1956: Minningarmót Guðjóns M. Sigurðssonar

Friðrik sigurvegari í Guðjóns-mótinu

Taimanov og Ilivitsky jafnir í 2. Sæti

mark_taimanovNú hefur rætzt sá óskadraumur íslenzkra skákunnenda, að fá hingað til lands rússneska Skákmeistara til keppni við íslenzka skákmenn.

Snemma á sl. hausti skrifaði stjórn T.R. rússneska skáksambandinu og bauðst til að greiða allan kostnað við komu tveggja rússneskra skákmanna til Reykjavíkur, og í febrúar-byrjun var endanlega ákveðið, að íslenzktrússneskt skákmót skyldi fara fram í Reykjavík í marz-mánuði.

Rússneska skáksambandið valdi til keppninnar stórmeistarann Taimanov, sem er núverandi skák meistari Sovétríkjanna, og hinn kunna alþjóðlega meistara Ilivitsky.

Ákveðið var, að. mótið skyldi haldið til minningar um Guðjón M. Sigurðsson, og var flestum kunnustu skákmönnum bæjarins gefinn kostur á að reyna þar hæfni sina. Því miður sáu ýmsir beztu skákmennirnir sér ekki fært að keppa. Einkum verður að harma, að Guðmundur Pálmason, Ingi R. Jóhannsson og Guðmundur S. Guðmundsson voru ekki meðal þátttakenda.

Þrátt fyrir fjarveru þeirra verður að telja Minningarmót Guðjóns M. Sigurðssonar hörðustu skák keppni, sem fram hefur farið hérlendis.

Um árangur einstakra keppenda vil ég fátt eitt segja. Þar talar vinningaskráin skýrustu máli, og sýnir glöggt, að keppendur skiptust í tvo flokka eftir styrkleika.

3 1/2 vinningur skildi að 3. og 4. mann og er sá munur ærið umhugsunarefni. Mikla , ánægju vakti það, að Friðrik Olafsson bar sigur úr býtum. Hann hefur ekki fyrr en nú tekið þátt í skákmóti innanlands síðan árið 1953, er hann vann nauman sigur í Landsliðskeppninni. Allir vita, að hann ber nú ægishjálm yfir aðra íslenzka skákmenn, en mörgum hefði samt þótt það ótrúleg spá fyrirfram, að Friðrik myndi sigra alla hina íslenzku keppinauta sína og ná hærri vinningatölu en sjálfur Sovétmeistarinn. En þessi árangur kostaði mikla vinnu, og söknuðu margir þess skákstíls, sem mestan ljóma hefur varpað á skákkónginn okkar.

Taimanov virtist minnst þurfa fyrir sínum vinningum að hafa. Hann komst aldrei í taphættu, en Benóný reyndist honum erfiðastur að þessu sinni.

Ilivitsky tefldi mjög vel og örugglega, en hefði átt skilið að tapa fyrir Benóný.

Aðeins 1 1/2 vinningur greindi að 4. og 10. mann í mótinu, og sýnir það glöggt hve hörð baráttan var milli hinna 7, sem skiptu með sér óæðri sætunum. Gunnar Gunnarsson tók í fyrsta sinn þátt í erfiðu skákmóti. Vakti frammistaða hans talsverða athygli, og verða framvegis gerðar til hans miklar kröfur. Benóný Benediktsson jók mjög hróður sinn sem skákmaður með því að ná jöfnu móti báðum Rússunum. – Aðrir keppendur bættu engu við vöxt sinn að þessu sinni.

Mótið fór fram í Sjómannaskólanum dagana 12.-25. marz. Tilhögun þess var með öðrum hætti en áður hefur tíðkast á skákmótum hérlendis. Mér er ekki kunnugt um að 10-manna skákmót hafi áður verið haldið á jafn skömmum tíma í Reykjavík. Skylt er að geta þess, að þessi mikli hraði hafði óheppileg áhrif á taflmennsku þeirra keppenda, sem erfiða vinnu stunda.

Taflfélagið færði sér í nyt þær nýjungar, sem fram komu í einvíginu um meistaratitil Norðurlanda í janúar sl. – Allar skákirnar voru sýndar á veggtöflum í taflsalnum á neðstu hæð, en auk þess voru þær sýndar og skýrðar i forsal á næstu hæð fyrir ofan. Hljóðnema var komið fyrir í neðri salnum, en hátalara í þeim efri, og var öllum leikjum „útvarpað“ til efri salarins, jafnskjótt og þeir bárust þulnum niðri. Var þannig reynt að auðvelda áhorfendum að fylgjast með gangi skákanna. Sérstakur maður var ráðinn til þess að flytja blöðum og útvarpi fregnir af mótinu. Þessi tilhögun krafðist mikillar vinnu, enda voru starfsmenn nærri 20 að tölu, og máttu ekki færri vera.

Helztu starfsmenn voru þessir:

Mótstjóri: Jón Böðvarsson.

Skákstjórar: Hafsteinn Gíslason og Oli Valdimarsson.

Aðstoðarmótsstjóri: Bjarni Felixson.

Þulir: Gísli Isleifsson og Grétar Haraldsson.

Blaðafulltrúi: Haraldur Sæmundsson.

Helztu skákskýrendur: Eggert Gilfer, Guðm. S. Guðmundsson og Haukur Sveinsson.

Ljósmyndari: Arinbjörn Guðmundsson.

Forseti Skáksambandsins, Sigurður Jónsson, veitti T.R. margvíslega aðstoð við framkvæmd mótsins.

Mánudaginn 26. marz s.1. hélt Taflfélagið hóf í Þjóðleikhúskjallaranum, og voru þar afhent fern verðlaun, sem samtals námu kr. 450.000. – Þátttökugjald í mótinu var kr. 200.00.

Jón Böðvarsson.

 

Verðlaunaafhending.

Mánudagskvöldið 26. marz s.l. bauð stjórn Taflfélags Reykjavíkur keppendum og starfsmönnum Guðjónsmótsins, auk blaðamanna og fleiri gesta, til verðlaunaafhendingar og skilnaðarhófs fyrir Sovétskákmeistarana.

Veizlustjóri, Elís O. Guðmundsson, bauð gesti velkomna, en því næst afhenti Guðmundur Arnlaugsson verðlaun til þeirra Friðriks Ólafssonar, Taimanov’s, Ilivitsky’s o-g Gunnars Gunnarssonar, og ávarpaði þá um leið með nokkrum orðum. Auk peningaverðlauna hlutu þeir Taimanov og Ilivitsky bækur að gjöf. Einnig hlutu þeir Baranov, túlkur skakmeistaranna, og Ivanof, sendiráðsritari, bækur að gjöf.

Ræður fluttu þeir Sigurður Jónsson, forseti Skáksambandsins, og Guðm. S. Guðmundsson, formaður T. R. Fluttu þeir Sovétskákmeisturunum þakkir fyrir, komuna og ánægjulega keppni. Kvaðst Guðm. S. vona, að heimsókn þessi yrði upphafið af frekari kynnum íslenzkra og rússneskra skákmanna.

Stórmeistarinn Taimanov þakkaði fyrir hönd þeirra félaga með ræðu, sem birtist hér á eftir.

Skemmtiatriði að loknum ræðum og veitingum, voru þessi: Einleikur á Harmoniku, 11 ára drengur lék. – Óperusöngvarinn Guðmundur Jónsson söng nokkur lög með undirleik Fritz Weisshappels.

Stórmeistarinn Taimanov lék einleik á píanó við mikla hrifningu viðstaddra. – Einnig lék Eggert Gilfer tvö lög á píanó.

Sátu menn þarna í góðum fagnaði fram eftir kvöldi, og þótti hófið takast mjög vel.

Hér birtist svo til gamans ræða sú, er Taimanov flutti þetta kvöld, þýdd af Guðmundi Arnlaugssyni:

Góðir tilheyrendur!

Við erum komin hér saman til þess að samgleðjast við lok lítillar en skemmtilegrar skákkeppni. Skákmót það, sem hér hefur farið fram, er um margt ólíkt venjulegum alþjóðamótum; þar er að jafn aði teflt um einhver réttindi, t. d. í keppninni um heimsmeistaratignina, en í öðrum mótum um há verðlaun og heiður.

En þegar við skákmenn Sovétríkjanna tókum yðar góða boði um að heimsækja Reykjavík, var tilgangurinn allt annar. Framar öllu öðru lék okkur hugur á að kynnast skákfélögum okkar á Íslandi og stofna til fastra samskipta við þá. Okkur þykir vænt um að hafa ekki einungis teflt við skemmtilega andstæðinga, heldur einnig eignazt hér góða vini.

Skákmótið sýndi enn einu sinni, að Friðrik Olafsson er mjög góður skákmaður. Þegar Friðrik teflir, fylgjast landar hans með honum með samúð og áhuga, og hann á þann áhuga og hlýhug fyllilega skilið. Afrek hans kemur okkur engan veginn á óvart, við óskum honum af öllu hjarta til hamingju með sigurinn og samgleðjumst islenzku þjóðinni með að eiga slíkan skákmann.

Ekki verður fram hjá því gengið að vekja athygli á skemmtilegri taflmennsku Benónýs Benediktssonar, sem réði röð keppendanna á mótinu. Hann kom okkur mjög vel fyrir sjónir, er honum tókst að halda skák sinni við mig í fyrstu umferð, þrátt fyrir óhagstæða stöðu, en það álit breyttist að vísu dálítið, er hann tapaði fyrir Friðrik, en hefði sennilega átt að halda þeirri skák.

Mig langar að hrósa tveimur ungum skákmönnum, þeim Gunnari Gunnarssyni og Freysteini Þorbergssyni. Mér virðist að þeir muni brátt geta keppt við snjöllustu skákmenn Islendinga. Freysteinn tefldi miklu betur en virðast mætti eftir vinningafjölda hans.

Að lokum vil ég fyrir hönd okkar félaganna láta í ljós þakklæti okkar til Taflfélags Reykjavíkur fyrir góða gestrisni, og einnig þökkum við formanni félagsins, Guðm. S. Guðmundssyni, og formanni Skáksambandsins, Sigurði Jónssyni, og öðrum, fyrir vinsemd og greiðasemi í okkar garð. Mér er það sönn ánægja að mega flytja íslenzkum skákmönnum boð um þátttöku í 12. Olympíuleikjum skákarinnar, sem eiga að fara fram í Moskvu í september á þessu ári. Okkur er það ánægjuefni að geta endurgoldið gestrisni yðar, og ég vona að vináttubönd okkar eigi eftir að víkka og styrkjast.

Úrslit þessa móts og úrslit einstakra skáka eiga sjálfsagt eftir að falla í gleymsku, en ég vona, að þau kynni og sú vinátta, sem hér hefur verið stofnað til, verði haldgóð og varandi.

Þakka yður öllum.

Skák nr. 381.
Hvítt: Guðmundur Ágústsson.
Svart: Friðrik Ólafsson

Sikileyjar-vörn.

Skýringar eftir Inga R. Jóhannesson

1956: Minningarmót Guðjóns M. Sigurðssonar

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn Titill 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Vinn. Prósenta
1 Friðrik Ólafsson Iceland x ½ ½ 1 1 1 1 1 1 1 8 89%
2 Mark Taimanov SM Russian Federation ½ x ½ 1 ½ 1 1 1 1 1 7,5 83%
3 Georgy Ilivitsky AM Russian Federation ½ ½ x 1 ½ 1 1 1 1 1 7,5 83%
4 Gunnar Gunnarsson Iceland 0 0 0 x ½ ½ ½ ½ 1 1 4 44%
5 Benóný Benediktsson Iceland 0 ½ ½ ½ x 0 1 0 0 1 3,5 39%
6 Guðmundur Ágústsson Iceland 0 0 0 ½ 1 x 0 ½ 1 ½ 3,5 39%
7 Baldur Möller Iceland 0 0 0 ½ 0 1 x ½ ½ ½ 3 33%
8 Jón Þorsteinsson Iceland 0 0 0 ½ 1 ½ ½ x 0 ½ 3 33%
9 Freysteinn Þorbergsson Iceland 0 0 0 0 1 0 ½ 1 x 0 2,5 28%
10 Sveinn Kristinsson Iceland 0 0 0 0 0 ½ ½ ½ 1 x 2,5 28%
Vinningshlutall 89%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu
Merki: