1975: Skákþing Reykjavíkur

Öruggur sigur Friðriks á Skákþingi Reykjavíkur

 

Blaðið hafði samband við Friðrik Ólafsson stórmeistara, nýbakaðan Reykjavíkurmeistara í skák 1975. Friðrik vann mótið með níu og hálfum vinningi af ellefu mögulegum. Þegar þetta er ritað á eftir að tefla tvær biðskákir, þannig að röðin í efstu sætunum er ekki alveg örugg, en búizt er við að hinn ungi skákmaður, Margeir Pétursson, verði í fjórða sæti með 7 vinninga. Tryggði Margeir sér þar með rétt til þátttöku í landsliðsflokki í Íslandsmótinu, sem er frábær árangur.

„Mér sýnist á því sem ég hef séð til Margeirs, að hann sé vel liðtækur skákmaður, sagði Friðrik Hann hefur gott „blikk“ eða innsýn i skákina og getur komið til með að verða góður skákmaður. Það sem mest háir honum er auðvitað reynsluleysi, en hann hefur gert vel hingað til af svo ungum skákmanni að vera, en hann er aðeins fjórtán ára.“

Guðlaug Þorsteinsdóttir var sigurvegari í kvennaflokki, og má telja það mjög góðan árangur, en Guðlaug er aðeins þrettán ára.

„Hún er að vísu ekki búin að ná skákstyrkleika á borð við Margeir,“ sagði Friðrik, ,,en hún hefur meiri styrkleika en almennt er á hennar aldri. Annars er mjög erfitt að dæma um hverjir möguleikar þessara unglinga eru, það kemur oft stöðnun í skákina hjá þeim, og þá er að sjá hvernig fer, hvort þau halda áfram eða ekki.“

Við spurðum Friðrik hvað væri framundan hjá honum.

„Um miðjan mánuðinn fer ég á alþjóðlegt skákmót i Tallin i Eistlandi, en það stendur til 10. marz. Þar verður mest um sovézka skákmenn, og má þar nefna tvo fyrrverandi heimsmeistara, þá Tal og Spassky, auk Bronsteins og fleiri. Styrkleikastig eru misjöfn á mótunum, en þetta mót verður mjög sterkt að mér sýnist. Má geta þess sem dæmi, að í Tallin nægir að fá sjö og hálfan vinning til að hljóta stórmeistaratitil, en á Hastings-mótinu, þar sem Guðmundur Sigurjónsson hlaut stórmeistaratitilinn þurfti tiu vinninga.“

„Nú svo fer ég á skákmót 6. apríl, sem haldið verður í Las Palmas, á Kanaríeyjum, en ég tók einnig þátt í þessu móti í fyrra.“ segir Friðrik.

„Síðan kemur svæðamótið, en ekki er enn ákveðið hvenær það verður, sennilega á tímabilinu maí til september. Svæðamótið er fyrsfi liðurinn í heimsmeistarakeppninni, en síðan kemur millisvæðamótið og síðast áskorendakeppnin, þar sem sigurvegarinn hlýtur rétt til að skora á heimsmeistarann, en þetta tekur þrjú ár hverju sinni.“ sagði Friðrik Ólafsson, stórmeistari að lokum.

Tíminn 2. febrúar 1975.

 

„Það borgar sig nú líka stundum að vera varkár“

— segir Margeir Pétursson, og vill helzt líkjast Petrosjan

 

MARGEIR Pétursson var sá skákmaður sem mesta athygli vakti á nýafstöðnu Skákþingi, enda frammistaða þessa 14 ára pilts sérlega glæsileg þegar tekið er tillit til þess, að við var að etja marga af beztu skákmönnum landsins. Hann hlaut 7 vinninga af 11 mögulegum og er vinningshlutfallið því 63,6%. Margeir er sonur Péturs Haraldssonar og Halldóru Hermannsdóttur Sólheimum 34. Hann stundar nú nám í landsprófsdeild Vogaskóla.

— Hvenær lærðir þú að tefla Margeir?

„Ég hef verið 6—7 ára þegar ég lærði mannganginn af pabba mínum. Ég tefldi alltaf af og til þegar ég var strákur en 12 ára gamall fór ég að tefla af alvöru og þá hjá Taflfélaginu. Fram að þeim tíma hafði ég verið i fótbolta og öðrum iþróttunm, en ég lagði þær á hilluna og sneri mér eingöngu að skákinni.“

— Hefur þú teflt mikið á kappmótum?

„Ég hef teflt töluvert. Ég tefldi t.d. í unglingaflokknum á Skákþingi Reykjavíkur 1973 og vann þann flokk. Þá tefldi ég í 2. flokki á Haustmóti TR sama ár og vann þann flokk. Árið 1974 tefldi ég í D-flokki á Skák- þinginu og varð annar og á Íslandsmótinu það ár varð ég 7.—8. í meistaraflokki. Loks keppti ég á Haustmóti Kópavogs 1974 og varð efstur. Þá held ég að það helzta sé upptalið.“

— Nú minnir mig að þú hafir keppt erlendis skömmu fyrir jól?

„Já, ég fór til Svíþjóðar og tefldi á alþjóðlegu unglingamóti í Hallberg. Ég hafði ekki teflt ytra áður og fór einn út á mótið svo það var kannski ekkert skrítið, að árangurinn skyldi verða slakur. En ég hafði þó gaman af því að fara á þetta mót og órugglega mikið gagn af þvi. Þegar ég kom heim frá þessu móti var byrjað að tefla á Skákþingi Reykjavíkur og skellti ég mér því beint í það.“

— Kom frammistaðan á Skákþinginu þér ekki á óvart eftir þessa frekar slöku frammistöðu i Sviþjóð?

„Óneitanlega gekk mér mun betur en ég hafði reiknað með. Ég æfði mig mjög vel fyrir Svíþjóðarferðina en ég held að æfingin hafi ekki komið mér að notum fyrr en á Skákþinginu. Ég var í góðri æfingu og það gerði líka sitt gagn að koma beint úr öðru móti.“

— Varstu nokkuð taugaóstyrkur þegar þú byrjaðir að tefla við kappana í A-riðlinum?

„Svolítið fyrst en maður jafnaði sig á því, sérstaklega af þvi að mér gekk vel i byrjun.“

— Hver var þín erfiðasta skák?

1975_skakthing-reykjavikur_Margeir-Petursson_Fridrik-Olafsson„Tvimælalaust skákin við Friðrik. Ég átti aldrei möguleika gegn honum. Hann er sá bezti sem ég hef teflt við.“

— Nú áttu rétt á því að tefla i landsliðsflokki næst. Seturðu markið hátt þar?

„Ég er ákveðinn i því að nota mér réttindin og tefla í landsliðsflokknum. Ég set mér það eina mark að standa mig vel í keppninni en það er langt í frá að ég stefni eitthvað hátt, t.d. að efsta sætinu. Það er alveg út í hött.“

— Eyðirðu miklum tíma i skákina?

„Ég stúdera skákina á hverjum degi svona 1—2 tima eftir því sem tíminn leyfir og svo tefli ég auðvitað, aðallega i skákheimilinu.“

— Nú liggur þú yfir skákum meistaranna. Átt þú þér einhvern uppáhaldsskákmann?

„Ég er einna hrifnastur af Petrosjan fyrrverandi heimsmeistara og reyni að tefla eins og hann, en það tekst þvi miður alltof sjaldan.“

— Nú hefur Petrosjan orð á sér fyrir að vera heldur varkár taflmaður er ekki svo?

„Jú það er satt, en það borgar sig nú líka stundum að vera varkár.“

— Og að lokum Margeir. Gætir þú hugsað þér að verða atvinnumaður í skák?

„Ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt fram i timann. En ég er ákveðinn í því að halda áfram að tefla af fullum krafti meðan áhuginn er fyrir hendi. Hann skortir reyndar ekki þessa stundina.“

Morgunblaðið 2. febrúar 1975.

1975: Skákþing Reykjavíkur

Árangur Friðriks og vinningshlutfall

1975_skakthing_reykjavikur_Tafla

Vinningshlutall 86%

Skákirnar

Veljið skák með stikunni yfir borðinu – Hægt er að kveikja á skákreikni neðst í hægra horninu