1946: Skákþing Íslands – 2. flokkur

11 ára glókollur stimplar sig inn með stæl

 

img284
Friðrik Ólafsson

Laugardaginn 9. nóvember settust tæplega fimmtíu skákmenn að tafli á Skákþingi Íslendinga. Teflt var í þremur flokkum í Þórskaffi í Reykjavík: Meistaraflokki, 1. flokki og 2. flokki. Einn keppandinn var langyngstur, 11 ára glókollur, og ráku margir upp stóru augu enda fáheyrt að barn tæki þátt í svo virðulegu móti.

Enda komu fram mótmæli: Það mætti hreinlega ekki leyfa piltinum að vera með, því það gæti haft óbætanleg áhrif á hnokkann að tapa öllum skákunum!

Eftir mikla rekistefnu var ákveðið að keppendur í 2. flokki myndu greiða atkvæði um hvort barnið fengi að vera með. Við kunnum ekki skil á atkvæðatölum, en svo mikið er víst að Friðrik Ólafsson fékk að setjast að tafli í Þórskaffi, og snaraði fram kóngspeðinu gegn Hjalta Elíassyni. Friðrik tefldi einsog sá sem valdið hefur, tíndi upp hvert peðið á fætur öðru og þegar Hjalti gafst upp í 50. leik var staða hans ein rjúkandi rúst.

Hann hafði lært mannganginn af föður sínum, Ólafi Friðrikssyni, þremur árum áður en skákbakterían náði ekki tökum á honum fyrr en árið sem hann tók þátt í Íslandsmótinu. Þá hafði hann sýnt góða takta í fjöltefli gegn Baldri Möller, einum besta skákmanni Íslands og Norðurlanda, en í blaðaumfjöllun árið 1956 var því reyndar haldið fram að Friðrik hefði tekið til við taflið af fullum krafti þegar hann fékk ekki harmónikku sem honum lék hugur á að eignast!

Frammistaða Friðriks í 2. flokki 1946 var með miklum ágætum, svo áhyggjur af sálarheill piltsins reyndust með öllu ástæðulausar. Hann fékk 4,5 vinning af 8 mögulegum og hafnaði í 6.-9. sæti af 20. Í tímaritinu SKÁK 1. tbl. 1947 birtist fyrsta nafn hins unga meistara í fyrsta sinn:

,,Í öðrum flokki vakti Friðrik Ólafsson mikla athygli. Hann er aðeins 11 ára og hlaut hann 4,5 vinning á mótinu.“

Friðrik var búinn að stimpla sig inn.

1946: Skákþing Íslands - 2. flokkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

Lokastaðan:

1.-3. Sveinn Kristinsson 6 v.
1.-3. Þórður Jörundsson 6 v.
1.-3. Skarphéðinn Pálmason 6 v.
4.-5. Hjalti Elíasson 5,5 v.
4.-5. Haukur Hjálmarsson 5,5 v.
6.-9. Benedikt Björnsson 4,5 v.
6.-9. Sverrir Sigurðsson 4,5 v.
6.-9. Friðrik Ólafsson 4,5 v.
6.-9. Gestur Pálsson 4,5 v.
10.-13. Richard Ryel 4 v.
10.-13. Eiríkur Marelsson 4 v.
10.-13. Kári Sólmundarson 4 v.
10.-13. Theódór Guðmundsson 4 v.
14.-15. Valdimar Lárusson 3,5 v.
14.-15. Sveinbjörn Einarsson 3,5 v.
16.-18. Magnús Vilhjálmsson 3 v.
16.-18. Kristján Fjeldsted 3 v.
16.-18. Anton Sigurðsson 3 v.
19. Ólafur Þorsteinsson 1 v.
20. Ólafur Haukur Ólafsson 0 v.
Vinningshlutall 50%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu