan í hinni hörðu baráttu  í landsliðsflokki.

Þeir voru þó margir, er töldu, að hinir ágætu hæfileikar Guðjóns ásamt dirfsku og hugkvæmni hans mundu vega upp á móti því, er hann skorti á í reynslu við keppinauta sína. Sú varð og raunin.

 

1950_nordurlandamot_landslidsflokkur-umferd

 

Úrslit í öðrum flokkum

 

1950_Fridrik-OlafssonÍ meistaraflokki gerðust þau tíðindi, að 15 ára íslenzkur drengur, Friðrik Ólafsson, bar sigur af hólmi, hlaut 6,5 vinning af 9 mögulegum, tapaði engri skák.

Það er að vísu óþarft að tala svo ókunnuglega um Friðrik, þar eð hann mun flestum landsmönnum kunnur sem hartnær „undrabarn“ á sviði skákarinnar.
Skákþroski hans er ótrúlegur, og mun hann nú þegar standa í röðum okkar allra fremstu skákmanna. Einkum býr hann yfir miklum „kombinations“ hæfileikum, og slær hann oft andstæðing sinn til jarðar í leifturárás á veikar hliðar stöðu hans.

Með þessum sigri sínum hefur Friðrik unnið titilinn „Norrænn skákmeistari“, og mun honum verða boðin þátttaka í næstu landsliðskeppni. SKÁKRITID færir honum hamingjuóskir í tilefni af þessum glæsilega sigri.

Nr. 2-3 urðu Íslendingurinn Áki Pétursson og Svíinn Nihlén með 5 ½ vinning hvor. Hlutu Íslendingarnir þannig 2 af 3 efstu sætunum í þessum flokki.

 

1950_nordurlandamot_meistaraflokkur

 

Í I. flokki A færðu þeir Birgir Sigurðsson og Þórir Ólafsson Íslendingum sigurinn. Frá byrjun töldu flestir Þóri Ólafsson, sem er vel þjálfaður meistaraflokksmaður og einn efnilegasti yngri skákmanna okkar, líklegastan til sigurs.

Hann vann líka 5 fyrstu skákirnar og virtist óstöðvandi, er hann tapaði fyrir landa sínum Birgi Sigurðssyni í 6. umferð. Birgir er einnig hinn efnilegasti skákmaður.

Héldust þeir síðan því sem næst í hendur til loka mótsins. Þóri tókst að vísu að ná aftur forustunni eftir tapið gegn Birgi, en metin jöfnuðust í síðustu umferð, er Þórir tapaði fyrir Dananum Larsen, meðan Birgir gerði jafntefli við Ásgeir Þór Ásgeirsson. Þórir Ólafsson var eini maður mótsins, sem ekkert jafntefli gerði.

Þriðja sætið hlaut Jón Pálsson, sem er í hópi hinna mörgu ungu skákstjarna okkar. Nr. 4-5 urðu þeir Jón Kristjánsson, skákmeistari Hafnarfjarðar og Daninn Öjvind Larsen, og hlutu Íslendingar þannig 4 af 5 efstu sætunum í þessum flokki.

 

1950_nordurlandamot_I-flokkur-A

 

Í I. flokki B. var baráttan um efsta sætið lengi tvísýn, en að lokum hreppti Íslendingurinn Ólafur Einasson efsta sætið, hlaut 6½ v. Ólafur sýndi mikið baráttuþrek í þessari keppni og mun þetta bezti  árangur Ólafs til þessa. Nr. 2-3 urðu þeir Haukur Kristjánsson, Hafnarfirði, og P. Larsen, Danmörku.

Íslendingar báru þannig sigur af hólmi í öllum flokkum.

 

1950_nordurlandamot_I-flokkur-B

 

Ásmundur skýtur upp kollinum

 

Síðasta umferð mótsins var tefld miðvikudaginn 9. ágúst, en daginn eftir, 10. ágúst, fór fram hraðskákmót, sem venja er í sambandi við Norðurlandaskákmótin.

Þátttakendur voru 50, þar af flestir keppendur úr mótinu auk nokkurra annarra. Tefldar voru 9 umferðir eftir Monradkerfi. Flestir töldu Svíann Sundberg líklegastan til sigurs í hraðskákkeppninni, þar sem hann er hvorki meira né minna en hraðskákmeistari Svíþjóðar, og vitað er, að Svíar eru engir viðvaningar í þeirri grein.

En það fór á annan veg. Hinn landskunni skákmaður Ásmundur Ásgeirsson vann  keppnina með 7 ½ . vinning. Annar  varð Lárus Johnsen með 7 vinninga, þriðji Guðjón M. Sigurðsson 6 ½ og fjórði Daninn P. Nielsen 6 ½ . Svíinn Sundberg lenti ekki einu sinni í baráttunni um efsta sætið. Hann varð níundi!

Sigur Ásmundar kom flestum á  óvart, þar eð hann hefur lítið gefið sig að hraðskák í seinni tíð. En Ásmundur er einmitt sérfræðingur í því að koma mönnum á óvart.

Íslenzkum skákmönnum mun hafa þótt fara vel á því, að Ásmundur Ásgeirsson fengi að reka smiðshöggið á sigur Íslendinganna á Norðurlandaþinginu.

 

Mótíma slitið – Verðlaunaafhending

 

Föstudaginn 11. ágúst hélt bæjarstjórn Reykjavíkur öllum þátttakendum mótsins og mótstjórninni samsæti að Hótel Garði. Var mótinu þá slitið og verðlaun veitt.

Tómas Jónsson, borgarritari, stjórnaði hófinu og bauð keppendur velkomna í boði bæjarstjórnar og borgarstjóra með stuttri ræðu. Því næst tóku til máls Árni Snævarr, Daninn J. Nielsen, Norðmaðurinn Storm Herseth, SvíinnA. W. Olson og Finninn A. Lethinen.

Árni Snævarr þakkaði hinum er lendu skákmönnum fyrir komuna og ræddi nauðsyn slíkra skákmóta sem þessa. Hinir erlendu skákmenn þökkuðu góðar móttökur og ánægjulega dvöl hér. Létu þeir og í ljós aðdáun sína á íslenzkum skákmönnum og kváðust undrast þann mikla  skákstyrkleika, sem hér væri fyrir hendi.

Er staðið var upp frá borðum, fór afhending verðlauna fram. Voru auk peningaverðlauna veitt heiðurs verðlaun, er tryggingarfélögin íslenzku höfðu gefið í því skyni.

Heiðursverðlaunum var úthlutað þannig, að Baldur Möller fékk veglega bókagjöf, Friðrik Ólafsson öskju með áletruðum silfurskildi og þeir Birgir Sigurðsson, Þórir Ólafsson og Ólafur Einarsson hlutu sinn keramikvasann hver.

Peningaverðlaununum, en þau voru veitt af Skáksambandi Norður landa og Skáksambandi Íslands, var úthlutað þannig, að Norðurlandameistarinn Baldur Möller hlaut 1000 íslenzkar krónur. Guðjón M. Sigurðsson 500 og Vestöl 150 kr. sænskar.

Í meistaraflokki hlaut Friðrik Ólafsson 500 kr., Áki Pétursson 250 og Nihlén 80 sænskar krónur.

Í I. flokki A fengu þeir Birgir Sigurðsson og Þórir Ólafsson 250 kr. hvor og Jón Pálsson 150 kr.

í 1. flokki B. fékk Ólafur Einarsson 300 kr., P. Larsen 60 sænskar  kr. og Haukur Kristjánsson 175 kr. Alls voru veittar í verðlaun rúmlega 4000 íslenzkar krónur.

Þar með var lokið fyrsta Norðurlandaskákmótinu, sem haldið er á Íslandi. Segja má um mótið í heild, að það hafi orðið Íslendingum til hins mesta sóma.

Stjórn mótsins virtist farast þeim, sem hana önnuðust, sérstaklega vel úr hendi, bæði hvað snerti aðbúnað keppenda og áhorfenda. Í anddyri hinnar miklu Þjóðminjasafnsbyggingar var komið fyrir 10 stórum sýningartöflum, þar sem helztu skákirnar í landsliðs- og meistaraflokki voru sýndar  áhorfendum, og er líða tók á mótið og spenningurinn að vaxa, voru fengnir kunnáttumenn til að skýra skákirnar fyrir áhorfendum.

Hinum erlendu gestum til ánægjuauka var margt gert, og má þar til nefna, að fimmtudaginn 3. ágúst var þeim boðið í skemmtiferð austur að Gullfossi og Geysi með viðkomu á Þingvöllum í bakaleiðinni.

Fóru margir hinna íslenzku keppenda einnig austur svo og mótsstjórnin og móttökunefnd. Var ferð þessi hin ánægjulegasta, t. d. gaus Geysir veglegu gosi fyrir hina erlendu gesti. Þótti þeim mikið til koma um fjölbreytni og glæsileik íslenzkrar náttúru.

Laugardaginn 12. ágúst héldu útlendingarnir til baka með Gullfossi. Þeim fylgdu hugheilar árnaðaróskir íslenzkra skákmanna og skákunnenda sem og þjóðarinnar allrar.

Þau vináttubönd, sem liggja á milli frændþjóðanna á Norðurlöndum, höfðu styrkzt við eldvígslu drengilegrar keppni.

1950: Skákþing Norðurlanda - Meistaraflokkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Umf. Dags. Nafn Þjóð Úrslit Nafn Þjóð
1 28.7.1950 Bjarni Magnússon ISL 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson ISL
2 29.7.1950 Friðrik Ólafsson ISL 1/2-1/2 Jón Þorsteinsson ISL
3 30.7.1950 Hugo Nihlen 0-1 Friðrik Ólafsson ISL
4 1.8.1950 Jóhann Snorrason ISL 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson ISL
5 2.8.1950 Friðrik Ólafsson ISL 1-0 Alku Lethinen
6 4.8.1950 Lárus Johnsen ISL 0-1 Friðrik Ólafsson ISL
7 5.8.1950 Friðrik Ólafsson ISL 1-0 Viggo Rasmussen
8 6.8.1950 Áki Pétursson ISL 1/2-1/2 Friðrik Ólafsson ISL
9 7.8.1950 Friðrik Ólafsson ISL 1/2-1/2 Sturla Pétursson ISL
Vinningshlutall 72%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu