1960: Skákþing Reykjavíkur

Friðrik sigraði með fullu húsi!

 

Þjóðviljinn 20. mars 1960.

Engum hinna rösku samkeppenda Friðriks Ólafssonar í úrslitakeppni Skákþings Reykjavíkur tókst að stöðva sigurgöngu hans. Í síðustu þremur umferðunum snaraði hann þeim hverjum á eftir öðrum, Inga R. Jóhannssyni, Guðmundi Lárussyni og Benóný Benediktssyni og tókst þannig að sigra alla keppinauta sína, 7 að tölu.

Benóný Benediktsson
Benóný Benediktsson. Sjöunda og síðasta fórnarlamb Friðriks á Skákþingi Reykjavíkur 1960.

Þessi úrslit munu ekki hafa komið neinum á óvart, því vitað var að Friðrik stóð öllum andstæðingum sínum framar og það mjög verulega flestum. Maður hefði raunar getað vænzt þess, að Ingi og Benóný veittu honum hart viðnám, en svo varð ekki og veittu sumir hinna lægri manna honum engu minni mótspyrnu.

Þetta kann að stafa að nokkru af því, að Friðrik hafi beitt sér meira gegn þeim tveimur fyrrnefndu og ekki síður hinu, að hann þekkir þá betur og kann betur á þá en suma hina yngri menn, sem hann þekkir kannske naumast nema af orðspori.

Það er erfitt og sjálfsagt vanþakkiátt verk að ætla sér að dæma um taflmennsku stórmeistarans í heild á þessu móti. Þátturinn hefur heldur ekki skoðað allar skákir hans og er því enn síður dómbær um efnið. Þó hefur hann ástæðu til að ætla, að stórmeistarinn hafi stillt orku sinni allmjög í hóf á þessu móti, og notfært sér það, að í fæstum tilfellum þurfti hann á henni allri að halda.

Skákirnar í heild hafa svo ef til vill goldið nokkuð þessarar staðreyndar og það dregið úr dýpt þeirra og reisn, þótt ekki sé þar um þau lýti að ræða, sem við dauðlegir skákmenn hnjótum um við fljótlega rannsókn. En aðdáunarvert var öryggi Friðriks og fundvísi hans á úrræði, jafnvel þótt staða hans virist ekki alltaf gefa mikil fyrirheit.

Þetta er í fyrsta sinn, sem Friðrik vinnur titilinn „Skákmeistari Reykjavíkur“ þótt merkilegt megi virðast. En orsökin er ákaflega nærtæk, því hann hefur nefnilega nær því aldrei teflt á því móti fyrr og alls ekki síðustu tíu árin.

Að loknum þessum sigri sínum heldur Friðrik til Argentínu, þar sem honum hefur verið boðin þátttaka i hinu árlega skákþingi í Mar del Plata. Þátturinn vill um leið og hann óskar Friðriki til hamingju með hinn nýja, virðulega titil, óska honum jaíníramt góðrar ferðar til Suður-Ameríku.

1960: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall
Nafn Titill 1 2 3 4 5 6 7 8 Vinningar Vinningsprósenta
1 Friðrik Ólafsson SM x 1 1 1 1 1 1 1 7 100%
2 Ingi R. Jóhannsson 0 x 1 ½ 1 1 1 1 5,5 79%
3 Benóný Benediktsson 0 0 x 1 ½ 1 1 1 4,5 64%
4 Jónas Þorvaldsson 0 ½ 0 x ½ 1 0 1 3 43%
5 Bragi Þorbergsson 0 0 ½ ½ x 0 1 1 3 43%
6 Guðmundur Lárusson 0 0 0 0 1 x 1 ½ 2,5 36%
7 Halldór Jónsson 0 0 0 1 0 0 x ½ 1,5 21%
8 Björn Þorsteinsson 0 0 0 0 0 ½ ½ x 1 14%
Vinningshlutall 100%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu