2001: Minningarmót Jóhanns Þóris Jónssonar

Stórmeistararnir Ivan Sokolov frá Bosníu og Peter-Heine Nielsen urðu efstir og jafnir á Minningarmóti Jóhanns Þóris Jónssonar í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem fram fór 23. október til 2. nóvember, fengu 7,5 vinning af 10 mögulegum. Friðrik Ólafsson sneri að skákborðinu eftir sex ára fjarveru, hlaut 6 vinninga, og hafnaði í 9.-10. sæti með 6 vinninga. Keppendur voru 42.

Jóhann Þórir Jónsson fæddist 21. október 1941 og lést 2. maí 1999. Hann var einn helsti skákfrömuður Íslandssögunnar, gaf út  og ritstýrði tímaritinu Skák í nærfellt 35 ár, frá 1962 til 1997. Á þeim tíma gaf hann út fjölmargar aukaútgáfur af Skák vegna einstakra skákmóta. Kunnastar þeirra eru einvígisútgáfan 1972, gefin út á þrem tungumálum, og ólympíuútgáfan í Luzern 1982.

Hann gaf út nær 30 bækur um skák auk tímarita um önnur málefni og fjölda ljóðabóka og bóka um ýmis málefni. Jóhann Þórir stóð fyrir og skipulagði fjölda skákmóta um hinar dreifðu byggðir landsins, 49 helgarskákmót og auk þess 10 alþjóðleg skákmót á landsbyggðinni. Hann var formaður Taflfélags Reykjavíkur 1961­-1964, helsti frumkvöðull alþjóðlegu Reykjavíkurskákmótanna og hvatamaður þess að heimsmeistaraeinvígið í skák var haldið hér 1972.

Minningarmótið var afar vel skipað og skemmtilegt. Mesta athygli vakti að gamlar kempur mættu til leiks til að heiðra minningu Jóhanns Þóris. Auk Friðriks má nefna Ingvar Ásmundsson, Björn Þorsteinsson og Guðmund Pálmason, en sá síðastnefndi hafði ekki tekið þátt í skákmóti í 35 ár.

Hannes Hlífar Stefánsson varð efstur Íslendinga, lenti í 3.-4. sæti ásamt Jan Timman frá Hollandi, með 7 vinninga. Sérstaka athygli vakti frammistaða Arnars Gunnarssonar sem sigraði Friðrik og var hársbreidd frá því að leggja Sokolov, en varð að sætta sig við jafntefli.

Friðrik gerði jafntefli við Tómas Björnson, Dag Arngrímsson, Jón Viktor Gunnarsson og Ivan Sokolov, sigraði Lenku Ptacnikova, Guðmund Stefán Gíslason, Ingvar Þór Jóhannesson og Björn Þorsteinsson, en tapaði fyrir Arnari og danska stórmeistaranum Lars Schandorff.

2001: Minningarmót Jóhanns Þóris Jónssonar

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

2001_minningarmot_tafla

Vinningshlutall 60%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu