1948: Skákþing Reykjavíkur – 1. flokkur

Baldur Möller Reykjavíkurmeistari – Ágæt frammistaða Friðriks í 1. flokki

 

Baldur Möller
Baldur Möller

Skákþing Reykjavíkur 1948 hófst 15. janúar og var að venju teflt í þremur flokkum. Baldur Möller vann glæsilegan sigur í meistaraflokki, fékk 11 vinninga af 13, en í 2. sæti varð gamla kempan Eggert Gilfer með 10 vinninga. Jafnir í 3.-4. sæti urðu Guðmundur Ágústsson og hinn litríki Benóný Benediktsson.

Friðrik Ólafsson, sem varð 13 ára meðan á mótinu stóð, tefldi nú í 1. flokki, sem skipt var í tvo riðla. Friðrik fór vel af stað og var með 2,5 vinning eftir þrjár umferðir. Í 4. umferðinni lagði hann allt í sölurnar með svörtu mönnunum til að knésetja Lárus Ingimarsson en varð að játa sig sigraðan eftir mikinn darraðardans.

Eggert Gilfer
Eggert Gilfer

Í 5. og næstsíðustu umferð vann Friðrik laglegan baráttusigur á Ingólfi Jónssyni og tefldi því hreina úrslitaskák í síðustu umferð við Hjalta Elíasson. Það var einmitt Hjalti sem lá fyrir Friðriki í fyrstu kappskák hins unga meistara, á Íslandsmótinu 1946, og hann ætlaði sannarlega ekki að tapa aftur fyrir glókollinum snjalla.

Friðrik náði ekki að sýna sitt rétta andlit að þessu sinni og tapaði. Hjalti komst því í úrslitakeppni um sæti í meistaraflokki og þar fór hann með sigur úr bítum. Friðrik mátti hinsvegar ágætlega við una, með 3,5 vinning af 6 mögulegum.

1948: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
1 16.1.1948 Eiríkur Bergsson 1/2 Friðrik Ólafsson
2 18.1.1948 Friðrik Ólafsson 1 – 0 Ingimann Ólafsson
3 22.1.1948 Friðrik Ólafsson 1 – 0 Ingimundur Guðmundsson
4 23.1.1948 Lárus Ingimarsson 1 – 0 Friðrik Ólafsson
5 26.1.1948 Friðrik Ólafsson 1 – 0 Ingólfur Jónsson
6 30.1.1948 Hjalti Elíasson 1 – 0 Friðrik Ólafsson
Vinningshlutfall 58%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu