1949: Haustmót TR – Meistaraflokkur

Haustmót Taflfélags Reykjavíkur

Árni Stefánsson sigrar í meistaraflokki

 

Úr tímaritinu SKÁK, 4. tbl. 1949

Mótið hófst hinn 5. september s.l. að félagsheimili Vals við Hlíðarenda. Eins og flestum er kunnugt, er afar erfitt að fá húsnæði á góðum stað í bænum og var þetta það eina, er til greina kom. Þátttakan var góð, þótt staðurinn hafi átt sök á því, hversu fáir áhorfendur sáust á mótinu.

Þátttakendur voru að þessu sinni 37; 11 í meistaraflokki, 9 í 1. flokki og 17 í 2. flokki. Að vísu vantaði í meistaraflokkinn flesta af okkar sterku skákmönnum, m. a. Lárus Johnsen, meistarann frá í fyrra, og Eggert Gilfer, er varð annar.

Tefldar voru 11 umferðir í meistaraflokki, eða alls 55 skákir, Af þeim unnust 22 á hvítt, 19 á svart og 14 urðu jafntefli.

Árni Stefánsson
Árni Stefánsson

Sigurvegari varð Árni Stefánsson, hlaut 8 ½ v. af 10 mögulegum, tapaði aðeins einni skák, fyrir Þóri Ólafssyni, og gerði eitt jafntefli. Með þessum glæsilega sigri sínum hefur hann hlotið titilinn Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 1949. Einnig öðlast hann þátttökuréttindi í næstu Landsliðskeppni.

Árni er mjög öruggur skákmaður, byggir upp ágætar stöður og gætir þess, að tefla ekki of djarflega. Beztu árangrar hans á öðrum mótum eru Skákþing Reykvíkinga 1948, en þar varð hann fimmti, sem er prýðilegur árangur í svo sterku móti, og Skákþing Reykvíkinga 1949, en þar öðlaðist hann einnig þátttökuréttindi í Landsliðinu, sem hann notfærði sér þó ekki.

Næstir urðu þeir Þórir Ólafsson og Friðrik Ólafsson, hlutu 7 v., sem er prýðilegur árangur, sérstaklega þegar þess er gætt, hversu ungir þeir eru. Þórir er 18 ára, en Friðrik aðeins 14 ára. Það er áreiðanlegt, að þeir verða okkar eldri meisturum skeinuhættir í framtíðinni.

Fjórði varð Sveinn Kristinsson, hlaut 5 ½ v. Fylgdi hann, ásamt þeim Þóri og Friðriki, Árna fast eftir, en tapaði svo tveim síðustu skákunum.

Ingvar Ásmundsson, sem varð fimmti ásamt Jóni Ágústssyni, er aðeins 15 ára og er hann mjög efnilegur skákmaður.

Í 1. flokki sigruðu þeir Björn Jóhannesson og Kári Sólmundarson, hlutu 6 ½ V. af 8 mögulegum og flytjast því báðir upp í meistaraflokk. Þeir eru báðir efnilegir skákmenn.

 

Röðin varð annars þessi:

Björn Jóhannesson 6 ½
Kári Sólmundarson 6 ½
Haukur Sveinsson 5 ½
Anton Sigurðsson 4
Jón Guðjónsson 3 ½
Ásgeir Þór Ásgeirsson 3 ½
Magnús Vilhjálmsson 3
Eiríkur Marelsson 2
Ingimundur Guðmundsson 1 ½

 

2. flokkur var tvískiptur, í A- og B- flokk. Voru 9 í A-fl. en 8 í B-fl.

Sigurvegari í A-fl. varð Birgir Ásgeirsson, hlaut 7 v. Næstir urðu Hákon Hafliðason, Tómas Einarsson og Tryggvi Arason, allir með 5 v.

Í B-fl. sigraði Jón Pálsson, hlaut 6 ½ v. Næstur varð Kjartan Ólafsson með 5 v.

Þessir sex ofangreindu tefldu síðan til úrslita og sigraði Jón Pálsson, hlaut 4 ½ v. af 5. Næstir urðu Hákon og Birgir með 3 v. Þessir þrír flytjast því upp í 1. flokk.

Skákstjóri var Konráð Árnason.

 

Hér fer á eftir lauslegt yfirlit umferðanna í meistaraflokki.

 

1. umferð.

Óli ½ Guðjón ½
Friðrik ½ Þórður ½
Ingvar 0 Jón 1
Árni ½ Sveinn ½
Steingrímur 0 Hjálmar 1
Þórir sat yfir.

 

Óli náði betra tafli framan af, en komst lítið áleiðis og tókst svo smám saman að jafna taflið. Var samið jafntefli í 26. leik eftir drottningaruppskipti.

Friðrik hafði yfirtökin mest alla skákina, en tókst ekki að ná verulegri sókn og var samið jafntefli eftir að uppskipti höfðu orðið á flestum mönnunum.

Ingvar náði ágætri stöðu upp úr byrjuninni. Í 17. leik fórnaði hann peði fyrir sterka sókn, en fór skakkt í áframhaldið og náði sv. frumkvæðinu, tókst að vinna tvö peð og gafst hv. upp í 48. leik.

Sveinn fékk betri stöðu upp úr byrjuninni, vann peð í miðtaflinu og virtist hafa góða vinningsmöguleika, er hann þáði jafntefli í 33. leik.

Skákin Steingrímur – Hjálmar var mjög svipuð framan af, unz báðir lentu í miklu tímahraki. Stóð hv. þá heldur betur, en lék af sér hrók í tímahrakinu og þar með skákinni.

 

2. umferð.

Þórir 1 Óli 0
Guðjón ½ Friðrik ½
Þórður 1 Ingvar 0
Jón 0 Árni 1
Sveinn 1 Steingrímur 0
Hjálmar sat yfir.

 

Þórir fékk heldur betri stöðu upp úr byrjuninni og náði sterkri sókn. Í 16. leik fórnaði sv. skiptamun og náði vinningsstöðu á eftir, en lék af sér manni skömmu seinna og varð að gefast upp í 57. leik.
Guðjón komst lítið áleiðis í skák sinni við Friðrik, og var samið jafntefli í 28. leik í jafnri stöðu.

Ingvar hélt Þórði vel í skefjum lengi framan af, en gaf svo færi á að komast „inn á sig“ með drottningu og hrók, er gerði út um taflið í nokkrum leikjum. Árni náði ágætri stöðu og tókst að vinna peð í miðtaflinu. Hann skipti síðan upp drottningum og fór út í hróksendatafl, sem hv. hefði átt að geta haldið, en fór skakkt í peðakaup og kom sv. upp peði, sem kostaði hrókinn.

Skák þeirra Sveins og Steingríms var all- fjörug. Svartur langhrókaði og hóf sterka sókn á kóngsvængnum. Hvítur svaraði með sókn drottningarmegin og tókst að brjótast í gegnum varnir svarts, eftir að hafa fórnað manni, sem svartur var neyddur til að þiggja. Við það varð svarti kóngurinn berskjaldaður fyrir mönnum hvíts, sem tókst að vinna manninn aftur. Svartur gafst upp nokkrum leikjum síðar, en þá var hann skiptanum undir og með tapaða stöðu.

 

3. umferð.

Friðrik 1 Þórir 0
Ingvar 1 Guðjón 0
Árni 1 Þórður 0
Steingrímur 1 Jón 0
Hjálmar ½ Sveinn ½
Óli sat yfir.

 

Friðrik náði smám saman yfirtökunum, í skák sinni við Þóri, hóf sterka kóngssókn, sem hann fylgdi fast eftir og neyddi sv. til uppgjafar í 26. leik.

Ingvar tefldi mjög skemmtilegt Evansbragð og náði yfirburðastöðu. Tókst honum að hrekja sv. kónginn út á borðið, þar sem hann stóð berskjaldaður fyrir mönnum hv. Svartur gafst upp í 26. leik er mát eða drottningartap var óumflýjanlegt:

Staðan hjá Árna og Þórði var jöfn framan af, unz sv. veikti kóngsstöðu sína með h5 og g5, sem hv. notfærði sér og fékk betri stöðu. Í 25. leik sást sv. yfir skiptamunstap og gafst upp í næsta leik.

Steingrímur náði sterkri sókn á kóngsstöðu svarts, sem hafði langhrókað. Neyddist sv. að flýja með kónginn yfir á kóngsvænginn, en átti tapaða stöðu og tveim peðum minna er það hafði tekizt og gafst upp nokkrum leikjum síðar.

Hjálmar náði vinningsstöðu, vann tvö peð og skipti síðan upp drottningum til að flýta fyrir vinningnum, en lék af sér, og fékk tapstöðu. Svörtum sást þó yfir vinningsleiðina og tók jafntefli með þráskák.

 

4. umferð.

Óli 0 Friðrik 1
Þórir 1 Ingvar 0
Guðjón 0 Árni 1
Þórður 0 Steingrímur 1
Jón 1 Hjálmar 0
Sveinn sat yfir.

 

Óli fékk heldur betra tafl upp úr byrjuninni og fórnaði peði fyrir sóknarmöguleika, en fór skakkt í áframhaldið, sást m. a. yfir skiptamunsvinning og snerist skákin sv. í vil. Lenti hvítur í miklu tímahraki, missti mann og féll á tíma í 27. leik.

Þórir fékk heldur betri stöðu upp úr byrjuninni, en lenti í miklu tímahraki, sem svartur notfærði sér ekki og lék veikt á móti. Náði hvítur þá sterkri sókn, sem hann fylgdi fast eftir og gafst svartur upp í 47. leik.

Staðan hjá Guðjóni og Árna var svipuð framan af. Í 18. leik fórnaði hv. tveimur peðum í þeim tilgangi að vinna mann, en sást yfir mótspil hjá sv., er lét drottningu sína fyrir báða hróka hv. Eftir uppskiptin hafði sv. tvö samstæð frípeð, sem hv. gat ekki stöðvað nema með mannsfórn og varð að gefast upp í 51. leik.

Steingrímur náði betra tafli eftir að drottningar uppskipti höfðu orðið og tókst að skapa sér tvö sterk frípeð, sem hv. áleit það hættuleg, að hann fórnaði manni til að stöðva þau. Það nægði þó ekki til að halda skákinni og varð hann að gefast upp nokkrum leikjum síðar.

Jón náði fljótlega betri stöðu og tókst að sprengja upp kóngsstöðu sv., sem sá sig neyddan að láta drottningu sína fyrir hrók og biskup. Hvítum tókst að halda sókninni áfram og gafst sv. upp í 29. leik er mát var óumflýjanlegt.

 

5. umferð.

Steingrímur 1 Guðjón 0
Ingvar 1 Óli 0
Árni 0 Þórir 1
Sveinn 1 Jón 0
Hjálmar 1 Þórður 0
Friðrik sat yfir.

 

Í skákinni Steingrímur – Guðjón skeði ekkert markvert framan af, skiptust flestir mennirnir upp. Eftir að skákin fór í bið náði hv. yfirtökunum, tókst að vinna peð og vann á því í hróksendatafli, sem sv. hefði átt að geta haldið, en fór skakkt í vörnina og gat ekki stöðvað frípeð hvíts.

Skák Ingvars og Óla var svipuð framan af,. unz sv. lenti í miklu tímahraki og tapaði tveimur peðum. Er skákin fór í bið var staðan unnin á hvítt, en harðsótt var hún því sv. gafst upp í 84. leik!

Árni byrjaði ágætlega og náði vinningsstöðu. Í miðtaflinu vann hann skiptamun fyrir peð, en lenti svo í miklu tímahraki og gaf sv. færi á mótspili, er nægja átti til jafnteflis. Hvítum sást yfir jafnteflið og missti drottningu sína í tímahrakinu.

Hjálmar fékk betri stöðu upp úr byrjuninni og fórnaði sv. peði til að létta á stöðu sinni. Hv. skipti þá upp drottningum og vann á tveim samstæðum frípeðum.

Sveinn náði sterkri sókn á kóngsstöðu sv., sem hann fylgdi vel eftir, tókst að vinna mann í miðtaflinu og þvingaði sv. til uppgjafar nokkrum leikjum síðar.

Eftir 5. umferð er Árni efstur með 3 ½ v., Friðrik, Sveinn og Þórir 3 v.

 

6. umferð.

Þórir ½ Steingrímur ½
Óli 0 Árni 1
Friðrik 1 Ingvar 0
Guðjón ½ Hjálmar ½
Þórður 0 Sveinn 1
Jón sat yfir.

 

Þórir náði heldur betri stöðu, en komst ekkert áleiðis vegna ágætrar vörn sv. í miðtaflinu lét sv. drottningu sína fyrir hrók og biskup og tókst hv. hvergi að brjótast í gegn. Var því samið jafntefli í 60. leik.

Skák þeirra Óla og Árna var mjög svipuð framan af, unz Óli lenti í miklu tímahraki og missti drottningu sína. Átti hann þá eftir 9 leiki á rúma mínútu.

Ingvar leitaðist við að ná mótspili áður en hann hafði tryggt kóngsstöðu sína. Hv. notfærði sér veikleika svörtu stöðunnar og náði sterkri sókn, vann tvö peð og varð sv. að gefast upp í 32. leik.

Guðjón fékk heldur betri stöðu upp úr byrjuninni og tókst að vinna peð. Eftir drottningaruppskipti virtist hv. eiga mikla vinningsmöguleika, er hann missti skiptamun og snerist skákin þá sv. í vil. Hv. varðist eftir beztu getu og tókst að vinna skiptamuninn aftur. Jafntefli var svo samið er aðeins voru eftir mislitir biskupar og örfá peð.

Sveinn náði smám saman yfirtökunum í skák sinni við Þórð, sem fórnaði peði til að losa um sig, en tókst ekki og varð að gefast upp í 75. leik.

Eftir 6. umferð er röðin þessi: Árni 4 ½ , Friðrik og Sveinn 4 (af 5) Þórir 3 ½ af 5.

 

7. umferð.

Steingrímur 0 Óli 1
Árni 1 Friðrik 0
Hjálmar 0 Þórir 1
Sveinn ½ Guðjón ½
Jón 1 Þórður 0
Ingvar sat yfir.

 

Óli náði sterkri sókn eftir að hv. hafði lagt út rangan peðsvinning er varð til þess, að hann missti skiptamun og varð að gefast upp nokkrum leikjum síðar.

Friðrik tapaði peði í byrjun, sem hv. lét aftur og náði sterkri sókn, eftir að sv. hafði farið skakkt í uppskipti. Skákin gerðist allfjörug eftir að hv. hafði fórnað manni á laglegan hátt, en sást yfir skjóta vinningsleið. Sv. svaraði heldur ekki með beztu leikjunum og má því inn kenna, að báðir voru í miklu tímahraki. Hv. fylgdi sókninni fast eftir og gafst sv. upp í 41. leik.

Hjálmar fékk ágætt tafl upp úr byrjuninni, en sást yfir mannstap í miðtaflinu. Snerist skákin þá svörtum í vil, sem náði sterkri sókn og féll hv. á tíma í 38. leik í vonlausri stöðu.

Sveinn og Guðjón voru mjög friðsamir, því flestir menn þeirra skiptust upp og var samið jafntefli er hvorugur hafði neina vinningsmöguleika.
Þórður mætti ekki til leiks og var því skák hans dæmd töpuð.

Röðin eftir 7. umferð: Árni 5 ½ , Sveinn og Þórir 4 ½ , Friðrik 4 v.

 

8. umferð.

Ingvar 0 Árni 1
Þórir ½ Sveinn ½
Friðrik 1 Steingrímur 0
Guðjón ½ Jón ½
Óli 0 Hjálmar 1
Þórður sat yfir.

 

Ingvar valdi Evansbragð og hafði ágæta stöðu framan af, en þá fór hann að leika veikt, er varð til þess, að sv. tók frumkvæðið í sínar hendur. Náði hann ágætri sóknaraðstöðu á kóngsvæng hv. Í 22. leik sást hvítum yfir mannstap og gafst því upp í næsta leik. Hafði sv. þá betri stöðu.

Sveinn fékk ágætt tafl upp úr byrjuninni og náði hv. ekki neinni sókn. Í miðtaflinu fórnaði sv. manni til að sprengja kóngsstöðu hvíts, en það nægði ekki til vinnings og tók hann jafntefli með þráskák.

Skák þeirra Friðriks og Steingríms var fljótlega útkljáð. Hv. fórnaði í byrjuninni riddara fyrir tvö peð. Svartur varð síðan svara bæði mátshótun og hróksvinning. Neyddist hann til að skipta upp drottningum til að bjarga mátinu og vann hv. auðveldlega á endataflinu.

Guðjón náði sterkri sókn eftir að hafa látið báða biskupa sína fyrir hrók og peð. Svartur varðist vel og tókst að skipta upp drottningum. Eftir uppskiptin hafði hv. tvö samstæð frípeð, en samdi jafntefli í 34. leik, er hann hafði mikla vinningsmöguleika.

Óli fékk sterka sókn á kóngsstöðu sv. eftir að hafa fórnað manni. Hann vann manninn aftur, en þá náði sv. drottningaruppskiptum og tókst að jafna taflið. Í biðskákinni stóð sv. heldur betur, er hv. lék af sér manni í uppskiptum og varð að gefast upp eftir nokkra leiki.
Eftir 8. umferð er röðin þessi: Árni 6 ½ , Friðrik, Sveinn og Þórir 5.

 

9. umferð.

Steingrímur ½ Ingvar ½

Hjálmar 0 Friðrik 1
Sveinn ½ Óli ½
Jón 0 Þórir 1
Þórður 1 Guðjón 0
Árni sat yfir.

 

Steingrímur komst lítið áleiðis í skák sinni við Ingvar. Skiptust flestir mennirnir upp og sömdu þeir jafntefli í 41. leik, en þá voru eftir mislitir biskupar og hrókur hjá hvorum.

Skák Hjálmars var sú stytzta í mótinu, hann lék af sér hrók í 17. leik í stöðu og gafst upp í næsta leik.

Sveinn fékk heldur betri stöðu upp úr byrjuninni, en gaf svo sv. færi að fórna manni á réttu augnabliki. Svartur vann manninn aftur með betri stöðu. Hv. átti þá færi á þráskák, sem hann notfærði sér ekki og fór út í vafasamt hróksendatafl með peði minna. Sv. tókst þó ekki að vinna og varð því að láta sér nægja jafntefli.

Þórir fékk betra tafl strax í byrjun eftir að hv. hafði farið í röng peðakaup. Áframhaldið tefldi hv. alltof veikt, tapaði tveim peðum og síðan skiptamun og varð að gefast upp nokkrum leikjum síðar. Guðjón mætti ekki til leiks og var skák hans því dæmd töpuð.

Eftir 9. umferð er röðin þessi: Árni 6 ½ , Friðrik og Þórir 6, Sveinn 5 ½ .

 

10. umferð.

Þórir ½ Þórður ½
Óli 1 Jón 0
Friðrik 1 Sveinn 0
Ingvar 1 Hjálmar 0
Árni 1 Steingrímur 0
Guðjón sat yfir.

 

Þórir fékk betri stöðu upp úr byrjuninni. Náði hann sterkri sókn, fórnaði manni, sem hann vann aftur og skiptamun með. Í tímahraki sást honum yfir vinninginn og gaf sv. færi á að loka stöðunni eftir að drottningaruppskipti höfðu orðið. Hafði sv. þá riddara og fjögur peð, en hv. hrók og þrjú peð, og tókst ekki að vinna.

Óli fórnaði tveim léttum mönnum fyrir hrók og tvö peð, og fékk sterka sókn í staðinn. Sv. gat ekki hrókað og sá sig neyddan að fórna manni til að bjarga máti. Hv. skipti þá upp drottningum og vann á endataflinu með skiptamun yfir fyrir peð.

Friðrik fékk betri stöðu upp úr byrjuninni og þrengdi svo smám saman meira að sv., sem átti erfitt um vik. Tapaði hann peði og sást síðan yfir máthótun í þriðja leik, en þá var staðan unnin á hvítt.

Skák þeirra Ingvars og Hjálmars var mjög svipuð framan af. Skiptust drottningarnar fljótlega upp. Hvítur lék af sér peði skömmu síðar, sem honum tókst að vinna aftur eftir uppskipti. Höfðu þá báðir tvo hróka og mislita biskupa. Svartur fékk heldur betra tafl og þrýsti á einangrað peð á miðborðinu, sem hvítur síðan fórnaði til að skapa sér frípeð drottningarmegin. Svörtum tókst einnig að skapa sér frípeð á miðborðinu og kóngsmegin, en tefldi áframhaldið alltof veikt, er varð til þess, að hvítur kom upp b-peði sínu, sem kostaði ekki minna en hrók og þar með skákina.

Steingrímur fékk erfiða stöðu strax í byrjun, sem hv. notfærði sér vel. Fórnaði hann peði og náði sterkri sókn á kóngsstöðu sv. Hrakti hann sv. kónginn frá e8 yfir á a7, og gafst sv. upp í 31. leik er mát var óumflýjanlegt.

Eftir 10. umferð er röðin þessi: Árni 7 ½, Friðrik 7, Þórir 6 ½, Sveinn 5 ½.

 

11. umferð.

Hjálmar 0 Árni 1
Jón 1 Friðrik 0
Sveinn 0 Ingvar 1
Þórður 0 Óli 1
Guðjón ½ Þórir ½
Steingrímur sat yfir.

 

Hjálmar valdi kóngsbragð og fórnaði manni í byrjun fyrir tvö peð, en komst ekkert áleiðis og tók sv. frumkvæðið fljótlega í sínar hendur. Hv. lék af sér manni í miðtaflinu og lenti síðan í miklu tímahraki. Sv. fórnaði þá skiptamun til að flýta fyrir vinningnum, en hv. féll á tíma nokkrum leikjum síðar.

Jóni sást yfir mannsvinning í 8. leik, en byrjunin var þessi: 1. e4, e6 2. c4, c6 3. Rc3, Bb4 4. Db3, BxR 5. DXB, Rf6 6. e5, Re4?? 7. De3, d5. Nú gat hv. leikið einfaldlega hér d3 og riddarinn á engan reit. Engu að síður lék hann 8. f3 og varð áframhaldið þannig: 8. Dh4+ 9. Ke2, Rg3+ 10. hxR, DxH 11. Rh3 og sv. drottningin er úr leik. Sv. hefði sennilega getað bjargað henni með h5-h4 0. s. frv., en kaus að koma mönnum sínum út fyrst. Á meðan tókst hv. að vinna drottninguna og varð sv. að gefast upp í 24. leik.

Sveinn fékk heldur betra tafl upp úr byrjuninni, en gaf sv. færi á sterkri sókn eftir að hafa hafnað tvöföldum hrókauppskiptum í jafnteflisstöðu. Náði sv. að leppa biskup hvíts á d3, en drottningin var í dauðanum ef hann vék frá. Neyddist hv. að leika kóng á e2 til að valda biskupinn, en við það varð kóngsstaða hans hættuleg og tókst sv. að komast „inn á hann“. Varð hv. að gefast upp nokkrum leikjum síðar er mát var óverjandi.

Guðjón valdi Evans-bragðið, fékk heldur betra tafl framan af, tókst að sprengja kóngsstöðu svarts, en komst lítið áleiðis vegna traustrar vörn hans. Tókst sv. að rétta stöðu sína við og vinna tvö peð. Í tímahaki sást honum yfir auðvelda vinningsleið og varð að fórna manni fyrir peð til að bjarga máti. Hafði hv. þá riddara og peð á móti fjórum peðum svarts, sem ekki tókst að vinna og sömdu þeir jafntefli í 49. leik.

Þórður mætti ekki til leiks og var því skák hans dæmd töpuð.

Úrslit: Árni 8 ½ , Þórir og Friðrik 7, Sveinn 5 ½ .

1949: Haustmót TR - 1. flokkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 Vinn Prósenta
1 Árni Stefánsson Iceland x 0 1 ½ 1 1 1 1 1 1 1 8,5 85%
2 Þórir Ólafsson Iceland 1 x 0 ½ 1 1 ½ 1 1 ½ ½ 7 70%
3 Friðrik Ólafsson Iceland 0 1 x 1 0 1 1 1 1 ½ ½ 7 70%
4 Sveinn Kristinsson Iceland ½ ½ 0 x 1 0 1 ½ ½ ½ 1 5,5 55%
5 Jón Ágústsson Iceland 0 0 1 0 x 1 0 0 1 ½ 1 4,5 45%
6 Ingvar Ásmundsson Iceland 0 0 0 1 0 x ½ 1 1 1 0 4,5 45%
7 Steingrímur Guðmundsson Iceland 0 ½ 0 0 1 ½ x 0 0 1 1 4 40%
8 Óli Valdimarsson Iceland 0 0 0 ½ 1 0 1 x 0 ½ 1 4 40%
9 Hjálmar Theódórsson Iceland 0 0 0 ½ 0 0 1 1 x ½ 1 4 40%
10 Guðjón M. Sigurðsson Iceland 0 ½ ½ ½ ½ 0 0 ½ ½ x 0 3 30%
11 Þórður Jörundsson Iceland 0 ½ ½ 0 0 1 0 0 0 1 x 3 30%
Vinningshlutall 70%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu

vantar skakir
Merki: